151. löggjafarþing — 38. fundur
 15. desember 2020.
ráðstöfun útvarpsgjalds, fyrri umræða.
þáltill. BergÓ o.fl., 397. mál. — Þskj. 566.

[17:37]
Flm. (Bergþór Ólason) (M):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um ráðstöfun útvarpsgjalds. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram frumvarp þess efnis að lögum um ráðstöfun útvarpsgjalds skuli breytt. Breytingin lúti að því að hverjum og einum greiðanda útvarpsgjalds skuli heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins til annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins eins og hann kýs.“

Það eru félagar mínir í þingflokki Miðflokksins sem eru meðflutningsmenn á þessari þingsályktunartillögu, allir sem einn. Meginmarkmið hennar er að styrkja og bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla um leið og dregið verður úr yfirburðarstöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði, eða eins og segir í greinargerð þingsályktunartillögunnar:

„Allir þeir sem skattskyldir eru á Íslandi, einstaklingar og lögaðilar, greiða sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins ohf. Útvarpsgjaldið, sem lagt er á við álagningu opinberra gjalda ár hvert, er lagt á þá einstaklinga sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laga um tekjuskatt og lögaðila sem bera sjálfstæða skattskyldu samkvæmt 2. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. […] Gjaldið nemur fastri fjárhæð sem er ákvörðuð með lögum. Hér er um að ræða nefskatt sem enginn skattskyldur aðili kemst undan að greiða. Skiptir þá engu hvort hann getur notað fjölmiðlaþjónustu Ríkisútvarpsins, hvort hann sættir sig við hana eða hvort hann skilur hana yfirleitt.

Með tillögu þessari er lagt til að unnið verði að breytingum á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013, sem fela í sér breytt fyrirkomulag við innheimtu útvarpsgjalds. Lagt er til að landsmenn hafi valfrelsi um ráðstöfun hluta þessa gjalds. Þannig geti þeir með framlagi sínu tryggt tiltekinn fjölbreytileika í rekstri fjölmiðla landsins. Með því að sitja eitt að þessum gjaldstofni hefur Ríkisútvarpið haft yfirburðastöðu gagnvart öllum öðrum fjölmiðlum, og gildir það um fréttaflutning og dagskrárgerð. Slík einokunarstaða, sérstaklega ríkismiðils, er óeðlileg nú á tímum og vinnur beinlínis gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana.

Í 1. gr. laga um Ríkisútvarpið er tiltekið að markmið þeirra sé að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í samfélaginu með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er þannig falin framkvæmd þessarar stefnu stjórnvalda. Það sé þjóðarmiðill og skuli rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Þá skuli það leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Það er skoðun flutningsmanna þessarar tillögu að til þess að Ríkisútvarpið geti rækt þessa skyldu þurfi að vera rými fyrir aðra öfluga fjölmiðla á markaðinum. Hér er átt við fjölmiðla sem geti veitt Ríkisútvarpinu aðhald og um leið aukið fjölbreytileika þjóðfélagsumræðunnar og eflt frekar skilning almennings á henni. […] Áhrif fjölmiðla á samfélagið eru svo viðamikil að fjölmiðlalæsi neytenda er ein af grundvallarforsendum þess að þeir geti talist fullgildir og virkir borgarar í lýðræðisríki. Að veita einum ríkisreknum miðli lungann úr fjölmiðlastyrkjum hins opinbera vinnur gegn þessum markmiðum.

Undanfarið hafa birst margvíslegar upplýsingar um að stjórnendur Ríkisútvarpsins telji sig hafa sjálfdæmi um það hvernig staðið er að rekstri þess. Bæði Ríkisendurskoðun og fjölmiðlanefnd hafa ítrekað gert alvarlegar athugasemdir við starfsemi Ríkisútvarpsins og framkvæmd á ýmsum lögbundnum skilyrðum sem gilda um rekstur stofnunarinnar. Hvað lögbundnar skyldur hennar varðar má jafnframt benda á að Ríkisútvarpið gegnir nú á dögum hvergi nærri sama öryggishlutverki og fyrr á tíð.

Nefskattur á borð við útvarpsgjald þekkist nú þegar í lögum um sóknargjöld. Þar er kveðið á um að þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög samkvæmt lögum um þau skuli eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti sem lagður er á samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt. Er það val skattgreiðenda til hvaða safnaðar gjaldið rennur. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að útfæra útvarpsgjaldið á svipaðan hátt, t.d. þannig að skattskyldur aðili tilgreini á skattframtali hverju sinni hvert hann vill beina hluta útvarpsgjaldsins.

Um árabil hefur verið rætt um að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og renna þannig styrkari stoðum undir frjálsa fjölmiðla. Augljóslega hefur slík útfærsla ekki hlotið brautargengi. Telja því flutningsmenn tillögunnar rétt að fara þessa leið með farsæld frjálsrar fjölmiðlunar fyrir augum og tryggja þannig heilbrigðari og fjölbreyttari þjóðmálaumræðu í landinu.“

Að þessu sögðu legg ég til að að lokinni fyrri umr. gangi málið til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.



[17:43]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég get ekki sagt að ég sé hissa á þessari tillögu frá hv. þingmönnum Miðflokksins. Ég hef heyrt þá segja ýmislegt um Ríkisútvarpið og lesið eftir þá enn meira þannig að sá andi sem svífur hér yfir vötnum kemur mér ekki á óvart. Ég gæti eytt dágóðum tíma með hv. þingmanni í andsvörum og best þætti mér ef ég fengi bara öll andsvaraslottin og við gætum átt gott samtal en því miður heimila þingsköp það ekki. Ég verð að velja úr textanum það sem mér finnst eiginlega með eindæmum eins og greinargerðin er. Ég kýs því að staldra við 2. efnisgrein í greinargerð, með leyfi forseta:

„Slík einokunarstaða, sérstaklega ríkismiðils, er óeðlileg nú á tímum og vinnur beinlínis gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana.“

Hvaða dómadagsvitleysa er í gangi, forseti? Eru hv. þingmenn að halda því fram að ríkisfjölmiðlar vinni gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana? (SDG: Já, RÚV alla vega.) Eru hv. þingmenn svo leiðitamir hv. þingmanni og foringja sínum, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem kallar hér fram í, að þeir geta ekki hugsað sér að aðrir geti myndað sér eigin skoðanir nema einhver segi þeim hvað eigi að hugsa? (Gripið fram í.) — Væri forseti til í að þagga niður í þessum gjammara (SDG: Segir hver?) hér úti í sal? Telur hv. þingmaður að BBC, að skandinavískir ríkisfjölmiðlar, ríkisfjölmiðlar um allan heim, vinni gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana? Eða er þetta bara enn ein aðförin að RÚV eins og birtist í gjammi hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar? (SDG: Ekki vera svona sár alltaf. Róa sig.)



[17:45]
Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé andsvarið og hefði nú orðið sár hefði hv. þingmaður ekki komið upp í andsvar við mig um þetta mál. Það er auðvitað algerlega augljóst að sú yfirburðastaða sem Ríkisútvarpið hefur á fjölmiðlamarkaði hefur áhrif á umræðu í samfélaginu. Það stenst beinlínis enga skynsemisskoðun að halda öðru fram þegar Ríkisútvarpið hefur úr um 7 milljörðum að spila á ári, þar af 5 sem koma í gegnum nefskattinn sem hér er til umræðu. Þetta frumvarp gengur fyrst og fremst út á það að styrkja og bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla í þessum slag við þetta allt um drottnandi fyrirbæri sem Ríkisútvarpið er.

Af því að ég veit að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um alþjóðasamninga og plögg sem koma frá alþjóðastofnunum þá segir beinlínis í 37. gr. tilskipunar Evrópuráðsins, nr. 65/2007, að fjölmiðlalæsi snúist um að gera neytendum kleift að nýta sér fjölmiðla á öruggan og skilvirkan hátt. Hluti af þessu er að fjölmiðlun, fréttaflutningur, dagskrárgerð, sé fjölbreytt í hverju samfélagi. Ég leyfi mér að fullyrða að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem hefur starfað sem blaðamaður, telji stöðu fjölmiðla og hlutverk þeirra í að upplýsa íbúa hverrar þjóðar ekki til fyrirmyndar í alræðissamfélögum þar sem ein ríkisfréttastofa stýrir því með hvaða hætti mál eru lögð fram og kynnt. En það sem undirstrikar viðkvæmni hv. þingmanns — nú er tíminn búinn. Ég fer í þetta í seinna andsvari af því að ég gef mér að hv. þingmaður komi hér upp aftur. Ég gef mér jafnframt að forseti leyfi ekki (Forseti hringir.) fleiri slott heldur en þetta eina þannig að nú ráðlegg (Forseti hringir.) ég þingmanninum að nýta tímann vel í spurningar (Forseti hringir.) en ekki eyða honum í almennar vangaveltur eins og áðan.



[17:48]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Það kemur nákvæmlega ekkert á óvart að hv. þingmaður reyndi ekki einu sinni að svara þeim spurningum sem til hans var beint. Það er nefnilega háttur Miðflokksmanna að finna sér vitleysuna, velta sér upp úr forinni, hlusta ekki á neinn sem reynir að tala við þá og svara engu, vera bara á sínum stað. Samtöl við Miðflokksmenn eru ekki til, frú forseti. (BergÓ: Viltu ekki spyrja um eitthvað? Þá er auðveldara að svara. ) Ef hv. þingmaður hlustaði stundum þá hefði hann heyrt spurningarnar frá mér áðan. Ég skal endurtaka þær fyrir hann: Telur hv. þingmaður að það sama eigi við um aðra ríkisfjölmiðla? Telur hv. þingmaður að t.d. í Bretlandi sé slík einokunarstaða sem vinni beinlínis gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana Breta? Telur hv. þingmaður það? Eða í öðrum löndum þar sem eru ríkisfjölmiðlar?

Forseti. Fátt sýnir betur þennan fáránlega hugsunarhátt en það sem hv. þingmaður sagði áðan um umræðuna, „þar sem ein ríkisfréttastofa stýrir því með hvaða hætti mál eru lögð fram og kynnt“. (Gripið fram í.) Það kemur mér ekkert á óvart að hv. þingmaður hafi aldrei opnað dagblað eða vefsíðu á Íslandi en þær eru til töluvert margar. Við erum meira að segja að fara að styrkja þær um mörg hundruð milljónir. (Gripið fram í.)

Hv. þingmönnum Miðflokksins er mjög tíðrætt um þessa 7 milljarða sem þeir virðast telja að fari beint í fréttastofu RÚV. (Gripið fram í.) Veit hv. þingmaður ekkert hver önnur hlutverk Ríkisútvarpsins eru? Hve stór hluti, hv. þingmaður, svo ég beini beinni spurningu til þingmannsins sem veit allt um fjármuni RÚV, af heildarfjármunum RÚV fer í fréttastofu, hve stór hluti fer í innlenda dagskrárgerð, fer í þá menningarstarfsemi sem safnadeild RÚV er o.s.frv.? Eða finnst hv. þingmönnum Miðflokksins það engu máli skipta?



[17:50]
Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmann segi ég bara: Rólegur, kúreki. Það er einfaldlega ekkert verið að fjalla um hlutfall fjárveitinga til fréttastofunnar í þessari þingsályktunartillögu. Það er einmitt sérstaklega komið inn á það að dagskrárgerð lúti sömu lögmálum í hugum málsflytjanda. Nú kristallast að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé virðist hvorki hafa lesið þingsályktunartillöguna né hlustað á framsögu mína sem er auðvitað bara eins og það er og ég á erfitt með að leiðrétta það. Ég verð þó að leiðrétta það sem kom fram í máli hv. þingmanns í seinna andsvari, að ég hefði verið að vísa til þess að fréttastofan stýrði fréttaflutningi og skoðanamyndun. Þegar ég kom inn á það í svari mínu var ég að tala um fréttastofur í alræðisríkjum. Það er lágmarkskrafa að hv. þingmaður hlusti á þann sem er að svara honum ef það á að vera eitthvert vit í framhaldsandsvari.

Ef það á að bera saman stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði á Íslandi við t.d. stöðu ríkismiðilsins BBC í Bretlandi þá er þar mjög ólíku saman að jafna. Ég skal fara í gegnum það í miklum „díteil“ en það er ekki mögulegt í stuttu andsvari. En það er hreinlega fáránlegur samanburður að leggja það að jöfnu.

Við hv. þingmann vil ég segja: Yfirburðastaða Ríkisútvarpsins á þessum markaði er með þeim hætti að það er hér um bil óbærilegt við að vera fyrir einkarekna miðla. Sama þunga staða er hvað almenna dagskrárgerð varðar en þetta er augljósast í fréttavinnslunni, (Forseti hringir.) svo maður segi það bara eins og það er. Í því felst engin gagnrýni á störf fréttastofunnar. Það er aðeins (Forseti hringir.) verið að benda á að fjárhagslega er það alger yfirburðastaða (Forseti hringir.) sem Ríkisútvarpið hefur.



[17:53]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Mig langar að leggja aðeins orð í belg um þessa ágætu tillögu sem við Miðflokksmenn stöndum að og varðar fjármögnun Ríkisútvarpsins að því leyti til að við leggjum til að almenningi verði sjálfum falin ábyrgð á því hvar hann vill að peningar hans sem fara í fjölmiðlun komi niður. Eins og við vitum er í gangi nauðungaráskrift að einum fjölmiðli. Það vill þannig til, herra forseti, að ég hygg að hvergi í umhverfi okkar hafi orðið jafn mikil þróun undanfarin ár og áratugi og í miðlun efnis, í fjölmiðlun. Við sjáum það bara alls staðar í hinum ólíku miðlum, svo sem í heimabrúki þar sem vínillinn hefur vikið fyrir CD sem hefur svo vikið fyrir streymisveitum. Það má segja að einn maður með sendi sé fjölmiðill. Við verðum vör við þetta núna þegar sú ríkisstjórn sem nú situr hyggst jafna aðstöðumun fjölmiðla á Íslandi með því að gera þá alla að ríkisfjölmiðlum, þ.e. ef þeir uppfylla ákveðin skilyrði.

Það er í sjálfu sér ótrúlega athyglisvert að eiginlega megi segja að Ríkisútvarpið hafi að mörgu leyti alveg frítt spil. Það virðist ekki þurfa að velta þar við neinum steini kostnaðarlega. Ég gagnrýndi það fyrir nokkrum árum að þá voru, held ég, 10 eða 12 framkvæmdastjórar hinna ýmsu sviða hjá Ríkisútvarpinu sem þá hafði rétt rúmlega 200 manns í vinnu plús verktaka sem síðar hefur komið í ljós að voru væntanlega ráðnir ólöglega. Það hefur jú komið í ljós á allra síðustu árum að meðan þessi þróun fjölmiðla heldur áfram — og það er enginn endir á því í augsýn — heldur Ríkisútvarpið að grunni til áfram að vera í svipuðu umhverfi, svipuðu boxi, og 1930, plús Rás 2, plús sjónvarp. Að öðru leyti er svo sem engin stórkostleg þróun í rekstri Ríkisútvarpsins nema hvað menn ákváðu fyrir nokkrum árum, illu heilli, að breyta fyrirtækinu í ohf. Og eins og á við um fleiri ohf. hefur eiginlega allt verið á verri leið en áður var ef eitthvað er. Nú er það ekki ætlan mín eða annarra Miðflokksmanna að fara að handstýra fjölmiðlum en það vill verða þannig með þau ohf. og hf. sem ríkið á að það virðist vera býsna langur vegur frá eigandanum til starfseminnar og þeirra sem stjórna starfseminni. Ég held að ég sé búinn að spyrja tvo menntamálaráðherra hver sé staða starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf., hvort þeir hafi réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna eða starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Síðast þegar ég spurði hæstv. menntamálaráðherra að þessu vissi hún ekki svarið. Ég veit ekki hvort þetta er eitt af því sem hefur lent á milli hluta þegar rekstrinum var breytt.

Ég vek athygli á því að á meðan við engu er hróflað í rekstri þessa fyrirtækis — sem nota bene fékk nú um daginn nokkur hundruð milljónir í viðbót úr ríkissjóði vegna slæms rekstrarástands. Það eru ekki allir fjölmiðlar svo heppnir að geta skrúfað frá slíkum krana þegar illa árar. Í breytilegum heimi og breyttum heimi þykir okkur tími til kominn að neytendur á fjölmiðlasviðinu fái að hafa eitthvað um það að segja í hvað afnotagjaldspeningarnir fara, þ.e. hvort menn vilji styðja og styrkja Ríkisútvarpið áfram um þessa upphæð eða hvort menn vilji ávísa upphæðinni í einhvern annan farveg. Það er tekið alveg öndvegisdæmi sem ég veit að forseti kannast vel við, þ.e. að þau gjöld sem menn kæra sig ekki um að þjóðkirkjan fái, þeim er hægt að ávísa annað að vild. Ég hef sagt það hér áður, herra forseti, að þjóðin fæðist inn í tvær stofnanir. Við fæðumst inn í þjóðkirkjuna og við fæðumst inn í RÚV. Við getum sagt okkur úr þjóðkirkjunni en það er bara ein leið út úr RÚV og hún er niður á sex fet. Það er bara þar til dauðinn aðskilur. Það eru ekki öðruvísi slit á því viðskiptasambandi.

Það er því fullkomlega eðlilegt og löngu tímabært að taka umræðu akkúrat um þetta án þess að vera neitt að fáta í erindi Ríkisútvarpsins við nútímann og án þess að verið sé að fara eitthvað sérstaklega yfir þá starfsemi sem þar er rekin. Þar eru viss gildi sem ber að hafa í huga, samanber hlutlægni, óhlutdrægni, að varðveita íslenskt mál og sinna öryggishlutverki. Ef vel er að gáð má finna gloppur í öllu þessu, herra forseti. Öryggishlutverkið er svo fínt að ég man eftir því, — og ég hef sagt þessa sögu hér áður — verandi á Fjallabaki syðra að sumarlagi og hefði átt að finna mig öruggan þar ef t.d. hefði flætt eða eitthvað slíkt, að þegar ég kveikti á útvarpinu þá var Lindin, kristileg útvarpsstöð, sú fyrsta sem mætti í útvarpið í bílnum. Ég hafði svo sem ekkert á móti því, alls ekki. Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð. En RÚV var ekki að finna á þessum bletti á landinu, alls ekki. Öryggishlutverkið á þessu landsvæði var því ekki til. Við gætum endalaust rökrætt hvort hlutlægnishlutverkið fellur að því sem það ætti að gera. Eitt getum við þó fullyrt, herra forseti, og það er að varðveisla íslensks máls er ekki til fyrirmyndar hjá þessu fyrirtæki svo að það sé bara sagt. Það verðum við vör við á hverjum einasta degi þegar við hlustum á rásir þessa fyrirtækis. Það má því greinilega taka til hendinni þarna og það má greinilega gera þarna eitthvað til að spara.

Ég skil ekkert í því að þessar tíu mínútur sem mér eru ætlaðar hér séu búnar. Ég verð að meta hvort ég þurfi að koma hingað upp aftur til að klára mál mitt. Ég læt þá forseta vita.



[18:04]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Þetta mál snýst fyrst og fremst um samkeppnisstöðu á fjölmiðlamarkaði, um sanngirni og lýðræði. En vegna geðshræringar hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés hérna áðan get ég ekki látið hjá líða að nefna að auðvitað er það líka mikilvægt að hugað sé að skyldum Ríkisútvarpsins til að sýna hlutlægni og sanngirni í umfjöllun sinni. Og af því að hv. þingmaður spurði í forundran hvort menn héldu virkilega að til að mynda BBC í Bretlandi væri að stýra umræðunni í tiltekna átt þá er kannski allt í lagi að minna á það að fyrrnefnd stofnun, BBC, hefur fengið mikla gagnrýni einmitt fyrir það og stjórnendur stofnunarinnar viðurkennt að þetta sé vandamál og lofað bót og betrun og eru nú að ráðast í átak til að bæta þar úr, svoleiðis að kannski getur það orðið fyrirmynd.

En hér ræðum við fyrst og fremst stöðuna á mjög mikilvægum og erfiðum samkeppnismarkaði sem er fjölmiðlarekstur á Íslandi. Með um 350.000 manna þjóð, ekki meira, er erfitt að halda úti umfangsmikilli fjölmiðlun þó að margir hafi unnið fórnfúst starf í því og nútímatækni auki vissulega möguleika manna á slíkum rekstri á hagkvæmari hátt en áður en tekjurnar eru engu að síður af það skornum skammti að flestir fjölmiðlar berjast í bökkum og þurfa jafnan fjárveitingar frá eigendum sínum, í allt of mörgum tilvikum hafa fjölmiðlar komist í þrot, jafnvel aftur og aftur, sami miðillinn og þurft að byrja upp á nýtt. Þeir sem reka þessa miðla hafa reynt, stundum nánast eins og hrópandinn í eyðimörkinni vegna lítilla viðbragða frá okkur hér á Alþingi, að krefjast meiri sanngirni og að við, löggjafinn, tökum tillit til aðstæðna þeirra. En það hefur verulega skort á það.

Með þessari þingsályktunartillögu er gerð tilraun til að bæta þar úr og þetta er lagt fram sem þingsályktunartillaga til þess einmitt að reyna að fá ríkisstjórnina með í þetta verkefni því að við höfum séð hvernig fer fyrir tillögum þegar búið er að leysa málin fyrir stjórninni og útfæra þær, þá er talið mikilvægast af öllu að láta þær hverfa eða hafna þeim. Með þessu móti leggjum við fram hugmynd að lausn sem við bjóðum ríkisstjórninni að vinna úr og að sjálfsögðu erum við reiðubúin til að taka þátt í þeirri vinnu því að ekki er vanþörf á. Það er ekki hægt að búa við það í rekstri á nokkru sviði að það sé einn ríkisstyrktur risi sem þurfi ekki að keppa á sömu forsendum og allir aðrir. Hvernig væri t.d. ef þetta væri í verslunarrekstri, í rekstri matvöruverslana, svo við tökum dæmi? Eru þær ekki mikilvægar? Jú, þær eru jafnvel enn þá mikilvægari en fjölmiðlar þó að þeir séu mikilvægir. Það er mikilvægast af öllu að hafa eitthvað að borða og ef hér hefði verið skortur á því að menn kæmust í slíkar nauðsynjar hefði ríkið hugsanlega einhvern tímann tekið það að sér að setja upp verslanir og reyna að þjónusta sem flesta. En væri eðlilegt að slíkt ástand ríkti nú eða væri eðlilegt að ríkið tæki að sér að stofna matvöruverslun ríkisins, matvöruverslun sem þyrfti ekki að ná hagnaði á sama hátt og aðrar verslanir og myndi keppa við þær á grundvelli, ekki aðeins tekna heldur sérstaks skatts, nefskatts, sem almenningur væri látinn greiða fyrir að halda þessum verslunum gangandi? Ég óttast að aðrar verslanir myndu flestar hverjar ekki endast lengi við þær aðstæður.

Það var skiljanlegt þegar Ríkisútvarpið var stofnað árið 1930, þá sem alger nýjung eða nánast alger nýjung á Íslandi, að það þyrfti aðkomu ríkisins til þess að hægt væri að ráðast í fjárfestinguna og senda fróðleik og upplýsingar til allra, a.m.k. flestra landsmanna. Öðruvísi hefði það ekki verið hægt á þeim tíma og lengi vel sat Ríkisútvarpið eitt á þessum markaði. En svo tóku aðrir fjölmiðlar, ljósvakamiðlar, að bætast við og fjölmiðlamarkaðurinn fyrir vikið orðinn gjörbreyttur og forsendurnar þar af leiðandi frá því sem var í upphafi. Við hljótum að vilja sem löggjafinn, sem neyðir í rauninni almenning til að greiða þennan nefskatt, að taka að einhverju leyti mið af aðstæðum og bregðast við þessari mismunun sem aðrir fjölmiðlar standa frammi fyrir.

Ríkisútvarpið er ekki kannski mikill stuðningsaðili annarrar ríkisstofnunar, svokallaðrar stundum, þjóðkirkjunnar, hefur jafnvel ráðist í söfnunarátak svona með öfugum formerkjum til að fá fólk til að skrá sig úr þjóðkirkjunni og fjallað töluvert um aðskilnað ríkis og kirkju þótt hann hafi reyndar þegar átt sér stað. En er ekki tímabært að við ræðum aðskilnað ríkis og RÚV, aðskilnað ríkis og útvarps? Með þessari tillögu er ekki verið að stíga það skref til fulls, ekki verið að ganga eins langt eins og t.d. hefur verið gengið hvað varðar þjóðkirkjuna. Það er verið að stíga fyrsta skrefið í því að gera Ríkisútvarpið sjálfbjarga og um leið jafna stöðuna, draga úr mismunun á fjölmiðlamarkaði og gera það á lýðræðislegan hátt með því að gefa hverjum og einum, sem nú greiðir þennan nefskatt, tækifæri til að hafa eitthvað um það að segja í hvaða fjölmiðlarekstur honum er varið þannig að ríkið sé ekki að skipa fólki að afhenda peningana sína til þess að láta eingöngu eina stofnun hafa þá heldur hafa menn smá tækifæri, þó afmarkað, vek athygli forseta á því hversu hóflegt þetta er og afmarkað, til þess að styðja við aðra fjölmiðla líka.

Svoleiðis að þetta er tillaga sem er til þess ætluð að bregðast við umfangsmiklum vanda, í rauninni neyðarástandi sem nú ríkir á fjölmiðlamarkaði, með miklu lýðræðislegri og skynsamlegri hætti en þær tillögur sem við höfum heyrt ræddar í ríkisstjórninni sem ganga út á að gera einkareknu miðlana háða ríkinu, háða því að vera skammtað úr hnefa frá ráðherra. Þar kemur einnig upp ýmis mismunun, eins og við höfum heyrt, það er ekki val, ekki endilega hægt að tala um jafnræði milli fjölmiðla eftir formi til að mynda hvað það varðar, en hér er um að ræða lýðræðislega leið, en þó farið mjög hóflega af stað, þar sem fólki er gefið aðeins meira tækifæri til að ráðstafa eigin peningum en gert er ráð fyrir í núverandi fyrirkomulagi.

Ég held að Ríkisútvarpið, sem talar mikið um hversu mikinn stuðning það telji sig hafa, hafi gott af því að fá slíka mælingu og þurfa að sanna sig, þurfa að sinna öllum landsmönnum og þurfa jafnvel að sýna sanngirni í umfjöllun sinni.

Þetta mál tekur á stórum vanda, leysir hann á skynsamlegan hátt, færir hér inn nýja nálgun sem getur orðið upphafið að endurreisn á íslenskum fjölmiðlamarkaði og um leið lýðræðislegra samfélagi.



[18:13]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka forseta vel meinta ábendingu í minn garð áðan. En þeim þingmanni sem hér stendur er ljós munurinn á þingsályktunartillögu og frumvarpi og veit svona sirka hve tíminn er í hverju fyrir sig og var ekki að álasa forseta fyrir skort á tíma, heldur var þetta kannski frekar almennt tuð yfir því að hafa svo mikið að segja að ekki væri hægt að koma því að á tíu mínútum. Það hefur verið þannig, herra forseti, eins og margir hér inni vita, að okkur Miðflokksmönnum hefur á síðustu dögum verið ráðlagt að stíga inn í tímavél eða hoppa aftur inn í torfbæinn. Það kann vel að vera að margt sé til í því, að við þurfum að gera annaðhvort eða hvort tveggja. En svo vill til að akkúrat núna þegar Miðflokkurinn kemur fram með þessa tillögu, sem er bæði framsækin, framsýn — og get ég sagt nýtískuleg, herra forseti, hún er frjálslynd — þá vill svo til að nánast allir frjálslyndir fulltrúar í þessum sal eru horfnir. Og ég er ekki að gera lítið úr þeim heiðursmönnum sem sitja hér af hálfu Samfylkingarinnar og fylgjast með umræðum, og væri fengur að því að fá sjónarmið þeirra fram í þessu máli.

En ég var kominn að því í fyrri ræðu minni að ég teldi að Ríkisútvarpið væri ekki að uppfylla það menningarhlutverk sitt að dagskráin sé flutt fram á góðri íslensku. Ég get nefnt eitt dæmi því til sönnunar, herra forseti. Um margra ára skeið, og jafnvel frá upphafi, ég er ekki alveg kunnugur því, hefur Ríkisútvarpið haft í þjónustu sinni svokallaðan málfarsráðunaut. Eina afrek þess aðila sem ég kann er orðskrípið „fössari“, og ég veit að ég á ekki að segja þetta í þessum ræðustól en ég verð að gera það bara til að taka eitt dæmi. Aðra hortitti gæti ég tínt til til að sýna fram á að þarna vantar upp á, en það er ekki aðalatriðið.

Það er eiginlega tvennt sem okkur gengur til með þessum tillöguflutningi. Í fyrsta lagi að skattgreiðendur fái val um það hvert neyðaráskrift þeirra rennur og að stofnuninni, eða fyrirtækinu, ohf.-inu, sé gert kleift að kynnast stöðu sinni á markaði, að kynnast því af eigin raun hver staða ríkisfjölmiðilsins er meðal þjóðarinnar, hvort það er enn RÚV okkar allra eða bara sumra. Ríkisútvarpið hefur látið mæla traust á sjálfu sér nokkuð lengi og kemur bara þokkalega út. Sé það raunin að þjóðin treysti RÚV ohf. jafn vel og af er látið þarf Ríkisútvarpið ohf. ekki að óttast nokkurn skapaðan hlut. Þá bara heldur það áfram að fá í sinn hlut þann stóra skerf af nefskattinum sem útvarpsgjaldið er og getur farið öllu sínu fram. Sé traustið og áhuginn á dagskrá ríkisfjölmiðilsins hins vegar með öðrum hætti þarf hann einfaldlega að laga sig að þeim aðstæðum eins og önnur fyrirtæki gera sem selja þjónustu eða vöru, að laga sig að þeim veruleika sem nú er uppi.

Herra forseti. Nú ætla ég að segja aftur það sem ég sagði í upphafi fyrri ræðu minnar. Í engum geira sem ég man eftir hefur orðið jafn mikil þróun undanfarna áratugi og í margmiðlun og fjölmiðlun. Allir sem taka þátt í þeirri starfsemi þurfa einfaldlega að fylgja þeirri þróun sem best þeir geta. Og ég er viss um að það er alveg hægt, Ríkisútvarpið ohf. hefur alla burði til að gera það. Málið snýst einfaldlega um að veita útvarpinu tækifæri til að mæla stuðning við sjálft sig og taka stefnuna þaðan.



[18:19]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er hér um tímamótatillögu að ræða af hálfu okkar Miðflokksmanna til að koma til móts við þann vanda sem við þekkjum öll að steðjar nú að einkareknum fjölmiðlum. Það er nú einu sinni þannig að burt séð frá kórónuveirunni og þeim áhrifum sem hún hefur haft á fjölda fyrirtækja í landinu þá er rekstrargrundvöllur fjölmiðla víða um heim í ákveðinni kreppu, bæði vegna harðnandi samkeppni og vegna víðtækra breytinga á fjölmiðlum á umliðnum árum. Almennt er það þannig þegar lýtur að stuðningi til fjölmiðla í almannaþágu að hans er aflað með tvennum hætti. Annars vegar er um að ræða opinber fjárframlög sem við þekkjum, sem t.d. Ríkisútvarpið nýtur, og hins vegar í formi afnotagjalds, einhverju formi, sem er þá nefskattur eða útvarpsgjald eins og við erum að ræða hér og við Miðflokksmenn erum að leggja til breytingu á. Þetta er skynsamleg breyting vegna þess að hún gerir hverjum og einum greiðanda útvarpsgjaldsins heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins til annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins. Í dag er þetta þannig að það rennur allt til Ríkisútvarpsins og greiðandinn hefur ekkert val um það hvert þessir fjármunir fara. Það er svolítið sérstakt, vægast sagt, vegna þess að maður hefði talið að það væri lýðræðislega eðlilegt að fá að ráðstafa þessu gjaldi til annarra fjölmiðla.

Þessi tillaga er mjög hófleg, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, en hún gengur út á að gera einnig þeim fjölmiðlum sem þá fengju þetta gjald kleift að sinna hlutverki sínu betur. Það er rétt að skoða aðeins hlutverk fjölmiðla og hvernig þeir sinna hlutverki sínu betur. Það er mjög mikilvægt og sérstaklega á þeim tímum sem við lifum í dag, þegar við sjáum t.d. alls konar falsfréttir og hvernig eigendur fjölmiðlafyrirtækja misnota vald sitt með ýmsum hætti. Það hefur gjarnan verið talað um að fjölmiðlar séu hið svokallaða fjórða vald sem bætist í hóp hinna þriggja stoða ríkisvaldsins; löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds.

Við þekkjum það að hlutverk fjölmiðla er m.a. að miðla upplýsingum og skoðunum til almennings. Þar af leiðandi hafa þeir gríðarlega mikil áhrif á viðhorf fólks. Því er nauðsynlegt að ritstjórar hafi frelsi til að stýra fjölmiðlum sínum faglega án þess að fréttir og umfjöllunarefni þeirra verði undir áhrifum og þrýstingi frá eigendum og öðrum hagsmunaaðilum. Það er þó algeng skoðun að erfitt sé að halda uppi alfarið óháðum fjölmiðli þar sem það sé óhjákvæmilegt að verða fyrir áhrifum einhvers, hvort sem það er frá eigendum, auglýsendum eða skoðunum blaðamanna sjálfra. Svo hafa fjölmiðlar náttúrlega það mikilvæga hlutverk að endurspegla fjölbreytt samfélag.

Þessi tillaga er afar mikilvæg að því leytinu til að hún gerir fjölmiðla ekki háða. Ef sú leið verður farin sem rætt hefur verið um, að ríkið styrki fjölmiðlana með beinum greiðslum, er sú hætta fyrir hendi að umfjöllunin geti verið lituð að einhverju leyti. Hér er farin sú lýðræðislega leið að hver og einn geti ráðstafað gjaldinu að eigin vild, sem maður hefði talið að væri mjög skynsamlegt. Satt best að segja finnst mér svolítið einkennilegt að það sé ekki búið að fara þá leið.

Það er að sjálfsögðu mikilvægt að framboð fjölmiðla sé fjölbreytt til að koma sem flestum sjónarmiðum á framfæri og þess vegna eru einkareknu og líka litlu fjölmiðlarnir mikilvægir, sérstaklega þegar kemur að lýðræðislegri og óháðri umræðu. Það þarf að gæta að þessum fjölbreytileika og að því að fjölmiðlar séu ekki handbendi fárra einstaklinga. Það eru til ýmsar kenningar sem hafa komið fram og lagt grunn að hugmyndinni um hið mikla vald sem fjölmiðlar hafa, þar á meðal kenningin um dagskrárvaldið sem höfum stundum heyrt. Það er það vald sem fjölmiðlar hafa til að draga upp ákveðna mynd af veruleikanum. Þeir hafa vald til að velja hvaða fréttir skulu sagðar og hvernig þær skulu sagðar, sem mun óhjákvæmilega hafa áhrif á hvernig skoðanir áhorfenda mótast. Fjölmiðlar búa því yfir miklu valdi. Þeir hafa vald til að draga upp ákveðna mynd af veruleika dagsins og hafa áhrif á þær skoðanir sem við myndum okkur. Hvaða fréttir eru valdar til umfjöllunar og hvernig þær eru sagðar skipti því síður en svo litlu máli. Það eru ýmsir áhrifaþættir, bæði innan og utan fjölmiðlanna, sem spila inn í það hvernig fréttir eru valdar og unnar. Þegar kemur að því að velja fréttir gera fréttamenn sér ekki endilega grein fyrir því sjálfir hvað það sé sem ráði för.

Ef við skoðum aðeins hin Norðurlöndin þá er hin almenna stefna víðast hvar sú að halda almannaútvarpsstöðvunum, sem eru á vegum hins opinbera, utan við samkeppni á auglýsingamarkaði á sama tíma og þær keppa við einkareknar stöðvar um áhorfendur og hlustendur. Þannig er norska ríkisútvarpið nánast algerlega án auglýsinga.

Minni tekjur og umfangsmikill niðurskurður á fréttastofum og ritstjórnum kemur í veg fyrir að stjórnendur hafi þær bjargir sem þarf til að skila til almennings raunverulegri fjölbreytni fjölmiðlaefnis. Í Noregi var fyrir ekki svo löngu síðan sett á laggirnar nefnd sem skoðaði fjölmiðlaumhverfið þar. Sú nefnd taldi að mikil hætta væri á því að sú blaðamennska sem er nauðsynleg fyrir opinbera umræðu gæti beinlínis horfið áður en tækist að finna þetta sjálfbæra rekstrarmódel fyrir fjölmiðla. Það er því, og við sjáum það núna, mjög brýnt að fara að finna lausn á þessu. Þess vegna er tillaga okkar mjög góð. Hún er mjög einföld í framkvæmd og í raun og veru óumdeild. Einstaklingur getur ráðstafað gjaldinu sjálfur, þó aðeins að hluta, þetta er hófleg tillaga, og þá fer þetta beint til viðkomandi fjölmiðils. Hér hefur ríkisstjórnin reynt að koma í gegn máli sem kallast fjölmiðlafrumvarpið, til að reyna að styrkja fjölmiðla. Það hefur gengið brösuglega hjá þeim að koma því máli áfram og mikill ágreiningur innan ríkisstjórnarflokkanna um það. Á meðan tapast dýrmætur tími og þess vegna er mjög mikilvægt að koma með einfalda lausn, sem við Miðflokksmenn erum að gera með þessari tillögu sem gagnast öllum fjölmiðlum alveg örugglega. Það er svo sannarlega nauðsynlegt að bregðast við sem fyrst.

Það er svolítið fróðlegt, herra forseti, að skoða niðurstöðu nefndar í Noregi sem skilaði tillögu um hvernig ætti að bregðast við fjölmiðlamarkaðnum þar, en ég sé að tíminn er orðinn ansi skammur til að fara yfir það. Í Noregi er ríkur skilningur á lýðræðishlutverki fjölmiðla og þar hafa háar fjárhæðir farið úr sameiginlegum sjóðum um árabil til að styrkja fjölbreytni og fjölræði í norskum fjölmiðlum. Það er líka bent á að ekki sé um annað að ræða á meðan efnahagslegar undirstöður fjölmiðla breytast ekki til hins betra en að halda áfram myndarlega á þeirri braut. Þetta er hið norska módel. Norðmenn vilja talsverðu kosta til (Forseti hringir.) svo að raunveruleg lýðræðisleg umræða geti þrifist.

Herra forseti. Eins og ég sagði er þessi tillaga einföld. Hún er góð og kemur til með að bregðast við vanda (Forseti hringir.) sem er brýnn. Ég vona svo sannarlega að hún njóti stuðnings hér og fái skjóta meðferð.



[18:29]
Flm. (Bergþór Ólason) (M):

Virðulegur forseti. Mig langaði bara sem flutningsmaður tillögunnar að kom upp við lok umræðunnar og þakka fyrir prýðisgóða umræðu og innlegg. Það er rétt að halda því til haga að málið allt gengur út á það að auka frelsi þeirra sem greiða svokallað nefgjald sem Ríkisútvarpið situr eitt að í dag. Ég held að hér sé komin lausn sem leysir á einu bretti það vandamál sem hefur verið kastað á milli stjórnarflokkanna og í pólitíkinni um langa hríð, hvernig eigi að styðja við einkareknu fjölmiðlana á sama tíma og það tekst með þessu að jafna stöðu einkareknu fjölmiðlanna samanborið við ríkisrekna miðilinn.

Lagt er til að það sé þriðjungur sem gjaldendur fái að ráðstafa sjálfir. Þriðjungur af gjaldinu eru rúmir 1,5 milljarðar. Það er auðvitað sennilega aldrei þannig að allir velji að ráðstafa þessu með öðrum hætti en er í dag. Ef við gefum okkur að um helmingur gjaldenda nýti sér það þá eru þetta kannski 800 millj. kr. á ári, eitthvað svoleiðis, en fjölmiðlafrumvarpið er að vinna með tölu upp á 400 millj. kr., um það bil. Ég held að við séum með þessum hætti búnir að stíga með meira afli inn í það að styðja við einkareknu miðlana, innlenda fréttavinnslu og fréttaöflun og innlenda dagskrárgerð. Ég vil því bara hvetja þingheim allan til að taka þessari tillögu vel og ég vona að umræðan í allsherjar- og menntamálanefnd verði góð.

Ýmsir munu eflaust vilja ráðstafa hluta af sínu gjaldi til Morgunblaðsins eða Fréttablaðsins, aðrir til DV eða Stundarinnar og enn aðrir til fotbolti.net eða einhvers annars íþróttamiðils, svo að dæmi séu tekin. Einhverjir munu vilja styðja við héraðsfréttamiðlana sína. Í norðvesturkjördæmi gætu þar komið til Skessuhorn, svo Bæjarins bestu, Feykir, Skagafréttir, Jökull og Húnahornið svo að nokkur séu nefnd. Ég held að mjög margt jákvætt náist fram með því að leyfa einstaklingum og gjaldendum öllum að ráðstafa þessu gjaldi að hluta til sjálfir. Það setur líka aðhald á hið alltumlykjandi Ríkisútvarp, að það gæti hlutleysis og sinni störfum sínum af samviskusemi, bara rétt eins og lög kveða á um. En ég ætla ekki að lengja þessa umræðu núna. Ég bara vona að málið fái jákvæðar og góðar undirtektir. Við í þingflokki Miðflokksins sláum margar flugur í einu höggi með þessari tillögu okkar.

Það er kannski eitt atriði sérstaklega sem mig langar til að halda til haga í lokin. Eflaust munu einhverjir hugsa: Ja, hvað er þá því til fyrirstöðu að það verði bara bætt í úr ríkissjóði þeim upphæðum sem gjaldendur ákveða að ráðstafa til annarra einkamiðla? Það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu. Það er ekki markmiðið með þessari tillögu en það eru önnur mál sem þurfa að koma til sjálfstæðrar skoðunar burt séð frá þessu, það er vera Ríkisútvarpsins og fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og það er t.d. hvort ekki væri rétt að endurskoða reglur um virðisauka, til að mynda af áskriftum frjálsra fjölmiðla. Ættum við að skoða þætti sem snúa að skattlagningu auglýsingatekna o.s.frv.? Getum við unnið eitthvað með tryggingagjald starfsmanna? Eins og við þekkjum er launahlutfall af rekstrarkostnaði auðvitað mjög hátt hjá fjölmiðlum.

Það að þetta mál klárist og verði afgreitt með þessum hætti fríar þingheim ekki frá því að taka umræðuna um stöðuna á auglýsingamarkaði og síðan aðra þá þætti sem geta stutt við innlenda fjölmiðlun og fréttaöflun með áherslu á að styðja við einkareknu miðlana, bæði hvað fréttavinnslu og -öflun varðar og almenna dagskrárgerð.

Að endingu þakka ég fyrir góðar umræður og óska þessari þingsályktunartillögu okkar í Miðflokknum alls hins besta.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.