151. löggjafarþing — 35. fundur
 10. desember 2020.
kostnaður við ný markmið í loftslagsmálum.

[10:32]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Eftir þrjú ár í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks kynnir forsætisráðherra ný markmið í loftslagsmálum. Í stað þess að draga losun saman um 40%, sem hefur þótt metnaðarlítið, er nú stefnt að 55% samdrætti. Það vekur athygli að þetta er kynnt í Morgunblaðinu í morgun eftir að ríkisstjórnin hefur lagt fram sín síðustu fjárlög, sem eru til umræðu í þinginu í dag. Þetta er ekki svo langt frá markmiðum Samfylkingarinnar. Í ábyrgu leiðinni og þingmáli okkar um græna atvinnubyltingu, sem liggur nú fyrir þinginu, gerum við ráð fyrir 60% samdrætti og látum fylgja markvissar aðgerðir um hvernig eigi að efna það.

Það sem vefst ögn fyrir mér núna er að það var ljóst þegar við vorum að vinna okkar mál að í þetta þarf fjármuni. Við áætluðum að kostnaðurinn við aðgerðirnar yrði um 20 milljarðar kr. strax á næsta ári þó að vissulega skili eitthvað sér til baka að hluta. Við upphaf 2. umr. fjárlaga í dag liggur hins vegar fyrir að þessi nýju áform hæstv. forsætisráðherra eru ófjármögnuð, einungis 0,1% aukning af landsframleiðslu til umhverfismála, við þekkjum það, og svo sannarlega er ekki gert ráð fyrir þessum nýju markmiðum í fjárlögum.

Ég spyr því einfaldlega: Er ríkisstjórnin ekki heldur ósamstiga ef hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er ekki tilbúinn til að fjármagna markmið hæstv. forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna í fjárlögum? Kemur til greina, hæstv. fjármálaráðherra, að stjórnarflokkarnir greiði atkvæði einfaldlega með breytingartillögu Samfylkingarinnar við fjárlög, um aukin framlög til loftslagsmála, svo einhver raunverulegur möguleiki sé á að við getum efnt þetta? Eða er þetta einungis billegt kosningaloforð úr forsætisráðuneytinu?



[10:34]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að þessi ríkisstjórn hafi sýnt mjög skýrlega vilja sinn í verki í þessum málaflokki. Ef við tökum til samanburðar fjármálaáætlun sem lá hér fyrir þinginu á árinu 2017 og var sú sem tekin var upp af núverandi ríkisstjórn, og skoðum hvað breyttist í umhverfismálum við samsetningu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr þá sjáum við muninn mjög skýrt. Ef horft er til ársins 2022 var í eldri fjármálaáætlun gert ráð fyrir því að við settum 16 milljarða til umhverfismála á árinu 2022. Því var strax breytt þannig að stefnt var að því að 20 milljarðar færu í það, m.a. til að ná meiri árangri í loftslagsmálum. Smám saman hefur sú fjárhæð verið að hækka á árinu 2022. Það er eftir rúmt ár sem árið 2022 gengur í garð. Núna stendur fjármálaáætlun, sem liggur fyrir þinginu, þannig að árið 2022 er það komið upp í 24,5 milljarða — 24,5 milljarða. Þannig að við erum að tala um í kringum 50% aukningu, og rúmlega það, í þennan málaflokk, 8,5 milljarða á ári. Það er viðbótin sem farið hefur í umhverfismál. Þessi ríkisstjórn uppfærði áætlanir sínar í sumar og kynnti það sérstaklega.

Nú er verið að setja markið enn hærra fyrir árið 2030 hvað varðar loftslagsmarkmiðin og ég hefði haldið að menn myndu taka því fagnandi. Við eigum auðvitað eftir að útfæra það á hverju ári og mæla árangurinn á hverju ári, nákvæmlega hvernig við ætlum að komast á leiðarenda. Eitt af því sem við erum að gera er að gera einkageiranum betur kleift að koma með okkur í þessa vinnu með sérstöku frumvarpi um ívilnanir og skattalega hvata fyrir einkageirann til fjárfestinga í grænum lausnum. Það er sérstakt þingmál sem kemur hér. (Forseti hringir.) Þannig að þetta er ekki allt saman í einu þingmáli heldur eru þetta mörg þingmál og fjármögnun annars staðar.



[10:36]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Fjárlögin og fjármálaáætlunin hljóta náttúrlega að miða við þessa 40% losun og það á enn eftir að útskýra hvernig á að fjármagna þá viðbót, þótt styðji ég hana vissulega. Það er rétt að það hefur að vísu orðið talsverð aukning, 30 milljarða kr. aukning, í umhverfismálin en helmingurinn rennur til ofanflóðasjóðs. Það hefur orðið 80 millj. kr. aukning milli umræða hérna um fjárlögin en af því fara stórar upphæðir til minkabænda, þannig að hér fara ekki saman hljóð og mynd. Hæstv. fjármálaráðherra verður einfaldlega að svara mér: Hvernig ætlar hann að fjármagna þetta? Er hann að ávísa þessu yfir á næstu ríkisstjórn eða er þetta kannski vísbending um að hæstv. forsætisráðherra sé farin að undirbúa það að hún þurfi að leita sér að nýju stjórnarmynstri til þess að hún geti unnið með flokkum sem svo sannarlega styðja loftslagsmarkmið hennar? Hæstv. fjármálaráðherra verður einfaldlega að gera grein fyrir því hvernig (Forseti hringir.) hann ætlar að koma með peninga inn í þessar aðgerðir á næsta ári.



[10:37]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ég hef ekki lesið tillögur Samfylkingarinnar um þetta mál en ef ég heyrði rétt hjá hv. þingmanni þá sagði hann að þær kostuðu 30 milljarða. Mér finnst sú tala bara út í hött, ef það er rétt tekið eftir hjá mér að tillögurnar kosti 30 milljarða. Það var það sem kom fram í ræðu áðan. (LE: 20 milljarða.) Það kostar 20 milljarða, afsakið. Við teljum að þeim árangri sem að er stefnt með þessari nýju yfirlýsingu megi ná með því að færa milljarð sérstaklega í þessi verkefni. Ég er ekki alveg sannfærður um að í rúmlega 1.000 milljarða fjárlögum þurfi að bæta við 1 milljarði í þennan málaflokk til að árangrinum megi ná. Það sem við eigum að gera er að skoða hvort við getum forgangsraðað rúmlega 1.000 milljörðum þannig að þessi eini milljarður að meðaltali á ári á tíu árum fari til þessara verkefna. Það eru margar leiðir að því markmiði, eins og ég sagði áðan, m.a. að koma með ívilnanir fyrir einkageirann (Forseti hringir.) og það frumvarp er að koma núna til þingsins.