151. löggjafarþing — 37. fundur
 14. desember 2020.
breyting á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði, 2. umræða.
stjfrv., 21. mál (breytt kynskráning). — Þskj. 21, nál. m. brtt. 509.

[16:13]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um kynrænt sjálfræði Þetta mál kallast breytt kynskráning. Allsherjar- og menntamálanefnd fjallaði um málið og fékk gesti á fund sinn auk þess sem nefndinni bárust umsagnir sem hún fór yfir og er hægt að lesa um í nefndarálitinu.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna samþykktar laga um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, annars vegar breytingar sem til koma vegna þess að lög um kynrænt sjálfræði heimila einstaklingum að hafa hlutlausa kynskráningu og hins vegar breytingar sem tryggja foreldrastöðu trans fólks og einstaklinga með hlutlausa kynskráningu. Samhliða frumvarpi þessu var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á barnalögum sem er enn til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd.

Það var samhljómur meðal gesta um að frumvarpið fæli í sér mikilvæga réttarbót fyrir hinsegin samfélagið. Meiri hlutinn bendir á að um sé að ræða nauðsynlegar breytingar í kjölfar samþykktar laga um kynrænt sjálfræði frá 2019. Meiri hlutinn leggur til fáeinar orðalagsbreytingar til leiðréttingar og skýringar en þeim er ekki ætlað að hafa áhrif á efni frumvarpsins. Ég ætla ekki að lesa þær allar upp en það má kynna sér þær í nefndarálitinu. En ég ítreka að hér er um orðalagsbreytingar að ræða sem ekki hafa áhrif á efni frumvarpsins.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fylgja með nefndarálitinu.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta samkvæmt heimild um starfsreglur fastanefnda Alþingis.

Ásamt þeirri sem hér stendur skrifa undir nefndarálitið Páll Magnússon, formaður, Guðmundur Andri Thorsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.