151. löggjafarþing — 23. fundur
 19. nóvember 2020.
varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, 1. umræða.
stjfrv., 311. mál (markmið, áhættumat, sektir o.fl.). — Þskj. 347.

[15:06]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997. Frumvarp þetta var unnið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að höfðu samráði við Veðurstofu Íslands. Einnig hefur verið unnið með ábendingar frá ýmsum aðilum, einkum frá Veðurstofunni, sveitarfélögum, lögregluembættum og umboðsmanni Alþingis. Áform um lagasetninguna og frumvarpsdrög voru birt í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar og athugasemda.

Reglulega minna atburðir okkur á þá vá sem stafað getur af völdum ofanflóða. Aukin áhersla hefur verið lögð á varnir gegn ofanflóðum eftir fárviðrið sem gekk yfir landið í árslok 2019 og snjóflóðið á Vestfjörðum í byrjun þessa árs. Í kjölfar þess skipaði ríkisstjórnin átakshóp um uppbyggingu innviða, m.a. í þeim tilgangi að flýta uppbyggingu ofanflóðamannvirkja á hættusvæðum í byggð.

Á grundvelli tillagna fyrrnefnds átakshóps er gert ráð fyrir verulegri aukningu til ofanflóðavarna og eflingar vöktunar og styrkingar stjórnsýslu í fjármálaáætlun 2021–2025 sem nú er til umræðu hér í þinginu. Frá og með árinu 2021 er gert ráð fyrir tæplega 2,7 milljörðum kr. árlega til varna gegn náttúruvá og er það árleg aukning um 1,6 milljarða kr. frá því sem nú er. Er markmiðið að uppbyggingu ofanflóðavarna verði lokið árið 2030.

Auk uppbyggingar varnarvirkja er mikilvægt að huga að því regluverki er varðar varnir gegn ofanflóðum. Frumvarpi þessu er einkum ætlað að auka skýrleika laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum með hliðsjón af reynslunni við framkvæmd laganna.

Í frumvarpinu er gerð tillaga að markmiðsákvæðum sem byggjast á markmiðum þeim sem lágu að baki upphaflegri lagasetningu, og fram koma í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 49/1997, um að tryggja öryggi fólks á heimilum sínum með tilliti til hættu á ofanflóðum.

Skerpt er á því í frumvarpinu að eftirlitsskyldur Veðurstofu Íslands með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum, með tilliti til hættu af ofanflóðum, nái til þéttbýlis, þó að starfsemi Veðurstofunnar geti náð til alls landsins. Þá er tiltekið að eftirlit með hættu á ofanflóðum á skipulögðum skíðasvæðum sé á ábyrgð rekstraraðila þeirra, sem er í samræmi við reglugerð nr. 636/2009 um hættumat vegna snjóflóða á skíðasvæðum, og í samræmi við hvernig þeim málum er háttað víða erlendis.

Lagt er til að við lögin verði bætt ákvæði um endurskoðun hættumats eftir að ofanflóðavarnir hafa verið reistar og lagðar til tilteknar takmarkanir í tengslum við skipulag á óbyggðum svæðum. Einnig er gert ráð fyrir að lögfest verði sú skipting hættusvæða í áhættuflokka sem kveðið er á um í reglugerð nr. 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða og flokkun og nýtingu hættusvæða. Þá er lögð til breyting til samræmis við ákvæði laga um almannavarnir, nr. 82/2008, hvað varðar breytt hlutverk almannavarnanefnda.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði sú meginregla sem fram kemur í reglugerð að varnir og uppkaup húseigna nái fyrst og fremst til íbúðarhúsnæðis eða húsnæðis sem varnarframkvæmdir hafa áhrif á. Í samræmi við framkvæmdina er einnig lagt til að lögfest verði sú regla að þinglýsa beri kvöð um nýtingartíma vegna snjóflóðahættu hafi húseign verið keypt eða tekin eignarnámi.

Sektarákvæði frumvarpsins er nýmæli sem beinist að eigendum húsnæðis sem dvelja eða heimila dvöl í húseignum þegar dvöl er í ósamræmi við nýtingartíma samkvæmt þinglýstri kvöð. Tilgangurinn með ákvæðinu eru varnaðaráhrif þar sem mikilvægt er að fólk dvelji ekki í húsum á þeim tíma sem hætta er til staðar svo öryggi fólks, eigenda og annarra eins og lögreglu og björgunarsveitarmanna, sé tryggt.

Að lokum er lagt til að heiti laganna verði framvegis lög um varnir gegn ofanflóðum þar sem ofanflóð hefur verið notað sem samheiti yfir snjóflóð og skriðuföll.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.



[15:11]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps sem er endurskoðun á eldri lögum með nýju heiti, lög um varnir gegn ofanflóðum. Það er eflaust tímabært að endurskoða þetta og ég velti fyrir mér hvort ekki hefði þurft að ganga dálítið lengra. Við þekkjum það að þessi lög eru ekki ýkja gömul, afstaða okkar til snjóflóðahættu gerbreyttist eftir flóðin miklu og áföllin fyrir vestan árið 1995 þar sem 34 einstaklingar létust. Þar með opnuðust augu almennings fyrir því hversu mikil áhætta er í þessu fólgin og jafnvel í og við byggð í bæjum og þorpum á Íslandi. Snjóflóð hafa hoggið stórt skarð í raðir landsmanna á 20. öld. Það fórust 107 manns í byggð, á atvinnusvæðum eða innan þéttbýlis á 20. öldinni og 59 utan þéttbýlis. Og ég spyr hæstv. ráðherra í ljósi þessa frumvarps, það er verið að þrengja að, það er bara talað um þéttbýli og það er talað um íbúðarhús, ekki húseignir eins og var í gömlu lögunum, og hvað með þessi ákvæði og hvað með húsnæði til sveita, t.d. gripahús, falla þau undir þetta ákvæði? Og hvað með frístundasvæði sem eru oft í eða á jaðri þéttbýlis, jafnvel skíðasvæði líka? Það eru ákvæði um það í þessu frumvarpi ef ráðherra vildi koma aðeins inn á þetta.



[15:13]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Því er til að svara að ekki er hér um að ræða breytingu á framkvæmd laganna. Eins og lögin eru í dag og eins og þau hafa verið framkvæmd á grundvelli þeirra reglugerða þá er sjónum hér fyrst og fremst beint að íbúðarhúsnæði og í raun er verið að ítreka það, sérstaklega með markmiðsákvæðinu sem sett eru inn í lögin og byggja á greinargerðinni sem fylgdi upphaflegu lögunum, að þetta eigi sér í lagi við um íbúðarhúsnæði. Hins vegar er það tekið skýrt fram að ef varnarvirki sem byggð eru til að verja íbúabyggð hafa þau áhrif að þau beina flóðum t.d. að öðrum byggingum geta lögin tekið til slíkra bygginga líka. En það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það er ákveðinn munur á því sem en snýr að úttekt á hættu á ofanflóðum. Hægt er að fara í bæði það sem snýr að þéttbýli og dreifbýli og er einmitt verkefni Veðurstofunnar. En hér er ekki um breytingar að ræða á framkvæmd laganna.



[15:15]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Varðandi þetta frumvarp: Kom aldrei til álita, leyfi ég mér að spyrja, að tekin yrði afstaða til víðtækari verkunar, þ.e. að þetta varðaði ekki bara ofanflóð? Við þekkjum það að við getum orðið fyrir náttúrulegum áföllum af ýmsu tagi og þekkjum dæmi um ofsaveður og jafnvel hvirfilbyli og annað eftir því. Var ekki hugleitt að þetta yrði víðtækari skilgreining á náttúruvá eða tjóni, t.d. af sjóflóðum eins og við þekkjum dæmi um?

Síðan er verið að skilgreina nánar hlutverk Veðurstofunnar sem mun annast þetta nema að sveitarfélögunum er gert að hafa eftirlit með skíðasvæðum sem geta verið álitamál því að skíðasvæðin eru oft í jaðri byggðar, hvort ekki er hægt að finna einhvern samlegðarflöt þarna. Í lögunum segir líka að sveitarfélag sé eigandi varnarvirkja og beri ábyrgð á viðhaldi þeirra. Verður komið til móts við sveitarfélög að þessu leyti, því að þetta eru gríðarleg mannvirki? Ef tjón verður, hvað þá? Síðan er ofanflóðagjaldið fest í sessi. Það hefur verið gagnrýnt hvernig því gjaldi hefur verið ráðstafað. Það voru 13,6 milljarðar til í sjóði árið 2018, samkvæmt ríkisreikningi. Á þessu ári innheimtir ríkið líklega um 2,7 milljarða kr. í ofanflóðagjald. Er það tryggt, hæstv. ráðherra, að nú verði settur kraftur í þetta og því gjaldi sem innheimt er verði varið til varnaraðgerða?



[15:17]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið heilmikil umræða um það hvort við þurfum ekki að ná betur utan um fleiri gerðir af náttúruvá og hér nefnir hv. þingmaður m.a. sjóflóð. Það mætti nefna fleiri gerðir af náttúruvá en það. Ég vil benda á að í gildi hefur verið bráðabirgðaákvæði við lögin sem eru í gildi til 31. september 2022, þar sem er heimilt að nota fé úr ofanflóðasjóði til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða. Það er í raun undirbúningsvinna sem þar á sér stað til að meta hættuna af þessum gerðum af náttúruvá til að byggja megi á því í framtíðinni varðandi það að geta hugsanlega farið að setja fjármagn í að verja slíkt líka. Það hefur hins vegar verið almenn sátt um að það fjármagn sem fer úr ofanflóðasjóði sé til að verja líf fólks og þá fyrst og fremst í íbúðabyggð. Þetta frumvarp er í raun sett fram til að skerpa á þeirri framkvæmd sem hefur verið samkvæmt lögunum.

Hv. þingmaður kom líka inn á fjármögnunina á þessu. Eins og ég sagði í framsöguræðu hafa í fjármálaáætlun verið tryggðir 1,6 milljarðar kr. á hverju ári í þessi mál og bætist við það sem fyrir var, sem var 1,1 milljarður kr., þ.e. samtals 2,7 milljarðar kr.



[15:20]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég er ánægður með að hæstv. ráðherra hafi lagt þetta frumvarp fram og ég tel að hér sé mjög margt til bóta í þessum málum. Málið mun koma inn í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þar sem við munum fara yfir ýmislegt af því sem hér hefur komið fram, bæði í máli hæstv. ráðherra sem og í andsvörum. Að mínu viti eru einmitt margir hlutir sem þarf að skoða þegar að þessum málum kemur, bæði hvernig framkvæmdin hefur verið hingað til og líka hvort við ættum að víkka þetta út eða hvernig sem það er. Ég hef horft til þess, eins og hv. þm. Guðjón Brjánsson, hvernig skíðasvæði koma inn í þessi mál, þar sem matið er á einum stað en eftirlitið á öðrum, hvað þetta þýði fyrir þau sveitarfélög sem eru með skíðasvæði á sínum svæðum, hvaða kröfur koma annars staðar frá og sveitarfélögin þurfa að standa undir o.s.frv. Nefndin mun væntanlega setjast yfir þetta og finna lausn, hvernig best er að haga þessu. Líf fólks er náttúrlega víðar en á heimilum og í litlum þorpum. Það þarf að horfa heildstætt á hvernig daglegt líf fólks er. Hér er hins vegar færi á að setjast yfir þessi mál og skoða í nefndinni. Það eru mörg góð sjónarmið sem komið hafa fram. Verði þetta að lögum, sem ég vona innilega, mun sú meðferð sem málið fær í nefndinni verða mjög til bóta. En ég vildi bara nefna þau atriði sem ég tel að þurfi að setjast sérstaklega yfir.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.