151. löggjafarþing — 48. fundur
 26. janúar 2021.
frumvörp um stöðu íslenskunnar og mannanöfn.

[13:48]
Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Fyrir Alþingi liggja tvö frumvörp sem lúta að íslenskri tungu. Forsætisráðherra gerir að tillögu sinni í frumvarpi um breytingar á stjórnarskrá að íslenska skuli vera ríkismál Íslands og skuli ríkisvaldið styðja hana og vernda. Hið sama eigi við um íslenskt táknmál. Hitt frumvarpið er runnið frá dómsmálaráðherra og er um breytingu á mannanafnalögum. Miðað við umsagnir kunnáttufólks um síðartalda frumvarpið verður ekki séð að þessi frumvörp rími saman. Tímans vegna get ég ekki vitnað nema til einnar umsagnar en hún er frá dr. Guðrúnu Kvaran. Hún er höfundur ritsins Nöfn Íslendinga og gerþekkir íslenskan nafnaforða. Undrun vekur að við smíð frumvarpsins hafi ekki verið leitað til þeirra sem gerst þekkja. Í umsögn sinni rifjar Guðrún Kvaran upp að mennta- og menningarmálaráðherra hafi boðað átak til að efla íslenska tungu. Hún segir að því beri að fagna ef af verður og bætir við, með leyfi forseta:

„… en ekki löngu síðar er lagt fram frumvarp sem vinnur beinlínis gegn íslensku mál- og beygingarkerfi, stjórnarfrumvarp. Ótrúlegt.“

Álit sitt rökstyður Guðrún með vísan til ákvæða frumvarpsins og greinargerðar. Í ljósi harðrar gagnrýni Guðrúnar Kvaran og fleiri mikilsvirtra fræðimanna á frumvarp dómsmálaráðherra spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Telur hún að með frumvarpi dómsmálaráðherra sé ríkisvaldið að styðja og vernda íslenska tungu? Styður hæstv. forsætisráðherra frumvarp dómsmálaráðherra?



[13:50]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir fyrirspurnina og vona að hér getum við náð samstöðu um þá breytingu sem lögð er til í frumvarpi mínu til stjórnarskipunarlaga um að íslensk tunga og íslenskt táknmál öðlist stjórnskipulega stöðu. Vonandi getum við líka náð samstöðu um fleiri breytingar í því frumvarpi, svo ég segi það hér.

Hvað varðar íslenska tungu þá hefur ríkisstjórnin og stjórnvöld lagt ýmsar tillögur hér fyrir Alþingi sem notið hafa víðtæks stuðnings. Sérstaklega vil ég nefna það að fjárframlög hafi verið mjög aukin til að bregðast við tæknibreytingum því að íslenskan þarf að vera gjaldgeng í hinum stafræna heimi. Það er alveg óhætt að segja að þar þurfti átaks við. Þetta er ekki nýtt af nálinni en þar þurfti sannarlega átaks við og ég er mjög ánægð með þá vinnu sem hefur verið unnin á þessu kjörtímabili í þeim efnum.

Hvað varðar frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra, sem hv. þingmaður gerir sérstaklega að umtalsefni, um breytingar á mannanafnalögum, þá vil ég segja það að ég studdi framlagningu þess frumvarps. Ég hef stutt og lagt fram, í gegnum lögin um kynrænt sjálfræði, ákveðnar breytingartillögur til að tryggja aukið frjálsræði þegar kemur að mannanöfnum en þó með þeim skýra fyrirvara að ég taldi mjög mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd færi mjög vel yfir það frumvarp, einmitt út frá þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður nefnir, þ.e. hvort þær breytingar í frjálsræðisátt, sem sannanlega má segja að hafi verið kallað eftir að Alþingi taki til umræðu, skapi hættu fyrir íslenskt málkerfi og íslenskar málhefðir. Ég lít svo á að það sé hlutverk nefndarinnar að gera það. Ég hef líka kynnt mér umsagnir og veit að þær eru sumar gagnrýnar, þó alls ekki á alla þætti frumvarpsins en á suma þætti þess. Ég vænti þess að nefndin muni fara mjög vel yfir þetta og komast að niðurstöðu í þeim efnum. Ég held að við getum ekki horft fram hjá því að það hefur verið, eins og ég segi, áhugi á að ræða þessa löggjöf (Forseti hringir.) og ég held að Alþingi eigi ekkert að óttast þá umræðu en þarna þurfum við að vega saman annars vegar frjálsræðisrökin og hins vegar þann vilja sem Alþingi hefur margoft sýnt til (Forseti hringir.) að standa vörð um íslenska málhefð.



[13:52]
Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég tók eftir því að ráðherra notaði mestan tíma til að tala um önnur mál en þetta frumvarp. Ég gat heldur ekki heyrt hæstv. ráðherra lýsa yfir stuðningi við það að þetta frumvarp nái fram að ganga.

Ég ætla að leyfa mér að nota þær fáu sekúndur sem ég hef til að vitna í tvo aðila sem rituðu umsagnir um frumvarpið. Það er annars vegar Hrafn Sveinbjarnarson sem sagði, með leyfi forseta:

„Íslensk mannanöfn eru mikilvæg arfleifð sem er vert að skila sem best til komandi kynslóða. Það er ekki einkamál heldur samfélagslegt mál. Fámenn þjóð með eigið tungumál hefur ekki efni á að glopra þessum menningararfi og sérkennum niður. Sá skaði verður ekki bættur.“

Ég ætla sömuleiðis að leyfa mér að vitna í Ármann Jakobsson en hann segir, með leyfi forseta:

„Langbest er að áfram séu ákvæði í mannanafnalögum um að mannanöfn fylgi íslenskri málhefð.“

Ég ætla að ljúka máli mínu á því að hvetja hæstv. forsætisráðherra til dáða í þessu máli og afstýra því slysi sem yrði ef þetta frumvarp næði fram að ganga hér á hinu háa Alþingi.



[13:54]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég notaði nú reyndar meiri hlutann af tíma mínum hér áðan til að ræða þetta frumvarp svo að ég komi þeirri leiðréttingu á framfæri við hv. þingmann. Ég vil segja að ég tel að dómsmálaráðherra hafi undirbúið þetta mál vel. Það er vandmeðfarið verkefni að vega saman annars vegar þau rök sem eru með auknu frjálsræði í mannanafnalöggjöfinni og hins vegar íslenska málhefð. Við skulum líka vera meðvituð um að núverandi fyrirkomulag kann ekki endilega að vera það allra besta sem hægt er að hafa á þessum málum. Það er tiltölulega nýtt af nálinni og ekkert athugavert við að lagðar séu til breytingar á því. Ég lít hins vegar svo á, og það hefur legið fyrir, að það sé að sjálfsögðu mikilvægt að þetta mál fái opna umræðu, að Alþingi fari vel yfir þessar umsagnir og vegi og meti saman þessi eðlilegu sjónarmið. Það mun ég sjálf gera þegar að afgreiðslu málsins kemur. En ég treysti nefndinni reyndar vel til að vinna þá vinnu með nákvæmlega þau sjónarmið í huga. Ég vil því segja að ég tel að dómsmálaráðherra hafi undirbúið þetta mál vel. Ég held að þetta sé vandmeðfarið (Forseti hringir.) og hún hafi gert vel í því að halda á því verkefni.