151. löggjafarþing — 22. fundur
 18. nóvember 2020.
sérstök umræða.

nýsköpun í ylrækt og framleiðsla ferskra matvara til útflutnings.

[15:37]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Stjórnvöld hafa sett sér ýmis markmið, þar á meðal að auka við landbúnað og ylrækt og annað slíkt hér í landinu. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir tækifærið til að ræða þessi mikilvægu viðfangsefni. Stjórnvöld hafa sett sér framsækna matvælastefnu sem byggir á því að lækka vistspor og auka matvælaöryggi og nýta auðlindir landsins, sem eru jú vatn og loft og orka og jarðvegur, og þetta er að auki mikilvæg byggðastefna. Samtímis hefur það gerst í heiminum að matarþörf eykst hratt, bæði vegna mannfjölgunar og vegna loftslagsbreytinga. Þar með kviknar að sjálfsögðu, bæði vegna innlendra og erlendra þarfa, sú grunnhugmynd að efla mjög ræktun á Íslandi og stórefla um leið ræktun matvæla til útflutnings. Þetta er eins konar ný tegund stóriðju, metnaðarfullt en raunhæft skref sem tekið er í nokkrum áföngum.

Ræktunarmöguleikar hér á landi eru býsna fjölbreyttir. Það er sem sagt hin hefðbundna útiræktun, það er ylrækt í jafnvel stórum byggingum, eins konar fiskeldi, seiðaeldi, og það nýjasta, þörungar. Lykillinn að þessu er a.m.k. tvenns konar. Það er jarðvarminn, sem kemur víða við sögu og við höfum — ég vil ekki segja nóg af en alla vega mikið af. Þá á ég við stórræktun, eins og tómata og annað slíkt til útflutnings. Ég á við þörunga, svipað eins og Vaxa er að gera og Bláa lónið, þ.e. að rækta þörunga sem henta bæði til matvæla, neyslu, til fóðurs og til framleiðslu á ýmiss konar hliðarefnum. Ég á við fiskeldi, bæði innlendar og erlendar tegundir í einingum sem eru 1.000 tonn á ári, eða allt upp í 5.000 tonn á ári, og seiðaeldi, sem er ákaflega mikilvægt. Þarna kemur jarðhitinn svo sannarlega við sögu. Ég nefni að flutningar á sjó og lofti skilyrða þessa framleiðslu. Hún er háð þessum atriðum og nú er verið að bæta við hafnir, eins og Þorlákshöfn og víðar, sem myndi henta mjög vel í þessu skyni. Síðan er slík framleiðsla háð bæði orkuöryggi, þ.e. að dreifikerfið sé í góðu lagi, flutnings- og dreifikerfið, orkuframboðið sé alltaf í takt við þörfina, og síðast en ekki síst að orkuverð sé hóflegt.

En lykillinn, og það er sá seinni sem ég vildi gjarnan nefna, er menntun og nýsköpun. Nú hafa sömu stjórnvöld sett fram metnaðarfulla nýsköpunarstefnu. Það er mikilvægt að minna á að þessi ríkisstjórn hefur verið dugleg við að setja fram grunnstefnur sem vantað hefur á Íslandi í marga áratugi. Nýsköpunarstefnan er framsækin og er búið að tryggja þar ákveðna sjóði, Matvælasjóð svokallaðan, Loftslagssjóð verð ég að nefna, og Tækniþróunarsjóð sem kemur líka þarna við sögu. Þannig að nýtt fjármagn hefur komið inn í nýsköpun á þessu sviði.

Fyrirhugaðar eru skipulagsbreytingar á nýsköpunarstarfi á Íslandi sem leiða vonandi til góðra afreka í þessum efnum, en megináherslan í þessu öllu saman er jú menntunin sjálf. Það þarf að vera til kerfi á Íslandi sem tryggir að almenn menntun í landbúnaði og sérmenntun í landbúnaði sé fyrir hendi, sem hún er vissulega, en líka sérgreinar, eins og ylrækt. Nú er þannig um þetta búið að ylrækt hefur verið framhaldsmenntun á framhaldsskólastigi, eða við getum öllu heldur kallað það fagmenntun. Það er mjög mikilvægt að það verði áfram þannig, en líka að viðbótarmenntun sé möguleg.

Ég legg þrjár spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Ég spyr: Hvernig má undirbúa að laða fram stórátak í þessum efnum með samvinnu ríkis, sveitarfélaga, bænda og fyrirtækja á næstu árum? Getur framleiðsla matvara til útflutnings, með þeim hætti sem ég hef lýst, orðið hluti af sókninni á erlenda matvörumarkaði á komandi árum? Hvernig má efla nýjar greinar á borð við þörungarækt og nýtingu þörunga á ströndum landsins?



[15:43]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á málefnum nýsköpunar í ylrækt og framleiðslu ferskra matvara til útflutnings með þessari umræðu hér. Ég tek heils hugar undir það að við eigum mjög góða möguleika í framleiðslu matvara hér á landi, sérstaklega ef hugvit, nýsköpun og sjálfbær nýting auðlinda er höfð að leiðarljósi. Aukin verðmætasköpun í matvælaframleiðslu með nýtingu á grænni orku er eitt af stóru tækifærunum sem blasa við okkur Íslendingum. Með endurnýjanlegri orku, hreinu vatni og faglegu starfsumhverfi erum við í góðri stöðu og umfram aðrar þjóðir til að rækta og framleiða hágæðamatvæli á heimsvísu. Þannig drögum við ekki aðeins úr þörf á innflutningi á matvælum heldur opnast sömuleiðis tækifæri fyrir útflutning á hágæðavöru á erlenda markaði.

Hlutverk stjórnvalda er hér að skapa skilyrði og farveg til þess að starfsemi af slíku tagi nái að byggjast upp og koma til móts við þær hugmyndir og þann kraft sem býr vissulega í frumkvöðlum um allt land á þessu sviði. Sjálfbær nýting orkuauðlinda, fjölnýting auðlindastrauma og minni orkusóun eru hluti af lykilmarkmiðum og leiðarljósum orkustefnu fyrir Ísland til ársins 2050, sem við kynntum ekki fyrir löngu síðan. Við erum að vinna aðgerðaáætlun til að fylgja henni eftir og þar verður m.a. lögð áhersla á stuðning við fjölnýtingu auðlindastrauma frá virkjunum, t.d. með uppbyggingu grænna iðngarða í kringum jarðvarmavirkjanir.

Fyrirtæki hafa verið að koma fram á sviði fjölnýtingar jarðvarma, svo sem Orkídea á Suðurlandi og Eimur á Norðausturlandi. Verkefni Orkídeu er nýtt samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi í samstarfi Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Verkefnið snýst um uppbyggingu orkutengdra tækifæra við matvælaframleiðslu og líftækni, sjálfbæra nýtingu auðlinda og undirbúning svæðanna til að taka á móti orkutengdri nýsköpun. Það er auðvitað þetta samstarf, eins og hv. þingmaður kom inn á, sem skiptir svo ofboðslega miklu máli, að menn stilli saman strengi og taki ákvörðun saman um að komast á einhvern ákveðinn stað. Eitt meginmarkmið samstarfsins er að auka verðmætasköpun í matvælaframleiðslu í landinu og gera framleiðsluna umhverfisvænni með nýtingu á grænni orku og þannig auka tækifæri fyrir íslenska matvælaframleiðendur til að vera samkeppnishæfir á alþjóðamarkaði.

Þá er dæmi eins og á Hellisheiði þar sem ræktaðir eru örþörungar á vegum fyrirtækisins Algaennovation Iceland. Þar er um að ræða samstarfsverkefni með jarðhitagarði Orku náttúrunnar í Ölfusi þar sem fyrirtækið nýtir rafmagn, heitt vatn og kalt og koltvísýring beint frá jarðvarmavirkjuninni á Hellisheiði. Svo er það fiskeldisfyrirtækið Stolt Sea Farm sem er við hliðina á Reykjanesvirkjun og nýtir affallsvatn frá virkjuninni í eldi á hitabeltisfisktegund til útflutnings.

Það eru mikil tækifæri sem liggja í ylrækt og nýtingu jarðvarma til matvælaframleiðslu. Það hafa verið stigin mikilvæg skref í uppbyggingu hátæknigróðurhúsa hér á landi. Dæmi um slíkt gróðurhús er að finna hjá fyrirtækinu Vaxa sem ræktar matjurtir á mörgum hæðum með led-ljósi, eins og hv. þingmaður kom inn á, nýting á landrými, orku og vatni er þannig hámörkuð. Það er mjög merkilegt að koma þangað inn og sjá hvernig er hægt að nýta tæknina með þeim hætti sem þar er gert. Með ræktun á mörgum hæðum minnkar þörf á landsvæði sem aftur eykur möguleika á staðsetningu nálægt mörkuðum.

Svo erum við með Tækniþróunarsjóð sem hefur styrkt ýmis nýsköpunarverkefni á sviði matvælaframleiðslu og gróðurhúsatækni og þar er dæmi um þróun á led-lýsingum í gróðurhúsum. Eins og hv. þingmaður kom inn á varðandi Matvælasjóð þá skiptir hann miklu máli og stofnun hans og framlög hans sem hafa verið aukin frá því sem áður var til málaflokksins. Hlutverk hans er skýrt og í takt við það sem hv. þingmaður er hér að spyrja um og leggja áherslu á að fjalla um; að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum, það eru þessi sömu áhersluatriði. Sjóðnum er líka heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum sem skiptir máli fyrir okkur og við þurfum að bæta okkur enn frekar í. Við höfum auðvitað stóraukin framlög í Tækniþróunarsjóð og það er gert ráð fyrir stórauknum framlögum í sjóðinn í frumvarpi til fjárlaga næsta árs.

Svo skiptir máli hið almenna umhverfi varðandi endurgreiðslur til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar þar sem við höfum líka aukið við. Þegar hugað er að möguleikum á matvælaframleiðslu til útflutnings er ljóst að hagkvæmir flutningar til og frá landinu skipta auðvitað sköpum um samkeppnishæfni. Flutningskostnaður héðan hefur verið hærri en flutningskostnaður helstu keppinauta en við getum mögulega bætt stöðu okkar þar í framtíðinni með hagkvæmari flutningum, bæði á sjó og í lofti, þannig að tækifærin eru til staðar ef við berum gæfu til að halda vel á málum. Í grunninn eru helstu atriðin sem skipta máli, að mínu viti, skilvirkar leikreglur, skýr stefnumörkun eins og hv. þingmaður kom inn á. Við höfum bætt þar verulega úr, (Forseti hringir.) þessar stefnur tala allar saman. Við erum búin að taka ákvörðun um að við ætlum að fara þangað. Það er bara spurning um hversu hratt við getum gert það og með hvaða aðgerðum. Svo er það samkeppnishæft umhverfi, (Forseti hringir.) viðhorf samfélagsins, viðhorf atvinnulífsins og ákvörðun, sem ég lít svo á að við höfum þegar tekið.



[15:48]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég fagna þessari umræðu alveg sérstaklega. Ég lít þannig á að stærstu tækifæri okkar nú sem þjóðar, bæði í bráð og lengd, séu einmitt að nýta þá möguleika sem við eigum í jarðhita og vatni til að auka hér matvælaframleiðslu, fyrst og fremst til að brauðfæða okkur sjálf, en einnig til þess að flytja út, vegna þess að okkur mun á næstu misserum skorta mjög gjaldeyri til að reisa landið við eftir Covid. Ég tel að þetta sé fljótlegasta leiðin til að gera það, þ.e. að koma á stóraukinni gróðurhúsarækt og stórauknu landeldi.

Það er ágætt að vekja stjórnvöld með þeim hætti sem hv. flutningsmaður gerir með þessari umræðu vegna þess að í sjálfu sér geta stjórnvöld strax lagt drjúga hönd á plóg við að koma þessu á. Það er í fyrsta lagi að verðleggja rafmagn til gróðurhúsaræktar á sama hátt og til annarrar stóriðju. Það er mjög einföld ákvörðun og fljótlegt að taka hana. Í öðru lagi getur ríkisstjórnin stuðlað að því að þeir aðilar sem nú hafa uppi áform um stórt landeldi, eins og t.d. við Þorlákshöfn, geti ráðist í það, eins og viðrað hefur verið að tilvonandi iðnaðarver á Reykjanesi verði laxeldi. Það er líka bara ákvörðunartaka. En fyrst og fremst þurfa stjórnvöld nú að kappkosta að eftirlitsaðilar sem gefa út leyfi fyrir þessar framkvæmdir og fyrir svona vinnslu séu ekki að eyða tíma sínum í að elta uppi einyrkja sem eru t.d. að rækta nokkrar bleikjur í tjörn, heldur einhendi sér í að stytta þann tíma sem þessi stórvirki á landi, t.d. í eldi, þurfa til þess að þau áform komist á laggirnar sem allra fyrst.



[15:50]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að koma þessu mikilvæga umræðuefni á dagskrá. Þetta er málefni sem við í Samfylkingunni höfum verið dugleg að halda á lofti hér í þingsal og fögnum við því hverju tækifæri sem við fáum til að ræða það. Við þurfum að horfa á kerfið heildrænt og við þurfum meiri samvinnu þekkingargeirans og framleiðenda. Við höfum dæmi um mjög góða reynslu af slíkri samvinnu í sjávarútvegi. Við höfum allt sem þarf til öflugrar framleiðslu ræktaðra afurða, næga orku, nægan hita, og við höfum þekkingu. Við gætum ræktað mun meira en við gerum í dag og við gætum ræktað mun fjölbreyttari afurðir. Með því að skala framleiðsluna upp og gera hana fjölbreyttari gætum við að miklu leyti staðið undir eigin þörf og jafnvel, ef við horfum björtum augum til framtíðar, framleitt vörur til útflutnings.

En það eru fleiri þættir sem við þurfum að skoða í því samhengi, t.d. að búa til merkingu fyrir vöru framleidda á Íslandi sem tengir íslenska matvöru við gæði og sjálfbærni. Þannig myndum við auðvelda íslenskum neytendum að átta sig á hvaða matvara í verslunum er íslensk, og sömuleiðis að markaðssetja íslenska matvöru erlendis. Við þurfum einnig að líta til raforkukostnaðarins, þ.e. dreifikostnaðar raforku, og jafna hann að fullu milli þéttbýlis og dreifbýlis. Í kerfinu í dag er beinlínis hvati til gróðurhúsauppbyggingar og sömuleiðis fiskeldis á landi til stærri byggða þar sem flutningskostnaðurinn er lægri. Það ætti frekar að vera hvati í kerfinu til hins gagnstæða.

Herra forseti. Ég gæti haft mun fleiri orð um stöðuna, en svo ég taki þetta saman í lokin þá þurfum við að styðja með markvissari hætti við garðyrkju, grænmetisframleiðslu og nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þangað vill Samfylkingin í það minnsta stefna.



[15:53]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu, sem snýst í raun um sjálfbæra nýtingu íslenskra auðlinda; hreint vatn, jarðhita, hreinan jarðveg og endurnýjanlega orku til að framleiða matvæli. Væri ekki skynsamlegt að byrja á því að stjórnvöld og framleiðendur setji sér sameiginlegt markmið um að innlend framleiðsla uppfylli tiltekið hlutfall af innlendri neyslu matvæla og vinni síðan saman að því að ná því markmiði eftir ólíkum leiðum? Að framleiðendur sinni nýsköpun og vöruþróun? Að stjórnvöld tryggi aðgang að raforku, menntun, rannsóknum og hvetjandi nýsköpunarumhverfi, auk aðgengilegs og skýrs starfsumhverfis, aðgangi að raforku á sanngjörnu verði og ákvörðun í eitt skipti fyrir öll um eitt og sama verð um land allt fyrir dreifingu raforku? Menntun þarf að tryggja með öflugu starfs- og háskólanámi beintengdu matvælaframleiðslu, en líka á fjölbreyttum öðrum sviðum.

Það er margítrekað í þingsal að nýsköpun þarf að tengjast háskólanámi og rannsóknum. Það á jafnt við um framleiðslu á ferskum matvælum eins og á öðrum sviðum. Þó að við margföldum matvælaframleiðslu hér á landi verður hún alltaf smá í sniðum á heimsvísu og því mikilvægt að samhliða rannsóknum og nýsköpun í matvælaframleiðslu í fyrirtækjum og háskólum á Íslandi verði tengsl við ólíka háskóla um allan heim ræktuð og þróuð áfram gegnum samstarfsnet háskóla á Íslandi.

Undanfarið höfum við rekið okkur á ýmsar hindranir sem eru kannski óvæntar að einhverju leyti, eins og að tryggja þarf betri þekkingu á alþjóðlegri tollflokkun ferskrar matvöru, bæði í inn- og útflutningi. Það er svo löngu þekkt að bæta þarf tækni (Forseti hringir.) við pökkun og flutning vöru innan lands svo hún fari fersk á markað. Að lokum mun ég aldrei bakka með það að kolefnisfótspor matvöru er alltaf minnst ef neyslan fer fram sem næst framleiðslustað.



[15:55]
Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Sjálfbærni er lykilorð framtíðarinnar. Án sjálfbærni göngum við á auðlindir jarðar og tækifæri komandi kynslóða. Við verðum u.þ.b. tvöfalt fleiri á þessari jörðu eftir 30 ár en við vorum fyrir 30 árum síðan. Fólk sem fæddist árið 1990 mun búa í helmingi fjölmennari heimi þegar það fer á eftirlaun. Við sjáum nú þegar afleiðingarnar af þessari fólksfjölgun. Á undanförnum 30 árum hafa skógar á stærð við þrettánfalt flatarmál Íslands horfið af yfirborði jarðar. Helmingur þess svæðis fer í nýtt ræktarland og námuvinnslu. Þau landsvæði sem breytt hefur verið úr ósnortinni náttúru í nýtingarsvæði í þágu mannkynsins eru mörg hver einstök og breytingarnar óafturkræfar. Þess vegna er sjálfbærni mikilvægari núna en nokkurn tímann áður og verður mikilvægari eftir því sem mannfólkinu fjölgar á þessari jörð. Hvert okkar mun hafa helmingi minna pláss fyrir fæðuöflun, fyrir ósnortna náttúru, fyrir samfélag manna eftir 30 ár, en við höfðum fyrir 30 árum síðan. Þess vegna verðum við að skipuleggja mjög vel það pláss sem við notum til þess að passa upp á að við göngum ekki á sjálfbærni okkar og náttúrunnar. Í þeirri skipulagningu getur ylrækt verið hluti af þeirri lausn sem við getum boðið upp á á Íslandi.

Ef við setjum á okkur framtíðargleraugun sjáum við enn fleiri tækifæri í ylrækt á komandi árum. Þingmál Pírata um kjötrækt fjallar um tækniframfarir sem nýtast ekki eingöngu í ræktun á kjöti heldur geta einnig verið nýttar í framleiðslu á alls konar frumum. Möguleg gagnsemi þessarar tækni í fóðrun dýra er allrar athugunar verð. Nú þegar fiskeldi tekur fram úr fiskveiðum (Forseti hringir.) þarf að huga að fóðrun allra fiskanna. Fóður, sem áður var hluti af lífríki heimshafanna, kemur nú frá landi. Árið 2016 voru 75% af öllu fóðri fyrir laxa í Noregi ræktað á landi; (Forseti hringir.) hveiti, maís og baunir fyrir laxa. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég vildi að ég gæti haft lengra mál um þetta, bæði um ylrækt yfir höfuð og kjötræktarmál okkar Pírata. En þetta er góð umræða og ég fagna henni.



[15:58]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það ber að þakka þessa ágætu umræðu um stórt mál. Það er að við getum nýtt auðlindir okkar sem best. Það er að við getum virkjað hugvitið til að standa okkur betur í því að nýta auðlindirnar. Hér erum við fyrst og fremst að tala um jarðrækt, ylrækt og fiskeldi. Það er auðvitað frumskilyrði að aðstæður og umbúnaður sé með þeim hætti að auðvelt sé að starfa á þessum vettvangi og ná framförum. Þar er mikilvægt, sérstaklega þegar við horfum til landbúnaðarins, að við breytum svolítið um kúrs og endurskoðum þau stuðningskerfi sem þar eru og gerum þau straumlínulagaðri í þá veru að bændur geti sjálfir ákveðið hvað þeir gera, í stað þess að byggja á að mörgu leyti úreltu stuðningskerfi.

En það er auðvitað margt sem hafa þarf í huga þegar þessi mál eru skoðuð. Hér er verið að tala um útflutning og það er mjög mikilvægt. En það eru ýmis ljón á veginum þar þó að ekki sé annað en samgöngurnar eða möguleikarnir á því að geta flutt út í stórum stíl afurðir úr ylrækt. Það er hægt en það er erfitt vegna þess að skipasamgöngur hér eru einfaldlega of stopular til að hægt sé að koma ferskum afurðum á markað með fullnægjandi hætti.



[16:00]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Allt frá stofnun Flokks fólksins hefur það verið stefna okkar að efla íslenska garðyrkju. Íslenskur efnahagur byggir í dag að miklu leyti á eggjunum þremur, þ.e. sjávarútvegi, stóriðju og ferðaþjónustu. Ef við eflum garðyrkju á Íslandi gæti það hugsanlega orðið fjórða eggið. Núverandi fyrirkomulag á niðurgreiðslu á raforku til garðyrkjubænda hentar illa. Þegar potturinn er bara ákveðið stór minnkar hvati garðyrkjubænda til að auka framleiðsluna. Um leið og framleiðslan eykst hækkar raforkuverðið og framleiðslan minnkar. Slíkt kerfi kemur í veg fyrir að garðyrkjubændur sjái hag sinn í því að auka framleiðslu. Við eigum að tryggja garðyrkjubændum orkuna frítt eða a.m.k. á mun lægra verði en gengur og gerist í öðrum löndum. Auk þess þurfum við að styrkja garðyrkjubændur sem vilja auka framleiðsluna og fólk sem vill hefja garðyrkju með því að koma á niðurgreiðslukerfi greiðslukostnaðar við slíkar framkvæmdir, t.d. með niðurgreiðslu á kostnaði við lagningu heimtauga. Garðyrkja á Íslandi eykst auk þess sem efnahagurinn batnar að tvennu leyti; eftir því sem við framleiðum meira af grænmeti innan lands þá minnkar þörfin fyrir innflutt grænmeti og ef við aukum grænmetisframleiðslu þá opnar það möguleika á útflutningi.

Við státum okkur af því að vera með grænustu orkuna og hreinasta vatnið. Af hverju nýtum við ekki það forskot okkur til fulls og búum líka til besta grænmetið? Já, það á eftir að kosta aðeins meira, en niðurgreiðsla á orku er fjárfesting sem skila mun margföldum ábata; fjölgun starfa, auknu framboði á fersku grænmeti, auknum útflutningstekjum og minna kolefnisspori.

Í seinni ræðu minni mun ég tala um fiskeldið.



[16:02]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræddum í gær nýjan búvörusamning varðandi garðyrkjuna. Sá samningur gengur út á það að efla garðyrkjuna og framleiðslu um fjórðung á næstu árum. En ég tel að hægt sé að gera betur í framleiðslu á grænmeti. Aðalflöskuhálsinn er hár raforkukostnaður. Hann er vissulega hár víða um landsbyggðina og við þurfum að jafna dreifingarkostnaðinn til fulls. Síminn og Bónus eru t.d. með sömu verðskrá um allt land. Þetta getum við líka gert varðandi innviði eins og rafmagnið. Við eigum að stefna að því fyrst og fremst að gera hlutfall innlendrar garðyrkju stærra og hafa kolefnissporið lágt.

Erlendis setja menn alls kyns plöntu- og skordýraeitur yfir plönturnar. Það eru mikil sóknarfæri fyrir frumkvöðla að framleiða framandi grænmeti og ávexti og frábært dæmi um slíkt er ræktun á wasabi á Egilsstöðum. Það mætti styðja miklu betur við slíka nýsköpun því að hugmyndirnar eru til staðar sem og frumkvæðið. Varðandi fiskeldið þá á það vissulega framtíð fyrir sér á Íslandi, bæði til sjós og lands. Það er staðreynd að eftirspurn um allan heim eftir próteini úr fiski verður ekki mætt nema fiskeldið vaxi og dafni. Það eru ýmis tækifæri eins og t.d. að nýta úrgang úr landeldisstöðvum, áburðarframleiðslu og ammóníaksframleiðslu. Þar sem landrými er til staðar eru tækifærin mikil til að skapa almenn verkamannastörf, sem vantar sárlega. Það er ekki nóg að skapa bara störf í hugbúnaði, eins og okkur er tamt að tala um, með slíkri hátækni. Það þarf líka fjölbreytt störf í matvælaframleiðslu, sérstaklega á þeim tímum þar sem atvinnuleysi er jafn mikið og nú um stundir.



[16:05]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir góða umræðu og ráðherra fyrir svörin sem þegar hafa birst. Það er mikill stuðningur við ylrækt í landinu og það kemur reglulega fram í þinginu. Í gær var flutt nefndarálit atvinnuveganefndar um breytingartillögu á búvörulögum, nr. 99/1993, vegna starfsskilyrða framleiðenda garðyrkjuafurða. Þar er stigið gott skref til stuðnings við greinina, en við eigum að stíga fastar til jarðar og byggja ylræktina frekar upp með öflugum stuðningi þar sem virðisauki endurnýtanlegra auðlinda landsins er nýttur til að auka framleiðslu ylræktar, og fjölga störfum í greininni sem nú þegar er á við fjölmennustu vinnustaði landsins eða um 700 manns. Í umræðum um samdóma nefndarálit atvinnuveganefndar í gær kom fram mikill vilji þingmanna til að bæta enn frekar stöðu ylræktar í landinu og auka fyrirsjáanleika. Það á líka við um landeldi.

Virðulegur forseti. Fyrirsjáanleiki í rekstrarskilyrðum bænda sem tengjast búvörusamningum og niðurgreiðslu á raforku og flutningskostnaði raforku er einn mikilvægasti þátturinn í afkomumöguleikum bænda til að auka framleiðslu sína og til að markmið um 25% aukningu á framleiðslu ylræktar verði að veruleika, eins og gert er ráð fyrir í nýjum samningi landbúnaðarráðherra við garðyrkjubændur, sem leiddi af sér breytingu á búvörulögum. Í hálaunalandi eins og Íslandi eru samkeppnisskilyrði garðyrkjunnar erfið, en í landinu er framleidd orka sem getur bætt samkeppnisstöðu garðyrkjunnar með því að virðisauki af auðlindinni verði nýttur til að efla innlenda framleiðslu í samkeppni við innlendar niðurgreiddrar afurðir annarra landa auk heilnæms vatns og umhverfis á Íslandi sem er auðvitað í grænni endurnýjanlegri orku.

Virðulegur forseti. Vinna þarf markvisst að stuðningi við nýliðun í garðyrkju, m.a. með fjárfestingarstuðningi. Ég velti fyrir mér hvort skoða mætti þær leiðir sem þingið hefur samþykkt í húsnæðismálunum, fyrstu kaupenda hlutdeildarlánin. Það er klárlega skoðunar virði að styðja við bakið á nýliðun og nýsköpun ferskra afurða.



[16:07]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Það er auðvitað öllum ljóst að unnt er að auka mjög framleiðslu matvara með ylrækt og jarðrækt hér á landi, sem og auðvitað landeldi á fiski. Við getum þetta þrátt fyrir þá staðreynd að við búum á norðurhjara með stuttu sumri, alla jafna svölu veðri og lítilli sólarbirtu stóran hluta ársins. Það er vegna þess að kostirnir gera meira en að vega upp gallana. Við höfum nægt land, hreint loft og hreint vatn, en einnig víða nægt heitt vatn úr jörðu og loks höfum við beislað fallvötnin til raforkuframleiðslu. Þar höfum við selt megnið af raforkunni til stóriðjuvera. Í upphafi var þetta auðvitað hugsað til niðurgreiðslu á stofnkostnaði við uppbyggingu virkjana og dreifingarkerfisins.

Herra forseti. Við getum þetta. Víða eru aðilar með stórar hugmyndir eins og t.d. í Ölfusinu, Helguvík og víðar. Allt sem þarf er að skapa framleiðendum viðunandi aðstæður, og er ég að tala um verðlag á raforku sem er, eftir því sem garðyrkjubændur segja, langstærsta hindrunin til stækkunar og aukningar framleiðslunnar. Sem dæmi er verðið á kílóvattstund hérlendis til þeirra sem rækta grænmeti undir gleri, hærra en í Hollandi. Er það ekkert öfugsnúið, herra forseti?

Nei, það dugir ekki að tala sig hásan í þessum efnum. Starfsskilyrði í garðyrkju skána ekkert við. Það sem þarf er lækkun á orkuverði til þessarar framleiðslu, þessarar hollu framleiðslu, þessarar grænu framleiðslu.



[16:09]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Aukin grænmetisframleiðsla er dauðafæri fyrir Ísland. Þetta tækifæri er einstakt. Það nýtir kosti Íslands á sjálfbæran hátt, er atvinnuskapandi, mætir breyttri neysluhegðun og er umhverfisvænt á tímum loftslagsbreytinga. En til að hægt sé að nýta þetta tækifæri þurfa stjórnvöld að koma að uppbyggingunni með auknum opinberum stuðningi. Lækka ætti verð á rafmagni, flutningskostnaði og öðrum kostnaði. Umfangsmikil grænmetisframleiðsla hér á landi ætti að vera hluti af vel hugsuðu fjárfestingarátaki í stað þess að vera smátt hliðarverkefni sem fær að fljóta með þegar ráðherrarnir muna eftir því.

Herra forseti. Við eigum að setja okkur háleit markmið. Við eigum að hafa það markmið að fjórfalda grænmetisframleiðslu hér á landi á næstu árum í stað þess að auka hana aðeins um fjórðung, eins og vilji stjórnvalda stendur til. Nú er lag.

Um fjórðung allrar losunar gróðurhúsalofttegunda má rekja til matvælaframleiðslu og landnýtingar tengt henni. Af losun vegna matvælaframleiðslu eru um 60% vegna dýraafurða. Væru kýr sérstök þjóð væru þær í þriðja sæti yfir mestu framleiðendur gróðurhúsalofttegunda á eftir Kína og Bandaríkjunum. Búvörusamningar framtíðarinnar eiga því að snúast meira um hið græna en ekki bara hið ferfætta. Við þurfum að hjálpa bændum að breyta framleiðslu sinni í þessa átt. Við eigum að styðja fleiri nýja bændur sem starfa í grænum framleiðsluheimi. Það getur kostað peninga að búa til peninga. Það getur kostað fé að hugsa stórt en það borgar sig ef það er skynsamlegt. Þess vegna er fjórföldun grænmetisframleiðslu hér á landi skynsamleg hugmynd (Forseti hringir.) og ég varpa henni aftur fram hér. Við þurfum að vaxa upp úr þessari kreppu sem við erum í og sá vöxtur á að vera grænn (Forseti hringir.) og vænn og ekki er verra ef við getum borðað hann.



[16:12]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu og þörfu umræðu sem er okkur öllum mikilvæg. Víða um land er öflugt fiskeldi og hefur jafnvel verið lengi. Það blasir við að það er vaxandi atvinnugrein og sterk stoð í mörgum byggðum landsins. Verðmætasköpunin er óumdeild, en því miður er það svo að stór hluti af íslenskum eldisfiski er fluttur óunninn til annarra landa. Því til staðfestingar má nefna að samkvæmt stefnu ASÍ, sem kölluð er Rétta leiðin, er talið að þjóðarbúið verði af milljörðum árlega vegna útflutnings á óunnum fiski. Þarna liggja klárlega tækifæri því að það er okkur öllum morgunljóst að hérlendis er mikil þekking á vinnslu þessara afurða. Bæði er þekkingin gömul og ný. Við erum í öllum færum til að gera góða hluti og í raun er magnað að sjá hvað grænmetisbændur eru að gera í snjöllum útfærslum á nýtingu lands, vatns og ljóss. Oft hef ég átt samtöl við hæstv. ráðherra um raforkukostnað og impra rétt á því hér, svona til að hafa sagt það, herra forseti.

Það er skylda okkar að nýta allar þær auðlindir sem við erum svo lánsöm að hafa aðgang að. Það eru sannarlega forréttindi að hafa greiðan aðgang að heilnæmum og hollum matvælum. Þeim gæðum eigum við að deila með öðrum. Þótt við séum smá í heildarmyndinni þá búum við í gjöfulu landi sem við höfum til tímabundinna afnota. Það er stjórnvalda að styrkja innviðina svo atvinnulífið dafni sem best. Það er gott að heyra hæstv. ráðherra tala skýrt um stefnuna í þessum málum. Við erum með góð áform og við þurfum að fylgja þeim eftir.

Þess vegna langar mig af þessu tilefni að nefna hugmynd um að móta stefnu um stórátak til að efla fullvinnslu óunninna sjávarafurða (Forseti hringir.) og matvæla og útflutning á þeim. Bjóðum erlendum ríkjum upp á alvöru íslenskt, heilnæmt matarhlaðborð.



[16:14]
Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ylrækt er nú þegar mjög mikilvægur hluti af matvælaframleiðslu á Íslandi, af matvælaöryggi okkar, en það eru einnig mörg ný spennandi verkefni komin af stað eða í bígerð, t.d. í hárækt eða ræktun á fjarlægum plöntum eins og wasabi og lárperu. Við verðum að taka sjálfbærni alvarlega strax í dag og huga vel að skipulagi á því svæði sem við höfum til umráða. Vandamálið er hnattrænt og við verðum að sinna okkar hluta.

Forseti. Í fyrri ræðu minni kom ég inn á þingmál okkar Pírata um kjötrækt. Nú held ég áfram þar sem frá var horfið. Tæknin til að rækta kjöt notar 99% minna landrými en þarf til að rækta dýr og á meðan tæknin skilar okkur kannski ekki fullbúnum steikum þá gæti hún verið vel nothæf til að búa til dýrafóður á meðan tæknin er fullkomnuð fyrir mannlegar væntingar.

Það verður gríðarleg áskorun hjá okkur á næstu áratugum að rækta matvæli án þess að ganga á auðlindir jarðarinnar og tækifæri næstu kynslóða. Ylrækt er þar mikilvægur hluti af lausninni. Þar eru margar áskoranir sem við þurfum að glíma við, t.d. í kostnaði við ræktun ýmissa algengra tegunda. Ættum við t.d. að rækta kaffi á Íslandi? Það mun líklega aldrei borga sig miðað við núverandi aðstæður vegna þess að þar sem kaffi er ræktað þá hjálpar náttúran svo mikið að framleiðslan kostar nánast ekki neitt. Fórnarkostnaðurinn er hins vegar ósnortin náttúra og þær óafturkræfu breytingar sem við gerum til þess að geta fengið ódýrt kaffi. Er það kostnaður sem enginn á að borga? Enginn vill dýrt kaffi en samt borgar fólk 500 kr. fyrir bolla á kaffihúsum. Þar með er ekki verið að borga fyrir notkun á ósnortinni náttúru.



[16:16]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Okkur blandast ekki hugur um að það eru mörg tækifæri í þessum greinum sem við erum að ræða hér. Það sýna líka dæmin að margir eru stórhuga á þessu sviði og hafa náð miklum árangri og við þekkjum mörg dæmi um það. Bara til að nefna tvö dæmi hvort úr sínum geiranum þá vil ég nefna fyrirtækið Stofnfisk sem er að flytja út frjóvguð laxahrogn, út um allan heim, og var að tilkynna nú fyrir nokkrum dögum um einn stærsta slíkan samning sem það hefur gert við bandaríska fiskeldisstöð, stóran samning til fimm ára. Ég get líka nefnt fyrirtæki á borð við Friðheima og stórhuga eigendur þess sem eru að nýta tækifærin.

En það sem ég vildi leggja til málanna í seinni ræðu minni er að á þessum sviðum, eins og öllum öðrum, þurfum við að gæta þess að starfsumhverfið sé gott. Mér dettur í hug, af því að það er hæstv. nýsköpunar- og iðnaðarráðherra sem er hér til svara, að það væri forvitnilegt að láta gera úttekt á vegum OECD á starfsskilyrðum og samkeppni og samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar og fiskeldis. Ég er viss um að það væri afar fróðlegt að sjá hvað kæmi út úr slíkri könnun. Ég held að hér eins og svo víða annars staðar skipti máli að menn og fyrirtæki og konur fái að njóta sín og fái sem best svigrúm til þess að geta skapað það sem hjartanu er næst. Ég held að þetta sé mjög mikilvægur þáttur í því að okkur takist að byggja upp alvöruatvinnugreinar sem geta skapað verðmæti, vinnu og störf hér innan lands en ekki síður ef við ætlum að ná árangri í útflutningi.



[16:19]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það er oft talað um nýsköpun en sú umræða vill verða loðin. Það sem vantar er að bent sé á tiltekin atriði. Varðandi fiskeldið þá gætum við Íslendingar lagt áherslu á frekari tækniþróun eldis í lokuðum kerjum á landi en líka í sjó. Þar yrði hægt að hreinsa allan úrgang úr frárennsli og í laxeldinu yrði hægt að losna við laxalús en hún getur orðið mikið vandamál sem stundum þarf að nota eitur til að vinna bug á. Ísland gæti stundað eigið fiskeldi með því að nota einvörðungu innlend fóðurefni, svo sem fiskimjöl og lýsi. Þannig yrði hægt að útiloka notkun sojamjöls sem er framleitt í Suður-Ameríku þar sem verið er að brenna niður regnskóga til að rækta sojabaunir. Í þeirri ræktun er einnig notaður illgresiseyðir sem getur skilað eiturefnum í fóðrið.

Ef Ísland gæti byggt upp laxeldi í lokuðum kerjum þar sem fóður væri einvörðungu framleitt úr innlendu hráefni, sem aflað væri á fiskimiðunum í kringum landið, þá gætum við náð sérstöðu á mörkuðum með hreina afurð, umhverfisvænum íslenskum laxi eða bleikju, allt framleitt úr íslensku hráefni. Afurð sem væri framleidd með sjálfbærum hætti. Þarna yrði á ferðinni alvöru nýsköpun á sviði framleiðslu á ferskum matvælum til útflutnings. Við eigum að velja þessa leið í fiskeldinu en ekki ala norskan lax á norsku fóðri með norskum aðferðum og norskum búnaði og að hluta með norskum starfsmönnum. Slíkt er ekki nýsköpun. Það er nýlendustefna og mun aldrei geta unnið okkur inn neina sérstöðu á mörkuðum. Þar verðum við bara í samkeppni við Noreg, Færeyjar og Síle um að selja norskan eldislax.



[16:21]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa gagnlegu umræðu og minna á það að umræður á Alþingi eins og um þetta mál sýna að það er ótrúlegur samhljómur um þessi mál þótt menn hafi eitt og annað að gagnrýna. Mig langar að benda á svona í gegnum umræðuna þessa auðlindagarðshugmynd, þ.e. að gjörnýta jarðhitann og allt sem frá honum kemur á stærri virkjunarstöðvum. Það er mjög mikilvægt og eins að sveitarfélögin komi inn, eins og Orkídea, þetta fyrirbæri sem er til á Suðurlandi, samvinnufyrirbæri sveitarfélaga, Landsvirkjunar og fleiri aðila. Það er mikilvægt að þessi hluti framkvæmdarvaldsins sé að spila með.

Mig langar líka að nefna nauðsyn þess að orkuframboð sé nægt og auðveldar tengingar og að það taki ekki langan tíma að fá 1 eða 2 eða 3 MW í tiltölulega stór fyrirtæki sem eru í burðarliðnum.

Svo eru það skipasamgöngur. Það er jú þannig að það eru komin tvö ekjuskip sem nota Þorlákshöfn sem á að endurbæta mjög, fyrirhugaðar eru endurbætur á Njarðvíkurhöfn og á öðrum miðlægum höfnum hér á landi sem allar auðvelda skipaflutninga frá landinu. Það er verið að taka á því.

Mig langar einnig að minnast á aukinn stuðning við nýsköpun og ylrækt og annað slíkt í landinu. Það virðist sem sumir þingmenn hafi ekki hlustað á okkur hæstv. ráðherra hér en við vorum að telja upp ótal atriði sem sýna fram á að það er verið að styrkja umhverfið og bæta það. En hvað sem öllu þessu líður eru næg verkefni fram undan, hvort sem er handa þessari ríkisstjórn eða þeirri næstu, að raungera það sem við erum að tala um hér í salnum.



[16:23]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu þar sem margt áhugavert kom fram. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu þá lít ég svo á að við höfum þegar tekið ákvörðun um að sækja fram á þessu sviði. Þar erum við, þangað ætlum við og við erum að taka ákvarðanir og fara í aðgerðir til að ná því. Líti menn á stefnumörkun okkar má sjá það. Líti menn á aukinn stuðning má sjá það. Skoði menn nýsköpunarstefnu og orkustefnu má sjá það. Matvælastefna er á lokametrunum. Stefnumörkun Íslandsstofu talar sömuleiðis inn í þetta og tækifærin út á við, þessi hringrás auðlinda og auðlindagarðarnir, eru algjört lykilatriði. Það í bland við hugvitið og fjármagnið og markaðssetningu gerir okkur kleift að sækja fram. Við þurfum skýrar reglur og við þurfum einfaldari reglur. Við þurfum að vera viss um að við séum ekki hamlandi þáttur heldur tryggja að farvegurinn sé greiður og samkeppni sé til staðar. Við eigum að byggja á styrkleikum okkar sem eru t.d. orkan, hreint vatn, heitt vatn, hugvit, stuttar boðleiðir o.s.frv. Hlutverk okkar hér er að mínu mati að tryggja að við séum að byggja og efla umhverfið þannig að það sé öflugt umhverfi fyrir einstaklinga til að sækja fram.

Hér var komið töluvert inn á flutnings- og dreifikostnað raforku varðandi grænmetisbændur. Ég vildi bara nefna að við niðurgreiðum tæplega 90% af flutnings- og dreifikostnaði í þá veru, þannig að það sé sagt. Mér fannst í málflutningi einstakra þingmanna eins og þar væri ekki mikið gert en það er nú aldeilis ekki svo. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að það væri áhugavert að fara í OECD-vinnu að þessu leyti. Þar væri líka áhugavert að sjá samanburðinn við önnur lönd, við hvað við erum að keppa. Við vitum að allt er þetta mjög niðurgreitt og stýrt. Það sem við erum að ræða hér er kannski tækifæri til að gera hlutina með aðeins öðrum hætti og að mínu mati skiptir mestu máli að umhverfið sé skýrt, skilvirkt, leikreglur skýrar, af því það er með þeim metnaði og hugviti sem við náum raunverulegum árangri.