151. löggjafarþing — 22. fundur
 18. nóvember 2020.
breytingar á lögum um fjöleignarhús.
fsp. BjG, 62. mál. — Þskj. 62.

[17:31]
Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Síðustu mánuðirnir hafa sannarlega minnt okkur á mikilvægi brunavarna. Frá því í maí hafa sex einstaklingar hér á landi látist af völdum eldsvoða, en svo mörg mannslát af þeim völdum höfum við ekki séð á einu ári í a.m.k. 40 ár. Þessi sorglegu atvik hafa eðlilega vakið upp umfangsmikla umræðu um brunavarnir í íbúðarhúsnæði en einnig um húsakost og aðbúnað erlends verkafólks sem starfar hér á landi, auk þeirrar ábyrgðar leigusala að tryggja gæði og öryggi húsnæðis. Þessa umræðu tel ég vera af hinu góða og vona að hún leiði til áþreifanlegra umbóta á þessum sviðum. Það er jú lífsnauðsynlegt að fólk sem býr í þessu ríka landi eigi kost á að búa í öruggu og viðunandi húsnæði sem fullnægir öllum kröfum samfélagsins, hvort sem það dvelur hér til skemmri eða lengri tíma. Það eru sjálfsögð mannréttindi að eiga öruggt skjól.

Því vakti það mig til umhugsunar þegar ég las frétt síðsumars um að kona sem býr í ósamþykktri þakíbúð í miðbæ Reykjavíkur hafi lent í erfiðleikum við að ráðast í úrbætur á brunavörnum á íbúð sinni vegna neitunar eins nágranna síns. Hún hafði einmitt ákveðið að taka brunavarnir í íbúð sinni fastari tökum í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg. Það er vissulega eðlileg meginregla að sumar breytingar í fjöleignarhúsum séu háðar samþykki meiri hluta eða jafnvel allra eigenda. Eitt af grunnstefjunum í lögum um fjöleignarhús er einmitt að íbúðareiganda beri að taka eðlilegt og sanngjarnt tillit til annarra eigenda. Hins vegar er bagalegt að nágranninn geti alfarið komið í veg fyrir að eðlilegar úrbætur í þágu brunavarna eigi sér stað, úrbætur sem geta jafnvel afstýrt stórslysum eða því að fólk lokist inni. Tillitssemin þarf að ganga í báðar áttir. Aðrir íbúðareigendur þurfa þannig að taka tillit til þeirra miklu hagsmuna sem hver og einn íbúðareigandi hefur af öruggum brunavörnum.

Ég velti því upp hvort ekki þurfi að gera bragarbót á þessu til að gera fólki auðveldara að tryggja að það búi við fullnægjandi brunavarnir, að það sé ekki undir einum nágranna eða eiganda komið hvort farið sé í slíkar framkvæmdir. Rétt gæti verið að ráðast í lagabreytingar í tengslum við það hvernig ákvarðanir eru teknar í húsfélögum um þessi mál. Jafnvel þyrfti að skoða stjórnsýsluna í sambandi við slíkar breytingar á húsnæði. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggist leggja til breytingar á lögum um fjöleignarhús með það að markmiði að auðvelda eigendum einstakra íbúða að ráðast í framkvæmdir í þágu brunavarna sem yfirvöld hafa þegar samþykkt. Ef svo er, megum við vænta frumvarps þar að lútandi? Hvaða breytingar sér ráðherrann fyrir sér?



[17:34]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka málefni brunavarna upp hér í sölum Alþingis og segja að ég deili áhyggjum hv. þingmanns og líka hryggð yfir þeim fjölda dauðsfalla sem verið hafa af völdum bruna síðastliðið ár, bæði á Bræðraborgarstíg og vegna fleiri bruna sem átt hafa sér stað, til að mynda nú nýlega í uppsveitum Borgarfjarðar. Ég deili líka skoðun hv. þingmanns á mikilvægi þess að efla brunavarnir hér á landi.

Þegar málaflokkurinn fluttist yfir til félagsmálaráðuneytisins og við stofnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar var eitt af því sem horft var sérstaklega til það hvernig hægt væri að efla brunavarnir. Ein af lykiltillögunum hvað það snertir var að hefja þá sókn á því að setja upp sérstakt brunavarnasvið innan Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar, sem þýðir að eitt fjögurra sviða stofnunarinnar, og þar af leiðandi um 25% af starfsemi hennar, ætti að leggja áherslu á brunavarnir á næstu árum. Það ætti m.a. að snúa að slökkviliðum, útbúnaði slökkviliða, forvörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum og eins mögulegum breytingum á lagaumhverfi. Hluti af þessum aðgerðum er þegar farinn í gang. Til að mynda er að hefjast sérstakt eldvarnaátak núna á næstunni sem miðar að því að aðstoða fólk og fjölskyldur við brunavarnir og veita þjónustu sem ekki hefur verið veitt áður. Það verður kynnt á næstunni.

Líkt og hv. þingmaður nefndi var bruninn á Bræðraborgarstíg sláandi. Í kjölfarið kom upp umræða um brunavarnir, ábyrgð leigusala og aðstæður erlendra verkamanna, allt í sama málinu. Í framhaldi af því hefst það, sem er eðlilegur farvegur, að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fer með rannsókn á brunanum. Hún vinnur að rannsókn sem er á lokametrunum, að því er ég best veit. Samhliða hefur verið óskað eftir því að stofnunin, í samvinnu við ráðuneytið, leggi jafnframt mat á til hvaða aðgerða annarra við gætum gripið, lagaaðgerða, breytinga á lögum og öðru, til að efla brunavarnir og koma í veg fyrir atburði eins og urðu þarna. Getum við gert lagabreytingar? Getum við ráðist í breytingar sem snerta með einhverjum hætti öll þessi svið sem hv. þingmaður nefnir? Þar eru m.a. til skoðunar fjöleignarhúsalög, húsaleigulög og fleiri lög sem tengjast með einum eða öðrum hætti brunavörnum og húsnæði fólks og eftir atvikum vinnumarkaðslöggjöf. Þó hafa þetta nú meira verið húsaleigulög, fjöleignarhúsalög, aðstæður og byggingarreglugerðir og fleira.

Ég fékk fregnir af því bara í síðustu viku að rannsóknin væri á lokametrunum og að tillögur yrðu kynntar fyrir ráðherra á allra næstu dögum þannig að hægt væri að meta til hvaða aðgerða væri hægt að grípa til hratt. Ég get ekki tekið afstöðu nákvæmlega til þeirrar tillögu sem hv. þingmaður rakti hér og þess dæmis sem að baki býr, ég sá reyndar ekki fréttina sem hv. þingmaður vísar til, en ég mun koma þessu strax til þeirra sem vinna að þessari úttekt. Við eigum ekki bara að geta rannsakað brunann og orsök hans heldur líka velt því fyrir okkur hratt hvaða breytingar þurfi að ráðast í og við getum ráðist í til að bæta úr og draga úr líkum á því að svona geti gerst aftur í íslensku samfélagi.

Ég hef því kannski ekki beint svar fyrir hv. þingmann um hvort og hvernig og hvaða lagabreytingar ég sjái fyrir mér að ráðist verði í, einkum og sér í lagi vegna þess að við ákváðum samhliða þessu að setja ákveðna vinnu af stað, sem ég vonast til að ljúki núna vel fyrir jól þannig að við getum sett meiri kraft í þetta strax á nýju ári.



[17:40]
Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Það er ágætis umfjöllun í dag um Bræðraborgarstígsmálið. Þar kemur fram að eldvörnum hafi verið verulega ábótavant, eins og við höfum heyrt. Það voru engar svalir, það var ein flóttaleið af rishæðinni, stigi sem stóð í ljósum logum, slökkvitæki höfðu ekki verið tekin út lengi o.s.frv. Það er auðvitað margt undir í því eina dæmi. En það sem mér finnst vera útgangspunkturinn er þegar einhver getur hreinlega stöðvað það að maður búi sér til líflínu, að maður búi sér til neyðarútgang. Við heimilum að fólk sé með skráð lögheimili jafnvel þó að íbúð sé ósamþykkt. Þar held ég að löggjafinn sé ekki alveg að tala við sjálfan sig, að heimila það, en um leið segja svo einhver önnur lög að eiginlega sé hægt að meina fólki að hafa slíkan neyðarútgang.

Það er gott að heyra að vinna hafi farið í gang og einhverra hugmynda eða tillagna sé að vænta. Við megum ekki draga þetta of lengi. Eldvarnaátak hefst gjarnan á þessum árstíma þegar jólin eru fram undan og aldrei eins mikil hætta á að eitthvað af þessum toga gerist. Það er því miður árstíminn. Mér finnst það bara ömurlega staðreynd að við skulum hafa misst svona margt fólk á þessu ári í eldsvoða, fleiri en í yfir 40 ár. Það hlýtur að ýta við okkur og ég vona að ráðherra verði með eitthvað fyrir okkur til að moða úr eftir áramótin, það þykir mér vera ábyrg vinna og afstaða í ljósi aðstæðna.



[17:42]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Bruninn á Bræðraborgarstíg var þess eðlis að hann snerti á svo mörgum flötum sem tengjast þessu með einum eða öðrum hætti og við vildum leyfa því að ganga í gegn, fá tillögur þaðan og vinna samhliða þeirri rannsókn tillögur að því hvað betur mætti fara og hvaða lagabreytingar við sæjum fyrir okkur. Það dæmi sem hv. þingmaður rekur hér er auðvitað, eins og fréttin birtist, að einhverju leyti sláandi. Við höfum gjarnan talað um að við séum öll sóttvarnir. Við erum líka öll brunavarnir og löggjöfin á ekki að koma í veg fyrir að við getum sinnt því hlutverki okkar að vera öll brunavarnir. Það held ég að þurfi að vera leiðarljósið. Ég held að það þurfi ekki alltaf svakalegar fjárinnspýtingar til að gera breytingar heldur eru einfaldar lagabreytingar einfaldlega vel til þess fallnar. Þessi fyrirspurn hreyfir við málum og hún fer inn í þessa vinnu. Ég mun koma þeim umræðum, sem hér hafa farið fram, beint inn í þá vinnu sem er í gangi. Það munu koma aðgerðir og vonandi skilar þetta sér inn í vinnu að þeim aðgerðum sem boðaðar eru.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir að taka málið hér upp. Ég var að rifja það upp og held að þetta sé í fyrsta sinn sem ég tek þátt í umræðum um brunavarnir á Alþingi, jafn skrýtið og það nú er. Miðað við hvað við tökum mörg mál til umfjöllunar í þessum sal minnist ég þess ekki (Forseti hringir.) að hafa fyrr tekið þátt í umræðu um brunavarnir. (Forseti hringir.) Það er líka vel og ég óska hv. þingmanni til hamingju með það.