151. löggjafarþing — 48. fundur
 26. janúar 2021.
sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga , 1. umræða.
stjfrv., 378. mál (lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags). — Þskj. 470.

[18:28]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Um er að ræða fyrsta frumvarpið sem lagt er fram til að ná fram markmiðum þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2018–2023, sem samþykkt var á Alþingi þann 29. janúar sl. Rétt er að rifja upp nokkur veigamikil atriði þingsályktunarinnar, þeirrar fyrstu sinnar tegundar hér á landi. Þingsályktunin fékk góðar viðtökur, m.a. hér í þingsölum, vegna umfangsmikils samráðs og samstarfs við þá sem málið varðar þar sem m.a. voru haldnir samráðsfundir um allt land, fjallað var um hana á sérstöku aukaþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga auk þess sem efni ályktunarinnar var tvisvar birt í samráðsgátt stjórnvalda.

Framtíðarsýn áætlunar í málefnum sveitarfélaga er, með leyfi forseta:

„… að Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög, verðmætasköpun og framsækna þjónustu. Tækni tengi byggðir og Ísland við umheiminn í jafnvægi við umhverfið.“

Þá segir enn frekar um meginmarkmið hennar:

„Helsta viðfangsefni áætlunar í málefnum sveitarfélaga verði að draga saman meginþætti langtímastefnumörkunar ríkisins í þeim málaflokkum sem snúa að verkefnum sveitarfélaga og stuðla að samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga á þeim sviðum með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi. Jafnframt verði sett fram leiðarljós í málefnum sveitarstjórnarstigsins með eflingu þess og sjálfbærni að markmiði.“

Þingsályktunartillagan var lögð fram hér á Alþingi síðastliðinn vetur og afgreidd 29. janúar fyrir rúmu ári. Í umsögn meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar, sem var með tillöguna til meðferðar, kom fram að gestir hennar hefðu almennt lýst yfir ánægju með framkomna þingsályktun og þær aðgerðir sem þar koma fram.

Það var sameiginleg niðurstaða þeirra sem unnu að gerð tillögunnar að til þess að ná því markmiði að efla sveitarstjórnarstigið og gera sveitarfélögin að enn sjálfbærari þjónustu- og rekstrareiningum þyrftu þau að stækka og þeim að fækka. Fyrir því eru margar ástæður og ég tel rétt að nefna nokkrar.

1. Öflug stjórnsýsla. Miklar og auknar kröfur hafa verið gerðar til stjórnsýslu sveitarfélaga undanfarna áratugi og ljóst er að fámenn sveitarfélög hafa síður getu til að uppfylla slíkar kröfur. Þegar sveitarfélög eru of mörg reynist einnig erfitt að halda uppi fullnægjandi eftirliti með stjórnsýslu allra sveitarfélaga og afleiðingarnar verða þær að íbúar geta ekki treyst því að staðbundin stjórnvöld uppfylli allar sínar lagaskyldur eða gæti nægilega að vönduðum stjórnsýsluháttum í starfsemi sinni.

2. Sjálfbærni. Markmið þingsályktunarinnar er að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni. Það kunna að vera skiptar skoðanir á því hvað telst vera fjárhagslega sjálfbært sveitarfélag eða hversu hátt hlutfall af tekjum sveitarfélags getur komið úr sameiginlegum sjóðum til að það sé orðið ósjálfbært. Þó hljóta flestir að setja spurningarmerki við sjálfbærni sveitarfélaga sem treysta á framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að geta haldið uppi lágmarksþjónustu.

3. Hagræðing. Með fækkun sveitarfélaga má ná fram umtalsverðri hagræðingu, m.a. þá fjármuni sem fara í yfirbyggingu sveitarfélaga. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið lét greina hagræn áhrif frumvarpsins og var niðurstaðan sú að með stækkun og eflingu sveitarfélaga gæti fylgt hagræðing upp á 5 milljarða á ári sem væri hægt að nýta til að auka og bæta þjónustu við íbúa og treysta alla innviði svo um munar. Sjá verður til þess að sá fjárhagslegi ávinningur komi íbúum þeirra sveitarfélaga til góða sem fara í sameiningar á komandi árum.

4. Betra vinnuumhverfi fyrir kjörna fulltrúa og starfsmenn sveitarfélaga. Það þarf að efla og auka fjölbreytni í stjórnsýslu sveitarfélaga, það gerist með auknum verkefnum og skapar um leið ný atvinnutækifæri og styður við störf kjörinna fulltrúa. Óumdeilt er að stærri stjórnsýslueiningar hafa meiri möguleika á að efla mannauð sinn og tryggja starfskjör kjörinna fulltrúa

5. Lýðræðishalli. Þær auknu kröfur sem gerðar eru til stjórnsýslu sveitarfélaga hafa orðið til þess að mörg fámenn sveitarfélög framselja vald sitt í mörgum lögbundnum verkefnum til nágrannasveitarfélagsins, til stærri sveitarfélaga. Í slíkum tilvikum eru ákvarðanir færðar frá kjörnum fulltrúum til annarra aðila sem hafa ekki lýðræðislegt umboð á bak við sig.

Grundvallaratriðið er þó þetta: Sveitarfélög eru rekin fyrir almannafé. Það er skylda Alþingis og annarra stjórnvalda að tryggja að sveitarstjórnarstigið í heild sé rekið með lýðræðislegum, hagkvæmum og skilvirkum hætti. Öll sveitarfélög þurfa að hafa afl til að sinna lögbundinni grunnþjónustu sem um leið tryggir jafnan rétt allra landsmanna að þeirri þjónustu sem sveitarfélög veita. Eins og ég hef rakið hér með örfáum dæmum er hægt að gera betur. Miklu betur. Og um það eru allir sammála.

Þingsályktunin kveður á um 11 aðgerðir og hefur það verið verkefni mitt og okkar í ríkisstjórninni að undirbúa framkvæmd þeirra og innleiðingu. Við höfum þegar hrint þeirri aðgerð í framkvæmd að stórefla fjárhagslegan stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar, en áætlað er að um 10–12 milljarðar kr. geti runnið í slíkan stuðning á næstu árum. Ríkið hefur enn fremur lagt 100 milljónir kr. í stuðning við stafræna þróun á sveitarstjórnarstiginu og er samstarf ríkis og sveitarfélaga á þessu sviði nú í góðum farvegi. Þá höfum við náð samkomulagi við sveitarfélögin um það hvernig við stöndum að heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og regluverki jöfnunarsjóðs, en sú vinna hefst á næstu vikum. Aðrar aðgerðir eru einnig í undirbúningi og er þingsályktuninni fylgt eftir með skipulögðum hætti.

Umdeildasta aðgerð þingsályktunarinnar en jafnframt sú áhrifaríkasta, til að ná fram þeim ávinningi sem ég fjallaði um hér á undan, er sú fyrsta, þ.e. fyrsti liður þingsályktunarinnar. Með henni var staðfestur vilji Alþingis, ríkisstjórnar og jafnframt meiri hluta sveitarstjórnarfólks á Íslandi um lögfestingu lágmarksfjölda íbúa í sveitarstjórnarlög að nýju. Ráðuneyti mitt hefur í nánu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga unnið samviskusamlega að því að útfæra aðgerðina í frumvarpsformi, og er það mál nú til umræðu hér á hinu háa Alþingi.

Segja má að efni þessa frumvarps snúi að sameiningum sveitarfélaga með ýmsum hætti. Lagðar eru til breytingar á sveitarstjórnarlögum sem hafa þann tilgang að hvetja til frjálsra sameininga sveitarfélaga, draga úr lagahindrunum tengdum sameiningum og styrkja þróun og nýbreytni í stjórnun sveitarfélaga. Hér má nefna að í frumvarpinu er lagt til:

a. að auka heimildir ráðherra til að veita sveitarfélögum færi á að gera tilraunir með annað stjórnskipulag en kveðið er á um í sveitarstjórnarlögum,

b. að víkka heimildir sveitarfélaga til að halda fjarfundi,

c. og jafnframt er lagt til það nýmæli að sveitarfélögum beri að móta og framfylgja stefnu um það þjónustustig sem þau ætla að halda uppi í byggðum utan stærstu byggðarkjarna.

Meginefni frumvarpsins snýr þó fyrst og fremst að lögfestingu nýs ákvæðis í sveitarstjórnarlög sem kveður á um að sveitarfélög þurfi að hafa að lágmarki 1.000 íbúa. Reglan felur í sér að íbúafjöldi sveitarfélaga skuli á ný vera að ákveðnu lágmarki og ber sveitarstjórnum að hafa frumkvæði að því að hefja undirbúning að sameiningu sveitarfélags sem ekki nær slíku íbúalágmarki, við annað eða önnur sveitarfélög. Er þannig ekki horfið frá því meginsjónarmiði sveitarstjórnarlaga að frjálsar sameiningar sveitarfélaga séu ávallt fyrsti kostur þegar kemur að stækkun sveitarfélaga. Hafi íbúafjöldi sveitarfélags verið undir lágmarksíbúamarkinu þrjú ár í röð og sveitarstjórn hefur ekki hafið undirbúning að sameiningu sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög ber ráðherra sveitarstjórnarmála að hafa frumkvæði að slíkum undirbúningi og ákveða hvernig staðið skuli að sameiningunni. Ber ráðherra að taka fullt tillit til vilja íbúa sveitarfélagsins um það hvernig sameiningin skal fara fram og er m.a. gert ráð fyrir að haldnar verði kosningar innan sveitarfélags ef um fleiri en einn sameiningarkost er að ræða.

Þá er einnig farin sú leið í frumvarpinu að veita sveitarfélögum verulegt svigrúm til að aðlagast lágmarksíbúafjöldamarkinu. Ráðherra skal ekki hafa frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga sem hafa færri en 250 íbúa, fyrr en tveimur árum eftir sveitarstjórnarkosningar 2022 og hann skal ekki hafa frumkvæði að sameiningu sveitarfélaga sem hafa færri en 1.000 íbúa fyrr en tveimur árum eftir sveitarstjórnarkosningar 2026. Auk þess er lagt til að ráðherra geti veitt tímabundna undanþágu frá lágmarksíbúafjölda í allt að fjögur ár ef sérstakar ástæður mæla gegn því að sveitarfélag geti myndað stjórnsýslulega heild með nærliggjandi sveitarfélögum. Með þessari útfærslu hefur verið tekið tillit til ýmissa sjónarmiða sem komu fram í máli þingmanna og í meirihlutaáliti umhverfis- og samgöngunefndar þegar þingsályktunin var hér til meðferðar.

Hæstv. forseti. Sátt er mikilvæg. Sameiningar sveitarfélaga eru mikið hitamál. Það dylst þó engum sem til þekkir að það er gríðarlega mikilvægt fyrir sveitarstjórnarstigið og samfélögin, íbúana, um allt land að sveitarfélögin séu stærri og sterkari. Það er heldur enginn sem ég hef hitt og rætt við sem er ósammála því að sveitarstjórnarstigið þurfi að styrkja og að það verði helst gert með sameiningum. Það sem fólk hefur helst sett sig upp á móti er að það sé gert með því að lágmarksíbúafjöldi sé bundinn í lög. Fólk hefur talað um að frekar eigi að vera jákvæðir hvatar fyrir sveitarfélög sem sameinast, líkt og við erum að gera varðandi stuðning úr jöfnunarsjóði. Svo eru aðrir sem hafa aðra sýn á málin og vilja að jöfnunarsjóður sé nýttur til að svelta sveitarfélög til sameininga. Þá eru þeir hinir þriðju sem vilja hætta að pæla í þessu með sveitarfélögin og búa einfaldlega til þriðja stjórnsýslustigið að norrænni fyrirmynd og fela því að reka grunnskóla og sjá um málefni fatlaðs fólks og fleiri þætti sem nú eru á ábyrgð sveitarfélaganna.

Með þetta allt í huga hef ég, frá því að ég tók við, unnið að málinu með áherslu á breiða samstöðu um leiðir til að efla sveitarstjórnarstigið. Forsenda fyrir kerfisbreytingu af þessum toga er almenn sátt og samstaða. Afgerandi stuðningur aukalandsþings sambandsins og síðan Alþingis, við tillögu til þingsályktunar um þessi mál, var sannfærandi. Það voru því ákveðin vonbrigði þegar það kom í ljós á landsþingi sambandsins í desember sl. að stuðningur við þennan þátt stefnumörkunarinnar er minni en áður hafði komið fram á aukalandsþingi þess í september 2019. Stuðningurinn er ekki eins afgerandi og áður þó að meirihluti þingfulltrúa hafi vissulega samþykkt að halda áfram stuðningi við málið.

Nú er málið komið til hv. Alþingis og til ákvörðunar þar. Frumvarpið er efnislega í samræmi við þingsályktunina og enn fremur er búið er að taka mið af þeim sjónarmiðum sem fram komu við umfjöllun um hana í hv. umhverfis- og samgöngunefnd um hæfilegan tíma til aðlögunar að íbúamörkum. Ég er því opinn fyrir umræðu um málamiðlanir ef það gæti orðið til þess fallið að tryggja breiðari samstöðu um þetta mikilvæga umbótaverkefni, sumir segja stærsta umbótaverkefni í stjórnsýslu í mjög langan tíma. Það gæti t.d. falið í sér að leita leiða til að ná markmiðunum um aukna sjálfbærni sveitarfélaga með því að skilgreina sveitarfélag út frá ákveðnum grundvallarþáttum sem verða að vera fyrir hendi til að geta talist sveitarfélag; að starfrækja grunnskóla, hafa bolmagn til að veita fötluðu fólki lögbundna þjónustu o.s.frv. Slíkar skilgreiningar gætu leitt til þess að afstaða okkar til þeirra tölulegu viðmiðana sem sett eru fram í frumvarpinu myndi breytast.

Fyrst og fremst, herra forseti, megum við ekki gefast upp fyrir þessu verkefni þótt umdeilt sé, við erum öll sammála markmiðunum og það hefur ítrekað komið fram í samtölum mínum við fulltrúa ólíkra sveitarfélaga. Markmiðið er að efla sveitarstjórnarstigið á Íslandi til hagsbóta fyrir íbúa þeirra og landsmenn alla.

Herra forseti. Síðasta vetur fór ég á opinn fund á Grenivík um þingsályktunartillögu um eflingu sveitarstjórnarstigsins með aðaláherslu á boðaða löggjöf um lágmarksíbúafjölda. Það voru heitar tilfinningar á þessum fundi eins og oft vill verða í umræðum um sameiningar sveitarfélaga. Og ég skil vel þær heitu tilfinningar. Ég er sjálfur íbúi í litlu sveitarfélagi og var áður oddviti sama sveitarfélags í allnokkur ár. Skoðun mín þá var sú að hagsmunir íbúa Hrunamannahrepps væru betur tryggðir með því að vera hluti af stærra sveitarfélagi. Skoðun mín er enn sú að hagsmunir byggðanna séu betur tryggðir með því að sveitarfélögin séu sem stjórnsýslueiningar stærri og þar af leiðandi sterkari.

Málið snýst í mínum huga um það að stærri sveitarfélög eru betur í stakk búin til að mæta vaxandi kröfum íbúa um þjónustu á þeim sviðum sem snúa að sveitarfélögunum. Málið snýst í mínum huga um það að byggðir landsins eigi sterkari rödd, ekki síst í samskiptum sínum við ríkisvaldið.

Við erum öll hluti af samfélögum okkar og öll þau sem hér sitja eru virkir þátttakendur í þeim. Þau samfélög eru misstór og misjafnlega skilgreind. Ég hef reynt að hanga í karlakór Hreppamanna við misjafna eftirspurn. Ég er Hrunamaður og verð Hrunamaður, jafnvel þótt stjórnsýslueiningin, sveitarfélagið, sameinaðist nágrannasveitarfélögum. Með öðrum orðum þá er ég ekki stjórnsýslueining og ég held að ef einhver hafi einhvern tímann litið á sig sem stjórnsýslueiningu þá hafi þeim fækkað eftir því sem árin hafa liðið. Keflavík keppir enn við Njarðvík í körfubolta. En ég skil tilfinningarnar og því legg ég áherslu á breiða samstöðu um þau skref sem við stígum á þessari mikilvægu vegferð okkar, bæði meðal sveitarstjórnarmanna og hér á hinu háa Alþingi.

Það er mikilvægt að leiða fram vilja íbúa sveitarfélaga og hugmyndir þeirra um þá þjónustu sem þeir vilja að sveitarfélagið veiti þeim. Vinna við slíka greiningu fer í gang í ráðuneyti mínu innan skamms og verður þinginu haldið upplýstu um þá vinnu og niðurstöður hennar. Markmiðið er skýrt: að efla og styrkja sveitarstjórnarstigið svo það geti staðið betur undir þeim kröfum sem íbúar gera til þjónustu sveitarfélaganna. Um markmiðið eru allir sammála. Verkefni okkar, verkefni þingsins, er að finna leiðina að því markmiði.

Ég hef nú farið yfir aðdraganda að gerð þessa frumvarps og nauðsyn þess að efla sveitarfélögin í landinu og tryggja landsmönnum sem besta þjónustu, hvar sem þeir búa. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.



[18:46]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er mjög hlynntur sjálfbærni og sjálfsstjórn. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Mér finnst það alla vega mjög skýrt, ef ég fer í gegnum Evrópusáttmálann um sjálfsstjórn sveitarfélaga, sem við tókum upp 1991, og lög um sveitarstjórnarmál og stjórnarskrána, að ekki sé hægt að afnema sveitarfélag nema með kosningu íbúa, samkvæmt íslenskum lögum. Samkvæmt þessu frumvarpi, ef það verður að lögum, getur ráðherra sagt: Nú eru allir frestir búnir, þið sameinist. Ef íbúar kalla til íbúakosninga samkvæmt sveitarstjórnarlögum og segja þar nei, þá segir ráðherra í framsöguræðu sinni að ráðherra beri að taka tillit til íbúa þrátt fyrir að í greinargerðinni segi líka að sáttmálinn geri ekki ráð fyrir að stjórnvöldum aðildarríkja hans beri skylda til að taka til greina óskir sveitarfélaga við sameiningu þeirra við önnur sveitarfélög. Það er ákveðið misræmi þarna á milli og ég bendi á það grundvallaratriði að ef við ætlum að halda í sjálfsstjórn sveitarfélaga og ef hún á að þýða eitthvað þá getur ráðherra annars stjórnsýslustigs ekki afnumið lögaðila úr jöfnunni á öðru stjórnsýslustigi samkvæmt íslenskum sveitarstjórnarlögum. Það gengur einfaldlega gegn sjálfsstjórnarhugtakinu.



[18:48]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég skil spurninguna rétt er hv. þingmaður að halda því fram að þetta sé ekki í samræmi við Evrópusáttmálann um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Það er rangt. Það er röng staðhæfing hjá hv. þingmanni. Það var sérstaklega skoðað þegar Danir fóru í slíka vegferð á sínum tíma og það varð niðurstaðan á þeim tíma, ég held að það hafi verið árið 2005, að þar voru fjölmörg sveitarfélög sameinuð af löggjafarvaldinu án sérstakra kosninga þar um og jafnvel án þess að litið hefði verið til óska sveitarfélaganna um sameiningarkosti, sem við gerum ekki ráð fyrir hér. Það var niðurstaðan í skýrslu sendinefndar sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins, sem fylgdist með framkvæmd kosninganna, að þrátt fyrir að gert væri ráð fyrir að haft væri samráð um sameiningu sveitarfélaganna bæri löggjafarvaldinu ekki skylda til að taka til greina sjónarmið og óskir þeirra og þær voru heldur ekki taldar fara í bága við stjórnarskrá Danmerkur sem er, að mati hv. þingmanns, talsvert lík þeirri íslensku. Þess vegna fer þetta heldur ekki í bága við íslensku stjórnarskrána því hér á Alþingi getum við sett lög. Svo vil ég bæta því við, bara til upplýsingar, að eftirlitsnefnd með Evrópusáttmálanum hefur mælt með því að farið verði í frekari sameiningar hér á landi til að styrkja sveitarstjórnarstigið. Þannig að staðhæfing þingmannsins er hreinlega röng. Við höfum fjölmörg dæmi um að þetta sé í samræmi við sáttmálann, þessi framkvæmd, og önnur dæmi úr Evrópu þar að lútandi.



[18:50]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Í ýmsum öðrum Evrópulöndum eru ekki lög um íbúakosningar eins og við erum með í sveitarstjórnarlögum þar sem íbúar geta að eigin frumkvæði kallað til kosninga um sín málefni. Ef íbúar segja að eigin frumkvæði, samkvæmt sveitarstjórnarlögum: Við viljum ekki sameininguna, við viljum kjósa um það, og kosningin fer á þann veg að þeir segja nei, þá erum við í ákveðnum vanda ef við eigum að horfa til sjálfsstjórnarhugtaksins. Já, sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða, vissulega. En íbúar sveitarfélags geta líka kallað til kosninga um sín málefni og sagt nei. Hvað þá? Það er verið að framfylgja einum lögum og komin lýðræðisleg niðurstaða samkvæmt sveitarstjórnarlögum á meðan það er ólöglegt samkvæmt öðrum lögum. Þarna er vandamálið sem ég sé. Ef við eigum að horfa til hugtakanna lýðræði og sjálfsstjórn finnst mér mjög augljóst hvorum megin gallinn er. Hann er í því að takmarka fjölda íbúa sveitarfélaga. Ég tek því ekki alveg undir það að það sé nákvæmt að segja að Evrópusáttmálinn kveði á um að ekki þurfi íbúakosningu. Ég tek undir að hann gerir það ekki að skyldu. En við erum með atriði í íslenskum lögum sem búa til það vandamál að þetta getur stangast á, niðurstöðurnar geta stangast á, lögin geta stangast á. Þá erum við ekki í þeirri aðstöðu, eins og Evrópusáttmálinn vill, að slíkur lögaðili geti leitað til dómstóla til að skera úr um hvort er rétt.



[18:52]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við skulum muna að í þessu dæmi sem hv. þingmaður er að nefna vegna frumvarpsins þá erum við búin að setja lög um lágmarksíbúafjölda. Á þeim grunni hafa slíkar sameiningar farið fram án kosninga, án íbúakosninga. (Gripið fram í.) Jú, það er þannig í sögunni. En það sem ég lagði áherslu á í mínu máli var að við erum auðvitað fyrst og fremst að hvetja til frjálsra sameininga. Við erum að búa til mjög sterka fjárhagslega hvata til þess. Við erum að benda á hversu margir þættir það eru sem kalla hreinlega á sterkari sveitarfélög, öflugri stjórnsýslueiningar. Við setjum þessa fjárhagslegu hvata og svo segjum við að eftir umtalsvert svigrúm í tíma þá hafi menn möguleika á að nálgast þetta með frjálsum sameiningum og það er það sem við viljum. Það er það sem við leggjum áherslu á.

Það sem hefur reynst umdeilt er hvort setja eigi aftur lágmarksíbúatölu. Hún var til til ársins 2011, það er bara í nokkur ár sem við höfum ekki haft hana. Það er það sem þingið þarf að glíma við og skoða hvort til séu aðrar málamiðlanir. Hvatarnir eru nægilega sterkir, sú hagræna greining sem við kynntum til sögunnar segir að það sé allt að því 5 milljarða ávinningur, mögulegur ávinningur á ári, og núvirtur, framreiknaður óendanlega með 3,5% vöxtum, er ávinningurinn 134 milljarðar. Þá spyr ég sveitarfélagahópinn þar sem hefur orðið 30% fækkun á síðastliðnum 25 árum: Getið þið og íbúar þessara svæða verið án möguleikans að sækja þessa hagræðingu til að bæta þjónustuna? Það eru hvatarnir. Svo er bara spurningin: Hvað ætlum við að ganga langt í regluverkinu þar í kring? Og nú er málið komið til þingsins.



[18:54]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla fyrir þessu gagnmerka frumvarpi. Mig langar aðeins að reifa eitt eða tvö atriði. Það kom fram hjá ráðherra að sameiningarmál eru jafnan hitamál. Þetta eru tilfinningamál. Það liggur við að andstaða við sameiningar sveitarfélaga gangi í erfðir eða gangi mann fram af manni og þvert á kynslóðir. Það er kannski eðlilegt. Íbúar í litlum samfélögum eru mjög tengdir sínu umhverfi og finnst kannski að breytingar og sameiningar séu ekki af hinu góða og andúð og varúð gagnvart nágrannanum er oft og tíðum inngróin.

Ég leyfi mér að spyrja ráðherra hvað það sé sem hvetji sérstaklega til þess að ríkið hafi atbeina að þessu máli núna og komi að því að ýta undir sameiningar. Ég geri mér svo sem grein fyrir þeim atriðum sem hann nefndi, en síðustu hundrað ár hefur sveitarfélögum verið að fækka gríðarlega. Þeim hefur fækkað um 64% frá því um 1910, þá voru þau fleiri en 200 en eru líklega 72. Hvað ýtir undir þetta núna? Síðan spyr ég: Hvaða rök voru tilgreind árið 2011 þegar lágmarksíbúafjöldi hvarf úr lögunum?



[18:57]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Það sem er hægt að bæta við þá upptalningu sem ég var með hér — um hagkvæmni, sjálfbærni, sterkara samfélag, lýðræðishalla, hinn augljósa ávinning af stærri stjórnsýslueiningum, að geta tekið við verkefnum og geta bætt við fólki o.fl. — er kannski tímalínan. Þetta hefur býsna lengi verið í umræðunni. Frá 2006 hefur ákaflega lítið gerst í sameiningu sveitarfélaga þar til Múlaþing varð til í sumar og í fyrra sameinuðust Sandgerði og Garður og Breiðdalsvík við Fjarðabyggð. En þess á milli hefur verið mjög lítil hreyfing í þessa átt og satt best að segja furðulega lítil umræða vegna þess að þetta er viðvarandi mál.

Síðan kemur þetta upp, væntanlega á síðasta landsþingi sveitarfélaga sem hefst í upphafi hvers kjörtímabils. Þá virðist allt í einu kominn miklu sterkari hljómgrunnur fyrir því að gera þetta á stærri skala. Við leggjum af stað með þingsályktuninni og það er meiri samhljómur en áður, bæði með sveitarstjórnarmönnum og með aðilum hér á Alþingi, í stjórnmálum og á landsvísu; það skapast stemning fyrir þessu. Þess vegna leggjum við af stað í þetta verkefni með alla 11 liði þingsályktunarinnar til að efla sveitarstjórnarstigið í því að stíga þetta skref. Það sem síðan hefur bæst við er auðvitað Covid og sveitarfélögin þurfa að vera býsna sterk til að takast á við það. Mörg hver af þeim minni eiga augljóslega erfitt með það, hafa einfaldlega ekki borð fyrir báru, hafa minni slagkraft. (Forseti hringir.) Ég get ekki rökstutt af hverju íbúafjöldamarkið var fellt út 2011. Ég býst við að litið hafi verið svo á að það væri tilgangslaust.



[18:59]
Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það eru tilfinningar í þessu máli, það eru sterkar skoðanir, þetta verða hitamál heima fyrir. Allt þetta ber okkur að vega og meta og sýna skilning. Mig langar að spyrja ráðherra um tvö atriði í frumvarpinu. Hér kemur fram að ráðherra sé veitt heimild til að veita sveitarfélagi tímabundna undanþágu til allt að fjögurra ára frá skilyrði um lágmarksíbúafjölda ef sérstakar aðstæður eru til staðar. Mig langar aðeins að spyrja út í þessar sérstöku aðstæður, hverjar þær eru samkvæmt mati.

Síðan langar mig að spyrja ráðherra aðeins um sjálfbærnina. Sveitarstjórnir, hefur maður upplifað, leggja ýmsa merkingu í hugtakið sjálfbærni. Sameinuðu þjóðirnar styðjast við hugtak sem er nú jafnan viðurkennt og notað í alþjóðlegu samhengi. Hver er skilgreiningin á sjálfbærni sveitarfélaga í þessu samhengi? Byggist það á umfangi stuðnings Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eða hvað?



[19:01]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Í raun held ég að við getum bara fullyrt að það sé hvergi niðurnjörvað eða klappað í stein hver þessi skilgreining á sjálfbærni sveitarfélaga er nákvæmlega. Það var það sem ég nefndi hér. Það er m.a. umdeilt að miða við þúsund íbúa. Margir segja: Það er allt of lítið. Af hverju þúsund? Hvernig funduð þið þessa tölu út? Og sagt er: Er ekki skynsamlegra að leita að leið til að reyna að skilgreina hvað er sjálfbært? Í mínum huga er sjálfbært sveitarfélag undir eigin vélarafli, ef svo má segja, eigin tekjum að stærstu leyti; getur staðið fyrir allri lágmarksgrunnþjónustu án þess að þurfa að leita til annarra sveitarfélaga. Hvar mörkin eiga að vera nákvæmlega þori ég hins vegar ekki að fullyrða.

Við getum hins vegar sagt öfganna á milli að sveitarfélag sem sinnir nánast ekki orðið neinni lögbundinni þjónustu, er augljóslega á stærra svæði með málefni fatlaðra, er undir yfirstjórn annars sveitarfélags vegna barnaverndarmála, er með grunnskólann sinn, og jafnvel leikskólann, sem er reyndar ekki lögbundin þjónusta svo merkilegt sem það hljómar, í öðru sveitarfélagi og öll íþróttamál og æskulýðsmál o.s.frv. Það er augljóslega ekki sjálfbært ef öll þessi mál væru hjá nágrannasveitarfélaginu og sveitarfélagið ræki ekkert sjálfstætt og fengi þar fyrir utan meginþorra tekna sinna frá jöfnunarsjóði. En hvar mörkin eiga nákvæmlega að vera liggur ekki fyrir. Á að miða við einn þriðja úr jöfnunarsjóði eða 40%? Eða 20%? Ég skal ekki fullyrða það nákvæmlega. En það er eitt af því sem við gætum reynt að nálgast í þessari vinnu ef við viljum finna málamiðlanir, ef við viljum gera það sem ég var að tala fyrir í minni ræðu, gera það sem við stjórnmálamenn eigum að gera, að hlusta og reyna að leita leiða til að fá breiðari sátt á bak við málin.



[19:05]
Björn Leví Gunnarsson (P):

[19:11]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir hans innlegg og að mæla fyrir þessu frumvarpi. Ég tók til máls þegar við fjölluðum um þingsályktunartillöguna sem frumvarpið byggir á og þá var mikið farið í gegnum söguna og hvernig þetta hefur verið. Eins og hér hefur verið nefnt er sameining sveitarfélaga afskaplega viðkvæmt mál. Ég hef verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar enn að ekki eigi að beita lögþvingun og var með fyrirvara hvað það varðaði, þó að ég hafi tekið undir markmið þingsályktunartillögunnar sem var samþykkt á síðasta ári. Svo erum við að vinna með þetta frumvarp áfram.

Ég vil byrja á því að segja að það er fyrst og fremst lágmarksíbúafjöldinn sem ég er ósátt við. Ég er ánægð með 2. gr., þar sem fjallað er um heimild til að nota fjarfundabúnað á fundum sveitarstjórna og nefnda. Við höfum farið hraðar inn í þá veröld eins og við flestöll vitum í gegnum Covid. Það er afskaplega nauðsynlegt að geta haft fjarfundabúnað í handraðanum þó að maður leggi það til að hann sé fyrst og fremst notaður þegar ekki er hægt að funda á staðnum. En ef yfir stór landfræðileg svæði er að fara, eins og er í nýju Múlaþingi, er væntanlega kærkomið að geta fundað með þessum hætti. Ég er hrifin af því sem þar gerðist, samtali íbúanna, hvernig þau útfæra þetta og prófa auðvitað, það eru tvö ár í þessu ferli. Þau vinna með sína útfærslu á því í jaðarbyggðunum með alvöru heimastjórnir sem hafa eitthvert vald, ráða einhverjum hlutum en eru ekki eins og heimastjórnir sem við höfum þekkt fram að þessu sem hafa ósköp lítið að segja. Það er víða, því miður, að jaðarbyggðirnar hafa ekki komið nógu vel út og það þarf ekki einu sinni jaðarbyggðir til þess. Mér hefur alltaf fundist miklu mikilvægara, af því að ég held að byggðastefna okkar sé sú að við viljum reyna að halda byggð í öllu landinu, að styrkja og styðja við þessi sveitarfélög, eins og talað er um í byggðastefnunni, óháð því hvort þau tilheyra stærra samfélagi eða minna. Það hefur alveg sýnt sig að þau eru ekkert endilega að pluma sig vel. Það eru auðvitað margir þættir sem þar koma til. Það er ekki endilega bara það að þau séu inni í stærri sveitarfélögum eða utan þeirra af því að svo erum við með lítil sveitarfélög sem vilja ekki sameinast af því að þau hafa góða tekjustofna og hafa engan hug á því að deila þeim. Þrátt fyrir það sækja þau ýmsa þjónustu inn á stærra svæði. Það er kannski það sem ráðherra var dálítið að tala um, að styrkja þjónustuna.

Þeim sem eru hlynntir lögþvinguðum sameiningum hefur orðið tíðrætt um það að hægt sé að ná fram miklu meiri og betri þjónustu. En ég tel að eftir því sem fjarlægðin er meiri á milli íbúanna og stjórnsýslunnar sé líka ákveðin hætta á því að fjármagnið fari ekki endilega þangað sem íbúar á minni stöðum eða jaðarstöðum vilja að það fari. Það eru sannarlega mörg sveitarfélög sem hafa sameinast þar sem sameiningin er til fyrirmyndar en það er ekki bara samhengi á milli stærðar og hagkvæmni eða þeirrar þjónustan sem er veitt.

Ráðherra fór hér yfir rökstuðninginn fyrir 1.000 manna íbúamarkinu. Það var enginn sérstakur rökstuðningur fyrir því í skýrslunni um stöðu sveitarstjórnarstigsins og eins og ráðherra kom inn á fannst sumum að það ætti að vera meira, þetta væri of lítið. Það er eitt af því sem mér finnst athugunarvert, pínulítil sveitarfélög gætu þurft að sameinast í tvígang á mjög skömmum tíma og ef þau gera það ekki þarf ráðherra að grípa inn í og taka á því. Ég tek undir með hv. þingmanni sem talaði á undan mér hvað það varðar, það er aldrei gott ef búið er að reyna einhverjar leiðir og þær ganga ekki að ætla að fara í einhvers konar lögþvingun. Það er ekki gott fyrir þessa litlu staði og ekki þeim til framdráttar.

Svo veltir maður því fyrir sér ef það eru um 5% af íbúum sem eru í þessari stöðu, hvaða stórkostlegu áhrif það hafi að þjappa þeim saman, jafnvel yfir stór landsvæði. Það er sannarlega talað um að horfa eigi til landfræðilegrar aðstöðu og skoða það og allt þetta. Þá erum við kannski jafnvel farin að búa til einhvern mun á milli sveitarfélaga ef sum fá landfræðilega stöðu og þurfa ekki að sameinast á meðan önnur þurfa að gera það. Ég tel ekki að við þurfum íbúalágmark til að tryggja góða þjónustu. Það er og verður áfram samið á milli sveitarfélaga um alls konar þjónustu, slökkvilið, félagsþjónustu, barnavernd og jafnvel talið gott að hún nái á milli sveitarfélaga vegna þess að margt af þessari nærþjónustu er ágætt að geta haft ekki of nærri fólki þegar um erfið mál að ræða.

Fyrst og fremst snýr þetta alltaf að því að það sé atvinnulíf og, eins og ráðherrann sagði, að hægt sé að veita grunnþjónustu. Hver á hún að vera? Við erum ekki enn þá komin alveg niður á þá niðurstöðu, hver lágmarksgrunnþjónustan er. Við tölum gjarnan um heilbrigðisþjónustu, menntun og eitthvað slíkt en við höfum samt ekki komið okkur endanlega saman um það. Ég veit að sú vinna hefur verið í gangi. En það þarf líka að huga að því hvaða ívilnunum er hægt að beita. Við höfum talað um ívilnanir þegar við höfum velt fyrir okkur mönnun í heilbrigðiskerfinu um hinar dreifðu byggðir. Þrátt fyrir að við höfum eflt það gríðarlega á þessu tímabili þá búum við samt við að læknar fást ekki til starfa í dreifðum byggðum. Þeir treysta sér ekki til þess að taka jafnvel einir ábyrgð, finnst það flókið og erfitt. Það er mjög margt undir sem hægt væri að gera og þarf ekki endilega að vera svona.

Eins og hv. þingmaður þekkir, af því hann nefndi sína heimahaga, þá heyrum við þegar við förum um kjördæmið fyrst og fremst talað um sameiningar varðandi frumvarpið og mér finnst það kannski standa í vegi fyrir því að margt annað ágætt nái fram að ganga. Margar sameiningar hafa tekist ágætlega og aðrar ekki. Stærri sveitarfélög kvarta gjarnan yfir því að þau séu að borga með ýmissi þjónustu en þá þarf auðvitað að horfa til þess hvort ekki sé verið að rukka nóg fyrir hana eða hvað sé þar á bak við. Reykjavík og sveitarfélög á stórhöfuðborgarsvæðinu eru líka með margs konar samstarf sín á milli þrátt fyrir að þau séu stór.

Ég skil að ákveðnu leyti hugmyndafræðina á bak við frumvarpið en ég er jafn sannfærð áfram um að jaðarsvæði verði áfram jaðarsvæði. Mér finnst það hafa orðið raunin víða þar sem stærri sameiningar hafa verið, því miður. Þegar menn eru í rauninni á ákveðinni endastöð og svo er búið að flytja stjórnsýsluna í burtu er hjartað dálítið farið þegar staðan er þannig. Það eru dæmi um þetta.

Vissulega á ekki að loka neinum dyrum og við getum horft til langrar framtíðar en ég held að þetta sé eitthvað sem við séum ekki tilbúin til að gera. Og af því að ég nefndi áðan Múlaþing þá vil ég líka nefna Skútustaðahrepp og Þingeyjarsveit, búið er að leggja gríðarlega vinnu í að búa til gott upplegg að sameiningu þeirra sveitarfélaga. Það hefur tafist fyrst og fremst út af Covid. Ég bind vonir við að það geti gengið eftir með góðum brag en þar eru íbúarnir líka sameinaðir á bak við verkefnið. Eins og ég segi, þetta er bara svo mikið hjartans mál og við þekkjum það í gegnum tíðina að við höfum verið að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga, þetta á að vera einn liður í því að sveitarfélög verði færari um að taka við þeim, að það hefur ekki alltaf verið gleði með þá tilflutninga. Sveitarfélögin telja sig betri til þess að sinna þjónustunni en kvarta alltaf yfir því að ríkið borgi ekki nægjanlega með verkefnunum og kalla eftir meira fjármagni. Mér finnst það ekki endilega vera ástæða til að sameina sveitarfélög. Ég held að þau geti sameinast um verkefni.

Hér segir að sveitarfélög eigi að verða sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi. Það er náttúrlega ekki lýðræðislegt um leið og farið er í einhvers konar lögþvingun. Í frumvarpinu er vitnað til nefndarálits umhverfis- og samgöngunefndar þegar fjallað var um þingsályktunartillöguna og ég get að mörgu leyti tekið undir hvað það varðar að gefa þarf svigrúm og annað slíkt. Ég mun alla vega ekki vera sátt við frumvarpið eins og það liggur fyrir í þessari útfærslu.

Þegar verið er að tala um að framselja vald til annarra stjórnsýslueininga, til sveitarfélaga eða byggðasamlaga, þá veit ég ekki hvort það minnkar mikið. Það hefur verið gert hér á þessu stóra svæði. Það sem við myndum kannski fyrst og fremst sjá í þessu öllu saman væri sparnaður í yfirstjórn, sannarlega, því sveitarstjórum myndi fækka og hugsanlega myndi fækka í byggðaráðunum og öðru slíku, en ef Austfjarðadæmið væri tekið hér til viðmiðunar þá verður kannski ekki mikill sparnaður. Hér segir að frumvarpið feli í sér tækifæri fyrir byggðarlög til að hefja samvinnu á lýðræðislegri grundvelli en áður um að standa vörð um sameiginlega hagsmuni, efla stjórnsýslu og auka þjónustustig — þetta er góð setning, en mér finnst hún ekki vera í samhengi við lögþvingunina.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma hingað aftur og halda til haga fyrirvara mínum um þetta mál. Ég hef starfað í sveitarstjórn þegar sameining var þannig að ég er búin að ganga í gegnum það. Það eru þó ekki nema tvö byggðarlög sem eru með ágætissamgöngur sín á milli þó að þær séu það ekki alltaf frá þeim. Það hefur að mörgu leyti tekist vel og öðru leyti ekki, eins og gengur og gerist. Það eru samt komin 14 ár, held ég að sé rétt hjá mér, það fimmtánda líklega að byrja, ég held að það hafi verið árið 2006. Auðvitað sameinuðumst við ekki raunverulega fyrr en 2010 þegar Héðinsfjarðargöng voru opnuð en lærðum árin fjögur á undan að vinna á fjarfundum.

Til að ljúka þessu vil ég segja að ég vona að nefndin, ég veit að hún fær töluvert af umsögnum um málið, vinni áfram með þetta verkefni miðað við þær umræður að við tökum líka sannarlega tillit til lýðræðislegra þátta. Það varðar dálítið mörg sveitarfélög. Þau eru a.m.k. 20 sem hér um ræðir, sem hafa lýst eindreginni andstöðu við þessi áform. Ráðherra kom inn á að á seinna þinginu hefði kannski verið meiri samhljómur með þeim. Ég hvet nefndina til þess að virða þau sjónarmið líka.



[19:25]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með að vera loksins kominn með þetta mál fram sem er auðvitað í kjölfar þingsályktunarinnar eins og hann fór svo ágætlega yfir. Ég ætla að leyfa mér að tala nær eingöngu um það er lýtur að sameiningu sveitarfélaga þó að hér séu fleiri greinar undir sem ég held að meiri sátt sé um og ég treysti nefndinni til að fara ágætlega yfir það. En eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á þá eru skoðanir mjög skiptar þegar kemur að því hvaða leið er best að fara. Ég ætla að segja til að byrja með að það er algjörlega nauðsynlegt að sveitarfélög á Íslandi sameinist og þá er ég að tala um í stórum mæli. Ég lít þannig á að bara sé um tvær leiðir að ræða í framtíðinni hjá okkur. Það er annars vegar að sveitarfélög fari í umtalsverðar sameiningar eða að við stofnum hér þriðja stjórnsýslustigið og mér finnst það síðri kostur.

Ég held að það sé mikilvægt í þessu samhengi að velta fyrir sér: Hvað er sveitarfélag? Hvað er það sem skilgreinir sveitarfélag og hvernig viljum við að sveitarfélög vinni? Hver er framtíð þessa stjórnsýslustigs? Ég verð að viðurkenna það, eftir að hafa fylgst með sveitarstjórnarmálum í töluvert langan tíma, að ég hef áhyggjur af þessu stjórnsýslustigi. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að mismunurinn milli sveitarfélaga er orðinn svo gígantískt mikill. Það er orðið algengt að tala um höfuðborgarsvæðið og stærri sveitarfélög í landinu annars vegar og svo hin. Áherslur og hagsmunir þessara sveitarfélaga eru allt of ólíkir. Við sjáum það, til að mynda í umfjöllun um mál hér á þinginu, að Samband íslenskra sveitarfélaga á auðvitað erfitt með að tala fyrir munn allra sveitarfélaga því að þau eru bara ólík og hagsmunirnir eru ólíkir.

Ég finn það svo sannarlega í mínu kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eru oft á annarri línu en sveitarfélögin annars staðar á landinu og það er ástæða fyrir því. Þess vegna held ég að við neyðumst til að finna leiðir til að sameina sveitarfélög. Þúsund manna sveitarfélag er ekki í íbúum talið stórt eða mikið en ég átta mig á að flækjustigið getur verið töluvert mikið.

Mig langar í þessu sambandi að minna á að á Grænlandi, sem er töluvert stærra en okkar land, eru nú fimm sveitarfélög. Þeir fóru í gegnum gígantískar sameiningar og sveitarfélögin voru orðin fjögur en urðu svo fimm. Sveitarfélögin eru mikilvæg eining. Það er svo mikilvægt að við séum með öfluga stjórnsýslu á sveitarstjórnarstiginu og nærþjónustan skiptir íbúana hvað mestu máli. Ég held að flestir þingmenn hafi reynslu af því, þegar þeir tala við kjósendur sína, að það eru oftar en ekki málefni sveitarfélaganna sem brenna á fólki. Fólk hefur skoðanir á nærþjónustunni, þ.e. leikskólanum, skólanum, gatnagerð, samgöngur og þetta sem að stórum hluta er á herðum sveitarfélaganna. Ég held að það sé mikilvægt að við gefum sveitarfélögunum tækifæri til að þróast og þroskast til framtíðar og byggja enn frekar utan um þessa mikilvægu nærþjónustu sem þau hafa á sínu valdi svona að mestu leyti.

Þá kannski færi ég mig aðeins yfir í umræðuna um hver verkefni sveitarfélaganna séu og hver verkefni ríkisins. Ég veit að mikil vinna hefur verið unnin og það er kannski stöðug vinna að eyða þessum gráu svæðum, eins og oft er kallað, þar sem ekki er alveg ljóst hver fer með hvað eða hver á að borga fyrir hvað. Það er auðvitað algerlega óþolandi fyrir íbúa og þiggjendur þjónustu að vera kastað á milli stjórnsýslustiga, vera kannski með börn sem glíma við erfiðleika í skóla og vera kastað á milli Sjúkratrygginga til að fá greiðslu frá ríkinu, talmeinaþjónustu í skóla eða utan skóla, sálfræðiþjónustu og allt þetta. Þetta er auðvitað óásættanlegt því á endanum er um að ræða skattgreiðendur sem kjósa fólk til að sinna þessum málum. Við, hvort sem við erum hér á þingi eða hæstv. ráðherrar og svo aftur þeir sem eru í sveitarstjórnum, þurfum einfaldlega að finna leiðir til að veita slíka þjónustu með sem hagkvæmustum og bestum hætti. Við verðum þess vegna að útiloka þessi gráu svæði og hafa það skýrt hvert er hlutverk sveitarfélaganna og hvert er hlutverk ríkisins og svo þurfa sveitarfélögin, og þá kem ég inn á tekjustofnana, að hafa burði til þess að veita þá þjónustu sem þeim er falið að veita. Þar af leiðandi er óumflýjanlegt, í samtalinu um sveitarfélög og mikilvægi þess að þau verði stærri og öflugri, að tekjustofnar þeirra séu líka öflugri, kannski að einhverju leyti líka stöðugri. Það hlýtur að vera óumdeilt að það verður að vera hluti af samtalinu um þetta mál hér og framtíð sveitarfélaganna.

Ég átta mig á því að töluverður kurr er um málið, hvernig eigi að nálgast þetta. Og ég skil alveg sjónarmið þeirra sem segja að það eigi bara aldrei að fara í lögþvingaða sameiningu. Ég get alveg skilið þau sjónarmið. Ég er aftur á móti á þeirri skoðun að framtíð sveitarfélaganna og þróun sé það stórt og mikið mál að við verðum að þora að taka umræðuna um það hvernig við náum fram því markmiði sem við augljóslega verðum að ná fram, og ég held að við höfum ekkert endalausan tíma til þess, þ.e. að sveitarfélögin verði stærri og öflugri. Það kynnu margir að halda því fram að hér sé bara einhver höfuðborgarmanneskja að velta þéttbýlinu fyrir sér og auðvitað er þetta miklu flóknara þegar kemur út á landsbyggðirnar og þegar lítil byggðarlög eiga að sameinast öðru byggðarlagi sem er í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð, ef því er að skipta, fjallvegir á milli og allt þetta. Það er ekkert einfalt í þessu og nærþjónusta, skólar, leikskólar og þess háttar þjónusta, þarf að vera nærri þeim stað sem íbúarnir búa á.

En það er margt annað sem líka snertir sveitarfélögin. Hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á stjórnsýsluna, hún er orðin flóknari og við gerum miklu meiri kröfur til hennar í dag. Þar af leiðandi er auðveldara og betra fyrir sveitarfélögin eftir því sem þau eru stærri að vera með faglegri stjórnsýslu, upplýsingakerfi, ég tala ekki um skipulagsmálin sem algert torf er orðið að komast í gegnum, og fleira mætti tína til. Við höfum svo dæmi um að sveitarfélögin geti komið sér saman um alls konar verkefni. Við þekkjum það auðvitað, það eru almenningssamgöngur, sorp, slökkvilið og ýmislegt fleira sem sveitarfélögin hafa oft komið sér saman um og er í langflestum tilfellum skynsamlegt. Það gengur ekki alltaf snurðulaust fyrir sig og er líka ákveðnum vandkvæðum bundið. Ég þekki það hér á höfuðborgarsvæðinu að Reykjavíkurborg hefur t.d. oft viljað fleiri fulltrúa inn í byggðasamlögin í krafti stærðar sinnar. Hún nýtur engu að síður aukinna réttinda verandi stærsti eigandi þessara byggðasamlaga. En þá erum við líka komin inn á þetta með umboðskeðjuna. Hver kaus viðkomandi til að vera stjórnarformaður Strætós eða Sorpu og fara með þau mál fyrir hönd kjósenda? Þar erum við komin að þessari nærþjónustu sem sveitarfélögin hafa á sinni hendi. Það er þessi nálægð, þessi tilfinning, það eru ákveðin forréttindi að geta átt samtal við einhvern í sveitarstjórn vegna þess að þú hittir hann úti í búð eða á göngu; það er auðveldara að koma sínum málum á framfæri.

Það er kannski fullmikið sagt að sveitarfélögin séu lýðræðislegri vettvangur en það er mjög gott lýðræði á þeim vettvangi í ljósi þess að það eru svo margir sem koma að ákvarðanatöku. Sveitarfélögin eru öll með nefndir þar sem fólk kemur utan úr bæ til að taka þátt í starfi sem snýr bara að verkefni viðkomandi nefndar. Þetta verður alltaf flóknara þegar sveitarfélögin eru farin að vinna saman í byggðasamlagi og þá rofnar umboðskeðjan og þetta verður flóknara. Mér finnst það líka vera rök fyrir því að það er mikilvægara að sveitarfélagið sé þá bara stærra og burðugra og að fólk hafi tækifæri til að kjósa sína fulltrúa til að fara með sín mál. Svo getur það þekkst eins og í Reykjavík að vera með hverfaráð og það þekkist líka í mörgum af þeim sveitarfélögum sem hafa verið að sameinast að vilja hafa slík ráð í hverjum byggðarkjarna. Sveitarfélögin hafa þróað fína leið til að virða einmitt lýðræðið í því þannig að hlustað sé á raddir íbúa á hverjum stað fyrir sig.

Að þessu sögðu þá held ég að engum ætti að dyljast afstaða mín til frumvarpsins og þrátt fyrir að ég skilji hin sjónarmiðin þá tók ég eftir því að hæstv. ráðherra sagði: Við megum ekki gefast upp fyrir verkefninu. Ég ætla að taka undir það. Ég held að það sé ofboðslega mikilvægt að við finnum leiðir til þess að sveitarfélögin verði stærri og öflugri, hvort sem það er nákvæmlega sú útfærsla sem mælt er fyrir í frumvarpinu eða önnur útfærsla frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem myndi mögulega njóta meiri sáttar. Það væri óskandi að við næðum breiðri sátt um það hvaða leiðir verði farnar. Hæstv. ráðherra notaði það orðalag, ef ég man rétt, að svelta sveitarfélögin til sameiningar í gegnum jöfnunarsjóð. Þá er hann væntanlega að vísa í það sem oft er nefnt, að beita megi jöfnunarsjóði sem ákveðnu verkfæri til að hvetja til sameiningar. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki horft þannig á að það sé leið að svelta sveitarfélögin en ég held að jöfnunarsjóður hljóti að spila risastórt hlutverk þegar kemur að því að stækka og efla sveitarfélögin, þ.e. það er alla vega ótækt að reglur jöfnunarsjóðs séu með þeim hætti að þær vinni gegn hvata til sameiningar og hvetji sveitarfélög raunverulega frekar til þess að vera í óbreyttu ástandi. Það er auðvitað eitthvað óeðlilegt, það kunna að vera dæmi þess að það verði svoleiðis um ókomna tíð, að sveitarfélög fái stóran hluta af framfærslu sinni í gegnum jöfnunarsjóð. Mér þykir það óeðlilegt. Ég vil halda byggð í landinu og það kunna að vera einhver svæði sem eru þannig að erfitt er að afla skatttekna og þá koma tekjur frá jöfnunarsjóðnum og hann er auðvitað hugsaður þannig, þetta er til að auka jöfnuð á milli sveitarfélaga, en hvatinn má ekki vera sá að ekki sé stöðugt verið að horfa í það hvernig við getum hagrætt og hvernig við getum mögulega styrkt og eflt viðkomandi sveitarfélag.

Ég óska hv. umhverfis- og samgöngunefnd góðs gengis í þessu verkefni sem ég veit að er umdeilt og uppi eru mjög ólík sjónarmið. Ég ítreka að ég held að það sé ofboðslega mikilvægt að við komumst að einhverri niðurstöðu um það hvernig við viljum sjá þetta til framtíðar. Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Það er annaðhvort að fara þá leið að sjá til þess að sveitarfélög sameinist hratt og örugglega og verði stór og burðug eða að velta upp þeirri leið að stofna þriðja stjórnsýslustigið. Mér finnst óþarfi að horfa til þeirrar leiðar en það er í mínum huga eini valkosturinn á móti því að horfa ekki til breytinga á stærð sveitarfélaga eins og þau eru í dag.



[19:39]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Hér hefur verið lagt fram frumvarp af hæstv. sveitarstjórnarráðherra í framhaldi af þingsályktun um sama efni, um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023, sem ráðherra mælti fyrir á síðasta þingi. Þetta var þingsályktun nr. 21/150. Hún var hugsuð sem fyrsta skref til að framfylgja markmiðum um að styrkja sveitarstjórnarstigið. Það hefur verið stefna okkar jafnaðarmanna í áranna rás að styrkja sveitarstjórnarstigið og efla sjálfsstjórn sveitarfélaga.

Þetta frumvarp, herra forseti, er mikilvægt og er ekki óumdeilt. Það fjallar um viðkvæm efni, fjallar um nærsamfélög okkar og þau sem eru lítil og viðkvæm, fámenn og eiga á brattann að sækja. Þetta frumvarp talar til samtímans en fyrst og fremst þó til framtíðarinnar, styður þau markmið að sveitarstjórnarstigið skuli vera öflugt. Nærþjónustu af ýmsu tagi, samfélagsþjónustu, sé best fyrir komið í heimabyggð, í nærsamfélaginu, og hún sé skipulögð og þróuð í samræmi við þarfir í viðkomandi samfélagi.

Þeir samfélagslegu þættir sem við höfum væntingar um að okkur bjóðist eru sífellt að vaxa að umfangi. Þróunin í kröfum íbúanna er um gott atlæti til jafns við það sem best gerist á landsvísu. Alls staðar er þetta uppi, bæði hvað varðar tæknileg atriði og félagslega þjónustu, svo dæmi sé tekið. Það er auðvitað smáum sveitarfélögum oft erfitt að annast um það og hreinlega stundum um megn nema til komi verulegur stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

En við þekkjum það líka, herra forseti, að ýmis smærri sveitarfélög um landið eiga í samstarfi um einstaka málaflokka, stofna með sér samlög sem eru útfærð víða með ágætum en víða eru núningsfletir og sú yfirsýn og heildræna nálgun sem sóst er eftir næst kannski ekki fyllilega ef ekki er unnið í einni og sömu stjórnsýslueiningunni.

Eitt helsta álitamálið í frumvarpinu er að öllum líkindum, og má telja víst, ákvæði 1. gr. um að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga skuli vera 1.000 frá árinu 2026 að telja. Ef við horfum til sögunnar þá hefur umfang sveitarfélaga á Íslandi verið með ýmsu móti og tekið miklum breytingum. Eins og ég nefndi áðan, í andsvari mínu við ráðherra, voru 203 sveitarfélög í landinu árið 1910 en urðu enn fleiri á árunum 1948–1952. Þá urðu þau 229. Sá fjöldi hélst nokkurn veginn stöðugur næstu áratugi eða til ársins 1986 þegar þau voru 222. Síðan urðu gjörbreytingar á næstu tveimur áratugum og þar á eftir með mikilli samrunahrinu sem endaði á því að árið 2006 var fjöldi sveitarfélaga kominn niður í 79. Það sem réð þessu var auðvitað að þjónustuverkefni sem áður voru á hendi ríkisins voru flutt yfir til sveitarfélaganna sem knúði þau til þess að breyta til og sameinast til að ná með farsælum hætti yfir verkefnin. Sveitarfélögin þurftu að vera öflugri, þau þurftu að vera burðugri og stærri sem þjónustu- og stjórnsýslueiningar. Eftir þessa hrinu tók við frekar hæg samrunaþróun en nú eru sem sagt sveitarfélög um 72 talsins og þar við situr.

Það má auðvitað segja og við getum sameinast um það að æskilegt væri að allt þetta gæti fengið að þróast með sínu lagi og með frjálsum hætti eins og það hefur mestan part gert. En hér er stigið skref til að marka leiðina og með einum eða öðrum hætti verðum við að gera það. Hér er mörkuð sú stefna að íbúafjöldi í sveitarfélagi skuli vera að lágmarki 1.000. Það er íbúatala sem er kannski ekki raunhæf en hér er farið af stað.

Sveitarfélögum hefur fækkað á undanförnum árum eins og ljóst er af máli mínu. Þeim hefur fækkað um 125 á síðustu 27 árum með frjálsum sameiningum og það er veruleg fækkun, en í dag eru þó ríflega 54% sveitarfélaganna eða 39 með færri íbúa en 1.000 og sjö fámennustu sveitarfélögin eru með íbúafjölda á bilinu 47–93 talsins. Í nútímasamfélagi þar sem við gerum margvíslegar væntingar og kröfur til opinberrar þjónustu eiga sveitarfélög af þessari stærðargráðu erfitt með að veita ýmislega lögboðna þjónustu, svo ekki sé nú talað um fjölbreytta félagslega þjónustu. Hvernig snúa þessi sveitarfélög sér út úr svona verkefnum? Þau semja væntanlega við nágrannasveitarfélögin. Aðstæður hafa líka verið þannig að þessi litlu sveitarfélög verða dálítið einsleit. Það er eitt af markmiðunum með þessari vinnu að stuðla að því að fjölbreytileikinn, lýðfræðilegur fjölbreytileiki, vaxi og verði þannig að eðlilegt megi teljast í samanburði við sveitarfélög almennt í landinu.

Rökin fyrir því að stækka sveitarfélögin eru því augljós. Þau eru hin sömu og þau hafa svo sem verið áður, að gera sveitarfélögin að öflugri stjórnsýslueiningum fyrir íbúana. Það er auðvitað fagnaðarefni að efla sveitarstjórnarstigið. Við höfum oft fjallað um að margvísleg verkefni eigi fremur heima í nærsamfélaginu, eins og nefnt hefur verið. Heilbrigðisþjónustan hefur oft verið tilgreind, öldrunarþjónustan sömuleiðis. Sveitarfélögin hafa hins vegar tekið fremur þunglega í þetta. Sporin hafa hrætt þau. Kostnaðargreining á þessum þáttum hefur þótt ófullkomin og sveitarfélög og sveitarstjórnir hafa ekki treyst því að greitt sé fyrir þjónustuna með þeim hætti sem nauðsynlegt er. Enginn efast um það og reynslan sýnir það, t.d. í tilraunaverkefnum á Hornafirði og Akureyri, að þjónustan verður betri, almenn ánægja með þjónustuna verður meiri og skipulag hennar samfelldara og almennt hagkvæmara, en hún verður engu að síður ívið kostnaðarsamari, að því er talið er, vegna þess m.a. að veitt er betri og meiri þjónusta.

Af nógu er að taka þegar talað er um þá þætti sem íbúar leggja áherslu á undir eðlilegum kringumstæðum í nærsamfélagi sínu. Hæstv. ráðherra fór yfir ýmis atriði sem lúta að þeim markmiðum sem sett eru með frumvarpinu. Það er, eins og ég nefndi, að gera sveitarfélögum kleift að standa á eigin fótum og þurfa ekki að reiða sig á samlagsform, eins og vikið hefur verið að, heldur að þau geti orðið sjálfbær að þessu leyti. Það er að auka fjölbreytileikann varðandi íbúaþróun og aldurssamsetningu. Það er mikilvægt. Menn hafa líka horft til þess að stærri einingar ættu að geta verið hagkvæmari í rekstri með sameiningu t.d. sveitarstjórna. Það eru auðvitað ekki neinar stórar tölur en þær telja þó. Það eru mörg atriði að þessu leyti sem ástæða er til að hafa í huga. Það verður sérstaklega áhugavert að fylgjast með þróuninni fyrir austan í Múlaþingi, sem er nýtt sveitarfélag. Þar ætla menn að fara þá leið að vera með dreifstýringu í mjög umfangsmiklu sveitarfélagi. Þetta er það sem hægt er að gera. Við höfum líka reynslu af Vestfjörðum þegar sveitarfélögin voru sameinuð þar með tilkomu Ísafjarðarbæjar. Þar er reynslan allgóð og alls ekki víst að þau litlu sveitarfélög sem þar voru fyrir myndu geta spjarað sig á eigin forsendum. Eins og ráðherra kom inn á er það núna, þegar Covid hefur dunið yfir, einn hvatinn enn til að snúa bökum saman og sameina eða a.m.k. að hugleiða það alvarlega.

Það eru skiptar skoðanir um efni þessa frumvarps. Ég skynja það mjög víða úti á landi. Þetta eru tilfinningaleg atriði og sum sveitarfélög haga rekstri sínum með þeim hætti raunar, þau minni, að það næst allvel utan um hefðbundinn grunnrekstur. Það gerist þá sérstaklega vegna þess að þátttaka Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er umtalsverð. Það er spurning hvort það sé sjálfbærni í raun og hvort þau sveitarfélög séu ekki orðin mjög viðkvæmar rekstrareiningar ef breytingar verða á framlögum jöfnunarsjóðs, eins og hefur dunið yfir á síðustu misserum. Við heyrum líka á tali sveitarstjórnarfulltrúa að 1.000 íbúa sveitarfélag sé ekki miklu betur sett en 500 íbúa sveitarfélag og ef það eigi að sameina á annað borð þá þurfi að gera það með miklu öflugri hætti og hugsa stærra. Það eigum við mögulega að gera en við höfum kannski ekki verið andlega tilbúin að veita því möguleika til að þróast. Þó er rétt að taka tillit til þeirrar staðreyndar sem við sjáum fyrir austan. En allt byggist þetta líka á landfræðilegum þáttum og menn þurfa að geta tryggt að samgöngur séu góðar.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp gengur nú til umhverfis- og samgöngunefndar og það verður fróðlegt að fá að taka þátt í umræðu og skoðanaskiptum um það. Einn þátturinn sem hefði átt að hvetja til með öflugri hætti en við höfum orðið vör við eru auðvitað bættar samgöngur, jarðgangagerð og annað slíkt. Við höfum dæmi úr Fjallabyggð þar sem samgöngubót með jarðgöngum, Héðinsfjarðargöngum, var forsendan en við höfum önnur dæmi þar sem menn tregðast enn við. En ég læt hér máli mínu lokið og er spenntur að fjalla um þetta mál frekar í umhverfis- og samgöngunefnd.



[19:54]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um eflingu sveitarstjórnarstigsins og það er mikilvægt. Við verðum að hafa þá stjórnsýslueiningu sem öflugasta. Það sem er kannski mest rætt um hér og er umdeildast er sú lögþvingaða sameining sem getur komið til verði sveitarfélögin ekki fyrri til, þ.e. lögfesting á lágmarksíbúafjölda við 1.000. Ég tek heils hugar undir mikilvægi öflugs sveitarstjórnarstigs og að við beitum öllu því sem við getum til að aðstoða við að gera sveitarstjórnarstigið sem öflugast. Það er flest sem bendir til þess að sameining sveitarfélaganna sé til góðs fyrir íbúana, fyrir lýðræðið, fyrir rekstrarhagkvæmnina og til að sveitarfélögin geti tekist á við þau verkefni og staðið undir þeim kröfum og skyldum sem þau hafa tekist á hendur, en ég viðurkenni að ég á bara mjög erfitt með að þvinga þau til sameiningar. Ég hef almennt í minni pólitík aldrei verið hlynntur þvingunum, boðum og bönnum, heldur miklu frekar horft til hvata, að skapa hvata. Það er vissulega verið að gera það hér að einhverju leyti. Kannski held ég að við þurfum að ræða það í hv. umhverfis- og samgöngunefnd við hagaðila, sveitarfélögin og samtök þeirra og íbúana, hvort hægt sé að gera eitthvað enn frekar varðandi hvatana, finna aðrar málamiðlunarleiðir til að ná þessu.

Við fjölluðum um þingsályktunartillöguna þar sem þetta markmið kom fram fyrst þannig að við höfum aðeins rætt þetta áður. Þá kom svolítið skýrt fram að þessi tala, 1.000, hefði ekki nein efnisleg rök á bak við sig heldur væri svolítið settur puttinn upp í loftið til þess að taka áttina. Þetta væri líklegasta talan og ég fékk það alla vega á tilfinninguna að þetta væri sú tala sem sveitarfélögin myndu ná saman um á sínum vettvangi að leggja til, sem varð svo raunin. Aukaþingið samþykkti þessa tölu og að farið yrði í þessar aðgerðir, en svo hefur dregið úr þeirri samstöðu.

Hvað er sjálfbært sveitarfélag? Hvað þarf sveitarfélag að vera stórt til að það sé hagkvæmt og annað slíkt? Það er ekki að finna nein rök eða úttekt á því og þótt gerðar hafi verið tilraunir til að reyna að finna það út þá er ekkert á bak við það. Það veldur mér áhyggjum að við séum ekki með rökstuðning fyrir því að þetta sé rétt, ef við ætlum að fara í að lögþvinga sveitarfélög til sameiningar, að við séum ekki með betri rök á bak við þann íbúafjölda sem við ætlum að leggja til.

Svo er það bara í flestu þannig að það er mjög erfitt að neyða einhvern til einhvers. Það er aldrei gott upphaf að samstarfi að neyða fólk til samstarfs. Ef það hefur ekki viljann og frumkvæði til þess þá mun það örugglega lita það sem á eftir kemur. Við verðum að átta okkur á því að ef við ætlum að ná fram öflugri og hagkvæmari rekstri, betri þjónustu við íbúana, þá snýst þetta um það hvernig stjórnsýslan er sameinuð, hvernig hún verður rekin, hvernig ný stjórnsýslueining og sameinað sveitarfélag er rekið eftir sameiningu og ef það byrjar allt í stirðleika og deilum þá verður framtíð þess sveitarfélags örugglega ekki gæfuleg.

Ég vil þá nefna heitustu kartöfluna strax. Það eru skólarnir. Þar sem sveitarfélög hafa sameinast að eigin frumkvæði eru skólamálin alltaf heitasta málið eða mesta þrætueplið. Þar koma miklar tilfinningar inn, mjög miklar tilfinningar, en þarna er mesta fjármagnið og mestu hagsmunirnir í að gera vel fyrir börnin. Það virðist oft vera raunin að börnin eru kannski sáttust við sameiningu og eflingu skólanna, aukið og fjölbreyttara félagslíf og allt það, þannig að þar sést svolítið ávinningurinn af því að sameina og gera sveitarfélögin að stærri einingum með meiri fjölbreytileika og öflugri þjónustu. En íbúarnir og foreldrarnir sem búa vítt og dreift um sveitarfélagið eru ekki alltaf alveg tilbúnir að samþykkja að þetta sé það skynsamlegasta því þau sjá svolítið eftir hryggjarstykkinu í sínu samfélagi, sem er skólinn. Það er stærsti vinnustaðurinn, hann fær mestu fjármunina og mesta lífið er í kringum hann. Þau vilja alls ekki sjá á eftir því.

Þetta er dæmi um mikið deilumál og ég held að það gæti orðið enn erfiðara ef aðilar eru þvingaðir til sameiningar. Við þurfum að gera hvað við getum til að reyna að auka hvatana, fara einhverjar aðrar leiðir. Mér hefur þá dottið í hug hvort það væri kannski ágætismillileið í þessu máli að áður en einhverju sveitarfélagi verður gert að sameinast öðru vegna fámennis væri réttast að kveða frekar á um að þau þyrftu að fara í sameiningarviðræður, könnunarviðræður, þannig að þau kynni sér hvernig sveitarfélag er hægt að gera, hvernig sameinað sveitarfélag myndi líta út, hvernig hagsmunum íbúanna og sveitarfélagsins, sem er mest annt um þetta, reiðir af. Að slíkum viðræðum loknum gætu þau tekið ákvörðun. Við myndum þannig frekar gera þeim að fara í svona könnunar- eða sameiningarviðræður sem myndi enda með kosningu íbúanna þannig að þeir yrðu upplýstir um það hvernig þetta nýja sveitarfélag yrði, hvernig aðstæður þeirra verða.

Ég hef gert það að gamni mínu og til upplýsingar að sækja upplýsingafundi hjá sveitarfélögum sem annaðhvort hafa sameinast nú þegar eða eru að ræða sameiningar þessa dagana. Þar hef ég heyrt af fólki sem er á móti sameiningum en er mjög hlynnt þessum viðræðum, að það sé verið að ræða hlutina, bera saman og fræða fólkið, reikna þetta og taka út. Ég er ekki frá því að þetta gæti frekar leitt til sameininga ásamt þeim hvötum sem eru til staðar og dregið þá úr þörfinni fyrir að skylda þau til sameiningar.

Ég vil líka koma inn á það að fjöldinn segir ekki allt. Aðstæður eru svo misjafnar. Það getur verið fámennt sveitarfélag t.d. í stóru landbúnaðarhéraði þar sem er mikið hálendi og annað slíkt. Þar eru öðruvísi áskoranir, öðruvísi prinsipp og sjónarmið íbúa sem þar búa en hjá þeim sem búa kannski fjarri hálendinu og minna er um landbúnaðarstörf. Það er svolítið hætt við því, þegar tvö ólík samfélög eru sameinuð, að vissir hagsmunir og gildi íbúanna á fámennari stöðum innan sveitarfélagsins verði undir í krafti fjöldans. Og þetta er náttúrlega bara ein ástæðan fyrir því af hverju við erum ekki búin að jafna atkvæði til alþingiskosninga og við erum með skiptingu í misstór kjördæmi og slíkt. Það er til að tryggja mismunandi hagsmuni og þetta á alveg eins við hjá sveitarfélögunum.

Svo er líka annað: Ef sveitarfélögin verða of fjölmenn og of víðfeðm er hætt við því að kjörnir fulltrúar nái ekki að halda sömu samskiptum við íbúana. En helstu rökin fyrir því að við erum að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaga eru að færa nærþjónustuna í nærumhverfið, þannig að nærþjónustunni sé svolítið stýrt af þeim sem eru í sama umhverfi og íbúarnir, til að veita betri þjónustu. En við megum þá ekki að gera sveitarfélögin of stór eða gera aðstæður þannig að þau verði of víðfeðm til að við náum því fram sem við höfum verið að stefna að hingað til í nærþjónustunni.

Ég finn það alveg hér á Alþingi og þegar maður hittir fólk í kjördæmunum að eftir að kjördæmin voru stækkuð þá finnur fólk fyrir því að fjarlægðin frá Alþingi hefur aukist. Það er ekki eina ástæðan en ég held að það sé ein af mörgum ástæðum fyrir því að traust til Alþingis hefur dvínað, alþingismenn eru ekki í jafn miklu návígi við kjósendur og þeir voru áður í minni kjördæmum. Það verður líka að passa upp á þetta við sameiningu sveitarfélaga.

Sum sveitarfélög eiga augljóslega að sameinast og svo getur þetta verið breytilegt annars staðar. En sveitarfélögin eru alltaf að fá fleiri skyldur og þau vilja eflast og vilja náttúrlega fara eftir stjórnarskrárvörðum rétti sínum til að ráða málefnum sínum sjálf. Þá set ég líka svolítið spurningarmerki við það að þau séu að leita til okkar og biðja okkur um að þvinga sig til sameiningar af því að þau taka ekki á þessu sjálf. Þau verða einhverja ábyrgð að bera. Stóru sveitarfélögin, sem knýja kannski hvað mest á um sameiningar, verða einhvern veginn að finna leiðir til að nálgast minni sveitarfélögin þannig að þau vilji koma til samningaviðræðna. Þau eiga ekki heldur að gera sína þjónustu óhagkvæmari með því að láta minni sveitarfélögin fá hana á undirverði. Kannski segja sumir að þá væru stóru sveitarfélögin ekki að standa undir sinni ábyrgð og væru að þvinga þau til sameiningar við sig. En þau verða alla vega að ræða í sínum ranni hvernig þau geta borið ábyrgð og farið með sín málefni sjálf og náð þessu fram.

Svo vil ég líka segja að aðstæður í sveitarfélögum geta verið þannig að það sé bara ekkert hagkvæmara að sameina þau. Það kom alveg skýrt fram þegar við vorum að ræða, í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, þingsályktunartillöguna sem er forveri þessa frumvarps. Hagkvæmni sveitarfélaga væri ekkert alltaf markmið, kannski væri sameining bara til þess að gera þau stjórnsýslulega sterkari, en ekkert endilega hagkvæmari í rekstri. Viss stærð af sveitarfélögum getur búið til óhagræði. Ef við erum að fjölga millistjórnendum eða við náum ekki þeirri stærð að stjórnendur og starfsfólk nýtist að fullu heldur bara að hluta, ef það þarf að fjölga milliliðum þannig að báknið verður stærra, þá þyngist bara róðurinn í rekstrinum og þjónustan verður meira bákn. Og ég nefni aftur það sem ég talaði um áðan, að fjarlægjast íbúana sem er verið að þjónusta.

Ég hef farið yfir það sem ég hef áhyggjur af og það sem við þurfum að passa í þessu. En ég ítreka að ég geri mér grein fyrir því að mörg sveitarfélög eru of smá. Þau eru ekki nógu sterk stjórnsýslulega til að takast á við þau mikilvægu verkefni sem sveitarfélögin eru með, sem eru skipulagsmálin. Skipulagsmál eru gríðarlega mikilvæg og verða mikilvægari með hverju árinu. Það er mikilvægt að þau séu nógu stór til að geta haft skipulagsfulltrúa, byggingarfulltrúa og annað, til að hafa þessa hluti á hreinu. Það eru líka skólamálin, að þau geti staðið að skólaskrifstofu, haft skólafulltrúa, gert almennilega skólastefnu og tekist á við þau mál af því að skólarnir eru stór hluti af rekstrinum. Þá ítreka ég það að hjá þeim sveitarfélögum sem hafa sameinast eða eru í skólasamlagi hefur ekki gengið vel að hagræða og gera breytingar, eins og nemendurnir og börnin vilja oft, af því að íbúarnir hafa ekki viljað sjá á eftir skólanum úr sínum byggðarkjarna. Svo er það náttúrlega innviðauppbyggingin. Það getur oft verið gríðarlega mikilvægt fyrir sveitarfélögin að hafa meira bolmagn til að geta staðið undir grunninnviðum eins og veituframkvæmdum, gatnagerð og öðru slíku.

Það er því að mörgu að hyggja í þessu. Ég hlakka bara til að takast á við þetta verkefni og ræða það í umhverfis- og samgöngunefnd og vonandi finnum við einhverjar leiðir til þess að auka hvatana og halda áfram þeirri jákvæðu þróun sem þó hefur verið. Sveitarfélögin eru alltaf að sameinast, þeim fækkar jafnt og þétt þannig að þetta er að gerast án lögþvingunar.



[20:09]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Nú er komið fram á Alþingi frumvarp hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem mælt er fyrir um lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum. Kemur frumvarpið í kjölfar samþykktrar þingsályktunar, nr. 21/150, frá því á síðasta þingi, um stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga 2019–2033 og aðgerðaáætlun næstu fimm árin.

Mín afstaða í þessu máli er skýr. Ég er á móti þessu, svo það sé bara sagt strax í byrjun. Ég er á móti þessu frumvarpi. Markmið þessarar áætlunar er að efla sveitarstjórnarstigið, auka sjálfbærni sveitarfélaga og bæta þjónustu þeirra við íbúana. Þannig er einfaldlega sett regla um að sveitarfélög megi ekki hafa færri íbúa en 1.000. Efnislega er kveðið á um það í frumvarpinu að ef íbúafjöldi sveitarfélags er undir 1.000 í þrjú ár samfellt skuli ráðherra eiga frumkvæði að því að sameina það öðru eða öðrum nærliggjandi sveitarfélögum. Þó getur ráðherra veitt tímabundna undanþágu frá lágmarksíbúafjölda í allt að fjögur ár og í eitt skipti ef sérstakar ástæður mæla gegn því að sveitarfélag geti myndað stjórnsýslulega heild með nærliggjandi sveitarfélögum. Þetta orðalag kemur svolítið spánskt fyrir sjónir, sem ég tek úr frumvarpinu, að hægt sé að veita frest í eitt skipti eða í fjögur ár ef einhverjar sérstakar ástæður mæla gegn því að sveitarfélagið geti myndað stjórnsýslulega heild. Það á sem sagt að mynda stjórnsýslulega heild en bara fjórum árum síðar. Það gengur ekki upp í mínum huga að hægt sé að gefa frest vegna þessa en svo eigi samt sem áður að gera það þó að þær ástæður séu fyrir hendi að sveitarfélagið geti ekki myndað þessa heild. Það á samt að gera það, herra forseti

Síðan er undantekning gerð við þessa almennu reglu í frumvarpinu, sem ég var að nefna. Sveitarfélög með íbúafjölda undir 250 hafa frest að næstu sveitarstjórnarkosningum eða til ársins 2022 og hin sem eru undir 1.000 íbúamarkinu hafa þann sama frest til sveitarstjórnarkosninga 2026. Þetta var búið að kynna fyrir okkur í fyrra þegar þingsályktunartillagan var hér til meðferðar, að gefa ætti aðlögunartíma, og hér kemur fram að 1.000 íbúa reglan gildi ekki um minnstu sveitarfélögin fyrr en 2022 og fyrir þau sem eru stærri, allt að 1.000, er fresturinn til 2026. Þegar svo háttar til að sveitarfélög sinna ekki skyldu til sameiningar kemur til kasta ráðherra að sameina sveitarfélagið innan tveggja ára frá tilgreindum kosningum. Í raun og veru erum við að tala um að sveitarfélög sem þrjóskast við geta dregið þetta fram yfir næstu sveitarstjórnarkosningar og í allt að tvö ár þangað til ráðherra er neyddur til að aðhafast. Þannig að þetta er uppfullt af einhverjum frestum og þeir byrja ekki að líða fyrr en á næsta ári og þá verður líf þessarar ríkisstjórnar sem leggur frumvarpið fram, sem hefur mætt mikilli andstöðu, löngu liðið.

Ráðherra gerir sameiningartillögu eftir tillögu sameiningarnefndar sem hann setur á laggirnar og umsögnum frá sveitarfélögunum en þá skal ráðherra ákveða hvaða sveitarfélög skuli sameina. Þegar ráðherra tekur slíka ákvörðun skal hann fyrst og fremst líta til vilja íbúa sveitarfélaganna og þess að nýtt sveitarfélag myndi landfræðilega og félagslega heild. Ef sameiningarnefndin gerir fleiri en eina tillögu getur ráðherra ákveðið að láta fara fram almenna og ráðgefandi kosningu meðal íbúa um tillögurnar.

Það sem vekur athygli mína þegar þetta er kannað, hvernig framgangur þessara mála á að vera samkvæmt frumvarpinu, er að sameiningarnefndin sem er skipuð í upphafi, um leið og ljóst er að sveitarfélög þarf að sameina og ráðherra þarf að framkvæma það og skipa þessa nefnd, og starfar á fyrstu stigum í sameiningarferlinu skal afla upplýsinga um vilja íbúanna. En hvernig á hún að gera það? Hún gerir það með skoðanakönnunum, íbúafundum eða með opnu umsagnarferli, en á þessu fyrsta stigi er ekki gert ráð fyrir íbúakosningu um sameiningarkosti. Íbúarnir, herra forseti, koma ekki að þessu fyrr en á lokastigi þegar ráðherra sjálfur er að taka ákvörðunina. Fyrr eru íbúarnir ekki spurðir nema samkvæmt skoðanakönnunum, íbúafundum eða opnu umsagnarferli. Mér sýnist á frumvarpinu að gert sé ráð fyrir því að íbúarnir komi ekki beint að þessari ákvörðun, ekki nema ráðherra sýnist svo á lokastigi ákvörðunar. Þetta finnst mér vera ókostur við þetta ferli ef ég tala bara um það en ekki beint um afstöðu mína.

Vissulega, herra forseti, er það svolítið merkilegt að frumvarpið, sem við ræðum hér, skuli vera komið fram þegar rifjuð er upp atkvæðagreiðsla um málefni sameininga á síðasta landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga um miðjan desember sl. Á þinginu kom fram tillaga sem lögð var fram af 31 þingfulltrúa og var reyndar efnislega samhljóða tillögu sem ekki fékkst afgreidd á landsþingi sambandsins árið áður, í september 2019. Tillagan hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga haldið 18. desember 2020, hvetur til eflingar sveitarstjórnarstigsins með sameiningum og stækkun sveitarfélaga. Þingið ítrekar stuðning við flest meginatriði stefnumótandi áætlunar um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem Alþingi hefur samþykkt.

Landsþing minnir á mikilvæga liði í aðgerðaáætlun sem ekki er farið að vinna að, svo sem um styrkingu tekjustofna sveitarfélaga, tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni og fleiri mikilvæg atriði tillögunnar. Landsþing hafnar þó lögfestingu íbúalágmarks. Sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga og lýðræðislegan rétt íbúa sveitarfélaga ber að virða, óháð stærð þeirra“

Svo segir í greinargerð með tillögunni:

„Minni sveitarfélög eru og hafa lengi verið fullgild aðildarfélög í sambandinu. Flest eru það enn og vilja vera svo áfram. Þau geta þó ekki unað við það til lengdar að á þeim sé brotið og þeirra íbúum. Kjörnir fulltrúar stærri sveitarfélaga hafa ekki lýðræðislegt umboð til að álykta um örlög minni sveitarfélaga, slíkt á ekki heima í þessum ágæta félagsskap. Fulltrúar stærri sveitarfélaga mættu hugsa til gullnu reglunnar: Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“

Þessi tillaga fulltrúa margra minni sveitarfélaga var felld á þinginu með 55% atkvæða gegn 45%. Hvað segir það okkur, herra forseti? Það rétt hefst í gegn að fella þessa tillögu sem gengur út á það að hafna lögþvingaðri sameiningu. Það rétt hefst í gegn. Samband íslenskra sveitarfélaga, á landsþinginu í desember, klofnar í tvo parta.

Þá má spyrja sig, herra forseti, ef hæstv. ráðherra telur sig vera að vinna að framfaramálum sveitarfélaga, hvers vegna farið er svo berlega gegn vilja stórs hluta sveitarfélaga í landinu eins og úrslit þessarar atkvæðagreiðslu bera svo glögglega með sér. Frumvarpið er lagt fram í andstöðu við tæplega helming þingfulltrúa á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tæplega helmingur þingfulltrúa á landsþingi sveitarfélaga hafnar lögþvingun sameiningar sveitarfélaga.

Þetta er umhugsunarvert og sérstaklega ef skoðað er hverjir eiga þarna sæti. Það eru fulltrúar allra sveitarfélaga á Íslandi. Kannski þarf tæpur helmingur þeirra, þau stærri, ekki að sameinast nágrannasveitarfélagi frekar en þau vilja. Hinn helmingurinn eða rúmlega það, ég er ekki með þessar tölur á hreinu, herra forseti, en eitthvað nálægt því, er undir þessu lágmarki og er þvingaður til þessa, ekki bara hér á Alþingi með þessu frumvarpi heldur líka á vettvangnum sjálfum, á vettvangi sveitarfélaganna. Stærri sveitarfélögin hafa enga hagsmuni af því að sveitarfélög einhvers staðar á Langanesi eða í Eyjafirði eða á Ströndum sameinist. Reykjavík hefur ekki hagsmuni af því. Eða hvað? Ég sé það ekki a.m.k. en þau samþykkja samt svona tillögu sem er þungamiðjan, grundvöllurinn og undirstaðan í því að þetta frumvarp birtist okkur hér á Alþingi og þær tillögur sem hafa verið hér á síðasta þingi og núna.

Það er umhugsunarvert, herra forseti, á hvaða vegferð svona samtök eru, sem eru regnhlífarsamtök allra sveitarfélaga, þegar þau samþykkja, væntanlega með atkvæðaþunga þeirra stærri, að smíða umgjörð utan um hin sveitarfélögin sem lenda þarna í andstöðu. Hvert erum við komin þegar svo er? Það veldur mér miklum heilabrotum. Hvert erum við komin?

Í þessu sambandi er nærtækast að velta fyrir sér orðunum sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga sem eru vinsæl orð og er alltaf verið að flíka og hafa hátt um í riti og ræðu, sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga. Hvaða þýðingu hefur svo fallegt orð þegar horft er á þá atburðarás sem ég var að nefna? Hvaðan kemur áhugi stærri sveitarfélaganna á því að minni sveitarfélögin eigi endilega að sameinast án þess að þau vilji það? Íbúarnir vilja það ekki. Stjórnendur vilja það ekki. Þetta er allt hið furðulegasta mál, herra forseti.

Sveitarstjórnarstigið er annað tveggja stjórnsýslustiga hér á landi. Hitt er ríkisvaldið. Með frumvarpinu er annað stigið að þvinga hitt til mjög veigamikilla breytinga á skipulagi þess stigs og það gegn vilja nærri helmings fulltrúa þeirra. Sjálfsákvörðunarréttur hvað?

Það verður líka að taka mið af því, herra forseti, að sveitarfélögin eru mjög ólík, þau eru öll mjög ólík, hvert með sínum hætti. Það verður líka að horfa á það að búseta á Íslandi er með þeim ósköpum að langflestir íbúar búa á örlitlum parti landsins, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu. Ef maður tekur aðeins stærra svæði eins og suðvesturhornið þá búa kannski 80% íbúa eða meira á því horni. Búseta um landið er því mjög dreifð að öðru leyti. Að þvinga landstór sveitarfélög til sameininga hefur augljóslega að mörgu leyti, herra forseti, harla litla kosti og harla litla hagkvæmni í för með sér. Það er jafn langt að keyra með börnin í skólann, hvort sem sameinast er sveitarfélagi sem er hinum megin við heiðina eða flóann. Þau eru ólík og samfélagsgerðirnar eru mjög ólíkar. Svo má spyrja: Af hverju 1.000? Er það einhver gullin tala sem var fundin upp?

Herra forseta. Svo að ég noti nú orðalag sumra stjórnarliða sem hafa haldið ræður hér í dag, þ.e. að þeir skilji sjónarmið þeirra sem eru andvígir þessu, þá get ég haft sama orðalag um sjónarmið sameiningarsinna, lögþvingunarsinna, að sameina minni sveitarfélög. Ég skil vissulega sjónarmið þeirra en að þvinga sveitarfélög gegn vilja þeirra og íbúa þeirra til að sameinast öðru sveitarfélagi, það skil ég ekki. Frumvarpið, verði það að lögum, snertir meiri hluta sveitarfélaga á landinu með þeim hætti að þau verði neydd til að sameinast nágrannasveitarfélagi þannig að hér er um viðamikið mál að ræða.



[20:25]
Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar hér við 1. umr. um frumvarp til laga frá samgönguráðherra, um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga, að leggja nokkur orð í púkkið og þá bara um 1. gr. málsins og afleidda þætti þess. Það kom mér nokkuð á óvart, svo ég segi það alveg eins og er, að málið kæmi fram lítt breytt til þingsins eftir landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var 18. desember sl., hvað varðar þau kjarnarök, sem ávallt hefur verið stuðst við, að sátt sé um það og það sameiginleg sýn sveitarfélaga heilt yfir að leiðin til frekari sameiningar sveitarfélaga sé lögþvingun. Hv. þm. Karl Gauti Hjaltason fór í ræðunni á undan prýðilega yfir feril þess máls og hvernig það var til komið og án nokkurs vafa hafa fleiri farið yfir það í ræðum hér fyrr um þetta mál.

Fréttirnar sem bárust af landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga upp úr miðjum desember voru þeirrar gerðar að ég taldi þessar lögþvingunaræfingar niður fallnar af því að það var augljóst að ekki var sátt um málið. Fulltrúar smærri sveitarfélaga höfðu haldið fram sínum sjónarmiðum, og fengið litlar þakkir fyrir, en þeir virtust hafa haft býsna mikið til síns máls. Á landsþinginu 18. desember lögðu 20 af minni sveitarfélögum landsins fram tillögu um að horfið yrði frá þeirri afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga að styðja fullum fetum þá leið að fara í lögþvingaða sameiningu þar sem hún næðist ekki fram með öðrum hætti innan tiltekinna tímamarka. Tillagan var vissulega felld en það var með 67 atkvæðum gegn 54. Höfum í huga að hvert þeirra litlu sveitarfélaga sem lögðu tillöguna fram hefur eitt atkvæði og á sama tíma hefur Reykjavíkurborg 21, þ.e. Reykjavíkurborg hefur ein og sér fleiri atkvæði en öll þau 20 sveitarfélög sem lögðu tillöguna fram, og atkvæðafjöldi Akureyrarbæjar nær að mig minnir langleiðina í þá tölu. Það sýnir að ef hvert sveitarfélag hefði haft eitt atkvæði er alveg augljóst að þetta hefði verið kolfellt, þessi nálgun sambandsins, en alltaf hafði verið rætt á þeim nótum að við þá nálgun væri yfirgnæfandi sátt og stuðningur. Mér finnst skipta máli að við höfum það í huga þegar við nálgumst þetta mál núna svona lítið breytt.

Í 1. gr. er fjallað um að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags sé 1.000 og síðan er farið í undanþáguákvæði þar sem ráðherra er heimilt, með leyfi forseta, „að veita tímabundna undanþágu frá lágmarksíbúafjölda í allt að fjögur ár og í eitt skipti ef sérstakar ástæður mæla gegn því að sveitarfélag geti myndað stjórnsýslulega heild með nærliggjandi sveitarfélögum“.

Þær undanþágur eða frestanir sem eru til staðar í frumvarpinu eru ekki til langs tíma eða skipta miklu máli í sjálfu sér í stóra samhenginu því að líftími sveitarfélags um einhver tvö eða fjögur ár til eða frá, þegar horft er á stóru myndina, er ekki kjarni umræðunnar. Það er prinsippákvörðunin sem nú er lögð til, af hendi hæstv. sveitarstjórnarráðherra, að þessi lögþvingunarleið verði fær. Við það vil ég gera miklar athugasemdir.

Áfram er í 5. gr. fjallað um þætti sem snúa að því með hvaða hætti ferlið er þegar lögþvingun skal keyrð í gegn. Ég ítreka að þetta er ekki það sem ég reiknaði persónulega með að kæmi fram, því að vissulega er ýmislegt í málinu ágætt og byggist á þingsályktun sem var samþykkt í þinginu í janúar 2020. En þetta atriði er því miður enn hérna inni. Ég vona bara að það verði skoðað í umhverfis- og samgöngunefnd, þar sem ég og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason, sem ég sé hér í salnum, og fleiri sitjum og ég vona að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra taki ekki hart til varna fyrir þetta tiltekna atriði málsins.

Í ræðum hér fyrr í dag hefur ýmislegt komið fram og stenst kannski ekki allt skoðun. Því hefur m.a. verið haldið fram að Covid-ástandið fari sérstaklega illa með minni sveitarfélög þegar það blasir við að ástandið er sýnu verst í Reykjanesbæ, sem verður nú seint talinn eitt af minni sveitarfélögum landsins. Þegar öllu er á botninn hvolft er ástandið sennilega alverst í Reykjavíkurborg ef við horfum á fjárhagsstöðu þess sveitarfélags, þótt til allrar lukku fyrir borgarsjóð sé borgin laus við alla túrista, miðað við skýrslu þess apparats sem útlistaði að af komu túrista til landsins og veru þeirra í Reykjavíkurborg væri milljarðatjón á ári fyrir borgina. En staðreyndin er engu að síður sú að sennilega eru fá sveitarfélög ef nokkur jafn að fótum fram komin fjárhagslega og Reykjavíkurborg. Það bendir ekki til þess að stærðarhagkvæmnin vinni sérstaklega með höfuðborg Íslands. Smærri sveitarfélög sem eru rekin af miklu meiri hófsemd og skynsemi skila miklu betri rekstrarniðurstöðu en þeirri sem við sjáum þar.

Fram hafa komið sjónarmið um að með einhverjum hætti þyrfti að ná utan um og skilgreina hvað sé sjálfbært sveitarfélag. Ein af þeim skilgreiningum sem ég heyrði hæstv. ráðherra leggja til var að horft væri til þess hvaða þjónustu sveitarfélag gæti staðið undir, hvort það væri t.d. þjónusta á sviði fötlunarmála eða rekstur grunnskóla. Eitt og annað slíkt nefndi ráðherra sem mögulega skilgreiningu á því hvað sjálfbært sveitarfélag þýddi. En þá horfum við á höfuðborgarsvæðið þar sem blasir kannski við mesta þörfin fyrir sameiningu á löngum köflum en þau sveitarfélög sem hér eru reka til að mynda ekki hvert og eitt sorphirðu eða slökkvilið. Það er allt saman sameiginlegt í byggðasamlögum. Þannig að þau rök finnst mér í öllum meginatriðum fallin því að auðvitað er hægt að ná samstarfi sveitarfélaga á einhverjum samhangandi svæðum í gegnum byggðasamlög úti á landi, rétt eins og hér á höfuðborgarsvæðinu. Þó virðast menn hafa sérstakt lag á því að missa byggðasamlögin úr böndunum hér á höfuðborgarsvæðinu.

Jafnframt hefur öldrunarþjónusta verið nefnd en þar er staðan auðvitað sú að mörg sveitarfélög reka hjúkrunarheimili, þar á meðal lítil sveitarfélög eins og Skagaströnd, Grýtubakkahreppur, Langanesbyggð og Vopnafjörður, svo einhver séu nefnd. Vanfjármögnun ríkisins hefur leitt til þess að fjögur sveitarfélög hafa nýlega sagt upp samningi við ríkið um rekstur þeirra. En það athygliverða er að það eru ekki litlu sveitarfélögin sem eru að segja upp samningi sínum við ríkið. Það eru Akureyri, Vestmannaeyjar, Fjarðabyggð og Hornafjörður. Hvernig rímar það við þann málflutning að litlu sveitarfélögin geti ekki verið burðug? Eins og stundum vill verða fer ekki saman hljóð og mynd.

Mig langar einnig að benda á atriði í 13. gr. frumvarpsins sem snýr að breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þar segir, með leyfi forseta:

„Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er heimilt að halda eftir allt að 1.000 millj. kr. af tekjum sjóðsins […] utan þeirrar fjárhæðar sem skal renna til málefna fatlaðs fólks, á hverju ári á tímabilinu 2020–2035 til að safna fyrir sérstökum framlögum úr sjóðnum sem koma til vegna sameiningar sveitarfélaga, sbr. a-lið 11. gr.“

Þegar málið var kynnt í upphafi er mér til efs að sveitarstjórnir landið um kring hafi skilið það sem svo að hvatinn til sameiningar, sem sagt þessar ívilnandi fjárhagslegu aðgerðir gagnvart sveitarfélögunum, væri að sveitarfélögin væru að fara að borga það sjálf úr jöfnunarsjóði, af peningum sem að öðrum kosti væru til ráðstöfunar í hefðbundin verkefni sjóðsins. Ég held að rétt sé að halda því til haga að sú gulrót sem var flaggað fyrir framan sveitarfélög við upphaf vinnslu málsins komi á endanum úr jöfnunarsjóðnum sjálfum og taki þá fjármuni frá öðrum verkefnum sjóðsins. Auðvitað er hægt að fagna því út frá því að verja stöðu ríkissjóðs hverju sinni og þar fram eftir götunum, en mér finnst skipta máli að það liggi alveg fyrir og enginn misskilningur sé í þeim efnum.

Umhverfis- og samgöngunefnd fær þetta mál væntanlega til meðferðar eftir að umræðunni lýkur núna rétt á eftir. Ég sit í þeirri nefnd og hlakka til að takast á við málið en ég reikna með því, eins og umræðan hefur borið með sér hér á undan, að það verði verulega umdeilt. Öll rök sem tengjast þessari meintu sátt og samstöðu um lögþvinguðu sameininguna féllu, þau dóu þann 18. desember sl. Það er svo sem ágætt, þá er hægt að byrja þessa umræðu á því að taka á efnislegu rökunum. En rökin um samstöðu sveitarfélaga hvað þetta varðar eru frá og voru raunverulega aldrei til staðar, sem er auðvitað umhugsunarefni hvað varðar það hvernig Samband íslenskra sveitarfélaga lagði málið upp.

Ég ætla að láta þessu lokið núna. Ég vil samt, til að allrar sanngirni sé gætt, segja að það er ýmislegt ágætt í þessu máli og það verður auðvitað skoðað og mögulega er einhverjar bætur hægt að gera á þeim þáttum. Heilt yfir væri þetta ágætismál ef ekki væri fyrir þá lögþvinguðu sameiningu sem þarna er í rauninni lögð til aftur. Við þurfum að bera gæfu til þess að skipta þessu máli í tvennt, annars vegar í þann þátt sem er mjög umdeildur og ég vona að við vindum ofan af hér í þinginu og hins vegar í aðra þætti málsins sem snerta þingsályktun um sveitarfélögin sem var samþykkt hér í byrjun árs 2020.



[20:39]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langaði að skipta þessu í tvennt og fara núna aðeins yfir það hvert ég tel vandamálið vera í hnotskurn. Ég tel það ekki vera það fyrirkomulag sveitarfélaga sem er núna heldur einfaldlega hvað sveitarfélögin geta gert til að geta verið sjálfbær, haft sjálfsstjórn og sjálfbærniforsendur. Það eru einfaldlega vandamálin sem tengjast tekjustofnum sveitarfélaga. Við vitum öll að þeir eru takmarkaðir og skammtaðir á þann hátt að jöfnunarsjóður og ýmislegt svoleiðis er ákveðin fátæktargildra fyrir sveitarfélög.

Tekjustofnar sveitarfélaga eru aðallega útsvar af tekjuskatti og fasteignagjöld. Svo eru ýmis önnur gjöld sem eiga að standa undir kostnaði, gatnagerðargjöld o.s.frv., þannig að það hefur ekki áhrif á almenna þjónustu sveitarfélaganna. Þetta þýðir, með þessum tveimur tekjustofnum, að tekjur sveitarfélaga koma af því að hafa margt fólk, helst þá með hærri tekjur en ekki, og marga fermetra af húsum. Tekjur sveitarfélaganna koma ekki frá starfsemi fyrirtækja að öðru leyti, t.d. fyrirtækja sem eru með fáa starfsmenn og fáa fermetra, sem eru staðsett í heimahúsi t.d. Þær koma ekki frá útsvari af fjármagnstekjuskatti eða viðskiptum sem eiga sér stað í sveitarfélaginu eins og verslun, útsvari af virðisaukaskatti t.d. Það væri mjög eðlilegt að sveitarfélög væru með hlutdeild í sömu tekjustofnum og ríkið er með, og það er það mikilvæga við þetta atriði, til að atvinnuþróun innan sveitarfélaga geti tekið tillit til fleiri tegunda af atvinnustarfsemi en þeirrar sem byggist á fjölda fermetra og fjölda fólks, helst með háar tekjur. Það skiptir nefnilega máli að sveitarfélögin geti unnið þannig í nýsköpun sem byggist á öðrum tekjuforsendum en bara fermetrum og fjölda fólks þegar þau eru að byggja upp atvinnustefnu sína. Þegar þau koma með hugmyndir um það hvernig væri hægt að gera sveitarfélag sjálfbært þá er algjörlega nauðsynlegt að þau geti fengið tekjur af þess háttar atvinnustarfsemi, t.d. af netverslun eða ýmiss konar hugbúnaðargerð eða hvað það nú getur verið, sem er ekki bundið við þessa takmörkuðu tekjustofna, þessa tekjustofna sem takmarka hvað sveitarfélög geta gert til þess að gera sig sjálfbær og takmarka hugmyndamöguleika þeirra til að vinna að eigin sjálfsstjórn.

Það er stefna Pírata að sveitarfélög fái útsvar af fleiri tekjustofnum ríkisins, ekki að þeir verði hækkaðir heldur bara að hlutdeild þeirra breytist, því að við vitum það líka að sveitarfélögin hafa fengið aukin verkefni sem ekki hefur fylgt fjármagn. Þegar grunnskólar fluttust yfir til sveitarfélaganna komu kannski auknar kröfur til grunnskóla í kjölfarið sem fjármagn fylgdi ekki. Þannig eykst byrði sveitarfélaga af því að reka grunnskóla án þess að þau hafi bolmagn til að mæta því með auknum tekjum. Þetta er innlegg mitt og annar möguleiki sem er hægt að íhuga til að hjálpa til við sameiningu sveitarfélaga, til þess að vinna í alvörunni að hagkvæmni og jákvæðri uppbyggingu í fjölbreyttari sveitarfélögum, það er ekki að þvinga sameiningar heldur að gefa sveitarfélögum tækifæri til að blómstra á eigin forsendum.



[20:44]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég ætlaði að bæta örlitlu við fyrri ræðu mína, ég átti eftir að minnast á nokkur atriði. Rætt er um sameiningar sveitarfélaga og að þær eigi að þvinga fram vegna þess að þetta gangi ekki nógu vel. Ég held að sveitarfélögum hafi fækkað verulega síðustu áratugi og þeim fækkar enn. Nýlegar sameiningar eru til vitnis um það, fjögur sveitarfélög voru sameinuð fyrir austan ekki alls fyrir löngu í nýtt sveitarfélag, Múlaþing. Ekki eru nema tvö, þrjú ár síðan sveitarfélög á Suðurnesjum, Sandgerði og Garður, voru sameinuð. Þróunin er í þessa átt og með hvatningu ríkisvalds getur hún haldið áfram og við nálgast markmiðið, sem er stærri sveitarfélög og sjálfbærari o.s.frv. þannig að það er hægt að gera án lögþvingunar. Hver er rétt stærð, frú forseti, á sveitarfélagi? Það er líklega mjög misjafnt. Út frá hagkvæmni séð er ekkert endilega hagkvæmt að sameina tvö mjög dreifbýl sveitarfélög. Þannig næst ekki mikil stærðarhagkvæmni vegna þess að þjónustan er jafn langt í burtu, hvernig sem þetta er reiknað fram og til baka, þannig að það er galli við þetta.

Ég veit ekki betur en að fjárhagsstaða minni sveitarfélaga sé almennt skárri, jafnvel mun skárri, en fjárhagsstaða þeirra stærri. Og af hverju skyldi það vera, frú forseti? Veldur nálægðin og ábyrgðin kannski ábyrgari fjármálastjórn í minni sveitarfélögum? Erum við kannski í þeim stærri komin það langt frá umbjóðendum vegna fjöldans að ábyrgðin verði minni og því kannski farið verr með féð? Hver rétta, besta eða hagkvæmasta stærðin er veit ég ekki. En það má deila um hvort betra sé að sameina út frá fjárhagslegu sjónarmiði.

Sveitarfélögin eru ólík landfræðilega og þegar kemur að samgöngum. Þetta eru þéttbýli og dreifbýli, og firðir, flóar og heiðar aðskilja byggðir og byggðarlög. Samfélagsgerðin er líka mjög ólík og það sem getur hentað einum firði þarf ekkert endilega að henta í þeim næsta við hliðina. Fólk velur að búa á þessum stöðum og einhverjir eru kostirnir. Kostirnir eru kannski ekki þeir, eftir því sem næst verður séð, að sameinast og vera lengra frá valdinu. Kannski er einn af kostunum við að búa í dreifbýlu sveitarfélagi, ég hugsa að það sé nú frekar, að vera nær ákvörðununum, frú forseti, nær ákvarðanatökunni, nær fulltrúum í sveitarstjórn og að geta haft áhrif. Það gæti verið einn af kostunum. Með því að sameina sveitarfélög er e.t.v. verið að rýra þennan kost þar sem fólk er í nálægð og fær að ráða og telur sig ráða meiru en kannski í stærra sveitarfélagi. Það er kannski ekkert endilega hagkvæmast fyrir okkur Íslendinga að hafa höfuðborgarsvæðið eins fjölmennt og það er miðað við dreifbýli á landinu almennt. Það er kannski ekki það hagkvæmasta. Á þá að klippa það eitthvað í sundur? Eigum við ekki bara að láta íbúana sjálfa ráða því? Það held ég að sé nú kannski mergurinn málsins.

Ég vil einnig tala um sveitarstjórnarstigið og ætlaði að gera það en hef ekki tíma til þess. Það er auðvitað komið að því, frú forseti, að íhuga, ef þetta heldur svona áfram, að koma á þriðja sveitarstjórnarstiginu. Það hefur oft verið rætt og ég myndi vilja taka umræðu um það síðar, en þegar valdið fer svona langt frá íbúunum þá þurfum við kannski enn minni einingar víða um land. Kannski er það eitthvað sem koma skal, ég skal ekki segja, en ég vil einnig minna á að þetta frumvarp hefur áhrif á 40 af 72 sveitarfélögum á landinu, (Forseti hringir.) þar af 13 sem eru með færri en 250 íbúa.



[20:49]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða örstutt frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Eins og fram hefur komið er frumvarpið það fyrsta sem lagt er fram af hálfu ráðherra sveitarstjórnarmála til að ná fram markmiðum þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023. Þingsályktunin var sú fyrsta þar sem sett voru fram markmið um stefnu og aðgerðir í málefnum sveitarfélaga til að efla sveitarstjórnarstigið. Það voru því ákveðin tímamót þegar hún var lögð fram. Áherslan í þingsályktuninni var á að efla sveitarstjórnarstigið hér á landi, auka sjálfbærni sveitarfélaga og bæta enn frekar þjónustu við íbúa. Ef markmiðum ályktunarinnar verður náð munu sveitarfélög jafnframt verða betur í stakk búin til að mæta margvíslegum áskorunum sem þau og samfélagið allt stendur frammi fyrir á hverjum tíma, sem og að sinna brýnum hagsmunamálum íbúanna. Í ályktuninni er einnig lögð mikil áhersla á sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislega starfsemi þeirra og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.

Fyrsti liður aðgerðaáætlunar miðar sérstaklega að því að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni, m.a. með sameiningum í stærri sveitarfélög. Sá liður er einn af ellefu í aðgerðaáætluninni og var að einhverju leyti umdeildur og frá því að þingsályktunin var samþykkt hefur frekari ágreiningur komið fram um málið. Í framsöguræðu sinni áðan lagði hæstv. ráðherra áherslu á mikilvægi þess að ná sátt um leiðir að markmiðum frumvarpsins um öflug, sjálfbær sveitarfélög og að þeim verði náð með ákvæðum um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga.

Ég kem hingað kannski fyrst og fremst til að leyfa mér að efast um að tækifæri gefist í störfum umhverfis- og samgöngunefndar til að vinna að þessari sátt til enda, enda kannski nauðsynlegt að það gerist á vettvangi sveitarfélaganna. Vissulega mun nefndin skoða málið og möguleika til breytinga í sátt og mér finnst mikilvægt og nauðsynlegt að halda því til haga að í frumvarpinu eru líka ákvæði sem þurfa að hljóta afgreiðslu á þessu þingi, svo sem heimildir til fjarfunda, breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og ekki síst skyldur sveitarfélaga til að afgreiða stefnu um þjónustustig í byggðum og byggðarlögum sveitarfélaga fjarri stærstu byggðarkjörnum, eða kannski miðju sveitarfélags þar sem byggðarkjarnar eru ekki endilega misstórir. Þetta er því áskorun sem umhverfis- og samgöngunefnd mun standa frammi fyrir í meðförum þessa máls og ég vildi fyrst og fremst koma hingað til að árétta það.



[20:54]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, hún hefur verið alla vega eins og gengur. Í ljósi þess að fyrr á þessu kjörtímabili höfðu ýmsir nokkuð hástemmdar yfirlýsingar um mikilvægi þess að klára þetta mál og stuðning við það þá hef ég saknað þeirra í þessari umræðu. Á sama hátt verður að segja að maður hefði gjarnan, eins og oft þegar rætt er um sveitarstjórnarmál, viljað heyra meiri þekkingu á bak við umræðuefnið, sérstaklega þegar kemur að umræðu um jöfnunarsjóð og fjármögnun hans. Ég hef skilning á því, margir segja að það sé flókið, en mér finnst ekki gott að menn fari beinlínis með rangindi héðan úr stólnum um það í því skyni að reyna að kasta rýrð á þau verkefni sem hér eru í gangi. Hér töluðu í það minnsta tveir þingmenn Miðflokksins. Annar sagðist vera algjörlega á móti málinu, hinn var þó sáttur við þá fjárhagslegu hvata og þær breytingar á sveitarstjórnarlögum sem eru í þessu og ég vona að það sé sjónarmiðið frá þeim flokki, að hann sé ekki algerlega á móti málinu. Hér voru rædd sjónarmið frá aðilum sem ég hafði kannski ekki búist við að tækju svona neikvætt í það í þingsályktuninni sem rædd var í þinginu, að við þyrftum að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem komu fram hér, við þyrftum að hafa lengri tíma, hafa aðlögun til sveitarfélaganna sem vildu taka sér meiri tíma. Mér fannst eins og menn tækju ekki tillit til þess að það hefði verið gert.

Hér var rætt um þá vegferð og þær málamiðlanir sem hægt væri að gera. Ég hef gert það sem við stjórnmálamenn eigum að gera þegar við fjöllum um umdeild mál, ég hef hlustað. Þá hefði ég kannski viljað heyra þingið segjast vera til í þennan dans með stjórnvöldum og sveitarfélögunum, til í að taka upp umræðu um það hvort það sé skynsamlegt yfir höfuð að leggja til lágmarksíbúafjölda, hvort hann eigi að vera einhver annar en þessi, hvort aðlögunartími eigi að vera lengri og hvað eigi að gera þegar að því kemur að sveitarfélög hafi ekki þennan lágmarksíbúafjölda eða þetta skilgreinda hugtak um sjálfbærni, ef við myndum leggjast í þá vinnu að gera það.

Ég ætla hins vegar, eins og ég sagði í framsögunni, að lýsa yfir vilja mínum og ráðuneytisins til samstarfs við bæði þingið og sveitarfélögin í landinu til að finna þær leiðir sem þarf til að efla sveitarstjórnarstigið, ef ekki út frá nákvæmlega þessu frumvarpi og öllum þeim ákvæðum sem þar eru inni þá í það minnsta á grunni frumvarpsins, vegna þess að þar inni eru mjög margir þættir sem sannarlega styðja við þingsályktunina og markmiðið um að efla sveitarstjórnarstigið, hinir fjárhagslegu hvatar og breytingar á verklagi og heimildir til nýsköpunar í stjórnsýslu. Við sáum til að mynda í nýsameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi, Múlaþingi, svokallaðar heimastjórnir verða til, það er mjög spennandi nýsköpun sem verður gaman að fylgjast með og gæti leyst þann vanda sem nokkrir ræddu hér.

Ég heyrði menn lýsa áhyggjum af því valdið færi burt og fólk gæti ekki búið á sama stað. Ég verð að segja, frú forseti, að ég skil þau sjónarmið ekki. Við erum að tala um stjórnsýslueiningar. Samfélögin breytast ekki neitt. Fjölmargar sameiningar hafa orðið á liðnum árum og við skulum fara hringinn um landið. Nú gleymi ég örugglega fullt af sveitarfélögum en ég ætla bara að nefna þetta svo fólk átti sig á því að þeir sem voru hér með allt á hornum sér yfir því að þetta væri vont verða þá að koma og segja að allt það sem búið er að gera hafi farið í vaskinn og sé allt ómögulegt. Á Suðurnesjum er nú Reykjanesbær en voru það ekki einu sinni Keflavík og Njarðvík? Suðurnesjabær er nýtt sveitarfélag sem varð til árið 2018 sem var áður Sandgerði og Garður. Förum upp á Vesturlandið, þar er Borgarbyggð, ég veit ég er að hlaupa yfir einhver dæmi en tek bara nokkur, Dalabyggð, Vesturbyggð, Ísafjarðarbær, Húnaþing, Skagafjörður, Eyjafjarðarsveit, sveitarfélagið Norðurþing, Þingeyjarsveit, núna síðast Múlaþing, Fjarðabyggð, sem varð til og hefur stækkað í þremur sameiningum og er orðin gríðarlega stórt og öflugt sveitarfélag, Sveitarfélagið Hornafjörður, ég held að enginn vilji skipta þar. Sveitarfélagið Skaftárhreppur var búið til úr fimm sveitarfélögum, ég hef ekki heyrt þá umræðu að íbúar þar vilji fara í þær fimm einingar aftur og það geta allir búið í sveitarfélaginu Skaftárhreppi eins og þeir vilja en þeir tóku sig saman til þess að verða aðeins stærri stjórnsýslueining. Núna eru þeir aftur að velta fyrir sér hvort þeir þurfi ekki að vera stærri stjórnsýslueining. Mýrdalshreppur var stofnaður af þremur sveitarfélögum fyrir margt löngu, ég hef ekki heyrt að íbúar þar séu að fara að búta hann niður, frekar er verið að tala um að gera hann að stærri stjórnsýslueiningu af því að fyrri sameining gekk vel. Í Rangárþingi eystra hefur gengið gríðarlega vel að samtvinna stjórnsýslueininguna, menningarstarf og skólastarf, auðvitað hefur ekki allt gengið fullkomlega. Svo er Rangárþing ytra, Flóahreppur varð til úr þremur sveitarfélögum, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur. Ég gæti haldið áfram, ég gleymdi alveg slatta, Fjallabyggð og Hvalfjarðarsveit, og hoppaði alveg örugglega yfir eitthvað, þetta er stórhættulegur leikur og ég var ekki að reyna að telja upp öll sameinuð sveitarfélög, ég var bara að gefa þeim sem hlusta á þessa ræðu þá tilfinningu að þetta hafi gengið á í mjög langan tíma og hefur gerst með vilja íbúanna.

Ef sveitarfélagastigið á að geta keppt almennilega við ríkisvaldið og tekið við verkefnum í heild sinni þá er sú þróun ekki góð ef sveitarfélögin eru frá 50 íbúum, sem standa á bak við allt sem þau eiga að gera, upp í 130.000 og allt þar á milli. Það er betra að þau séu nægilega öflug til að geta tekið við verkefnum í heild sinni. Auðvitað þurfa þau áfram samstarf. Og 1.000 íbúa mark er ekki markmið, það er lágmarksíbúafjöldi. Þeir mega með öðrum orðum verða 1.200 eða 2.000 eða 10.000 eða hvað það nú er sem íbúar á tilteknu svæði telja að sé nægilega öflugt til að búa til meiri þjónustu, laða heim fólk frá þessum sveitarfélögum sem hefur menntað sig annars staðar, gera því kleift að snúa aftur og sinna vinnunni svo að ekki sé verið að kaupa þjónustu um langan veg frá stærstu sveitarfélögum landsins heldur byggja hana upp heima í héraði. Það er markmiðið. En eins og ég sagði í ræðu minni er íbúafjöldalágmarkið, hvaða tala sem það er, umdeilt. Ég er tilbúinn í samtal um hvaða leiðir sem er til þess að ljúka málinu með það að markmiði að styrkja sveitarstjórnarstigið því mér finnst það skipta mjög miklu máli að reyna að ná sem víðtækastri sátt og fá sem flesta með því ég vil halda því fram að ég sé að gera það sem við stjórnmálamenn eigum oft að gera, að hlusta.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.