151. löggjafarþing — 47. fundur
 21. janúar 2021.
nýsköpun og klasastefna.

[10:53]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Eitt af því sem við horfum til sem lausn á viðfangsefnum nútímans er auðvitað nýsköpun. Nýsköpun er hverri þjóð mikilvæg og mikilvægt að vel sé stutt við hana af hálfu ríkisins, enda eins og hagfræðingurinn Mariana Mazzucato hefur sýnt fram á er mikilvægt að ríkið taki virkan þátt í nýsköpun og stuðningi við hana. Fyrir um fimm árum sótti ég stóra alþjóðlega klasaráðstefnu í Strassborg og má segja að augu mín hafi opnast fyrir því magnaða verkfæri sem samstarf og klasasamstarf getur verið. Á Íslandi höfum við dæmi um klasa sem hafa skilað góðum árangri og má þar nefna Íslenska ferðaklasann, Íslenska sjávarklasann og Orkuklasann, svo fáir séu nefndir. Ég fagnaði því mjög frumkvæði hv. þm. Willums Þórs Þórssonar þegar hann ásamt fleirum, þar á meðal þeirri sem hér stendur, lagði fram þingsályktunartillögu um að fela ráðherra að móta klasastefnu fyrir Ísland. Um þessar mundir er verið að leggja lokahönd á þá klasastefnu og sat ég ásamt nokkrum hv. þingmönnum í atvinnuveganefnd vinnufund í síðustu viku þar sem verið var að fjalla um klasastefnuna. Er óhætt að segja að sú hugmyndafræði sem þar er verið að vinna með sé spennandi og ýmis tækifæri sem felast í því að fylgja stefnunni vel eftir, enda er klasasamstarf í eðli sínu verkfæri til að efla nýsköpun bæði almennt og í starfandi fyrirtækjum, sem er ekki síður mikilvægt.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær mun klasastefnan verða tilbúin? Hvernig stendur til að auka alþjóðlegt rannsóknar- og klasasamstarf fyrirtækja í nýsköpun og hefðbundnari greinum? Að lokum og það er líklega mikilvægasta spurning dagsins: Hefur ráðherra tryggt fjármagn til að fylgja stefnunni eftir og verkefnum hennar eins og þarf til að láta þetta mikilvæga verkefni verða að veruleika?



[10:55]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn og er sammála henni og vísun hennar í að ríkið hafi klárlega hlutverki að gegna þegar kemur að uppbyggingu nýsköpunar og að tryggja að hvert samfélag geti sótt eins mikið fram og mögulegt er. Það er mikilvægt hlutverk og það er líka mjög vandmeðfarið. Það er mikilvægt að horfa á þá stóru mynd að við erum til að mynda með kerfi hér sem mér finnst styrkja nýsköpunarumhverfið mjög verulega, hvort sem það eru endurgreiðslukerfi varðandi rannsóknir og þróunarkostnað, Tækniþróunarsjóður, annar stuðningur og menntakerfið í heild sinni og allt það. Hins vegar þarf líka að athuga það að við leitum einhvern veginn öll í það hvort ríkið geti hjálpað frekar til. Ég held að við þurfum að vera mjög vakandi fyrir því að þegar ríkið gerir það þá skaðar það meira en það gagnast. Það á við almennt.

Varðandi klasavinnuna þá gengur sú vinna mjög vel og ég er mjög ánægð með hvernig hún er að þróast. Mér finnst þetta metnaðarfull sýn og þau sem eru í þeirri vinnu eru klárlega mjög hæf á sínu sviði og varðandi allt það sem er að gerast. Ég hlakka til að fá stefnuna í hendurnar og kynna hana. Sú nálgun gengur út á mikilvægi þessa samstarfs, eins og hv. þingmaður kom inn á. Það kann að vera að ríkið þurfi með einhverjum hætti að styðja við það. En mín skoðun er sú að það eigi að ekki vera efst á lista heldur neðar á lista að ríkið komi með sérstaka fjármuni til að styðja við slíka klasastarfsemi. Þeir öflugu klasar sem við höfum í dag eru að mjög litlu leyti með beinan fjárstuðning frá ríkinu.

Málefnasviðið er eins og það er (Forseti hringir.) og það er þá hlutverk mitt að forgangsraða og ég er algerlega tilbúin til að gera það. En hverjir fjármunirnir eru og með hvaða hætti liggur ekki fyrir fyrr en stefnan er klár.



[10:57]
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fagna því að það sé stutt í að stefnan komi en ég verð að nýta tækifærið og skora einfaldlega á hæstv. ráðherra að tryggja það fjármagn sem þarf til að hrinda stefnunni í framkvæmd þannig að vel sé. Enda er þarna tækifæri til framtíðar og það þarf að tryggja að verkefnum stefnunnar verði fylgt eftir. Það þarf ekki einungis fjármagn til þess heldur þarf líka skýran ramma. Þetta þarf að vera.

Mig langar aðeins að venda kvæði mínu í kross og spyrja hæstv. ráðherra um stöðu mála vegna þess atvinnuástands sem uppi er í landinu. Nýsköpun er auðvitað mikilvægur hluti af því að byggja upp til framtíðar en það er einnig mikilvægt að styðja við hefðbundið atvinnulíf sem sumt hvert berst í bökkum. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hér í síðara andsvari: Hvaða vinna er í gangi í ráðuneytinu til að styðja við atvinnulífið til að halda sjó á meðan erfiðustu mánuðirnir ganga yfir? Er einhver áætlunargerð í gangi eða hefur verið unnin einhver sviðsmyndagreining um stöðuna og hvernig lítur hún þá út? Það er nefnilega ekki nóg að hlusta, herra forseti. Það þarf líka aðgerðir.



[10:59]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa síðari spurningu. Klasastefnan á að koma í febrúar, ég gleymdi að nefna það í fyrra svari mínu, og afstaða til fjármagns er þá tekin þegar hún liggur fyrir og enginn verðmiði er kominn á það enn, það samtal er í raun eftir. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er einmitt þetta samstarf sem skiptir svo miklu máli og einfaldlega viðhorf, viðhorf til samstarfs og trúin á hverju það getur skilað þegar hið opinbera og einkamarkaðurinn taka höndum saman með háskólasamfélaginu o.s.frv. Ég hef að sjálfsögðu mjög miklar áhyggjur af því mikla atvinnuleysi sem er. Stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að bæta úr því. Öll þau úrræði sem við höfum farið í hjálpa til. Við erum með skýra stefnu á nánast öllum málefnasviðum þannig að ég lít svo á að við séum búin að taka ákvörðun um hvert við stefnum. Svo erum við bara komin út í almenna nálgun á hvað það er sem þarf til að auka súrefni til atvinnulífsins. Í því felast m.a. mögulegar skattalækkanir fremur en skattahækkanir. Kjaramál koma inn í það, þróun launa. (Forseti hringir.) Við vitum að það að hækka laun verulega hefur bein áhrif á fjölda starfsmanna. Þá erum við komin í þessa stærri mynd. (Forseti hringir.) En við höfum tekið ákvörðun um þá stefnu almennt út frá helstu málaflokkum.