151. löggjafarþing — 37. fundur
 14. desember 2020.
reglugerð um sjúkraþjálfun.

[15:18]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Í gjaldskrá fyrir sjúkraþjálfun frá 1. janúar 2019, samkvæmt reglugerð og rammasamningi um sjúkraþjálfun, kemur fram að Sjúkratryggingar greiða 90% af heildargjaldi gegn framvísun beiðni um sjúkraþjálfun. Veita má sjúkratryggðum sjúkraþjálfun án beiðni að hámarki í sex skipti á ári. Þá segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisráðherra hefur framlengt reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjúkraþjálfara, sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, til 31. desember n.k. Sú breyting er þó gerð að nú er skilyrði fyrir endurgreiðslu SÍ að fyrir liggi skrifleg beiðni, tilvísun, frá lækni eða sjúkraþjálfara sem starfar á heilsugæslustöð.

Í eldri reglugerð var til staðar heimild SÍ fyrir greiðsluþátttöku í sex skiptum í meðferð þó svo að ekki lægi fyrir skrifleg beiðni. Sú heimild hefur nú verið felld út hjá þeim sjúkraþjálfurum sem ekki starfa samkvæmt samningi við stofnunina.“

Einstaklingar sem veikjast alvarlega af Covid-19 eru í aukinni hættu á einkennum þunglyndis, áfallastreitu og öðrum líkamlegum einkennum í kjölfar veirunnar. Þá hafa þeir sem verða fyrir smá tognun getað fengið sjúkraþjálfun án læknisbeiðni og farið beint og milliliðalaust í meðferð hjá sjúkraþjálfurum. Nú verða þeir að hafa samband við lækni og bíða eftir tíma hjá honum, jafnvel svo vikum skiptir, til að fara í sjúkraþjálfun. Er þetta ekki að henda krónunni og spara aurinn, hæstv. heilbrigðisráðherra, þar sem tíminn skiptir máli? Því lengur sem beðið er eftir nauðsynlegri sjúkraþjálfun, því lengri sjúkraþjálfun þarf viðkomandi. Meðferð verður dýrari og vinnutapið meira ásamt auknum sársauka og jafnvel stóraukinni lyfjatöku. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvers vegna í ósköpunum er hún að breyta þessari reglugerð?



[15:20]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður höfum áður átt samtal um þessi mál hér. Af því að hv. þingmaður vék orðum sínum sérstaklega að þeim sem hafa fengið Covid-19 og eiga í einhvers konar heilsufarsvanda í kjölfar þess vil ég nefna að ég hef tekið ákvörðun um að ráðstafa sérstökum fjármunum til Reykjalundar til að standa straum af kostnaðarauka vegna endurhæfingar þeirra sem hafa sýkst af Covid-19. Við erum líka þátttakendur í fjölþjóðlegum rannsóknum hvað það varðar.

Hv. þingmaður spyr um reglugerðina. Nú er greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna meðferðar í öllum tilvikum bundin því að tilvísun frá lækni liggi fyrir eða frá sjúkraþjálfara og því er til að svara að við þurfum að hafa ákveðna samfellu í þjónustunni til að tryggja að við séum að byggja þjónustuna upp í samræmi við heilbrigðislög og heilbrigðisstefnu. En það verður samt að halda því til haga að heimilt er að víkja frá því skilyrði sem nefnt er í reglugerðinni vegna bráðameðferðar sem nemur allt að sex skiptum á 12 mánaða tímabili. Við erum þannig líka að gera þá breytingu að heimildarákvæði um bráðameðferðir gildi án formlegrar beiðni en þó eingöngu þegar sjúkraþjálfarar starfa samkvæmt samningi.



[15:22]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, en ég get ekki verið sammála henni vegna þess að ég skil ekki þessa breytingu. Þessi breyting er engum til góða, hvorki í heilbrigðiskerfinu né þeim sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Ég tékkaði á því, ég ætlaði að fara í sjúkraþjálfun í dag og ætlaði að fara til heimilislæknisins míns og panta tíma. Þá var sagt: Nei, þú færð ekki tíma. Þú verður að panta eftir viku. Og þá fer maður í röð til að panta eftir viku. Maður má þakka fyrir að komast inn. Þannig að viðkomandi sem er með smávægilega tognun fær ekki tíma og getur þar af leiðandi ekki farið beint í sjúkraþjálfun, sem er langþægilegasta og ódýrasta formið. Hann þarf kannski tvo, þrjá tíma. En ef það á að láta þennan einstakling bíða í mánuð eða lengur þá þarf hann miklu fleiri tíma. Þá er hann jafnvel kominn í það að þurfa verkjalyf og jafnvel fara inn í heilbrigðiskerfið. Það hlýtur að vera margfalt dýrara. Þess vegna spyr ég: Ætlar hún virkilega að henda krónunni og spara aurinn með þessu, vegna þess að það er ekkert annað í gangi hér?



[15:24]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í fyrra svari mínu þá gildir sú breyting sem gerð var á reglugerðinni til áramóta. Við erum í raun og veru með til skoðunar í ráðuneytinu núna hvað tekur við þá og sérstaklega að því er varðar þessa bráðameðferð sem ég nefndi áðan og þessi sex skipti á 12 mánuðum. Það er til skoðunar nákvæmlega í dag hvernig því verður fram haldið og ég er að skoða röksemdir með og á móti því.