151. löggjafarþing — 60. fundur
 25. feb. 2021.
rafræn birting álagningar- og skattskrár, fyrri umræða.
þáltill. AIJ o.fl., 258. mál. — Þskj. 278.

[16:51]
Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um rafræna birtingu álagningar- og skattskrár. Auk þess sem hér stendur eru flutningsmenn þessa máls Björn Leví Gunnarsson, Inga Sæland og Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Tillagan sjálf er giska einföld, hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að hlutast til um rafræna birtingu árlegar álagningar- og skattskrár sem verði aðgengileg allt árið uns ný skrá er birt. Ráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp þessa efnis á vorþingi 2021.“

Við fyrstu sýn virkar tillaga af þessu tagi kannski eins og róttækt skref í átt að auknu gagnsæi en hún er það í raun ekki vegna þess að þó að ákveðin vatnaskil hafi orðið í því hversu vel fólk áttar sig á mikilvægi þess að nota aukið gagnsæi til að byggja upp traust í samfélaginu þá hefur Alþingi stigið slík skref með afgerandi hætti fyrir löngu síðan. Gagnsæið var nefnilega ekki fundið upp í gær og það hefur verið hægt að fletta upp álagningu einstaklinga í skrám skattstjóra og sjá þar hverjar tekjur hvers og eins skattgreiðanda hér á landi hafa verið undanfarið tekjuár. Fyrir því er gömul lagaheimild, heimild í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, þó að orðalag greinarinnar sé raunar enn eldra. Þar stendur að álagningarskrá og skattskrá skuli liggja frammi til sýnis í tvær vikur á hentugum stað.

Þessi þingsályktunartillaga snýst í rauninni um að skilgreina þann hentuga stað í takt við 21. öldina. Framkvæmdin undanfarin ár hefur í raun verið tvíþætt. Annars vegar hefur Skatturinn prentað út skrárnar, bundið í gorma og látið liggja á skrifstofum sínum um tveggja vikna skeið. Þangað hefur fólk getað komið og flett upp þeim sem það vildi fletta upp. Hins vegar hafa komið út svokölluð tekjublöð, eins og það sem ég er með hér, þar sem tekjur nokkur þúsund vel valinna Íslendinga eru teknar saman og birtar.

Það sem hefur gerst frá því að þessi heimild var sett í lög er að hentugur staður er ekki endilega bundinn við skrifstofu skattstjóra heldur er hentugasti staðurinn fyrir upplýsingar af þessu tagi einfaldlega netið sem við höfum öll aðgang að í dag. Í því samhengi er kannski rétt að rifja upp að svo til öll skattskil fara fram á netinu í dag þannig að þessar skrár eru í eðli sínu rafrænar frá upphafi til enda þangað til einhver á skrifstofu skattstjóra þarf að prenta þær út og láta þær liggja frammi á svokölluðum hentugum stað sem er ekki hentugur lengur.

Fyrirkomulag af þessu tagi þekkist annars staðar. Þekktasta dæmið er sennilega í Noregi þar sem skattskráin hefur verið opinber svo lengi sem frá árinu 1863 og aðgengileg rafrænt í 17 ár. Norðmenn hafa þróað birtinguna þannig að hún uppfylli skilyrði um persónuvernd, svo dæmi sé tekið. Norski skatturinn skráir allar uppflettingar þannig að gagnsæið gangi í báðar áttir, þannig að ekki sé hægt að hnýsast í mál nágrannans án þess að nágranninn viti af því. Þar er hugsunin að girða fyrir mögulega misnotkun á aðganginum. Og vegna þess að Noregur gerir þetta, þar sem allt regluverk er í öllum grundvallaratriðum hið sama og hér á landi, má ætla að framkvæmd þessa hér á landi yrði nokkuð einföld og frekar beint af augum.

Þetta mál hefur verið lagt fram nokkrum sinnum áður. Mér telst til að þetta sé í fimmta sinn sem ég legg þessa þingsályktunartillögu fram og gaman að segja frá því að nokkur þróun hefur orðið í þessum málum á þeim tíma sem hefur liðið. Hér stóð ég t.d. fyrir rétt rúmu ári og mælti fyrir svona þingsályktunartillögu á síðasta löggjafarþingi og vísaði til þess að vefurinn tekjur.is hafi gert aðgengilegan gagnagrunn með upplýsingum um skattskrár fyrir árið 2016, gagnagrunn sem sá aðili fékk afhentan frá Skattinum en vefurinn var tekinn niður skömmu síðar eftir að upp komu efasemdir um að heimild væri í tekjuskattslögum fyrir uppsetningu og rekstri rafræns gagnagrunns tiltekins fyrirtækis með þessum hætti. En það er einmitt stóri munurinn, í þessari þingsályktunartillögu er ekki lagt til að einkaaðili haldi utan um þetta heldur Skatturinn sem við treystum til að hafa taumhald á gagnagrunninum þannig að gætt sé hagsmuna þeirra sem eiga upplýsingar í honum, auk þess sem Skatturinn er stofnun af því tagi að notendur geta treyst því að upplýsingarnar séu réttar. Það væri auðvitað ekkert verra en að fá gagnagrunn af þessu tagi í loftið með einhverjum villum.

Fyrir ári mælti ég fyrir sömu tillögu hér í ræðustól og stuttu síðar skall á með Covid. Þá voru í framhaldinu gerðar breytingar á því ákvæði tekjuskattslaga sem um ræðir. Það var í bandormi sem fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, sem varð síðar að lögum nr. 37/2020. Þá áttaði fólk sig nefnilega á því að hentugi staðurinn, skrifstofa Skattsins, gæti í heimsfaraldri ekki bara verið óhentugur heldur hreinlega hættulegur. Það að safna saman fólki að fletta í álagningarskrám á skrifstofum Skattsins gæti hreinlega verið sóttvarnamál. Þess vegna var sett inn bráðabirgðaákvæði í tekjuskattslög sem myndi víkja frá þeirri skyldu ríkisskattstjóra að leggja fram skattskrá fyrir hvert sveitarfélag á árinu 2020 vegna tekna ársins 2019. Það var önnur leiðin sem hefði verið hægt að fara til að bregðast við vandanum við birtingu á tímum Covid-19. Hin leiðin hefði verið að gera þær breytingar sem eru lagðar til í þeirri þingsályktunartillögu sem ég mæli hér fyrir. Það er nefnilega bagalegt að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hafi valið að víkja til hliðar því aðhaldshlutverki sem felst í birtingu skránna en ekki hefði þurft að grípa til slíkra ráðstafana ef rafræn birting hefði verið orðin að veruleika líkt og hér er lagt til.

Svo gerðist það í haust að til þingsins kom frumvarp frá fjármála- og efnahagsráðherra þar sem lagt var til að framlengja bráðabirgðaákvæðið sem víkur frá þeirri skyldu Skattsins að leggja skrárnar fram, framlengja það um eitt ár vegna heimsfaraldurs. Til allra heilla taldi meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar þá tillögu ráðherrans ótímabæra. Það var sem sagt ótímabært haustið 2020 þegar þetta var til umfjöllunar að ákveða að síðla vors 2021 yrði enn slíkt almannavarnaástand að ekki væri hægt að safna fólki saman á skrifstofu Skattsins svo öruggt væri. Því lagði nefndin til að bráðabirgðaákvæðið yrði ekki framlengt en lýsti sig reiðubúna til að taka slíkar undanþágur til skoðunar, gerðist þess þörf.

Ég legg til að nefndin skoði frekar hvort ekki sé hægt að stíga það skref að færa birtinguna í rafrænt form til bráðabirgða, gerist þess þörf að losa Skattinn undan því að bjóða fólki á skrifstofu sína til að skoða skrárnar.

Við fyrri umfjöllun um þetta mál hafa nokkrir aðilar skilað inn umsögnum. Mig langar sérstaklega að nefna umsögn sem barst frá Alþýðusambandi Íslands. Þar var vakin athygli á ályktun miðstjórnar ASÍ sem hvatti Alþingi til þess að samþykkja að birta álagningarskrár með rafrænum hætti til að tryggja aðgengi að þessum mikilvægu upplýsingum. Innan bæði verkalýðshreyfingarinnar og fræðasamfélagsins eru nefnilega uppi þau sjónarmið að þær upplýsingar sem eru í þessum skrám eigi ekki bara erindi við almenning eins og verið hefur í áratugi heldur geti þær jafnvel nýst til að greina t.d. ástand vinnumarkaðarins, kynbundinn launamun og launamun á milli stétta. Það væri mjög áhugavert að sjá útfærslu á því hvernig nýta mætti þessar umfangsmiklu skrár til að búa til betri upplýsingar um samfélagið þannig að hægt sé að taka upplýstari ákvarðanir um það í hvaða átt á að stefna að því, með þeim fyrirvara að að sjálfsögðu þurfi að tryggja sjónarmið persónuverndar við þá framkvæmd.

Það þarf kannski ekki að fjölyrða um mikilvægi birtingarinnar enda sennilega fá samtök sem leggja til að hún verði lögð niður. Ég man nú eftir því að ungir Sjálfstæðismenn tóku sig til nokkur ár í röð og hlekkjuðu sig nánast við skrifstofu Skattsins til að erfiða aðgengi að skránni. En þessi framkvæmd, sem er í takt við það sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum, er, að ég tel, hluti af ástæðunni fyrir því að á Norðurlöndunum (Forseti hringir.) ríkir mikið félagslegt traust á milli fólks sem byggist m.a. á því að við teljum að (Forseti hringir.) stofnanir og einstaklingar standi sína samfélagslegu skyldu upp á punkt og prik. (Forseti hringir.)

Afsakið, forseti. Að þessu loknu myndi ég vilja að málið fari til efnahags- og viðskiptanefndar, ef ég man rétt.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og viðskn.