151. löggjafarþing — 39. fundur
 16. desember 2020.
greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs , frh. 2. umræðu.
stjfrv., 362. mál. — Þskj. 454, nál. 597, breytingartillaga 598 og 599.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:25]

[15:19]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er enn eitt málið sem ætlað er að aðstoða þá sem eiga erfitt vegna Covid-faraldursins og sóttvarnaaðgerða og slíks. Þetta er styrkur, aðstoð við íþróttafélög, mjög mikilvæg aðstoð og það er jákvætt að málið tók þeim breytingum í meðförum nefndarinnar að búið er að taka verktaka inn í það. Það breytir því hins vegar ekki að út af stendur ekki eingöngu ákveðinn ágreiningur heldur ruglingur um hvernig málum er varðar launatengd gjöld skuli fyrir komið. Eru þau inni í þessu máli eða ekki? Þar hefur líka verið ruglað saman tengslum launatengdra gjalda við verktaka. Það er skemmst frá því að segja að málið er statt þar núna að þeir sem eiga að njóta góðs af skilja fæstir nákvæmlega um hvað er verið að tala. Það er miður og ég óska eftir því að málið verði kallað inn til nefndar á milli 2. og 3. umr., einfaldlega til þess að við fáum nákvæmlega úr því skorið hver aðstoðin er við þessa hópa og helst fá því breytt þannig að launatengd gjöld falli undir aðstoðina, en það er önnur saga. En lágmarkið er að málið frá okkur sé afgreitt (Forseti hringir.) þannig að það sé skýrt til hvers refirnir eru skornir.



[15:21]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt mál og það hefur tekið framförum í meðferð hv. velferðarnefndar þar sem búið er að taka verktaka líka inn í málið. Í stað þess að skilja þá eftir og láta þá vera einhvers staðar í menntamálaráðuneytinu í styrkveitingum er þetta tekið saman inn í málið. En eins og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson sagði hér rétt á undan þá urðu, að því ég tel, mistök í nefndinni sem ég legg til breytingar á þannig að launatengdu gjöldin fái að vera með í þessu máli eins og í öðrum sambærilegum málum eins og t.d. uppsagnarstyrknum. Þar eru launatengdu gjöldin með og þau ættu að vera það hér líka. Búið er að óska eftir því að málið fari til nefndar milli 2. og 3. umr. og þá er það bara fínt. En ég hvet stjórnarliða til að sýna smá hugrekki og styðja tillögu sem kemur frá minni hlutanum, að prófa það. Það er stundum ágætt af því að við erum ekkert svo vitlaus.



[15:22]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er á ferðinni býsna gott mál og þarft. Það er mikilvægt að í því er komið til móts við þessa gríðarstóru fjöldahreyfingu þar sem þúsundir manna starfa í sjálfboðavinnu og fáein þúsund í launuðum störfum. Það skiptir máli að þeir aðilar fái skilaboð frá okkur um það að við séum tilbúin til þess að hlaupa undir bagga með þeim eins og öðrum sem hafa orðið fyrir búsifjum í Covid-faraldrinum. Ég styð því þetta mál heils hugar sem og þingflokkur Vinstri grænna. Ég hlakka til að taka við málinu á milli umræðna í nefndinni ef það getur orðið til þess að leiðrétta þann skoðanamun og mögulega misskilning sem menn hafa talað um hér áður en við göngum frá málinu endanlega.



[15:23]
Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil fagna þeirri breytingu sem orðið hefur á málinu í meðförum nefndarinnar þar sem verktakagreiðslur eru komnar inn undir regnhlíf málsins, ef svo má segja. Það var gagnrýnt, m.a. af mér, með mjög ákveðnum hætti við 1. umr. málsins að verktakagreiðslur féllu ekki þar undir. En það er einhver misskilningur í meðförum nefndarinnar varðandi þetta 70% hlutfall sem nú liggur fyrir breytingartillaga um að verði fært úr 70% í 90%, og við í Miðflokknum munum styðja þá breytingartillögu. En núna þegar fyrir liggur að málið verði kallað inn til nefndar á milli umræðna þá vil ég bara hvetja hv. velferðarnefnd til að laga þann þátt málsins því að ég ítreka að þetta er byggt á einhverjum misskilningi í tengslum við launatengdu gjöldin.



[15:24]
Ásmundur Friðriksson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér greiðslur til íþróttafélaga. Komið hefur í ljós um þetta annars ótrúlega góða mál, sem ríkir auðvitað mikil samstaða um, að hér eru mistök sem við þurfum að leiðrétta og þess vegna tek ég undir þá ósk að málið fari til nefndar milli 2. og 3. umr. Við þurfum að fara aðeins yfir og laga smámisræmi sem er í 1. gr. og 6. gr. Ég vil að öðru leyti þakka fyrir gott samstarf um þetta mál. Það er auðvitað alltaf þannig að fólk vill gera meira og meira en við erum að koma hérna ótrúlega vel til móts við íþróttahreyfinguna, gera frábæra hluti, taka undir óskir hreyfingarinnar um að verktakagreiðslurnar séu með. Verktakagreiðslurnar eru 60% hluti af þessu máli þannig að í meðförum nefndarinnar hefur framlagið hækkað um rúmlega 60%. Það er því verið að taka rosalega vel á þessu máli með íþróttahreyfingunni.



Brtt. 598,1 samþ. með 60 shlj. atkv.

 1. gr., svo breytt, samþ. með 61 shlj. atkv.

Brtt. 598,2–4 samþ. með 61 shlj. atkv.

 2.–5. gr., svo breyttar, samþ. með 61 shlj. atkv.

Brtt. 599,1 felld með 32:29 atkv. og sögðu

  já:  AFE,  AIJ,  AKÁ,  ÁÓÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HKF,  HVH,  HHG,  JÞÓ,  JSV,  KGH,  LE,  OH,  ÓÍ,  RBB,  SEÞ,  SDG,  SPJ,  SMc,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞorS,  ÞSÆ.
nei:  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  SÁA,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
2 þm. (ATG,  IngS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:27]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er tillaga um launatengdu gjöldin. Ég held að það sé ekki vilji meiri hluta þingsins að skilja íþróttahreyfinguna eftir með launatengdu gjöldin hjá sér í stað þess að styðja þau eins og önnur fyrirtæki. Tekin var ákvörðun um það hjá stjórnvöldum að hafa launatengdu gjöldin með í stuðningi þegar kemur að öðrum fyrirtækjum og öðrum aðilum í rekstri. Ég trúi því innst inni að þetta sé einhver misskilningur. Ég held að meiri hlutinn vilji styðja við íþróttafélögin alla leið. Það er einhver meinloka að geta ekki stutt breytingartillögu sem kemur frá minni hluta. Það eru engin rök fyrir því. Það eru engin rök fyrir því hjá meiri hlutanum að styðja ekki þessa tillögu þó að hún komi frá stjórnarandstöðunni. Ég held að þetta sé einhver misskilningur, en þetta mun bitna á íþróttahreyfingunni.

(Forseti (SJS): Forseti verður að árétta þá fortakslausu reglu að menn geta ekki beðið um orðið til að gera grein fyrir atkvæði sínu eftir að einhver þingmaður hefur tekið til máls. Það verður ekki gefið eftir á þeirri víglínu.)



Brtt. 599,2, brtt. við brtt. á þskj. 598, felld með 32:29 atkv. og sögðu

  já:  AFE,  AIJ,  AKÁ,  ÁÓÁ,  BergÓ,  BirgÞ,  BLG,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HKF,  HVH,  HHG,  JÞÓ,  JSV,  KGH,  LE,  OH,  ÓÍ,  RBB,  SEÞ,  SDG,  SPJ,  SMc,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞorS,  ÞSÆ.
nei:  ÁslS,  ÁsmD,  ÁsF,  BÁ,  BjG,  BjarnB,  BHar,  BN,  GÞÞ,  HSK,  HarB,  JónG,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  NTF,  ÓGunn,  ÓBK,  PállM,  SÁA,  SIJ,  SilG,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórdG,  ÞórE.
2 þm. (ATG,  IngS) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:29]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir að hleypa mér að. [Hlátur í þingsal.] Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir breytingartillöguna. Ég greiddi atkvæði gegn henni í þeirri trú að málið fari aftur á milli umræðna til nefndar. Um þetta mál er full samstaða. Þess vegna er algerlega við hæfi að málið fari aftur til nefndar og komi hingað vel um búið þannig að allir skilji um hvað málið snýst og Alþingi viðurkenni laun og launatengd gjöld. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við getum þá öll verið saman í því að greiða atkvæði með þessu máli svo um búnu.



Brtt. 598,5 samþ. með 61 shlj. atkv.

 6. gr., svo breytt, samþ. með 60 shlj. atkv.

Brtt. 598,6–8 samþ. með 61 shlj. atkv.

 7.–9. gr., svo breyttar, samþ. með 61 shlj. atkv.

 10.–13. gr. samþ. með 61 shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. með 61 shlj. atkv.

Frumvarpið gengur til 3. umr. 

Frumvarpið gengur (eftir 2. umr.) til velfn.