151. löggjafarþing — 48. fundur
 26. janúar 2021.
skýrsla um samstarf á norðurslóðum.

[13:33]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli þingheims og þeirra sem eru að hlusta á gríðarlega merkilegri skýrslu sem var unnin og skilað til hæstv. utanríkisráðherra. Ég vil hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa fengið til liðs við sig fólk sem hefur mikla reynslu og þekkingu til að miðla áfram. Nefndin vann undir forystu fyrrverandi utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar. Mér finnst það ekkert alltaf meðmæli þegar skýrslur eru langar, en þessi 215 blaðsíðna skýrsla með viðaukum er skýrt fram sett og hún undirstrikar hversu mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga að fylgja svona skýrslu eftir og er grunnurinn að þeirri vinnu sem við erum að leggja upp með. Ég sit í nefnd sem hæstv. utanríkisráðherra hefur skipað og á að setja niður stefnu um norðurslóðir og við fengum einmitt Össur á fund nefndarinnar síðast. Ég vil heils hugar taka undir með honum að við verðum að beina sjónum okkar í ríkari mæli að samskiptum okkar, ekki bara við Færeyjar heldur ekki síður við Grænland. Pólitískt er það mikilvægt fyrir okkur og efnahagslega ekki síður og líka út frá ákveðnum félagslegum málum sem við getum miðlað og líka fengið stuðning gagnkvæmt. Maður er svolítið inspíreraður eftir að hafa lesið svona gagnmerka skýrslu sem er með mjög konkret og skýrar tillögur, raunhæfar, ekki eitthvert blaður heldur bara mjög skýrt afmarkaðar tillögur sem eru tengdar við raunheima og sýna ákveðinn metnað. Ef við gerum þetta rétt þá eru ótrúleg tækifæri fyrir okkur til þess að styrkja og efla þessi tengsl sem munu skipta okkur Íslendinga mjög miklu máli, ég vona líka Grænlendinga, en ekki síður okkur núna þegar þunginn er að færast í ríkari mæli á norðurslóðir, ekki bara efnahagslega og pólitískt heldur líka út frá varnar- og öryggissjónarmiðum þannig að við þurfum að tengja þetta allt saman.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann ætli ekki að drífa í því einfaldlega að leggja fram þingsályktunartillögu, (Forseti hringir.) sem ég veit að hann hefur sagt frá og vil hvetja hann til þess að koma fram með sem fyrst, sem byggir m.a. á þessari skýrslu (Forseti hringir.) þannig að við getum hafist handa hér í þinginu.



[13:36]
utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þetta innlegg og spurningu. Hv. þingmaður þekkir þessi mál mætavel út frá störfum sínum. Ég er alveg hjartanlega sammála henni þegar kemur að tillögum í þessari skýrslu. Þær eru 99 og ég held að það sé ekki þannig að þær verði framkvæmdar allar alveg eins og þær eru lagðar upp. En ég held að þetta sé góður vegvísir til þess að hinir ýmsu aðilar, á Íslandi eru það 40 aðilar sem þar er minnst á, fari og vinni skipulega að því sem hv. þingmaður vísaði til um að styrkja og efla tengslin á milli Íslands og Grænlands. Ég ætla ekkert að endurtaka það sem hv. þingmaður sagði. Hugmynd mín var bara þessi. Eins og fram kemur í máli okkar beggja þá erum við sammála um markmiðin. Það sem mér finnst vanta svolítið á er að við séum að vinna skipulega að því að ná þessum markmiðum. Ég er mjög ánægður að heyra að um þetta er pólitískt breið sátt, eins og fram kemur hjá hv. þingmanni, og ég hef ekki heyrt annað frá öðrum þingmönnum. Það er pólitískt breið sátt um að við sem norðurslóðaþjóð séum að styrkja og efla tengslin við okkar nánustu nágranna. Það er allra hagur.

Hv. þingmaður spyr hér um þingsályktunartillöguna sem ég hef, eins og hv. þingmaður vísaði til, lýst því yfir að sé í undirbúningi. Ég held að það skipti hins vegar mjög miklu máli að um hana sé eins góð sátt og mögulegt er. Ég held að við ættum að geta náð því og orð hv. þingmanns gefa mér mjög miklar vonir um það. Ég get ekki sagt að það komi mér á óvart. Það hefði komið mér á óvart ef hv. þingmaður hefði verið með annan tón en raun ber vitni út af þessu máli. Þessi hvatning þingmannsins skiptir máli og ég get lofað henni að við munum halda áfram að vinna að þessu máli á fullu þannig að þingið geti tekið á því sem allra fyrst.



[13:38]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Já, þetta var mikilvægt og gott að heyra. Vissulega eru þetta 99 tillögur en það eru engu að síður tíu tillögur til stefnumörkunar og í raun hægt að taka þær allar. Ég vil m.a. vekja athygli á, af því að hæstv. menntamálaráðherra er hér líka, uppbyggingu fjarnáms og nýta þar Háskólann á Akureyri, stuðningi við berskjaldaða, ekki síst með fókus á Austur-Grænland og erfiðar aðstæður þar, þar sem við reynum að koma til og færa fram ákveðna sérfræðiþekkingu o.fl. Ég nefni líka leit og björgun en ekki síður að samningur verði gerður á heilbrigðissviði og að við komum upp norðurslóðasetri, hvort sem það verður í Reykjavík eða fyrir norðan og í tengslum við Háskólann á Akureyri.

Ég tel mjög mikilvægt að við fáum þetta sem fyrst og þess vegna fagna ég orðum hæstv. ráðherra. Ég vona að mín aumu orð hér úr þessum ræðustóli verði til þess að hann hraði þeirri vinnu. Viðreisn hefur bæði hvatt og stutt ríkisstjórnina á þessu kjörtímabili til allra góðra verka og ekki verður breyting á því. Ég vil undirstrika að mér finnst engin ástæða til að bíða með það fram á síðustu stundu að leggja fram þingsályktunartillögu. Það eru kosningar í haust. Mér þætti betra að við værum búin að afgreiða þessa þingsályktunartillögu fyrir þinglok og ég vil lýsa yfir stuðningi Viðreisnar við að vinna að því að málið verði afgreitt héðan úr þinginu sem allra fyrst.



[13:39]
utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Bara svo það sé alveg skýrt þá er ekki þannig að það standi til að bíða eitthvað með þetta. Það liggur hins vegar alveg fyrir að það er ekki bara svo að við þurfum að fara í þingsályktunartillöguna, heldur þurfum við líka, út af þeim viðbrögðum sem við erum búin að fá við skýrslunni, að setja þessa hluti í farveg. Ég var ekki að tala það niður að framkvæma þessa tillögur, alls ekki. Eins og ég segi eru mjög margir sem koma að þessu. Það var ekki einn ráðherra, það var ekki ein stofnun, það var ekki eitt ráðuneyti. Þetta snýst um að við Íslendingar vinnum skipulega að því með Grænlendingum — við höfum fengið viðbrögð frá þeim, þau eru mjög skýr — að ná fram markmiðum sem koma fram í skýrslunni. Það væri frábært ef allar 99 tillögurnar yrðu framkvæmdar, en af því að maður þekkir það að þegar málin þróast þá munum við kannski ekki gera nákvæmlega það. En ég efast ekki um að það er grundvöllur til þess að gera mjög vel í þessum málum. Hv. þingmaður skal ekki gera lítið úr sínum eigin orðum því að það skiptir mjög miklu máli að einn af forystumönnum stjórnarandstöðunnar komi fram og tali með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði. Það er þakkarvert og ég þakka sérstaklega fyrir það.