151. löggjafarþing — 57. fundur
 18. feb. 2021.
aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum, síðari umræða.
þáltill. HallM o.fl., 36. mál. — Þskj. 36, nál. m. brtt. 896.

[14:28]
Frsm. velfn. (Sara Elísa Þórðardóttir) (P):

Forseti. Í október síðastliðnum mælti hv. þm. Halldóra Mogensen fyrir tillögu þessari til þingsályktunar um aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum. Í nefndaráliti velferðarnefndar, sem ég flyt hér, er að finna eina breytingartillögu sem snýr að þeim tímaramma sem getið er í tillögunni sjálfri. Nefndin telur að sá tímarammi sem áskilinn er í 2. mgr. tillögugreinarinnar, apríl 2021, sé óraunhæfur og leggur því til í staðinn að 2. mgr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Ráðherra geri Alþingi grein fyrir þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til og áætlun um frekari aðgerðir eigi síðar en í júní 2021.“

Virðulegi forseti. Ég ætla að lesa nefndarálitið. Öll nefndin er á því, sem er mjög ánægjulegt.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ölmu D. Möller landlækni og Kjartan Hrein Njálsson frá embætti landlæknis, Árnýju Sigurðardóttur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Sylgju Dögg Sigurjónsdóttur frá Eflu verkfræðistofu, Ólaf H. Wallevik frá Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og Vigdísi Evu Líndal frá Persónuvernd.

Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Gretu Ósk Óskarsdóttur, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Samiðn og SUM – Samtökum um áhrif umhverfis á heilsu.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að félags- og barnamálaráðherra, í samráði við heilbrigðisráðherra, leggi til nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum til að uppræta og koma í veg fyrir tjón vegna rakaskemmda í fasteignum.

Þær umsagnir sem nefndinni bárust vegna málsins voru almennt jákvæðar og hvatt til þess að tillagan yrði afgreidd. Þá var afstaða gesta sem fyrir nefndina komu almennt jákvæð.

Í umsögn Samiðnar er á það bent að fyrirhugað sé að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og það kynni að hafa neikvæðar afleiðingar á rannsóknir á myglu. Var hvatt til þess að áframhaldandi fjármagn yrði tryggt svo unnt væri að halda rannsóknum áfram.

Nefndin bendir á að meðal markmiða þingsályktunartillögunnar sé að efla sjálfstætt eftirlit með prófunum á byggingarefni áður en það er tekið í notkun hér á landi og að efla þekkingu fagaðila á rakaskemmdum og forvörnum gegn þeim. Telur nefndin mikilvægt að nýta þá þekkingu sem þegar er til staðar og hvetur stjórnvöld til þess að huga vel að þeim rannsóknum sem hafa verið framkvæmdar um árabil og tryggja að ekki verði rof í samfellu þeirra við það að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verði lögð niður.

Fagráð embættis landlæknis mætti fyrir nefndina. Í umsögnum til nefndarinnar og á fundi nefndarinnar var á það bent að embætti landlæknis hefði þegar sett á fót fagráð um rakaskemmdir og myglu. Í fagráðinu sitja sérfræðingar frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Vinnueftirliti ríkisins, Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, Landspítala og Eflu verkfræðistofu. Á meðal verkefna sem fagráðinu er ætlað að leysa er hvernig fræða megi heilbrigðisstarfsfólk um rakaskemmdir og áhrif þeirra á heilsu fólks; að útbúa ráðleggingar og leiðbeiningar um hvernig sé best að meðhöndla þau veikindi sem koma upp sökum rakaskemmda og myglu í húsnæði; hvernig best sé að veita almenningi ráðgjöf og fræðslu; að meta hvort þörf sé á því að stofna sérstakt teymi sérfræðilækna sem sinni sjúklingum sem glíma við veikindi sem rekja má til rakaskemmda og að koma með tillögur um hvernig megi efla forvarnir með tilliti til raka- og mygluskemmda.

Hlutverk fagráðsins er því að nokkru í samræmi við þær aðgerðir sem lagðar eru til í þingsályktunartillögunni. Telur nefndin mikilvægt að sú vinna sem þegar er hafin á vegum áðurnefnds fagráðs og vinna við þær aðgerðir sem lagðar eru til verði samtvinnuð eftir því sem unnt er. Telur nefndin að það myndi efla niðurstöður fagráðsins og flýta fyrir því að aðgerðum samkvæmt tillögunni verði komið í framkvæmd. Engu síður er einnig nauðsynlegt að tryggja framgang þeirrar vinnu sem er utan verksviðs fagráðsins, eða þarfnast frumkvæðis af hálfu ráðherra til að verða að veruleika. Flestar aðgerðir sem gerð er tillaga um og eru nauðsynlegar til að bregðast við þeim útbreidda vanda sem felst í rakaskemmdum og myglu í húsum eru á forræði félags- og barnamálaráðherra og verður forræði á slíkum aðgerðum að vera hjá ráðuneyti hans, óháð vinnu fagráðsins.

Gert var kostnaðarmat á þingsályktunartillögunni og niðurstöður þess mats eru sem hér segir:

Nefndin telur að unnt sé að útbúa gagnagrunn sem geri aðgengilegar á miðlægan hátt upplýsingar um framkvæmdir á húsnæði sem hluta af gagnagrunni sem þegar er til. Væri því um tiltölulega einfalda viðbót að ræða sem gæti kostað um 3 millj. kr. Árlegur rekstrarkostnaður slíks gagnagrunns þyrfti ekki að vera mikill, eða um 2 millj. kr.

Erfitt er að segja til um hvaða kostnað aðrir þættir þingsályktunartillögunnar munu bera með sér, en ráðherra er falin útfærsla á þeim og fer heildarkostnaður eftir umfangi og forgangsröðun. Þar er m.a. um að ræða aukið eftirlit með prófunum á byggingarefni og þekkingu fagaðila á rakaskemmdum og forvörnum gegn þeim. Ekki er útilokað að unnt væri að fjármagna þessa þætti á þann hátt að útgjöldin rúmist innan fjárheimilda gildandi fjárlaga og fer það þá eftir forgangsröðun um nýtingu fjárheimilda.

Aðrir þættir í tillögunni ættu ekki að hafa nein veruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs.

Nefndin leggur áherslu á að nauðsynlegt er að nægilegt fjármagn verði veitt til verkefnanna, en með góðum árangri væri unnt að draga verulega úr tilkostnaði samfélagsins vegna viðhalds á fasteignum og heilsufarslegu tjóni af völdum rakaskemmda og myglu.

Ég kem þá aftur inn á breytingartillögu nefndarinnar. Nefndin bendir á að aðrar leiðir kunni að vera færar til að ná fram þeim markmiðum sem að er stefnt í tillögunni en breytingar á lögum og reglugerðum. Þá telur nefndin að sá tímarammi sem áskilinn er í 2. mgr. tillögugreinarinnar sé óraunhæfur.

Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeirri breytingu sem gerð er grein fyrir í álitinu.

Undir nefndarálit þetta skrifa Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar, sú sem hér stendur, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, varaformaður velferðarnefndar, og Vilhjálmur Árnason, sem skrifar undir nefndarálit þetta með fyrirvara sem hann mun gera grein fyrir í ræðu.

Forseti. Rakaskemmdir í húsnæði eru viðamikið vandamál á Íslandi og í raun er gefið að vandinn sé útbreiddari en við gerum okkur grein fyrir í dag. Þó hefur nýlega aukist vitund um málefnið, m.a. vegna umfjöllunar fjölmiðla. Síðast í gær sáum við umfjöllun um Fossvogsskóla en vandamálið hefur leikið skólann grátt í lengri tíma. Veikindi tengd þessari lýðheilsuvá geta orðið alvarleg.

Í stuttu máli snýst tillagan um að fela hæstv. félags- og barnamálaráðherra að leggja til nauðsynlegar breytingar til þess að takast á við þau sex atriði sem koma fram í tillögunni, atriði sem koma svo til með að aðstoða eigendur fasteigna við að uppræta rakaskemmdir og koma í veg fyrir að nýbyggingar verði útsettar fyrir rakaskemmdum í framtíðinni.

Með tillögunni eru lagðar til breytingar á lögum og reglugerðum til að auka réttindavernd þeirra sem verða fyrir tjóni vegna rakaskemmda. Breytingarnar snúa helst að atriðum sem hafa með það að gera að leggja mat á rakaskemmdir og meðferð slíkra mála hjá tryggingafélögum. Í dag er staðan sú að það skortir samræmingu á aðferðum þeirra sem bjóða upp á mælingar á rakaskemmdum og myglu. Eins vantar samræmingu í aðferðafræði og því að meta alvarleika málsins yfir höfuð. Úrræðin eru mörg hver kostnaðarsöm og tjónið sjálft oft og tíðum utan ramma tryggingarréttar og í þeim tilfellum er tjónið hreinlega ekkert bætt. Það á líka við um innbú sem og að sjálfsögðu heilsufarslegt tjón.

Með tillögunni er lagt til að efla sjálfstætt eftirlit með prófunum á byggingarefni áður en það er tekið í notkun hér á landi. Hingað til hefur Rannsóknastofa byggingariðnaðarins gegnt því hlutverki en framtíð hennar er óljós þar sem hún er að leggjast af. Hið opinbera þarf að standa sig í stykkinu þegar kemur að því að tryggja grunnrannsóknir á byggingarefni við íslenskar aðstæður. Það ásamt aukinni fræðslu til fagaðila er ein meginforsenda þess að hægt sé að koma í veg fyrir rakaskemmdir í þeim húsum sem byggð verða í framtíðinni á Íslandi.

Þriðji punkturinn í tillögunni snýr að aukinni þekkingu fagaðila og er sjónum þá sérstaklega beint að aukinni þekkingu á hættu og líkum á rakaskemmdum strax á byggingarstigi. Á undanförnum árum hafa komið upp fjölmörg dæmi um rakaskemmdir og myglu í nýlegum húsum sem rekja má beint til byggingar þeirra og má þá nefna atriði eins og geymslu byggingarefna utan dyra og mögulegan skort á sérþekkingu við vinnu í votrýmum og við glugga svo að fátt eitt sé nefnt. Hér er auðvitað verið að hvetja til þess að vanda betur vinnubrögð í byggingargreininni.

Í tillögunni er lagt til að hæstv. ráðherra geri aðgengilegar á miðlægan hátt upplýsingar um framkvæmdir á húsnæði. Þar er tækifæri til fjölmargra útfærslna. Ég sé fyrir mér að það gæti mögulega litið svipað út og gagnagrunnur Samgöngustofu um bifreiðaskoðun eða heilsuvera.is. Að kaupa húsnæði er ein stærsta fjárfesting sem við förum í á lífsleiðinni. Hugmyndin er þarna að hægt sé að safna saman miðlægt upplýsingum um þær framkvæmdir sem hafa sannanlega verið gerðar á húsnæði og gætu haft áhrif á fyrirætlanir væntanlegra kaupenda og leigjenda.

Í fimmta lagi er lagt til að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir jákvæðum hvötum til að hægt sé að tryggja fasteign með fullnægjandi hætti gegn rakaskemmdum. Síðasti töluliður tillögunnar felur hæstv. ráðherra að taka upp jákvæða hvata fyrir fasteignaeigendur til að koma í veg fyrir rakaskemmdir á þeim fasteignum sem nú þegar er búið að byggja á Íslandi. Í tillögunni er orðalagið viljandi haft opið til að gefa hæstv. ráðherra kleift að hugsa mögulega aðeins út fyrir boxið.

Ég fer að ljúka máli mínu um þetta mikilvæga mál en að lokum vil ég aðeins tala um læknisfræðilega hluta þess sem við ræðum. Áhrifin á mannslíkamann þar sem myglu er að finna eru mjög mismunandi en alvarlegar sýkingar í öndunarfærum og áhrif á húð eru líklega algengust. Auðvitað er mygla mismunandi og hún er ekki öll hættuleg og þá fer hún að sjálfsögðu ólíkt í fólk. En í ljósi þess að greiningartækin eru enn sem komið er nokkuð fá og meðferðarúrræðin líka þá er svo mikilvægt að við leggjum mikinn þunga í þær forvarnaaðgerðir sem tillagan kveður á um.

Í lok þingsályktunartillögunnar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra geri Alþingi grein fyrir þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til og áætlun um frekari aðgerðir eigi síðar en í júní 2021.“

Til að skýra þetta orðalag og taka allan vafa af um hvað við er átt þá er átt við að ráðherra geri grein fyrir þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til og eins áætlun um frekari aðgerðir með munnlegri skýrslu hér á Alþingi.

Þessi þingsályktunartillaga, virðulegi forseti, er þjóðþrifamál og ég gleðst djúpt og innilega yfir því að málið sé komið þetta langt í meðförum þingsins. Ég vil þakka sérstaklega hv. velferðarnefnd allri sem hefur í verki sýnt skilning á alvarleika málsins sem þarna er undir og nauðsyn þess að stjórnvöld taki málaflokkinn föstum tökum. Það er sérstaklega gleðilegt að öll nefndin sé á málinu og ég vil þakka nefndarmönnum öllum fyrir gott samstarf um þetta mál. Að lokum vona ég að farsæld þess hér innan þings haldi áfram og að málið verði samþykkt hér í þingsal þegar kemur að því að greiða atkvæði um það.



[14:44]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um þingsályktunartillögu Pírata um aðgerðir vegna rakaskemmda í fasteignum. Flutningsmaður er hv. þm. Halldóra Mogensen. Ég er ásamt mörgum öðrum á þingsályktunartillögunni og einnig á nefndarálitinu. Þetta er hið besta mál. Það er löngu tímabært að við tökum á þessu vandamáli sem er ótrúlega viðamikið á Íslandi og því miður hefur lítill áhugi verið sýndur á að taka á því. Vonandi verður með þingsályktunartillögunni tekið til hendi og málið tekið föstum tökum.

Það tekur ekki nema 24–48 klukkustundir fyrir myglu að myndast í íbúðarhúsnæði við réttar aðstæður. Hún myndast yfirleitt í veggjum eða í undirgólfi. Fyrstu einkenni eru yfirleitt bara kvef og þá er eins gott að ónæmiskerfi viðkomandi sé virkt því að á eftir getur fylgt hnerri, kláði í húð, höfuðverkur og pirringur. En ef ekkert er að gert getur þetta enn versnað og það til muna. Fyrir þá sem eru viðkvæmir getur orðið þyngdartap, húðkláði, niðurgangur, síþreyta, þeir hósti blóði í verstu tilfellum og minnistap verður. Þetta sýnir svart á hvítu hversu alvarlegt mygluvandamálið getur verið. Það segir okkur að við höfum eiginlega verið sofandi á þessu sviði og sérstaklega er varðar skólahúsnæði. Það segir sig sjálft að börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir myglu og gróum hennar, vegna þess að ónæmiskerfi barna er ekki búið að aðlaga sig nóg að þessu vandamáli.

En orsakir í þessum málum er að finna í byggingum. Því er eiginlega sorglegt til að vita að vandamálið sé meira að segja til staðar í nýbyggingum. Og hvers vegna er það til staðar í nýbyggingum? Jú, því miður er flýtirinn það mikill og regluverkið þannig að það virðist gjörsamlega happa og glappa hvort farið er að lögum og byggingarnar byggðar á réttan hátt. Í mörgum tilfellum virðist það vera að sá sem á að hafa eftirlitið er sjálfur byggingaraðilinn eða tengdur honum. Það er auðvitað eitt af þeim vandamálum sem við þurfum og erum vonandi að leysa þannig að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi öll ráð í hendi sér til að sjá til þess að svona vandamál verði undantekning, algjör undantekning, og eftirlitið verði síðan þannig að ef þetta kemur í ljós verði hægt að grípa inn í það alveg á stundinni.

Þetta er mjög knýjandi mál. Tjón á húsnæði getur verið gífurlega kostnaðarsamt en í mörgum tilvikum er ekki hægt að bæta heilsutjónið sem einstaklingar verða fyrir vegna myglunnar. Það er kostnaðarsamt að þurfa að lagfæra húsnæði og einnig fyrir þjóðfélagið ef fólk dettur út af vinnumarkaði eða verður á annan hátt óvinnufært og jafnvel ófært um að hugsa um sjálft sig vegna afleiðinganna sem þetta getur valdið. Maður hefur heyrt ótrúlegar sögur af því hvernig fólk hefur farið út úr þessu vandamáli.

Þess vegna eru það líka gleðitíðindi að verið sé að reyna að finna upp nýjar aðferðir í byggingargeiranum. Eitt af því sem hefur sýnt góðan árangur gegn myglu er hampurinn sem er notaður. Þar virðist myglan ekki geta náð sér upp. Við höfum því lausnir og við eigum að nota þær. Við eigum að sjá til þess á allan hátt að hafa regluverkið þannig að það sé algjörlega á tæru að svona hlutir gerist ekki, að húsnæði sé t.d. rangt byggt eða sé jafnvel ekki viðhaldið, eins og við höfum orðið vör við, og að ekkert eftirlit skuli vera. Jafnvel þegar tveir einstaklingar búa í parhúsi og annar aðilinn vill koma húsi sínu í lag, hafa allt á hreinu og passa upp á alla hluti getur hinn aðilinn látið það grotna niður og valdið stórtjóni með myglu og öðru. Það er eitthvað að í okkar kerfi meðan við látum þetta viðgangast.

Ég vona heitt og innilega að þegar þingsályktunartillagan fer til ráðherra verði sem fyrst farið að vinna eftir henni og þá verði svona hlutir teknir föstum tökum og séð til þess að ekki verði hægt, hvorki vegna slóðaskapar né annars, að hafa húsnæði þannig úr garði gert að það geti valdið gífurlegu tjóni á heilsu fólks. Eins og ég hef áður komið inn á getur fjártjónið verið rosalega mikið og valdið líka óbætanlegu tjóni fyrir viðkomandi sem kannski er nýbúinn að kaupa sér húsnæði og ræður ekki við þær viðgerðir sem þurfa að fara fram.

Þetta er hið besta mál og ég styð það heils hugar eins og hefur komið fram. Ég vona heitt og innilega að það fái góðan framgang og tillagan verði samþykkt.



[14:51]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar sem er flutt af hv. þm. Halldóru Mogensen og öðrum þingmönnum Pírata auk hv. þm. Vilhjálms Árnasonar. Þetta er mikilsvert mál og ég kveð mér hér hljóðs m.a. vegna þess að ég er einn af þeim sem skrifa undir nefndarálitið. Þetta er mikilvægt mál og eins og nokkrir hv. þingmenn hafa komið inn á hefur þetta nokkuð verið í umræðunni að undanförnu og hefur aðeins verið komið inn á samfélagsumræðuna sem tengist þessu.

Hér í þingsölum held ég að mér teljist rétt til að þessi mál hafi fengið svolítið flug, m.a. með skýrslubeiðni hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur árið 2018 frekar en 2019 ef ég man rétt, og ég var svo lánsamur að fá að vera með henni á þeirri beiðni. Þar er spurt eftir mörgum þeim atriðum sem verið er að biðja ráðherra að taka á í þessari tillögu. Það er nefnilega að verða, ég held að það sé óhætt að segja það, nokkurs konar vitundarvakning í samfélaginu gagnvart þessum málum. Það hefur a.m.k. undanfarin sex til átta ár verið ítrekaður fréttaflutningur af því að húsnæði, ýmist á vegum opinberra aðila eða einkaaðila, hafi sýnt sig vera illa íbúðarhæft eða illa nothæft vegna myglu og rakaskemmda. Það hafa nokkrir þingmenn komið inn á það hér að jafnvel skólabyggingar á vegum sveitarfélaga hafa lent í vanda vegna þessa. Skýrustu dæmin í seinni tíð eru annars vegar Fossvogsskóli, sem var nefndur í fjölmiðlum í gær varðandi þetta, og síðan Kársnesskóli við Skólagerði í Kópavogi, en þar var á endanum farin sú leið að jafna skólann hreinlega við jörðu þar sem slík óvissa þótti um myglu og rakaskemmdir og líkindin lítil til að einhvers konar viðgerðir hefðu raunveruleg varanleg áhrif til bóta. Það var valið að fara alla leið og jafna skólann við jörðu og byrja upp á nýtt.

Tillagan og tillögugreinarnar gera í raun ákveðinn áskilnað til ráðherra að taka saman þær aðgerðir og reyna að beina þeim í farvegi og sem betur fer kom í ljós, við vinnslu tillögunnar í nefndinni, að hluti af því sem kannski er bent á í tillögugreinunum, undir liðum 1–6, er að vissu marki þegar í gangi en hefur kannski ekki verið nægilega vel formgert og þá er þessi þrýstingur sem þarna er settur á ráðherrann að skila einhvers konar greinargerð eða skýrslu til þingsins innan tiltekins tíma mikilvægur. Það er nefnilega þannig að heilsufarsafleiðingar þess að annaðhvort búa eða starfa í húsnæði sem er undir þessu orpið getur verið mjög mikill og við erum jafnvel í seinni tíð að sjá fólk fá metna örorku vegna slíkra kvilla. Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta er einn af þeim skavönkum í samfélaginu sem er, ég ætla ekki að segja algerlega en að miklu leyti, fyrirbyggjanlegur. Þess vegna er svo mikilvægt að við séum svolítið á tánum.

Þessi mál eru nú komin undir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og ég vona að þegar eftirlitið og skoðunin er komin þar á eina hendi muni verða betri bragur á þessu og betri eftirfylgd. Þingmenn þekkja dæmin sem komu til að mynda upp á árunum í kringum og eftir hrun þegar það var gríðarlega mikill gangur í byggingariðnaði og menn kannski slakari á eftirliti en þeir hefðu ella verið og sýndi sig að mikið af húsnæði sem þá var byggt reyndist síðar undirorpið myglu og rakaskemmdum. Þetta er mjög slæmt vegna þess að við erum ekki bara að tala um heilsu fólks, við erum líka að tala um þeirra stærstu fjárfestingar í langflestum tilfellum stærstu eignir sem fólk á og getur þess vegna skipt gríðarlega miklu máli. Eins og þingmenn þekkja líka er fólk misnæmt fyrir þeim vanda sem myglu og rakaskemmdir valda. Í sumum tilfellum eru jafnvel tveir aðilar sem búa í sama húsnæði og annar finnur ekkert fyrir þessu en hinn er nánast óvinnufær. Það hefur kannski tafið fyrir að menn tækju á þessu af einhverjum myndugleika, þessi breytileiki á milli einstaklinga. En þetta er eitthvað sem er í öllu mannlegu samfélagi. Við getum verið með svipaða arfgerð en hún birtist með mismunandi hætti, t.d. í því hvernig við fáum sjúkdóma. Það sama á við þarna.

Ég held að það sé mikilvægt að klára þetta mál og fela ráðherra þetta verkefni. Þetta er mikilvæg viðurkenning á því að hér erum við með raunverulegan vanda sem við getum sem samfélag tekið á. Það er fagnaðarefni að þingið ætli að klára þetta.