151. löggjafarþing — 37. fundur
 14. desember 2020.
aðgerðir gegn atvinnuleysi.

[15:11]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í þessari djúpu efnahagslægð sem við erum í, þeirri dýpstu í 100 ár, og þeirri atvinnukreppu sem henni hefur fylgt hafa þúsundir misst vinnuna. Í nóvember voru 20.906 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu og 5.448 í minnkuðu starfshlutfalli eða samtals 26.354 einstaklingar. Tekjufall á heimilum fylgir í kjölfar atvinnumissis og hætta er á að skuldavandi taki við af atvinnukreppu ef ekkert verður að gert. Heimilin þurfa stuðning vegna tekjufalls og viðspyrnustyrk líkt og fyrirtækin. Verslunarmannafélag Reykjavíkur hefur lagt fram hugmynd að sértækum stuðningi sem ætlað er að tryggja afkomuöryggi heimila sem hafa orðið fyrir atvinnumissi og tekjufalli í heimsfaraldri. ASÍ hefur tekið undir þá hugmynd. Á heimasíðu VR er bent á það sem er augljóst, að tíminn er knappur til að bregðast við og mörg heimili eru þegar komin á ystu nöf. Hugmynd VR felur í sér aðkomu bæði ríkisins og bankanna. Veitt verði stuðningslán til heimila með 100% ríkisábyrgð og afslætti af heildartekjuskatti til að mæta afborgunum af þeim. Reiknað er með að bankar meti greiðslugetu heimilanna og veiti þeim framfærslulán í formi mánaðarlegrar lánalínu með ríkisábyrgð. Þannig geti heimilin áfram staðið við skuldbindingar sínar og framfleytt sér og sínum á meðan tekjubrestur varir. Slík lánalína væri til allt að 18 mánaða ef þörf krefur.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi kynnt sér þessar hugmyndir og ef svo er hvernig henni lítist á þær. Telur hæstv. ráðherra ekki nauðsynlegt að veita heimilum atvinnulausra aukinn stuðning á þessum erfiðu tímum?



[15:13]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég get tekið undir margt sem kom fram í máli hennar, sérstaklega um erfiða stöðu leigjenda. Ég vil taka það fram að í tíð þessarar ríkisstjórnar voru atvinnuleysisbætur hækkaðar, fyrst um 27%, síðan aftur núna frá og með áramótum og munu hækka um 35% á kjörtímabilinu. Enn fremur var ákveðið að framlengja sérstakan stuðning vegna barna atvinnuleitenda sem er hugmynd sem þingmaðurinn lagði fram í fyrra, ef ég man rétt, eða í vor og var framlengd núna. Það er mjög mikilvægt að við styðjum við fólk sem verður fyrir því áfalli að missa vinnuna og um leið að við hugum að því að örva fjárfestingar í samfélaginu þannig að við getum tryggt að atvinnuleysi verði ekki langtímaböl. Það er að mínu viti stærsta hættan sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir, að atvinnuleysi verði langtímaböl. Þessar breytingar fyrir atvinnuleitendur eru þó ekki þær einu sem höfum gert til að koma til móts við tekjulægri hópa. Ég vil minna á skattkerfisbreytingar sem við lögfestum í kringum lífskjarasamningana en síðari hluti þeirra mun koma til framkvæmda um komandi áramót og gagnast fyrst og fremst tekjulægri hópum. Barnabætur eru sömuleiðis hækkaðar í þeim fjárlögum sem við afgreiðum nú. Skerðingarmörkin hækka sem er mjög mikilvægt því að það skiptir líka máli að styðja við tekjulægri hópa þegar kemur að þeim sem eiga mörg börn.

Hvað varðar stuðningslánin sem hv. þingmaður spyr sérstaklega um þá átti ég ágætan fund með fulltrúum VR þar sem þau kynntu þessar hugmyndir. Þær munu verða teknar til skoðunar í hópi sem félags- og barnamálaráðherra er að setja á laggirnar og er ætlað að fara yfir stöðu heimilanna. Þar er ætlunin að fara yfir sviðið í raun og veru og skoða hvað kemur þessum hópi best en þessar hugmyndir verða þar á meðal teknar til skoðunar.



[15:15]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er ekki tími til þess að setja vanda heimilanna í nefnd. Þar þarf að bregðast við hratt og vel. Hæstv. ráðherra fór hér yfir hvað ríkisstjórn hennar hefur gert í þeim málum og þrátt fyrir það allt saman er það svo að 1. janúar verða grunnatvinnuleysisbætur, eftir allar hækkanirnar, rétt tæplega 88% af lágmarkstekjutryggingunni. Atvinnulaus maður þarf að vera með þrjú börn á framfærslu sinni til að komast yfir lágmarkstekjutrygginguna. Það er augljóst mál að heimili atvinnulausra hafa orðið fyrir mjög miklu tekjufalli og skuldavandi blasir við á mörgum þeirra heimila. Þúsundir hafa verið lengur en sex mánuði atvinnulausar og vandamálin hrannast upp. Fólk þarf að borga af lánum, borga leigu, borga tryggingar, klæða og fæða börn og aðra heimilismenn.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort henni finnist í alvöru (Forseti hringir.) nóg gert fyrir heimilin og hvort hún sé sátt við að setja vanda þeirra í nefnd (Forseti hringir.) á meðan brugðist er hratt við vanda fyrirtækja. Það er fínt (Forseti hringir.) en það sama þarf að gera fyrir heimilin.



[15:17]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður gefur til kynna að ég hafi sagt hér að nóg væri gert fyrir heimilin. Það kom ekki fram í máli mínu og vægast sagt undarleg ályktun að draga hjá hv. þingmanni. Það sem fram kom hjá mér var að þessar hugmyndir ásamt öðrum verða teknar til skoðunar af félagsmálaráðuneytinu. Við höfum hvað varðar allar okkar tillögur reynt að vanda okkur mjög í því sem við erum að gera, ekki bara fyrir fólk heldur líka fyrir fyrirtæki. Það skiptir einmitt máli að aðgerðirnar hitti í mark og þær hafa vissulega hitt misvel í mark. Það verðum við bara að horfast í augu við. Heilt yfir myndi ég hins vegar segja að aðgerðir íslenskra stjórnvalda vegna Covid, og þá er ég að tala um hinar efnahagslegu og samfélagslegu aðgerðir, hafi borið góðan árangur og ég er þess fullviss að þegar fer að birta til í efnahagslífinu verðum við mjög fljót að spyrna frá botni og ná öflugum vexti í efnahagslífi okkar. Þar skipta miklu máli allar þær aðgerðir sem við höfum ráðist í hingað til, bæði þær sem hafa verið fyrir fólk og fyrirtæki. Ég hef ekki áhyggjur af því að ekki verði brugðist hratt við. Það hefur verið brugðist hratt við hingað til og verður áfram.