151. löggjafarþing — 40. fundur
 17. desember 2020.
breyting á lögreglulögum.

[10:40]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Nýlega var lagt fram frumvarp um breytingar á lögreglulögum. Þar kennir ýmissa grasa, til að mynda er kveðið á um sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu í samræmi við þingsályktunartillögu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar sem Alþingi samþykkti fyrir nákvæmlega einu ári eða 17. desember í fyrra. Það er skemmtileg tilviljun og enn skemmtilegra að komin sé hreyfing á þetta mikilvæga mál. En mig langar að beina sjónum að öðrum þætti í frumvarpinu eða þeim sem lýtur að samstarfi lögreglu við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir. Það stendur nefnilega til að bæta grein við lögin sem segir að erlendir lögreglumenn sem koma til starfa hér á landi muni fara með lögregluvald. Það verði síðan í höndum ríkislögreglustjóra að taka endanlega ákvörðun um hvort þessir erlendu lögreglumenn fái að fara með lögregluvald, en þó kemur ekki nákvæmlega fram hvað í þessu valdi felst.

Því langar mig að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvaða skilning hún leggur í það að útlenskir lögreglumenn muni geta farið með lögregluvald hér á landi. Hvaða heimildir gætu þeir fengið? Hvaða rök standa að baki veitingu slíkra heimilda?

Í frumvarpinu segir einnig að ráðherra skuli setja nánari reglur um samstarf lögreglu við erlend lögregluyfirvöld. Er sérstaklega minnst á vopnaburð erlendra lögreglumanna í því samhengi. Mig langar því einnig að spyrja hæstv. ráðherra hvað hún sjái fyrir sér í þeim efnum.



[10:42]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið dreift nýju frumvarpi um breytingu á lögreglulögum sem ég hef ekki náð að mæla fyrir. Ég tel vera ýmsar mikilvægar breytingar í því, eins og hv. þingmaður kemur inn á, m.a. með eftirlitið þar sem við erum að reyna að styrkja stoðir nefndarinnar og eftirlit með lögreglu, gera mögulegt að komast að sjálfstæðri niðurstöðu, hraða málsmeðferðartíma nefndarinnar o.s.frv.

Síðan er spurt um vald erlendrar lögreglu. Um er að ræða alþjóðlegt samstarf og atriði sem við þurftum að skýra gagnvart löndum í kringum okkur þegar hafa verið skipti milli landa, milli lögregluyfirvalda, og þegar við höfum komið að alþjóðlegri aðstoð. Þetta snýst um alþjóðlegt samstarf fyrst og fremst.

Varðandi þriðja atriðið þá beinir hv. þingmaður sjónum sínum að einhverjum breytingum er varða vopnaburð lögreglumanna sem ég tel mig ekki vera að fara í með frumvarpinu að miklu leyti. Það hefur ekki verið á áætlun að breyta því með einhverjum hætti. Þarna er verið að styrkja stoðir ýmissa ákvæða sem hefur þurft að skýra. Um einhverjar hafa komið athugasemdir og annað er það sem ég hef boðað um lögfestingu lögregluráðs sem er aukið samstarf lögreglumanna um eftirlit með lögreglumönnum, um aldursskilyrði o.fl. Önnur atriði eru kannski smávægilegri og hafa komið upp í athugasemdum, m.a. í skýrslum, og hefur verið beint að dómsmálaráðuneytinu að bæta úr.



[10:43]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég geri mér grein fyrir að verið er að setja ákvæði í lögin um erlent samstarf lögreglunnar, en ég er að reyna að fá fram hjá ráðherra hvað veiting þessa lögregluvalds felur í sér, hvað hún sér fyrir sér, hvort það muni gefa erlendum lögreglumönnum heimild til þess að aðhafast hér á Íslandi. Hvaða skilning leggur hún í lögregluvald sem hægt er að veita erlendum lögreglumönnum? Hvað geta þeir gert? Samkvæmt orðalaginu í ákvæðinu virðist mér það a.m.k. mögulegt að bandarískir alríkislögreglumenn gætu elt uppi íslenskan hakkara eða þýskir lögreglumenn gætu mætt með schäfer-hundana sína við Seyðisfjarðarhöfn, nú eða að namibískir lögreglumenn gætu ráðist í húsleitir og handtökur á Dalvík. Telur ráðherra að skýra þurfi hverjar heimildir erlendra lögregluþjóna verða hér á landi eða á það algjörlega að vera undir ríkislögreglustjóra komið hvaða vald erlendir lögreglumenn muni hafa gagnvart íslenskum borgurum, gagnvart íslenskri lögsögu á Íslandi?



[10:45]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Með þessu ákvæði erum við bara að uppfylla alþjóðlegar skyldur okkar og þarna er kveðið á um að ríkislögreglustjóri geti ákveðið að aðilar sem koma hér til starfa í skiptum eða annað fari með lögregluvald, en ráðherra er líka heimilt að setja nánari reglur um þetta samstarf lögreglu við erlend lögregluyfirvöld og alþjóðastofnanir, þar á meðal um vopnaburð erlendra lögreglumanna og upplýsingaskipti. Hérna er verið, eins og ég hef sagt, að uppfylla alþjóðlegar skyldur. Þetta verður ekki með þeim hætti sem hv. þingmaður nefnir, að hér geti bara komið lögreglumenn og haft lögregluvald án þess að það sé nokkuð skýrt af íslenskum yfirvöldum. Það verður skýrt, ríkislögreglustjóri ákveður með hvers konar hætti þetta er, í hvers konar samstarfi og ráðherra getur sett nánari reglur. Síðan gerir Prüm-samkomulagið kröfu um að samstarfsríki veiti löggæsluyfirvöldum gagnkvæman aðgang að gagnagrunnum t.d. og að sama skapi gerir sá samningur kröfu um aðgang íslenskra löggæsluyfirvalda að evrópska fingrafaragrunninum og kröfu um upplýsingaskipti og þetta er partur af þeim alþjóðlegu skyldum og samstarfi.