151. löggjafarþing — 58. fundur
 23. feb. 2021.
skylda ferðaþjónustuaðila til að bjóða upp á kolefnisjöfnun við sölu á þjónustu, fyrri umræða.
þáltill. ÓGunn o.fl., 165. mál. — Þskj. 166.

[16:50]
Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skyldu ferðaþjónustuaðila til að bjóða upp á kolefnisjöfnun við sölu á þjónustu. Meðflutningsmenn mínir á þessu máli eru hv. þingmenn Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Lilja Rafney Magnúsdóttir. Tillagan hljóðar upp á það að fela ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að vinna lagafrumvarp sem skyldar söluaðila í ferðaþjónustu til að bjóða upp á kolefnisjöfnun við sölu ferða og annarrar þjónustu. Frumvarp verði lagt fram eigi síðar en á haustþingi 2021.

Ég lagði fram svipað mál á síðasta þingi sem kom þá til umræðu en náði ekki að klárast.

Með þingsályktunartillögunni er umræddum ráðherra og ráðuneytum gert að vinna frumvarp sem gerir söluaðilum í ferðaþjónustu, og þá erum við að tala um flugrekstraraðila, bílaleigur, gististaði, söluaðila ferða með bifreiðum og öðrum farartækjum, skylt að bjóða upp á kolefnisjöfnun við sölu á ferðum og annarri þjónustu.

Stjórnvöld hafa, eins og þingmönnum er kunnugt um, ákveðið í stefnu um loftslagsmál að Íslands verði kolefnishlutlaust árið 2040. Á alþjóðavettvangi er þetta mikið rætt og hafa allnokkur ríki sett sér slíka stefnu þótt með mismunandi hætti sé. Meðvitund almennings hefur einnig aukist. Mikið er rætt um kolefnisjöfnun og kolefnishlutleysi. Með tillögunni er almenningi auðveldað að taka ákvarðanir sem eru jákvæðar fyrir umhverfið. Sem betur fer eru þó nokkrir ferðaþjónustuaðilar þegar farnir að bjóða upp á kolefnisjöfnun en það er langt í land með að það markmið náist að ferðaþjónustan sé kolefnisjöfnuð að fullu. Gera má ráð fyrir að það þurfi breytingar á allnokkrum lögum til að þetta nái fram og því er þetta flutt í formi þingsályktunartillögu. Flutningsmenn telja mikilvægt að áfram verði það valkvætt fyrir neytanda að meta hvort honum finnist mikilvægt að nýta sér þjónustutilboð af þessu tagi en að skyldan um að hafa þessa tegund þjónustu í boði liggi hins vegar hjá söluaðilanum. Þetta er mikilvægt til að vekja neytendur til vitundar um það kolefnisspor sem kann að hljótast af ferðalögum en jafnframt að gera þeim kleift að bregðast við þeirri vitneskju með jákvæðum hætti.

Flutningsmenn telja að með því að skylda kaupendur til að greiða fyrir kolefnisjöfnun, fremur en að slíkt sé valkvætt, kunni breytingin að verða íþyngjandi fyrir bæði söluaðila og neytendur. Því er valin sú leið að hafa kolefnisjöfnunina valkvæða, a.m.k. í upphafi. Fyrir íslenska ferðaþjónustu er ímyndaruppbygging alveg gríðarlega mikilvæg enda hefur landið umtalsverða hagsmuni af ferðaþjónustu. Þau skilaboð sem fælust í því að hér væri ekki hægt að selja neina ferð, hvort sem það er með hvalaskoðunarbát eða bílaleigubíl eða hvað það er, öðruvísi en að minnt væri á það í einni setningu: Hefur þú áhuga á að, eða má bjóða þér að kolefnisjafna þá þjónustu sem þú ert að kaupa? Það væru mjög mikilvæg skilaboð um að íslenskt samfélag er stöðugt að hugsa um þetta vegna þess að við ætlum að ná okkar markmiðum. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem ferðaþjónustuland sem heldur áfram, við skulum vona það, að taka á móti 1–2 milljónum túrista á ári þegar kófið er yfirstaðið, að þessar 1–2 milljónir gesta sem koma til landsins á hverju ári fái þau skilaboð með sér heim: Já, þaðan sem ég var að koma þykir það bara sjálfsagt mál að minna fólk á það nánast við hvert einasta tækifæri að kolefnisjöfnun sé í boði.

Þetta held ég að geti skipt alveg gríðarlega miklu máli og verði góð auglýsing fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Þar sem flest ferðaþjónustufyrirtæki uppfæra kynningarefni sitt nánast á hverju einasta ári, sum hver á hverju einasta misseri, má gera ráð fyrir að þau hefðu nú tækifæri til að skjóta svona breytingum inn í þjónustuframboð sitt án þess að það væri mjög íþyngjandi fyrir fyrirtækin. Auðvitað myndi þetta að einhverju leyti valda einhverri smávægilegri hugbúnaðarvinnu og einhverju slíku, en ávinningurinn af því væri í rauninni miklu meiri, að ég tel. Það má eiginlega segja að það að vera alltaf með svona framboð á vörunni sem maður er að selja sé nánast eins pínulítil aukaauglýsing fyrir fyrirtækið, að fyrirtækið sé að hugsa um umhverfismál og telji að þau skipti nægilega miklu máli til þess að bjóða upp á þennan valkost.

Þar sem má gera ráð fyrir að þetta fæli í sér töluverða vinnu og þyrfti að fara yfir mörg lög er valið í tillögunni að gefa umræddum ráðuneytum rúman tíma til að vinna frumvarp og leggja það fram, enda skiptir máli að þetta sé gert í góðu samráði, ekki bara á milli þessara ráðuneyta heldur líka í samráði og samvinnu við þá hagsmunaaðila sem málið snýst um.

Herra forseti. Ég held að með samþykkt tillögunnar værum við að stíga afar mikilvægt skref í átt að því að auka samkeppnisgetu, og samkeppnisforskot að einhverju leyti, íslenskrar ferðaþjónustu og að við værum að senda mjög skýr og mikilvæg skilaboð um hvernig ferðaþjónustuland Ísland vill vera. Það held ég að sé aldrei mikilvægara en nú að við gerum.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til atvinnuvn.