151. löggjafarþing — 58. fundur
 23. feb. 2021.
atvinnuleysisbótaréttur.

[13:09]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hundrað manns á mánuði fullnýta atvinnuleysisbótaréttinn sinn og nú þegar hafa þúsund manns, á síðasta ári, dottið út af atvinnuleysisbótum hjá Vinnumálastofnun og það tekur tvö ár að vinna sér inn bótarétt að nýju. Það á greinilega að færa þennan vanda ríkisstjórnarinnar yfir á sveitarfélögin. Um 30% fleiri eða hátt í 500 óskuðu eftir fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar og 300 á Reykjanesi. Flestir sem missa bótaréttinn sækja um fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna en sveitarfélögin ráða engan veginn við vandann. Á sama tíma og hæstv. félagsmála dregur lappirnar langt á eftir sér í málefnum þeirra hundruða atvinnulausra sem eru að detta út af bótum stendur ekki á honum og ríkisstjórninni að hjálpa þeim sem hafa borgað sér milljarða króna í arð og vita ekki aura sinna tal. Milljónaframlag til þeirra en þeir sem detta út af bótum eiga sér enga von um fæði, klæði eða húsnæði. Það er orðið stutt bil á milli þeirra sem eru með grunnskólamenntun og háskólamenntun á atvinnuleysisbótum, það er eiginlega svo til sami hópurinn. Neyðin vex og við verðum að fara að gera eitthvað fyrir þetta fólk. Við getum ekki hent fólki út á guð og gaddinn og sagt við það: Þið fáið ekkert, svo til ekkert. Ef fólk fer til sveitarfélaganna og annar aðilinn hefur einhverjar tekjur þá fær það ekkert. Það fær ekki einu sinni 340.000 kr. Það fær ekki neitt af því að það er króna á móti krónu skerðing. Þess vegna segi ég: Hvað er hæstv. félags- og barnamálaráðherra að gera fyrir þetta fólk? Eiga sveitarfélögin að taka á vanda ríkisins? Er ekki kominn tími til að ríkið taki á sínum eigin vanda?



[13:12]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Við höfum komið jafnt og þétt með ýmsar aðgerðir til þess að ná utan um stöðu fólks sem er atvinnulaust. Ég hef sagt það og segi það hér líka varðandi einstaklinga sem eru búnir að vera atvinnulausir í 30 mánuði að eitt er að tryggja framfærslu þeirra, hvort sem það er gert í samstarfi ríkis og sveitarfélaga eða með framlengingu bótaréttar. Það eru ýmsar leiðir til þess. Hitt er að koma þeim í einhverja virkni. Þegar einstaklingur er búinn að vera atvinnulaus í 30 mánuði eða í um 900 daga er gríðarlega mikilvægt að við náum utan um það að koma honum í einhverja virkni samhliða því sem við tryggjum honum framfærslu. Við höfum verið að vinna að því undanfarnar vikur að forma einhvers konar aðgerðir til þess að ná utan um þessa einstaklinga, til þess að aðstoða þá við að komast í virkni og tryggja þeim framfærslu samhliða. Það er von mín að við getum á næstu tveimur vikum kynnt eitthvað í þá veruna vegna þess að ég sé lausnina ekki fólgna í því eingöngu að framlengja bótaréttinn. Þegar einstaklingur er búinn að vera, ég ítreka það aftur, atvinnulaus í 30 mánuði eru verulegar líkur á því að þar sé orðinn einhvers konar félagslegur vandi og þá ber okkur sem samfélagi að taka utan um einstaklinginn; ríkinu, sveitarfélögunum og eftir atvikum atvinnulífinu.

Við höfum ráðist í margvíslegar aðgerðir og ég tek undir með hv. þingmanni, við höfum verið í góðu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og höfum verið að kortleggja þennan hóp betur. Ég vonast til þess að einhverjar aðgerðir verði kynntar á allra næstu dögum eða vikum.



[13:14]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en ég skil þau eiginlega ekki vegna þess að hann er að tala um virkni. Í hverju? Hvar á fólk að fá vinnu? Nú er mesta atvinnuleysi í sögu landsins og við erum að slá met, við erum í fyrsta skipti með meira atvinnuleysi en önnur Norðurlönd. Þá talar hann um virkni. Fólk lifir ekki á tali um virkni. Við verðum að gera eitthvað vegna þess að fólk lifir á því sem það fær inn. Þessir einstaklingar fá ekki krónu inn, ekki krónu. Ef um er að ræða hjón og annað þeirra var vinnandi en hitt öryrki þá fá þau ekki krónu inn. Á lágmarkslaunum fær enginn neitt ef hann er settur út af þessu atvinnuleysisbótakerfi. Þar af leiðandi er verið að setja fólk út á gaddinn. Á sama tíma er ekkert vandamál að borga þeim sem hafa fengið milljarða í arð. Hvernig í ósköpunum stendur á því að það þarf að hjálpa þeim en það er ekki hægt að hjálpa þessum? Hvers vegna er það svona erfitt?



[13:15]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur auðvitað verið að fylgjast með stöðu þessa faraldurs og verið að vinna út frá því að á einhverjum tímapunkti færum við að sjá ferðaþjónustuna komast af stað. Ástæða þess mikla atvinnuleysis sem er hér á landi er einkum og sér í lagi sú hversu stór þáttur ferðaþjónustan er í hagkerfi okkar Íslendinga. Í máli mínu áðan talaði ég bæði um framfærslu og virkni. Ég tel að okkur sem samfélagi beri skylda til að tryggja framfærslu þeirra einstaklinga sem hafa verið án atvinnu í 30 mánuði og aðstoða þá við það, hvort sem það er gert í samstarfi ríkis og sveitarfélaga eða eingöngu af ríki eða eingöngu af sveitarfélagi. Það er samstarfið og samtalið á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga sem getur náð samkomulagi um það við einstaklinginn. Síðan er líka mikilvægt að koma einstaklingnum í virkni og það er einmitt eitt af grunnverkefnum Vinnumálastofnunar, sem er að sýsla með mál þessara einstaklinga í samstarfi við þá, að aðstoða þá við að halda sér í virkni. Við vitum að það er áskorun fyrir þá sem ekki hafa verið í vinnu í 900 daga að komast af stað aftur. Það er það sem við erum að reyna að ná utan um í aðgerðum, (Forseti hringir.) þ.e. að geta tryggt bæði framfærslu og virkni. Ég hlakka gríðarlega til þegar við getum kynnt slíkar aðgerðir.