151. löggjafarþing — 20. fundur
 13. nóvember 2020.
orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega, fyrri umræða.
þáltill. SÞÁ o.fl., 187. mál. — Þskj. 188.

[14:31]
Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Mig langar að byrja á að þakka forseta fyrir liðlegheit við að hreyfa aðeins til í dagskránni en ég var því miður stödd á öðrum fundi og komst ekki nógu hratt á milli húsa þegar dagskráin gekk svona hratt. Mig langar líka að þakka hv. þm. Þórunni Egilsdóttur fyrir að taka til máls aðeins á undan áætlun, ég vil bara koma á framfæri þakklæti fyrir að sýna þessi liðlegheit í dagskránni. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega. Ég ætla bara að lesa tillöguna sjálfa, en hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að gera úttekt á kostnaði við að koma upp orlofshúsum fyrir örorkulífeyrisþega á völdum stöðum á Íslandi. Horft verði sérstaklega til orlofshúsa verkalýðshreyfingarinnar sem fyrirmyndar. Úttektin verði unnin í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Lagt verði mat á þörf, umfang, kostnað og mögulegar fjármögnunarleiðir. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður úttektarinnar eigi síðar en 1. maí 2021.“

Ég lagði þessa tillögu fram á síðasta löggjafarþingi en þá hlaut hún ekki afgreiðslu en fékk hins vegar nokkuð jákvæðar undirtektir úr ýmsum áttum. Ég legg hana því aftur fram óbreytta en sú breyting hefur þó orðið að meðflutningsmönnum hefur fjölgað og þeir eru úr mun fleiri flokkum en síðast, eru nú nánast úr öllum flokkum sem sæti eiga á Alþingi. Meðflutningsmenn með mér eru hv. þingmenn Silja Dögg Gunnarsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Ísleifsson, Ásmundur Friðriksson, Guðjón S. Brjánsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Ákvæði um orlof launafólks náðu fram að ganga í kjarasamningum nokkurra verkalýðsfélaga á fimmta áratugnum og voru slík ákvæði lögfest í kjölfarið. Þá þegar höfðu fáein verkalýðsfélög ráðist í byggingu orlofshúsa fyrir félagsmenn sína, en uppbyggingin gekk þó hægt, einkum ef horft er til norrænna fyrirmynda frá svipuðum tíma.

Í tíð vinstri stjórnar Hermanns Jónassonar á ofanverðum sjötta áratugnum stigu stjórnvöld með ákveðnum hætti inn í orlofshúsamálin með beinum framlögum í orlofsheimilasjóð verkalýðshreyfingarinnar og loforðum um land til uppbyggingar þeirra. Niðurstaðan varð myndarleg sumarhúsabyggð í Ölfusi sem tekin var í notkun á árinu 1964.

Upp frá þessu hefur verkalýðshreyfingin riðið þétt net orlofshúsa um land allt sem gefið hefur félagsfólki hennar gott færi á að njóta hvíldar í frítíma sínum í heilnæmu umhverfi.

Ég held að við þekkjum öll alveg ágætlega það frábæra kerfi orlofshúsnæðis sem stór hluti landsmanna hefur aðgang að í gegnum sín verkalýðsfélög. En öryrkjar og örorkulífeyrisþegar, sem ekki eru virkir á vinnumarkaði og eru þar af leiðandi ekki í stéttarfélagi, hafa ekki aðgang að þessu kerfi. Ég held að við hljótum samt öll að vera sammála um að þeim er jafn mikilvægt og öðrum að komast í frí fjarri heimili sínu. Þess vegna er mikilvægt að koma upp kerfi sem nær einnig til þarfa þeirra við hönnun á húsnæði sem er sérstaklega ætlað örorkulífeyrisþegum, og horft verði sérstaklega til aðgengis að húsunum, það er mjög misjafnt hvernig það er í hinu almenna kerfi.

Það skiptir ekki síður máli að aðgengið að afnotunum er yfirleitt tengt þátttöku á vinnumarkaði og eðli málsins samkvæmt eru þeir sem eru innan almannatryggingakerfisins mun síður á vinnumarkaði en aðrir. Þá eru örorkulífeyrisþegar jafnframt margir í tekjulægri hópum þjóðfélagsins og eiga því enn erfiðara en aðrir með að leyfa sér að leigja sér orlofshús á hinum frjálsa markaði. Hús eru vissulega til á hinum frjálsa markaði en meðan ferðamenn voru margir var aðgengi að slíku húsnæði takmarkað og verðið frekar hátt. Þó svo að staðan sé kannski öðruvísi í þessum töluðu orðum er mjög líklegt að engin stórbreyting verði þar á til mikillar framtíðar.

Þessi tillaga er mjög hógvær því að í henni er í raun eingöngu verið að álykta um að fela ráðherra að gera úttekt á þeim kostnaði sem gæti verið við það að koma upp orlofshúsum fyrir örorkulífeyrisþega á viðráðanlegu verði og með góðu aðgengi. Hér má því svo sannarlega segja að verið sé að stíga varfærið en mjög mikilvægt skref til að hægt sé að koma þessum málum áfram. Ég ætla þess vegna að leyfa mér að vera bjartsýn og vonast til þess að málið hljóti gott brautargengi og að hv. velferðarnefnd, sem fær málið til sín að þessari umræðu lokinni, kafi ofan í málið og afgreiði það frá sér til þess að við getum afgreitt það í þingsal.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.