151. löggjafarþing — 42. fundur
 18. desember 2020.
greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs , 3. umræða.
stjfrv., 362. mál. — Þskj. 636, nál. m. brtt. 684.

[13:28]
Frsm. velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegur forseti. Ég flyt nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs, frá meiri hluta velferðarnefndar.

Málinu var vísað til nefndarinnar milli 2. og 3. umr.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið kom fram að mikilvægt væri að tryggja að úrræðið næði sem best utan um flesta þeirra fjölbreyttu launa- og verktakasamninga sem íþróttafélög landsins hafa gert við þá sem sinna daglegu íþróttastarfi hjá félögunum.

Nefndin leggur til breytingu sem er ætlað koma betur til móts við fjölbreyttar þarfir íþróttafélaganna. Lúta breytingarnar að því að færa launatengd gjöld undir gildissvið laganna. Samhliða því verði 70% hámark vegna verktakagreiðslna fellt brott og hámark greiðslna lækkað úr 500.000 kr. á mánuði fyrir hvern launamann eða verktaka niður í 400.000 kr. Telur nefndin að slík breyting hafi í för með sér óverulegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til verður staða þeirra sem sinna íþróttastarfi, hvort sem er launamanna eða verktaka, jöfnuð. Íþróttafélögin muni eiga kost á því að fá greitt sama hlutfall kostnaðar óháð ráðningarformi. Ljóst er að margir þeirra íþróttamanna og þjálfara sem frumvarpinu er ætlað að ná til eru í hlutastörfum og ætti lækkunin því ekki að hafa áhrif á þann hóp starfsmanna. Nefndin telur að með því að færa launatengd gjöld undir gildissvið frumvarpsins og þrátt fyrir áðurnefnda lækkun hámarks muni úrræðið betur gagnast íþróttafélögum.

Nefndin áréttar að með breytingum sem gerðar voru á frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar á yfirstandandi þingi var launamönnum hjá félögum sem eiga hér heimili og verja hagnaði sínum einungis til almenningsheilla, og hafa það að einasta markmiði samkvæmt samþykktum sínum, auk annarra lögaðila sem reka óhagnaðardrifna atvinnustarfsemi gert mögulegt að sækja um hlutabætur. Þar undir falla íþróttafélög.

Að framangreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Á eftir 1. tölulið 3. gr. komi nýr töluliður, svohljóðandi: Launakostnaður: Til launakostnaðar teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir skv. 1. tölul. 5. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, ásamt iðgjaldi í lífeyrissjóð, að hámarki 11,5% af iðgjaldsstofni skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, allt að 2% af iðgjaldsstofni samkvæmt gildandi samningi um viðbótartryggingavernd, sbr. 2. og 9. gr. sömu laga auk tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald, nr. 113/1990.

2. Við 6. gr.

a. Í stað orðanna „launagreiðslum til launamanna og allt að 70% af verktakagreiðslum“ í 1. málsl. komi: launakostnaði eða verktakagreiðslum.

b. Í stað „500.000 kr.“ í 2. málsl. komi: 400.000 kr.

Anna Kolbrún Árnadóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara sem hún hyggst gera grein fyrir í ræðu. Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Undir nefndarálitið skrifa Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, Ásmundur Friðriksson framsögumaður, Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrirvara, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Sara Elísa Þórðardóttir og Vilhjálmur Árnason.



[13:32]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. og framsögumanni, Ásmundi Friðrikssyni, fyrir kynninguna á þessum breytingum. Ég fagna því að stjórnarliðar í hv. velferðarnefnd hafi séð til sólar í þessu máli af því að þetta var auðvitað mjög brýnt. Þess vegna flutti ég um það breytingartillögu í þinginu að launatengdu gjöldin færu undir stuðninginn. Það er ekkert annað sem kemur til greina. Það er þannig í öðrum málum. Ég verð bara að fagna því að meiri hluti nefndarinnar hafi loksins séð ljósið og komið hingað með þessa breytingartillögu í stað þess að samþykkja þá sem borin var upp af þeirri sem hér stendur. En batnandi fólki er best að lifa og ég fagna því. Þetta er mjög mikilvægt mál, stuðningur við íþróttafélögin á þessum Covid-tímum þegar tekjufallið er algjört. En vegna eðlis starfsins sem þarna fer fram og eðlis þeirra samninga sem gerðir eru við þá sem iðka íþróttir annars vegar og þjálfa og aðstoða hins vegar er ekki um að ræða venjulegt launasamband eða venjulega verktakasamninga sem snúast um fullt starf og þess háttar heldur eru þetta iðulega hlutastörf. Þess vegna lúta þau aðeins öðrum lögmálum en önnur störf og komast ekki inn í önnur úrræði stjórnvalda. Þetta er því mjög jákvætt.



[13:33]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég verð að koma upp stuttlega og fagna þeim breytingum sem hv. velferðarnefnd gerði á málinu á milli 2. og 3. umr. Þó að þetta sé kannski ekki fullkomið er þetta komið mun nær því sem ég tel skynsamlegt hvað þessa þætti varðar. Ég vil kannski undirstrika að sú leið er algjörlega ófær að skilja á milli launamanna og verktaka í stuðningi við íþróttafélögin eins og upphaflega frumvarpið gerði ráð fyrir. Ég lýsi yfir ánægju með að sameiginlegur skilningur sé innan þingsins á þessu.

Ég ætla ekki að fara í tæknileg útfærsluatriði við 3. umr. en ítreka bara: Þetta er til mikilla bóta og ég þakka nefndinni fyrir.



[13:35]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það að mjög mikilvægt er að um þetta hafi náðst ákveðin sátt og lending til að mæta því mikilvæga starfi sem er unnið á vegum íþróttafélaganna í landinu, ungmennastarfsins. Ég hef reyndar ekki fengið skýringar á því hvað verður um önnur félög sem sinna ekki síður mikilvægu starfi í þessu samhengi, félög eins og Bandalag íslenskra skáta, skátahreyfingin, sem er með alveg gríðarlega öflugt ungmennastarf sem lýtur í raun alveg sömu lögmálum og íþróttahreyfingin með tilliti til starfsmanna og áhrifa á starfið. Það sama á í raun og veru við um KFUM og KFUK starfið, Vatnaskóg og slíkt. Ég veit að þessi félög voru í viðræðum við þingmenn þar sem reynt var að mæta sjónarmiðum þeirra. Ég vona að það hafi tekist í gegnum aðrar leiðir að lenda líka lausnum fyrir það mikilvæga starf sem þar á sér stað. Það er mjög mikilvægt þegar við horfum til ungmenna og æskulýðsstarfs í landinu og Ungmennasambands Íslands, að það er ekki bara íþróttahreyfingin og allt það mikilvæga starf sem þar fylgir, þetta á sér líka stað á víðari vettvangi. Það er mjög mikilvægt að við gætum að því að fjölbreytni geti átt sér stað. Við horfum alltaf á það með heildarmyndina í huga. Við þurfum líka að mæta þeim sem eru ekki stærstir og öflugastir en sinna ekki síður mikilvægum þætti í þessu starfi.

Það er gæfa okkar að búa að svo öflugu starfi sem raun ber vitni þegar kemur að ungmenna- og æskulýðsstarfi í landinu sem oft og tíðum er unnið að miklu leyti í sjálfboðaliðastarfi en síðan drifið áfram af nokkrum starfsmönnum sem geta fylgt því eftir. Árangur okkar á þeim vettvangi verður seint ofmetinn og við berum þær skyldur hér á Alþingi að standa vel að baki þessu starfi. Ég vona, eins og ég hef haft upplýsingar um án þess að ná alveg utan um það, að lausn hafi fundist á því og orðið við þeim óskum sem ég nefni í ungmenna- og æskulýðsstarfinu sem við erum að leysa hér, þ.e. í þeim þáttum sem snúa að íþróttafélögunum og unglingstarfinu þar.



[13:38]
Frsm. velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. Jóns Gunnarssonar vil ég taka mjög skýrt fram að það var gríðarlega mikill vilji hjá nefndinni, svo ég tali nú ekki um hjá ráðherranum og ráðuneytinu, að koma til móts við félögin sem hér eru nefnd, félög sem einungis starfa til almannaheilla og eru ekki hagnaðardrifin. Þau höfðu sótt um að komast undir þessi lög, en lögin byggja á ákveðinni tilskipan sem heilbrigðisráðherra gaf út um lokun og bann við íþróttaæfingum og keppnum. Á því byggjast þessi lög að mestu leyti. Ég er auðvitað ekki lögfræðingur en nefndin gerði allt sem hún gat til að taka þessi félög undir þann hatt. Margar leiðir voru skoðaðar og síðast í gærkvöldi var verið að reyna að bæta nefndarálitið og gera breytingartillögur. Það gekk ekki upp, einfaldlega vegna þess að þetta á ekki við samkvæmt því sem okkar besta fólk, bæði lögfræðingar á nefndasviði og í ráðuneytinu, hefur athugað. Eins hefur löglært fólk í nefndinni fjallað um þessi mál.

Þess vegna lagði nefndin sig ríkulega fram við að finna aðrar leiðir fyrir þessi félög og hópa, Ungmennafélag Íslands, skátana, KFUM og KFUK og aðra slíka, þar má einnig nefna áhugaleikhús og fleira, ég man það auðvitað ekki allt með svo stuttum fyrirvara. Mál nr. 300, sem fjallar um atvinnuleysistryggingar og hefur verið hér í þinginu, tekur fyrir þessi félög og starfsemi þeirra og á að bjarga því sem bjargað verður gagnvart þeim. (Forseti hringir.) Það var ríkur vilji til þess að leysa málið og við gerðum allt sem við gátum fyrir þau, en þetta er niðurstaðan.



[13:40]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki pólitískt mál í sjálfu sér eða neitt deiluefni hér. Ég veit að hugur okkar allra er sá sami þegar kemur að þessu mikilvæga starfi. Ég vildi halda því til haga. Ég hafði haft af því fregnir að menn hefðu verið að skoða allar mögulegar leiðir til að fella þá starfsemi sem við erum að tala um undir þessa afgreiðslu. En hún er svona til hliðar. Ég treysti því að menn hafi náð sambærilegri lausn á öðrum vettvangi fyrir þessi félög og að það reynist vera fullnægjandi. Aðalatriðið er að við höfum það í huga í framtíðinni þegar við fjöllum um þessi mál að við horfum til þeirrar breiðu flóru sem er með starfsemi á þessum vettvangi. Ég efast ekki um að nefndin hefur gert það sem hún hefur getað til að mæta þeim sjónarmiðum.



[13:41]
Frsm. velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Okkur, sem viljum klára málin fljótt og hratt hér í þinginu, finnst oft erfitt að þurfa að vaða yfir þröskulda og línur sem eru kannski ósýnilegar okkur sjálfum en eru þó mjög sýnilegar. Starfsemi þessara félaga heyrir t.d. meira og minna undir menntamálaráðuneytið, sem er annað ráðuneyti en við fjöllum um hér. Það er einn þröskuldurinn. En við höfum átt samskipti við menntamálaráðuneytið um að grípa þessi félög. Þar eru peningar til að taka á móti þeim og þau falla undir áðurnefnt ákvæði í máli nr. 300, atvinnuleysistryggingar, sem ég fjallaði um áðan, eins og íþróttafélögin.

Stærsti hluti íþróttastarfseminnar, þ.e. allt skrifstofuhald, framkvæmdastjórn og annað slíkt, fólk sem ekki er í beinni íþróttakeppni, heyrir t.d. ekki undir þessi lög. Þau eiga bara við um keppnisfólkið og þá sem eru úti á vellinum að þjálfa og æfa og keppa. Aðrir heyra bara undir hlutabótaleiðina sem fyrirtæki í landinu heyra undir. Ég ítreka að auðvitað er sameiginleg ósk okkar að þessum félögum verði gert eins hátt undir höfði og nokkur kostur er á þessum erfiðu tímum, sem setja auðvitað mark sitt á íþróttahreyfinguna eins og alla aðra. Við vonum að með því að við blásum þeim aðeins byr í seglin verði þau betur undirbúin þegar flautað verður til leiks.