151. löggjafarþing — 21. fundur
 17. nóvember 2020.
tekjuskattur, 1. umræða.
frv. ÓBK o.fl., 86. mál (heimilishjálp). — Þskj. 87.

[21:08]
Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003. Flutningsmenn frumvarpsins eru, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson og Haraldur Benediktsson.

Í raun er frumvarpið einfalt, aðeins ein efnisgrein. Með því er lögð til heimild til skattalegs frádráttar vegna heimilishjálpar, sem felur í sér að draga megi fjárhæð að hámarki 1.800.000 kr. á ári frá tekjuskattsstofni einstaklinga, þ.e. sem nemur að meðaltali 150.000 kr. á mánuði.

Frádrættinum er ætlað að ná til starfa sem innt eru af hendi hér á landi á heimili einstaklings og í sumarbústað þar sem einstaklingur dvelur. Sama á við um slík störf í bílskúr og geymslum, afmörkuðum garði og í innkeyrslu umhverfis heimili eða sumarbústað einstaklings. Til slíkra starfa teljast t.d. hefðbundin heimilisstörf, svo sem þrif og hreingerningar, hefðbundin garðyrkjustörf eða snjómokstur á gangstéttum og í innkeyrslu að heimili. Þegar húsfélag fjöleignarhúss annast greiðslu kostnaðar úr sameiginlegum sjóði vegna slíkra starfa á sameign getur einstaklingur dregið sinn hlut í þeim kostnaði frá tekjuskattsstofni sínum. Þá er ákvæðinu jafnframt ætlað að ná til annars konar umönnunar, svo sem umönnunar heimilismanna vegna veikinda eða fötlunar, umönnunar barna, sem felur m.a. í sér aðstoð við heimavinnu og fleira skólatengt, ásamt því að fylgja börnum í og úr leikskóla, skóla og frístundastarfi. Ákvæðinu er einnig ætlað að taka til aðstoðar við einstakling í tengslum við ferðir til og frá heimili, t.d. ferðir á heilsugæslustöð, í banka eða annað sambærilegt.

Markmiðið með frumvarpi þessu er m.a. að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi auk þess sem hægt verður að auka réttindi þess fólks sem vinnur í dag þau störf sem hér eru talin. Með því er m.a. átt við lífeyrisgreiðslur og atvinnuleysisbætur.

Flutningsmenn telja að með lögfestingu skattafrádráttar vegna aðkeyptrar heimilishjálpar sé komið til móts við einstaklinga og fjölskyldur, einkum barnafjölskyldur, með margvíslegum hætti. Þá mun breytingin einnig gagnast eldri borgurum sem vilja búa áfram á eigin heimili en þurfa á þjónustu að halda við almenn heimilisþrif og önnur létt heimilisstörf.

Þess ber að geta að sambærilegar heimildir til skattalegs frádráttar er m.a. að finna í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi þó að útfærslan sé misjöfn eftir löndum. Árið 2011 gerðu sænsk skattyfirvöld könnun á áhrifum frádráttarins. Hún leiddi í ljós að svört starfsemi, en undir þá skilgreiningu fellur m.a. vinna við heimilishjálp, hefði minnkað um 10% á milli áranna 2005 og 2011. Sambærilega sögu er að segja frá Danmörku en dönsk skattyfirvöld hafa fengið fleiri tilkynningar frá almenningi um svarta atvinnustarfsemi eftir að hægt var að draga frá tekjuskattsstofni á þessum grundvelli.

Frú forseti. Þetta er einfalt frumvarp sem kemur ekki síst til móts við barnafjölskyldur og þó einkum eldri borgara sem þurfa á ákveðinni þjónustu að halda. Það kemur til móts við þær fjölskyldur sem þurfa á aðstoð að halda vegna veikinda heimilismanns eða fötlunar o.s.frv. Þetta er réttlætismál sem ég vona að nái fram að ganga.

Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að málið gangi til efnahags- og viðskiptanefndar.



[21:12]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Áhugavert mál, líka þessar sambærilegu heimildir í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Ég velti fyrir mér að kostnaður við þetta fyrir ríkissjóð er væntanlega sá sami ef farið er í hina áttina. Í staðinn fyrir að veita þeim sem kaupir þjónustuna skattalegan frádrátt væri alveg eins hægt að borga aukalega fyrir skil á virðisaukaskattsskýrslum eða þvílíku frá þeim sem vinnur starfið. Þá er ekki verið að láta þann sem kaupir þjónustuna fá endurgreiðslu, því fylgir ákveðið umsagnarferli og vesen. Það er einfaldara að þegar slíku verki er skilað sé einfaldlega gefinn ákveðinn afsláttur eða aukagreiðsla jafnvel með þeim skilum. Það er að einhverju leyti einfaldara í framkvæmd, myndi maður halda, þar sem rétturinn til endurgreiðslunnar fæst einungis ef viðkomandi sækir um. Ýmislegt gæti farið forgörðum í því. Einhverjir kunna ekki að fara í gegnum ferlið eða eitthvað svoleiðis og missa af rétti á endurgreiðslu meðan skilin koma alltaf sjálfkrafa um leið og skilað er inn vinnuskýrslu til Skattsins. Það er í raun fullkomin skilvirkni þar.



[21:14]
Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég ætla ekkert að útiloka þá hugmynd sem hér er lögð fram. Ég ætla þó strax að benda á einn fingurbrjót í því. Fyrir utan það markmið sem er með þessu frumvarpi, þ.e. að auðvelda barnafjölskyldum, auðvelda fjölskyldum sem glíma við veikindi heimilismanns og þurfa á aðstoð að halda og fyrir utan að koma til móts við eldri borgara sem þurfa á ákveðinni þjónustu að halda, heimilisaðstoð, þrif jafnvel, eldamennsku o.s.frv., þá erum við líka að reyna að draga upp á yfirborðið ákveðna svarta atvinnustarfsemi. Þessi svarta atvinnustarfsemi kemst ekki upp á yfirborðið nema sá sem greiðir fyrir hana hafi hvata til þess að upplýsa um þá greiðslu. Hafi ég skilið tillögu hv. þingmanns rétt þá er ekki slíkur hvati fyrir hendi þó að viðkomandi vinni vinnuna, að hún sé gefin upp til þess að fá einhvers konar endurgreiðslu á virðisaukaskatti með þeim hætti sem hér er gert.

Það sem við erum að segja: Við erum að hvetja þá sem kaupa vinnuna til að gefa upp til skatts þær launagreiðslur sem greiddar eru. Þær koma þá upp á yfirborðið og um leið, frú forseti, gerist það að réttindi þeirra sem eru að sinna þessum störfum verða aukin; réttindi til lífeyrisgreiðslna, réttindi til atvinnuleysisbóta o.s.frv. Ég held að við séum með akkúrat þessari aðferð að ná þessum markmiðum með tvennum hætti: Annars vegar að koma til aðstoðar við þá sem þurfa að kaupa þessa þjónustu og hins vegar þá sem veita hana en hafa kannski verið undir radar okkar, sem við viljum ekki að sé.



[21:17]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nákvæmlega sama fjármagn sem fer annaðhvort til þess sem kaupir þjónustuna eða þess sem selur þjónustuna. Það sem ég er að segja er að sá sem selur þjónustuna, sá sem vinnur verkið, hann eða hún skilar öllum þeim gögnum sem þarf til þess að starfsemin sé ekki svört og fái fyrir það nákvæmlega sömu umbun og væri hinum megin dæmisins í formi skattafsláttar. Þannig að fjármagnið er nákvæmlega það sama. Annaðhvort er afsláttur af sköttum, 150.000 kr. á mánuði til þess sem kaupir þjónustuna, eða 150.000 kr. á mánuði til þess sem selur þjónustuna. Það er nákvæmlega sami peningur nema það er jafnvel ákveðin hagvaxtaraukandi aðgerð, með innspýtingu þeim megin eða kæmi væntanlega út á jöfnu, kaupin eru á lægra verði af því að þau skila sér þegar viðkomandi seljandi skilar inn öllum þeim gögnum sem þarf til að fá viðbótina sem vantar. Það er hvati til að skila gögnum og gera starfsemina ekki svarta með því að fá nákvæmlega sama pening og hinn aðilinn fær sem kaupir þjónustuna.

Venjulega er það þannig að sá sem selur þjónustuna, verktaki, múrari sem kemur og klárar allt sitt, skilar nótum og svoleiðis. Hann ætti að vera sá sem skilar inn öllum sköttum og gjöldum og upplýsingum um allt hvað verkið varðar, myndi maður halda.



[21:18]
Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er bara ósammála hv. þingmanni. Ég ætla að taka dæmi, af því að hv. þingmaður vék að útseldri vinnu iðnaðarmanna. Við tókum þá ákvörðun í vor að endurgreiða virðisaukaskatt af vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað upp í 100%, að fullu. Skynsamleg aðgerð. Hver hefur reynslan verið? Jú, við vitum það t.d. að sum sveitarfélög sjá útsvarstekjur sínar hækka vegna þess að það var ekki hvati til að skilja undan vinnuna. Það var hvati til að gefa vinnuna upp vegna þess að sá sem var að kaupa þjónustuna hafði engan hag af því að taka þátt í starfsemi sem var svört heldur þvert á móti.

Þegar við lækkuðum endurgreiðsluhlutfallið úr 100% í 60% árið 2015, ef ég man rétt, hvað gerðist þá? Þá urðu virðisaukaskattsskil af vinnu iðnaðarmanna lægri en áður. Tryggingagjaldsgreiðslur af slíkri vinnu urðu lægri og ríkissjóður tapaði þó að hann lækkaði endurgreiðslur af virðisaukaskatti. Það var orðinn hvati fyrir þann sem keypti þjónustu að taka við þeirri þjónustu og greiða hana án þess að reikningur væri gefinn út. Það er einmitt þess vegna sem við flutningsmenn frumvarpsins leggjum til þessa leið. (Forseti hringir.) Og ég heyri það á hv. þingmanni að hann er í grunninn sammála því að það eigi að koma til móts við þá sem þurfa að kaupa þjónustu vegna aðstoðar á heimili.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.