151. löggjafarþing — 58. fundur
 23. feb. 2021.
jarðalög, 1. umræða.
frv. BirgÞ o.fl., 189. mál (forkaupsréttur sveitarfélaga). — Þskj. 190.

[18:23]
Flm. (Birgir Þórarinsson) (M):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 81/2004, með síðari breytingum (forkaupsréttur sveitarfélaga). Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Páll Jónsson.

Í 1. gr. segir: Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 27. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Forkaupsréttur sveitarfélaga. Sveitarfélag á forkaupsrétt að landi og öðrum fasteignum innan sveitarfélagsins sem lög þessi gilda um og fyrirhugað er að selja eða ráðstafa varanlega með öðrum hætti ef fyrirhuguð nýting samræmist ekki aðalskipulagi eða sveitarfélagi er þörf á að fá umráð yfir slíkum fasteignum til nota fyrir opinbera starfsemi sveitarfélags eða sameiginlegra nota fyrir íbúa sveitarfélags.

Í 2. gr. segir: Á eftir orðunum „27. gr.“ í 28. gr., 1. mgr. 29. gr. og 1. mgr. 30. gr. laganna kemur: og 27. gr. a.

Í 3. gr. segir: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Frú forseti. Ég ætla að víkja næst aðeins að greinargerð með frumvarpinu. Með frumvarpinu er lagt til að forkaupsréttur sveitarfélaga í jarðalögum verði endurvakinn til að bregðast við þeim breytingum sem orðið hafa á eignarhaldi og nýtingu jarða á undanförnum misserum. Markmiðið er að tryggja að sveitarfélög hafi vitneskju um fyrirhugaða sölu jarða innan sinna vébanda enda má telja að slíkt sé hagur beggja aðila, þ.e. kaupanda jarðar og sveitarfélags, hafi kaupandi t.d. áform um nýtingu sem reynist í andstöðu við hugmyndir og áætlanir sveitarfélags um uppbyggingu á svæðinu.

Frá því að ákvæði laga um forkaupsrétt sveitarfélaga var afnumið árið 2004 með setningu nýrra jarðalaga, nr. 81/2004, hefur þróunin verið með þeim hætti að fjársterkir aðilar, oft erlendir, hafa keypt fjölda jarða með tilheyrandi hlunnindum. Slík kaup hafa í mörgum tilfellum farið fram í gegnum erlend félög og er þá endanlegt eignarhald óljóst sem og fyrirhuguð nýting jarðarinnar. Óánægju hefur gætt með þá þróun og kallað hefur verið eftir viðbrögðum stjórnvalda hvað þetta varðar. Með virkjun forkaupsréttar sveitarfélaga gefst sveitarfélögum kostur á að kynna sér fyrirhugaða nýtingu kaupanda viðkomandi jarðar og hvernig hún samræmist aðalskipulagi sveitarfélagsins þar sem framtíðarstefna sveitarfélagsins kemur fram. Samkvæmt skipulagslögum er aðalskipulag skipulagsáætlun fyrir tiltekið sveitarfélag þar sem fram kemur stefna sveitarstjórnar um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í sveitarfélaginu.

Komi í ljós að fyrirhuguð nýting samræmist ekki aðalskipulagi getur sveitarfélagið gengið inn í kaupin verði frumvarpið að lögum. Auk þess er lagt til að forkaupsréttur virkist ef sveitarfélagi er þörf á að fá umráð yfir fasteignum til nota fyrir opinbera starfsemi þess eða til sameiginlegra nota fyrir íbúa sveitarfélagsins. Með frumvarpinu leggja flutningsmenn til að sveitarfélögum verði með forkaupsrétti tryggður aðgangur að upplýsingum um fyrirhugaða ráðstöfun jarða og þar með tækifæri til að bregðast við með hagsmuni sveitarfélaganna að leiðarljósi.

Frú forseti. Ég ætla næst að víkja að sögulega þættinum þegar kemur að forkaupsréttinum sem hér er rætt um.

Ákvæði um forkaupsrétt í jarðalögum hafa verið í íslenskum lögum allt frá árinu 1723, samanber tilskipun frá 18. júní 1723. Þar voru ákvæði um forkaupsrétt ábúenda sem höfðu lífstíðarábúð á jörðum. Samkvæmt lögum nr. 30/1905, um forkaupsrétt ábúenda, náðu þessi ákvæði hins vegar til allra ábúenda án tillits til þess hvort þeir hefðu lífstíðarábúð eða ekki. Reglurnar um forkaupsrétt náðu einnig til ábúenda sem höfðu sagt upp ábúðarsamningum sínum og ábúenda sem löglega hafði verið sagt upp ábúðarsamningum ef ábúðinni var ekki lokið. Með lögum nr. 30/1905 fengu sveitarfélög einnig forkaupsrétt að afréttum og óbyggðum svæðum sem unnt væri að nýta til sumarhúsabyggða. Með lögum nr. 40/1919 fengu sveitarfélög forkaupsrétt á jörðum á eftir ábúendum sem héldu forkaupsrétti sínum með sömu skilyrðum og áður. Síðan var það með lögum nr. 16/1926, og með breytingum á lögum nr. 40/1919, að lögfestar voru undantekningar frá ákvæðum laganna um forkaupsrétt, en samkvæmt þeim giltu ákvæðin ekki ef jarðeigandi seldi jörð barni sínu, kjörbarni, fósturbarni, bróður, systur eða foreldri.

Lög nr. 40/1919 voru síðan endurútgefin og svo breytt með lögum nr. 55/1926. En með lögum nr. 40/1948, um kauprétt á jörðum, voru gerðar þær breytingar á ákvæðum laganna um forkaupsrétt að ábúandi átti aðeins forkaupsrétt á undan sveitarfélagi ef hann hafði haft ábúð í þrjú ár eða lengri tíma áður en söluumleitanir hófust, en að öðrum kosti átti ábúandi forkaupsrétt á eftir sveitarfélagi. Sömu undantekningar giltu áfram um sölu til náinna ættingja. Með lögum nr. 65/1976 var lögfest að ábúendur ættu forkaupsrétt á undan sveitarfélagi ef þeir hefðu haft ábúð á jörð í tíu ár eða lengur og sömu undantekningar og áður voru gerðar um sölu til náinna ættingja en bætt við að þau ákvæði giltu einnig um maka og barnabörn. Enn fremur voru þau skilyrði sett að ábúandi yrði að taka jörðina til ábúðar og fullra nytja. Ákvæðin um forkaupsrétt sveitarfélaga eru í þingskjölum með framangreindum lögum rökstudd með því að verið sé að sporna gegn því að jarðir sem hæfar séu til búreksturs falli í hendur svokallaðra jarðabraskara eða annarra aðila sem ekki hyggjast taka þær til búreksturs og landbúnaðarnytja að öðru leyti án tillits til þess hvort og hvaða röskun það kunni að hafa í för með sér fyrir byggðarlagið.

Frú forseti. Ég hef nú rakið hér aðeins söguleg ákvæði um forkaupsrétt í jarðalögum. Sögulega séð á þetta ákvæði sér langa forsögu, eða allt frá árinu 1723. Það sýnir að þetta ákvæði hefur ávallt verið talið mikilvægt. Þess vegna verður að teljast svolítið sérstakt að með lögunum frá 2004 var ákvæðið fellt niður. Ég mun koma aðeins nánar að því á eftir. En það var sem sagt með lögum nr. 81/2004 sem þetta ákvæði var tekið út og hafði þá verið í íslenskum rétti allt frá 1723.

Eftirlitsstofnun EFTA gerði nokkrar athugasemdir við ákvæði jarðalaganna, nr. 65/1976, og taldi þau brjóta gegn EES-samningnum. Þær athugasemdir beindust einkum að 6. gr. laganna um að samþykki bæði sveitarstjórnar og jarðanefnda, eins og það var nefnt, þyrfti til að heimilt væri að ráðstafa jörðum og öðrum fasteignum sem lögin giltu þá um, að sveitarstjórn gæti bundið samþykki sitt tilteknum skilyrðum um búsetu, samanber 11. gr. þeirra laga um að aðilar sem vilja kaupa jarðir á Íslandi og nýta til landbúnaðar þurfi að hafa starfað við landbúnað í tvö ár hér á landi nema landbúnaðarráðherra veiti sérstaka undanþágu, og síðan 30. gr. laganna um forkaupsrétt sveitarfélaga og Jarðasjóð ríkisins.

Í bréfi stofnunarinnar til íslenskra stjórnvalda þann 4. júlí 2001 kemur fram það álit að framangreind ákvæði jarðalaga, nr. 65/1976, brjóti gegn 40. gr. EES-samningsins. Til að mæta þeim athugasemdum á sínum tíma var farin sú leið að heimild sveitarfélaga til að nýta forkaupsrétt væri bundin ákveðnum skilyrðum á þann veg að sveitarfélögin gætu nýtt forkaupsréttinn teldu þau þörf á að fá umráðarétt yfir jörð, jarðahluta eða öðru landi sem ætti að selja til að nýta fyrir starfsemi sveitarfélagsins eða til sameiginlegra nota fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Ekki voru gerðar athugasemdir við þá breytingu og má segja að hún hafi verið ágætlega unnin. Sú vinna sem lá að baki snerist fyrst og fremst um að tryggja að þetta ákvæði bryti ekki gegn EES-samningnum. Eins og ég segi voru ekki gerðar athugasemdir við þetta þannig að sú vinna skilaði sér ágætlega. Þetta var sem sagt í frumvarpi til jarðalaga 2004, eins og ég nefndi.

En það gerist hins vegar í þessu ferli að innan nefndarinnar er þetta síðan tekið út og þess vegna er ákvæðið ekki í lögunum í dag. Það er þó nokkuð ljóst þegar farið er yfir nefndarálitið að ekki stóð til að taka það út. Til stóð að forkaupsréttarákvæði yrði áfram í lögum. Nefndin rökstyður það ekki hvers vegna hún tekur það út á síðustu metrunum, eins og má að orði komast. En eins og ég nefndi áðan, frú forseti, fer þarna í gang mjög mikil og góð vinna við að tryggja að ákvæðið sé ekki í andstöðu við EES-samninginn. Maður hefði ætlað að eðlilegast væri að þetta yrði áfram í frumvarpinu og það yrði samþykkt sem lög að þetta ákvæði yrði áfram inni, þ.e. forkaupsréttarákvæðið. En eins og ég hef rakið gengur nefndin mun lengra. Hún tekur ákvæðið út einhverra hluta vegna og rökstyður það ekki, sem er svolítið sérstakt. Það verður til þess að ákvæðið er ekki í lögunum í dag og var afnumið árið 2004 eftir að hafa verið í lögunum frá 1723.

Í frumvarpi því sem hér er mælt fyrir er stuðst við þetta ákvæði og við það bætt, eins og áður segir, að sveitarfélag geti nýtt sér forkaupsrétt samræmist hugmyndir kaupanda jarðar ekki aðalskipulagi sveitarfélags. Þessu er bætt inn í með aðalskipulagið og telja verður að það falli ágætlega að því ákvæði. Með sameiginlegum hagsmunum íbúa, eins og segir í ákvæðinu og ég rakti hér í upphafi, er átt við hagsmuni margra og jafnvel meiri hluta íbúa sveitarfélagsins. Líta verður svo á að ekki sé gert ráð fyrir því að unnt sé að neyta forkaupsréttar samkvæmt þessu ákvæði í þeim tilgangi að afhenda viðkomandi jörð tilteknum einstaklingum eða þröngum hópi einstaklinga til afnota. Það er ekki í anda þessa frumvarps.

Frú forseti. Ég ætla ekki að fullyrða um það hvort sveitarfélögin hafi fjárhagslegt bolmagn til að ganga inn í kaup, telji þau nauðsyn til. Það er önnur umræða sem yrði þá á öðrum vettvangi. Þetta ákvæði er fyrst og fremst hugsað til þess að sveitarfélögin hafi vitneskju um þessi mál innan sinna vébanda. Það er mikilvægt. Þó að sveitarfélög hafi úrræði samkvæmt ýmsum ákvæðum í skipulags- og byggingarlögum þegar kemur að nýtingu jarða, verður að telja mikilvægt að þau hafi vitneskju um fyrirhugaða sölu jarða innan sinna vébanda enda má telja að slíkt sé hagur beggja aðila, kaupanda jarðar og sveitarfélagsins. Auk þess tel ég að þetta ákvæði gæti skapað meiri sátt um þennan mikilvæga málaflokk, einfaldlega vegna þess að þá eru sveitarfélögin vel upplýst, og íbúar sveitarfélagsins einnig upplýstir, og nýting jarðarinnar kemur þá vonandi til með að samræmast þeim hugmyndum sem sveitarfélagið leggur upp með og koma fram í aðalskipulagi.

Ég hef rakið það helsta í greinargerðinni sem fylgir þessu frumvarpi, frú forseti. Rétt er að minnast þess að þetta forkaupsréttarákvæði var mjög lengi í lögum, allt frá 1723, svo ég nefni það aftur, og fram til 2004. Þá er eins og það hafi verið tekið út á síðustu metrunum án nokkurs rökstuðnings, sem er svolítið sérstakt, og eins og það hafi í raun og veru ekki verið ætlun nefndarinnar að gera það. Þannig skil ég það eftir að hafa farið nokkuð ítarlega yfir það nefndarálit. En ég vona svo sannarlega að þetta mál fái góða umfjöllun í nefndinni og þá verði einnig farið yfir þá meðferð sem málið fékk á sínum tíma í nefndinni þegar þessu var breytt árið 2004. Ég held að það sé mikilvægt að nefndarmenn kynni sér það.

Frú forseti. Að þessu sögðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.