151. löggjafarþing — 40. fundur
 17. desember 2020.
viðbrögð ríkisstjórnarinnar við úrskurði Mannréttindadómstólsins.

[10:54]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Nú þegar tæpar þrjár vikur eru liðnar frá dómi yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu um að fjórir dómarar við Landsrétt hafi verið ólöglega skipaðir, bólar enn ekkert á viðbrögð við dómnum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Jafnvel þó að embætti ríkissaksóknara hafi ákveðið að fara yfir niðurstöðu yfirdeildarinnar og sé að skoða áhrif dómsins þá stendur það enn að dómsmálaráðherra hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að óþarfi sé að bregðast sérstaklega við dómi yfirdeildarinnar, dómar Mannréttindadómstólsins séu ekki lagalega bindandi og að í honum hafi komið fram ábendingar. Þetta eru mjög alvarleg orð sem koma frá dómsmálaráðherra landsins, að skauta fram hjá 46. gr. íslenskra laga um Mannréttindadómstól Evrópu sem kveður á um bindandi áhrif dómstólsins. Okkar ber frekar að sýna niðurstöðunni virðingu og leggja allt í sölurnar til að bregðast hratt og örugglega við dómnum.

Ég spyr því hæstv. dómsmálaráðherra: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þeim atriðum sem er aðkallandi að bregðast við? Hvernig á að fara með þau mál þar sem dómararnir fjórir, sem voru ólöglega skipaðir í dóminn, dæmdu? Hver er staða dómaranna við Landsrétt út frá möguleikum á endurupptöku mála þeirra? Hvað ætlar ráðherrann að gera í málum þeirra dómara sem enn hafa ekki verið skipaðir í dóminn og hvernig eiga þau sem sækja um dómaraembættið sem nú er laust í Landsrétti, að geta treyst því að ferlið sé fullkomlega faglegt? Og síðast en ekki síst: Hver er réttur sakborninga? Hvað ætlar ríkið að gera gagnvart þeim rétti?

Herra forseti. Aðgerðaleysi er einfaldlega ekki í boði af hálfu ríkisstjórnarinnar. Við höfum undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar sem okkur ber að standa við. Nú er tíminn til að endurheimta traustið. Það er mikilvægara en að halda áfram að verja vonlausan málstað fyrrverandi ráðherra sem hunsaði leiðbeiningar embættismanna, virti varnaðarorð á Alþingi að vettugi og hélt sínu til streitu. Þess vegna væri gott að fá skýr svör frá hæstv. dómsmálaráðherra hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregðast við þessum dómi nú þremur vikum seinna.



[10:56]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég veit hreinlega ekki í hvað hv. þingmaður er að vísa þegar hún segir að það sé verkefni ráðherra og ráðuneytisins að grípa inn í einstök atriði sem hún nefnir. Mannréttindadómstóllinn hefur komið mörgu góðu til leiðar og haft jákvæð áhrif á íslenskan rétt. En það er ekki þannig að niðurstaða dómstólsins gangi framar íslenskum niðurstöðum og það er ekki einu sinni þannig að niðurstaðan beini einhverju að ráðuneytinu eða framkvæmdarvaldinu sem þarfnast breytingar. Það er ýmislegt hægt að læra af dómnum og við liggjum yfir honum, að greina og skoða hvað hægt er að gera betur. Þarf að ræða skipan dómara í heild sinni? Þarna var verið að skipa fjölda dómara á einu bretti, sem er ólíklegt að gerist aftur. En það er alveg ljóst að ýmsir aðilar, ráðuneytið, ráðherra, þingið og Hæstiréttur, geta lesið dóminn og lært mikið af honum. En síðan spyr hv. þingmaður hvað eigi að gera við þá dóma. Það er á verksviði Endurupptökudóms sem við höfum komið á fót. Og það geta allir leitað réttar síns fyrir honum og óskað eftir endurupptöku mála. Það var meira að segja skýrt sérstaklega við lögfestingu á þeim dómstól að hægt væri að líta til niðurstaðna frá alþjóðlegum dómstól, og það geti verið grundvöllur endurupptöku ef það kynni að breyta niðurstöðu málsins. Það er ferlið sem er í boði og allir aðilar geta leitað réttar síns fyrir endurupptökudómstólnum sem er afar mikilvægt.

Síðan efast hv. þingmaður um að hægt sé að treysta hæfisnefndinni og því ferli sem við höfum verið með hér við skipan dómara, að hægt sé að treysta því við skipan dómara í Landsrétt. Ég frábið mér slíkt. Það er búið að skipa fjölda dómara með þessu ferli og ef við ætlum að ræða breytta skipan dómara á Íslandi þá skulum við frekar gera það.



[10:58]
Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta eru hreinlega vonbrigði. Svar hæstv. dómsmálaráðherra við spurningum mínum er hreinlega vonbrigði. Til upprifjunar var mannréttindasáttmáli Evrópu undirritaður á ráðherrafundi Evrópuráðsins í Róm árið 1950 og fullgiltur 29. júní 1953. Texti samningsins var síðar lögfestur í heild sinni í íslensk lög árið 1994. Einn mikilvægasti sáttmáli sem Ísland á aðild var þarna festur í íslensk lög í heild sinni og þar með þurfum við að lúta niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Það er grafalvarlegt ef dómsmálaráðherra Íslands kemur hér upp og hunsar hreinlega 46. gr. íslenskra laga um mannréttindasáttmála Evrópu og segir að hér þurfi bara að læra af niðurstöðu dómstólsins, (Forseti hringir.) læra af niðurstöðunni. Við ætlum ekki að taka þetta til okkar, við ætlum að læra af þessu.

Ég velti því líka fyrir mér hver á að læra af niðurstöðunni. Hæstv. ráðherra talar um endurupptökudómstólinn. (Forseti hringir.) Það er ekki einu sinni búið að setja hann á fót. Hann er ekki einu sinni tekinn til starfa. (Forseti hringir.) En við ætlum að læra af þessu öllu saman. Við ætlum kannski bara að fá þessar sendingar frá Strassborg, (Forseti hringir.) eins og fyrrverandi dómsmálaráðherra talaði um, eða tala um þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar, (Forseti hringir.) eins og formaður Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) sem fór með einhverja þvælu um að við höfum ekki einu sinni þjóðréttarlegar skuldbindingar hér, (Forseti hringir.) Ísland.

(Forseti (SJS): Þingmaður verður að ljúka máli sínu.)

Þetta eru vonbrigði. (Forseti hringir.) Svar hæstv. dómsmálaráðherra er veruleg vonbrigði.

(Forseti (SJS): Ég bið hv. þingmenn að fara ekki hátt í mínútu fram úr ræðutíma.)



[11:00]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Að hlíta dómnum, segir hv. þingmaður. Dómurinn kveður á um að grípa þurfi til almennra ráðstafana til að leysa úr þeim vandkvæðum sem dómurinn skapar og koma í veg fyrir frekari brot. (Gripið fram í.) Það hefur þegar verið gert. Það var skýr niðurstaða sem fékkst frá yfirdeildinni sem mikilvægt var að fá, sem er mun skýrari en niðurstaða undirdeildarinnar. Fjórir dómarar hættu að sinna dómstörfum, augljóslega til að koma í veg fyrir möguleg frekari brot á grundvelli niðurstöðu Mannréttindadómstólsins. Þrír hafa fengið nýja skipun lögum samkvæmt. Dómurinn skapar engin vandræði sem ekki er þegar búið að leysa nema gagnvart einum dómara. Dómarar dæma sjálfir um sitt hæfi og eðlilegt að sá dómari fái tækifæri til að meta stöðuna. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti nefnt hvað á að gera. Hvað á ráðherra að gera, að hennar mati, til að stíga inn í mál er varðar hæfi dómara? (Gripið fram í.) Endurupptökudómi hefur verið komið á fót, (Forseti hringir.) það er verið að klára að skipa í hann. Það tafði ferlið að Alþingi var lengi að klára að kjósa í hæfisnefndina. (Forseti hringir.) Hjá endurupptökudómstóli getur fólk leitað réttar síns. (Forseti hringir.) Það er búið að bregðast við því sem stendur í niðurstöðu dómstólsins.

(Forseti (SJS): Forseta gengur illa að halda mönnum við ræðutíma, hvort heldur sem það eru þingmenn eða ráðherrar.)