151. löggjafarþing — 46. fundur
 20. janúar 2021.
stjórn fiskveiða, 1. umræða.
stjfrv., 418. mál (atvinnu- og byggðakvótar o.fl.). — Þskj. 625.

[16:51]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, á þskj. 625, 418. mál, varðandi svonefnda atvinnu- og byggðakvóta.

Í lögum um stjórn fiskveiða er mælt fyrir um að aflamagn sem svari til 5,3% af leyfilegum heildarafla skuli ekki ráðstafað sem aflamarki heldur komi til tiltekinna þarfa sem greindar eru í lögunum, til að mynda til stuðnings byggðarlögum, til línuívilnunar, til strandveiða og til annarra tímabundinna ráðstafana.

Í apríl 2019 skipaði ég starfshóp undir forsæti Þórodds Bjarnasonar, prófessors við Háskólann á Akureyri, til að endurskoða meðferð og ráðstöfun þessara heimilda. Í skipunarbréfi starfshópsins var lögð áhersla á að hugað yrði að því hvort þeim markmiðum sem að er stefnt með þessum aflaheimildum hefði verið náð og eftir atvikum leggja til breytingar. Var þar einnig vísað til stefnumörkunar stjórnvalda í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að vega þurfi og meta fyrirkomulag aflaheimilda, þar með talið strandveiða með það að markmiði að tryggja betur byggðafestu og nýliðun.

Frumvarpið er byggt á tillögum starfshópsins sem greindar eru í skýrslu hans til mín frá 18. febrúar á síðasta ári. Með frumvarpinu er leitast við að skapa skýrari lagalegan grundvöll fyrir meðferð og ráðstöfun þeirra aflaheimilda sem ríkið hefur til ráðstöfunar árlega til atvinnu- og byggðaráðstafana og skilgreina betur tilgang og markmið úthlutunarinnar. Um er að ræða 5,3% allra aflaheimilda íslenskra skipa. Markmiðið er að betur verði tryggt að nýting þessara heimilda stuðli að byggðafestu og nýliðun í greininni og jafnframt að verðmæti þeirra verði sem mest. Því er mikilvægt að sett séu skýr og mælanleg markmið, eftirfylgni sé fullnægjandi og árangur verði metinn með reglubundnum hætti.

Virðulegi forseti. Ég mun nú víkja að meginefni frumvarpsins. Í fyrsta lagi eru ákvæði um nýtingu 5,3% aflaheimilda til sérstakra aðgerða, sem nú er að finna í ýmsum greinum laga um stjórn fiskveiða, dregin saman í einn kafla í lögunum og skapaður skýrari grundvöllur undir nýtingu þeirra og meðferð en nú er. Jafnframt er tilgangur og markmið einstakra aðgerða, sem nánar eru tilgreind í einstökum greinum, dregin saman í einni markmiðsgrein. Þannig verður á einum stað að finna annars vegar ákvæði um markmið þessara aðgerða og hins vegar efnisákvæði um einstakar aðgerðir.

Í öðru lagi er kveðið á um föst innbyrðis hlutföll í ráðstöfun umræddra 5,3% aflaheimilda milli einstakra verkefna. Er ætlunin að þau hlutföll byggist á ráðstöfun til einstakra aðgerða fyrir fiskveiðiárið 2019/2020. Jafnframt falli út ákvæði þess efnis að ráðherra skuli eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti leggja fram þingsályktunartillögu um fyrirhugaða meðferð og nýtingu umræddra heimilda til næstu sex ára. Felur tillaga frumvarpsins í sér breytingu frá því sem nú er að því leyti að skiptingin er bundin til lengri tíma, þ.e. til sex ára í stað hvers fiskveiðiárs, en með því er stuðlað að auknum fyrirsjáanleika milli ára. Þá tryggir það að festa aflamagnið við hlutföll en ekki tonn að aflamagn sem til ráðstöfunar er á hverju ári fylgi breytingum á heildarafla einstakra tegunda.

Í þriðja lagi verði tryggt að með úthlutun á almennum byggðakvóta sé lögð áhersla á stuðning við dreifðar sjávarbyggðir. Þannig verði föstu hlutfalli almenns byggðakvóta úthlutað til einstakra byggðarlaga árlega og byggi sú úthlutun á meðaltalsúthlutun fyrri ára á byggðakvóta. Jafnframt verði lögfest hlutlæg regla sem feli það í sér að slík úthlutun fari eingöngu til byggðarlaga sem hafi færri en 2.000 íbúa en þó með þeim skilyrðum að úthlutun lækki um 0,1% fyrir hvern íbúa umfram 1.000. Felur þetta í sér nokkra breytingu frá núverandi lagaumgjörð og framkvæmd þar sem ráðherra, að höfðu samráði við Byggðastofnun, hefur verið heimilt að ráðstafa aflamagni á grundvelli tiltekinna efnisskilyrða samkvæmt 10. gr. laganna.

Í fjórða lagi verði heimilt að ráðstafa aflaheimildum almenns byggðakvóta byggðarlags, samkvæmt beiðni sveitarstjórnar, að hluta eða í heild, til verkefna varðandi sértækan byggðakvóta og til tilraunaverkefna til byggðaþróunar.

Í fimmta lagi er lagt upp með að ónýtt hlutfall línuívilnunar á hverju þriggja mánaða tímabili færist sem viðbót við almennan byggðakvóta. Því verði síðan skipt milli sjávarbyggða í samræmi við hlutdeild þeirra í löndun línuívilnunar miðað við meðaltal undanfarinna ára.

Í sjötta lagi er gert ráð fyrir að hugtakanotkun um veiðar í tengslum við ferðaþjónustu verði betur skýrð og að um slíkar veiðar verði fjallað í sérstakri grein.

Í sjöunda lagi verði kveðið á um að heimilt verði að semja í tilraunaskyni um nýtingu almenns byggðakvóta eða aflaheimilda vegna ónýttrar línuívilnunar til verkefna um aukna fjölbreytni atvinnulífs innan vinnusóknarsvæða. Þessi heimild verði hins vegar takmörkuð bæði hvað varðar aflamagn og fjölda verkefna. Þá er heimildarákvæði til ráðherra um að útfæra í reglugerð að Byggðastofnun eða öðrum opinberum aðila geti verið falin umsýsla með slíkum verkefnum á grundvelli samninga og mats á árangri.

Í áttunda lagi er lagt til að ráðherra hafi á hverju fiskveiðiári til ráðstöfunar sem svarar til 10,52% af því aflamagni í óslægðum botnfiski sem tekið hefur verið til hliðar til að efla atvinnu og byggðir í varasjóði til að mæta óvæntum áföllum sem haft geta neikvæð byggðaáhrif.

Í níunda lagi falli brott heimild ráðherra í 1. tölulið 1. mgr. 10. gr. og þar með skel- og rækjubætur sem ráðstafað hefur verið undanfarin ár. Í ákvæði til bráðabirgða er í þess stað lagt til að handhöfum skel- og rækjubóta verði úthlutað aflahlutdeild sem nemi samtals 1.482 þorskígildistonnum.

Þá er að lokum lagt til í ákvæði til bráðabirgða að kveðið verði á um að umrædd úthlutun og hlutfallsleg skipting aflaheimilda og aðgerðir þeim tengdar verði endurmetnar í ljósi reynslunnar og eftir atvikum breytt að sex árum liðnum ef þörf krefur.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum benda hv. þingmönnum á skýrslu starfshópsins sem frumvarpið er að stærstu leyti byggt á. Þar er ásamt tillögum að finna áhugaverða samantekt um þróun þessa 5,3% kerfis og m.a. vísað til þess að heildarverðmæti atvinnu- og byggðakvóta voru áætluð á bilinu 5,5–7,5 milljarðar kr. á síðasta fiskveiðiári. Af því leiðir að það eru umtalsverð verðmæti fólgin í þessu kerfi og eðlilegt að slíkur stuðningur hafi skýr og mælanleg markmið, eftirfylgni sé fullnægjandi og árangurinn metinn með reglubundnum hætti líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Jafnframt vil ég segja að það hafa komið fram margvíslegar hugmyndir á undanförnum árum um breytingar á þessu kerfi. Ég hef hins vegar talið, líkt og hópurinn lagði raunar til, að það sé skynsamlegast að endurskoða þetta kerfi með yfirveguðum hætti enda miklir hagsmunir í húfi fyrir sjávarbyggðir um allt land.

Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.



[17:00]
Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir það frumvarp sem hann leggur hér fram. Ég held að það séu bara góðar fréttir í þessu frumvarpi sem verður væntanlega tekið fyrir í hv. atvinnuveganefnd þegar það hefur verið flutt og rætt. Mér finnast margar mjög góðar breytingar hafa komið fram.

Eftir að hafa verið í þessum málum í nefndinni, m.a. með formanni hennar frá því 2013, þar sem tekist hefur að gera ýmsar jákvæðar breytingar á þessu kerfi, sérstaklega í strandveiðunum, langar mig aðeins að spyrja ráðherrann. Fram kemur að á hverju fiskiskipi sé aðeins heimilt að draga 650 kíló af þorskígildum í land á hverjum degi. Eins og við þekkjum til sjós er stundum erfitt að vera með það upp á kíló og komið hefur í ljós að smábátar sem landa beint á markað hafa stundum fengið á sig sektir vegna þessa, en það ber minna á því hjá þeim sem eru í beinum viðskiptum. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann sjái fyrir sér að við myndum hafa einhvern sveigjanleika í þessu sem hægt væri að gera upp í hverri viku.

Mig langar líka að biðja ráðherrann um að útskýra fyrir okkur hvernig hann vill nýta heimildir sem detta upp fyrir, nást ekki inn í strandveiðikerfið, eins og gerst hefur á undanförnum árum.

Svo langar mig einnig að spyrja ráðherrann hvort hann hafi eitthvað velt því fyrir sér sem komið hefur fram og við höfum fengið fyrirspurnir um, varðandi breytilegar tímasetningar á veiðisvæðum í strandveiðum, sem stundum hafa verið kallaðar svo. En breytingar á strandveiðum undanfarin ár hafa reyndar tekist afar vel.



[17:02]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Eðli málsins samkvæmt er ýmislegt gott og miður gott í þessu frumvarpi sem og öðrum. Ég vil leggja áherslu á að frumvarpið byggir á vinnu starfshóps sem fundaði í öllum landsfjórðungum, sennilega með hátt í 400 aðilum, og vann síðan úr athugasemdum sem komu fram á þeim fundum og gerði þá tillögu sem birtist í skýrslunni og frumvarpið er að stærstum hluta unnið eftir.

Varðandi það að erfitt sé að veiða upp á kíló á dag þá er það vissulega rétt. Hvort hægt er að finna einhverjar leiðir, af því að hv. þingmaður kallar eftir því hvort möguleiki væri á einhverjum sveigjanleika í þessu, þá kann svo vel að vera. Nefndin tekur það þá bara upp í umfjöllun sinni um málið.

En ég ætla aðeins að koma aftur að því, vegna þess að það tengist að hluta til því sem hv. þingmaður spurði um varðandi heimildir sem nýtast ekki, hvernig hægt sé að nýta þær, og breytileika í tímasetningum á strandveiði, að við verðum að muna að þetta eru pottar. Þessu er ekki úthlutað á hvern bát eða skip og það gerir vinnuna við stjórnunina á þessu allt öðruvísi en í aflamarki, þar sem hver útgerð ber bara ábyrgð á þeim heimildum sem hún ræður yfir og hefur heimildir til að sækja. En hér er þetta allt í einum potti og svo er þetta að hluta til breytilegt, nánast ólympískar veiðar, þar til viðkomandi pottur er uppurinn. Þess vegna geta verið, og eru raunar, (Forseti hringir.) allt önnur lögmál um með hvaða hætti við stýrum sókn í pottana en í aðra hluta fiskveiðistjórnarkerfisins.



[17:04]
Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svör. Þetta eru náttúrlega bara spekúlasjónir sem mér finnst gott að eiga við ráðherra í þingsal því að við fáum verulega margar fyrirspurnir um þetta. Ég velti fyrir mér, og hef kannski áður nefnt það við ráðherrann, varðandi þennan skala, þessi 650 kíló, að það er ekkert svigrúm gefið þar. Ég velti fyrir mér að minnka áhættu á óvarkárum brotum sem menn ætla sér alls ekki að fremja. Að öðru leyti tek ég undir það með ráðherranum að þetta eru auðvitað pottar, en mér finnst mikilvægt varðandi þessi 5,3% að ef eitthvað fellur til af aflaheimildum innan þessara potta þá séu þær nýttar upp á hverju ári og falli þá inn í strandveiðikerfið.



[17:05]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að þessar heimildir séu nýttar upp á hverju ári og reynslan og yfirlit yfir nýtingu úr heimildunum sýnir að þær hafa verið nýttar til fulls vegna þess að við höfum m.a. verið að færa á milli potta. Ég ætla bara að nefna tilfærslu úr því sem eftir stóð af línuívilnuninni inn í strandveiðar o.s.frv., þannig að heildarmagnið sem er til ráðstöfunar í 5,3% pottinum hefur verið nýtt á undanförnum árum, sem betur fer. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það getur verið erfitt að veiða nánast upp á ugga, upp á 650 kíló, en ef það eru einhverjar leiðir til þess að búa til sveigjanleika í því án þess að slakað sé á einhverju heildarmagni eða öðru þvíumlíku er það fínt, besta mál. Ég treysti nefndinni til að ræða það atriði. En ég bendi á að það kann að vera ýmsum vandkvæðum bundið hversu mikið svigrúm á að vera fyrir hvern og einn. Það kann að vera erfitt að takmarka það.



[17:07]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að kynna okkur þetta frumvarp. Það er síður en svo um að ræða byltingarkenndar breytingar og við því er ekki að búast úr þessum ranni. Við hefðum viljað sjá grundvallarbreytingar en það er ekki um það að ræða. Þessar breytingar í heild sinni skipta ekki höfuðmáli en þær skipta miklu máli fyrir hlutaðeigandi byggðarlög, fyrir ýmis svæði á landinu, og að því leyti til eru þetta jákvæðar breytingar að því er virðist í fljótu bragði. Mig langar aðeins að fjalla um þennan hluta, 5,3% af heildarkvóta auðlindar okkar landsmanna. Það er opnað fyrir nýjung í þessu sem er til komin vegna beiðni sveitarstjórna m.a., að sveitarfélögin geti nýtt hluta af þessum byggðakvóta sínum til ýmissa uppbyggingarstarfa því að mörg sveitarfélög standa á tímamótum og hafa kannski ekki verið að nýta þennan byggðakvóta eins og til var efnt. Nú eru þessi 5,3% kölluð ráðstafanir til að efla atvinnu og byggðir og það er gott og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið slegið á það í hve mörgum tilvikum menn gætu verið að nýta sér þetta. Ákvæði er um að þetta sé gert í tilraunaskyni en er ekki mikilvægt að festa þetta ákvæði til lengri tíma þannig að sveitarstjórnir geti gert sínar áætlanir og unnið að uppbyggingu í ljósi þess?



[17:09]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Fátt kemur á óvart í frasapólitík Samfylkingarinnar þegar um bein úr sjó er að ræða, þegar hér er fullyrt að þetta séu ekki byltingarkenndar breytingar og ekki við því að búast og Samfylkingin vilji hafa þetta allt saman öðruvísi. Vill Samfylkingin bjóða upp byggðapottana? Telur hv. þingmaður að það verði meiri byggðafesta við það að bjóða upp 5,3% allra aflaheimilda landsins? Eða hvaða hugmyndir hefur hv. þingmaður um það, hverjar eru þær góðu breytingar sem Samfylkingin vill leggja fram í þessum efnum? Á sama tíma og hann talar um að þetta sé allt við það sama og ekki við öðru að búast úr þeim ranni þá fer hann að tala um þær nýjungar sem í þessu máli felast, sem eru vissulega þó nokkuð margar. Við erum að gera töluvert miklar breytingar í þessu, t.d. ein sú breyting sem vissulega er umdeilanleg, að festa hlutfall í pottinum í lög þannig að þingið ákveði það en ekki ráðherrann. Færa sem sagt valdið úr höndum ráðherrans til þingsins sem lögfestir þá skiptingu sem oft hefur verið mjög umdeild og illskiljanleg, svo maður orði það nú bara hreinlega.

Það sem hv. þingmaður nefndi hins vegar varðandi samstarfið og tilraunaverkefni með sveitarfélögunum finnst mér töluvert spennandi. Ástæðan fyrir því að þetta er sett til skamms tíma er sú að við erum að þreifa okkur inn í eitthvað og reyna að koma af stað verkefnum sem kallað hefur verið eftir, sérstaklega frá svæðum sem eiga í vök að verjast byggðalega séð sem vilja fá tækifæri til að geta nýtt þær heimildir sem þarna hafa komið út með öðrum hætti en gert hefur verið. Það kann vel að vera að reynslan af þessu verði góð og þá er sjálfsagt mál og kemur örugglega til umræðu að festa slíkt verklag til lengri tíma. En á þessari stundu held ég að við eigum að fara okkur hægt vegna þess að við erum að þróa okkur inn í nýja byltingarkennda veröld þó svo að hv. þingmaður komi ekki auga á það (Forseti hringir.) í öðru orðinu en viðurkenni í hinu. Ég er alveg sannfærður um að við erum sammála um þetta atriði.



[17:11]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég bað um svar við einfaldri spurningu frá hæstv. ráðherra en ekki útúrsnúninga og skæting gagnvart stefnu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum. Vitaskuld kemur ekki til álita að bjóða upp byggðakvóta. Fyrr má nú aldeilis vera að menn hreyfi sig af þvílíkri hægð og hógværð eins og hér um ræðir varðandi þessi mál.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra varðandi þessa fjölbreytni og tækifæri til nýliðunar í sjávarútvegi sem stefnt er að. Í upphaflegum drögum sem voru lögð fyrir í samráðsgátt var gert ráð fyrir hlutfallinu sem lýtur að línuívilnun, sem er eitt óþjálasta orð í íslensku, 10,92%, en endanleg útkoma var 8,5. Ef ráðherra vildi skýra það.

Varðandi aðra ágæta breytingu, þessar breytingar eru í níu liðum og ég vil ekki gera lítið úr því, er ákvæði til bráðabirgða um skel- og rækjubæturnar sem komu til líklega 2004. Þetta er ákvæði til bráðabirgða. Hvað þýðir það? Annað er að úthlutað verður aflahlutdeild sem nemur samtals 1.482 þorskígildistonnum. Hvernig er það fundið? (Forseti hringir.) Eru þetta taldar vera fullar bætur til þeirra sem í hlut eiga, þ.e. þeirra skel- og rækjubáta sem í hlut eiga?



[17:13]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er enginn útúrsnúningur, hv. þingmaður, þótt maður svari gagnrýni sem kemur fram á eitthvað sem maður er ekki sammála. Við erum ekki á sama máli og það er ekkert að því. Það var alls ekki meining mín að snúa út úr orðum hv. þingmanns, langur vegur frá. Ég svara bara fyrir mig þegar mér finnst bera á því að menn yfirbjóði með einhverjum frösum sem eiga sér ekki stoð. Varðandi línuívilnunina og skelbæturnar þá hangir þetta að nokkru leyti saman. Ég man ekki formúluna fyrir útreikningum á rækju- og skelbótum upp á 1.482 þorskígildistonn. Ástæðan fyrir því að þetta er til bráðabirgða er að vegna þess að eins og frumvarpið er sett upp er þetta hugsað sem einskiptisaðgerð. Þess vegna er þetta gert til bráðabirgða. Ég geri mér það alveg ljóst að þarna er um að ræða mjög umdeildan þátt í frumvarpinu og mér finnst sjálfsagt að nefndin fari mjög vandlega yfir það. Vegna þess hvernig forsagan er þá sá ráðuneytið ekki nokkurn möguleika á öðru en að leggja málið fram með þeim hætti sem þarna greinir. Ég tel að ef fallist er á þessa tillögu sem þarna er sett fram sé það gert upp af bæði heiðarleika og hreinskilni.



[17:15]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér að stíga stórt skref, ef ekki bara fara kollhnís, í þessu viðamikla máli. Eins og ráðherra kom inn á er hér um töluverða fjármuni að ræða, það eru allt að 5–7 milljarðar sem við erum að úthluta. Ég er sammála því að það þarf að vera mjög skýr afmörkun á því og skýr skilaboð sem við þurfum að senda út um það með hvaða hætti við ætlum að gera þetta. En þá er ég að spá í, af því við erum að tala um fyrirsjáanleika, að við erum að breyta þessu úr tonnum í hlutfall, er nógu mikill fyrirsjáanleiki í því? Það geta verið svo viðamiklar breytingar á hlutfallinu á milli ára. Ég ætla þá í fyrsta lagi að spyrja um þetta hlutfall, hvort ráðherra sjái fyrirsjáanleika í því. Í annan stað felur tillaga frumvarpsins í sér breytingu að því leyti að við erum að fara með þetta til lengri tíma, þ.e. sex ár í stað í þriggja. Það hefur verið talað um félagslega pottinn í aflaheimildum, útdeilingu á þeim. Getur orðið fyrirsjáanleiki í því til sex ára? Er ekki svolítið erfitt að binda þessar ákvarðanir í svona langan tíma ef við ætlum að horfa á fyrirsjáanleika fyrir þá sem þiggja þetta?

Ég ætlaði í seinna andsvari að koma að öðrum þætti en byrja á þessu.



[17:16]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er í grunninn sammála hv. þingmanni um að þetta eru töluvert miklar breytingar, hún notaði orðið kollhnís. En svona lítum við ólíkt á málin; hér kom fulltrúi Samfylkingarinnar og sagði að engar byltingarkenndar breytingar væru í málinu sem er bara ekki rétt að mínu mati. Við erum að gera mjög stórar og miklar og þungar breytingar. Breytingarnar snúast fyrst og fremst um það að í dag er fyrirsjáanleikinn í þessum pottum sáralítill sem enginn. Við erum að skapa ákveðinn ramma utan um þennan þátt fiskveiðistjórnarkerfisins sem er gríðarlega mikilvægur, þetta eru um 5,3% allra aflaheimilda í landinu hverju sinni, mikil verðmæti. Við erum að skapa ákveðinn ramma. Við erum að segja til hvers þetta er ætlað. Við erum að setja þetta í markmið og síðan erum við að setja inn í lögin að meta skuli árangurinn af þeim aðgerðum sem við höfum verið í, og ekkert af þessu er í núgildandi löggjöf. Ég get alveg tekið undir það að sex ár eru töluvert langur tími, við viljum kannski að hlutirnir breytist hraðar en á sex árum. En eftir þessu var kallað og ég er ekki endilega fastur í því að þetta sé heilagt ártal. Þegar við erum að tala um fyrirsjáanleikann og að festa hlutdeildina er kosturinn við það að breytingin á veiðiheimildum í pottinum tekur þá sömu breytingum og eru í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og ákvörðun um veiðiheimildir landsins í heild sinni. Breytingarnar fylgja einfaldlega ráðgjöfinni með sama hætti og ákvörðun um veiðiheimildir ár hvert. (Forseti hringir.) Að því leyti getum við sagt að það sé ákveðinn fyrirsjáanleiki í því, það gilda bara sömu lögmál um úthlutun í pottana og um aðra hluta fiskveiðistjórnarinnar.



[17:19]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þá langar mig til að snúa að strandveiðunum. Við gerðum umtalsverðar breytingar árið 2018 og þær voru aldeilis ekki ljúfar og runnu ekki þægilega í gegn. Margir töldu að verið væri að skrúfa fyrir strandveiðar á svæðum um landið. En svo kemur það í ljós að það hefur bara fallið í góðan jarðveg og það sem Byggðastofnun tók saman um hvernig tekist hefði til kom bara mjög vel út. Þess vegna er ég svo hissa á því að við ætlum að hverfa til fyrri aðferðafræði í því, þ.e. óöryggis og ólympískra veiða, eins og kom fram í máli hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar. Mig langar bara að skerpa aðeins á þeim svörum hjá ráðherra, hvort hann haldi að það sé til bóta að fara til baka í þessum málum.



[17:20]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi strandveiðarnar þá er ég ekki sammála því að það sé til bóta að fara til baka til allra þeirra þátta sem við breyttum 2018. Margt í þeim breytingum er afspyrnugott og leiddi til aukins öryggis þeirra sem stunda þennan atvinnuveg, þó að við nefnum bara það eitt. Það er hins vegar markmið strandveiða að styrkja byggð og búsetu um allt land, klárlega, og við höfum haldið mjög stíft utan um þær í því ljósi. Við höfum á sama tíma aukið heimildir í strandveiði. Þá skýtur það skökku við að breytingarnar sem við gerðum, um að gera þetta að einum potti yfir allt landið, leiða til þess að á sumum svæðum hefur orðið samdráttur í veiðum þrátt fyrir auknar veiðiheimildir. Það var enginn tilgangur með strandveiðikerfinu að færa áherslurnar í atvinnu í þessum sjávarbyggðum til á milli landshluta og ég er að kalla eftir því að það verði yfirfarið.



[17:21]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að blanda mér í þessi sjávarútvegsmál enda eru þau ofarlega í huga mínum og hafa verið lengi. Ég verð fyrst að segja að ég er ekki yfir mig hrifin af málinu en tel að við getum gert ýmsar lagfæringar á því í atvinnuveganefnd ef samstaða næst um það og ég treysti því að hæstv. ráðherra komi að því að vinna þetta mál með okkur þingmönnum.

Það eru vissulega fyrirvarar á frumvarpinu hjá okkur í Vinstri grænum. Ég kem kannski fyrst að því máli sem hæstv. ráðherra og hv. þingmaður fjölluðu um áðan í andsvari en það eru strandveiðarnar. Mikil vinna var lögð í að koma strandveiðum í betra horf, tryggja betur fyrirsjáanleika og jafnræði og tryggja öryggisþáttinn með því að setja þær í dagakerfi. Það tók tvö ár að koma þeim í það horf sem þær eru núna, þ.e. 48 dagar í strandveiðum, 12 dagar í hverjum mánuði og hvorki róið föstudag, laugardag né sunnudag. Það fyrirkomulag náðist þvert á flokka og reynslan hefur sýnt að það hefur komið ágætlega út. Þeir sem höfðu mestan fyrirvara á þessu kerfi og töldu að þeir myndu koma illa út úr því hafa tekið það til endurskoðunar og vilja halda því áfram með þeim fyrirvörum að þessir 48 dagar verði tryggðir hvað varðar aflaheimildir til veiðanna.

Mér finnst það vera verkefni okkar í atvinnuveganefnd, sem bárum málið fram í upphafi, að tryggja að aflamagn verði tryggt í þessa 48 daga. Þess vegna finnst mér ekki gott ef festa á þetta hlutfall á skiptingu á aflamagni inn í frumvarpið. Það þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki innan fiskveiðiársins á milli þeirra þátta sem eru í þessum félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins, svo að það geti færst á milli ára eftir því hvernig veiðist. Hæstv. ráðherra nefndi að á sumum svæðum hefði ekki veiðst sama magn og einhver ár á undan en við getum auðvitað aldrei tryggt með einhverju kerfi að hver bátur eða útgerð veiði sambærilegt magn ár eftir ár. Breyturnar í því máli eru fiskigengd og viðkomandi sjómaður. Það rokkar auðvitað til eftir veðrum, fiskigengd og aflabrögðum hvers og eins. Stærsta málið er að allir, hvar sem þeir búa á landinu, geti róið 12 daga í hverjum mánuði þessa fjóra mánuði og að strandveiðipottinum séu tryggðar nægar aflaheimildir til að svo verði. Þá þarf að vera sveigjanleiki í kerfinu.

Strandveiðarnar eru það kerfi þar sem nýliðun getur orðið í dag. Þær eru í raun og veru eini glugginn inn í fiskveiðistjórnarkerfið og því mikilvægt að varðveita það að þessi gluggi haldist áfram opinn fyrir þá sem hafa hugsanlega möguleika á að byggja sig smátt og smátt upp með því að komast yfir aflaheimildir og byggja sig svo enn frekar upp og nýta það sem er í boði, hvort sem það er að vera samhliða á grásleppuveiðum eða þegar makríllinn gefur sig við strendur landsins, að nýta það sem hægt er að veiða í þeim leigupotti ríkisins. Strandveiðikerfið stendur okkur Vinstri grænum nærri enda vorum við upphafsmenn þess á sínum tíma, 2009. Við munum leggja okkur öll fram við að efla það og styrkja, að spóla ekki til baka heldur styrkja það enn frekar. Við viljum sjá auknar aflaheimildir fara inn í kerfið því að það hefur sýnt sig að það styrkir þessar byggðir og hefur samlegðaráhrif við annað í sjávarútvegi og aðra atvinnu á þeim stöðum sem þar heyra undir.

Það er líka verið að skoða uppstokkun á almenna byggðakvótanum. Ég er alveg sammála því að stokka þurfi upp þennan almenna byggðakvóta. En það er spurning um leiðir í þeim efnum, hvernig við getum gert það með sem skilvirkustum hætti þannig að það nýtist þeim sem á þurfa að halda. Það hefur verið raunin í gegnum árin að byggðakvóti er jafnvel að lenda í höndunum á stórútgerðum með einum eða öðrum hætti. Auðvitað var tilgangur byggðakvóta ekki sá að hann lenti í höndum á stórútgerðum sem hefðu nægar aflaheimildir heldur hjá þeim sem þyrftu á honum að halda, þyrftu stuðning vegna þess að viðkomandi byggðir hefðu farið illa út úr kvótakerfinu. Tilgangurinn var að stuðla að því að þessar minni sjávarbyggðir fengju þennan stuðning frá ríkinu. Í þessum hluta kerfisins eru vissulega undir miklar fjárhæðir. Þess vegna skiptir máli að stuðningurinn lendi ekki eftir einhverjum krókaleiðum í höndum á stórútgerðum sem hafa enga þörf fyrir stuðning af hálfu ríkisins. Þess vegna sé ég fyrir mér að það þurfi að reyna að einfalda þetta, hafa það gegnsætt, miða við ákveðin veiðarfæri og ákveðna tegund af stærðarflokkum á bátum og tryggja að það sé eins gegnsætt og hægt er með ívilnun, hvort sem það er ívilnun við löndun eða hvað. Það megi ekki njörva þetta niður til jafn langs tíma og er verið að ræða í þessu frumvarpi. Það var gott að hæstv. ráðherra kom inn á að endurskoða mætti þann árafjölda. Ég tel rétt að við skoðum það í nefndinni.

Núna er fyrirkomulagið þannig að á þriggja ára fresti er þingsályktunartillaga og Alþingi fjallar um með hvaða hætti ráðstafanir á almenna byggðakvótanum eru. Á að festa þetta fram yfir heilt kjörtímabil? Auðvitað getur ýmislegt gerst á þeim tíma og þá væri búið að njörva þetta niður í samningum við einhverja aðila. Menn hætta útgerð, menn falla frá og hvað verður þá um þessa samninga? Ganga þeir kaupum og sölum? Ekki viljum við að þessi félagslegi hluti fiskveiðistjórnarkerfisins fari á sama veg inn í niðurnjörvað kvótakerfi með framsali. Ég held að enginn sé staddur þar. Ég vona bara að menn séu ekki þar staddir heldur hugsi þeir sér þennan almenna byggðakvóta sem stuðning hverju sinni, sem getur auðvitað verið mjög mismunandi, bæði hvað varðar byggðarlög og þá aðila sem myndu falla undir það að nýta sér hann. Hann hefur verið mjög umdeildur og togstreita um hvernig honum hefur verið úthlutað, bæði innan sveitarfélaga og af hálfu ráðuneytis í gegnum Fiskistofu. Ef við erum að endurskoða þann hluta kerfisins þurfum við að lenda því þannig að leikreglur séu skýrar, það sé gegnsæi og þessi mikla ívilnun í formi stuðnings á ókeypis aflaheimildum lendi í höndum á þeim sem eru með afla sínum að styrkja viðkomandi byggðir, að það sé byggðafesta og stuðningurinn renni til þeirra sjávarbyggða sem hafa farið illa út úr kvótakerfinu og þurfa virkilega á honum að halda.

Það má margt um málið segja. Ég held að umdeilt mál, eins og hefur verið komið inn á varðandi rækju- og skelbætur, hafi verið skoðað af mörgum hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum í gegnum árin og menn hafi einhvern veginn aldrei náð að lenda því. En einhvern veginn verður að klára málið í eitt skipti fyrir öll því að bætur eru ekki hugsaður til eilífðarnóns heldur verður að ljúka málinu með sanngjörnum hætti. Auðvitað hefur þetta allt fordæmisgildi til framtíðar og þess vegna þarf að vanda það vel. Ég ætla ekki að dæma um það fyrir fram hvort akkúrat þessi útfærsla standist alla skoðun. Við sjáum bara til hvernig umsagnir verða í þeim efnum og hvort þetta sé rétta lendingin eða hvort við tökum einhvern snúning á því ásamt öðru sem hér er á ferðinni. Í mínum huga er fyrirkomulag á strandveiðum stærsta málið. Mér finnst ekki koma til greina að hreyfa við því heldur frekar að styrkja það en ekki að spóla til baka. Það hefur sýnt sig og stóð upp úr í skýrslu Byggðastofnunar, sem var mjög ítarleg og atvinnuveganefnd lét vinna fyrir sig, að menn vildu þennan sveigjanleika, hann þyrfti að vera innan kerfis svo að hægt væri að tryggja aflaheimildir til 48 daga, hvort sem hann kæmi úr almenna byggðakvótanum, úr línuívilnun eða hvað það væri. En ég held að mjög brýnt sé að hafa þennan möguleika.

Mér finnst ekkert útilokað að horfa til þess að einhvers lags samningar verði gerðir með tilliti til nýsköpunar og nýrrar hugsunar í þeim efnum. Við vitum að sveitarfélög hafa verið að prófa sig áfram með útfærslu á byggðakvóta. Ég held að það sé ekkert óvitlaust að horfa til þess fyrst og fremst að hann skili sér til þeirra sem eru virkilega að vinna með að styrkja byggðafestu, nýliðun og auka verðmætasköpun í viðkomandi sjávarbyggðum.

Ég er bara áhugasöm um að vinna með þetta mál og vonandi getum við klárað það og gert breytingar á því eins og ég hef talað um hér. Við sjáum til hvernig það gengur en ég treysti því að hæstv. ráðherra verði opinn fyrir því að reyna að ná sem bestri sátt og samkomulagi í þessu stóra máli sem skiptir marga mjög miklu máli. Það þarf að standa vörð um að vel sé staðið að verki. Það þarf líka að hugsa um hina litlu í þessum kerfum. Við megum ekki gleyma því að standa vörð um það smáa því að það skiptir máli fyrir mörg byggðarlög.



[17:36]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni atvinnuveganefndar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir ræðuna. Mig langar að vitna til andsvars og orðaskipta sem við áttum 10. apríl 2018 þar sem ég vitnaði til þess við þær breytingar sem þá var verið að gera á stjórn fiskveiða, breytinga á strandveiðikerfinu, að komið höfðu fram áhyggjur margra frá smæstu byggðarlögunum og brothættu byggðunum, einkum á Norður- og Austurlandi, um að þeirri breytingu gæti fylgt tilfærsla á afla, hlutdeild í afla, sem við höfum síðan séð raungerast, ekki síst á síðastliðnu ári. Ég get ekki verið sammála hv. þingmanni um að það hafi verið markmiðið. Í rauninni hafa áhyggjur byggðarlaganna raungerst. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort ekki sé eðlilegt að atvinnuveganefnd líti mjög til sjónarmiða byggðarlaga og sveitarfélaga vítt og breitt um landið við umfjöllun um þetta mál. Þarna eru að verða verulegar breytingar sem er ætlað að hafa, og hafa áhrif á samfélagsþróun og tækifæri byggðanna til að afla tekna og vera í rauninni sjálfbærar. Ég spyr út í áherslurnar í vinnu nefndarinnar hvað það varðar.

Ég vil einnig spyrja hv. þingmann hvort gerð hafi verið sérstök úttekt á áhrifum breytinganna, hvernig þær voru á síðasta fiskveiðiári.



[17:38]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég nefndi það í ræðu minni áðan að við fengum Byggðastofnun til að gera skýrslu og úttekt á strandveiðum og hvernig til hefur tekist. Sumarið 2018 var tilraunaverkefni og sumarið 2019 var kerfið fest í sessi. Komið hefur fram að þessir aðilar óttuðust að þeir færu halloka við þessar breytingar, en mikill meiri hluti var síðan mjög ánægður með breytingarnar eftir þessi tvö sumur. Ég hef séð töflu yfir aflabrögð báta, sem eru auðvitað mismunandi, þetta er ekki kvótakerfi, maður getur ekki tryggt að sami bátur fái sama afla ár eftir ár. Það fer eftir fiskigengd og það fer eftir aflabrögðum viðkomandi og veðurfari. Þessar þrjár breytur stjórna því vegna þess að þetta eru veiðar sem ráðast af því hvað hver og einn getur aflað í hverjum róðri og er mismunandi. Hámarkið er 725 kíló af afla á dag. Við þurfum að horfa til þess. Það sem stendur upp úr og hefur verið rætt á vettvangi þessara samtaka, Landssambands smábátaeigenda, er að meiri hlutinn kallar eftir því að tryggja afla í 48 daga og þá séu menn mjög sáttir, þá geti menn líka róið þegar það hentar og þurfi ekki að fara út í leiðindaveðri og öðru þvíumlíku. Svo ég mótmæli því (Forseti hringir.) að þetta hafi komið illa út fyrir ákveðnar byggðir en vil fylgja því fast eftir að það þurfi að tryggja afla í þessa 48 daga.



[17:40]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það blasir við að við erum algjörlega ósammála í þessu máli. Auðvitað er það þannig að það er ekki hægt að tryggja einstökum sjómanni eða einstökum útgerðarmanni tiltekinn afla, en ég kalla eftir því að nefndin horfi á hvaða áhrif kerfin hafa á byggðirnar þannig að kerfið sem við búum til feli ekki í sér tilfærslur milli byggðarlaga, hvorki á strandveiðum né öðrum aðgerðum þarna, einhverjar sjálfkrafa tilfærslur eftir að kerfunum er komið á. Úttektin sem hv. þingmaður vísar til, ef ég man rétt átti hún við strandveiðitímabilið 2018 og 2019. Við höfum ekki úttekt á strandveiðitímabilinu 2020 þar sem varð einmitt sú tilfærsla sem sjómenn og sveitarstjórnir og forsvarsmenn byggðarlaga höfðu áhyggjur af að breytingin gæti haft í för með sér, þótt ýmislegt í breytingunni sem gerð var 2018 hafi verið til góðs.

Þá vil ég í þessu seinna andsvari spyrja hv. þingmann um úttektina, hvort það sé til einhver úttekt fyrir árið 2020. Og síðan: Hvað á þingmaðurinn við þegar rætt er um að tryggður sé viðbótarkvóti fyrir strandveiðarnar eða viðbótaraflaheimildir? Hvaðan á að taka þær aflaheimildir þegar búið að fastsetja hlutföllin í mismunandi kerfi? Á þá að úthluta meiru en ráðlagt er? Hvaðan á að taka þær aflaheimildir?



[17:42]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég væri algjörlega á móti því að fastsetja aflaheimildir eins og hér er gert. Það er ekki þannig í dag að það sé fastsett. Nú er verið að fastsetja þetta hlutfall, sem ég tel vera mjög slæmt, þ.e. að verið sé að njörva það niður. Það þarf að vera sveigjanleiki í þessu kerfi. Þetta er félagslegt kerfi og það þarf að vera sveigjanleiki. Í dag er hægt að færa almenna byggðakvótann á milli ára, en frá því að strandveiðar hófust 2009 hafa menn ekki alltaf náð því sem ætlað var í þann pott og það er ekki hægt að færa það á milli ára. Þess vegna tel ég að það þurfi að vera sveigjanleiki. Það hefur verið hægt að færa það í strandveiðipottinn sem ekki hefur gengið út í línuívilnun. En það þarf að vera að sveigjanleiki og ekki niðurnjörvað í þessu kerfi. Ég er mjög hlynnt því að bæta enn frekar í strandveiðar af því að það hefur sýnt sig að þær stuðla að byggðafestu og efla byggðirnar. Þess vegna mun ég leggja alla áherslu á það.

Hv. þingmaður talar um að verið sé að færa aflaheimildir af einu svæði yfir á annað. Ég hef séð tölur um það að aflabrögð og aflahæstu bátar í strandveiðum hafa t.d. verið í kjördæmi hv. þingmanns, sem er bara mjög gott. En áður en við breyttum þessu kerfi var ekki mikið jafnræði á milli landshluta. Sumir landshlutar fengu sex daga í mánuði meðan aðrir fengu kannski 20 daga eða fleiri. Var jafnræði þá? Nei. Þess vegna tel ég að þetta sé jafnræði. En veðurfar mun alltaf stýra veiðum og fiskigengd og einnig aflabrögð hvers og eins.



[17:45]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðu hennar og hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir ræðuna. Ég var í öðru húsi, kom hérna hlaupandi en heyrði mestan part allt saman. Það er margt í þessu máli sem er til mikilla bóta. Annað þarf að laga í meðförum nefndarinnar. Mig langar að koma að strandveiðunum, ég heyrði þingmanninn tala um að hún hefði áhyggjur af því að við værum að stíga skref aftur á bak. Við í nefndinni unnum með fyrirkomulag strandveiða fyrir 2018 og það var mikil samstaða og góð sátt um að þetta yrði gert eins og það varð síðan og kom bara prýðilega vel út. Strandveiðikerfið hefur verið það veiðifyrirkomulag í gegnum árin sem hefur fært okkur þokkalega sátt um fiskveiðar við Ísland, myndi ég segja, en það má alltaf laga og betrumbæta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, í sambandi við þessar áhyggjur sem ég deili með þingmanninum um það að vera að fara aftur í svæðisskiptingu, og nú er verið að taka úr línuívilnun og færa yfir í almenna byggðakvóta og slíkt: Væri ekki betra að strandveiðarnar fengju meira í sinn hlut svoleiðis að við getum haldið áfram að hafa það kerfi eins opið og það hefur verið síðan 2018? Þá væru meiri líkur til þess að þessir 12 dagar í mánuði héldu allan hringinn í kringum landið.



[17:47]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er ágætt að hv. þingmaður minnist á það að vinnan við strandveiðarnar hefur verið þverpólitísk. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að varðveita þann árangur sem hv. þingmenn, þvert á flokka og með mismunandi tengsl í mismunandi landshlutum, hafa unnið saman og reynt að ná utan um þetta með sem bestum hætti. Ég sé það núna að við eigum í raun og veru eftir að binda endahnútinn á þetta með það að tryggja afla í 48 daga. Það er í raun og veru það eina sem stendur út af. Þetta er eins og að vera í einhverju slönguspilinu og allt í einu fer maður bara niður allan stigann og er kominn á byrjunarreit. Ég vil ekki að þessi mikla vinna, þvert á flokka og með tengingu við alla landshluta, verði til einskis unnin. Þess vegna tel ég að það sé mjög brýnt, eins og ég hef verið að segja, að auka aflaheimildir í strandveiðar. Eins og hv. þingmaður nefndi held ég að það sé leið til að skapa miklu meiri sátt um fiskveiðistjórnarkerfið að þessir litlu aðilar og nýliðar og minni sjávarpláss hafi möguleika á að hefja útgerð, þótt smá sé, hafi þessa möguleika í stöðunni. Það er ekkert sjálfgefið ef við förum að gera þetta allt miklu erfiðara og opnum á, eins og er í þessu frumvarpi, bara alla daga. Þá held ég að fyrst fari að koma svokallaðir hobbísjómenn um helgar sem vinna kannski einhverja aðra vinnu. Það er margt í þessu sem mér finnst að megi ekki verða að veruleika.



[17:49]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mín hugsun í þessa átt er að strandveiðar geti verið til jafns hringinn í kringum landið og af því að við erum að tala um byggðafestu og allt slíkt, þá hafa þær veiðar að mínu mati skapað meiri byggðafestu og heildarsátt í kringum landið heldur en oft og tíðum hinn almenni byggðakvóti. Þess vegna var ég að nefna hann. Ég myndi vilja sjá meira sett í strandveiðarnar heldur en endilega í byggðakvótann þótt hann mætti vissulega fá meira, en við erum bara með þessi 5,3% af aflahlutdeild til að spila úr. Þess vegna kom ég með þessa spurningu. En ég hef trú á því, af því að okkur hefur gengið vel í nefndinni að vinna að þessum málum til þessa, að okkur muni farnast vel áfram. Ég inni þingmanninn aftur eftir því, ég heyrði ekki hvort hún svaraði mér beint um þá hugmynd að bæta meira í strandveiðarnar frekar en byggðakvótann, af því að það hefur ekki verið almenn sátt í gegnum árin með hann þótt hann sé vissulega hugsaður til þess. Nú er tvöfaldur kvóti þar, bæði almennur og sérstakur byggðakvóti til brothættra byggða þannig ég er alveg sammála því að færa þá vinnu meira til Byggðastofnunar en hefur verið. En ég myndi vilja fá þingmanninn til að svara þessari spurningu.



[17:51]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er á því að það eigi frekar að styrkja strandveiðarnar heldur en margt annað í þessum félagslega hluta. Eins og hv. þingmaður nefnir þá erum við komin með sérstakan byggðakvóta sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar og hefur möguleika á að gera samninga við fyrirtæki. Það þarf auðvitað að hugsa það vel og vanda vel til verka til að það tryggi í raun uppbyggingu. Mönnum hafa verið svolítið mislagðar hendur með það, því miður, en þeir læra af reynslunni. Sums staðar hefur þetta gengið mjög vel og annars staðar hefur þetta kannski verið brösótt. Þess vegna er hinn almenni byggðakvóti kannski ekki eins heilagur í mínum huga eftir að sértæki byggðakvótinn kom til. Ég tel að það megi horfa til ónýttrar línuívilnunar sem er nú að breytast, mikið er um báta með beitningavélum og tímarnir breytast í þeim efnum, og einhverjum hluta sem fer í almenna byggðakvótann í dag væri betur fyrir komið í strandveiðum þar sem það hefur sýnt sig að það rennur til þeirra aðila og þeirra byggðarlaga sem við viljum styrkja með félagslegum aðgerðum sem þarna liggja undir. Ég nefndi áðan í ræðu að því miður hefur raunin orðið sú að hluti af þessum almenna byggðakvóta lendir í höndum á útgerðum sem hafa nægt aflamark fyrir, hafa nægan kvóta. Það er nú ekki uppleggið með almenna byggðakvótanum og hann hefur oft verið mjög umdeildur því að það hafa ekki verið nægilega skýrar leikreglur.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til atvinnuvn.