151. löggjafarþing — 21. fundur
 17. nóvember 2020.
búvörulög, 2. umræða.
stjfrv., 224. mál (starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða). — Þskj. 226, nál. m. brtt. 332.

[14:22]
Frsm. atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, frá atvinnuveganefnd. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ásu Þórhildi Þórðardóttur og Elísabetu Önnu Jónsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Katrínu Maríu Andrésdóttur frá Samtökum garðyrkjubænda og Gunnar Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands.

Nefndinni bárust engar umsagnir vegna málsins né bárust umsagnir eða athugasemdir við frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda í september.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á búvörulögum til samræmis við samkomulag sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sem gert var fyrir hönd íslenska ríkisins við Bændasamtök Íslands og Samtök garðyrkjubænda um breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá 19. febrúar 2016. Samkomulagið var undirritað þann 14. maí 2020, m.a. með fyrirvara um samþykki Alþingis fyrir nauðsynlegum lagabreytingum. Breytingarnar eru liður í að ná því markmiði að framleiðsla á íslensku grænmeti muni hafa aukist um 25% við næstu endurskoðun samningsins árið 2023 og í því skyni er aukið um 200 millj. kr. á ári við samninginn sem nýta skal m.a. til beingreiðslna vegna flutnings á raforku. Því er lagt til að 2. mgr. 58. gr. búvörulaga verði breytt til einföldunar þannig að hún kveði á um beingreiðslur vegna dreifingar- og flutningskostnaðar vegna raforku í stað niðurgreiðslu á kostnaði líkt og nú er. Skilyrði verði útfærð í reglugerð, samanber heimild í 3. mgr. 61. gr. laganna, til samræmis við fyrrgreint samkomulag. Einnig verði kveðið á um að hámarksgreiðslur til hvers framleiðanda af heildarframlagi vegna þeirra beingreiðslna hækki úr 15% í 17,5%.

Fyrir nefndinni kom fram að mikilvægt sé að garðyrkjubændur hafi aukinn fyrirsjáanleika þegar kemur að niðurgreiðslu vegna raforku og að á svæðum sem hafa takmarkað aðgengi að raforku verði litið til mikilvægis þess við uppbyggingu. Ljóst sé að aðgengi að raforku er takmarkandi þáttur við uppbyggingu gróðurhúsa og hafi því bein áhrif á hvar á landinu starfseminni er valinn staður. Mikilvægt sé að það fjármagn sem veitt er til niðurgreiðslu raforku hjá garðyrkjubændum haldi í við 95% niðurgreiðslu á flutningskostnaði, sérstaklega með tilliti til fyrirsjáanleika við gerð rekstraráætlana hjá bændum og í ljósi þeirra markmiða í samningnum að auka framleiðslu í garðyrkju um 25% til ársins 2023. Með vísan til þess þurfi að vera skýrt hvernig fara skuli með beingreiðslur ef hlutfall flutningskostnaðar fer niður fyrir t.d. 80%, þegar heildarorkunotkun ársins liggur fyrir.

Nefndin telur með hliðsjón af framangreindu mikilvægt að frekari fyrirsjáanleiki verði í niðurgreiðslum vegna raforkuflutnings til garðyrkjubænda. Það leiðir af sér betri rekstraráætlanir fyrir bændur hvað þennan þátt varðar.

Að þessu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„Efnismálsgrein 1. gr. orðist svo:

Enginn framleiðandi getur fengið hærri heildarframlög samkvæmt samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða en sem nemur 10% af heildarframlögum til beingreiðslna, að undanskildum beingreiðslum vegna flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku. Hámarkið er reiknað af hverjum beingreiðsluflokki fyrir sig. Hámarksstuðningur af beingreiðslum vegna flutnings- og dreifingarkostnaðar raforku á hvern framleiðanda er 17,5% af heildarframlögum til þess beingreiðsluflokks.“

Virðulegur forseti. Um þetta mál er samstaða í atvinnuveganefnd. Undir nefndarálitið skrifa ásamt mér, framsögumanni, Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Haraldur Benediktsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson.



[14:27]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki beint komin hingað upp í andsvar, ég óska ekkert endilega svara. En ég vil lýsa því yfir sem áheyrnarfulltrúi að ég styð málið eins og það er svo breytt. Engu að síður dregur málið fram það sem við þurfum nauðsynlega að breyta, og það er búvörusamningurinn. Ég tel allt of langan tíma fara í að endurskoðunin muni ná í gegn. Ég held að við sjáum það, ekki síst í ljósi mjög breyttra neysluhátta okkar Íslendinga í Covid-faraldrinum, að við þurfum á auknu grænmeti að halda. Markaðurinn er að breytast og við eigum að gera miklu meira til að styðja grænmetisframleiðslu og garðyrkju hér á Íslandi. Ég held að við þurfum að vera með kerfi sem er mun sveigjanlegra og taki sem fyrst tillit til þarfa neytenda en ekki síður hitt, sem kom m.a. fram á fundi nefndarinnar, að garðyrkjubændur vilja gera meira, þeir vilja fara í meiri framleiðslu. En þeir hafa t.d. ekki nægilegan aðgang að ódýrri raforku, og það er eitthvað sem við verðum að kippa í liðinn.

Ég styð þetta mál en mér finnst það draga fram að við þurfum að vera með mun sveigjanlegra og sterkara landbúnaðarkerfi sem styður við bændur og við neytendur. Við horfumst í augu við mjög breyttar neysluvenjur og neysluhætti okkar Íslendinga.



[14:29]
Frsm. atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta bara mjög gott innlegg hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um þessi mál. Við höfum tekið þessa umræðu í atvinnuveganefnd. Ég tek heils hugar undir að það er mjög mikilvægt að lagfæra starfsskilyrði grænmetisbænda, garðyrkjubænda og bænda almennt. Á þessum tímum, þegar búið er að þrengja mjög að okkur, þurfum við líka að huga vel að innanlandsframleiðslu, stöðu hennar gagnvart innfluttri afurð og stöðu okkar á markaði, bæði fyrir bændur og neytendur.



[14:30]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að ræða 224. mál, frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, og sömuleiðis fyrirliggjandi nefndarálit með breytingartillögu frá atvinnuveganefnd sem ég er á sem fulltrúi í nefndinni. Mig langaði að ræða þetta mál lítillega. Þó að ég styðji nefndarálitið og málið sem slíkt, enda verið að stíga skref í rétta átt, tel ég að ríkisvaldið hefði átt að ganga enn lengra og horfa á kerfið heildrænt og reyna að ná fram fleiri og stærri skrefum í átt að því að byggja upp framleiðslu garðyrkjuafurða á mun stærri skala en við höfum séð hingað til. En til að gera það þurfum við, eins og ég nefndi, að horfa á kerfið í heild og ákveða hvernig við ætlum að ná fram öflugri innlendri garðyrkjuframleiðslu og aukinni áframvinnslu í mun meira mæli.

Herra forseti. Til þess þurfum við líka að horfa til þess að auka samvinnu þekkingargeirans og framleiðenda, stuðla að því t.d. að tengja saman framleiðendur og sérfræðinga í garðyrkju, í matvælafræði og verkfræði. Ef við horfum til þess hvernig vinnsla í sjávarútvegi á Íslandi hefur tekið stórstígum framförum á síðustu áratugum þá er það að miklu leyti því magnaða hugviti sem býr á Íslandi að þakka, þar sem einstaklingar með reynslu úr iðnaðinum unnu með einstaklingum með verksvit og verkfræðiþekkingu að því að búa til skilvirkar vinnslulínur. Sú vinna hefur skilað því að við eigum í dag glæsileg fyrirtæki, eins og Marel og 3X Skagann og Frost og fleiri fyrirtæki, sem nú selja vinnslulausnir sínar til matvælaframleiðslu um allan heim.

Þá má ekki gleyma því, herra forseti, að þessi þekkingarvinnsla hefur orðið til þess að við hendum nánast engum hluta fisksins lengur heldur er hver einasta arða unnin og nýtt til þess að búa til verðmæti. Slíkt samstarf og slíka þekkingu þurfum við til þess að byggja upp í tengslum við ræktun og vinnslu garðyrkjuafurða hér á landi. Við höfum allt annað sem þarf. Við höfum næga orku, við höfum gnótt af hita og við höfum þekkingu á því að rækta gróðurafurðir.

Við gætum svo auðveldlega ræktað mun meira en við gerum í dag, og það er vilji til þess. Við gætum líka verið að framleiða mun fjölbreyttari afurðir en við höfum verið að gera hingað til. Með því að skala framleiðsluna upp og gera hana fjölbreyttari gætum við að miklu leyti staðið undir okkar eigin þörf fyrir garðyrkjuafurðir og jafnvel, ef við leyfum okkur að horfa björtum augum til framtíðar, framleitt vörur til útflutnings. Það væri þó strax stórt skref að ná að rækta fyrir okkar eigin not og myndi auka bæði þjóðaröryggi og minnka kolefnisfótspor þjóðarinnar sem er ekki síst mikilvægt.

Herra forseti. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands framleiðum við í dag aðeins u.þ.b. 44% af því sem við neytum af tómötum, um 11% af því sem við neytum af papriku og blómkáli, 29% af hvítkáli, 16% af kínakáli, 17% af spergilkáli, 24% af salati, 63% af sveppum og 48% af gulrótum. Og þrátt fyrir frægan skort á gúrkum nýverið náum við að framleiða u.þ.b. 97% af því sem við neytum af gúrkum hér á landi.

Herra forseti. Þetta eru aðeins þær allra helstu tegundir sem við framleiðum hér á landi og því miður er samantekt Hagstofunnar ekki nákvæmari en þetta. Það er eitthvað sem ég held að við þyrftum að skoða alvarlega til þess að fá betri mynd af því hvað við erum að framleiða hér á landi og hvernig við nýtum það. Við gætum svo auðveldlega verið að framleiða meira og gætum jafnvel, eins og ég nefndi áðan, náð að rækta meira en við þurfum og gætum nýtt það til útflutnings.

En það eru fleiri þættir sem við þurfum að skoða í því samhengi, t.d. þurfum við að búa til „brand“ — afsakið slettuna, herra forseti — eða merkingu fyrir vörur frá Íslandi sem tengir íslenska matvöru við gæði og sjálfbærni, sem er sannarlega það sem íslenskar vörur standa fyrir, og nýta það til markaðssetningar innan lands og utan. Ég hvet hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að ganga einfaldlega í það mál í samvinnu við öll matvælasamtök á Íslandi. Þannig myndum við einfalda íslenskum neytendum að átta sig á hvaða matvara í verslunum er íslensk og vonandi ná að búa til öfluga markaðssetningu fyrir þá íslensku matvöru sem seld er erlendis í samkeppni við önnur lönd sem hafa lagt mikið í slíka markaðssetningu.

Herra forseti. Það eru vissulega jákvæð skref stigin í því máli sem við höfum hér til umfjöllunar, en eftir því sem kom fram í vinnu nefndarinnar eigum við Covid það að þakka. Áður en Covid skall á stóð víst ekki til að gera miklar breytingar á samningnum við garðyrkjubændur. Enn skortir þó nokkuð á að almennilegur hvati til nýsköpunar sé í kerfinu þó að það sé vissulega margt. Við þurfum líka að velta fyrir okkur hvernig kerfið þarf að vera, hvernig kerfi við viljum hafa og hvernig það þarf að vera úr garði gert til þess að gera framleiðsluna samkeppnishæfa og það á ekki eingöngu við um þær tegundir sem ríkið ákveður að niðurgreiða.

Til þess þurfum við einnig að líta til raforkukostnaðarins, þ.e. dreifikostnaðar raforku, og jafna hann að fullu milli þéttbýlis og dreifbýlis. Í því samhengi er ágætt að setja upp byggðagleraugun, og fagna ég því að hæstv. byggðamálaráðherra er hér í salnum, en í dag er beinlínis hvati til þess að ýta gróðurhúsauppbyggingunni í átt til stærri byggða þar sem flutningskostnaðurinn er lægri. Þannig ætti frekar að vera hvati í kerfinu til uppbyggingar á þeim svæðum sem búa yfir orku til að nýta hana en ekki öfugt. Sömuleiðis er ómögulegt, herra forseti, að kerfið sé þannig uppbyggt að niðurgreiðsla á raforkukostnaði gróðurhúsanna sé í einum potti þannig að ef einhver nýr ákveður að koma inn á markaðinn, eða ef einhverjir innan kerfisins ákveða að stækka við sig, þá minnki framlögin til hinna.

Herra forseti. Þó að ég fagni þeim skrefum sem stigin eru í málinu hér, og muni að sjálfsögðu greiða atkvæði með því, þá þurfum við að taka málið upp aftur sem fyrst og stíga stærri og ákveðnari skref í uppbyggingu í garðyrkju á Íslandi. Við þurfum að styðja með markvissari hætti við garðyrkju, grænmetisframleiðslu og nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þangað vill Samfylkingin í það minnsta stefna.



[14:37]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Einhver málsháttur segir að mjór sé mikils vísir og víst er að það mál sem við erum nú að fjalla um sýnir á margan hátt hvað núverandi ríkisstjórn er laus við kjark og laus við að sjá fram á veginn, laus við framsýni. Þó að þetta mál sé góðra gjalda vert og ég komi til með að styðja það, er það við núverandi kringumstæður metnaðarlaust, tekur ekki næstum því nóg á því sem þyrfti að gera við þær kringumstæður sem við búum. Veita á 200 milljónir til garðyrkjubænda og nota bene, herra forseti, síðast þegar ég vissi voru garðyrkjubændur á Íslandi 200 talsins. Nú veit ég ekki hvort þetta verður greitt út alveg slétt eða eftir einhverjum stærðarmörkum. En við núverandi aðstæður hefði ríkisstjórnin náttúrlega átt að taka djarft skref. Hún hefði átt að ákveða það að garðyrkjan fengi rafmagn á sama verði og önnur stóriðja.

Hvað á ég við með þessu, herra forseti? Jú, á Suðurlandi einu saman starfa líklega rúmlega 600 manns við garðyrkju, sem er meira en í meðalálveri. Og akkúrat núna þegar við erum í miðjum faraldri hefði aukning á garðyrkjuframleiðslu verið það auðveldasta og fljótlegasta sem við gætum gert til þess að bæta atvinnustig og bæta framleiðsluverðmæti og jafnvel stíga skref í þá átt að við gætum flutt út grænmeti. Það er á alla vegu gott að auka grænmetisframleiðslu á Íslandi, hvernig sem við komum að því. Það eykur atvinnu, framleiðsluverðmæti og verðmæti þess sem við erum að gera. Við neytendur fáum heilnæmari vöru vegna þess að hér er ekki verið að nota eitur, hér er ekki verið að nota nema besta vatn sem er til og, bara svo ég taki eitt dæmi, forðumst við að flytja tómata yfir hálfan hnöttinn til Íslands með tilheyrandi útblæstri og mengun.

En við eigum að horfa miklu hærra en þetta. Ef við horfum á garðyrkju og grænmetisframleiðslu á Íslandi þá er hún tvenns konar: Hún er svokölluð útiræktun og hún er ræktun undir gleri. Útiræktunin keppir með óblítt veður hér miðað við það sem gerist í samkeppninni erlendis, og útiræktun, og reyndar garðyrkjan í heild, er líka að keppa við það að sunnar í Evrópu er notað ódýrasta vinnuaflið sem hugsast getur til þess að taka upp uppskeruna og vinna við hana. Borist hafa fregnir af því að t.d. sunnarlega á Ítalíu hafi verið fluttar inn rúmenskar konur til að annast þetta og með þær hefur verið farið ótrúlega illa á allan hátt, þær hafa sætt ofbeldi og áreiti auk þess að vera á svívirðilega lágum launum. Sem ábyrgir neytendur ættum við Íslendingar ekki að kaupa grænmeti nema við vitum hvernig það er ræktað, hvort það er mikil notkun á eiturefnum og að það sé alveg tryggt að þeir sem vinna við framleiðsluna njóti allra réttinda sem okkur Íslendingum finnast sjálfsögð. Þetta eigum við að gera. Eins og ég segi, það er enn eitt lóðið á þá vogarskál að við byrjum að framleiða enn þá meira af grænmeti en við gerum í dag.

Ég held að það sé hægt að nálgast þetta mál með tvennum hætti. Það er sjálfsagt mál að beita beingreiðslum og framleiðslustyrkjum til þess að aðstoða þá bændur sem stunda útiræktun, enda eru þeir eins og allir aðrir íslenskir bændur að keppa við styrkta framleiðslu, niðurgreidda framleiðslu. Ég verð að segja það einu sinni enn, herra forseti, vegna þess að það liggur ekki á lausu, það er ekki einfalt mál að komast að því hversu miklum fjármunum Evrópusambandið ver á ári hverju til niðurgreiðslu eða til styrkja í landbúnaði, en talan sem ég heyrði nýlega var 69 milljarðar evra. Ég er líka búinn að heyra töluna 83 milljarðar dollara. Síðan geta menn reiknað. Þetta eru á annan tug þúsunda milljarða íslenskra króna sem þessi framleiðsla er styrkt um í Evrópusambandinu. Evrópusambandið er það sniðugt í styrkjum sínum að styrkir til landbúnaðar í Evrópu eru faldir í eins konar búblu eða þoku.

Hér á Íslandi er þetta aftur á móti allt uppi á borðinu. Við vitum hversu mikið fer t.d. til sauðfjárræktar. Við vitum hvað fer mikið til mjólkurframleiðslu og glöggir neytendur deila náttúrlega í með framleiðslunni og fárast yfir því að verið sé að greiða niður mjólkurlítrann um 100 eða 200 kr., eða hvað það nú er, og niðurgreiða lambakjöt. Þetta geta menn bara reiknað út. En við getum alls ekki reiknað út þessar tölur út miðað við það hvernig Evrópusambandið gefur út sínar upplýsingar. Þær liggja ekki á lausu. Þær tölur sem ég nefndi áðan eru ekki frá Evrópusambandinu komnar, herra forseti, enda ekki á vísan að róa þar, heldur frá viðurkenndum erlendum fjölmiðlum, t.d. New York Times. Þetta er það sem íslenskir bændur, og grænmetisbændur þar með, keppa við á hverjum einasta degi.

Nú ætla ég að ítreka það sem ég sagði áðan: Alþingi á að ákveða að grænmetisbændur fái raforku á sama verði og stóriðjan. Það er óþolandi, herra forseti, og ég er búinn að spyrja að því í gegnum árin, bæði forystumenn bænda, garðyrkjubænda og Bændasamtakanna, og ég fæ alltaf sama svarið þegar ég spyr: Eru hollenskir bændur enn þá að fá hverja kílóvattstund til þess að rækta undir gleri á lægra verði en Íslendingar? Og svarið er já, herra forseti. Hollenskir bændur fá raforkukílóvattstundina ódýrari en íslenskir bændur. Þetta er orka sem framleidd er með kjarnorku, kolum, olíu, gasi, hverju sem við viljum. Hún er ekki umhverfisvæn nema þá að litlu leyti, hugsanlega einhver vindorka.

Og þá kem ég að heilnæmi framleiðslunnar hér; minna eitur, nánast ekkert sums staðar, grunnvatnið er hreinna, ekki er notað margnotað vatn í framleiðslu okkar. Þetta er það sem kallast á enskri tungu — eða hálfíslensku, ég veit að þingmálið er íslenska og ég get svo sem snarað því yfir; þetta er svona söluáherslupunktur, líka til þess að flytja út. Mér er kunnugt um að ferðamenn hafa komið t.d. í Friðheima, sem er stórkostlegt fyrirtæki á Suðurlandi sem stundað hefur ferðamennsku, en einmitt núna þegar ferðamannalindin er að þorna aðeins upp, hvað gera þeir þá? Þeir tvöfalda það húsnæði sem þeir ætla að nota til tómataframleiðslu undir gleri. Þetta er fólk sem tekur því mótlæti sem við Íslendingar erum í núna, algerlega eins og hetjur. Við eigum fullt af fólki sem er alveg tilbúið að gera eitthvað svipað, en við þurfum að skapa því skilyrði. Þess vegna þurfum við að tryggja að þessi stóriðja blómstri með því að við sköpum henni skilyrði til að vaxa, með því að selja ódýrari orku.

Það er líka annað em ég hef oft talað um og ég ætla líka að tala um hér. Það er affallsvatnið sem rennur frá virkjunum, t.d. niður allt Ölfus frá Hellisheiðarvirkjun, og frá Nesjavallavirkjun er það búið að renna síðan 1974 út í Þingvallavatn, algjörlega ónýtt. Það vatn sem rennur niður Ölfusið og smákólnar gæti hæglega runnið í gegnum þrjú, fjögur sett af gróðurhúsum, eftir því hvaða hita menn þurfa til þess að framleiða. Það gæti líka sem best nýst til að renna í gegnum þrjár til fjórar landeldisstöðvar ef út í það er farið, en það er annað sem við tökum seinna. En þetta eru möguleikarnir, herra forseti. Þeir eru óendanlegir.

Og hvað getum við gert? Á sínum tíma, og það hefur verið sagt hér í sölum Alþingis allan þann tíma sem ég hef verið hér, sem er nú ekki mjög langur, voru menn svo hrifnir af því að hér var gerður tollasamningur og samningur við bændur í garðyrkju og það gekk allt svo ljómandi vel. Hvað gekk svona ljómandi vel? Jú, bændur voru að framleiða gúrkur og tómata og papriku. Allt annað var flutt inn, engar hömlur á því hvernig verðlagningu var háttað í því. Og kaupmönnum fannst náttúrlega bráðflott að hafa bara grænmetisbændur á þessari hillu og þurfa ekkert að vera að hugsa um þá. Ég ætla að segja enn einu sinni, herra forseti, að svo háðir eru grænmetisbændur kaupmannavaldinu í Reykjavík að ég er ekki enn þá búinn að hitta kartöflubónda sem er tilbúinn að koma fram undir nafni og segja mér frá viðskiptakjörum sínum vegna þess að hann veit að ef hann gerir það þá lendir hann í vandræðum hjá kaupmönnunum í Reykjavík. Þetta er óþolandi aðstaða og við þurfum að hugsa um þetta fólk.

Við þurfum líka að vita meira um verðlagningu á landbúnaðarvörum yfir höfuð. Við þurfum að vita það nákvæmlega og það liggur ekki á lausu. Sá sem hér stendur hefur gert ýmsar tilraunir til þess að reyna að komast að hinu sanna í þessu máli. Það er ekki auðvelt og það þarf að fara í sérstakar vendingar til að fara yfir það, t.d. ef við tökum sauðfjárbóndann, þótt hann sé ekki til umræðu hér, og hvað hann fær í sinn hlut, hvað sláturleyfishafinn fær, hvað ríkið fær í virðisaukaskatt af sölunni og hvað verslunin fær fyrir að umsetja vöruna. Þetta dæmi kom aftur upp um daginn vegna þess að þá var verið að lækka verð til nautgripaframleiðenda um 5%, ef ég man rétt. Á sama tíma hækkar nautakjöt úti í búð.

Þá spyr ég, eins og ég spurði hér áður þegar sauðfjárbændur voru hýrudregnir um 30% á einu bretti: Hvert fara peningarnir? Í því tilfelli kom í ljós eftir langa mæðu að þeir runnu til sláturleyfishafa. Það er líka vegna þess að við höfum ekki verið nógu einörð í því að styðja við sláturleyfishafa til að þeir geti sameinast, unnið meira saman án þess að samkeppnislög séu að trufla þá, eins og reynst hefur vel í mjólkurframleiðslu. Þar er ágóðinn, af því að það er orðin sérhæfing, kannski 3 milljarðar á ári; neytendur fá 2 milljarða, bændur 1 milljarð. Þetta sagði nú sá mæti og ágæti fyrrum félagi okkar, Ögmundur Jónasson, og það hefur enginn annar útskýrt þetta jafn vel, finnst mér, og hann gerði á sínum tíma.

Hvað þurfum við að gera í þessu? Grænmetisrækt, bæði útirækt og undir gleri, er líklega stærsti einstaki sprotinn núna sem við getum haft áhrif á að vaxi hvað mest inn í framtíðina, bæði til þess að við fáum innan lands fjölbreyttari innlenda framleiðslu sem við vitum hvernig er framleidd, sem við vitum að er ekki háð eiturefnanotkun, sem við vitum að er framleidd með vistvænni orku, sem við vitum að hefur minna kolefnisspor en grænmetið sem flutt er langa leið á okkar disk. Þetta er ástæða númer eitt. Ástæða númer tvö er sú að auðvitað eiga bændur líka að fara að framleiða dýrari afurðir. Með þeim samningi sem gerður var á sínum tíma um tómata, gúrkur og paprikur, með mikilli virðingu fyrir því grænmeti, voru menn læstir fastir í þessu. Þetta hefur þær afleiðingar að líklega síðustu fjögur, fimm ár hefur hlutdeild íslensks grænmetis í sölu í verslunum á Íslandi minnkað um fimmtung.

Þetta er náttúrlega algjör öfugþróun og alveg gjörsamlega í andstöðu við allt sem skynsamlegt og rétt getur talist. Auðvitað eigum við að greiða mönnum leið til þess að geta framleitt fjölbreyttari vöru. Það hagnast allir á því. Bændur hagnast á því. Neytendur hagnast á því. Landið sem heild hagnast vegna þess að framleiðslan eykst. Möguleikinn er sá að það er hægt að flytja út íslenskt grænmeti vegna þess að það hefur þessa sérstöðu.

Ef menn efast um það sem ég er að segja núna skal ég nefna eitt lítið dæmi. Ungir menn í Danmörku tóku upp á því fyrir nokkrum árum að flytja agúrkur frá Íslandi til Danmerkur. Agúrkan sem þeir fluttu frá Íslandi var dýrari en það sem Danir kalla vistvæna gúrku, sem selst í verslunum þar við dágott verð. Hvað gerðist? Íslenska agúrkan fékk þvílíkar móttökur í Danmörku að þessir ungu menn fengu ekki nóg. Framleiðslan á Íslandi dugði ekki. Það var ekki hægt að afhenda til þeirra allt árið eins og þeir hefðu kosið.

Þannig að ég segi aftur: Möguleikarnir eru til, herra forseti. Það þarf einfaldlega að gera þessu fólki kleift með einföldum aðgerðum að nýta kraftinn sem býr í því. Þá kemur það upp enn einu sinni: Við skulum afhenda þessu fólki orkuna á sama verði og annarri stóriðju. Það er engin hemja, vegna þess að í dæminu sem ég tók áðan, sem ættað er úr Reykholti í Biskupstungum, eru þrjár stórar stöðvar sem notuðu fyrir nokkrum árum samtals jafn mikið rafmagn, jafn mikla orku og Árborg öll. En menn fengu orkuna til sín á sama verði og maður sem setur þvott í þvottavél. Þetta er náttúrlega fyrir neðan allar hellur, herra forseti. Og dreifikostnaðurinn — virkjanirnar eru handan við hálsinn. Það er allra hluta vegna heimskulegt að lækka ekki þetta verð og gera fólki kleift að framleiða meira.

Ég er búinn að segja það nokkrum sinnum áður og ég ætla að gera það einu sinni enn: Fyrir nokkrum árum stakk ég upp á því, og fleiri með mér, að Íslendingar færu að framleiða kryddjurtina wasabi. Menn horfðu framan í mig eins og sauðfé í bílljósum og héldu að ég væri bara farinn að rugla, eins og maður gerir stundum. En nú er sem betur fer farið að framleiða þessa afurð á Íslandi. Hún hefur hlotið mjög góða dóma, er mjög vel heppnuð.

Ég er búinn að segja það einu sinni eða tvisvar eða þrisvar áður í ræðustól og ég ætla að segja það enn einu sinni: Möguleikarnir birtast m.a. í því að á síðasta ári varð uppskerubrestur á vanillu í Bangladess. Hvað þýddi það? Það þýddi að heimsmarkaðsverð á vanillugramminu kostaði eins og gramm af silfri. Ef einhver hefði sagt við mig einhvern tímann: Íslendingar geta ræktað silfur, hefði ég fagnað gífurlega og viljað hvetja til þess að það væri gert.

Herra forseti. Ef við Íslendingar styðjum við bændur sem eru í garðyrkju, getum við farið að framleiða jafnoka silfurs að verðmæti, sem er vanilla. Þetta er bara eitt dæmi. Við getum aukið þessa framleiðslu að magni og fjölbreytni um langa framtíð, nánast endalaust. Haft nóg fyrir okkur og eitthvað eftir til að flytja út og okkur veitir ekki af á næstu misserum og næstu árum að auka útflutningstekjur til að styðja við þjóðfélagið þegar við erum á leið upp úr öldudalnum.



[14:57]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í þessa umræðu um möguleika á aukinni framleiðslu í garðyrkju og ylrækt og aukinni grænmetisframleiðslu í landinu. Ég fagna því mjög að verið sé að leggja aukna fjármuni til garðyrkjunnar og til þeirra samninga sem voru gerðir, samkomulags milli Bændasamtakanna og ríkisins og Sambands garðyrkjubænda. Það samkomulag var gert í vor og hér erum við að framfylgja því með því að þingið fjalli um það og 200 milljónir á ári verði lagðar til þessara samninga næstu árin en áætlað er að endurskoða samningana 2023.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur mikla áherslu á það í sínum stjórnarsáttmála að við stuðlum að aukinni framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum og þar eru auðvitað garðyrkjan og ylræktin og grænmetisframleiðslan ofarlega á blaði. Þær aðstæður sem við búum við núna, þetta Covid-ástand sem er í landinu, hafa valdið því að hrikt hefur í mörgum stoðum samfélagsins og þar verðum við að leggja enn meiri áherslu á matvælaöryggi og innlenda matvælaframleiðslu, bæði til þess að fjölga störfum og styrkja okkur efnahagslega með því að spara gjaldeyri og geta framleitt sem mest af matvælum okkar hér innan lands með vistvænni orku og þeim tækifærum sem við höfum. Það er því mjög mikilvægt að við höfum sett okkur matvælastefnu sem var unnin á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, á vettvangi Matarauðs Íslands í samvinnu við fjölda hagsmunaaðila. Út úr þeirri vinnu kom mikið og merkilegt plagg sem við þurfum að fylgja vel eftir hér og úti í samfélaginu þar sem það á við hjá þessum atvinnugreinum.

Það hefur verið komið inn á það hér hve mikil tækifæri eru í ylrækt í landinu, bæði í ylrækt og útirækt, og við þurfum að styðja við þá sem eru að byggja sig upp á þeim vettvangi. Í pípunum eru hugmyndir um stóraukna framleiðslu, að gera eins konar stóriðju úr grænmetisframleiðslu þar sem tækifærin eru til staðar, þar sem jarðvarmi er mikill og gott aðgengi að raforku eins og á Suðurlandi. Þar þarf líka að byggja upp innviðina, dreifikerfið og aðgengi að orkunni, svo að hægt sé að fylgja því eftir. Það er okkar stjórnvalda að styðja sem best við það, bæði með því að byggja innviðina enn frekar upp, styrkja dreifikerfið og flutningskerfið, og gefa þeim sem vilja fara út í ylrækt og útiframleiðslu kost á því að hafa gott aðgengi að orku. Sú orka þarf að vera samkeppnishæf við það sem gerist í annarri framleiðslu. Við vitum að stóriðjan er með sína löngu samninga, sem leynd hvílir yfir, og við seljum um 80% af raforkuframleiðslu í landinu til stóriðjunnar. Ég tel að við eigum að leggja miklu meiri áherslu á að garðyrkjan og ylræktin sé líka okkar stóriðja. Við þurfum að horfa til þess að geta afhent orkuna á ásættanlegu verði til þessara greina.

Auðvitað má alltaf deila um 200 milljónir. Mætti það vera hærri upphæð? Auðvitað vilja allir fá hærri upphæð í einhverja slíka samninga. En ég held að þetta sé góð innspýting og viðbót við það sem var fyrir. Ég held að það sé líka gott að þetta hámark sé sett, að enginn framleiðandi fái meira en 10% af því sem lagt er til til þess að greiða niður dreifingu á rafmagni til greinarinnar. Þarna er verið að auka hámarksgreiðslur til framleiðenda úr 15% í 17,5%. Það er mikil nýsköpun í greininni og við vitum að alltaf er að fjölga þeim tegundum sem fólk er að vinna með og rækta. Ég held að það séu líka mikil tækifæri í því að hafa fjölbreytta vöru í framleiðslu, og það er hægt, menn hafa sýnt fram á það. Við erum heldur ekki með þau miklu eiturefni sem þekkjast í stóru framleiðslulöndunum, Hollandi og fleiri löndum, sem við flytjum inn grænmeti frá. Ég held að tækifærin liggi líka í því að byggja upp enn frekari lífræna ræktun. Við þurfum að vinna okkur áfram í því að fá vottun fyrir lífræna ræktun í okkar innlendu framleiðslu.

Ég held að þarna séum við á góðri leið með að styrkja enn frekar og efla innlenda matvælaframleiðslu. Við getum alltaf gert betur en þarna erum við að stíga stórt skref í átt að því sem við flest erum sammála um, þ.e. að innlend matvælaframleiðsla skipti máli fyrir matvælaöryggi þjóðarinnar, stuðli að lægra kolefnisspori — það er ekki gott að vera að flytja matvæli um hálfan hnöttinn — fjölgi störfum í landinu og styrki atvinnuuppbyggingu vítt og breitt um landið þar sem möguleikar eru til bæði ylræktar og útiræktunar. Við erum að stíga skref í átt að því að geta útvegað neytendum góða og heilnæma vöru, ræktaða við góð skilyrði, hreint loft og kjöraðstæður að mörgu leyti. Þó að við höfum okkar harða vetur getum við með ylræktinni og jarðvarmanum mætt því og einnig með aukinni nýsköpun og tækni sem er að þróast í þessum greinum.

Ég held að neytendur muni alltaf velja íslenska framleiðslu í grænmeti og garðyrkjuvörum ef hún stendur til boða og er samkeppnishæf, bæði í verði og gæðum. Það er ekki spurning með gæðin, en ég held að verðið haldist í hendur við það hvaða skilyrði garðyrkjunni eru búin. Með þessu aukna framlagi til hennar þá er hún samkeppnisfærari.

Ég tel líka mjög mikilvægt og brýnt að merkingar á íslensku framleiðslunni séu þannig að þær standi undir merki, að ekki sé verið að umpakka erlendu grænmeti, innfluttu grænmeti, undir fölsku flaggi. Það á ekki að merkja það eins og það sé íslensk framleiðsla ef það er í raun erlend framleiðsla umpökkuð hér á Íslandi því að þannig siglir varan undir fölsku flaggi til neytenda. Þó að umbúðirnar séu íslenskar og kannski merktar íslenska fánanum er ekki um íslenska framleiðslu að ræða. Ég held að þarna séum við á réttri leið við að styðja við innlenda landbúnaðarframleiðslu, í þessu tilfelli garðyrkju og ylrækt, og því ber að fagna.



[15:08]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir framsöguna og fyrir þessa umræðu sem er að sjálfsögðu mjög áhugaverð og mikilvæg. Ég lýsi ánægju minni með þann samning sem var gerður nú á vormánuðum við garðyrkjuna upp á u.þ.b. 200 millj. kr. sem koma í formi beingreiðslna sem er að sjálfsögðu jákvætt. En ég hefði viljað sjá betur gert í þessum efnum. Það er löngu tímabært að fara að treysta grundvöll íslenskrar grænmetisframleiðslu vegna þess að hún er okkur mjög mikilvæg og ekki síst nú á þeim tímum sem við höfum gengið í gegnum og lýtur ekki síst að matvælaöryggi. Auk þess kemur hún að kolefnisspori og fleiri umhverfisþáttum.

Gæði framleiðslunnar eru síðan einstök hér á Íslandi miðað við önnur lönd. Þar hefur vatnið ekki síst mikið að segja, eins og nefnt hefur verið. Það er allt í lagi að segja frá því hér að ég skoðaði einu sinni döðlubúgarð í Miðausturlöndum. Þessar döðlur þóttu mikið lostæti og voru pakkaður inn í mjög smekklega kassa. Þegar við skoðuðum okkur um og fórum að spyrjast fyrir um vatnið og annað slíkt þá kom í ljós að vatnið sem notað var til vökvunar kom reyndar úr skolpi, hafði að vísu verið hreinsað en ekki með fullnægjandi hætti. Þegar maður frétti þetta þá smakkaði maður þessar döðlur með svolítið öðru hugarfari en maður gerði í upphafi. En þetta sýnir það bara að við eigum að sjálfsögðu að halda á lofti þeim miklu gæðum sem eru í íslenskri grænmetisframleiðslu. Það er ekki síst sá styrkur sem við búum að og gerir okkur kleift að markaðssetja þessa vöru sem við eigum að gera á erlendum vettvangi, auk þess að hvetja íslenska neytendur til að nýta og njóta íslenskrar grænmetisframleiðslu.

Ég held að skilningur neytenda á íslenskri grænmetisframleiðslu fari almennt vaxandi, og það er ánægjulegt. En þá er líka mikilvægt að rétt sé staðið að merkingunum, eins og kom fram hér rétt áðan í umræðunni. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir nefndi réttilega að það er mjög mikilvægt að merkingarnar séu réttar og ekki sé verið að reyna að koma vörum að utan inn á okkar markað undir fölskum merkjum. Það er afar mikilvægt að vel sé staðið að þessu vegna þess að fólk treystir því að um íslenska framleiðslu sé að ræða þegar hún er merkt þannig.

Það sem er jákvætt við þennan samning, sem gerður var á vormánuðum, er að hann eflir útiræktun á grænmeti sem of fáir bændur stunda. Þar er nauðsynlegt að auka við. Það þekkja það margir að fátt er betra en þegar íslenska framleiðslan er að koma á markað og menn horfa til þess með tilhlökkun. En eins og ég nefndi áðan hefði ég viljað sjá betur í lagt hvað þennan samning varðar og ástæðan er að hluta til þeir erfiðleikar sem við höfum gengið í gegnum vegna veirufaraldursins. Það er eins og það þurfi alltaf eitthvert utanaðkomandi áfall, ef svo má segja, til að ýta við mönnum til þess að þeir vakni til lífsins með það að við eigum hér frábæran landbúnað og grænmetisframleiðslu. Ég hefði viljað sjá að hér hefði meira verið bætt í.

Það er verið að innheimta fé af skattborgurum þessa lands vegna umhverfismála. Það vill nú þannig til að stefna þessarar ríkisstjórnar hefur um margt verið sú að skattleggja almenning í gegnum kolefnisjöfnun og þau umhverfismál sem tengjast því. Ég hefði kosið að þeir fjármunir hefðu þá verið nýttir á betri hátt hvað varðar t.d. að styrkja við grænmetisframleiðslu og landbúnað almennt. Við sjáum það t.d. að kolefnisskatturinn, sem er á hvern lítra af bensíni og dísilolíu, skilaði, þegar þessi ríkisstjórn tók við, á ársgrundvelli um 3,5 milljörðum kr. í ríkissjóð. Hann á að skila á næsta fjárlagaári um 6,2 milljörðum þannig að hann hefur hækkað um helming í tíð þessarar ríkisstjórnar. En aðeins brot af þessum skatti rennur til umhverfismála. Það er einmitt kjarni málsins, að neytendur og skattborgarar þessa lands eiga í raun rétt á því að vita í hvað skatturinn fer og hvort hann sé þá notaður til umhverfismála. Hægt væri að taka hluta af þessum skatti til þess einfaldlega að auka við þennan samning, svo að dæmi séu nefnd, við grænmetisframleiðendur og styðja þá myndarlega við íslenska grænmetisframleiðslu þótt vissulega sé þetta spor í rétta átt.

En svo spyr maður sig, þegar þessum samningi lýkur, hvað svo, hvað tekur svo við? Er þessu tímabili þá bara lokið, þessu átaki, og förum við þá bara á sama reit aftur? Við eigum hreina íslenska orku og það er fullkomlega eðlilegt að hún sé nýtt til þess að greiða niður svo góða framleiðslu sem felst í íslenskri grænmetisframleiðslu.

Mig langar aðeins að koma inn á, herra forseti, kolefnissporið og hversu mikilvæg íslensk grænmetisframleiðsla er vegna þess. Mikið hefur verið rætt um það að draga úr því kolefnisspori sem Íslendingar skilja eftir sig á hverju ári. Við þekkjum þá umræðu og stefna stjórnvalda hefur miðað að því að búið verði að kolefnisjafna Ísland árið 2050. Það er alveg ljóst að það verður ekki gert nema með víðtækum aðgerðum á mörgum sviðum og liður í því gæti einmitt verið að efla innlenda matvælaframleiðslu til að draga úr mikilli kolefnismengun sem hlýst af innflutningi. Gleymum því ekki, það er verið að flytja þessar vörur um langan veg á sama tíma og við getum ræktað þær hér heima. Í því felst mikill tvískinnungur að menn skuli enn vera að flytja inn svo mikið magn af grænmeti og tala á sama tíma um mikilvægi þess að draga úr kolefnismengun og öllu því á sama tíma og hægt er að framleiða þessa vöru hér. En við styðjum ekki nógu vel við bakið á þeirri framleiðslu. Þetta er eitthvað sem við verðum að fara að taka alvarlega til skoðunar með miklu öflugri hætti en hér er gert að mínu mati. Auk þess fylgir þessu gjaldeyrissparnaður og þetta eykur fæðuöryggi þjóðarinnar, styrkir byggðirnar og er atvinnuskapandi.

Kolefnissporið sem ræktun á grænmeti og ávöxtum skilur eftir sig er æðimismunandi eftir tegundum. Samkvæmt gögnum sem Bændablaðið hefur sett fram þá hefur kolefnislosun innlendu grænmetisframleiðslunnar verið reiknuð út frá sömu forsendum og erlend framleiðsla og erlendu tölurnar sem þar eru settar fram eru sagðar byggðar á mjög varfærnu mati. Þannig er ræktun á íslensku salati sögð skilja eftir sig einungis 26,1% af því kolefni sem innflutt erlend salatframleiðsla skilur eftir sig. Þetta eru náttúrlega ótrúlegar tölur, herra forseti, og sýnir okkur eitt og sér að við eigum að setja allan kraft í það að íslensk grænmetisframleiðsla verði aðalfæða Íslendinga þegar kemur að grænmetisfæði. Þá skilur gúrkuframleiðsla eftir sig um 43,7% og venjulegir tómatar um 54,8% en þessi munur liggur einkum í flutningum.

Það vekur síðan athygli að í samanburði á útiræktun, t.d. á kartöflum, koma íslenskir kartöflubændur aðeins betur út en kollegar þeirra í Bretlandi og Hollandi. Skýrist það einkum af orku sem er notuð í kæligeymslum og kolefnislosun í flutningum. Þar skilar íslenska kartöfluræktin um 8 prósentustigum lægri kolefnislosun en erlenda framleiðslan. Það er þrátt fyrir hlutfallslega minni uppskeru og meiri olíunotkun á hvern hektara á Íslandi. Varðandi útiræktað grænmeti, eins og gulrætur og hvítkál og fleira, er kolefnislosun á Íslandi 88,21% af því sem innflutta grænmetið skilur eftir sig.

Þegar gögn frá Sambandi garðyrkjubænda um íslenska blómarækt eru skoðuð, svo að það sé nefnt hér, kemur í ljós að sú framleiðsla er í algerum sérflokki í samanburði við innflutt afskorin blóm. Þar er kolefnisspor íslenskra afurða aðeins 18,44% sem hlutfall af kolefnisspori innfluttra afurða. Þar kemur líka fram að kolefnisspor hollenskra blóma er rúmlega 16 sinnum stærra en afskorinna blóma sem ræktuð eru á Íslandi. Skýringin liggur að stærstum hluta í þeirri hreinu orku sem notuð er á Íslandi. Raforka sem hollenskir bændur nota losar um 100–200 sinnum meira af kolefni en íslensk raforkuframleiðsla. Við sjáum bara hve ávinningurinn er gríðarlega mikill af því að við nýtum okkar hreinu orku í þá vistvænu og góðu framleiðslu sem íslensk grænmetisframleiðsla er.

Það er mjög sérkennilegt, eins og kom fram í þessari umræðu, að raforkuverð til garðyrkjubænda í Hollandi skuli vera lægra en raforkuverð til garðyrkjubænda á Íslandi. Við eigum náttúrlega ekki að vera þekkt fyrir svona lagað, við Íslendingar sem eigum gnótt af íslenskri orku, að við skulum ekki geta boðið íslenskum grænmetisframleiðendum ódýrustu raforku í heimi, en þannig ætti það í raun að vera. Ég ætla að vona að við eigum eftir að upplifa þann dag að svo verði, að íslenskir grænmetisbændur eigi aðgang að ódýrustu orku í heimi. Það er það sem við eigum að stefna að. Ávinningurinn er svo margfaldur að það er í raun engin spurning að þetta er eitthvað sem á að stefna að af öllum krafti.

Ég vil nefna það í lokin, herra forseti, að Miðflokkurinn hefur lagt fram aðgerðaáætlun í formi þingsályktunartillögu um að stórefla innlenda matvælaframleiðslu. Þetta er eitt af forgangsmálum okkar í þinginu og þar leggjum við auk þess upp úr því að öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi sé ávallt þegar landbúnaðurinn er annars vegar og íslenska garðyrkjan þar á meðal. Það er grundvöllurinn að því að við fáum fleiri til þess að fara að framleiða íslenskt grænmeti, koma að ræktuninni, að menn hafi fyrirsjáanleika um rekstrarumhverfi, að þeir þurfi ekki að horfa upp á það að hugsanlega eigi raforkan eftir að hækka á ný. Það er kannski, finnst mér, gallinn við þetta mál að menn vita í raun ekki hvað tekur við þegar þessum samningi sleppir og búið verður að úthluta þessum 200 milljónum. Þetta þarf að vera til frambúðar, að hér sé stutt við garðyrkjuna með þeim hætti að það sé vænlegur kostur, fyrir þá sem stunda þessa framleiðslu, að auka hana og fyrir nýja að koma inn í greinina til frambúðar.

Að því sögðu þá styð ég þetta mál að sjálfsögðu. Þetta er skref í rétta átt og viðurkenning á því að þessi grein skiptir okkur verulegu máli. Hún þarf að vaxa og dafna. Auðvitað á að hvetja íslenska neytendur til þess að kaupa íslenskt grænmeti frekar en erlent og þá skiptir verðið líka máli. Þegar raforkan hefur lækkað í verði til grænmetisbænda, vonandi er fram líða stundir, gæti verð á þessari vöru lækkað sem því nemur, að einhverju leyti kannski. Þá sjá fleiri sér hag í því að kaupa hana. En umfram allt eru það náttúrlega fyrst og fremst gæði vörunnar sem allir þekkja og Íslendingar eru tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir íslenska tómata, svo að dæmi sé tekið, sem eru margfalt betri en þeir innfluttu. Það hefur vissulega mikið að segja. En eins og ég sagði áðan hefur skilningur neytenda gagnvart þessari framleiðslu vaxið mjög og er orðinn mun jákvæðari. Það sýnir okkur að við erum svo sannarlega á réttri leið. Vonandi verður það þannig að við getum, þegar upp er staðið, sagt að hér hafi verið stigin skref í rétta átt sem markaði upphafið að því að Ísland varð stórframleiðandi á sviði grænmetisafurða.



[15:24]
Frsm. atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég ætla bara að kvitta fyrir mjög góða umræðu, það liggur fyrir. Við höfum fundið þann góða anda sem ríkir í garð garðyrkjunnar og að þingmenn vilja gera betur. Það er þannig að það má alltaf gera betur. Þetta er þó, eins og hér hefur komið fram, gott skref í þá átt að bæta stöðu garðyrkjunnar. Það hefur verið fjallað um það áður að handan Miðjarðarhafsins, sem hér var vitnað til áðan, á Ítalíu, eru mánaðarlaun í garðyrkju u.þ.b. klukkustundarlaun á Íslandi. Það er sá raunveruleiki sem blasir við okkur í garðyrkjunni, í samkeppninni. Við höfum heilnæmið, vatnið, orkuna, góða fólkið og síðan er kolefnissporið okkar megin í þessari markaðssetningu. Það er líka mikilvægt, þegar við erum að tala um íslenska framleiðslu, að hún sé vel merkt sem íslensk framleiðsla. Við munum geta selt það vörumerki mjög dýrt vegna þess að það mun alltaf bera með sér gæði.