151. löggjafarþing — 22. fundur
 18. nóvember 2020.
frumvarp um skilgreiningu auðlinda.
fsp. SPJ, 193. mál. — Þskj. 194.

[17:58]
Fyrirspyrjandi (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. 20. júní 2019 var samþykkt hér tillaga til þingsályktunar um skilgreiningu auðlinda sem sá sem hér stendur var 1. flutningsmaður að. Þingsályktunartillagan hljóðar svona:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að fá sérfræðinga á sviði auðlindaréttar, umhverfisfræða og umhverfisréttar til að semja frumvarp til laga sem skilgreini hvað flokkast til auðlinda hér á landi og hverjar auðlindir Íslands eru.

Frumvarpið verði lagt fram á 150. löggjafarþingi.“

Það er akkúrat það þing sem hér stendur yfir. Spurningar mínar til ráðherrans eru svohljóðandi: Hver er staðan við vinnu að gerð frumvarpsins til laga sem skilgreinir hvað flokkast undir auðlindir, eins og ég var að lesa upp? Hvenær hyggst ráðherra leggja frumvarpið fyrir Alþingi?

Svo kom mér önnur spurning til hugar bara þegar ég var að ganga hér til ræðustóls: Er ráðherrann sammála því sem tillagan segir til um, svona í hjarta sínu?

Hugtakið auðlind er víðfeðmt og nær til margra þátta samfélagsins. Talið er að allir þættir náttúrunnar, jörðin, lífríkið, vatn, sólarljós og loft geti talist til náttúruauðlinda. Auðlindir geta verið skilgreindar sem þjóðareign, svo sem fiskstofnar. Afskipti ríkisins ná samt til margra annarra auðlinda en þeirra sem beinlínis eru taldar þjóðareign. Samfélagið sjálft hefur tekið á sig að stuðla að verndun mikilvægra þátta umhverfisins, svo sem hreinleika andrúmsloftsins, og sett reglur um nýtingu dýrastofna og annarra þátta lífríkisins. Segja má að náttúruauðlindir geti verið beinn þáttur í neyslu, t.d. útivistarsvæði og veiðisvæði fyrir villt dýr. Þær auðlindir sem ekki teljast vera náttúruauðlindir eðli málsins samkvæmt eru t.d. mannauður, þekkingarkerfi, gagnagrunnar og önnur hliðstæð verkefni sem menn hafa skapað.

Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu er farið ítarlega í saumana á þessu og þar er líka komið inn á hugsanlega gjaldtöku náttúruauðlinda hér á landi. Það á nú reyndar við um fiskveiðiauðlindina en fæstar aðrar auðlindir eru með gjaldtöku. Mun ég koma betur inn á það í seinni ræðu minni í þessari umræðu.



[18:02]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu fyrirspurn. Íslenskt samfélag byggir velsæld sína að verulegu leyti á náttúruauðlindum og nýtingu þeirra. Mikilvægi þeirra hvort sem um er að ræða sérstæða náttúru í samhengi ferðaþjónustu, lífríki sjávar fyrir sjávarútveg, hreint drykkjarvatn til neyslu eða jarðhita til húshitunar, er auðvitað ótvírætt.

Náttúruauðlindir landsins eru fjölbreytilegar að gerð og íslenskt efnahagslíf, sem byggir að stórum hluta á nýtingu þeirra, á mikið undir að slík nýting sé sjálfbær. Miklu skiptir að góð þekking sé á stöðu náttúruauðlinda og eðli á hverjum tíma og að skipulega sé unnið að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra. Um náttúruauðlindir landsins er þegar fjallað í margs konar löggjöf, auk þess sem margar stofnanir ríkisins bera ábyrgð á ólíkum þáttum sem lúta að rannsóknum, vöktun og stjórnsýslu náttúruauðlinda.

Alþjóðlega hefur orðið mikil þróun í aðferðafræði við samræmda samantekt upplýsinga um stöðu náttúruauðlinda þjóða á undanförnum árum og hefur m.a. verið gefin út leiðbeinandi aðferðafræði á vegum Sameinuðu þjóðanna og stofnana eins og OECD og Alþjóðabankans. Með því að halda saman samræmdum upplýsingum um stöðu náttúruauðlinda er stuðlað að ábyrgri og betur upplýstri ákvarðanatöku. Þannig hefur orðið til aðferðafræði sem kallast náttúruauðlindabókhald en hún felur í sér skipulagða skráningu á náttúruauðlindum sem viðkomandi ríki býr yfir á hverjum tíma. Það sem telst náttúruauðlind á einum tíma getur þróast og breyst, m.a. með framförum í tækni og þekkingu.

Hvað hefur verið gert til þess að vinna að framfylgd þessarar þingsályktunar? Við í ráðuneytinu höfum unnið að leiðbeinandi tillögum um hvernig megi skilgreina náttúruauðlindir landsins og flokka á skipulagðan hátt, m.a. með hliðsjón af fyrirliggjandi vinnu frá fyrri árum, svo sem auðlindastefnunefndar frá árinu 2000. Þá höfum við einnig horft til alþjóðlegra fyrirmynda um hvernig megi skilgreina náttúruauðlindir landsins. Þessi vinna snýst um að gera tillögur að aðferðafræði og samræmdu yfirliti yfir þær náttúruauðlindir sem landið býr yfir og hvernig þær þróast. Með þeirri vinnu getur jafnframt orðið til undirlag fyrir frekari vinnu við mögulega uppsetningu náttúruauðlindabókhalds í landinu, teljist það fýsilegt. Jafnframt hefur verið unnið að gerð yfirlits yfir þau viðmið hérlendis sem lúta að viðmiðum um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og hvernig sjálfbær auðlindanýting er sett fram í stefnumótun, lögum og reglum.

Aukinn og bættur skilningur á stöðu og eðli náttúruauðlinda styður við forsendur og samræmingu við ýmis pólitísk viðfangsefni sem lúta að náttúruauðlindanýtingu, svo sem úthlutun réttinda, samninga um nýtingu, gjaldtöku og skatta.

Svo ég dragi þetta saman þá hefur sú vinna sem unnið hefur verið að í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu snúist um eftirfarandi atriði sem hafa verið greind og tekin saman og lúta að skipulagi á utanumhaldi um náttúruauðlindir:

1. Rammi um skilgreiningar á náttúruauðlindum landsins, eðli þeirra og stöðu.

2. Tillögur að flokkun náttúruauðlinda landsins.

3. Lög og reglur sem um náttúruauðlindir gilda ásamt greiningu á fyrirliggjandi löggjöf.

4. Sjálfbærni nýtingar náttúruauðlinda, þar með talið viðmið um hana og greining á því hvernig slíku er komið fyrir í viðkomandi löggjöf.

5. Skoðun á því hvort henti að komið verði upp náttúruauðlindabókhaldi. Slíkt gæti orðið þáttur í hagtölugerð og þjóðhagsreikningum líkt og víða er unnið að í heiminum og leitt af Sameinuðu þjóðunum.

Vinna okkar í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hefur hins vegar ekki enn komist á þann stað að fjalla um sérstaklega um lagasetningu, enda nauðsynlegt að vinna undirbúningsvinnu sem lýtur að skilgreiningu auðlinda og draga fram hverjar þær séu. Það verður síðan nauðsynlegur grunnur til að byggja áframhaldandi ákvarðanatöku. Það væri sjálfsagt að kynna þessa vinnu sem nú liggur fyrir í ráðuneytinu fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, óski hún þess.

Það að setja sérstaka löggjöf um skilgreiningu auðlinda þarf hins vegar að skoða vel að mínu mati í samhengi við aðra fyrirliggjandi löggjöf og að því er unnið. Undirbúningur að breytingum á löggjöf fylgir jú ákveðnum ferlum og ég tel koma til greina að setja fram grænbók með tillögum sem byggja á niðurstöðum okkar vinnu sem kynna mætti í samráðsgátt stjórnvalda. Einnig kæmi til greina að flytja þinginu skýrslu um þessa vinnu sem fram hefur farið í ráðuneytinu. Í framhaldinu og á þeim grunni verði síðan tekin ákvörðun um hvaða breytingar henti að leggja til, annaðhvort á fyrirliggjandi löggjöf eða með nýrri löggjöf.



[18:07]
Fyrirspyrjandi (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð hans og þau svör sem hann bar hér á borð. Ég vona að hann sé kominn með frumvarp sem talað er um í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var í þinginu í fyrrasumar. Ráðherrann talaði um sjálfbærni. Í því sambandi hlýtur að vera vænlegra til árangurs ef hægt er að finna út gjald sem hægt er að greiða af viðkomandi náttúruauðlind þegar það hefur fengið þá vinnu sem þarf til að svo verði. Eins minntist ráðherrann á náttúruauðlindabókhald, sem er ansi fallegt orð og væri mjög skilmerkilegt að fá slíkt bókhald skráð.

Mig langar í þessu sambandi að minnast á aðra tillögu sem er á dagskrá, vonandi mjög fljótlega, og beinist til hæstv. fjármálaráðherra. Hún er í raun og veru framlenging á þessu þar sem Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem skili í fyrsta lagi tillögu um hvort innheimta eigi afnotagjald fyrir nýtingu auðlinda og þá hvaða auðlinda, í annan stað leggi hann fram tillögu um aðferð við álagningu auðlindagjalds sem gæti gengið fyrir allar auðlindir og gerði grein fyrir kostum og göllum þeirra aðferða og taki saman upplýsingar um hvernig gjaldtöku af auðlindanýtingu er háttað í nágrannaríkjum sem við berum okkur saman við.

Að þessu loknu vil ég þakka fyrir þann tíma sem settur hefur verið í þetta mál.



[18:09]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Það sem við erum að ræða hér og er tilefni fyrirspurnarinnar er náttúrlega mjög áhugavert og mikilvægt viðfangsefni. Það má kannski benda á að auðvitað er hægur vandi að vinna skilgreiningar á náttúruauðlindum landsins þó svo að ekki sé sett um það sérstök löggjöf. Það er kannski sú vinna sem við höfum hafið, að byrja á að skilgreina hverjar þær eru, t.d. það sem ég nefndi áðan um náttúruauðlindabókhald, sem gæti verið mjög áhugavert. Ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála um að skynsamlegt gæti verið að skoða það betur. Hagstofa Íslands safnar nú þegar ákveðnu talnaefni og birtir um atvinnuvegi sem byggja á náttúruauðlindum, svo sem um ýmis umhverfismál, þannig að þar eru líka upplýsingar sem þarf að skoða.

En ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu og ég myndi gjarnan vilja nota tækifærið til að ræða þetta við hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Jafnvel væri gaman að heyra í hv. þingmanni síðar um hvernig honum lítist á að setja fram grænbók með tillögum um þetta mál eða jafnvel skýrslu til þingsins. Ég óska eftir því að við tökum samtal um það á einhverjum tímapunkti.