151. löggjafarþing — 21. fundur
 17. nóvember 2020.
vinnumarkaðsmál.

[13:47]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þegar launatengda tímabilið til atvinnuleysisbóta var lengt úr þremur mánuðum í sex í byrjun september ákváðu stjórnarflokkarnir að skilja þau eftir sem komin voru á grunnatvinnuleysisbætur í ágúst. Í meðferð þess frumvarps bentum við í Samfylkingunni ítrekað á þá mismunun. Þau sem komin voru á grunnatvinnuleysisbætur í ágúst fengu ekki sex mánaða tekjutengt tímabil. Og hvað þýðir það? Jú, það er mögulegt að fá 456.000 kr. á mánuði á tekjutengda tímabilinu en rúmar 289.000 kr. þegar því sleppir. Munurinn er rétt um 166.000 kr. á mánuði, eða samtals um hálf milljón yfir þrjá mánuði.

Það var ekki fyrr en í byrjun október að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra sögðust vilja leiðrétta þetta. Fólkið hefði lent á milli skips og bryggju, var sagt. Og nú, um miðjan nóvember, er búið að dreifa frumvarpi á Alþingi sem á að vera eins konar leiðrétting á óréttlætinu frá því í september. En leiðréttingin felst í því að skilja í staðinn öll þau eftir sem voru atvinnulaus í febrúar. Í febrúar var 5% atvinnuleysi á landinu öllu og komið í 9% á Suðurnesjum. Í febrúar voru rúmir 10.000 einstaklingar atvinnulausir á landinu. Er ekki alveg öruggt að allir í hæstv. ríkisstjórn átti sig á því að fólkið sem var atvinnulaust í febrúar fær enga vinnu vegna þess að það er enga vinnu að fá? Það er ekki betur sett en hinir. Það er verr sett. Það er nefnilega atvinnukreppa vegna heimsfaraldurs og atvinnuleysi á landinu öllu er komið í 11,1% og í 21,1% á Suðurnesjum.

Ég spyr því hæstv. félags- og barnamálaráðherra hvers vegna hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin velja að skilja þá eftir sem standa allra verst. Hefði ekki verið eðlilegast og réttlátt að öll þau sem voru atvinnulaus í ágúst fengju sex mánaða tekjutengt tímabil?



[13:49]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir þessa fyrirspurn. Það er alveg rétt að hér liggur fyrir þinginu frumvarp sem ég mun mæla fyrir í dag, ef dagskrá þingsins vindur þannig fram, sem snýr einmitt að því að allir þeir einstaklingar sem urðu atvinnulausir eftir að Covid skall á í íslensku samfélagi, urðu atvinnulausir vegna Covid, fái sex mánaða tekjutengt tímabil. Ríkisstjórnin hefur stigið mjög myndarlega inn og það er auðvitað þannig að alveg sama hversu mikið er gert þá er alltaf hægt að koma auga á að hægt sé að hliðra aðeins meira til. Ég vil í því ljósi segja að ég held að ríkisstjórnin hafi komið mjög myndarlega að málum þegar kemur að stöðu þeirra sem hafa verið atvinnulausir og hafa misst vinnuna. Við sjáum það m.a. í því formi að á yfirstandandi ári munu útgreiddar atvinnuleysisbætur með hlutabótum líklega slaga í 80 milljarða kr. Ég held að aldrei í Íslandssögunni hafi ríkið stigið jafn myndarlega inn þegar kemur að greiðslum í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð.

Ég tek hins vegar undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að vera á vaktinni þegar kemur að þessu. Þess vegna er ríkisstjórnin núna jafnframt að skoða frekari aðgerðir til að koma til móts við þá einstaklinga sem eru atvinnulausir og vonandi getum við kynnt það á næstunni.



[13:51]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Bætur atvinnulausra eru áunnin réttindi launafólks. Það eru ekki einhver sérstök gæði af ríkisstjórninni að greiða þau réttindi út. Það eina sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert og lagt til sérstaklega fyrir atvinnulausa í atvinnuleysiskreppunni — hún velur að gera það fyrir suma en ekki alla. Hún skiptir hópnum í tvennt. Helmingurinn fær notið aðgerðanna en hinn helmingurinn ekki. Það er algerlega óásættanlegt og það er óréttlátt. Og ekki segja að það sé of dýrt að láta það sama yfir alla ganga því að það kostar ekki einu sinni helminginn af þeirri upphæð sem ríkisstjórnin hefur þegar greitt út til fyrirtækja til að hjálpa þeim við að segja fólki upp.

Við hverju má búast frá ríkisstjórninni og hæstv. ráðherra málaflokksins? Verða grunnatvinnuleysisbætur hækkaðar? Þær verða 51.000 kr. undir lágmarkstekjutryggingum um áramót. Má búast við tímabundnum eingreiðslum eða ætla stjórnvöld að sjá til þess að enn fleiri leiti til hjálparstofnana eftir mat?



[13:53]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að atvinnuleysistryggingar eru áunnin réttindi. Það er hins vegar salurinn hér sem ákveður með hvaða hætti þau birtast og hversu mikið við stígum inn í og hvernig. Ríkisstjórnin ákvað t.d. að koma með hlutabótaleiðina til að verja störf, sem samþykkt var á þingi og settir voru í tugir milljarða. Þær upphæðir sem við erum að setja inn í atvinnuleysistryggingakerfið með samþykkt Alþingis, bæði með samþykkt á einstaka lögum og eins fjárlögum og fjáraukalögum, eru margfalt hærri en nokkurn tímann hefur þekkst í Íslandssögunni. Við ákváðum að koma með úrræði fyrir atvinnulausa vegna þeirrar atvinnukreppu sem nú er, Nám er tækifæri, sem er þrisvar sinnum stærra en sambærilegt úrræði var í efnahagshruninu og svona mætti áfram telja. Við munum áfram koma með úrræði og í vinnslu eru frekari aðgerðir fyrir einstaklinga sem eru atvinnulausir í gegnum atvinnuleysistryggingakerfið og frétta af því er að vænta á allra næstu dögum.