151. löggjafarþing — 62. fundur
 3. mars 2021.
birting viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga í dómum.
fsp. JÞÓ, 254. mál. — Þskj. 274.

[13:47]
Fyrirspyrjandi (Jón Þór Ólafsson) (P):

Forseti. Ég vil spyrja hæstv. dómsmálaráðherra um birtingu viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga í dómum. Fyrirspurnin hljóðar svo:

„1. Hvernig hyggst ráðherra bregðast við birtingu viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga í dómum?

2. Hvað hyggst ráðherra gera varðandi vinnslu og dreifingu fyrirtækja á viðkvæmum persónugreinanlegum upplýsingum sem hafa verið birtar í dómum?“

Staðreyndin er sú að dómstólar landsins, sem eiga að fylgja persónuverndarlögunum, hafa samkvæmt úrskurði Persónuverndar verið að birta upplýsingar sem eru persónugreinanlegar, í andstöðu við lög, á vef sínum og jafnvel þó að það sé leiðrétt síðar þá taka fyrirtæki í landinu, alla vega tvö sem ég veit af, dómana og vinna áfram með upplýsingarnar og selja aðgang að þeim.

Hvers vegna skiptir það máli? Það skiptir máli vegna þess að það er grundvallarréttur almennings að sækja rétt sinn. En ef fólk hræðist það að sækja réttinn — tökum dæmi af manneskju sem losnar úr ofbeldissambandi og vill kæra ofbeldið til lögreglu. Það fer fyrir dómstóla og þar koma fram upplýsingar sem ofbeldismaðurinn notaði gegn manneskjunni til að halda henni í ofbeldissambandinu. Þær eru birtar opinberlega í dómi og rata síðan inn í dómasafn einkafyrirtækja sem selja aðgang að því. Þetta hræðir fólk frá því að notfæra sér grundvallarréttindi sín, að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Þess vegna skiptir þetta máli. Umfram það á fólk einfaldlega rétt á sínu einkalífi, nema við stjórnmálamenn en það er önnur saga.

Þetta er spurningin, annars vegar hvað dómsmálaráðherra hyggst gera varðandi birtingu persónugreinanlegra upplýsinga í dómum og hins vegar ef einkafyrirtæki eru að vinna áfram með þær.

Hæstv. dómsmálaráðherra svaraði fyrirspurn minni, sem var skrifleg, 25. nóvember á þarsíðasta ári, 2019, og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Ráðherra lítur alvarlegum augum ef persónuupplýsingar í dómum og önnur vinnsla þeirra fer gegn lögum um persónuvernd.“

Nú er liðið eitt ár og tveir, þrír mánuðir. Hvað hyggst ráðherra gera til að bregðast við birtingu viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga í dómum og vinnslu einkaaðila á þeim viðkvæmu og persónugreinanlegu upplýsingum í framhaldinu?



[13:50]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að gera stuttlega grein fyrir því regluverki sem er í gildi um birtingu dóma.

Í lögum um dómstóla, nr. 50/2016, er kveðið á um útgáfu dóma Hæstaréttar, Landsréttar og héraðsdómstólanna. Þar kemur fram að þeir skuli gefnir út ásamt viðeigandi úrlausnum og sams konar ákvæði er um dóma Landsréttar. Við útgáfu dóma skal nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari. Um útgáfu héraðsdóma segir að dómstólasýslan hafi umsjón með útgáfu dóma héraðsdómstólanna. Þá segir í 2. mgr. 38. gr. laga um dómstóla að héraðsdómar í einkamálum sem varða viðkvæm persónuleg málefni aðila, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna og umgengni við þau, skuli ekki gefnir út. Einnig skal gæta nafnleyndar í dómum í einkamálum ef sérstök ástæða er til. Þegar nöfnum er haldið leyndum skal jafnframt afmá önnur atriði úr dómi sem tengt geta aðila eða aðra við sakarefnið.

Síðan er kveðið á um í 6. mgr. 7. gr. laga um dómstóla að stjórn dómstólasýslunnar setji reglur um birtingu dóma og úrskurða héraðsdómstóla. Var það ákvæði sett að frumkvæði þáverandi dómsmálaráðherra. Dómstólasýslan hefur sett reglur um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu dómstólanna, þær eru nr. 3/2019, og þar kemur skýrlega fram að birting dómsúrlausna skuli miða að því að varpa ljósi á starfsemi dómstólanna og tryggja aðgang að upplýsingum um réttarframkvæmdina. Hver dómstóll fyrir sig ber ábyrgð á því að birting dómsúrlausna sé í samræmi við reglur og þau lög sem eru í gildi.

Mikil og þörf umræða hefur verið í nokkurn tíma um birtingu dóma á netinu. Má þar nefna að í júní 2018 var á vegum dómstólasýslunnar haldinn fundur ýmissa aðila þar sem rætt var um birtingu dóma og t.d. vernd og friðhelgi barna. Í nóvember 2018 var haldið málþing dómstólasýslunnar þar sem rætt var um tilgang birtingar dóma á netinu. Í október 2018 var líka lagt fram frumvarp frá þáverandi dómsmálaráðherra sem tilraun til að bregðast við gagnrýni sem komið hafði fram. Það frumvarp hlaut mismunandi umsagnir, og var talið vega að lýðræðislegu hlutverki fjölmiðla, sem kom fram í gagnrýni fjölmiðla á það mál. Frumvarpið var ekki lagt fram á Alþingi en hins vegar var lagt fram frumvarp þar sem dómstólasýslunni var falið að setja samræmdar reglur. Þær hafa nú verið í gildi í nokkurn tíma og hefur ráðuneytið fylgst vel með virkni þeirra og þá hvort það sé nægjanlegt eða hvort frekari úrbóta sé þörf.

Ráðuneytið hefur átt fundi reglulega með formanni og framkvæmdastjóra dómstólasýslunnar til að ræða birtingu dóma, regluverkið og hvað betur megi fara og hvaða næstu skref ættu að vera til að takast á við það verkefni að birta dóma, en jafnframt að standa vörð um rétt manna til persónuverndar. Ráðuneytið sendi dómstólasýslunni erindi nú síðast í lok nóvember þar sem óskað var eftir upplýsingum um hver áhrif reglnanna um birtingu dóma hafi verið, til hvaða aðgerða dómstólasýslan hygðist grípa til að tryggja að birting dóma væri í samræmi við reglurnar og hvað forstöðumenn dómstólanna hygðust gera til að tryggja að svo væri. Hjá dómstólasýslunni hefur komið fram að gildandi reglur væru mikilvæg breyting sem hefur gagnast vel og felur í sér samræmda birtingu dómsúrlausna á öllum dómstigum og hefur dómstólasýslan einnig kannað hvernig verklagi er háttað hjá öllum dómstólum um birtingu dóma, ásamt því að tilnefna starfsmann dómstólasýslunnar sem persónuverndarfulltrúa allra dómstólanna og dómstólasýslunnar í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga. Hlutverk hans er þá að sinna eftirliti við fylgni við reglurnar og aðstoða aðila við að fylgja þeim lögum og reglum.

Dómstólasýslan hefur einnig sett verkferli um viðbrögð ef upp kemur öryggisbrestur, sem er einnig mikilvægt, og er kveðið á um þær tilkynningar sem senda skal þegar birting dóms er á einhvern hátt í ósamræmi við persónuvernd og í framkvæmd hafa dómstólar einnig tilkynnt þeim sem birta dóma frá dómstólum á vefsíðum sínum ef birtingu dóms er breytt vegna öryggisbrests. — Og það er í takti við síðari spurninguna hér. — En þetta verkferli hefur verið kynnt forstöðumönnum dómstólanna og fékk dómstólasýslan Björgu Thorarensen til að halda fræðsluerindi um birtingu dóma og persónuvernd fyrir þá forstöðumenn til að auka umræðu og vitund um reglurnar, verklagið og mikilvægi þess að persónuverndar við birtingu dóma sé gætt. Einnig er rétt að benda á að dómstólasýslan hefur sett á heimasíðu sína eyðublað fyrir þá sem óska eftir að nöfn þeirra séu afmáð úr dómum einu ári eftir birtingu þeirra eins og heimild er til í reglunum. Það á þá að auka aðgengi aðila og gera rétt þeirra sýnilegan og aðgengilegan.

Ég legg auðvitað mikla áherslu á að vel sé staðið að birtingu dóma. Ég tel að við birtingu dóma verði að gæta að sjónarmiðum um aðgang almennings og fjölmiðla um niðurstöður dómstóla en ekki síst rétti manna til verndar á persónulegum upplýsingum. En þarna vegast á mikilvæg sjónarmið og verkefnið er ekki einfalt, eins og komið hefur í ljós í hvert skipti sem málin eru rædd, og alltaf eitthvað sem hægt er að gera til bóta. En ég tel að þær reglur um dómstólasýsluna og það sem hefur verið sett eftir það og fylgt eftir hafi verið til bóta. Það þarf hins vegar ávallt að fylgjast vel með hvernig unnið er með þær, fræða dómara áfram um tilvist þeirra og mikilvægi þess að bregðast hratt við ef eitthvað fer úrskeiðis.

Ég kem kannski aðeins nánar inn á það í seinna svari mínu á eftir.



[13:55]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir þessa fyrirspurn. Eftir að ég kom á þing var mér bent á það að verið væri að selja upplýsingar um mig, persónuupplýsingar, heilsufarsupplýsingar, hjá lögmönnum inni í dómsskjölum. Eina sem ég hafði af mér brotið var að ég hafði brotið umferðarlög og ég varð fyrir líkamlegu tjóni. Í þeim upplýsingum sem verið var að selja voru heilsufarsupplýsingar. Og það sem var kannski það óeðlilega við það allt saman var að inni í því voru líka rangar heilsufarsupplýsingar sem ekki var búið að taka fram að búið væri að leiðrétta. Þetta segir okkur að það er grafalvarlegt mál að það skuli vera hægt að versla með heilsufarsupplýsingar eða aðrar persónuupplýsingar fólks, eftirlitslaust, án þess að nokkur geri athugasemd við það, að það skuli enn þá vera gert. Ég benti á þetta hérna í upphafi, fljótlega eftir að ég kom á þing, og ég er aftur búinn að benda dómsmálaráðherra á það, en það virðist ekkert vera gert í þessu. Þess vegna vona ég núna að það þurfi ekki að ræða þetta oftar.



[13:56]
Fyrirspyrjandi (Jón Þór Ólafsson) (P):

Forseti. Það er nefnilega þetta, að verið sé að versla með persónuupplýsingar, það er það sem er gert af einkafyrirtækjum. Og hæstv. dómsmálaráðherra ætlar að koma inn á það í síðara svari sínu hvað hún hafi gert eða hyggist gera varðandi vinnslu og dreifingu fyrirtækja á viðkvæmum, persónugreinanlegum upplýsingum sem voru birtar í dómi, jafnvel afmáðar úr dómi, en ekki þarna því að áfram eru þær þarna og unnið með þær og þær seldar. Til dæmis heilsufarsupplýsingar. Persónuvernd úrskurðaði að afmá þyrfti persónuupplýsingar í einu máli. En hvað með öll hin málin ef þar eru viðkvæmar heilsufars- og persónuupplýsingar um fólk? Ef fólk lendir í slysi, eins og hv. þingmaður þar sem ekið var á hann, þarf það samt sem áður að skila inn heilsufarsupplýsingum. Tveir læknar rífast og það getur ratað inn í dóma.

En eins og hæstv. dómsmálaráðherra nefnir hafa dómstólasýslan og dómstólarnir tekið á þessu máli og við höfum verið að fylgja því eftir síðan ég kom inn á þing. Hef ég sett mikinn fókus á það, enda hafa borgarar verið að benda mér á þessar brotalamir og við höfum oft fengið dómstólasýsluna á okkar fund. Nú virðist horfa til betri vegar, sér í lagi frá 12. febrúar. Þá kom fulltrúi dómstólasýslunnar og talaði um persónuverndarfulltrúa.

Þannig að ég vísa því til almennings: Ef það eru einhverjir dómar þar sem ykkur finnst að verið sé að brjóta gegn lögum um persónuvernd gagnvart ykkur, þá er samkvæmt lögum persónuverndarfulltrúi innan dómstólasýslunnar sem þið eigið rétt á að hafa samband við og hann hefur þá skyldu að vísa því til dómara og þeirra sem birta dóma um að það sé afmáð. Við erum komin þangað. Það þarf líka að skoða hvernig við takmörkum að þetta gerist í raun og veru, en við erum alla vega komin þangað. Þá kemur að því sem snýr fyllilega að hæstv. dómsmálaráðherra og það er að hafa eftirlit með því að persónuverndarlögunum sé framfylgt þannig að einkaaðilar séu ekki áfram að versla með viðkvæmar, persónugreinanlegar upplýsingar um borgara landsins. Hvað hyggst hæstv. ráðherra gera á öllum þessum tíma og nú í framhaldinu varðandi það?



[13:59]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég reyndi að fara yfir allar helstu breytingarnar og úrbætur og þá eftirfylgni sem við höfum haft með þessum breytingum en áfram þarf auðvitað að skoða hvernig unnt er að bæta frekar úr og ræða ýmsar tillögur þar um, t.d. hvort birta eigi dóma héraðsdóms, sem ekki er áfrýjað, á netinu og hafa aðgang að þeim með öðrum hætti. Það þarf að gæta að því hvernig fjallað er um dómsmál almennt og þá sem eiga aðild að þeim, m.a. í fjölmiðlum, og oft getur verið, eins og komið hefur fram, um viðkvæm málefni að ræða eins og dæmin sanna. Hjá því verður ekki horft að í fámennari umdæmum héraðsdómstóla getur birting yfir höfuð, þótt allrar persónuverndar sé gætt við birtingu, verið erfið þar sem öllum er kunnugt um hverjir aðilar málsins eru. Það er auðvitað áskorun í litlu samfélagi og kannski önnur áskorun sem við mætum hér en annars staðar, og það er eitthvað sem þarf að hafa í huga við áframhaldandi úrbætur á þessu sviði.

Eins og kom fram í svari mínu til hv. þingmanns áðan hefur Persónuvernd litið svo á að í tilfelli Hæstaréttar, í ákveðnu máli, teldist rétturinn ábyrgðaraðili á þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem felst í birtingu á útgefnum dómum réttarins. Og að því er varðar fyrirtæki eins og Fons Juris, sem birta dóma Hæstaréttar líka, þá telst fyrirtækið ekki sjálft vera ábyrgðaraðili á þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem felst í birtingu þeirra en telst vera ábyrgðaraðili á þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem felst í að gera dóma Hæstaréttar og annarra dómstóla, sem gefnir hafa verið út, tiltæka með því að veita aðgang að þeim. Það fellur hins vegar ekki undir ábyrgðarsvið dómsmálaráðherra að hafa eftirlit með fyrirtækjum sem birta opinberar upplýsingar, eins og dóma, en ábyrgðarsvið mitt nær til starfsemi dómstólanna og dómstólasýslan vinnur við að bæta verklagið og koma ábendingunum til fyrirtækjanna. Er bæði um að ræða reglusetningu og fræðslu, en einnig hefur verið brugðist við þeirri stöðu að aðrir en dómstólar birta dóma þeirra. Í slíkum tilfellum þarf að tilkynna um öryggisbrest við birtingu dóma og hafa þessir aðilar brugðist við slíkum tilkynningum og leiðrétt til samræmis við leiðréttingar hjá dómstólum eftir að þessu verklagi var komið upp.

Ég tel einfaldlega mikilvægt að borgararnir geti leitað til dómstóla með sín mál í trausti þess að vinnsla þeirra sé vönduð og lögmæt að öllu leyti og það verður áframhaldandi vinna hjá mér og mínu ráðuneyti.