151. löggjafarþing — 53. fundur
 4. feb. 2021.
norrænt samstarf 2020.
skýrsla ÍNR, 497. mál. — Þskj. 828.

[16:12]
Frsm. ÍNR (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Fyrir þinginu liggur skýrsla Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2020. Það má með sanni segja að árið 2020 hafi verið undarlegasta ár í starfi Norðurlandaráðs hingað til. Vonandi fáum við ekki fleiri svona ár en þó má horfa á þessa reynslu jákvæðum augum. Norðurlandaráð, bæði starfsfólk og þingmenn sem eiga sæti í ráðinu, gerði töluvert miklar breytingar á starfsháttum sínum á árinu til að bregðast við ástandinu. Starf ráðsins var mjög öflugt og var jafnvel að sumu leyti virkara en oft áður. Við héldum réttum takti allt árið og oft var aukafundum komið á með skömmum fyrirvara. Það hefðum við t.d. ekki getað gert hefðum við þurft að skipuleggja fundi í öðrum löndum og gera ráð fyrir ferðatíma og alls kyns kostnaði sem til fellur. Þetta gerði sveigjanleika ráðsins meiri. Við gátum brugðist hratt við aðstæðum sem upp komu hverju sinni og að sjálfsögðu nýttum við okkur fjarfundatæknina. Norðurlandaráð býður upp á túlkanir á fundum sínum og slíkt hið sama þurfti að gera á þessum fjarfundum. Starfsfólk ráðsins var mjög lausnamiðað í því að finna leiðir til að nýta tæknina. Við þurftum t.d. að vera með atkvæðagreiðslukerfi í kerfunum okkar og túlkanakerfi sem hentaði túlkum og virkaði vel.

Auðvitað var þetta svolítið brotakennt til að byrja með, við náðum ekkert endilega alltaf að afgreiða allt sem við ætluðum að afgreiða og ýmislegt gekk á. En við lærðum af þessu öllu saman og fljótlega fóru fundirnir að ganga mjög vel. Ég held að ég geti alveg fullyrt það. Það var að mörgu leyti gaman að taka þátt í þessu og eiga hlut í þeim áskorunum og svo lausnum sem við fundum í þessu ástandi. Ég er viss um að Norðurlandaráð á eftir að búa að þessari reynslu og taka kannski að hluta til eitthvað frá henni með sér inn í framtíðina. Norðurlandaráð, eins og Alþingi og margir, er að horfa til grænna lausna í starfi sínu. Það að þurfa ekki að ferðast stöðugt á milli landa með tilheyrandi kostnaði og kolefnisspori er kostur og við sáum það nú að það er vel gerlegt. Ég er nokkuð viss um að við hefðum ekkert endilega náð þessum áfanga á svona stuttum tíma hefði Covid-faraldurinn ekki komið til. Við eigum alltaf að horfa á björtu hliðarnar en auðvitað hefur verið svolítið skrýtið að sitja heima, inni í herbergi, meira og minna allt árið í stað þess að hitta fólk og eiga þau óformlegu samskipti sem eru auðvitað nauðsynleg líka svona í og með. Við sjáum á þessu að auðvitað getum við nýtt tæknina meira en verið hefur en við þurfum líka að hittast reglulega og tengjast og gleðjast. Það er partur af alþjóðastarfi líka og auðvitað öllu öðru félagsstarfi.

Ég ætla ekki að þylja upp úr þessari skýrslu. Hún liggur fyrir á vef Alþingis og er aðgengileg þar ef fólk vill fara nákvæmlega yfir hana. En ég ætla að grípa niður í nokkur atriði úr skýrslunni. Hér er t.d. fjallað um hvað Norðurlandaráð er, hvaða nefndir eru starfandi innan ráðsins og hverjir eiga sæti í Íslandsdeildinni o.s.frv. Áður en Covid-faraldurinn skall á fór ég ásamt varaforseta Norðurlandaráðs og varaformanni Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, í heimsókn til Skotlands og frá þeirri heimsókn er sagt í skýrslunni. Við fórum að mig minnir í mars 2020 — eða hvenær var það nú? Ég er ekki búin að merkja sérstaklega við það, sýnist mér, ég var að fara yfir þetta í gær. Alla vega var það snemma á síðasta ári sem við náðum að komast til Skotlands í boði forseta skoska þingsins. Þessi heimsókn var að frumkvæði skoska þingsins og hún var mjög góð. Við heimsóttum forsetann og áttum með honum fundi og einnig áttum við formlega fundi með þingmönnum. Það er skýr vilji í skoska þinginu fyrir nánara samstarfi við Norðurlandaráð. Auðvitað er margt að gerast bara þessa mánuðina, vikurnar og dagana og hlutirnir breytast hratt. Þarna var ákveðinn gluggi opnaður og áhugavert verður að fylgjast með þróuninni hjá vinum okkar hér austan við okkur, Skotum og Bretum, og hvernig þetta þróast allt saman. Norðurlandaráð er og verður í mjög nánu samstarfi við breska þingið og auðvitað viljum við líka halda áfram að rækta tengsl okkar við Skota og aðra þá sem áhuga hafa á að rækta samskipti við Norðurlandaráð. Þessi ferð var farin 30. janúar sé ég hér í gögnunum.

Í skýrslunni er getið um alþjóðastarf og fleiri ferðir sem farnar voru. Ég fór sem fulltrúi Norðurlandaráðs ásamt Michael Tetzschner, norskum þingmanni, og Erkki Tuomioja, finnskum þingmanni, í heimsókn til pólska þingsins að frumkvæði Pólverja. Við hittum þar fyrir forseta öldungadeildarinnar, Tomasz Grodzki, sem er þingmaður stjórnarandstöðunnar. Það er margt að gerast í Póllandi og ýmsar breytingar, sumar hverjar algjörlega á skjön við grunngildi Norðurlandaráðs sem snúa að mannréttindum, lýðræði og gildum réttarríkisins. Þetta var mikilvæg heimsókn. Það var gott að Norðurlandaráð fór þangað í formlega heimsókn til að senda kannski ákveðin skilaboð líka. Við eigum eftir að sjá hvort framhald verður á nánum samskiptum en það er mikill vilji í Póllandi fyrir meiri samskiptum við Norðurlandaráð, alla vega hjá ákveðnum hópi sem tilheyrir þá frekar stjórnarandstöðunni.

Norðurlandaráð hefur um árabil verið í mjög nánu samstarfi við Eystrasaltsþingið og fulltrúar Norðurlandaráðs taka þátt í þingum Eystrasaltsríkjanna sem eru haldin reglulega. Hið sama gildir um Benelux-þingið. Þar voru nokkrir fundir haldnir á árinu og í fyrsta sinn var þríhliða fundur haldinn, þ.e. með fulltrúum Eystrasaltsþingsins, Benelux-landanna og Norðurlandaráðs. Sú sem hér stendur og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir voru meðal þátttakenda. Umræður á þeim fundi voru um Covid-faraldurinn og málefni Hvíta-Rússlands. Sú umræða tók töluvert mikið pláss á síðasta ári, þ.e. um málefni Hvíta-Rússlands sérstaklega. Ekki er heldur útséð með hver þróunin verður á því svæði. Við fulltrúar Norðurlandaráðs áttum fundi með fulltrúa stjórnarandstöðunnar og leiðtoga þeirra, Svetlönu Tíkhanovskaju, bæði starfshópurinn sem vinnur að málefnum Hvíta-Rússlands og nokkrir fulltrúar sem áttu sérstakan fund. Ég man ekki alveg hvenær hann var. Þetta er töluvert löng skýrsla þannig að ég ætla ekki að fara að eltast við dagsetningar. En þarna hefur verið gott samtal í gangi og góð upplýsingagjöf til fulltrúa Norðurlandaráðs allt árið. Þessir fundir með leiðtoga stjórnarandstöðunnar hafa verið mjög góðir, opnir og einlægir og það ríkir mikið traust á milli aðila.

Mig langaði til að vekja sérstaka athygli á samfélagsöryggi og þá í tengslum við Covid-faraldurinn. Ég ætla að lesa aðeins upp úr skýrslunni, með leyfi forseta. Ég sé að ég á níu mínútur eftir.

„Málefni tengd samfélagsöryggi hafa lengi verið til umræðu á vettvangi Norðurlandaráðs og ýmsar tillögur um eflingu norræns samstarfs á þessu sviði hafa verið lagðar fram. Haustið 2018 ákvað Norðurlandaráð að leggja enn meiri áhersla á þetta svið með því að skipa vinnuhóp til að móta sameiginlega stefnu um samfélagsöryggi. Oddný G. Harðardóttir átti sæti í þeim hópi. Vinnuhópurinn skilaði drögum að stefnu sumarið 2019 og endanleg útgáfa var síðan samþykkt á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi um haustið.

Í stefnunni er meðal annars hvatt til aukins samstarfs Norðurlanda á sviði heilbrigðismála og bent er á heimsfaraldra sem eina af þeim ógnum sem steðja að Norðurlöndum.“ — Þetta var eins og fyrr segir áður en Covid-faraldurinn braust út. — „Sérstaklega er tekið fram að samræma þurfi aðgerðir Norðurlanda til að tryggja framboð á mikilvægum lyfjum og öðrum búnaði til lækninga. Í stefnunni eru einnig tillögur sem miða að því að efla samstarf landanna í friðar-, netöryggis- og löggæslumálum, um matvæla- og orkudreifingu, almannavarnir og björgunarsveitir og um varnir gegn efna-, sýkla-, geisla- og kjarnavopnum.

Í janúar 2020 samþykkti forsætisnefnd Norðurlandaráðs að senda ríkisstjórnum landanna stefnuna. Jafnframt var óskað eftir ítarlegum svörum um það hvort og hvernig ríkisstjórnirnar og Norræna ráðherranefndin hygðust fara að tillögunum og beðið var um ítarlegan rökstuðning í þeim tilvikum þar sem ákveðið væri að gera það ekki.

Í apríl þegar Norðurlönd voru, eins og heimsbyggðin öll, að glíma við Covid-19 faraldurinn ákvað Norðurlandaráð að frumkvæði íslensku formennskunnar að fylgja tillögunum eftir með því að senda forsætisráðherrum Norðurlanda bréf. Norðurlandaráð ítrekaði í bréfinu mikilvægi þess að farið yrði að tillögunum í stefnunni um samfélagsöryggi en jafnframt voru í því nýjar tillögur og ábendingar. Löndin voru hvött til að hjálpa hvert öðru eftir þörfum, svo sem með lækningabúnaði og heilbrigðisstarfsfólki í samræmi við norræna samninga og fyrri yfirlýsingu þess efnis og að skoða hvort hægt væri að samræma viðbrögð við faröldrum til framtíðar þannig að ráðstafanir landanna leiddu ekki til nýrra stjórnsýsluhindrana milli þeirra. Einnig var óskað eftir því að ríkisstjórnirnar samræmdu aðgerðir sem miða að því að endurreisa og styrkja efnahag landanna í kjölfar faraldursins og að í þeim aðgerðum yrði lögð áherslu á græna og sjálfbæra þróun og tillit yrði tekið til viðkvæmra samfélagshópa. Að lokum voru ríkisstjórnirnar hvattar til þess að efla alþjóðlegt samstarf og að auka norræna samhæfingu í stofnunum á borð við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og í Evrópusambandinu.

Svör ríkisstjórna Norðurlanda bárust í júní. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ákvað á fundi sínum 19. ágúst að fela starfshópi nefndarinnar sem mótað hafði stefnuna á sínum tíma að fara yfir svörin. Jafnframt var ákveðið að kalla ráðherrana til samráðs um þau. Starfshópurinn skilaði áliti sínu fyrir fund forsætisnefndar 18. september og samþykkt var að leggja það til grundvallar fyrir fundina með ráðherrunum. Starfshópurinn taldi að ríkisstjórnirnar hefðu svarað sumum spurningum með fullnægjandi hætti en í öðrum tilvikum hefðu svörin verið óskýr eða rökstuðning vantað fyrir að fara ekki að tillögum Norðurlandaráðs.

Samráð með ráðherrunum fór fram með fjarfundarfyrirkomulagi dagana 27. og 28. október. Fundað var með forsætis-, samstarfs-, utanríkis- og varnarmálaráðherrum og ráðherrum viðbúnaðarmála. Nánast allir ráðherrar þessara málaflokka komu til fundar við forsætisnefnd Norðurlandaráðs og ræddu svör við spurningum sem féllu undir þeirra verksvið.

Fundirnir voru lokaðir en á þeim öllum kom fram skýr og greinilegur munur á mati ráðherranna annars vegar og Norðurlandaráðs hins vegar á norrænu samstarfi í tengslum við Covid-19 faraldrinum og þörfina á breytingu og eflingu samstarfs um samfélagsöryggi. Þingmenn forsætisnefndar Norðurlandaráðs töldu að löndin hefðu ekki haft nægilegt samráð um aðgerðir vegna faraldursins og að lokanir landamæra og ýmsar aðrar ráðstafanir hefðu haft neikvæðar afleiðingar fyrir samstarfið og fyrir Norðurlandabúa, sérstaklega íbúa á landamærasvæðum og aðra sem þurfa af ýmsum ástæðum að fara milli landanna. Silja Dögg Gunnarsdóttir áréttaði að með þessu hefðu yfirvöld brugðist íbúum landanna og fleiri tóku undir það. Þingmenn gagnrýndu ráðherrana fyrir að sýna ekki nægilegan metnað í samstarfinu á þessu sviði og bentu á að verulegra umbóta væri þörf á mörgum sviðum samfélagsöryggis. Ýmsir ráðherranna sögðu á móti á að þeir hefðu fundað títt og skipst á upplýsingum eftir að faraldurinn brast á og að samstarfið hefði í heildina gengið vel. Ýmsir þeirra bentu á sameiginlegt átak um heimflutning norrænna ríkisborgara frá öðrum löndum í upphafi faraldursins sem dæmi um vel heppnað samstarf.“

Það má vel taka undir það. Norðurlöndin stóðu sig mjög vel í samstarfinu þegar flytja átti norræna ríkisborgara til síns heima á sínum tíma. Engu að síður má draga þá ályktun af því sem gerst hefur á síðasta ári í kjölfar faraldursins að samstarf Norðurlandanna sé ekki nógu þétt. Við höfum auðvitað kafað dýpra í þetta í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Eins og margir hafa bent á og við vitum svo sem líka þá er náttúrlega mismunandi umhverfi á Norðurlöndunum, hlutverk stofnana er ólíkt á milli ríkja, einnig umgjörð og heimildir stofnana, löggjöf sem snýr að þeim stofnunum og annað þess háttar. Sveigjanleikinn er því ekkert endilega mikill og verkefnin hólfast niður hingað og þangað. Til að bregðast við hratt og örugglega og samhæfa viðbrögð Norðurlandanna þá vantar kannski meira einn kanal frá hverju ríki. Nú þarf oft að glíma við það að fara eftir mörgum kanölum til að bregðast við því sem er að gerast. Þetta er náttúrlega flókið en þetta er verkefni sem fólk þarf að vera meðvitað um. Við þurfum að fara að huga að og skoða og finna leiðir til að einfalda viðbrögð við ógnum eins og faröldrum. Það á auðvitað einnig við um náttúruhamfarir og styrjaldir og alls kyns hluti sem geta ógnað íbúum á Norðurlöndum.

Ég hef hér farið örlítið yfir og stiklað á stóru varðandi alþjóðasamstarfið. Það er náttúrlega margt fleira hér inni. Það er kannski gaman að segja frá því — eða það er kannski ekki gaman að segja frá því en þingi Norðurlandaráðs, sem halda átti í október á Íslandi, var aflýst í fyrsta sinn í sögu Norðurlandaráðs. Það sem er þó kannski gaman er að við héldum ekki formlegt þing en við héldum fjölmarga fundi, m.a. með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, þar sem við ræddum m.a. loftslagsmál, Covid-faraldurinn, bóluefnin, ábyrgð okkar hér á Norðurlöndum og margt fleira. Það var gríðarlega góður fundur. Allir forsætisráðherrar Norðurlandanna tóku þátt í þeim fundi. Það er einn kostur við þessa fjarfundi að miklu auðveldara er að fá góða mætingu frá ráðherrum. Við höfum stundum kvartað yfir því í Norðurlandaráði að ráðherrar hafi ekki gefið sér tíma til að ferðast á milli og sækja fundi, að þeir hafi forgangsraðað dagskrá sinni öðruvísi. Með því að halda fjarfundi er kannski líklegra að menn gefi sér tíma til að funda með Norðurlandaráði. Ég myndi segja að þetta hafi allt heppnast mjög vel þarna hjá okkur í október. Það var góð mæting og góðar umræður og við lögðum áherslu á samfélagsöryggi, eins og fyrr segir.

En að lokum, hæstv. forseti, voru verðlaun Norðurlandaráðs náttúrlega afhent eins og hefð er fyrir. Okkur fannst leiðinlegt að geta ekki haldið glæsilega athöfn í Hörpu eins og við höfðum ætlað að gera en RÚV sjónvarpaði þessu á mjög góðum tíma. Ég held að við höfum náð að vekja athygli á norrænni menningu, norrænum listamönnum, fólki í nýsköpun og öðru með því að gera þetta með þessum hætti. (Forseti hringir.) Til þess er kannski leikurinn gerður, að beina sjónum að okkar frábæra skapandi fólki sem er okkur leiðarljós til framtíðar við úrlausn fjölmargra verkefna.



[16:33]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, fór ágætlega yfir var árið 2020 afskaplega sérstakt ár og fyrir okkur öll. Við hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, sem forseti Norðurlandaráðs og ég sem varaforseti, ætluðum okkur stóra hluti árið 2020. Við ætluðum m.a. að fara út um allt land og tala um mikilvægi norræns samstarfs, heimsækja norrænu félögin og nýta árið og nota forsetatíðina til þess að glæða áhuga og skapa aukinn áhuga meðal landsmanna fyrir norrænu samstarfi. En auðvitað er norrænt samstarf út um allt. Það er í gegnum félagasamtök, gegnum sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og íþróttafélög. Það er afskaplega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag og það skiptir okkur mjög miklu máli að hlúa að því og rækta. Það munum við auðvitað gera áfram þó að þetta hafi verið svolítið skrýtið ár í þá veru. En eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir kom inn á áðan héldum við samt mjög marga fundi og gátum haldið samstarfinu nokkuð vel lifandi þrátt fyrir þessar sérstöku aðstæður. Í sumum tilfellum vorum við með fleiri fundi og það var jafnvel betri mæting fyrir vikið af því að þetta voru fjarfundir og menn þurftu ekki að ferðast um langan veg.

Það sem mig langaði til að ræða hér aðallega er vinnan okkar um samfélagsöryggi. Ég var í starfshópnum fyrir flokkahóp jafnaðarmanna. Það var fimm manna starfshópur þar sem var einn úr hverjum flokkahópi Norðurlandaráðs til að vinna að skýrslu um samfélagsöryggi. Við höfðum rætt það svolítið, höfðum fengið til okkar yfirmenn stofnana í ríkjunum til að fara yfir málið og við sáum að þarna vantaði eitthvað upp á og við vildum koma með skýr skilaboð í Norðurlandaráði um þessi mál. Það var árið 2019. Við vildum skoða þær ógnir sem að löndunum gætu steðjað sem ekki eru stríðsógnir. Við töluðum um náttúruhamfarir, skógarelda, flóð, öfgaveður, heimsfaraldur, þó að okkur dytti ekki í hug að við þyrftum að glíma við hann eftir nokkra mánuði, samgönguslys, kjarnorkuslys, hryðjuverk, tölvuárásir, mengun neysluvatns, olíuleka í hafi og örðugleika við öflun eldsneytis, raforku og matvæla. Þetta eru allt saman stór og mikilvæg mál.

Það sem við sáum í okkar skoðun og samtölum við forstöðumenn stofnananna í öllum norrænu ríkjunum, bæði almannavarna og annarra stofnana, t.d. þeirra sem horfa sérstaklega á netöryggi og lögreglu, svo að dæmi séu tekin, var að skipulagið og umboðið var óskýrt. Við vildum gjarnan koma með skýr skilaboð til ríkisstjórnanna um að þetta þyrfti að laga. Það var alveg ljóst og er enn ljóst að skortur er á pólitískri forystu og skortur á umboði til að stíga fram þegar á reynir. Það eru stjórnsýsluhindranir á milli landanna sem gera samfélagsöryggi og samstarf um það erfiðara. Það þarf að auka gagnkvæman skilning á viðmiðum og starfsháttum. Það eru mismunandi viðmið og skilgreiningar á því hvað eru almannavarnir og hvað heyrir undir lögreglu, hvað heyrir undir her o.s.frv. Það þarf að skerpa á þeim skilningi og hvernig aðilar geta unnið saman þrátt fyrir ólík viðmið. Það þarf að koma auga á flöskuhálsa í samstarfinu og finna leiðir til að koma í veg fyrir þá. Svo þarf að uppræta efasemdir um hlutverk og ábyrgð.

Ein af orðsendingunum sem við sendum til ríkisstjórnanna var að Norðurlandaráð vill að ríkisstjórnirnar á Norðurlöndunum meti hvernig fari best á að nýta norrænu ráðherranefndina í samstarfi um norræna utanríkis- og öryggismálastefnu, þar á meðal norrænt samstarf um samfélagsöryggi og almannavarnir til að hún veiti því stuðning. Við vorum því tiltölulega nýbúin að senda þessi skýru skilaboð til norrænu ráðherranefndarinnar þegar við þurftum síðan að glíma við heimsfaraldur. Þá komu einmitt í ljós brestir sem við hefðum þurft að vera búin að byggja undir og við sjáum núna að við verðum að læra af til að halda áfram. En líkt og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði áðan var ýmislegt sem gekk vel. En það eru samt stórir þættir sem við þurfum að fara betur yfir og læra af þessum heimsfaraldri. Ég held að öll norrænu ríkin séu tilbúin til þess. En það þarf auðvitað að leggja á það áherslu í hverju landi fyrir sig.

Frú forseti. Mig langar að tala líka aðeins um samskipti Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Við höfum svolítið verið að ræða það annað slagið, t.d. á fundum forsætisnefndar. Norðurlöndin, samkvæmt stefnu norrænu ráðherranefndarinnar, vilja verða samþættasta svæði í heimi. Þau voru nýbúin að gefa það út þegar Covid skall á okkur. Við þurfum að skoða betur hvað það þýðir nákvæmlega að vera samþættasta svæði í heimi. Hvað gerir það aðlaðandi að Norðurlöndin séu einmitt það? Ég held að það sé stórt verkefni að vinna að því og þar eru stjórnsýsluhindranir mikilvægur þáttur, að taka þær niður. Í öllum þeim könnunum sem gerðar hafa verið í norrænu ríkjunum þar sem fólk er spurt hversu mikilvægt því finnist norrænt samstarf kemur í ljós að það eru bara næstum allir íbúar á Norðurlöndum sem vilja aukið norrænt samstarf. Það eru rosalega skýr og mikilvæg skilaboð til norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs.

Hins vegar þegar kemur að fjármunum, að því að setja fjármuni í þetta samstarf sem íbúunum finnst svona mikilvægt, er annað uppi á teningnum. Í mjög mörg ár hefur sama krónutalan verið gefin frá hverju landi fyrir sig sem þýðir í raun að fjárveitingin hefur dregist saman og dregst saman frá ári til árs ef verðlagsuppbætur eru ekki inni í dæminu, þó ekki væri annað. Það verður til þess að þegar koma ný verkefni þá þarf að skera niður í þeim sem fyrir eru. Það gerðist einmitt núna. Við áttum í löngum og ströngum samningaviðræðum, ég og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, við samstarfsráðherra norrænu ráðherranefndarinnar um fjárhagsáætlunina núna vegna þess að sett voru á laggirnar áform um græn verkefni, verkefni til að vinna gegn loftslagsvánni — sem eru mikilvæg og allir voru sammála um að fara í — en til þess að fjármagna þau var skorið niður í menningunni, í skólastarfinu og menningarstarfinu. Þessu vildum við mótmæla vegna þess að þar er grasrótin hvað virkust, í menningarmálunum og skólamálunum. Við náðum þar nokkrum árangri, leyfi ég mér að segja, en það þarf auðvitað að gera betur. Mér finnst skilaboðin til norrænu ráðherranefndarinnar hljóti að vera í fyrsta lagi að hún þurfi að taka tillit til þess sem þing Norðurlandaráðs samþykkir og auðvitað þurfa ríkisstjórnirnar að taka það upp í hverju landi og framfylgja því sem Norðurlandaráð samþykkir. Það þarf líka að horfa á vilja íbúanna um að auka skuli og gæta að norrænu samstarfi og það kostar peninga. Það kostar peninga að koma á nýjum verkefnum en þau munu skila okkur margfalt til baka. Það er ekki skyndigróði en það er gróði sem skilar okkur áfram í betra samfélagi og hvaða gróði gæti nú verið betri en einmitt sá, frú forseti?



[16:44]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að hefja mál mitt á að taka undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur en hún talar um mikilvægi þess að við setjum næga fjármuni í það samstarf sem hér er undir. Ég held að það sé alveg gríðarlega mikilvægt. Mig langar að nýta tækifærið til að hrósa forystu Íslandsdeildarinnar, hv. þingmönnum Silju Dögg Gunnarsdóttur og Oddnýju G. Harðardóttur, forseta og varaforseta Norðurlandaráðs á síðasta ári, fyrir að hafa haldið vel utan um starfið, utan um þingið, á þessum erfiðu tímum. Mér hefur oft orðið hugsað til þeirra — við vitum öll hvernig er að vera á fjarfundum, þar sem hugurinn leitar í ýmsar áttir og maður sér að þannig er það hjá mörgum — og hvernig þær hafa haldið utan um allt okkar góða starf því að það hefur verið býsna gott og ekki bara miðað við aðstæður heldur hefur það verið býsna gott. Punktur. Miðað við aðstæður hefur það verið með eindæmum gott. Ég vildi draga það sérstaklega fram að mér finnst þær hafa staðið sig með eindæmum vel og hafa haldið á lofti sjónarmiðum okkar sem hafa birst í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og endurspegla að mínu viti sjónarmið hv. Alþingis. Því miður fengum við ekki að njóta þess, sem er alltaf skemmtilegra, að halda stórt þing og fundi og hittast öll og hafa örlítið meiri — ég ætlaði að segja bravúr, ég veit ekki hvort forseti ávítar mig fyrir það, ég biðst þá forláts — meira umleikis á fundum.

En við upplifðum ýmislegt annað á síðasta ári. Hv. þingmenn, sem hér hafa talað á undan mér, hafa báðar komið inn á það að vissulega hafi faraldurinn tekið eitthvað frá okkur en líka fært okkur eitthvað. Ég segi fyrir mína parta að það að geta tekið þátt í fjarfundum opnaði á möguleika sem ég held að hefðu ekki verið opnir okkur að öðrum kosti. Ég sit t.d. fyrir hönd Norðurlandaráðs á þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins, BSPC á alþjóðlegri skammstöfun. Þar er ég í vinnuhópi um loftslagsmál sem ég sæti trauðla í ef mæta þyrfti á vinnufundi, eins og hefur verið, hér og þar. Nú höldum við fjarfundi.

Ágætlega hefur verið farið yfir starfið í heild sinni þannig að mig langaði bara að koma inn á þá tvo þætti sem ég þekki best, eða kannski þrjá. Ég vil byrja á þeim mikilvægasta. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að mikilvægasti þátturinn er afnám stjórnsýsluhindrana. Það starf sem fer fram innan Norðurlandaráðs í að afnema stjórnsýsluhindranir er í anda vilja íbúa svæðisins, það er það sem við viljum öll. Við viljum geta ferðast og flutt og búið hvar sem er innan Norðurlandanna, flutt með okkur öll okkar réttindi en um leið uppfyllt þær skyldur sem fylgja hverju landi. Þess vegna er sú vinna alveg ofboðslega mikilvæg sem unnin er innan Norðurlandaráðs.

Ég sit líka í sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs og þar hefur maður glöggt séð hversu alþjóðleg verkefnin sem blasa við okkur varðandi loftslagsmál og umhverfismál eru; að við erum öll að taka á sömu hlutum. Það er gríðarlega mikilvægt að við höfum þennan vettvang til að vinna saman að tillögum þar um eða eiga orðastað við þingmenn ólíkra flokka frá ólíkum löndum um þessi mál, ná saman eða jafnvel ekki, eins og hefur komið fyrir, horfa á hvaða verkefni verið er að vinna þar, sem við getum nýtt okkur hér. Það á eins við um það þriðja sem ég ætlaði að koma inn á, sem er þingmannanefnd Eystrasaltsráðsins sem ég nefndi áðan. Þar er friðsamlegur borgaralegur vettvangur, einn af örfáum, þar sem Rússar sitja t.d. með öðrum vestrænum þjóðum og semja um hitt og þetta. Það er vissulega bundið við Eystrasaltið eins og nafnið ber með sér en við erum með fulltrúa í gegnum Norðurlandaráð og svo ekki síst í gegnum okkar ágætu tengsl við Eystrasaltslöndin.

Ég held að allt alþjóðasamstarf gefi okkur alltaf ótrúlega mikið og mig langar að enda á sömu nótum og ég hóf mál mitt á að taka undir mikilvægi þess að við séum óhrædd við að setja fjármuni í þetta samstarf af því að það skilar sér margfalt til baka, ég tek undir það. Allt alþjóðlegt samstarf skilar okkur miklu en samstarf við okkar nánustu nágranna sem á sér stað í gegnum Norðurlandaráð — ég tala nú ekki um Vestnorræna ráðið — er það samstarf sem mér finnst að við sem þjóð ættum að hafa mest í hávegum. Það er samstarf við okkar nánustu nágranna.



[16:49]
Forseti (Björn Leví Gunnarsson):

Forseti gerir ekki athugasemd við málfarið enda finnst orðið bravúr í orðaneti Árnastofnunar og það tengt við orðið glæsileiki. Ekkert að því.



[16:50]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú að byrja á að þakka hv. þingmönnum sem hér hafa talað, og Íslandsdeildinni fyrir skýrsluna, og sérstaklega formanni Íslandsdeildar, hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, fyrir ræðuna. Nú er ég þingmaður sem á ekki sæti í Íslandsdeild Norðurlandaráðs þannig að mig langaði jafnframt kannski að bera fram spurningar eða hugðarefni og hv. þingmenn velja auðvitað sjálfir hvort þeir bregðast við því. En ég ætla fyrst að segja að það er ánægjulegt að heyra talað um að þrátt fyrir Covid hafi náðst að halda uppi svo miklu samstarfi. Ég hygg nefnilega að við höfum getað lært ýmislegt á þessum hamförum, m.a. þetta með fjarfundabúnaðinn og hvað hægt er að gera margt með honum þó að hann komi auðvitað aldrei í staðinn fyrir að hitta fólk og ræða málin. En maður sér fyrir sér að það geti verið ákveðin góð viðbót við það starf.

Mér fannst verðlaunaafhendingin á RÚV alveg einstaklega skemmtileg og flottur viðburður og bara til mikillar fyrirmyndar hvernig var hægt að leysa úr þessu. Ég ætlaði líka að segja að það sem ég hélt að hefði verið þing Norðurlandaráðs við upphaf þingsins, en var þá þessi sérstaki fundur sem var opinn fleirum, var mjög áhugavert og skemmtilegt. Ég man að þar kom fram ein spurning til forsætisráðherranna um samstarf varðandi bólusetningarskírteini eða skírteini fyrir þá sem væru með mótefni. Mér var eiginlega svolítið brugðið eða ég var ekki alveg nógu sátt við það hvernig svör norrænu forsætisráðherranna voru nema þá þess íslenska, sem mér fannst tala fyrir þess konar samstarfi og að það væri mikilvægt. En mér fannst leiðinlegt að heyra hvað aðrir drógu úr mikilvægi þess að Norðurlöndin gætu unnið saman í þessum faraldri og haldið þá alla vega uppi ferðaþjónustu innan svæðisins.

Það sem mig langaði kannski aðeins að spyrja út í eða varpa hér fram er skýrsla Björns Bjarnasonar sem hann skrifaði fyrir utanríkisráðherra og ég veit að hefur verið kynnt utanríkisráðherrum Norðurlandanna. Mig langar að vita hvort eitthvað hafi verið fjallað um hana og hvort umræðan sé eitthvað komin af stað meðal þingmanna um eina af tillögunum sem þar eru, um að Norðurlöndin komi sér saman um ákveðna stefnu um viðbrögð við ásókn Kínverja inn á norðurslóðir. Kínverjar hafa sýnt norðurslóðamálum mikinn áhuga og hafa eins og öll ríki á jarðarkúlunni ástæðu til að hafa áhyggjur og sýna áhuga á því sem þar er að gerast. En það hefur líka valdið ákveðnum ugg hjá sumum smærri ríkjum og sumir hafa áhyggjur af því að þetta sé að verða svolítil stórveldabarátta. Þannig að mér finnst hafa farið einkar vel á þeirri tillögu að Norðurlöndin ræði þetta, að svolítil greining verði gerð á því hvar hagsmunir þessa svæðis liggi þegar að þessum málum kemur. Og ég vil því alla vega hvetja til þess, ef það hefur ekki farið af stað nú þegar, að þau mál verði rædd. Þó að þau verði kannski sett í einhvern formlegan farveg hjá utanríkisráðherrum Norðurlandanna þá finnst mér líka mikilvægt að við þingmenn ræðum þessi mál.

Hv. þingmenn komu aðeins inn á netöryggismálin sem eru auðvitað risastórt mál hjá okkur, og þessar fjölþátta ógnir eins og það er kallað. Ég veit ekki hvort margir þarna úti skilja þetta orðalag, fjölþátta ógnir, en netöryggi fellur þar undir. Við erum ekki lengur að tala um öryggismál bara út frá einhverjum skriðdrekum og landhernaði eða slíku, heldur er þetta orðið miklu flóknara og oft erum við að tala um öryggi út frá náttúruhamförum og netöryggi og fleira þess háttar. Það hefur hvarflað að manni að Norðurlandasamstarfið sé mjög góður vettvangur þegar kemur að þeim málum, að takast á við þessi stóru mál sem við vitum að er ekki hægt að vinna í öllu alþjóðasamstarfi. Það er bara þannig að þar eru löndin líka að takast svolítið á en maður hefur oft ímyndað sér að Norðurlandasamstarfið væri gott til þess að skoða öryggismálin.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra, ég sé að mér tókst að kalla fram andsvör og vonandi þá einhver svör eða samtöl um þessa punkta mína.



[16:55]
Frsm. ÍNR (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ræðuna og þær spurningar sem hún beindi til okkar í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Fyrst varðandi bólusetningarskírteinin. Þetta er einmitt mál sem við höfum rætt töluvert og að mínu mati fyndist mér liggja beint við að gefa út norræn bólusetningarskírteini sem yrði gagnkvæm viðurkenning á. Það er rétt hjá þingmanninum að ekki var tekið neitt sérstaklega vel í það á fundinum sem þingmaðurinn nefnir. Við í Mittengruppen, þ.e. í miðjuflokkahóp Norðurlandaráðs, sendum fyrirspurn til ráðherranna fyrir, ætli það séu ekki komnar tvær vikur, tíminn líður svo hratt, varðandi þetta mál og við bíðum svara. Það verður áhugavert að sjá hvert næsta skref verður en við hyggjumst fylgja þessu máli eftir gagnvart ráðherrunum.

Skýrsla Björns Bjarnasonar er afar góð, sérstaklega vegna þess að hún er svo skilmerkileg, auðlæsileg og góð. Hún verður kynnt og það verður fundur um þá skýrslu næsta mánudag með formlegum hætti.

Já, tíminn líður og líður. Ég er ekki einu sinni komin að Kína og netörygginu. Í stuttu máli sagt hafa netöryggismálin mikið verið til umræðu og það er rétt að gagnkvæmt traust ríkir á milli Norðurlandanna og einnig höfum við verið í samstarfi við Eystrasaltsþjóðirnar á þeim vettvangi. Þá ber kannski helst að nefna fjölþáttaógnasetrið í Helsinki sem við höfum lagt fjármagn til og ætlum að verða aðilar að, það var gert núna í síðustu fjárlögum. Við Íslendingar erum því að komast kannski með formlegri hætti inn í það samstarf sem snýr að fjölþáttaógnum, þar á meðal netöryggismálum.



[16:57]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að bregðast við þessu. Ég segi fyrir mitt leyti varðandi þá stöðu sem upp kom í Covid að maður varð fyrir smávonbrigðum með samstarfsleysi Norðurlandanna og átti kannski von á meiru því að við tölum svo fallega hvert um annað og við erum svo sterk saman og allt það, þannig að maður varð fyrir ákveðnum vonbrigðum með lokun landamæra og lítinn vilja virtist vera. En vonandi fer það batnandi.

Ég er sammála hv. þingmanni. Það er mjög mikilvægt að við séum komin inn í þetta netöryggissetur í Eistlandi. Ég held að það skipti miklu máli. Ég held að við þurfum að ræða meira um netöryggismálin. Við sáum nýverið fréttir af því að Danir hafa verið að hleypa eða leyfa Bandaríkjamönnum að fá gögn af þeirra kapli. Það skiptir auðvitað máli hvernig við tökumst á við þessi mál og maður hefði einmitt ímyndað sér að Norðurlöndin ættu margt sameiginlegt. Þótt við séum auðvitað lítið ríki, og Norðurlöndin eru það öll í alþjóðasamanburði, ætti þetta í það minnsta að geta verið góð leið til að deila upplýsingum og þekkingu okkar á milli. Hvað netöryggismálin varðar hef ég oft sagt það hér að þó að við höfum stigið mörg góð skref alveg á síðustu misserum þá á okkur öllum að vera ljóst að við eigum mjög langt í land og við þurfum alveg að fara á spretthlaup. Þetta er örugglega maraþon, en við þurfum að fara ansi hratt af stað.



[16:59]
Frsm. ÍNR (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það ríður á að við tökum fast á netöryggismálunum, það er mjög aðkallandi verkefni. Það hefur mikil umræða verið um þau mál innan Norðurlandaráðs og einnig á milli utanríkisráðherra Norðurlanda, eftir því sem ég kemst næst. Þá komum við líka að ásókn Kínverja á norðurslóðir og öðru sem snýr að utanríkismálum. Það eru kannski takmörk fyrir því hversu langt við þingmenn Norðurlandanna, sem eigum sæti í Norðurlandaráði, getum seilst í að hafa áhrif á utanríkisstefnu annarra ríkja og upplýsingagjöf þeirra á milli. Þetta eru oft og tíðum leynilegar upplýsingar og þó að ríki traust og gott samstarf þá eru ákveðin takmörk sem takmarka kannski í sumum tilfellum upplýsingaflæði. En þó er hægt að segja að fagráðherrar Norðurlandanna eru ekki bara í reglulegum formlegum samskiptum heldur einnig óformlegum. Hvað varðar Kínverjana hefur Norðurlandaráð kannski ekki verið með það málefni ofarlega á baugi þó að það hafi komið til tals. Við erum ekki komin með sérstaka stefnu. En það kom út skýrsla í sænska þinginu eftir því sem ég veit best, líklega 2019, varðandi Kína. Ég hef ekki séð þá skýrslu og við höfum ekki tekið hana fyrir með formlegum hætti í Norðurlandaráði. En þetta er málefni sem við munum halda áfram að skoða og fylgjast grannt með.



[17:01]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni og ítreka að ég held að mikilvægt sé að þingmenn á Norðurlöndunum ræði saman um þetta mál. Ég nálgast þetta auðvitað svolítið út frá norðurslóðamálum og Norðurlandaríkin eru öll þátttakendur í því starfi og eru í Norðurslóðaráðinu. Þar af leiðandi, sitjandi við borðið með hinum stórveldunum, Bandaríkjunum og Rússlandi og svo Kanada, er eðlilegt að þessi málaflokkur, þykir mér alla vega, sé svolítið ofarlega þegar við þingmenn þessara landa ræðum saman. Þá er ásókn Kínverja eitt af málunum en auðvitað er margt annað sem lýtur að norðurslóðamálum og við munum kannski ræða undir öðrum alþjóðaskýrslum. Ég var aðeins að kalla eftir því hvernig umræðan hefur verið meðal þingmanna í Norðurlandaráði um norðurslóðamál og það sem hæst ber í þeim málaflokki og ég þakka fyrir þessi svör.



[17:03]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er svo hrifinn af þeirri aðferð hv. þingmanns að kalla fram svör við spurningum í andsvörum við eigin ræðu, að ég ákvað að verða við kallinu og taka þátt í því. Ég er hjartanlega sammála að málefni norðurslóða þarf að ræða mjög. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir kom inn á að á vettvangi Norðurlandaráðs í heild sinni hafi þau ekki verið rædd en verði það. Ég veit að þetta hefur verið rætt í einstaka nefndum og þykist vita að forsætisnefnd hafi eitthvað rætt þetta. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir kom inn á fund sem verður á mánudag þar sem þetta verður rætt áfram. Þetta hefur verið rætt í einstaka flokkagrúppum og auðvitað eru mjög ólíkar áherslur innan Norðurlandanna um margt í þessu. Hér hefur verið talað um netöryggismál. Á því ári sem liggur undir hér höfum við verið að ræða m.a. um njósnir Bandaríkjanna í Danmörku. Það kemur inn í þau mál sem við höfum rætt innan okkar raða og hvað norðurslóðir varðar og ásælni þar verðum við að muna að akkúrat á því tímabili var Bandaríkjaforseti að bjóðast til að kaupa Grænland. Það litaði töluvert umræðuna líka. Ég myndi því aldrei smætta hana niður í það að hún snerist bara um ásælni Kínverja heldur um norðurslóðir og ásælni, eins og hv. þingmaður kom reyndar aðeins inn á, stórveldanna þar. Þar höfum við sum, t.d. í flokkahópi Vinstri grænna, talað fyrir því að norðurslóðir verði lágspennusvæði, jafnvel engin hernaðarmannvirki, og talað fyrir kjarnorkuvopnalausum norðurslóðum því að kjarnorkuslys á því svæði gerir t.d. Ísland algerlega óbyggilegt og sennilega bara öll Norðurlöndin. Því miður hefur okkur ekki tekist að fá alla flokkahópa með okkur í þetta. En ég fagna áhuga á þessu og myndi telja t.d. að Norðurskautsráðið (Forseti hringir.) ætti að taka höndum saman um að hafa norðurslóðir lágspennusvæði og kjarnorkuvopnalaus.



[17:05]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma í andsvar við mig. Þessi nýstárlega leið er kannski sökum þess að ég hafði ekki tök á að fara í andsvar við hv. þingmenn þegar þeir héldu sínar ræður. En ég fagna þessu og ég tek undir að það er mjög mikilvægt að ræða málefni norðurslóða sem víðast. Nú hef ég haft tækifæri til að sitja eitt þing Norðurlandaráðs og ég átta mig á því að á slíkum risastórum viðburðum verður kannski ekki djúp umræða um svona hluti. En það að ræða norðurslóðamál á vettvangi Norðurlandaráðsþings held ég að sé mjög mikilvægt, hvort sem það er í flokkagrúppunum eða í undirhópunum. Þar er auðvitað af mjög mörgu að taka og ég hygg að öll Norðurlöndin séu með það í sinni norðurslóðastefnu að vilja að norðurslóðir séu lágspennusvæði. Spurningin er aftur á móti hvort þær séu það og hvort við höfum tök á að vera ráðandi aðili í því að svo sé. Við getum sannarlega lagt mikið til umræðunnar í þeim efnum og ég held að ósk allflestra, ef ekki allra, sem koma að Norðurskautsráðinu sé að þetta sé lágspennusvæði.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir það sem hann kom inn á og vísaði aðeins í það sem rætt hefur verið í flokkahópnum. Við getum líka velt fyrir okkur náttúruauðlindum, nýtingu náttúruauðlinda. Hvers konar náttúruauðlindir er eðlilegt að nýta? Hvers konar náttúruauðlindir er ekki eðlilegt að nýta? Hver er framtíð hafsvæðisins sem við mörg hver á Norðurlöndum byggjum auðvitað okkar afkomu mikið á, alla vega við á Íslandi? Þetta eru spurningar og umræða sem á heima örugglega á öllum Norðurlöndunum, ekki síst hjá okkur á Íslandi. Það eru miklir hagsmunir undir og ég þreytist ekki á að segja að við erum norðurslóðaríki og við eigum að tala um okkur sem slíkt og við eigum að leggja áherslu á það í allri okkar utanríkispólitík.



[17:07]
Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég heyri mikinn og góðan samhljóm á milli mín og hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur. Hv. þingmaður sagði að við værum sammála um að norðurslóðir ættu að vera lágspennusvæði en spurningin væri hvort þær séu það og hvort við getum lagt eitthvað af mörkum til að svo verði. Orð eru til alls fyrst. Ef Norðurlöndin, öll lönd á svæðinu, ná saman um að lýsa því yfir að norðurslóðir séu lágspennusvæði, svæði þar sem engin hernaðarumsvif eða -mannvirki verða og að þau svæði verði friðuð fyrir umferð og meðferð kjarnorkuvopna, þá er það býsna sterk rödd. Ef við gerum það ekki þá eru það skilaboð til einhverra sem vilja eitthvað af þessu, að það sé ekki endilega stefna fólks á þessu svæði. Þannig að hvert og eitt okkar sem höfum rödd í þessu berum ábyrgð á að tala fyrir þessari stefnu, sama hvort það er hér í þingsal eða innan þess alþjóðasamstarfs sem við tökum þátt í. Ef við látum ekki vita að við viljum lágspennusvæði, að við viljum horfa á norðurslóðir fyrst og fremst út frá loftslagsmálum, svo að dæmi sé tekið, af hverju ætti þá einhver endilega að taka tillit til þess? Ef við náum hins vegar saman um þetta á Alþingi, innan alþjóðasamstarfs, þá erum við búin að setja mikilvægt og gott fordæmi.

Því miður hefur sú samstaða ekki tekist á milli allra flokkagrúppa í Norðurlandaráði þegar komið hafa t.d. tillögur um friðlýsingu fyrir kjarnorku. Ég hef átt þátt í að flytja slíkar tillögur og við erum með í undirbúningi tillögu sem horfir á norðurslóðir fyrst og fremst út frá loftslagsmálum. Það er það sem við eigum að gera, tala fyrir loftslags- og umhverfismálum því að þar eru norðurslóðir viðkvæmastar.



[17:10]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði getað fallið frá andsvarinu en þetta voru engu að síður svo áhugaverðir punktar sem hv. þingmaður kom inn á. Ég tek undir þetta og það er í norðurslóðastefnu Íslands að norðurslóðir séu lágspennusvæði. Við erum reyndar að vinna að endurskoðun þeirrar stefnu og þetta er ein af þeim spurningum sem við þurfum að svara. Ég held að allir geti svarað því skýrt að þeir vilji að svæðið sé lágspennusvæði. Spurningin er aftur á móti hvort það sé það, hvert sé raunverulegt mat á því. Þá þurfum við líka aðeins að tengja okkur raunveruleikanum, hvað er í gangi. Það eru ekki bara Norðurlöndin sem hafa með það að gera, við höfum séð mikla uppbyggingu hernaðarmannvirkja hjá Rússum á norðurslóðum. Sumir telja að það sé kannski eðlilegt vegna þess að þeir séu að verja sín landamæri og séu bara allt í einu að horfa fram á nýjan veruleika, en þeir eru að horfa fram á nýjan veruleika vegna loftslagsbreytinga. Auðvitað snúast því norðurslóðamálin að miklu leyti um loftslagsbreytingar. Og það er stóra málið og er í mínum huga stóra málið hvernig hægt er að búa á norðurslóðum í því umhverfi sem er í dag og í því umhverfi sem við sjáum til framtíðar. Á sama tíma og við ættum að sjálfsögðu að reyna að draga úr útblæstri og draga úr óæskilegum áhrifum þá eru þau til staðar og þau verða til staðar og við þurfum að finna leiðir til að draga úr þeim. En það er kannski ræða sem á frekar heima undir einhverri annarri umfjöllun.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með mér í þetta samtal og hvet hv. þingmenn sem sæti eiga á þingi Norðurlandaráðs til að halda þessari umræðu á lofti innan Norðurlandaráðs.