151. löggjafarþing — 64. fundur
 4. mars 2021.
neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins.

[13:11]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra talar um virkni. Ég næ ekki hvers vegna í ósköpunum hann er að biðja um meiri virkni. Það vantar ekki jarðskjálftavirkni, það vantar ekki gosvirkni og sérstaklega ekki á Suðurnesjum. En þar er líka mesta atvinnuleysið, langmesta atvinnuleysið. Í dag eru um 25.000–30.000 manns atvinnulaus. Í kringum 1.300 manns eru dottin út af bótum. Á sama tíma, eða núna í janúar, fékk hæstv. félags- og barnamálaráðherra skýrslu til sín frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, sláandi skýrslu þar sem kemur fram að fólk er að reyna að tóra á undir 200.000 kr. á mánuði. Á sama tíma kemur fram að þetta fólk er að meðaltali að borga 160.000 kr. og allt upp í 200.000 kr. í leigu. Þar af leiðandi segir það sig sjálft að þetta fólk þarf að lágmarki 290.000–350.000 til að lifa af. En það er í flestum tilfellum að fá rétt um 200.000 kr. útborgað.

Ég spyr hæstv. félags- og barnamálaráðherra: Hvernig í ósköpunum á þetta fólk að lifa? Hvernig í ósköpunum á fólk að lifa þegar það kemur líka fram hjá félagsmálaráðuneytinu að bætur eru 129.120 kr. á mánuði fyrir einstætt foreldri án húsnæðis? Á þessi einstaklingur að lifa á þessu? Hvernig? Hvers vegna er húsnæðið ekki inni? Hvers vegna er enn verið að klóra sér í hausnum yfir virkni? Hvers vegna er þessu ekki hætt og eitthvað gert fyrir þetta fólk? Það segir sig sjálft að hvorki við né þetta fólk getur á nokkurn hátt lifað á þessum smánarbótum sem eru í dag enda er það allt hjá hjálparstofnunum. Það kemur skýrt fram í þessari skýrslu. Er hæstv. ráðherra búinn að lesa skýrsluna og ætlar hann að bregðast við henni?



[13:13]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður var með allmargar spurningar. Ég ætla að reyna að stikla á því sem þessu tengist. Hv. þingmaður nefnir sérstaklega neysluviðmið félagsmálaráðuneytisins sem birt eru af félagsmálaráðuneytinu en hafa verið reiknuð út eftir ákveðnum forsendum. Ég hef áður svarað þessu þegar hv. þm. Inga Sæland spurði um þetta nýverið. Þegar neysluviðmiðin voru birt í fyrra þá spratt þessi sama umræða upp. Þess vegna höfðum við frumkvæði að því að endurskoða þessi neysluviðmið, fara ofan í það með hvaða hætti þau væru samsett og það þarf fleiri aðila að því. Ég er sammála hv. þingmanni að þau endurspegla ekki þann kostnað sem þarf til að komast af í íslensku samfélagi. Þess vegna erum við að endurskoða þau, endurskoða grunninn undir því hvernig þau eru samsett. Það eru fleiri aðilar en bara félagsmálaráðuneytið sem koma að því. Síðan er þetta bara birt og reiknað með reglubundnum hætti eftir þeim forsendum sem viðmiðin byggja á.

Ríkisstjórnin hefur á þessu kjörtímabili og m.a. núna í kórónuveirufaraldrinum veitt verulega háar fjárhæðir í að ná utan um fólk og viðkvæma hópa. Við höfum ráðist í skattkerfisbreytingar á kjörtímabilinu. Við höfum ráðist í breytingar á barnabótakerfinu. Við höfum með margvíslegum hætti í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð tekið utan um fólk þar með breytingu sem ég rakti hér áðan í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Getum við gert meira? Já, við getum gert meira en við höfum sannarlega gert töluvert mikið. Hv. þingmaður fær félagsmálaráðherra aldrei til þess að segja að við séum búin að gera nóg. Það er ekki þannig. En erum við búin að gera talsvert mikið? Já, við erum búin að gera það. Við höfum haldið utan um fólk. Við höfum líka verið að gera kerfisbreytingar í húsnæðismálum en verkefnin eru ærin og þau halda áfram.



[13:16]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir svörin, en þau voru mjög rýr. Hvernig í ósköpunum stendur á því að setja þarf nefnd í málið og endurskoða þetta? Hvernig þá að endurskoða? Fara með skýrsluna niður á tjörn og láta endur skoða hana? Ég skil ekki svona málflutning. Þegar við erum að tala um ríkasta liðið í landinu, fyrirtæki sem greiða sér milljarða í arð, þá er ekkert verið að endurskoða eða setja í nefnd. Þá eru hlutirnir gerðir einn, tveir og þrír. Ef það þarf að lækka veiðigjöldin á þá sem greiða sér milljarða í arð, af því að þeir þurfa að borga 10% eða 20% af milljörðunum, þá er ekkert verið að endurskoða eða setja í nefnd. Það er bara gert einn, tveir og þrír. En þegar á að sjá til þess að fólk þurfi ekki að standa í röðum eftir mat þarf nefnd, endurskoðun og nefnd á nefnd ofan, og svo þarf að klóra sér í hausnum yfir virkni. Þetta hefur ekkert með það að gera. Fólk borðar ekki fyrir virkni, endurskoðun eða nefndir. Það borðar og kaupir fyrir það sem það fær í vasann. Þannig er staðan og það er stór hópur, 5.000–10.000 manns, heilu fjölskyldurnar, sem þarf að lifa af minna en 200.000 kr.



[13:17]
félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður blandar hér saman því sem lýtur að virkni og mikilvægi hennar, að við séum með öflug virkniúrræði fyrir þá sem hafa verið atvinnulausir lengi, og síðan vinnu sem er í gangi við að endurskoða neysluviðmið. Það er mikilvægt að endurskoða neysluviðmiðin. Við höfum verið að vinna að því. Og alveg eins og með annað sem við erum að vinna að, aðrar vísitölur, aðra hluti sem við erum með, er það samsetningin á því sem veldur þeirri brenglun sem fram kemur í neysluviðmiðunum og þess vegna erum við að endurskoða þau.

Ég og þingmaðurinn erum sammála um að neysluviðmiðin endurspegli ekki raunkostnaðinn við að lifa í íslensku samfélagi. Þess vegna erum við að endurskoða viðmiðin. (Gripið fram í.) Og til þess að geta gert það erum við með fleiri aðila sem meta ólíka þætti; húsnæðismálin, það sem lýtur að uppeldi barna og fleiri þætti sem koma inn í þá vinnu þannig að við getum breytt því til frambúðar. Ég og hv. þingmaður erum sammála um það. Og af því að hv. þingmaður talaði hér um virkni áðan vona ég að við séum sammála um mikilvægi þess að um leið og við tryggjum framfærslu fólks sem er atvinnulaust komum við sem flestum út á vinnumarkaðinn aftur, sköpum störf, komum hagkerfinu af stað, vegna þess að vinnan er grunnurinn undir velferðinni. Það hefur alltaf verið þannig og það verður þannig áfram. (Gripið fram í.)