151. löggjafarþing — 21. fundur
 17. nóvember 2020.
jafnréttismál.

[13:54]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Málshöfðun hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, gegn konu sem sótti um starf ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu en laut í lægra haldi fyrir samflokksmanni ráðherra, hefur skiljanlega vakið undrun og furðu. Stjórn Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins er þannig gáttuð á málarekstrinum og segir hann óskiljanlegan. Engin dæmi séu um slíka málshöfðun. Hún setji fólk í fordæmalausa stöðu gagnvart ráðherra og geti orðið til þess að umsækjendur veigri sér við að sækja um starf hjá ríkinu.

Hæstv. menntamálaráðherra heldur hins vegar sínu striki. Í útvarpsviðtali á sunnudag sagði ráðherra að vandað hefði verið til verka, hún standi við ákvarðanir sínar og telji engan veginn harkalegt að fara í mál við einstakling. Þvert á móti sé hæstv. menntamálaráðherra fórnarlambið í málinu. Eða, með leyfi forseta: Ef ég tel að brotið hafi verið á mér hlýt ég að eiga sama rétt og viðkomandi einstaklingur til að sækja minn rétt.

Þann 2. júní sl. sagði hæstv. forsætisráðherra í ræðustól að málið yrði tekið til umræðu á næsta ríkisstjórnarfundi sem fram fór þremur dögum síðar. Ekki verður þó séð, af dagskrá ríkisstjórnarfunda, að þetta mál hafi nokkurn tímann verið rætt á þeim vettvangi, hvorki á næsta ríkisstjórnarfundi né nokkrum fundi síðan. Því liggur beinast við að spyrja hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur: Fékk ríkisstjórnin kynningu á úrskurði kærunefndar jafnréttismála eins og boðað var í júní? Hefur hæstv. forsætisráðherra kynnt sér forsendurnar fyrir málshöfðun hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra? Ef svo er, er hæstv. forsætisráðherra sammála því að brotið hafi verið á hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra?



[13:56]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Nú man ég ekki nákvæmlega orð mín hér í ræðustól en ég tek bara orð hv. þingmanns góð og gild um það. Ég man það hins vegar vel að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra gerði ríkisstjórn grein fyrir því munnlega að hún hygðist höfða mál til ógildingar á þessum úrskurði kærunefndar jafnréttismála. Það er algerlega ákvörðun hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að gera það og hún hefur til þess rétt samkvæmt gildandi lögum.

Eins og hv. þingmaður þekkir og veit hef ég raunar lagt til þá breytingu á lögum um jafna stöðu karla og kvenna, sem eru hér til meðferðar í þinginu, að sé vilji til að höfða mál til ógildingar í slíkum málum til framtíðar verði viðkomandi stjórnsýslunefnd kölluð til, eins og tíðkaðist fram til ársins 1997 en var breytt þá með lögum. Ég hef lagt til þessa breytingu af því að ég tel mikilvægt að kerfið sé þannig úr garði gert að það tryggi að fólk leiti réttar síns telji það á sér brotið.

Hv. þingmaður spyr: Upplýsti menntamálaráðherra um ákvörðun sína? Hún gerði það. Hef ég farið nákvæmlega í málavexti þessa máls? Nei, það hef ég ekki gert enda er þetta mál alfarið á borði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem er hér til svara í dag og getur vafalaust farið nánar yfir það. Hvað varðar lagarammann þá er hann alveg skýr og hv. þingmaður þekkir þær breytingar sem ég hef lagt til á honum.



[13:58]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Já, ég er fullmeðvituð um að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra má sækja rétt sinn. Ég er hins vegar að spyrja hæstv. forsætis- og jafnréttismálaráðherra hvort henni finnist og hvort hún sé sammála hæstv. menntamálaráðherra um að brotið hafi verið á henni og að einhvern rétt sé að sækja.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um ósætti í ríkisstjórninni sem tekur á sig margar myndir. Þegar stjórnarþingmenn eru ekki uppteknir við að gagnrýna meint alræði gegn eigin sóttvarnaaðgerðum þá eru ráðherrar að skjóta hver á annan. Það gerði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra t.d. í fyrrnefndu viðtali á sunnudaginn þegar hún beindi spjótum sínum að ráðningum hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„[Þ]að er fyrrverandi þingmaður Alþýðubandalagsins ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. […] Það var flutningur sem var ekki einu sinni auglýstur.“

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvað henni finnist um þessa pillu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Telur hún ráðningarferli sitt við val á skrifstofustjóra jafn vandað og í tilfelli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eða jafnvel bera með sér svæsnari valdníðslu, eins og orð ráðherra í viðtali á sunnudag bera með sér?



[13:59]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir og ítreka það sem ég sagði áðan, ég hef ekki kafað ofan í málavexti þess máls sem hv. þingmaður spyr um og tel betur fara á því að viðkomandi ráðherra fari yfir þá málavexti þegar hún situr fyrir svörum.

Mér er ljúft og skylt að fara yfir það sem hv. þingmaður spyr hér um sérstaklega í sinni síðari fyrirspurn. Ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins var færður til í starfi samkvæmt skýrri heimild 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem er heimild til að færa embættismenn til í starfi. Sú heimild byggist raunar á vísun í stjórnarskrá lýðveldisins þannig að sú skipun er algerlega hafin yfir vafa. Sá aðili sem var færður til í starfi gegndi áður embætti ríkissáttasemjara og var raunar skipaður í það embætti, að mig minnir, eftir auglýsingu af ráðherra Framsóknarflokksins, Eygló Harðardóttur, þannig að það þarf enginn að velkjast í vafa um að þessi skipun er algerlega hafin yfir vafa.