151. löggjafarþing — 40. fundur
 17. desember 2020.
almannatryggingar.

[10:46]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þann 10. desember, í svari við óundirbúinni fyrirspurn hv. þm. Ingu Sæland, sagði hæstv. fjármálaráðherra orðrétt, með leyfi forseta:

„Við höfum gert sérstakar úrbætur fyrir þennan hóp tiltölulega nýlega með breytingu sem félagsmálaráðherra kynnti fyrir þinginu. Það kom í kjölfarið á því að úttekt sem hópur sérfræðinga og hagsmunaaðila framkvæmdi sýndi að það væru einstaklingar í viðkvæmri stöðu í þessum hópi, einstæðingar sérstaklega, fólk með mjög lágar lífeyristekjur eða engar, og við gætum með sérstökum úrræðum lyft sérstaklega undir með þeim hópi. Þetta gerðum við með lagabreytingu en við höfum ekki boðað því til viðbótar aðrar sérstakar aðgerðir.“

Þarna geri ég ráð fyrir að hæstv. fjármálaráðherra eigi við búsetuskerðingar sem voru samþykktar hér, búsetuskerðingar þar sem samþykkt voru 90% af lægstu upphæð sem ellilífeyrisþegar þurfa lifa á, lægstu upphæð sem er undir fátæktarmörkum. Hann gleymdi að segja frá því og hlýtur líka vera stoltur af því að þarna var settur 100% skerðingarskattur, króna á móti krónu var aftur sett á þennan hóp og hann skilur þann hóp eftir í algerri fátæktargildru þar sem hann á ekki möguleika á að hjálpa sér.

En síðan bætir hann um betur og segir að sá hópur eigi ekki að fá það sem aðrir hafa fengið fyrir jólin og á þessu ári. Öryrkjar hafa fengið 70.000 kr. eingreiðslu skatta- og skerðingarlaust. Það er gott. En hvers vegna í ósköpunum fær þessi hópur hana ekki líka? Þessi hópur er jafn viðkvæmur og jafnvel viðkvæmari að mörgu leyti. Stór hópur annarra eldri borgara er líka í sömu stöðu. Það er eiginlega stórfurðulegt í þessu samhengi að við skulum ekki hafa haft getu til þess að sjá til þess að þessi hópur fengi líka 70.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Af hverju ekki? Hvers vegna í ósköpunum þarf þessi hópur að sitja eftir?



[10:49]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér var rifjað upp að ég þurfti að minna á að ríkisstjórnin hefði beitt sér fyrir því að koma með sérstakar uppbætur fyrir þá sem minnst hefðu í hópi ellilífeyrisþega. Félagsmálaráðherra lagði til að það yrði útfært með þeim hætti að af takmörkuðum fjármunum færi mest til þeirra sem hefðu minnst. Það er alveg rétt að til að ná því markmiði þarf að beita reglum, skerðingarreglum, sem leiða til þess að þeir sem hafa meira eru ekki með. Ég held að þetta sé mjög skýrt dæmi um að ríkisstjórnin hafi forgangsraðað fjármunum til þeirra sem eru í bágastri stöðu. Það má síðan spyrja hvers vegna ekki er gert meira. En þegar við horfum á þróun ráðstöfunartekna ellilífeyrisþega yfir tíma höfum við séð að þær hafa tekið stökk á síðastliðnum fimm árum. Reyndar ætla ég að leyfa mér að efast um að nokkurt tímabil hafi liðið fyrr þar sem kaupmáttur ráðstöfunartekna lífeyrisþega hefur vaxið jafn hratt og við á um síðustu fimm, sex ár. Það er mikið fagnaðarefni og þetta er ánægjuefni. Eftir sem áður er það rétt hjá hv. þingmanni að við búum í samfélagi þar sem margir hafa ekki nægilega mikið á milli handanna. En það verður ekki leyst þegar ríkissjóður er rekinn með 320 milljarða halla með því að vera með stöðug yfirboð. Þetta gerist hægt og rólega með því að tryggja jafnt og þétt hagvöxt í landinu, meiri verðmætasköpun og svo sanngjarna skiptingu gæðanna.



[10:51]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þessi hópur lifir ekki á þróun ráðstöfunartekna. Hann lifir á því sem kemur í vasann. Það lifir enginn á 200.000 kr. Þá spyr ég: Er hæstv. fjármálaráðherra sammála því að hækka þessa hópa um 3,6% og okkur þingmenn og ráðherra um svipaða prósentutölu sem þýðir að ráðherra fær upp undir 70.000 kr. á mánuði en þessi hópur 9.000 kr.? Er þetta í lagi? Ég segi nei. Þetta ætti að snúa þessu snúast algerlega við. Það er út í hött að tala um einhverja þróun ráðstöfunartekna þegar bilið gliðnar alltaf meira og meira, við eigum að hætta með þessar prósentutölur og taka upp krónutölur. Er hæstv. fjármálaráðherra ekki sammála mér í því að við ættum að snúa þessu við, þannig að eldri borgarar og þeir sem verst hafa það fái 70.000 kr. en við fáum þær 9.000 kr. sem þeim eru boðnar?



[10:52]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að taka einhverja vitræna, sanngjarna umræðu um þróun kjara þessa hóps þá þurfum við að nota staðreyndir, tölur og gögn. Á tekjusögunni.is, sem ég leyfði mér að fletta upp í meðan hv. þingmaður talaði, er hægt að skoða þetta bara krónu fyrir krónu, á grundvelli framtala og raungagna um það hvað er að gerast. Þegar maður skoðar lægstu tekjutíundina í hópi 66 ára og eldri og skoðar stöðu hjóna má sjá að kjör þeirra hér eftir fjármálahrunið voru svo slæm að heildarráðstöfunartekjur hjóna eftir skatt á mánuði voru um 200.000. Síðan þá hefur leiðin legið upp á við. Núna hefur okkur tekist að koma þessari sömu tölu, sem lá í kringum 200.000 krónurnar, upp í 370.000 kr. Þetta eru framfarir. (Gripið fram í.) Þetta eru framfarir sem sýna (Forseti hringir.) að við höfum látið góðu árin, hagsældarskeiðið sem nú er nýlokið, renna til þess að bæta stöðu þeirra sem minnst hafa haft. (Gripið fram í: Þingmenn og ráðherrar.)