151. löggjafarþing — 35. fundur
 10. desember 2020.
launamál og hækkun almannatrygginga.

[10:59]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þrjár laufléttar spurningar fyrir ráðherra launamála ríkisins. Í vinnslu við fjármálaáætlun og fjárlög þetta árið hefur margt áhugavert komið fram og margt af því hefur verið um launamál. Til að byrja með var það vegna hallareksturs Landspítala – háskólasjúkrahúss. Um það hef ég spurt hæstv. ráðherra áður og hann segir að ráðuneytið hafi reiknað launahækkanir samkvæmt kjarasamningum lækna rétt, en launabókhald Landspítala – háskólasjúkrahúss sýnir samt hækkun umfram þá útreikninga. Maður stendur eftir og spyr: Bíddu, hvað er þá rétt í raun og veru, útreikningarnir eða rauntalan sem greidd er í laun þegar allt kemur til alls?

Næsta spurning varðar líka laun og er mjög einföld: Af hverju fá almannatryggingar ekki lífskjarasamninga; lífeyrir öryrkja eða aldraðra og atvinnulausra? Af hverju eru launahækkanir samkvæmt lífskjarasamningum ekki inni í fjárlögum?

Síðast spyr ég um atriði sem ég hef spurt ráðuneytið nokkrum sinnum um á fundum fjárlaganefndar: Um mitt ár var launahækkunum þingmanna og ráðherra frestað til áramóta. Ég hef verið að spyrja hversu mikið laun ráðherra og þingmanna hækki um áramótin. Fyrst svaraði ráðuneytið: Við erum ekki með það núna. Við svörum því eftir fundinn. Svo leið helgi, rétt áður en umræðan kláraðist, og ekkert svar. Ýtt var á eftir því þegar fulltrúar ráðuneytisins komu á fund okkar en þeir sögðust ekki heldur vera með svörin þá og ætluðu að svara strax eftir fundinn. Nú er kominn fimmtudagur og engin svör hafa komið enn. Af hverju svarar ráðuneytið ekki spurningum fjárlaganefndar?



[11:01]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi launamálin og hallarekstur stofnana — í þessu tilviki er talað um Landspítalann sérstaklega — þá gerum við ráð fyrir því við fjárlagagerðina að allar umsamdar launahækkanir séu fjármagnaðar, tryggðar öllum ríkisaðilum í fjárlögum. Einstaka ríkisaðilar gera síðan sérsamninga, hver fyrir sig. Inni á stofnunum getur þannig komið til þess, alveg óháð kjarasamningum eða niðurstöðu þeirra, að það verði launaskrið, að menn telji ástæðu til þess að halda í einstaka heilbrigðisstarfsmenn o.s.frv. Á þeirri þróun verða stofnanirnar sjálfar að bera ábyrgð. Þær geta ekki óskað eftir því að fá tillögur frá fjármálaráðuneytinu til að bæta það upp sérstaklega vegna þess að það þyrfti væntanlega yfir alla að ganga, ekki satt?

Varðandi almannatryggingar og spurninguna hvers vegna ekki sé nákvæmlega sama viðmið í almannatryggingum og á við um launahækkanir lífskjarasamninga, þá vænti ég þess að hér sé verið að vísa til þess að í lífskjarasamningunum var áhersla á sérstaka hækkun lægstu launa. Í almannatryggingum erum við sérstaklega að styðja við þá sem eru með lága framfærslu. Aðalsvarið við þessari spurningu liggur í því að almannatryggingakerfið er bótakerfi. Það er ekki launakerfi ríkisins. Bætur eru ekki laun samkvæmt lögum. Viðmiðið um hækkun frá einu ári til annars eru almennar umsamdar kjarahækkanir á vinnumarkaði, 69. gr. laganna sem við ræðum svo oft og iðulega hér. Vilji menn breyta þessu þannig að þessar tilteknu bætur eigi að breytast í takt við breytingu lægstu launa í landinu þarf það að standa í lögum. Við erum bara að fylgja lögum um þetta efni.



[11:04]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Lífskjarasamningarnir voru sérstakir samningar, eins og ríkisstjórnin hefur oft talað um sjálf. Það þarf því sérstaka ákvörðun til að fara í rauninni ekki eftir þeim í endurmati á virði þeirra fyrir næsta ár í fjárlögum, heldur fara bara eftir lögunum. Það var tekin sérstök ákvörðun um að hækka lægstu launin um ákveðna krónutölu og það er sérstök ákvörðun að gera það ekki sem hliðstæðu þegar taka á mið af almennum launahækkunum. Það er áhugavert.

En ég vildi ítreka síðustu spurningu mína varðandi laun þingmanna og ráðherra um áramótin: Hversu mikið hækka þau og af hverju svarar ráðuneytið ekki spurningum fjárlaganefndar?



[11:04]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir skrifað í lög hvernig laun eiga að breytast fyrir þingmenn núna um áramótin. Viðmiðunartalan er þar útfærð og hún er ákveðin í lögum en við þurfum að sækja hana til Hagstofunnar. Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna ekki er hægt að framkalla hana. Ég kann ekki að segja frá því af hverju það hefur dregist að svara þessu. Ég hefði meira að segja haldið að vegna þess að þetta er hækkun sem átti að koma til framkvæmda í sumar þá sé viðmiðunartalan í raun og veru fyrir árið 2019 og þetta hafi legið fyrir meira eða minna allt þetta ár.