151. löggjafarþing — 64. fundur
 4. mars 2021.
opinberar fjárfestingar.

[13:34]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það verður seint sagt að ríkisstjórnin hafi gengið rösklega til verks í opinberum fjárfestingum þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Samkvæmt nýjum gögnum hefur opinber fjárfesting dregist saman um 9,3% á árinu 2020 og á árinu 2019 dróst hún saman um 10,8%, en einmitt þá var þörfin fyrir inngrip af hálfu hins opinbera þegar orðin æpandi, enda voru merkin um samdrátt í efnahagslífinu bæði augljós og skýr. Fjöldi loforða er ekki mælikvarði á árangur ríkisstjórnarinnar heldur efndir þeirra og árangur. Ég man ekki betur en að yfirlýsingar ríkisstjórnarflokkanna, um innviðafjárfestingar í tengslum við kosningarnar árið 2017, hafi verið umfangsmiklar. Einn þeirra lofaði 100 milljörðum og mætti því ætla að hann hafi verið tilbúinn með áætlun. Ekki síst þess vegna vekur það sérstaka undrun að sjá hve illa undirbúið framkvæmdarvaldið er fyrir að setja af stað lykilframkvæmdir og fjárfestingar á þeim tíma þegar nauðsynlegt hefði verið að beita þeim verkfærum í hagstjórninni.

Hæstv. ráðherra verður tíðrætt um sterka stöðu ríkissjóðs og hversu vel sú staða reynist okkur nú í kreppunni. Hvernig skilar sú staða sér í aðgerðum, í fjárfestingum í samræmi við vandann?

Herra forseti. Ríkisstjórnin lofaði auknum útgjöldum og sérstaklega til fjárfestinga í innviðum. Það gerði hún í fjárlögunum og fjáraukalögunum. Gögnin sýna svart á hvítu að fjárfestingin hefur ekki skilað sér. Loforðið hefur ekki verið efnt.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig útskýrir hann þennan mikla samdrátt í opinberum fjárfestingum? Er þetta að hans mati vottur um góða hagstjórn í dýpstu kreppu síðari tíma?



[13:36]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem við sjáum nú þegar reynt er að leggja mat á árið 2020 er að aðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast hafa skilað sér gríðarlega vel. Það birtist okkur m.a. í því að við stöndum núna ekki lengur í dýpstu kreppu í 100 ár heldur er samdrátturinn á árinu 2020 töluvert minni en áður var spáð. Þar koma fram fjölbreyttir þættir sem styðja þá niðurstöðu en einkaneysla er einn þeirra og fjárfesting atvinnulífsins var að því er virðist ívið meiri í fyrra en áður var áætlað.

Varðandi opinberu fjárfestinguna er eitt sem stendur upp úr. Það er að sveitarfélögin hafa algerlega haldið að sér höndum. Þegar við skoðum opinberu fjárfestinguna uppskipt milli ríkis og sveitarfélaga þá sjáum við mjög skýrt að við höfum staðið við það sem lofað var, að auka við fjárfestingu ríkisins, og það sem meira er, við höfum fjármagnað hluti sem enn eiga eftir að koma til framkvæmda. Þannig að ég hef væntingar um að við fáum dálítið sterka bylgju með okkur inn á árið 2021. Við sjáum þetta t.d. af væntum og boðuðum útboðum á vegum Framkvæmdasýslu ríkisins, að við höfum ekki náð að fullu leyti að nýta allar fjárheimildir ársins 2020 og tökum eitthvað af þeim með okkur yfir á þetta ár en engu að síður var fjárfesting ríkisins að vaxa, að ekki sé nú talað um ef við tækjum einskiptisliði sem ekki voru líklegir til þess að auka mjög umsvif hér innan lands, eins og kaupin á Herjólfi, ef við tækjum það frá. Þá sæjum við enn meiri vöxt í fjárfestingu ríkisins á árinu 2020 borið saman við 2019.

Ég er meira en tilbúinn til að taka dýpri umræðu um þetta og skiptir verulega miklu máli vegna þess að við litum ávallt þannig á að þetta væri efnahagsaðgerð, þetta væri aðgerð þar sem við reyndum að teygja okkur í þau mál þar sem við fyndum fyrir mikilli þjóðhagslegri hagkvæmni, mannaflsfrekum verkefnum og við værum að veita mótvægi við samdráttinn sem væri að myndast.



[13:39]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er einmitt kjarni málsins, hvenær svona hlutir koma til framkvæmda, það skiptir auðvitað öllu máli. Nú liggur alveg kristaltært fyrir að þessar framkvæmdir allar og fjárfestingar hafa dregist. Það er útlit fyrir að þær fari ekki almennilega af stað fyrr en á síðari hluta þessa árs og að þær muni teygja sig fram í framtíðina, akkúrat þegar við öll vonum að viðspyrna atvinnulífsins og atvinnuvegafjárfestingar komist á skrið. Þá er hætt við því að fjárfestingar ríkisins sem þá verða komnar á fullt skrið muni hafa þveröfug áhrif við það sem ætlast var til, valdi óþarfaspennu, óþarfaþenslu með því sem því fylgir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann deili þeim áhyggjum með mér að þetta ástand muni koma upp og til hvaða ráða er hægt að grípa til að koma í veg fyrir að þetta gerist.



[13:40]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að greina þessa mynd aðeins betur. Við þurfum að átta okkur á því hvers vegna fjárfestingar sveitarfélaganna skruppu þetta mikið saman, að heildarfjárfesting hins opinbera, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, hefur dregist saman. Við verðum líka að skoða mælingarnar. Mig langar að benda á ýmislegt sem við hér í þingsal höfum talað um sem fjárfestingu, kannski meira fjárfestingu í framtíðinni frekar en eiginlega fjárfestingu samkvæmt hörðustu skilgreiningum hagfræðinnar í efnislegum eignum, og hversu miklu við höfum áorkað í þeim efnum. Ég er hér að tala um rannsóknir og þróun. Ég er að tala um framlögin í samkeppnissjóðina, inn í grunnrannsóknirnar, í Tækniþróunarsjóð. Ég er að tala um fjármögnun ýmissa framtíðartækifæra sem munu skapa störf.

Að öðru leyti endurtek ég þetta: Ríkið jók fjárfestingarstig sitt í fyrra. Það eru sveitarfélögin sem eru eftirbátar. Sumt hefur tafist vegna (Forseti hringir.) breytilegra aðstæðna. Landspítalaverkefnið er t.d. ekki alveg á sama skriði og við ætluðum. Fjárheimildir munu nýtast á þessu ári og við þurfum að gæta að því þegar hagkerfið hefur tekið við sér að vera með (Forseti hringir.) jafnvægi í umsvifum okkar á móts við það.