151. löggjafarþing — 35. fundur
 10. desember 2020.
valfrelsi í heilbrigðiskerfinu.

[10:39]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram ótal tillögur, frumvörp og fyrirspurnir á umliðnum árum með það að markmiði að leysa flækjur innan heilbrigðiskerfisins, tryggja valfrelsi og að fókusinn verði settur á fólkið okkar, líðan og heilbrigði, hvorki kerfisflækjur né pólitískar kreddur, einfaldlega að þjónustan sé veitt óháð því hvort það sé ríkið eða sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk sem veiti hana. Afstaða Vinstri grænna, með heilbrigðisráðherra í forsvari, liggur alveg fyrir. Þau vilja ekki að einkaframtakið sé nýtt og vilja frekar styrkja opinbera kerfið. Gott og vel. Þar hefur heilbrigðisráðherra staðið við stóru orðin og þrengt verulega að sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki og sjálfstætt starfandi hjúkrunarheimilum. Upp á þetta hefur síðan Sjálfstæðisflokkurinn kvittað og má í raun segja að hann sé samsekur í sniðgöngu ríkisstjórnarinnar gagnvart sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki. Við vitum það að hluti af viðspyrnu heilbrigðiskerfisins verður að vera með hjálp sjálfstætt starfandi aðila. Biðlistarnir hrannast upp og vandamálið stækkar bara og stækkar. Þetta hefur landlæknir líka ítrekað bent á.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvar er Sjálfstæðisflokkurinn staddur núna? Styður hann það að einkaframtakið sé núna betur nýtt innan heilbrigðiskerfisins til að tryggja valfrelsi, til að tryggja þjónustu? Eða ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að vera stikkfrí í þessum málum?



[10:40]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessar tilraunir til þess að skilgreina stefnu Sjálfstæðisflokksins í einum málaflokknum á eftir öðrum vera hálfhallærislegar. Við höfum áratugasögu um að vilja virkja kosti einkaframtaksins í heilbrigðismálum. Það höfum við sýnt í verki, m.a. þegar við vorum síðast í heilbrigðisráðuneytinu. Þá tryggðum við að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins var endurfjármögnuð, leyfi ég mér að segja, með því að fé fylgir sjúklingum. Þannig losnaði um alls konar stíflur sem byggðu á því að fólk þurfti áður að vera skráð á einhverja tiltekna heilsugæslustöð og það varð til samkeppni, sem er nú að færast yfir á landsvísu.

Hv. þingmaður fjallaði hérna um stefnu heilbrigðisráðherra. Ég ætla að koma aðeins til varnar fyrir heilbrigðisráðherra hvað það snertir að ráðherrann hefur lagt áherslu á að við þurfum að forgangsraða fjármunum til þess að leysa vandann inni á spítölunum sem snertir fólk sem á ekki þar lengur heima og hefur fengið úrlausn heilbrigðisvandamála sinna. Þetta er rétt hjá heilbrigðisráðherranum, það þarf að leita lausna til að gera þetta. Meðal annars þess vegna erum við núna að setja í 2. umr. fjárlaga fjármögnun á bak við 100 ný hjúkrunarrými svo að við hámörkum afkastagetu heilbrigðiskerfisins í heild, vegna þess að það er dálítið hættuleg hugsun að setja þetta allt upp í einhver síló og skoða ekki innbyrðissamspil einstakra þátta heilbrigðiskerfisins. En ég átta mig ekki alveg á því hvaðan menn fá hugmyndir um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eitthvað dregið úr áherslum sínum á að það beri að nýta kosti einkaframtaksins í heilbrigðiskerfinu.



[10:43]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Flóttinn mikli er hafinn. Aumari útúrsnúninga varðandi það hver stefna ríkisstjórnarinnar, og þar með talið Sjálfstæðisflokksins, hefur verið á síðastliðnum þremur árum hef ég ekki heyrt. Það er alveg með ólíkindum að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki horfast í augu við að það hefur beinlínis verið sniðganga gagnvart sjálfstætt starfandi heilbrigðisfólki. Biðlistavandinn verður ekki leystur með því að hrúga fólki inn í opinbera kerfið. Það er ekki nægilega stórt og ræður hreinlega ekki við verkið. Ég kalla eftir því að stjórnvöld opni augun fyrir raunveruleikanum því að pólitíska ábyrgðin liggur hjá þeim. Það á ekki að vera nein frétt fyrir hæstv. fjármálaráðherra að hann sé í ríkisstjórn. Við erum með biðlista eftir geðheilbrigðisúrræðum um land allt, með biðlista eftir liðskipta- og mjaðmaaðgerðum, biðlista eftir sérgreinaþjónustu, biðlista eftir sálfræðiþjónustu, biðlista eftir því að komast á biðlista. Finnst hæstv. fjármálaráðherra þetta vera boðlegt ástand? Ég veit að það er erfitt fyrir hann að svara þessu. Getur verið að hin eiginlega fyrirstaða, og ég velti því fyrir mér, sé ekki lengur í heilbrigðisráðuneytinu heldur allt eins í fjármálaráðuneytinu? Ég veit ekki hvort ég þarf að stafa það ofan í hæstv. fjármálaráðherra, en heilbrigðismál og velferðarmál eru líka hægri mál. Og það er þjóðhagslega hagkvæmt að gera betur, mun betur hér.



[10:44]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst þessi málflutningur vera einn hrærigrautur þar sem öllu er blandað saman. Hér er farið með einhverja frasa sem maður áttar sig ekki á að feli í sér neina spurningu í þessum fyrirspurnatíma. (Gripið fram í: Er þetta viðkvæmt?) Þetta er ekki viðkvæmt mál vegna þess að við höfum sögu að segja og hún hefst á upphafsárum þessarar ríkisstjórnar. Við höfum verið að auka framlög til sjálfstætt starfandi stétta. Ég get nefnt sjúkraþjálfara sérstaklega, sem er sjálfstætt starfandi stétt, og breytinguna sem hefur orðið í aðgengi að þeirri þjónustu í tíð þessarar ríkisstjórnar. Eigum við að taka tannlækningar sem annað dæmi og niðurgreiðslu á tannlæknaþjónustu fyrir eldri borgara? Þarna erum við með sjálfstætt starfandi heilbrigðisstétt sem við höfum verið að fjármagna þjónustuna betur fyrir. Ég nefndi rétt áðan að við erum að bæta 100 nýjum hjúkrunarrýmum inn á fjárlög næsta árs til þess að (Forseti hringir.) losa um stíflur í heilbrigðiskerfinu. Allt eru það skýr dæmi um að við erum að leysa vandamál.