151. löggjafarþing — 61. fundur
 2. mars 2021.
börn á biðlistum.

[13:02]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Að minnsta kosti 1.200 börn um allt land bíða eftir greiningu eða meðferð við geðrænum eða sálrænum vanda. Fjölmennasti biðlistinn er hjá Þroska- og hegðunarstöð þar sem 600 börn bíða greiningar. Við látum börn með geðræn vandamál bíða, ekki bara mánuðum saman heldur jafnvel árum saman. SÁÁ er að reyna að aðstoða börn sem þurfa að búa hjá fólki sem býr við áfengis- og fíkniefnavanda eða aðra geðræna sjúkdóma. Þar er pottur verulega illa brotinn og ríkisstjórnin stingur hausnum í sandinn til að sjá ekki vandann og leysir hann þar af leiðandi ekki eins og henni ber. Börn eiga aldrei að fara á biðlista eftir meðferð við geðrænum sjúkdómum eða öðrum sjúkdómum, aldrei. Álag á börn og fjölskyldur þeirra er oft á tíðum svo alvarlegt að skaðinn verður óbætanlegur, bæði andlega, líkamlega og fjárhagslega. Með því að útrýma ekki biðlistum barna og unglinga framleiðir ríkið öryrkja á færibandi, nú og inn í framtíðina. Þá hefur komið í ljós að andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum hefur aukist, sem gerir þörf á góðri og skjótri heilbrigðisþjónustu fyrir börn lífsnauðsynlega, eins varðandi ADHD, kvíða, einhverfuróf, hegðunar- og samskiptavanda og námserfiðleika barna. Því er það fáránlegt að ekki sé brugðist við biðlistavandanum. Bið eftir talþjálfun talmeinafræðinga er 17–36 mánuðir. Lengst er biðin á landsbyggðinni. Fjöldi barna á biðlista eftir talþjálfun er frá 300–900 á stofum á höfuðborgarsvæðinu.

Er engin framtíð hjá þessari ríkisstjórn, hæstv. heilbrigðisráðherra, fyrir börn á biðlistum eftir heilbrigðisþjónustu? Eða hver er stefnan? Að sjö ára barn fái nauðsynlega þjónustu þegar það verður orðið tíu ára gamalt? Það vantar um 180 milljónir hjá talmeinafræðingum til að dekka þá þjónustu, en við höfum 180 millj. kr. fyrir mat handa minkum og við höfum 500 milljónir fyrir einkarekna fjölmiðla þar sem stærstur hluti fer til forríkra eigenda. (Forseti hringir.) Eru ekki til peningar til að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að ekkert barn þurfi að bíða á biðlista?



[13:04]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á heilbrigðisþjónustu við börn og ekki síst umfjöllun um geðheilbrigðismál, en við höfum rætt um þennan málaflokk hér ítrekað. Ég vil fullvissa hv. þingmann um að sú sem hér stendur brennur sérstaklega fyrir þessum málaflokki, þ.e. þar sem saman koma hagsmunir barna og geðheilbrigðismál, enda höfum við tvöfaldað fjölda sálfræðinga í heilsugæslunni á þessu kjörtímabili. Við höfum ýtt af stað áætlun um geðrækt í leik-, grunn- og framhaldsskólum, sem er samstarfsverkefni menntamálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og félagsmálayfirvalda, vegna þess að lengi býr að fyrstu gerð. Við þurfum líka að hugsa um forvarnir og við þurfum að hugsa um að geðheilbrigði er stórt verkefni sem snýst ekki bara um geðheilbrigðisþjónustu. Við höfum náð að stilla betur saman strengi í þjónustunni sem heild. Þar er það líka afar mikilvægt að bið sé ekki óhófleg, og ég tek algjörlega undir það sem hér er sagt um þau mál, ekki síst þegar um er að ræða bið eftir þjónustu eins og hjá Þroska- og hegðunarstöð eða Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Því miður hefur það verið þannig að þessi bið hefur stundum verið á fleiri en einum stað, þannig að komið hefur upp að börn hafa bæði verið að bíða eftir þjónustu hjá BUGL, Greiningar- og ráðgjafarstöð og Þroska- og hegðunarstöð, og því segja biðlistarnir ekki alla söguna eins og hún er. En oftar en ekki er það þannig, sem betur fer, að ef börn eru á biðlista eftir þjónustu hjá barna- og unglingageðdeild þá njóta þau þjónustu á meðan á biðinni stendur.



[13:06]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en þau eru ekki nógu skýr. Við vitum að núna í Covid hefur ástandið á biðlistunum versnað. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að fyrir hverja krónu sem sett er í það að taka á biðlistunum skila sér örugglega 99 kr. til baka. Hvernig getur verið ásættanlegt að segja við barn sem er sjö ára gamalt: Heyrðu, þú færð þjónustu þegar þú verður tíu ára? Hvað verður um þetta barn í skólakerfinu? Hver er framtíð þessa barns? Það er ábyrgðarhluti að segja aftur og aftur að verið sé að gera eitthvað en á sama tíma lengjast biðlistarnir. Síðan er alltaf verið að tala um að það vanti 180 milljónir til að dekka þjónustu talmeinafræðinga. Við erum búin að setja milljarða til þeirra sem greitt hafa sér arð út af Covid-faraldrinum. En stoppum við þá? 180 milljónir fyrir börn. Ég trúi því ekki.



[13:07]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þingmaður nefnir hér tilteknar upphæðir þá hefur á tímabili mínu í heilbrigðisráðuneytinu framlag til reksturs í geðheilbrigðisþjónustu aukist að núvirði um milljarð á ári. Þar að auki höfum við bætt í geðheilbrigðisþjónustuna 540 milljónum á síðasta ári og 540 á þessu ári vegna Covid og viðbragða því tengdum. Nú stendur yfir samstarf milli mín og hæstv. félags- og barnamálaráðherra um að greina biðlistana sem hv. þingmaður talar um, og koma með tillögur til að draga úr bið eftir þjónustu. Það er heildræn greining fyrir landið allt vegna þess að það dugar ekki að horfa á einn tiltekinn stað heldur þurfum við að sjá þetta fyrir landið allt. Það stendur fyrir dyrum að við fáum niðurstöðu úr þeirri greiningu, þessari flöskuhálsagreiningu, hvar hindranirnar í kerfinu eru, og ég fullvissa hv. þingmann um að aðgerðir munu fylgja.