151. löggjafarþing — 21. fundur
 17. nóvember 2020.
almenn hegningarlög, 1. umræða.
stjfrv., 267. mál (kynferðisleg friðhelgi). — Þskj. 296.

[15:34]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á almennum hegningarlögum með það að markmiði að styrkja refsivernd einstaklinga gagnvart brotum gegn kynferðislegri friðhelgi. Með frumvarpinu er ekki síst litið til þeirra samfélagslegu breytinga sem orðið hafa með aukinni tæknivæðingu og þróun viðhorfa til kynferðisbrota á Íslandi. Ljóst þykir að gildandi löggjöf og réttarframkvæmd veitir kynferðislegri friðhelgi hvorki heildstæða né fullnægjandi réttarvernd, sem birtist meðal annars í óskýrri dómaframkvæmd og neikvæðri upplifun brotaþola.

Aðdragandi frumvarpsins er nokkur og má benda á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um að stefnt sé að aðgerðum til að sporna við stafrænu kynferðisofbeldi. Frumvarp þetta er liður í þeirri vinnu. Eins og sést af ítarlegri greinargerð frumvarpsins hefur það verið vandlega undirbúið og m.a. verið stuðst við akademískar rannsóknir, viðtöl við haghafa innan réttarvörslukerfisins og tekið mið af lagabreytingum og stefnumótun sem farið hefur fram erlendis. Auk þess hefur verið litið til þeirra lagafrumvarpa sem áður hafa verið lögð fram á Alþingi og fjalla um sama eða nátengt efni.

Stafræn tækni hefur umbylt samskiptum mannkyns, bæði að efni og formi. Það felur í sér gríðarleg tækifæri til framfara en einnig möguleika til að festa í sessi skaðlega hegðun og háttsemi sem birtist með nýjum hætti. Dæmi um þetta er þegar stafræn tækni er nýtt til að brjóta gegn kynferðislegri friðhelgi einstaklinga. Áður en lengra er haldið er rétt að geta þess að ýmis hugtök hafa verið notuð yfir slíka háttsemi í gegnum tíðina, svo sem stafrænt kynferðisofbeldi, hrelliklám, hefndarklám og kynlífskúgun. Þessi þróun í hugtakanotkun hefur ekki síst komið til vegna tilrauna til að bregðast við tilteknum birtingarmyndum brotanna.

Þegar rætt hefur verið um stafrænt kynferðisofbeldi hefur gjarnan verið átt við háttsemi sem felst í því að nýta stafræn samskipti til að búa til, dreifa eða birta kynferðislegt myndefni af öðrum í heimildarleysi. Hugtakið hrelliklám var tilraun til að fanga það inngrip sem háttsemin getur falið í sér gegn friðhelgi einstaklinga. Í ljósi mikilvægis þess að texti hegningarlaga sé ekki of atviksbundinn, og auk þess eins hlutlaus gagnvart tækni og miðlun og unnt er, er lagt til að almenn hegningarlög vísi til brota gegn kynferðislegri friðhelgi.

Núverandi löggjöf veitir aðeins brotakennda réttarvernd þegar kemur að kynferðisbrotum sem framin eru með stafrænum hætti. Það orsakar m.a. ósamræmi í dómaframkvæmd. Þeim lagabreytingum sem lagðar eru til með frumvarpinu er ætlað að skýra réttarumhverfi brota gegn kynferðislegri friðhelgi og stuðla að vandaðri meðferð slíkra mála innan réttarvörslukerfisins og tryggja þannig, sem framast er unnt, þá grundvallarhagsmuni sem felast í persónulegu frelsi, mannhelgi og kynfrelsi einstaklinga.

Kjarni þessarar breytingar felst í nýju ákvæði 199. gr. a í kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga sem taki til kynferðislegrar friðhelgi. Með ákvæðinu yrði gert refsivert að útbúa, dreifa eða birta ljósmynd, kvikmynd, texta eða annað sambærilegt efni, sem sýnir nekt eða kynferðislega háttsemi, af öðrum í heimildarleysi. Þá verður einnig gert refsivert að hóta notkun á þess konar efni sem og að falsa slíkt efni. Þá felur frumvarpið einnig í sér breytingar á 228. gr. og 229. gr. almennra hegningarlaga en þeim breytingum er fyrst og fremst ætlað að skýra þá réttarvernd sem ákvæðin veita nú þegar, ekki síst í ljósi þeirra áskorana sem stafrænn veruleiki hefur í för með sér.

Að lokum eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð sakamála í því skyni að tryggja virkni þeirra breytinga sem lagðar eru til á hegningarlögum en um efni frumvarpsins og skýringar við einstök ákvæði þess vísast að öðru leyti til ítarlegrar greinargerðar sem því fylgir.

Hæstv. forseti. Við framlagningu þessa frumvarps er markmiðum ríkisstjórnarinnar, um að bregðast við stafrænu kynferðisofbeldi, komið til framkvæmda. Á undanförnum árum hafa sést þess skýr merki í þingsal að þverpólitískur stuðningur er við aðgerðir sem miða að því að styrkja réttarvernd kynferðislegrar friðhelgi einstaklinga á sífellt stafrænni tímum. Vonandi stuðlar það að framgangi frumvarpsins. Það er mikilvægt að löggjafinn, sem gætir að því þegar samfélagsleg og tæknileg þróun skapar svigrúm fyrir nýjar birtingarmyndir kynferðisbrota og brota gegn friðhelgi, bregðist við til að tryggja réttindi borgaranna. Ofbeldi felur ekki bara í sér líkamlegar barsmíðar. Þeir sem beita því ofbeldi sem hefndarklám felur í sér vita að þeir eru að brjóta á viðkomandi með grófum hætti, leggja sálarlíf viðkomandi í rúst og gera fórnarlömbin óörugg og hrædd og þannig mætti áfram telja. Kynferðisofbeldi, hvort sem það er framið með stafrænni tækni eða ekki, er ekki aðeins vandi á Íslandi heldur verkefni sem öll ríki heims þurfa að berjast gegn.

Virðulegur forseti. Allir eiga rétt á friðhelgi. Það á einnig við um kynferðislega friðhelgi. Það er mikilvægt að styrkja réttarvernd einstaklinga með hliðsjón af þeim samfélagslegu breytingum sem hafa orðið með aukinni tæknivæðingu og þróun í viðhorfum til kynferðisbrota á Íslandi. Um leið og við nýtum vel þá möguleika sem hin stafræna bylting býður upp á fyrir Ísland þurfum við að vera vakandi fyrir því að lögin séu ávallt uppfærð í takt við tækniframþróun, rétt eins og stýrikerfið í tölvunum. Viðhorfið um að sending nektarmynda feli sjálfkrafa í sér samþykki fyrir opinberri dreifingu efnisins er jafn úrelt og viðhorf um að konur sem birta af sér kvenlegar sjálfsmyndir séu að kalla yfir sig kynferðislegt áreiti.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.



[15:40]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að hrósa hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að leggja fram þetta mál. Þetta er alveg rosalega mikilvægt mál því að þessi brot hafa langvarandi og íþyngjandi áhrif á brotaþola sem fyrir þeim verða. En nú er það svo að þau fara iðulega fram á internetinu, þ.e. þar birtist þetta. Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvernig hún sjái fyrir sér að lögregla geti með myndugum hætti stutt við bakið á þeim brotaþolum sem verða fyrir slíkum brotum, hvort lögregla verði nógu vel búin fjárhagslega og í mannafla til þess að rannsaka þessi brot.

Jafnframt vil ég spyrja hæstv. dómsmálaráðherra út í það hvernig landamærum í þessum málum verður háttað, hver lögsagan verður í málum. Það sem birtist á erlendum síðum en varðar íslenska brotaþola — hvernig getur lögreglan brugðist við slíkum málum?



[15:42]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Ég tek undir þau sjónarmið hversu mikilvægt það er að málið komi fram og verði að lögum af því að við sjáum allt of mörg dæmi um þessa erfiðu lífsreynslu sem brotaþolar hafa einmitt verið að deila, m.a. á Instagram-reikningi einstaklings sem kallast „Mín eign“, þar sem hún vekur athygli á þessum málum og hvernig er að lenda í slíku.

Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður kemur með, kannski fyrst um lögregluna og hvernig hún er í stakk búin til að taka á þessu, þá vísa ég til skýrslu Maríu Rúnar Bjarnadóttur þar sem farið er sérstaklega í það hvernig lögreglan eigi að taka á svona málum, bæði hvað varðar rannsókn og þekkingu og það þurfi að laga verkferla, það verði kennt í Lögregluskólanum eða háskólanáminu varðandi þessi brot sérstaklega og hversu mikilvægt er að fylgja því eftir þegar svona lög eru samþykkt. Þar er farið vel yfir það sem lögreglan þarf að búa yfir. Það hefur auðvitað verið sett sérstakt fjármagn í kynferðisbrotadeildir lögreglunnar á öllum landsvæðum þar sem er sérstakur aðili í þessum málum, sérstakt fjármagn sem fylgdi því, en auðvitað hefur það ekki algjörlega breytt þeim biðtíma sem er sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að bregðast við því en það eru alla vega komnir sérstakir rannsakendur úti um allt land sem ættu að geta tekið á þessum brotum. Það er afar mikilvægt í því að takast á við þau.

Varðandi landamærin, eins og hv. þingmaður nefnir, þá held ég einmitt að sú leið sem við förum hér, að gera þetta svolítið tæknihlutlaust og að kalla þetta ofbeldi, brot gegn kynferðislegri friðhelgi, þá séum við svolítið að taka þau út úr jöfnunni. Við leggjum meiri áherslu á að kalla þetta brot gegn aðila sem kærir til lögreglunnar, sama hver stafræni veruleikinn verður hverju sinni. Þá erum við að taka það út úr myndinni að það verði að vera í stafrænum veruleika. Það er hægt að fremja brot gegn kynferðislegri friðhelgi án þess að nota stafrænan veruleika. Ég held að með því séum við að svara þessu og gera þetta einfaldara. (Forseti hringir.) En það verður auðvitað líka áskorun við þessi nýju lög sem ég vona að leysist hratt og vel.



[15:44]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin en velti áfram fyrir mér möguleikum lögreglunnar á að takast á við slík brot, um leið og ég vil alls ekki draga úr mikilvægi þessa frumvarps, hreint ekki. Það er eingöngu það að hvetja hæstv. dómsmálaráðherra til dáða í að efla lögregluna, efla þær deildir sem rannsaka þessi mál. Þetta er sjálfstætt ofbeldi í rauninni sem þó fylgir oft annars konar ofbeldi milli aðila. Þessi tegund kynferðisbrota er oft fylgifiskur annars konar ofbeldisbrota. Þá erum við að tala um ofbeldi í nánum samböndum og líka kynferðisofbeldi í nánum samböndum eða ofbeldi innan vinahópa þar sem eftir samvistarslit eða vinslit, eða hvað sem er, brestur skyndilega á með hótunum um dreifingu svona efnis ef brotaþoli gerir ekki eitthvað ákveðið. Þessi mál eru því ótrúlega flókin. Þau þurfa vandaða rannsókn og mikla yfirlegu. Það er kannski það sem ég hef áhyggjur af varðandi mannafla lögreglunnar, að þau mál lendi undir. Þau eru, eins og ég segi, mjög íþyngjandi þar sem fylgir nagandi og langvarandi óvissa um að það sé efni af þér í gangi á internetinu úti um allan heim. Það er bara sjálfstætt brot og verulega íþyngjandi.



[15:47]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og vil kannski nefna að það er líka verið að breyta því með frumvarpinu að veita fullnægjandi rannsóknarheimildir í þessum brotum. En það er líka mikilvægt að lögreglan á í mjög góðu samstarfi við erlend lögregluyfirvöld og einkaaðila sem hafa hjálpað til við að taka niður síður eða ráðast á slíkt til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot gegn einstaklingum hérlendis. Ég veit að það er mikill vilji til að gera vel þar, bæði hjá lögregluyfirvöldum og einkaaðilum, til að koma í veg fyrir t.d. slíka dreifingu mynda.

Hér getur átt við, eins og þingmaður kemur inn á, bæði nána aðila eða algjörlega óskylda aðila í þessum brotum og mikilvægt að hafa hér inni bæði hótanir um slíkt og falsanir af því að við höfum líka séð þess dæmi að falsaðar myndir séu í dreifingu sem erfitt er að greina, það eru, eins og það er kallað á ensku, afsakið forseti, „deep fakes“, í dreifingu hérlendis af íslenskum aðilum. Það er líka áhugavert að skoða töflu sem fylgir með greinargerðinni um það hvernig þetta hefur verið heimfært hér, þetta hefur fallið undir blygðunarsemisbrot eða kynferðislega áreitni, en miðað við það óöryggi sem brotaþolar upplifa hefur ekki verið samræmi í dómaframkvæmd. Þetta hefur verið slitrótt, ef svo má segja, og mikið ósamræmi og það hefur kannski minnkað trúna á að þetta verði klárað til hins ýtrasta og sé talið jafn mikið ofbeldi og það er. Ég held að með þessu frumvarpi séum við að styrkja það og tek undir með hv. þingmanni að lögreglan verður heldur betur að vera tilbúin til að klára þessi brot eins og önnur alvarleg brot.



[15:49]
Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér í dag stjórnarfrumvarp um stafræna friðhelgi. Svipað frumvarp var upphaflega lagt fram á 148. löggjafarþingi, 2017–2018, af Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni okkar Pírata. Það frumvarp hét frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum um stafrænt kynferðisofbeldi, en í greinargerð sem María Rún Bjarnadóttir lögfræðingur vann fyrir ríkisstjórnina, lagði hún til að notað væri hugtakið kynferðisleg friðhelgi frekar en stafrænt kynferðisofbeldi þar sem það nái betur utan um málaflokkinn.

Gott og vel. Í greinargerð kemur einnig fram að aukin tækninotkun samfélagsins kalli á ný lög í þessum málaflokki þar sem núgildandi löggjöf um kynferðislega friðhelgi verndar einstaklinga ekki nógu vel. Birtingarmynd þessarar staðreyndar birtist m.a. í óskýrri dómaframkvæmd sem og þeim neikvæðu og oft alvarlegu afleiðingum sem þau sem verða fyrir slíku ofbeldi finna fyrir.

Í fyrrnefndri greinargerð segir María einnig að það vanti upp á stuðning og skilning í réttarvörslukerfinu í garð þeirra sem verða fyrir brotum á kynferðislegri friðhelgi. Þau upplifi m.a. þolendaskömm frá fulltrúum lögreglunnar í skýrslutökum. Lengi hefur verið nauðsyn á að stjórnvöld ráðist í heildstæða endurskoðun á málaflokknum. Því lögðu hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson og 23 aðrir hv. þingmenn allra flokka, nema Sjálfstæðisflokksins, tvívegis fram frumvörp hér á Alþingi um breytingu á almennum hegningarlögum um stafrænt kynferðisofbeldi. Með þeim var lagt bann við stafrænu kynferðisofbeldi og gerð refsiverð sú háttsemi að dreifa, birta eða framleiða mynd- eða hljóðefni sem sýnir nekt eða kynferðislega hegðun einstaklings án samþykkis hans, að viðlögðum sektum eða sex ára fangelsi. Þá var jafnframt lagt til að dreifing eða birting falsaðs mynd- eða hljóðefnis, hvort sem um er að ræða ljósmyndir, myndbönd eða annars konar myndefni sem sýnir nekt eða einstakling á kynferðislegan hátt án samþykkis hans, geti varðað sektum eða fangelsi.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að frumvörpin hafi ekki náð fram að ganga komu fram við þinglega meðferð þeirra skýr sjónarmið um að lagasetning væri til þess fallin að styrkja réttarvernd kynferðislegrar friðhelgi og meðferð slíkra mála innan réttarvörslukerfisins. Meðal þeirra sem settu þau sjónarmið fram voru Kvenréttindafélag Íslands og embætti ríkissaksóknara.

Kveikjan að frumvarpi Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata, var hin svokallaða Free the nipple campaign, eða Íslenska brjóstabyltingin. Um var að ræða alþjóðlega, hugmyndafræðilega byltingu sem gekk út á að konur beruðu brjóst sín sem uppreisn gegn rótgrónum úreltum félagslegum gildum sem grundvallast á mismunun. Upphaf málsins hérlendis má rekja til atviks þann 26. mars árið 2015 þegar Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir setti myndir af brjóstum sínum inn á samfélagsmiðlinn Twitter undir #Freethenipple. Hún lýsti því yfir að tilgangurinn væri að vekja athygli á hefndarklámi og öðru ójafnrétti. Í kjölfarið fylgdu mörg hundruð íslenskar konur aðgerðinni eftir og settu inn á ýmsa samfélagsmiðla undir sömu formerkjum og Adda. Þó nokkrir gjörningar tengdir byltingunni voru haldnir á almannafæri og vöktu mikla athygli.

Erlendar rannsóknir benda til þess að konur verði frekar fyrir stafrænu kynferðisofbeldi en karlar. Þetta á við hvort sem um er að ræða fullorðna einstaklinga eða börn. Það er ljóst að konur verða frekar fyrir innrás í friðhelgi einkalífs en karlar og þegar um er að ræða karlkyns brotaþola er oftast um að ræða karlmenn í samkynhneigðum samböndum.

Það er klárt mál að breyta þarf lögum til að tryggja vernd þeirra sem verða fyrir stafrænu kynferðisofbeldi.

Aftur að frumvarpi Pírata. Eftir 1. umr. fór frumvarpið í nefnd sem gerði lítið annað en að svæfa málið, eins og títt er með þingmannamál stjórnarandstöðunnar. En hér erum við þó í dag, frumvarpið er komið fram sem stjórnarfrumvarp og því töluvert meiri líkur á að málið hljóti framgöngu hér innan þings og verði loksins að lögum. Og því ber að fagna. Aftur á móti eru liðin heil fimm ár síðan umrædd bylting fór fram og er sá tími sem liðinn er til marks um og dæmigerður fyrir hversu lengi þingið oft er að bregðast við ákalli samfélagsins. Frumvarpið byggir ofan á stjórnarskrárvarin réttindi er snúa að friðhelgi einkalífsins. Í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í friðhelgi einkalífsins felst fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Jafnframt er litið svo á að tilfinningalíf og tilfinningasambönd við aðra njóti verndar samkvæmt ákvæðinu.

Forseti. Ég fagna því að þetta mál sé fram komið á ný. Um er að ræða mikilvægt mannréttindamál sem ég vonast sannarlega til að fái greiða framgöngu hér innan þings.



[15:55]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að óska hæstv. dómsmálaráðherra innilega til hamingju með þetta frumvarp. Ég fagna því mjög að það sé komið fram hér. Í langan tíma hefur verið rætt um þörf fyrir að taka sérstaklega á stafrænu kynferðislegu ofbeldi, og eins og hv. þingmaður á undan mér kom ágætlega inn á hafa áður verið lögð fram frumvörp þess efnis. Fyrrverandi þingmaður, Björt Ólafsdóttir, lagði fram slíkt frumvarp eins og fram kemur í greinargerðinni og síðar hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson. Ég lít þannig á að það hafi verið ákveðin vegferð í átt að því sem hér liggur fyrir og mér sýnist við vera með mjög vandað frumvarp, og að búið sé að hugsa út í helstu þætti.

Það sem ég ætlaði kannski einna helst að koma inn á í ræðu minni, og hæstv. ráðherra gerði það reyndar í andsvari, er þetta með falsanir á efni sem töluvert er orðið um. Það er mjög mikilvægt að skýrt sé tekið á því líka. Fyrir svona miðaldra tepru eins og mig myndi ég ráðleggja fólki að vera ekkert að taka af sér nektarmyndir og senda út í kosmósið. Það gagnast víst lítið í nútímasamfélagi. Það er alveg ljóst að enginn á að þurfa að þola að slíkar myndir séu sendar áfram eða þær birtar án leyfis viðkomandi. Mér sýnist frumvarpið taka nokkuð vel á því .

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar heldur bara fagna þessu og óska hæstv. ráðherra til hamingju með framlagninguna og óska þess líka að hv. allsherjar- og menntamálanefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, geti farið vel og ítarlega yfir það en jafnframt hratt og örugglega.



[15:58]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Mig langaði að taka til máls um frumvarp dómsmálaráðherra um kynferðislega friðhelgi, fyrst og fremst til að lýsa yfir ánægju með að það sé komið fram. Undirliggjandi eru veigamiklir hagsmunir sem hafa á síðustu árum komið betur upp á yfirborðið í hinu opinbera samtali, kynferðisleg friðhelgi og kynferðislegur sjálfsákvörðunarréttur, og í hinu pólitíska samtali, enda þótt veruleikinn sé því miður sá að þetta eru vitaskuld ekki ný brot. En með tækniþróuninni, eins og hæstv. dómsmálaráðherra rakti hér í framsöguræðu, þá er þessi brotaflokkur því miður vaxandi. Þau sjónarmið sem stundum heyrðust, þegar þessi mál voru fyrst að koma fram í kastljósið, voru oft dálítið á þann veg að kannski væri um einkaréttarleg mál að ræða frekar en að þetta væri eitthvað fyrir refsikerfið að eiga við. Blessunarlega held ég að þau viðhorf hafi alveg yfirgefið okkur.

Við þekkjum það að utan að brot sem þessi hafa í mörgum tilvikum haft þær alvarlegu afleiðingar í för með sér að brotaþolar hafa tekið eigið líf í kjölfar þess að brotið hefur verið gegn þeim með þessum hætti og viðkvæmar myndir farið í mikla dreifingu. Ég nefndi að þessi brotaflokkur er því miður ekki nýr. Þetta er ekki nýr veruleiki fyrir lögreglu, þetta er ekki nýr veruleiki fyrir ákæruvald, þetta er ekki nýr veruleiki fyrir dómstóla og vitaskuld ekki heldur fyrir brotaþola. En tilfellið er, og staðreyndin er, að þó að þessi mál hafi sætt ákæru er verið að nota til þess ákvæði sem ekki voru smíðuð í þeim tilgangi að eiga við um þessi brot. Það felst auðvitað í því aukin viðurkenning að smíða sérstakt ákvæði núna eða orða það með sérstökum hætti, eins og á að gera í 199. gr. a, samkvæmt frumvarpinu, hver þessi brot eru þannig að ekki sé verið að nota ákvæði sem ekki eiga við. Þó að ákvæði sem notuð hafa verið hafi hlotið hljómgrunn hjá dómstólum og hægt hafi verið að beita þeim, t.d. ákvæðum um kynferðislega áreitni eða brot gegn blygðunarsemi, í þessum tilgangi þá eru þau ekki byggð á sömu hugmyndafræði, og eiga ekki við um þessi brot. Ákvæðið um brot gegn blygðunarsemi var einfaldlega smíðað áður en brot gegn hagsmunum fólks á netinu fyrirfundust.

Það er mikilvægt skref sem ráðherra er að stíga hér í dag með framlagningu þessa máls og ég fagna því. Ég hef sjálf reynslu af þessum brotum úr fyrra starfi og skrifaði sjálf með kollega mínum, Kolbrúnu Benediktsdóttur, grein í Úlfljót fyrir nokkrum árum, 2015 að mig minnir, um þörfina á því að setja ákvæði í þessu skyni. Ég verð að viðurkenna að ég á eftir að kynna mér efni þessa máls til fulls og betur, en ég hef rýnt það aðeins. Mér finnst mjög ánægjulegt að sjá þetta mál koma hér inn í þingsal og er það öðru sinni sem hingað eru að koma þarfar réttarbætur í þágu þolenda kynferðisbrota af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra. Ég verð að segja að mér finnst það spegla jákvæða sýn ráðherrans til jafnréttismála því að þetta er angi af þeirri umræðu. Við Íslendingar státum af því að vera heimsmeistarar í jafnrétti, ef svo má segja, samkvæmt mælingum World Economic Forum, og við erum líka mjög framarlega í samanburði við aðrar þjóðir varðandi mikla netnotkun, útbreiðslu efnis á netinu. Það hlýtur því að vera okkur umhugsunarefni og það hlýtur að vera markmið okkar, eins og ætti auðvitað að vera um allar aðrar þjóðir, en sér í lagi hjá þjóð með þessa stöðu, að tryggja líka jafnrétti kynjanna og stöðu kvenna gagnvart brotum á netinu. Mér finnst þetta jákvætt og það er skemmtilegt og ánægjulegt að sjá að það er töluvert annar bragur á orðfæri hæstv. dómsmálaráðherra en á því sem við heyrðum frá hæstv. menntamálaráðherra hér í dag.

Varðandi þá umræðu sem við heyrum oft, að þessi málaflokkur sé viðkvæmur með tilliti til marka milli tjáningarfrelsis annars vegar og friðhelgi einkalífs hins vegar, vil ég segja að þetta eru auðvitað hvort um sig grundvallarmannréttindi. En fyrir þá sem eru með þessi mál til meðferðar, t.d. innan lögreglu, þá er það yfirleitt ekki stóri hjallinn sem þarf að stíga yfir heldur frekar sjónarmið af tæknilegum toga. Þá þarf stundum að afla upplýsinga um IP-tölur. Það þarf samstarf við erlend lögregluyfirvöld o.s.frv. Við þekkjum það hver staðan er; einhver síða með efni af þessum toga eða öðrum sprettur upp, er tekin niður og sprettur upp jafnóðum. Í því samhengi held ég að það skipti máli, og ég efast ekki um að lögreglan mun setja það í forgang, að vakta þennan brotaflokk enn betur en ég myndi nú kannski gauka því að hæstv. ráðherra í því samhengi, þegar við verðum komin með þessa fínu löggjöf, sem verður vonandi fljótlega, að að því sé gætt að lögregla og ákæruvald hafi til þess bolmagn að sinna þessum brotaflokkum. Ég gæti trúað því að með því að þetta frumvarp verði að lögum geti kannski orðið aukinn þungi og enn frekari áhersla lögreglu á að ná utan um þessi mál. Með því er ég ekki að segja að svo hafi ekki verið áður en hér er einfaldlega komin fram betri verkfærakista fyrir lögreglu og ákæruvald.

Miðað við jákvæðar áherslur hæstv. dómsmálaráðherra í þessum málaflokki ætla ég að vera bjartsýn á að þessum jákvæðu skrefum hennar á þessu sviði muni einnig fylgja sú sýn að tryggja lögreglu, tryggja ákæruvaldinu og tryggja dómstólunum færi og svigrúm til að gera vel að þessu leyti. Ég minni í því sambandi á að við erum því miður enn í þeirri stöðu að málsmeðferðartími er að koma upp sem vandamál. Ég sá það síðast í fréttum í dag að dómur féll í nauðgunarmáli þar sem mér sýnist að niðurstaðan hafi verið sú að refsing ákærða hafi verið milduð með vísun í málsmeðferðartíma. Það er vandamál sem ég myndi helst vilja sjá að hyrfi.

Ég vil bara árétta það í lokin að ég er ánægð með frumvarpið og hlakka til að skoða það og rýna betur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að málið mun fá fína og vandaða meðferð í hv. allsherjarnefnd, hjá hv. þm. Páli Magnússyni, og ég vona að þetta góða frumvarp verði að lögum í lok þessa þings.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.