151. löggjafarþing — 57. fundur
 18. feb. 2021.
opinberar fjárfestingar og atvinnuhorfur.

[13:02]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í dag eru nákvæmlega 140 dagar liðnir frá því að hæstv. formaður Framsóknarflokksins kom hér upp nokkuð borubrattur, undir stefnuræðu forsætisráðherra, og hrópaði: Atvinna, atvinna, atvinna. Hann sagði þjóðina standa í miðju stríði í kórónuveirufaraldri og helsta andsvar okkar við því væri að skapa atvinnu. Þetta gaf auðvitað ýmis fyrirheit en við skulum skoða aðeins hvernig málum er háttað í dag. Það eru yfir 26.000 manns atvinnulaus á Íslandi og samt gerðu fjárlög ríkisstjórnarinnar ekki ráð fyrir að atvinnuleysi myndi lækka nema um 1 prósentustig á þessu ári. Nýleg þjóðhagsspá Íslandsbanka sýnir að þetta muni ekki einu sinni nást heldur verði atvinnuleysið töluvert meira í haust en áður var gert ráð fyrir. Sama spá, reyndar fleiri mælingar, sýnir einnig að fjárfesting hins opinbera verði töluvert minni en ríkisstjórnin lofaði.

Í skýrslu Samtaka iðnaðarins, sem kom út í gær, var birt falleinkunn. Þar er gagnrýnt hversu lítið er lagt í opinberar fjárfestingar. Þær nægi ekki til þess að ná uppsafnaðri viðhaldsþörf næstu tíu árin. Frá því í vor höfum við í Samfylkingunni kallað eftir því að ríkið nýti góð lánakjör og fjárfestingarsvigrúm til að ráðast í miklu kraftmeiri aðgerðir, auka verðmætasköpun, skapa atvinnu og undirbyggja nýjar útflutningsstoðir. Síðast en ekki síst auðvitað að veita meiri stuðning til heimila sem fara verst út úr kreppunni. Um þetta virðist ekki deilt nema þá helst hjá ríkisstjórninni. Nú væri fróðlegt að fá svör hæstv. ráðherra við því af hverju ekki er að takast að skapa fleiri störf þrátt fyrir loforð um annað. Í öðru lagi: Hvernig stendur á því að fjárfestingar hins opinbera eru ekki að skila sér?



[13:04]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp. Ég held að við séum algjörlega sammála um að lausnin út úr þeim vanda sem við erum í er að við sköpum eins mikla atvinnu og hægt er, bæði hið opinbera með opinberum fjárfestingum og að örva almenna atvinnulífið. Það erum við að gera með frumvarpi sem er hjá þinginu um skattalega hvata, bæði á yfirstandandi ári og næsta ári vegna grænna fjárfestinga. Ég er sammála hv. þingmanni að við þurfum að gera meira en minna í því. Við verðum að horfa til enn frekari opinberra fjárfestinga.

Það er rétt að sumt af því sem við ætluðum að koma í gang á síðasta ári dróst og fer þá yfir á þetta ár. Þetta ár verður þá enn betra heldur en var áformað. Ég get nefnt sem dæmi að hjá Vegagerðinni voru fjárheimildir fyrir nokkra milljarða vegna síðasta árs. Þannig hefur það reyndar verið á undanförnum árum. Ég hef rætt það aðeins við nokkra þingmenn úr umhverfis- og samgöngunefnd að þegar menn fara að uppfæra það plagg sem þar er, þ.e. töflurnar, þá ættum við að horfa til þess að í fimm ára aðgerðaáætlun samgönguáætlunar eigi að vera aðeins meira en rímar við fimm ára fjármálaáætlun. Við höfum verið dálítið upptekin af því að láta það vera eiginlega á sama pari en ég er á þeirri skoðun og það sýnir reynslan að Vegagerðin þurfi að hafa fleiri verkefni til að taka úr hillunni og koma í framkvæmd vegna þess að staðreyndin er, og ég veit að hv. þingmaður getur verið sammála mér um það, að alls konar seinkanir, hvort sem eru tafir á umhverfismati eða skipulagi eða jafnvel í hönnuninni, gera stundum að verkum að verk fara seinna af stað en ella. Það kemur niður á hagstjórninni og því markmiði okkar að skapa atvinnu. (Forseti hringir.) Þannig að ég held að það sé ein leið til að takast á við þetta og við munum sjá meiri framkvæmdir á þessu ári fyrir vikið.



[13:06]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Öll heimsins umhverfismöt, hönnun og undirbúningur framkvæmda lá auðvitað alveg fyrir þegar hæstv. ráðherra gaf þessi loforð í fyrra. Nú er bara spurning hvað brást og af hverju þetta er ekki efnt af meiri þunga. Reykjavíkurborg er að taka forystu með grænu fjárfestingarplani, langt á undan ríkinu hvað varðar framsækni í opinberum grænum fjárfestingum. Ég hef staðið hér margoft og óskað eftir svörum hæstv. ráðherra við því hvort hann vilji og telji að það þurfi ekki að leggjast fastar á árar með sveitarfélögum í landinu til þess að þau geti haldið uppi sínu fjárfestingarstigi vegna þess að þau standa sögulega undir helmingi af allri opinberri fjárfestingu. Ég spyr: Kemur enn þá til greina að gera meira þar? Og ég spyr bara aftur: Hvað brást, hvað dróst, hvaða óvissuþættir voru það sem leiddu til þess að við erum ekki að ná því sem þó var lofað?



[13:08]
samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hvað dróst? Ég held að við verðum bara að viðurkenna að ýmislegt í okkar kerfi gerir það að verkum að það gengur hægar frá því að við tökum ákvörðun um að fara í framkvæmdir, sem virðast vera tilbúnar, þangað til að þær fara af stað. Það er bara reynslan. Þegar við förum að horfa til baka og athuga hvernig við getum leyst úr því, þá var eitt af því sem ég nefndi hér að hafa t.d. aðeins meira á dagskrá í fimm ára aðgerðaáætlun samgönguáætlunar en rímar nákvæmlega við fjármálaáætlun. Það kom t.d. upp óvænt að Skipulagsstofnun ákvað að breikkun vegar á Kjalarnesi þyrfti að fara í umhverfismat. Það var ný túlkun. Það var eitthvað sem við vissum ekki af og það seinkaði þeim hluta af þeirri framkvæmd um þó nokkra mánuði. Það eru því til rökréttar ástæður fyrir einhverjum seinkunum.

En ég held að við eigum bara að læra af þessu og vera þá frekar undirbúin með meira. Ég er sammála hv. þingmanni og við í Framsóknarflokknum höfum sagt að ef við náum ekki almenna markaðnum nægjanlega vel í gang þurfum við hjá hinu opinbera að gera meira. Við höfum, ríkisstjórnin, líka sagt í yfirlýsingu við sveitarfélögin að við munum fylgjast með. Við munum vera tilbúin að hjálpa svo að sveitarfélögin geti sinnt sinni (Forseti hringir.) lögboðnu þjónustu. Það er hins vegar staðreynd að sveitarfélögin eru mjög dugleg að fara í fjárfestingar þrátt fyrir að þurfa að taka lán fyrir því eins og aðrir. (Forseti hringir.) En við verðum líka að tryggja að þau geti gert það á mannsæmandi kjörum.