151. löggjafarþing — 56. fundur
 17. feb. 2021.
almenn hegningarlög, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 267. mál (kynferðisleg friðhelgi). — Þskj. 863.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[13:56]

Frv.  samþ. með 49 shlj. atkv. og sögðu

  já:  AFE,  AIJ,  AKÁ,  ÁÓÁ,  ÁslS,  ÁsF,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BLG,  BHar,  GBr,  GIK,  GuðmT,  GBS,  HSK,  HVH,  HHG,  JÞÓ,  JSV,  KGH,  KJak,  KÓP,  KÞJ,  LA,  LRM,  LínS,  LE,  NTF,  OH,  OC,  ÓGunn,  ÓÍ,  ÓBK,  PállM,  RBB,  SEÞ,  SÁA,  SPJ,  SMc,  SJS,  SÞÁ,  WÞÞ,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞorS,  ÞórP,  ÞórdG.
14 þm. (ATG,  ÁsmD,  BergÓ,  BN,  GÞÞ,  HKF,  HarB,  IngS,  JónG,  SDG,  SIJ,  SilG,  SSv,  VilÁ) fjarstaddir.
4 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[13:52]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er mikið fagnaðarefni að við séum að lögfesta þetta frumvarp í dag. Það er freistandi að fara út í það hver hafi borið fram þetta mál eða unnið að því. Ég vil samt þakka samt hæstv. forsætisráðherra fyrir samráð sem átt hefur verið við aðra aðila sem unnið hafa að málaflokknum í gegnum tíðina. Þá vil ég líka minna á að það var Björt framtíð sem kom þessu máli á dagskrá á sínum tíma og nefni ég það hér þar sem ég gagnrýndi það frumvarp frekar harðlega fyrir útfærsluna, en það ber að þakka fyrir hvaðan málin koma. En ég vildi líka sérstaklega þakka þeim einstaklingum í samfélaginu, aðallega konum, sem urðu fyrir því ofbeldi sem við erum að taka á hér og höfðu kjark og þor til að koma fram og koma þessu máli á dagskrá. Ofbeldið sem við erum hér að taka á er þess eðlis að fólk veigrar sér við að tala opinskátt um að það verði fyrir því, það er eðli brotsins. Við megum ekki gleyma hetjuskapnum sem þurfti til að koma þessu máli á dagskrá af hálfu fórnarlamba glæpsins sjálfs.



[13:53]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessu framfaramáli og fagna samstöðunni sem er um þetta framfaramál sem snýst um að taka á kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni í stafrænum heimi. Það frumvarp sem við afgreiðum hér byggir á mikilli greiningarvinnu og samráði. Og það er alveg hárrétt sem fram kom hjá þeim hv. þingmanni sem talaði á undan mér, þau hafa verið mörg sem hafa léð þessu máli stuðning sinn, talað fyrir því og barist fyrir því hér í þingsal sem og úti í samfélaginu. En þetta sýnir eindreginn vilja Alþingis til að taka á dekkri hliðum tækniþróunar og taka í raun á kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Ég vil að lokum líka þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að leiða þetta mál til lykta með farsælum hætti í samráði við hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég segi já.

(Forseti (SJS): Það er að vísu ekki nafnakall.)

Var ég ekki að gera grein fyrir atkvæði?

(Forseti (SJS): Jú.)



[13:54]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir vinnu hennar við gerð þessa frumvarps og öllum þeim sem unnið hafa að þessum breytingum. Lagaumhverfið verður auðvitað fyrst og fremst að endurspegla samfélagið sem við búum í og það hefur ekki gert það hvað varðar sendingu nektarmynda eða hótana um slíkt, en það mun gera það eftir að þessi löggjöf er samþykkt. Því er ég mjög glöð að sjá þann mikla stuðning sem málið er að fá hér í þinginu. Það viðhorf að sending nektarmynda feli í sér sjálfkrafa samþykki fyrir opinberri dreifingu efnisins er jafn úrelt viðhorf og að konur sem birta af sér kvenlegar sjálfsmyndir séu að kalla yfir sig kynferðislega áreitni.



[13:55]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er gott og afar mikilvægt mál sem tekur á vanda sem lengi hefur blasað við okkur. Þetta er þungt samfélagsmein og hefur alvarlegar afleiðingar á líf og velferð þeirra sem fyrir verða. Ég fagna þessu sérstaklega og þar sem ég er að gera grein fyrir atkvæði mínu þá segi ég tvímælalaust já.

(Forseti (SJS): Það er í góðu lagi að þingmenn lýsi yfir eindregnum stuðningi sínum við mál, hvort sem þeir segja já eða orða það öðruvísi, en hér fer fram hin rafræna atkvæðagreiðsla þannig að það er hnappurinn sem gildir.)