151. löggjafarþing — 38. fundur
 15. desember 2020.
jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, 2. umræða.
stjfrv., 336. mál (verðlagshækkun). — Þskj. 397, nál. m. brtt. 586.

[15:47]
Frsm. atvinnuvn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku (verðlagshækkun). Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti, m.a. frá ráðuneytinu og frá Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum. Nefndinni bárust umsagnir um málið og verður nú fjallað um efni og markmið frumvarpsins.

Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á 3. mgr. 3. gr. a laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004, að jöfnunargjald vegna dreifingar raforku hækki um 13% frá 1. janúar 2021 en gjaldið hefur verið óbreytt frá því að það var sett á með lögum nr. 20/2015. Fjárhæð jöfnunargjalds sem er 0,30 kr. á hverja kílóvattstund verði 0,34 kr., og fjárhæð jöfnunargjalds vegna skerðanlegs flutnings raforku sem er 0,10 kr. á hverja kílóvattstund verði 0,11 kr.

Jöfnunargjald raforku var lagt á til að standa straum af jöfnun kostnaðar vegna þeirrar raforku sem fer um dreifiveitur raforku til almennra notenda. Samkvæmt 1. gr. laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku skal greiða niður kostnað við dreifingu raforku í dreifbýli sé hann umfram viðmiðunarmörk sem taki mið af hæstu gjaldskrá dreifiveitu í þéttbýli, eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum. Með dreifiveitum er átt við fyrirtæki sem hefur leyfi til dreifingar raforku á afmörkuðu svæði, samanber 2. tölulið 3. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Í dag eru fimm dreifiveitur fyrir rafmagn en hjá tveimur þeirra, Rarik og Orkubúi Vestfjarða, er stórum hluta raforku dreift til notenda eftir svokallaðri dreifbýlisgjaldskrá. Almennir notendur eru allir raforkunotendur landsins að undanskildum stóriðjunotendum, samanber athugasemdir við 1. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að frá upptöku jöfnunargjalds raforku árið 2015 hefur kostnaður við dreifingu raforku aukist jafnt og þétt í dreifbýli umfram kostnað í þéttbýli. Þörf fyrir aukið framlag til jöfnunar dreifikostnaðar raforku hafi því farið vaxandi og 1 milljarð kr. vanti til viðbótar við þann milljarð sem jöfnunargjaldið skilar nú. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025 er lagt til að markmiði um aukna jöfnun verði náð með samspili hækkunar jöfnunargjaldsins og framlags úr ríkissjóði. Sú 13% hækkun jöfnunargjalds sem lögð er til með frumvarpinu taki til verðlagsbreytinga frá því að gjaldið var tekið upp og skili um 130 millj. kr. en einnig sé gert ráð fyrir 600 millj. kr. framlagi til jöfnunar dreifikostnaðar á fjárlögum fyrir árið 2021.

Í umfjöllun nefndarinnar var rætt sérstaklega mikilvægi þess að komið væri til móts við notendur raforku í dreifbýli. Notendum þar fækkaði á meðan notendum í þéttbýli fjölgaði og kostnaður við dreifingu raforku legðist því þyngra á notendur í dreifbýli, með neikvæðum áhrifum á atvinnurekstur og byggðaþróun. Í greinargerð með frumvarpinu segir að með fyrirhugaðri hækkun jöfnunargjaldsins og 600 millj. kr. framlagi ríkissjóðs fari hlutfall jöfnunar kostnaðar við dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli úr 49% í 85% á árinu 2021. Stefnt er að því að árið 2025 verði hlutfallið komið í 95% en á sama tíma geti dregið úr fjárþörf til jöfnunar dreifikostnaðar í kjölfar þess að hámarki fjárfestingarþarfar dreifiveitna í dreifbýli verði náð. Orkubú Vestfjarða og Rarik taka í sama streng í umsögnum sínum og bendir Rarik á að gjaldskrárhækkanir síðustu ár stafi af fjárfestingarþörf en enn vanti 15 milljarða kr. til að ljúka endurnýjun kerfisins.

Nokkur umræða varð í nefndinni um hvort hægt væri að ná fyrr markmiði um fulla jöfnun flutningskostnaðar og hvaða leiðir væru þá best til þess fallnar. Nefndin óskaði eftir minnisblaði frá ráðuneytinu með sviðsmyndum um þær leiðir sem væru færar til að jafna dreifikostnað raforku í dreifbýli og þéttbýli. Hún fór yfir kosti og galla hverrar leiðar en nefndin tekur ekki afstöðu til þess hver þeirra væri best til þess fallin að ná markmiðinu. Nefndin vekur í þessu samhengi athygli á skýrslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um raforkuflutning sem kom út árið 2019. Í skýrslunni kemur m.a. fram að munur dreifikostnaðar milli þéttbýlis og dreifbýlis eykst stöðugt og að jöfnunargjaldið dugir ekki til að jafna þann mun. Nefndin áréttar því mikilvægi þess að fundin verði leið til að ná fram jöfnun á kostnaði við dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli til lengri tíma og beinir þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að við árlegt endurmat ýmissa gjalda vegna fjárlagagerðar verði fjárhæð jöfnunargjalds látin fylgja verðlagi.

Áhrif af boðaðri hækkun Landsnets. Við meðferð málsins fyrir nefndinni kom fram að Landsnet hefur boðað hækkun á gjaldskrá um 9,9% hjá dreifiveitum um áramót og að í kjölfar þess megi gera ráð fyrir gjaldskrárhækkunum hjá einhverjum dreifiveitum á næsta ári. Í sameiginlegri umsögn Bændasamtaka Íslands, Sambands garðyrkjubænda og Sölufélags garðyrkjumanna er lýst áhyggjum af því hvernig boðuð gjaldskrárhækkun Landsnets fari saman við þá hækkun jöfnunarframlags sem lögð er til með frumvarpinu, sérstaklega fyrir stærri notendur á við garðyrkjustöðvar, með vísan til þess að gjaldskrárhækkanir hafi gert að engu fyrri framlög til jöfnunar dreifikostnaðar. Einnig áhrifum slíkra gjaldskrárhækkana á framleiðslukostnað í samhengi við markmið um verulega framleiðsluaukningu í innlendri ylrækt, samanber endurskoðun á búvörusamningi garðyrkjuframleiðenda.

Nefndin minnir á að Orkustofnun hefur ekki staðfest hækkunarbeiðni Landsnets en tekur undir áhyggjur um að boðaðar gjaldskrárhækkanir geti dregið úr þeim áhrifum sem frumvarpinu er ætlað að hafa verði það samþykkt. Nefndin bendir jafnframt á að dreifiveitur eigi inni heimildir til hækkunar á gjaldskrám, samanber 17. gr. raforkulaga, þar sem kveðið er á um að Orkustofnun setji tekjumörk þeirra. Samkvæmt ákvæðinu eru tekjumörk dreifiveitna ákveðin til fimm ára í senn vegna dreifingar raforku í þéttbýli annars vegar og í dreifbýli hins vegar og uppfærð árlega miðað við breytingar á grunnforsendum. Nefndin minnir jafnframt á að það er m.a. hlutverk stjórna dreifiveitnanna að halda gjaldskrárhækkunum innan þess ramma sem þeim er settur og æskilegt að slíkar hækkanir vinni ekki gegn markmiðum stjórnvalda með aðgerðum við fjárlög fyrir árið 2021. Með hliðsjón af framangreindu bendir nefndin á að það skiptir máli að hraða vinnu við að ná fram fullri jöfnun dreifikostnaðar raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis og að það sé gert þannig að gjaldskrárhækkanir dreifiveitna dragi ekki úr eða geri að engu framlög til jöfnunar dreifikostnaðar.

Á meðan málið var til meðferðar hjá nefndinni afgreiddi meiri hluti fjárlaganefndar nefndarálit um fjárlög fyrir árið 2021 og lagði þar m.a. til að framlag ríkisins til jöfnunar kostnaðar við dreifingu raforku yrði hækkað um 90 millj. kr. til viðbótar við 600 millj. kr. framlag ríkissjóðs. Sú hækkun eigi að duga til að sem mestri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku á milli dreifbýlis og þéttbýlis verði náð frá og með 1. september á næsta ári án þess að til komi frekari hækkun jöfnunargjalds. Frá árinu 2022 er viðbótin 270 millj. kr. og eru þessar 90 millj. kr. því einn fjórði hluti þess þar sem viðbótin miðast við 1. september 2021. Nefndin óskaði í framhaldi eftir því við ráðuneytið að fá uppfærðar sviðsmyndir sem tækju mið af þeirri hækkun sem meiri hluti fjárlaganefndar lagði til og samþykktar voru við 2. umr. um fjárlög. Samkvæmt uppfærðri sviðsmynd 4, sem sýnir áhrif á raforkureikning almenns notanda (heimili) af hækkun jöfnunargjalds um 13% og útfærslu dreifiveitna á hækkun heildargjaldskrár að teknu tilliti til 9,9% hækkunar Landsnets til dreifiveitna og 690 millj. kr. framlagi ríkisins til hækkunar á dreifbýlisframlaginu, skilar breytingin frekari lækkun raforkukostnaðar í dreifbýli án þess að komi til frekari hækkunar á kostnaði í þéttbýli, frá því sem var áætlað í sviðsmynd 4 áður en hún var uppfærð. Nefndin beinir því til ríkisstjórnarinnar að tryggja fjármögnun jöfnunar kostnaðar við dreifingu raforku í næstu fjármálaáætlun.

Við meðferð málsins fyrir nefndinni var lýst áhyggjum af áhrifum gjaldskrárhækkunar á þá notendur sem ekki teljast til stórnotenda samkvæmt raforkulögum og þurfa því að greiða jöfnunargjald. Stórnotendur, þ.e. notendur sem nota innan þriggja ára á einum stað a.m.k. 80 GWst á ári (ígildi 10 MW), eru í viðskiptum við flutningsfyrirtækið Landsnet og greiða ekki jöfnunargjald þar sem jöfnunargjaldið á að fjármagna tilfærslu innan kerfis dreifiveitna frá þéttbýli til dreifbýlis. Bent var á að þeir aðilar sem eru nálægt því að teljast til stórnotenda og stefni að því marki búi við skerta samkeppnishæfni þar sem þeir geti ekki tengst inn á flutningskerfi Landsnets. Samtök iðnaðarins hvetja í umsögn sinni til endurskoðunar á þeim reglum sem taka til svokallaðra millistórra notenda og stuðla um leið að frekari atvinnuuppbyggingu. Samtökin vísa til minnisblaðs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dags. 7. desember síðastliðinn, við málið þar sem raktar eru fimm mismunandi leiðir til að jafna dreifikostnað raforku í dreifbýli og þéttbýli. Jafnframt vekja samtökin athygli á því að þar komi fram að gera megi ráð fyrir hækkunum á gjaldskrá í þéttbýli og mest í orkufrekri starfsemi á við garðyrkju, gagnaver, stálsmiðjur, bakarí o.fl. og hvetja til þess að annarri starfsemi á þéttbýlum svæðum verði ekki gert að niðurgreiða lækkun kostnaðar við dreifingu raforku.

Fyrir nefndinni kom fram að ráðuneytið ynni að því að skoða leiðir til að minnka þau skörpu skil sem eru í raforkulögum í dag í skilgreiningu á stórnotanda þar sem miðað er við 10 MW. Meðal annars eru til skoðunar breytingar sem gætu falið í sér meiri þrepaskiptingu og endurskoðun á uppbyggingu gjaldskráa dreifiveitna og Landsnets til að draga úr skörpum skilum.

Nefndin telur frumvarpið skref í rétta átt að því að jafna muninn á milli notenda í dreifbýli og þéttbýli hvað varðar kostnað við dreifingu raforku. Fyrirsjáanlegt er að um tímabundið ástand er að ræða á meðan verið er að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar innan kerfis dreifiveitna og eftir það minnki þörf fyrir jöfnun raforkukostnaðar þótt æskilegast hefði verið að ná strax sem mestri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Nefndin fagnar 90 millj. kr. viðbótarframlagi í fjárlögum fyrir árið 2021, frá og með 1. september 2021 og svo 270 millj. kr. frá 2022, en að óbreyttu á með þeirri viðbót að nást markmið um sem mesta jöfnun frá september 2021. Nefndin ítrekar hins vegar að mikilvægt er að líta til þess hvernig jöfnunargjaldið og framlög úr ríkissjóði fara saman við þær heimildir sem dreifiveitur hafa til hækkunar á gjaldskrá, innan settra tekjumarka, svo að það markmið sem lagt er upp með skv. 1. gr. laga nr. 98/2004, um jöfnun á kostnaði við dreifingu raforku, náist — sem er mikilvægur punktur. Nefndin leggur til breytingu tæknilegs eðlis sem er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með meðfylgjandi breytingu.

Hv. þingmenn Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Ólafur Ísleifsson og Sigurður Páll Jónsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara. Aðrir hv. þingmenn sem skrifa undir þetta nefndarálit eru: Lilja Rafney Magnúsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson og Njáll Trausti Friðbertsson. — Ég hef lokið máli mínu.



[15:59]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004. Eins og hv. flutningsmaður málsins fór vel yfir áðan bárust nokkrar umsagnir og fengum við sömuleiðis á fund okkar tvo gesti vegna málsins. Þetta mál lætur e.t.v. ekki mikið yfir sér en hér er um að ræða mikilvægt jafnréttismál, jafnrétti til búsetu. Það mál sem við fjöllum um hér snýr í raun að því að jafna möguleika fólks á því að búa og starfa um land allt í hinum dreifðu byggðum, ekki eingöngu í þéttbýlinu. Þetta er mál sem snýst um jöfnuð. Þingflokkur Samfylkingarinnar styður að sjálfsögðu þetta mikilvæga jafnréttismál og meginmarkmið málsins en ég setti þó fyrirvara við nefndarálitið. Það er fyrst og fremst vegna tveggja atriða sem ég vil gera stuttlega grein fyrir hér.

Staðreyndin er að því miður er kerfið sem við erum að vinna með meingallað og hefur sú staðreynd verið þekkt lengi. Þetta kemur m.a. fram í greinargerð málsins sjálfs frá ráðuneytinu. Því miður hefur aukning á niðurgreiðslum verið étin upp á skömmum tíma með gjaldskrárhækkunum dreifiveitna. Ég er ekki að gefa í skyn að þær hækkanir hafi ekki verið byggðar á málefnalegum grunni heldur er ég einfaldlega að lýsa staðreynd. Það þýðir að í raun hefur það of oft gerst að niðurgreiðslurnar skili sér ekki til neytenda í þeim mæli sem ætlast var til. Sömuleiðis hefur munurinn á örfáum árum vaxið á ný og enn sitja þeir sem búa í dreifbýlinu eftir með sárt ennið.

Það er því alveg ljóst, frú forseti, að kerfið eins og það var sett upp virkar ekki nægilega vel í þágu þeirra sem það á að þjóna. Ég held að það sé því algjört lykilatriði að gera þurfi skýra kröfu um að hæstv. iðnaðarráðherra komi fram með raunverulegar tillögur til breytinga og það strax í vor. Þetta mál er búið að þvælast í kerfinu í lengri tíma og það er löngu tímabært að taka það upp og ljúka því í eitt skipti fyrir öll þannig að allir landsmenn sitji við sama borð.

Frú forseti. Nú þegar er ljóst að líklega verða einhverjar hækkanir á gjaldskrám dreifiveitna um áramótin en eins og komið er inn á í nefndarálitinu verða þær vonandi ekki að raunveruleika enda mikilvægt að slíkar hækkanir vinni ekki gegn markmiðum málsins sem við fjöllum um í dag. Því miður er sömuleiðis ljóst að við náum ekki að fjalla um og breyta kerfinu nú fyrir áramót. Því veljum við að styðja málið eins og það er lagt fram í dag. Hæstv. ráðherra sagði í andsvari við 1. umr. málsins að hún hygðist leggja fram á vorþingi tillögur að breytingum og ég skora á ráðherra að standa við það því að eins og ég kom inn á áðan er alveg ljóst að þetta kerfi virkar ekki eins og það er. Þegar staðan er sú er það eina skynsamlega í stöðunni að finna aðra leið að markmiðum málsins sem er að jafna búsetumöguleika.

Frú forseti. Annað atriði en vissulega veigaminna sem ég var svolítið hissa á í nefndarálitinu er að vísað er til næstu fjármálaáætlunar að tryggja áframhaldandi fjármögnun í stað þess að setja það einfaldlega inn í þá fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar hjá fjárlaganefnd. Ég vil því einfaldlega beina því til hv. þingmanna sem eiga sæti í fjárlaganefnd að taka til skoðunar hvort ekki mætti bæta úr því án mikilla vandræða og koma þessu inn í þá fjármálaáætlun.

Frú forseti. Ég get ekki lýst því nógsamlega hversu mikilvægt ég tel markmið málsins vera, þ.e. að jafna dreifikostnað á raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis. Það er sérstakt að búa jafnvel við hliðina á virkjun en þurfa samt sem áður að greiða tugþúsundum hærra gjald en þeir sem búa í þéttbýli. Íslendingar báru gæfu til þess á sínum tíma að jafna kostnað vegna símtala milli landshluta. Okkur ber nú að sýna sama kjark á nýju ári og jafna á sama hátt kostnað vegna dreifikerfis raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis.



[16:04]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fjalla í örstuttu máli um þetta mál sem hér hefur verið rakið af samþingmönnum mínum í nefndinni. Ég skrifa undir nefndarálitið í þessu máli. Ég vil samt aðeins taka undir það sem hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir sagði rétt áðan um að það vanti aukinn jöfnuð í þetta kerfi.

Ég var í atvinnuveganefnd árið 2015 þegar gerður var skurkur í þessu máli, að bæta það óréttlæti sem landsbyggðin bjó við þá, dreifbýlið sérstaklega, og munurinn var orðinn óþægilega mikill. Það virðist vera að það sé orðinn viðvarandi munur dreifbýlis og þéttbýlis í þessu kerfi. Við fórum nákvæmlega yfir þetta með ráðuneytinu og helstu sérfræðingum okkar og það liggur fyrir að dreifiveitur eiga t.d. inni núna nokkra hækkun og ég get ekki séð hvernig þær ætla að komast hjá því að hækka kostnað sinn og taka meiri gjöld. Það væri þá alla vega eitthvað að í kerfinu ef það gerist ekki. Það mun éta upp töluvert af þeim fjármunum sem eiga að fara til að jafna dreifikostnað þannig að við kölluðum eftir nákvæmlega því sama og við gerðum árið 2015.

Hvað myndi gerast ef ein gjaldskrá fyrir dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli yrði tekin upp á Íslandi? Ráðuneytið hefur auðvitað skoðað þetta og þar kom fram að af og til í tíu ár hefur þetta verið til skoðunar í ráðuneytinu. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að nú er kominn tími til þess að við klárum það mál og þá leið og sjáum hvort hún geti ekki orðið farsæl. Það eru ákveðnir ágallar á henni sem ég get alveg tekið undir og koma fram í mati á áhrifum sem ráðuneytið sendi okkur og fór yfir með okkur.

Sameinuð gjaldskrá myndi þýða hækkun í þéttbýli en lækkun í dreifbýli. Það hefur auðvitað legið fyrir. Almennt myndi lækkun á gjaldskrám í dreifbýli vera um 30% en hækkun í þéttbýli um 10% en ef horft er til heildarorkukostnaðar, rafmagns og hita, er lækkun í dreifbýli 12%, sem er u.þ.b. 35.000 kr. á heimili á ári en hækkun í þéttbýli um 2–3%, sem er u.þ.b. 4.000 kr. á ári á heimili. Það sér það auðvitað hver maður að það er eitthvað sem heimilisbuddan hjá svona allflestum myndi ekki verða vör við um hver mánaðamót.

Helstu kostirnir eru að þetta væri varanleg lausn og einföld út frá settum markmiðum. Þetta væri, eins og kemur fram í skjalinu hér, að fullu fjármögnuð leið með gjaldskrá notenda án ríkisframlags. Það er fordæmi að finna í olíudreifingu, fjarskiptum og póstþjónustu. Það yrði meiri fyrirsjáanleiki í kerfinu og samkeppnisstaða dreifbýlis og þéttbýlis yrði jafnari til lengri tíma og það er mál sem er gríðarlega mikilvægt, að jafna samkeppnisstöðu þéttbýlis og dreifbýlis.

Ég vil bara, virðulegur forseti, ítreka í þessari stuttu ræðu að það er mjög mikilvægt að við förum í þá vinnu, og helst sem fyrst, eins og kom fram í ræðu áðan, að það verði klárað á þessu ári að skoða virkilega þann kost og hvaða leiðir þarf til þess að ein gjaldskrá fyrir allt landið verði að veruleika, öllum til hagsbóta. Það er alveg sama hvað við reynum að hysja upp um þetta kerfi reglulega, við missum alltaf brækurnar niður á hælana vegna þess að jöfnunarframlögin eiga það til að minnka og bilið eykst milli dreifbýlis og þéttbýlis, fólkinu fækkar, kostnaðurinn eykst á hvern og einn og við verðum sameiginlega að standa vörð um að við búum í sama landinu við sama kostnað.



[16:08]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, langþráð mál, lengi beðið eftir því. Þetta er mikilvægt frumvarp og löngu tímabært. Það má eiginlega furðu sæta að slík og þvílík mismunun skuli hafa fengið að viðgangast og það svo lengi. Þetta er gott lítið skref í rétta átt en það er of stutt, of lítill áfangi í sjálfsagða réttlætisátt. Það er ekki verið að biðja um teppalagningu upp að hverju húsi, malbik um alla jörð, pósthús eða banka í göngufjarlægð fyrir landsbyggðarfólk, bónusverð í allar búðir. Nei, það er verið að krefjast þess að ljós og hiti sé í boði á sama verði með sömu kjörum fyrir alla landsmenn, að þjóðin öll hafi eðlilegan aðgang að þessari sameiginlegu auðlind á jafnræðisgrundvelli. Þetta er ekki lítið hagsmunamál fyrir fólk sem býr á landsbyggðinni, hvort sem það er í þéttbýli úti á landi eða í dreifbýli, og að hluta til snertir þetta líka atvinnurekstur.

Við tölum mikið um jöfnun lífskjara í öllu landinu. Það segir réttilega í greinargerð með frumvarpinu að háir taxtar á dreifikostnaði raforku í dreifbýli stuðli í auknum mæli að fólksfækkun, samdrætti í atvinnurekstri og tilheyrandi neikvæðum byggðalegum áhrifum. Þetta er allt satt og rétt. Það er náttúrlega fráleitt að munur á raforkukostnaði í þéttbýli og víða á landsbyggðinni, eða þar sem grófust eru dæmin, sé upp undir 60% þegar upp er staðið. Rafmagn til lýsingar og upphitunar á ekki að vera lúxus en því miður er þetta raunin víða úti á landi og mörg dæmi um að alveg upp undir 20% af ráðstöfunartekjum heimilisins fari í þennan eina útgjaldaliði, að halda á sér hita og geta kveikt ljós. Þetta er algerlega fráleitt en hefur fengið að viðgangast lengi.

Í nútímasamfélagi er raforkan óaðskiljanlegur hluti af daglegu lífi hvers manns. Án hennar lifum við ekki hinu hefðbundna lífi hvar sem við búum. Ríkisstjórnin hefur látið þetta gott heita allt kjörtímabilið en bregst nú við á elleftu stundu. Það er gott, betra er seint en ekki. Við þessa breytingu hefur ráðherra gefið landsbyggðarfólki loforð um að munurinn á raforkukostnaði heimila í dreifbýli og þeirra sem njóta eðlilegra raforkukjara verði ekki meiri en 15%. Krafan er auðvitað sú að fullum jöfnuði verði náð strax. Úr þessum ræðustól var fullyrt fyrir nokkrum dögum að það yrði þegar á næsta ári en það er ekki rétt. Það verður ekki fyrr en í fyrsta lagi 2025 og það getur margt gerst á svo langri leið. Þangað til situr fólk sem býr á landsbyggðinni á hakanum. Dæmi: Landsnet hefur boðað 10% taxtahækkun, eins og fram hefur komið, á gjaldskrá dreifiveitna nú strax um áramót. Ef þau áform verða að veruleika verður strax á ný hoggið í þessa hagsbót. Það er skammarlegt hvernig farið er að og alveg ljóst að það verður að rjúfa þessa víxlverkun, hætta þessum skollaleik. Það er nauðsynlegt að fara í kerfisbreytingu eins og fram hefur komið, m.a. hjá hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér, leggja til grundvallar að þetta sé sameiginleg grunnþjónusta sem eigi að vera í boði fyrir alla landsmenn á sambærilegu verði en að það muni ekki allt að 60% eftir því hvar búið er, það sé ein gjaldskrá fyrir alla landsmenn.

Stundum er það, frú forseti, meira að segja þannig að uppsprettan, auðlindin er í næsta nágrenni við þann stað þar sem raforkan er keypt hvað dýrustu verði. Slík nálgun er ekki að skapi jafnaðarmanna en það er ekki áhyggjuefni þessarar ríkisstjórnar eins og sjá má á þessu máli og svo mörgum öðrum.

Ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar skipaði starfshóp vorið 2017 sem skilaði af sér í fyrravor og vann ágætt verkefni sem var að greina möguleika og gera tillögur um uppfærslu á flutningskerfi í dreifbýli, reyndar með áherslu á þrífösun rafmagns. Nefndin skilaði af sér skýrslu sem heitir Skýrsla starfshóps um raforkuflutning í dreifbýli, mjög gagnlegt og gott innlegg í þessa umræðu og staðfestir allt sem komið hefur fram. Nefndin reifaði m.a. ýmsar hugmyndir varðandi sameinaðar gjaldskrár í dreifbýli og einnig sameiningu veitna. Þar var auðvitað staðfest að slík úrræði sem við erum að nefna, sameinaðar gjaldskrár, myndu leiða til jöfnunar og til bættrar stöðu neytenda og fyrirtækja í dreifbýli. Því veldur það vonbrigðum að ekki skuli gengið lengra í þessu frumvarpi í sjálfsagða réttlætis- og umbótaátt fyrir raunar alla. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu í vinnu sinni að með einni dreifiveitugjaldskrá í landinu, án nokkurra mótvægisaðgerða en þær gætu verið nokkrar, gæti mesta hækkun í þéttbýli orðið 15–17% en lækkun í dreifbýli hins vegar veruleg eða á bilinu 42–43%. Þá sér hver maður í hvaða stöðu málið hefur verið og fengið að þróast átölulaust um margra ára skeið og alltaf sigið á ógæfuhliðina. Ríflega 50% af neytendum fengju um 8,5% hækkun með þessari kerfisbreytingu ef engar mótvægisaðgerðir færu fram. Þetta kom sömuleiðis fram í ræðu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar sem talaði áðan. Hann var með aðrar tölur í rauninni en allt hnígur þetta að hinu sama. Þetta er hagsmunamál, samfélagslegt verkefni sem þarf að vinna að með einum eða öðrum hætti. Leiðirnar eru til. Þær kunna að vera grýttari að einhverju leyti en þær eru færar.

Það á auðvitað að vera sjálfsagt mál að tryggja eins og kostur er að algengustu lífsnauðsynjar, sem þetta auðvitað er, raforka, að almenn þjónusta standi til boða á sama verði hvar sem er á landinu. Raforkan er auðvitað einn þáttur þessa, óaðskiljanlegur hluti af daglegum veruleika, heitt og kalt vatn, ég tala nú ekki um vöruverð og flutningaþjónustu. Það er kannski snúnara fyrir opinber yfirvöld að koma að því en nauðsynlegt að huga eftir sem áður að þeim þáttum líka.

Við sem erum orðin eldri en tvævetur munum eftir því þegar greitt var sérstaklega fyrir langlínusamtöl og skref voru misstór í símasamskiptum. Eitt gilti fyrir bæjarfélög, eitt gilti fyrir höfuðborgarsvæðið en ef fólk hringdi út á land þurfti að greiða miklu meira fyrir það. Þeir sem bjuggu úti á landi urðu fyrir miklum búsifjum vegna þessa. Hverjum dettur í hug að hægt væri að snúa til baka til þessa kerfis? Er þetta ekki sjálfsagt réttlætismál? Gildir ekki nákvæmlega sama um þá grunnþjónustu sem er raforka?

Frú forseti. Að lokum er það áréttað enn og aftur að með þessu frumvarpi er sjálfsögðum og fullum jöfnuði alls ekki náð og öfl í samfélaginu eru þegar byrjuð viðleitni sína til að breikka bilið aftur. Sá sem hér stendur spyr: Mun ríkisstjórnin láta það viðgangast?



[16:18]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004.

Ég ætlaði aðeins að koma hingað upp og taka undir með þeim sem hafa talað á undan mér í stórum dráttum um það hvaða augum þeir líta þetta mál. Ég og hv. þm. Ólafur Ísleifsson erum á þessu máli með fyrirvara og fyrirvarinn er í raun og veru sá að ekki sé gengið svo rösklega til verks að þetta virki þannig að þetta endist. Eins og sagan segir okkur og hefur verið minnst á hér áður var farið í svona aðgerðir árið 2015 og það í raun og veru núllaðist út þegar á móti komu hækkanir á öðrum þáttum, eins og t.d. núna, en það hefur komið fram hér á undan að nú er í kortunum, bara strax upp úr áramótum, hækkun á gjaldskrá Landsnets til dreifiveitna um tæp 10%. Þar kemur þá strax hækkun á móti sem deyfir þessa jöfnun fyrir þá sem fá hana. Og ég tek undir með hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni sem talar af reynslu, hafandi verið í atvinnuveganefnd í mörg ár, ekki reyndar svo lengi sem elstu menn muna, en þó nokkur ár. (ÁsF: Næstum því.) Næstum því, segir hv. þingmaður og hann var einmitt í nefndinni þegar farið var í þessar breytingar 2015 og leggur til, og ég tek undir með honum, að það verði skoðað að fara í eina einfalda gjaldskrá þar sem jöfnuður ríkir.

Hv. þm. Guðjón Brjánsson líkti þessu áðan við það eins og var hér í gamla daga með símann þegar landsmenn þurftu að borga meira fyrir símtölin sín af því að þeir bjuggu lengra frá höfuðborgarsvæðinu. Það er því hægt að setja upp alls konar líkingar sem maður getur tekið undir.

Mig langaði til að vitna í eina umsögn sem mér finnst ansi góð. Það bárust margar góðar umsagnir og flestar jákvæðar hvað það varðar að taka þetta skref og ég tek heils hugar undir það. Þessi umsögn er frá Samtökum iðnaðarins og þar kemur m.a. fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar, að gefnu tilefni, vísa samtökin hér til athugasemda sem fram koma í minnisblaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dags. 7. desember sl., og birt er í málaskrá þessa máls. Þar er gerð grein fyrir kostum og göllum tiltekinna aðferða til að jafna kostnað á milli dreifbýlis og þéttbýlis, þar sem nefndar eru til að mynda leiðir sem fela í sér hækkun á gjaldskrá í þéttbýli og mest hjá þeim sem nota mikla orku og eru nefnd þar í dæmaskyni starfsemi garðyrkjubænda, gagnavera, stálsmiðja, bakara o.fl. Hvað slík áform varðar almennt leggjast SI alfarið á móti auknum álögum á atvinnulíf þar með taldar allar breytingar á þá vegu að hækka til muna raforkukostnað á notendur. Þess í stað hvetja samtökin stjórnvöld til að lækka kostnað án þess að annarri starfsemi á þéttbýlum svæðum verði gert að niðurgreiða þá starfsemi.“

Þetta er einmitt það sem fyrirvari okkar hv. þm. Ólafs Ísleifssonar er við, að þetta sé ekki góð aðferð til þess að jafna kostnað. Og svo ég haldi aðeins áfram:

„Að gefnu tilefni, og í framhaldi af framanrituðu, óska SI eftir að koma á framfæri ábendingum til atvinnuveganefndar hvað varðar enn frekari hvata er varða hagræði á sviði gjaldtöku fyrir raforku og atvinnuuppbyggingu, þar með talin atvinnustarfsemi jafnt utan sem innan þéttbýlis. Benda samtökin á að samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, eru notendahópar raforku tvenns konar. Annars vegar almennir notendur, þ.e. heimili og fyrirtæki sem ekki teljast til stórnotenda og þar með talinn sá notendahópur sem m.a. jöfnun á raforku tekur til, og hins vegar stórnotendur. Á grundvelli þessarar tvískiptingar er fyrirtækjum, sem nota ákveðið magn raforku á hverjum stað, heimilt að njóta ákveðins hagræðis sem stórnotendur. Notendahópur raforku hefur hins vegar tekið breytingum undanfarinn áratug eða frá þeim tíma sem raforkulög voru sett árið 2003. Í núverandi fyrirkomulagi er lítið hagræði fyrir orkusækinn iðnað að hefja starfsemi sem ekki fellur undir stórnotendahugtak raforkulaga og hagræði sem þeim er veitt með þeim lögum. Hins vegar telja samtökin mikilvægt að stuðla að hvata fyrir ýmsa starfsemi, sem notar ákveðið magn raforku án þess að ná lægra þrepi stórnotendahugtaks raforkulaga, til að stuðla þannig að atvinnuuppbyggingu óháð þeim svæðum sem slík starfsemi er starfrækt. Slíkt myndi einnig veita raforkufyrirtækjum færi á að vaxa og dafna samhliða uppbyggingu viðskiptavina sinna. Í því skyni hafa samtökin talað fyrir því að regluverk raforkumála taki þannig tillit til svokallaðra millistórra notenda sem muni njóta þess í kjörum að nota mikla orku og um leið stuðla að atvinnuuppbyggingu hér á landi. Skora samtökin því á atvinnuveganefnd að taka slíkt fyrirkomulag til frekari skoðunar, sem sagt að teknu tilliti til þess með hvaða hætti stórnotendur, að breyttu breytanda, eru skilgreindir í raforkulögum og útfærsla á því hugtaki í lögunum með hliðsjón af millistórum notendum.“

Þarna eru samtökin í raun og veru að hvetja til þess að gætt sé sanngirni í raforkukostnaði þannig að það hvetji þá sem þurfa að nota rafmagn, sem eru flestir en misjafnlega mikið þótt allir þurfi að nota rafmagn, og minnast tvisvar sinnum á hvata. Að þessu sögðu ætla ég ekki að hafa mál mitt lengra. Eins og ég sagði í upphafi er þetta skref í rétta átt en ég hef áhyggjur af því að þetta muni enda eins og sagan hefur sýnt okkur þannig að við þurfum að finna einfaldari og betri útfærslu sem dugir.



[16:28]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Ég vildi rétt koma hingað upp og fagna því að við séum að klára þetta ferli, a.m.k. í bili, jöfnunina á dreifingu raforku. Það hefur komið fram í umræðunni að 2015 var þetta nánast jafnað að fullu ef ég man rétt. Á þessum fimm árum hefur myndast gat upp á milljarð í að nægilegt fjármagn sé til að jafna dreifinguna. Í frumvarpinu er verið að leggja til að hækka, eða verðbæta raunar, frá 2015 um 130 milljónir. Síðan koma 600 milljónir í gegnum fjárlög. Einnig eru 90 milljónir í fjárlögum frá og með 1. september 2021. Eftir það 270 milljónir á ári og þá er búið að ná þessari jöfnun að fullu. Með því sem er verið að gera hér er dreifikostnaður jafnaður úr 49% í 85%. Það er því verið að taka stór skref og við náum þessu síðan að fullu í haust.

Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hafa rætt um að við þurfum síðan að finna sjálfbærari leið til lengri tíma þannig að kerfið virki rétt í stóra samhenginu og við þurfum ekki að standa í þessum málum í gegnum fjárlög eins og við erum að gera núna að einhverju leyti. Við ættum heldur að reyna að finna sjálfbærari lausn. Ýmislegt hefur verið skoðað og í góðri vinnu atvinnuveganefndar við vinnslu málsins var ýmislegt reifað fyrir nefndinni. Við þurfum að vinna enn frekar í þá átt að klára þessi mál á næstu árum með betri hætti. Það kemur líka fram í þessari umræðu að það er mikil fjárfesting í gangi núna í dreifiveitunum og henni var flýtt eftir óveðrið í fyrra. Á næstu fimm árum þarf að klára að koma strengjum í jörð þannig að þetta verði mestallt komið í jörð. Þetta kemur að einhverju leyti fram í verðskránni en á að jafnast út til lengri tíma.

Það er einn punktur sem mig langar kannski fyrst og fremst að minnast á hér og kemur fram í nefndarálitinu en það er hvernig stórnotendur eru skilgreindir í kerfinu. Þetta er atriði sem tengist raunverulega atvinnu- og nýsköpun vítt og breitt um landið. Við þurfum að lækka þau mörk sem skilgreina stórnotendur sem komast þá úr þessari dýru dreifingu á raforku. Við þurfum að vinna það betur. Þessi umræða var töluvert í gangi í vinnu orkustefnunefndar sem skilaði af sér í haust.

Ég vildi rétt impra á þessu hér vegna þess að þetta er atriði sem mér þykir gríðarlega mikilvægt og við þurfum virkilega að taka okkur tak í að finna út hvernig ætlum að fara með þau mál í framtíðinni.