151. löggjafarþing — 61. fundur
 2. mars 2021.
brottfall aldurstengdra starfslokareglna, fyrri umræða.
þáltill. GBr o.fl., 324. mál. — Þskj. 378.

[16:06]
Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um brottfall aldurstengdra starfslokareglna. Flutningsmenn eru þingmenn allra flokka að Pírötum að undanskildum en það eru sá sem hér mælir ásamt hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, Ólafi Þór Gunnarssyni, Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Hönnu Katrínu Friðriksson og Guðmundi Inga Kristinssyni. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra, í samráði við helstu hagsmunaaðila, að undirbúa og leggja fram frumvarp sem felli brott ákvæði laga um starfslokaaldur þar sem við á. Ráðherra leggi frumvarpið fram eigi síðar en á haustþingi 2021.“

Herra forseti. Forsaga þessarar þingsályktunartillögu er sú að þrír þingmenn bundust fastmælum um að leggja fram hver sína tillögu um málefni sem lytu að hinum ólíku hagsmunum og velferð aldraðra. Það voru sá sem hér stendur, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, sem þegar hefur mælt fyrir tillögu sinni um að félags- og barnamálaráðherra skipi starfshóp sem vinni aðgerðaáætlun gegn öldrunarfordómum, og síðan hv. þm. Ásmundur Friðriksson, sem sömuleiðis hefur mælt fyrir tillögu um að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að gera úttekt á heilsutengdum forvarnaúrræðum eldra fólks. Auðvitað voru væntingar flutningsmanna að hægt yrði að koma því þannig fyrir að mælt yrði fyrir þessum þremur tillögum í samhengi, hverri á eftir annarri, og skapa þannig eins konar þemadag eða setja á dagskrá í þinginu málefni sem fjölluðu um þann breytilega veruleika sem aldraðir búa við, hugsanlega með fleiri málefnum sem þeim tengjast. Þetta hefur enn ekki tekist og væri freistandi að leitast við það. Það væri viðleitni sem væri að mati þess sem hér stendur einnar messu virði að reyna.

Herra forseti. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að hún hafi áður verið lögð fram á 150. löggjafarþingi. Hún hlaut ekki framgang í mikilli baráttu um að koma málum í gegn, en þau eru ýmisleg. Fleiri hv. þingmenn hafa raunar verið með hugann við þessar mikilvægu breytingar í lífi hvers og eins þegar við ljúkum störfum, starfslokabreytingar. Hv. þingkona Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir mælti á dögunum fyrir tillögu um afnám 70 ára aldursmarka opinberra starfsmanna, sem er góðra gjalda vert en á bara við um starfshóp sem fellur undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og gengur því skammt. Sömuleiðis mælti hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson fyrir frumvarpi til laga um breytingar á sömu lögum sem myndi lyfta þessu sama þaki upp í 73 ár. Í báðum tilvikum er vísað til opinberra starfsmanna og í þeim báðum er gengið of skammt að mati flutningsmanna þeirrar tillögu sem hér um ræðir. Hér er ekkert þak og höfðað er til alls vinnumarkaðarins, alls vinnandi fólks.

Kjarni málsins er þessi: Að færni, geta og vilji viðkomandi fái að ráða. Með þingsályktunartillögunni er lagt til að fela ráðherra í samráði við helstu hagsmunaaðila að undirbúa og leggja fram frumvarp um brottfall ákvæða sem takmarka heimildir eldra fólks til að sinna tilteknum störfum þegar ákveðnum lífaldri er náð. Tilgangur tillögunnar er þannig að afnema allar aldursviðmiðanir sem hindra þátttöku eldra fólks á vinnumarkaði, hvort sem er á almennum eða opinberum vinnumarkaði. Mikilvægt er, og auðvitað alger forsenda, að málið sé unnið í samvinnu við alla hagsmunaaðila.

Við fjöllum oft og tíðum um það í samfélaginu hvernig líðan hinna ýmsu hópa er; um velferð, lengdan lífaldur og þar með lengdan lífaldur þjóðarinnar, starfsgetu og fleira. Með bættri heilsu þjóðarinnar hefur umræðan einnig snúist um starfslok og réttinn til að vinna.

Virðulegur forseti. Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að skyldubundinn starfslokaaldur væri bein mismunun á grundvelli aldurs í skilningi tilskipunar 2000/78/EB frá 27. nóvember 2000 um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði. Hins vegar er hægt að réttlæta slíkan starfslokaaldur á grundvelli þeirra frávika sem tilskipunin heimilar. Slík frávik fela í sér undanþágu frá meginreglunni um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð aldri.

Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, nr. 86/2018, taka m.a. mið af framangreindri tilskipun. Í lögunum er skýrt kveðið á um bann við allri mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur beinni eða óbeinni, á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar eða kynvitundar. Þetta þykir mikilvægt í því skyni að stuðla að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði en almenn þátttaka á vinnumarkaði er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, skal segja starfsmanni upp störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Hins vegar er heimilt að ráða opinbera starfsmenn sem og embættismenn til starfa eftir að þeir hafa náð framangreindum aldri og skulu laun þeirra þá miðast við unna tíma, með öðrum orðum má lausráða fólk um ákveðið tímaskeið og eins má ráða viðkomandi sem verktaka. Það hefur verið praktíserað í íslensku samfélagi og þannig farið að nokkru leyti á svig við ákvæði laganna. Það er réttlætanlegt því að það er heilbrigt. Hvorki í gildandi lögum né í kjarasamningum er kveðið á um almennan starfslokaaldur á almennum vinnumarkaði þótt í framkvæmd sé almennt miðað við að starfsfólk vinni ekki mikið lengur en til sjötugs. Að jafnaði tengist starfslokaaldur þeim tímamótum þegar viðkomandi fer að taka lífeyri. Þá eru lögfestar reglur um starfslokaaldur ákveðinna starfsstétta, svo sem flugmanna sem verða að láta af starfi við 65 ára aldur, samanber lög um loftferðir, nr. 60/1998.

Herra forseti. Víða um hinn vestræna heim hafa nú þegar verið felldar brott hindranir í þessum efnum. Fólk hefur val um það hvort það vill vinna lengur og opinberir aðilar standa ekki í vegi fyrir því. Ákvörðun um lífeyristöku verður þá einnig val, oftast sem þáttur í kjarasamningum.

Starfsreynsla eldra fólks er oft og tíðum einstök, þekking á verkefnum og verkferlum nær yfir langan tíma. Þannig hafa oft skapast tækifæri til að byggja upp mikinn þekkingargrunn hjá þessum einstaklingum. Hætt er við að mikil þekking tapist og að reynsla sem getur skipt verulegu máli nýtist verr en ella. Þá er einnig hætta á að við skyndileg og þvinguð starfslok geti tilfinningaleg áhrif á einstaklinginn orðið afar neikvæð. Rannsóknir hafa raunar sýnt að við þvinguð starfslok komi oft fram kvíði og þunglyndi hjá viðkomandi, þ.e. að þegar komi að því að hætta störfum en fólk myndi jafnvel kjósa að starfa áfram og lengur þá sýni líkami og sál hastarleg viðbrögð.

Aldurstakmörk á vinnumarkaði voru í upphafi sett sem nokkurs konar réttindaviðmið, en það er litlum vafa undirorpið að ekki var ætlast til að aldursmörkin hindruðu fólk í að starfa, kysi það svo. Þá má einnig ímynda sér að sú ráðstöfun að þvinga fólk af vinnumarkaði hafi í einhverjum tilfellum í huga vinnuveitanda verið aðferð til að hleypa að nýrri þekkingu og tryggja aðgengi ungs fólks eða vernd á vinnumarkaði. Viðhorf vinnuveitenda hafa því mikið að segja hvað þetta varðar. Vinnuveitendur sem bera hag vinnustaðar síns og launþega sinna fyrir brjósti horfa fram á veginn og til langtímahagsmuna, bæði fyrirtækisins og launþeganna. Þar eru auðvitað ýmisleg sjónarmið uppi.

Vissulega geta verið málefnalegar ástæður fyrir því að tiltekin störf eigi fremur að vera unnin af yngra fólki en eldra. Þar má nefna störf sem krefjast tiltekins líkamlegs atgervis, svo sem störf sem krefjast sérstaklega góðrar sjónar eða heyrnar eða annarra líkamlegra burða sem oft breytast með aldri. Starfslok í slíkum störfum eru oftast skilgreind í kjarasamningum og í einhverjum tilfellum í alþjóðlegum samningum, t.d. varðandi flugmenn. Þannig er í 12. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði fjallað um frávik vegna aldurs. Þar kemur fram að mismunandi meðferð vegna aldurs telst ekki brjóta gegn lögunum séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þar með talið stefnu í atvinnumálum eða öðrum markmiðum er varða vinnumarkað, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að áðurnefndum lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði er tekið fram að ákveðin óvissa ríki þó enn um það hvers konar mismunun á grundvelli aldurs sé heimil í skilningi ákvæðisins og því verði að telja mikilvægt að litið verði til dómafordæma Evrópudómstólsins við túlkun þess.

Áhrif af brottfalli ákvæðis um starfslokaaldur, þar sem við á, gætu orðið nokkur á lífeyristöku, svo sem að menn fresti töku lífeyris. Þannig þyrfti að gera tryggingafræðilegar úttektir á því hvernig best yrði tekið á þeim málum. Einnig má gera ráð fyrir að á einhverjum tímapunkti kynni að verða valkvætt að hætta uppsöfnun lífeyrisréttinda ef tryggingafræðilegar úttektir bentu til þess að réttindi væru næg. Slíkt ætti auðvitað að vera val eftir að tilteknum réttindum væri náð. Flutningsmenn leggja áherslu á að með samþykkt tillögunnar er ekki verið að leggja til að áunnum réttindum verði breytt, hvort heldur kjarasamningsbundnum eða lögbundnum réttindum. Réttur fólks til að hefja töku lífeyris breytist ekki við þær lagabreytingar sem fyrirhugaðar eru með tillögugerðinni. Þau réttindi og réttindaávinnsla verða áfram ákvörðuð með kjarasamningum og lögum. Því verður samþykkt tillögunnar ekki grundvöllur til að skylda fólk til að vinna lengur, heldur eykst réttur þess til að ákveða sjálft hvenær starfslok verða.

Flutningsmenn telja að með samþykkt tillögunnar og framlagningu frumvarps í kjölfarið verði stigin mikilvæg skref í þá átt að tryggja réttindi eldra fólks til þátttöku í samfélaginu á eigin forsendum. Eftir sem áður kunni að vera málefnaleg rök fyrir því að takmarka réttindi til tiltekinna starfa, eins og áður hefur verið drepið á, enda helgist þau frávik af lögmætu markmiði og gangi ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná settu markmiði: Að útrýma með efnislegum hlutlægum hætti misrétti milli kynslóðanna. Með öðrum orðum: Að vinna gegn aldursfordómum.



[16:21]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir flutningsræðuna og þakka þingmanninum jafnframt fyrir samstarfið við þessa tillögugerð og þann tillögupakka sem þingmaðurinn kom inn á að við hefðum flutt ásamt hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni. Í mínum huga verður taka mannréttindavinkilinn á þetta. Við verðum í rauninni alltaf að skoða, ekki bara réttindi eldra fólks heldur réttindi fólks í samfélagi þannig að við séum ekki með óþarfa hindrunum eða óþarfa lagasetningu eða skilmerkjum að skerða þau réttindi sem fólk hefur til að lifa því lífi sem það kýs í því samfélagi sem það býr í.

Við eigum sem samfélag að bera virðingu fyrir stöðu fólks og menntun. Það er a.m.k. mín skoðun. Með því að afnema aldurshindranir, eins og lagt er til, erum við í rauninni að horfast í augu við, ekki bara það að við ætlum að taka á mannréttindavinklinum, heldur erum við líka að horfast í augu við að samfélagið er að breytast. Hugsunarhátturinn um að það sé eftirsóknarvert að setjast í helgan stein með áherslu á að setjast fer sem betur dvínandi. Það hefur enginn áhuga á því að vera þvingaður til að hvíla sig þegar hann vill ekki hvíla sig. Það hefur enginn áhuga á að vera þvingaður út af vinnumarkaði þegar hann hefur fulla starfsgetu. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli.

Við höfum svo sem áður rætt þetta og þetta hefur verið rætt í víðara samhengi en kemur fram í þessari tillögu. Til að mynda á árunum 2003–2007 þegar unnið var að gerð nýrra heilbrigðislaga kom þessi vinkill upp í þeirri umræðu, þ.e. hvort samfélagið væri tilbúið að taka burt úr öllum lögum einhvers konar aldursviðmið með tilliti til þjónustu eða þjónustuþarfar og þess háttar, en miða fremur við þörfina á því að fá þjónustu, og þá eins og í þessari tillögu að miða frekar við getuna, hvort einhver geti raunverulega unnið, frekar en að horfa til þess hvað hann eða hún kann að vera gamall eða gömul í árum.

Á þeim tíma komumst við að þeirri niðurstöðu, man ég, að samfélagið væri ekki alveg tilbúið. Við værum ekki alveg komin þangað. Núna hins vegar, einum 15–20 árum síðar, er staðan sú að jafnvel á þessum tiltölulega stutta tíma hefur samfélagið breyst mikið. Bara á þessu tímabili hefur til að mynda væntanlegur lífaldur fólks við fæðingu lengst töluvert og aldursviðmiðið 67–70 er í rauninni algjörlega komið úr takti við raunveruleikann sem við búum við sem samfélag. Ég held að ég muni það rétt að upprunalega hafi 67 ára viðmiðið verið miðað við að ef menn hættu að vinna þá, gætu þeir vænst þess að jafnaði að lifa í fimm til sex ár í viðbót og þess vegna væri ekkert óeðlilegt að þeir hættu að vinna á þeim tíma. Íslendingur sem nær 70 ára aldri í dag er að jafnaði, aðeins mismunandi eftir kynjum, með lífslíkur þaðan í frá upp á ein 15 ár, plús/mínus.

Þá spyr maður sig, sérstaklega ef fólk er heilt heilsu og hefur starfsþrek: Hvers vegna í ósköpunum ekki að notfæra sér þá möguleika sem felast í því, og, eins og hv. þm. Guðjón S. Brjánsson kom inn á, notfæra sér reynsluna, notfæra sér þekkinguna, nota tækifærin sem felast í því að nema af þessum eldri einstaklingum og flytja þekkinguna áfram á milli kynslóða? Ég tek líka undir það sem hv. þingmaður kom inn á, að auðvitað þarf að horfa til þess að það er í tilteknum starfsgreinum þar sem færnikröfur eru annaðhvort mjög miklar eða mjög sértækar, að það kunni að vera ástæða til að takmarka það með einhverjum hætti, eða þá að alþjóðasamningar takmarki með einhverju móti hvað við getum gert. En engu að síður, svona stórt séð, þá snúast nútímastörf ekki um líkamlega burði. Þau snúast í rauninni ekki um það.

Eins og komið hefur verið inn á hér í dag þarf að ræða þessi mál í samhengi við aðila vinnumarkaðarins og auðvitað eiga aðilar vinnumarkaðarins og hagsmunaaðilar aðrir að koma að þessu. En til að mynda gætu sveitarfélögin, sem eru gríðarstór vinnuveitandi á Íslandi, horft til þess að þurfa ekki að ráða t.d. vana eða góða kennara sem verktaka eða eitthvað slíkt þegar það vantar kennara, þau gætu hreinlega ráðið þessa kennara vegna þess að þeir væru góðir kennarar og fengið þá til að starfa áfram. Og þannig mætti lengi telja.

En fyrst og síðast snýst þessi tillaga um að tryggja annars vegar að við séum ekki með fordóma gagnvart fólki á grundvelli aldurs, og hins vegar að tryggja fólki að ekki sé verið að skerða réttindi þess að nauðsynjalausu út af einhverjum, ja, við skulum segja dálítið gömlum hugmyndum um það hvenær einstaklingur er orðinn gamall og farlama. Gamalt fólk eða eldra fólk er gríðarlega fjölbreyttur hópur og það er í besta falli sérkennilegt að ætla að halda sig við einhver tiltekin aldursviðmið þegar við ættum að láta færnina og ráða og vilja einstaklingsins. Og það er það sem er svo mikilvægt við þessa tillögu. Ég fagna því að hún sé komin fram aftur.



[16:29]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um þingsályktunartillögu um brottfall aldurstengdra starfslokareglna, en flutningsmaður er hv. þm. Guðjón S. Brjánsson. Ég er með honum á þessari tillögu og get ekki annað en stutt hana heils hugar vegna þess að ég tel stórfurðulegt að við séum að setja inn í lög að þegar maður verður 65 ára eða 70 ára, eða á hvaða aldri sem er, eigi maður ekki og megi ekki vinna lengur þá vinnu sem maður stundar og vill halda því áfram. Auðvitað á að vera númer eitt: Viltu vinna áfram? Og númer tvö: Geturðu unnið áfram? Við eigum sérstaklega að taka á þessu núna vegna þess að alltaf er talað um að þjóðin sé að eldast og þar af leiðandi verði færri vinnandi hendur í framtíðinni. Það þarf ekki að vera ef við sjáum til þess að þeir sem vilja vinna geti unnið ef þeir vilja vinna. Eitt það ömurlegasta sem ég veit er þegar hindranir eru settar í veg fólks sem vill vinna eins og gert er gagnvart öryrkjum og gagnvart eldri borgurum. Það er ekki á neinn hátt eðlilegt að hafa hlutina svoleiðis. Það segir sig sjálft að hver vinnandi hönd skilar skatttekjum, bæði til sveitarfélaga og ríkisins. Þar af leiðandi er mun betra að sjá til þess að ryðja öllum hindrunum úr vegi þannig að það sé bara viljinn og getan sem ráði en ekki aldurinn. Þess vegna styð ég heils hugar þessa þingsályktunartillögu.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.