151. löggjafarþing — 64. fundur
 4. mars 2021.
áhættumat vegna framkvæmdar fjárlaga.

[13:19]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur unnið greiningu á áhættuþáttum við framkvæmd fjárlaga ársins 2021 og tekið saman yfirlit yfir málaflokka og fjárlagaliði sem þörf er á að hafa sérstakt eftirlit með eða þar sem grípa þarf til viðbótaraðgerða til að tryggja að útgjöld verði innan fjárheimilda á árinu. Þetta er athyglisvert minnisblað og það kemur hér fram að ráðuneytið telur, í framhaldi af fundi með öllum ráðuneytum í upphafi árs, að án frekari aðgerða gætu útgjöldin orðið 29 milljörðum kr. hærri en forsendur fjárlaga gera ráð fyrir. Þetta eru náttúrlega verulega háar upphæðir. Maður spyr sig: Hvað er verið að gera til að lágmarka að slíkt áhættumat raungerist? Þá höfum við lögin um opinber fjármál og þau eru mjög skýr. Ráðherra á að grípa til aðgerða ef sýnt þykir að fjárveiting dugir ekki, forstöðumenn bera ákveðna ábyrgð o.s.frv. Lögin eru þannig úr garði gerð að þau loka á að það sé í raun og veru opinn tékki. Margir málaflokkar eru undir þessum 29 milljörðum og ég nefni hér t.d. atvinnuleysisbætur. Ég skil vissulega að óvissa sé í kringum þær. Þær eru stór hluti af þessu eða rúmir 19 milljarðar. Þarna er t.d. liður sem heitir útlendingamál, 500 milljónir. Nú fékk sá málaflokkur aukafjárveitingu í haust upp á 400 milljónir og enn er óvissa þar. Maður spyr sig og ég spyr hæstv. ráðherra: Hvenær segir ríkið stopp þegar fjárveitingar eru búnar? Ef það koma t.d. 3.000 umsóknir á vegum hælisleitenda borgar ríkissjóður það þá bara? Eru ekki einhver úrræði til að við beitum þeim stjórntækjum sem við höfum í lögunum? Hvernig er verið að beita þessum stjórntækjum?



[13:21]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp og vil bæta því við að minnisblaðið sem unnið hefur verið í ráðuneyti mínu hefur verið lagt fyrir ríkisstjórn og kynnt í fjárlaganefnd. Það er mjög mikilvægt sem hv. þingmaður kom inn á að stærsti hluti óvissunnar tengist atvinnuleysi á árinu. Það hefur verið til umræðu í þessum fyrirspurnatíma þar sem af hálfu málshefjanda í þeirri fyrirspurn var farið fram með hugmyndir um að stórauka réttindin sem myndi mögulega enn auka áhættu í þeim málaflokki. En svar mitt við því hvenær sagt er nóg liggur eiginlega í því að fjárlögin eru að hluta til áætlun um útgjöld komandi árs með hliðsjón af ýmsum þáttum, lýðfræðilegri þróun og öðru slíku þar sem undirliggjandi eru einhver tiltekin réttindi fólks til að fá stuðning. Að því leytinu til eru fjárlögin áætlun og atvinnuleysi er kannski ágætisdæmi um það.

Að öðru leyti finnst mér, og ég er ekki að segja þetta í fyrsta skipti hér í þinginu, að eftirlit með framkvæmd fjárlaga mætti vera miklu betra. Það eru mjög skýrar reglur í lögum um opinber fjármál um skyldu fagráðherra til þess að koma sér inn í þá ramma sem þingið hefur ákveðið fyrir viðkomandi málaflokka og einmitt þegar við erum að ræða svona hluti á fyrri hluta árs er ágætistími fram undan til að bregðast við. Það getur verið snúið. Það getur verið pólitískt erfitt. Það getur verið mjög viðkvæmt (Forseti hringir.) að stíga þar inn. En lögin eru alveg skýr um þetta og það sem ég hefði viljað sjá er miklu þéttara og öflugra aðhald með þessum þætti af hálfu þingsins.



[13:23]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og tek undir að það þarf að vera mun öflugra eftirlit. Ég hef bara rekið mig á það innan fjárlaganefndar að þegar maður spyr um einstaka liði sem hafa farið fram úr og farið er fram á aukafjárveitingar þá virðist meiri hluti nefndarinnar hafa mjög takmarkaðan áhuga á því að ræða það og spyrja gagnrýninna spurninga. Ég hef svo sannarlega rekið mig á þetta í starfi nefndarinnar og mér finnst það miður. Það er bara þannig að ef menn virða ekki þetta kerfi, þau lög sem við höfum sett, lög um opinber fjármál, og virða ekki reglurnar þá er ekkert hægt að stjórna þessu. Það er bara þannig. Þá streyma fjármunir úr ríkissjóði endalaust. Það er náttúrlega ábyrgð ráðherra að beita sér fyrir því að lögunum sé framfylgt, lögum um opinber fjármál. Í raun og veru gera þessi lög ráð fyrir því að aukafjárveitingar eigi að heyra sögunni til. Vissulega þekkjum við að hingað kom veirufaraldur og því fylgdu aukafjárlög. Það virðist hins vegar vera tilhneiging hjá forstöðumönnum stofnana að fara til ráðherra og segja síðan (Forseti hringir.) að það þurfi bara aukafjárveitingu. Ábyrgð þessara aðila er mikil. Þetta er vel útfært í lögunum en það er eins og ekki sé verið (Forseti hringir.) að framfylgja þeim eins og vera ber.



[13:25]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Aðhaldið úr fjármálaráðuneytinu birtist auðvitað með því að við upplýsum þingið um stöðuna og tökum málið upp á vettvangi ríkisstjórnar. Síðan eru lögin nokkuð skýr um það hvaða tilvik geta uppfyllt skilyrði þess að komast inn í fjáraukalög undir lok árs eða eftir atvikum að fá framlag af almennum varasjóði. Með því að halda mönnum við efnið þá er verið að boða það að menn fái ekki slík framlög, enda uppfylli menn ekki skilyrðin ef svo ber undir, sem þýðir að menn eru komnir með halla sem er ákveðið vandamál í stofnanarekstri.

Ég verð að nota tækifærið sömuleiðis til að vekja athygli á því að hér erum við bara að tala um það þegar menn fara fram úr fjárheimildum. Ímyndið ykkur hvers konar verkefni það væri fyrir okkur ef við ætluðum að hafa almennilegt eftirlit með heildarfjárveitingunum, hvort heildarfjárveitingin er í einhverju samræmi við þörfina, hvort við gætum gert betur með heildarfjármunina. Það er auðvitað það sem við þurfum að verða miklu betri í og við erum ekki komin með stofnanakerfi, jafnvel þótt við höfum aðila eins og ríkisendurskoðanda, til að gera það almennilega.