151. löggjafarþing — 64. fundur
 4. mars 2021.
réttindi sjúklinga, 1. umræða.
stjfrv., 563. mál (beiting nauðungar). — Þskj. 943.

[15:45]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, en frumvarpið var samið í heilbrigðisráðuneytinu.

Markmið þess er að skapa lagaramma um það verklag sem viðhaft er á heilbrigðisstofnunum hér á landi þegar kemur að atvikum þar sem gripið er til þvingana, valdbeitingar eða annars konar inngripa í sjálfsákvörðunarrétt, frelsi og friðhelgi einkalífs sjúklinga. Með frumvarpinu eru því lagðar til breytingar á lögum um réttindi sjúklinga sem fela m.a. í sér það grundvallaratriði sem bann við beitingu nauðungar er, ný ákvæði um skilgreiningu nauðungar og fjarvöktunar, skilyrði sem þurfa að vera til staðar ef læknir tekur ákvörðun um að beita nauðung til að tryggja öryggi sjúklinga og fjarvöktunar auk málsmeðferðarreglna sem fylgja þarf við og í kjölfar beitingar slíkra inngripa, þar með talið skráningarskyldu tilvika, kæruheimilda og réttar til að bera mál undir dómstóla.

Frumvarpið er liður í viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við athugasemdum sem umboðsmaður Alþingis gerði í kjölfar eftirlitsheimsóknar á þrjár lokaðar deildir geðsviðs Landspítala á Kleppi í október 2018. Eftirlitsheimsóknin fór fram á grundvelli svonefnds OPCAT-eftirlits sem felst í óháðum eftirlitsheimsóknum umboðsmanns á staði þar sem frelsissviptir einstaklingar dvelja. Með OPCAT er vísað til valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Með frumvarpinu er einnig brugðist við athugasemdum frá nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum. Nefndin hefur ítrekað bent á skort á skýrum lagaramma er viðkemur beitingu hvers kyns nauðungar á heilbrigðisstofnunum hér á landi, ekki síst til að draga úr hættunni á beitingu ómannúðlegrar meðferðar.

Með frumvarpinu stendur ekki til að auka við úrræði til að beita sjúklinga nauðung heldur er ætlunin að lögfesta skýrar reglur með það fyrir augum að tryggja betur réttindi sjúklinga. Verði frumvarpið að lögum skulu heilbrigðisstofnanir og starfsmenn þeirra sem endranær forðast að beita sjúklinga hvers kyns nauðung og ekki grípa til slíkra ráðstafana nema brýn nauðsyn krefji og þá í samræmi við fyrirmæli laga.

Virðulegur forseti. Í ljósi framlagningar þessa frumvarps til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga tel ég rétt að nefna tvennt sem tengist efni frumvarpsins. Í fyrsta lagi var á Alþingi þann 19. júní 2019 samþykkt þingsályktunartillaga, nr. 41/149, þess efnis að fara skyldi fram heildarendurskoðun á lögræðislögum, nr. 71/1997, og var sérnefnd þingmanna kosin til að fara í það verkefni. Þingmannanefndinni er falið víðtækt verkefni í þingsályktuninni umfram það að endurskoða lögræðislögin í heild en nefndinni var einnig falið að gera tillögur um nauðsynlegar breytingar á öðrum lögum, þar á meðal lögum um réttindi sjúklinga, barnaverndarlögum, nr. 80/2002, lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, og almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Þess skal getið að við vinnu frumvarpsins í heilbrigðisráðuneytinu sem hér er til umfjöllunar var haft samráð við formann og starfsmann umræddrar þingmannanefndar.

Í öðru lagi er rétt að geta þess að ég skipaði starfshóp 30. júlí 2019 til að gera tillögur að útfærslu á 28. gr. lögræðislaga sem kveður á um heimild heilbrigðisráðherra til að setja nánari reglur um þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð. Í starfshópinn skipaði ég lögfræðing með sérþekkingu á mannréttindamálum, geðlækni, félagsráðgjafa og fulltrúa Geðhjálpar. Hópurinn skilaði skýrslu og tillögum til mín í apríl 2020 en þar er m.a. fjallað um ábendingar undirnefnda Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn pyndingum sem bent hefur á þessi sjónarmið og talað fyrir nauðsyn þess að þvinguð meðferð fari einungis fram innan skilgreinds ramma þar sem kveðið er á um ýmis tilgreind viðmið og verkferla, eftirlit, endurskoðun og áfrýjunarmöguleika.

Virðulegur forseti. Víkjum þá að efni frumvarpsins. Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði kafla við gildandi lög sem fjallar um bann við nauðung þar sem tiltekið er í hvaða undantekningartilvikum verði heimilt að taka ákvörðun um beitingu nauðungar, skráningu slíkra tilvika í sjúkraskrá, málskotsrétt sjúklinga og skipun sérfræðiteymis um beitingu nauðungar. Í frumvarpinu er lagt til að bæta við gildandi lög skilgreiningum á hugtökum. Þar sem ætlunin er að bæta við kafla um bann við nauðung er þörf á því að skilgreina hvað geti talist til nauðungar í skilningi laga um réttindi sjúklinga. Nauðung getur falið í sér líkamlega valdbeitingu, t.d. í því skyni að koma í veg fyrir að sjúklingur skaði sig eða aðra, eða að sjúklingi er haldið aðskildum frá öðrum eða aðgangur sjúklings að síma takmarkaður. Einnig er lagt til að bæta við skilgreiningu á hugtakinu fjarvöktun sem felur í sér rafræna vöktun með myndavél eða hljóðnema. Hér er um að ræða umfjöllun um skilgreiningar. Lagt er til að bætt verði við lögin grein, 27. gr. b, sem bannar alla beitingu nauðungar á heilbrigðisstofnunum. Enn fremur að fjarvöktun herbergja eða vistarvera sjúklinga verði bönnuð. Þá er sérstaklega tekið fram í frumvarpinu að beiting nauðungar í refsiskyni skuli jafnframt vera óheimil.

Í ákvæðum 27. gr. c er lagt til að í sérstökum einstaklingsbundnum tilvikum sé yfirlækni eða vakthafandi sérfræðilækni heimilt að taka ákvörðun um að víkja frá banni við beitingu nauðungar eða fjarvöktunar. Slík ákvörðun þarf að vera í þeim tilgangi að:

1. Koma í veg fyrir að sjúklingur valdi sér eða öðrum líkamstjóni eða stórfelldu eignatjóni. Það á einnig við fyrirbyggjandi aðgerðir sem ætlað er að forða því að aðstæður komi upp sem leitt geta til líkamstjóns eða stórfellds eignatjóns.

2. Uppfylla grunnþarfir sjúklings, svo sem varðandi næringu, heilsu og hreinlæti.

Áður en yfirlæknir eða vakthafandi sérfræðilæknir tekur ákvörðun samkvæmt umræddri grein um að víkja frá banni við beitingu nauðungar og/eða banni við fjarvöktun ber honum að leita eftir afstöðu sjúklings eftir því sem við verður komið. Einnig skal tilkynna nánasta aðstandanda um ákvörðunina og, ef við á, lögráðamanni sjálfræðissvipts manns, ráðgjafa nauðungarvistaðs manns eða tilsjónarmanni manns sem vistaður er á heilbrigðisstofnun á grundvelli dóms samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga. Ef um er að ræða sjúkling sem er yngri en 16 ára skal auk þess liggja fyrir upplýst samþykki forsjáraðila.

Ákvörðun yfirlæknis eða vakthafandi sérfræðilæknis um að víkja frá banni við beitingu nauðungar og/eða banni við fjarvöktun skal vera skrifleg og rökstudd og skal koma skýrt fram til hvers konar aðgerða hún tekur og tilgreina gildistíma hennar. Ákvörðunin skal vera tímabundin og aldrei til lengri tíma en nauðsynlegt er, þó ekki lengri en til sex mánaða í senn. Í skriflegri ákvörðun skal greina frá þeim skilyrðum sem sett eru fyrir beitingu nauðungarinnar, svo sem hvernig skuli staðið að henni, hvaða kröfur séu gerðar til starfsmanna sem henni beita og annað sem talið er mikilvægt. Sé tekin ákvörðun um líkamlega valdbeitingu skulu þeir starfsmenn sem að valdbeitingunni koma hafa sótt námskeið þess efnis.

Forstjóri viðkomandi heilbrigðisstofnunar ber ábyrgð á því að tryggt sé að sjúklingi sem sætir ákvörðun um nauðung sé leiðbeint um rétt sinn til að kæra ákvörðun til sérfræðiteymis um beitingu nauðungar og eftir atvikum til að bera málið undir dómstóla. Að öðru leyti fer um málsmeðferð eftir ákvæðum stjórnsýslulaga.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að heimilt sé að beita nauðung án undangenginnar ákvörðunar samkvæmt 27. gr. c, sem hér var farið yfir, ef slíkt er talið nauðsynlegt í því skyni að koma í veg fyrir yfirvofandi líkamstjón, stórfellt eignatjón eða röskun á almannahagsmunum. Tafarlaust skal látið af nauðung þegar hættu hefur verið afstýrt eða ástand er liðið hjá. Þar sem slíkri nauðung er beitt í undantekningartilvikum skal skrá slík tilvik og gera grein fyrir tilefni þess að nauðung var beitt, hvers eðlis hún var og hvaða hagsmunir voru í húfi. Heilbrigðisstofnanir skulu senda tilvikalýsingu vegna hvers tilviks til sérfræðiteymis um beitingu nauðungar samkvæmt 27. gr. i innan viku frá því að nauðung var beitt.

Lagt er til í 27. gr. f að öll tilvik þar sem sjúklingur er beittur nauðung, hvort sem henni er beitt á grundvelli undanþágu samkvæmt 27. gr. c eða í neyðartilvikum samkvæmt 27. gr. d, skuli skrá í sjúkraskrá. Sama á við um fjarvöktun.

Við skráningu skal greina frá hvernig nauðungin eða fjarvöktunin fór fram, hversu lengi hún stóð yfir, hverjir önnuðust framkvæmd hennar og önnur atriði sem þýðingu hafa, svo sem hvort meiðsl eða eignatjón hafi hlotist af.

Heilbrigðisstofnanir skulu mánaðarlega senda sérfræðiteymi samkvæmt 27. gr. i skýrslu um beitingu nauðungar eða fjarvöktunar. Upplýsingar um beitingu nauðungar í neyðartilvikum skulu sendar sérfræðiteyminu innan viku frá tilviki þegar nauðung var beitt, eins og áður kemur fram.

Í frumvarpinu er lagt til að heilbrigðisráðherra skipi allt að sjö einstaklinga til fjögurra ára í senn í sérfræðiteymi um beitingu nauðungar. Það teymi skuli skipað a.m.k. einum sérfræðilækni, einum lögfræðingi sem hefur þekkingu á mannréttindamálum og fulltrúa sem hefur kynnst beitingu nauðungar af eigin raun. Lagt er til að varamenn skuli vera jafnmargir og uppfylla sömu skilyrði og aðalmenn. Minnst þrír fulltrúar úr teyminu skulu fjalla um hvert mál ásamt formanni.

Sérfræðiteymi um beitingu nauðungar mun m.a. veita ráðgjöf til heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna um hvað teljist til nauðungar og aðferðir til að komast hjá beitingu nauðungar. Gert er ráð fyrir að sérfræðiteymi um beitingu nauðungar hafi aðsetur hjá embætti landlæknis. Heilbrigðisstofnunum er skylt að láta sérfræðiteyminu í té öll gögn máls, sem og þær upplýsingar og skýringar sem teymið telur nauðsynlegar vegna úrlausnar mála.

Í frumvarpinu er lagt til að ákvörðun yfirlæknis eða vakthafandi sérfræðilæknis um að víkja frá banni við beitingu nauðungar og/eða banni við fjarvöktun sæti kæru til sérfræðiteymis um beitingu nauðungar. Einnig er hægt að kæra beitingu nauðungar án þess að ákvörðun liggi til grundvallar. Þegar ákvörðun er kærð skal viðkomandi heilbrigðisstofnun senda öll gögn málsins til sérfræðiteymisins. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.

Sérfræðiteymið skal kveða upp úrskurð innan fjögurra virkra daga frá því að kæra berst, ella fellur hin kærða ákvörðun úr gildi. Sérfræðiteymið skal þó ávallt leitast við að kveða upp úrskurð eins fljótt og auðið er.

Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að bera úrskurð sérfræðiteymis undir héraðsdómara í þeirri þinghá þar sem viðkomandi sjúklingur á lögheimili og skuli hann úrskurða í málinu innan viku frá því að kæra berst honum.

Úrskurðir héraðsdómara samkvæmt lögum þessum sæta kæru til Landsréttar. Um málskotið fer samkvæmt almennum reglum um meðferð einkamála með þeim frávikum sem greinir í lögum þessum. Aðrir úrskurðir Landsréttar en mælt er fyrir um í 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, verða ekki kærðir til Hæstaréttar.

Málskot frestar ekki réttaráhrifum úrskurðar héraðsdómara samkvæmt lögum þessum, nema dómari mæli svo fyrir í úrskurði.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir meginefni þess frumvarps sem hér er til umræðu. Mér finnst afar mikilvægt að halda því til haga við 1. umr. málsins hversu brýnt það er að bregðast við þeim ábendingum sem við höfum fengið frá umboðsmanni Alþingis og OPCAT vegna þess að hér er um að ræða óviðunandi lagaumgjörð eins og málin standa núna. Hér er í raun og veru verið að beita nauðung án þess að skýr lagaákvæði liggi þar til grundvallar. Það er staðreynd og það er veruleikinn.

Hér er verið að leggja til við Alþingi að kveða skýrt á um það hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að heimilt sé að beita nauðung gagnvart sjúklingum á heilbrigðisstofnunum; að til séu tilteknar leiðir til að skjóta slíkum ákvörðunum áfram, að slíkar ákvarðanir skuli vera skráðar í sjúkraskrá og að grundvallarreglan, meginreglan, í íslenskri heilbrigðisþjónustu sé sú að beiting nauðungar gagnvart sjúklingum á heilbrigðisstofnunum er bönnuð og það bann nái einnig til fjarvöktunar.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir frumvarpinu og leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.



[16:00]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu mikilvæga frumvarpi. Það er mikilvægt að við setjum skýra lagastoð undir aðgerðir eins og þær sem hér er fjallað um, þvingun og nauðung, því að sjúklingar eiga rétt. Það er grundvallarréttur sjúklinga að ráða sér sjálfir og njóta ákveðinna réttinda, sjálfsákvörðunarréttar.

Ég fór yfir þær umsagnir sem birtust í samráðsgátt. Hér er tilvitnun í umsögn Landssamtakanna Geðhjálpar þar sem vitnað er í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst sjúklinga á heilbrigðisstofnunum ásamt aðstandendum þeirra. Enn fremur snertir efni frumvarpsins starfsfólk heilbrigðisstofnana. Áform um frumvarp og drög að frumvarpi voru birt til samráðs á samráðsgátt stjórnvalda. Mikið samráð var við Landspítala. Samráð var við dómsmála- og félagsmálaráðuneyti með reglulegum fundum en unnið er að löggjöf um öryggisgæslu í félagsmálaráðuneyti sem tengist efni þessa frumvarps að einhverju leyti.“

Í umsögn Geðhjálpar segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Hagsmunasamtök notenda og aðstandenda voru ekki höfð með í ráðum við frumvarpsgerðina og er það miður. Því eins og segir í athugasemdinni: „Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst sjúklinga á heilbrigðisstofnunum.“ Raunverulegt samráð er ekki að setja frumvarp í samráðsgátt þegar það hefur verið skrifað heldur að skrifa það í samráði í rauntíma við þann hóp sem hefur mestra hagsmuna að gæta. Að þessu sinni eru það notendur geðþjónustu heilbrigðiskerfisins en til þeirra var ekkert leitað.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að ekkert var leitað til notenda þjónustunnar?



[16:02]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr um samráð við notendur þjónustunnar. Ég tek eftir því að í umsögn Landssamtakanna Geðhjálpar kemur það fram efnislega að þrátt fyrir að landssamtökin hefðu viljað aðra samsetningu á þeim hópi sem skrifaði frumvarpið sé jákvætt að ráðist hafi verið í vinnu við endurskoðun á þessum þvingunarúrræðum vegna þess að mikilvægt sé að skráningin sé klár. Nú sé staðan t.d. þannig að enginn viti hve oft þvingunum hafi verið beitt á deildum geðsviðs Landspítala sem sé algjörlega óásættanlegt. Í orðum Geðhjálpar í umsögn í samráðsgátt kemur þessi afstaða fram.

Ég vil líka undirstrika mikilvægi þess að í sérfræðiteymi því sem farið var yfir hér í framsögu á sæti einstaklingur sem hefur reynslu af nauðung í eigin lífi og það er afar mikilvægt. Ég treysti því að Geðhjálp komi athugasemdum sínum og ábendingum á framfæri við þinglega meðferð málsins og að hv. velferðarnefnd taki þær athugasemdir til gaumgæfilegrar skoðunar.



[16:04]
Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ítreka spurningu mína: Hvers vegna var ekki haft samband við notendur þjónustunnar þegar frumvarpið var samið? Það er haft samráð við Landspítala og starfsfólk heilbrigðisstofnana, það er haft samráð við dómsmálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið en ekki Landssamtökin Geðhjálp sem málið varðar mest — og þá væntanlega fulltrúa þeirra. Vissulega geta landssamtökin verið samþykk einhverju sem kemur fram í frumvarpinu. Skjóta þarf lagastoð undir það sem þar kemur fram. En það koma líka fram ýmsar athugasemdir við frumvarpið í umsögninni sem ekki var tekið tillit til í ráðuneytinu. Ég velti fyrir mér, talandi um þetta samráð og nú hefur hæstv. ráðherra reynslu af þingstörfum: Ef ráðuneytið telur ekki ástæðu til að bregðast við ábendingum notenda varðandi það sem er að finna í frumvarpinu á hæstv. ráðherra þá von á því að fulltrúar flokks hennar og fulltrúar meiri hlutans fari gegn því sem ráðherra setur fram hér, gegn umsögnum og ábendingum notenda þjónustunnar sem eru byggðar á reynslu notenda? Það er reynslumikið fólk sem ritar þessa umsögn, enda eru þetta landssamtök þeirra sem ýmist eru aðstandendur eða notendur þjónustunnar. Hvers vegna er ekki leitað fyrst til slíkrar þekkingar þegar gerðar eru breytingar á lögum eins og þessum?



[16:06]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður og formaður velferðarnefndar veit að þingleg meðferð málsins er eftir. Það er Alþingi sem er löggjafinn og sem betur fer hefur það ítrekað tekist í góðu samstarfi með frumvörp sem sú sem hér stendur hefur mælt fyrir í 1. umr. að þau hafa tekið breytingum til góðs í meðferð hv. velferðarnefndar og endað í ágætri samstöðu í atkvæðagreiðslu í þingsal. En ég vil hins vegar segja að eins og fram kemur voru áformin og drög að frumvarpi birt á samráðsgátt stjórnvalda þar sem Geðhjálp sendi inn umsögn og benti á að hagsmunasamtök notenda hefðu ekki verið með í ráðum við frumvarpsgerðina og töldu það miður. En ég vil geta þess að við vinnslu frumvarpsins var rætt við formann Geðhjálpar og drög að frumvarpi voru send samtökunum áður en málið var sent í samráðsgátt.



[16:08]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er afar mikilvægt frumvarp á ferðinni um það að skjóta lagastoð undir það þegar beita á nauðung eða þvingunum, sem almennt bann gildir um, við heilbrigðisþjónustu hvers konar. Með því er auðvitað verið að bregðast við, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, ábendingum sem hafa ítrekað komið fram frá nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum sem og frá umboðsmanni Alþingis við OPCAT-eftirlit, en umboðsmaður Alþingis tók við því eftirliti og skilaði skýrslu 2018. Í skýrslunni kom fram að lagastoð væri ekki næg þegar grípa þyrfti til athafna gagnvart frelsissviptum einstaklingum í geðheilbrigðiskerfinu, á geðheilbrigðisstofnunum, og þegar þær athafnir fælu í sér þvinganir, valdbeitingu og inngrip í friðhelgi einkalífs þeirra þá væri ekki fyrir hendi fullnægjandi lagastoð. Þess vegna þarf að grípa þar inn í.

Auðvitað er óheppilegt að ekki sé nóg heildræn sýn á þetta vegna þess að í raun skarast mörg lög þegar um er að ræða þvingunaraðgerðir; lögræðislög, hegningarlög, lög um réttindi fatlaðra, lög um réttindi sjúklinga, barnaverndarlög, allt eru það lög sem þarf að skoða samhliða. En við hljótum þó alltaf að horfa fyrst og fremst á hvernig koma megi í veg fyrir nauðung eða þvingun. Tilgangurinn með þessu frumvarpi er jákvæður að því leyti að við verðum að hafa skýra lagastoð og hafa heimildina skýra fyrir þá sem þurfa að beita nauðung eða þvingun en ekki síður að hafa rammann algerlega skýran fyrir þann starfsmann sem þessu beitir eða þarf að beita. Það er kannski það sem maður veltir aðeins fyrir sér, þegar hæstv. ráðherra segir að tilgangurinn með þessu sé að lögfesta skýrar reglur um það hvenær megi beita nauðung og þvingun, hvort þetta frumvarp sé fullnægjandi og hvort það uppfylli þann tilgang að lögfesta nógu skýrar reglur.

Núverandi ástand, þar sem ákvörðun um inngrip er tekin af starfsfólki geðheilbrigðisstofnana án skýrra lagaheimilda, er óásættanlegt. Það kom skýrt fram í umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar þegar frumvarpið fór inn í samráðsgátt en bæði Landssamtökin Geðhjálp og Landssamtökin Þroskahjálp hafa áhyggjur af því að þær heimildir sem verið er að veita í þessu frumvarpi séu mögulega of óskýrar. Undanþágurnar sem eru í b-lið 3. gr., þar sem verið er að bæta við nýrri grein, 27. gr. c, eru þannig orðaðar að þetta er mjög vítt og óljóst. Ákvörðun yfirlæknis eða vakthafandi sérfræðilæknis, um nauðung eða fjarvöktun samkvæmt 1. mgr., þarf að vera í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að sjúklingur valdi sér eða öðrum líkamstjóni eða stórfelldu eignatjóni. Það á einnig við fyrirbyggjandi aðgerðir sem ætlað er að forða því að aðstæður komi upp sem leitt geta til líkamstjóns eða stórfellds eignatjóns. Þá segir í 2. tölulið að þetta þurfi líka að vera í þeim tilgangi að uppfylla grunnþarfir sjúklings, svo sem varðandi næringu, heilsu og hreinlæti. Maður veltir sérstaklega fyrir sér hvort þetta sé nógu skýrt, með leyfi forseta:

„Það á einnig við fyrirbyggjandi aðgerðir sem ætlað er að forða því að aðstæður komi upp sem leitt geta til líkamstjóns eða stórfellds eignatjóns.“

Það virðist sem þetta sé fullloðið. Það virðist vera sem þetta sé svo matskennt að sérfræðingur geti nánast — og nú er ég ekki að ætla sérfræðingum neitt illt heldur eingöngu að segja að með því að staðfesta frumvarpið eins og það er þarna er hætta á að löggjafanum sé ekki að takast að lögfesta skýrar reglur. Hvað eru skýrar reglur? Hvernig getum við sagt sérfræðingi á geðheilbrigðissviði að þetta eigi einnig við um fyrirbyggjandi aðgerðir sem ætlað er að forða því að aðstæður komi upp? Þetta er eitthvað sem við munum þurfa að skoða í nefndinni.

Þegar umboðsmaður Alþingis fór í heimsókn á þrjár lokaðar deildir kom fram í skýrslunni frá 2018 að mannréttindi notenda væru brotin þar nær daglega. Þá veltir maður fyrir sér hvort mannréttindi eru brotin nær daglega af því að lagastoð skorti eða vegna þess að ákvarðanir byggist ekki á nógu skýrum heimildum, að þetta séu ákvarðanir sem eru þannig teknar að rökstuðningurinn fyrir þeim sé ekki nógu góður og mögulega að of oft sé farið í aðgerðir sem eru ekki algjörlega nauðsynlegar til varnar lífi og heilsu sjúklingsins og þeirra sem þar eru nærri.

Það kemur einnig fram í þeim fáu umsögnum sem bárust að mögulega væri verið að byrja á öfugum enda. Það má segja að svo sé af því að hvergi er rætt um þá hugmyndafræði sem nauðsynleg er í þessum málaflokki. Hvernig viljum við haga þessum málum? Hvernig viljum við haga geðheilbrigðismálum á Íslandi? Í gær mælti ég fyrir þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar um að farið verði í byggingu nýs geðsjúkrahúss á Íslandi. Hvers vegna? Jú, af því að það er orðið algjörlega tímabært. Geðheilbrigðisþjónusta innan Landspítala fer fram í úr sér gengnu húsnæði við Hringbraut, sem og við Klepp. Ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna sér þá þingsályktunartillögu og hvet þingheim allan til að skoða þetta af því að það væri a.m.k. fyrsta skrefið til þess að viðurkenna að geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi hefur verið olnbogabarn frá fyrstu tíð. Ég ætla ekki að tala um að þarna séu geymdir einstaklingar sem kerfið skilur eftir en ekki er hægt að horfa fram hjá því að þarna eru frelsissviptir einstaklingar sem geta ekki einu sinni fengið að njóta útivistar vegna þess hvernig húsnæðismálum er háttað.

Mig langar líka að ræða um það að enginn möguleiki er á að fá að dvelja á lyfjalausri deild á Íslandi eins og þekkist annars staðar á Norðurlöndunum og víða um heim. Slíkt hefur ekki komist á dagskrá í geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þess vegna hefur sjúklingur ekki val um að ná tökum á veikindum sínum án lyfjainngrips ef svo ber undir. Heilmikið hefur verið talað um þetta í samfélagi þeirra sem eiga við geðrænar áskoranir að stríða og ég held að árið 2021 verði heilbrigðisyfirvöld að taka á þessu.

Það þarf einnig að ræða að upp verði tekin fortakslaus skráning þvingana, að í hvert einasta skipti sem undanþáguákvæði er beitt sé það skráð með fullnægjandi hætti og þeirri skráningu skilað einhvers staðar inn þannig að eftirlit sé með deildum. Þær sögur sem berast m.a. okkur í velferðarnefnd frá fólki sem sætt hefur þvingunum, þær sögur sem berast út í samfélagið þegar fréttir koma upp á yfirborðið eins og af ástandinu í Arnarholti og sögur úr nútímanum, því sem er í gangi núna þegar er verið að beita t.d. þvingun við lyfjagjöf, eru þess eðlis að það verður að vera einhvers konar stíft eftirlit með því í hvert einasta skipti sem undanþáguákvæði er beitt þannig að ef þvingun eða nauðung er beitt þá verði það skráð og alltaf fylgst með því.

Ein umsögn kom frá einstaklingi inn í samráðsgátt sem býr augljóslega yfir mikilli reynslu, að því er virtist persónulegri reynslu, um að hótanir um nauðung séu í raun nauðung sem slík, af því að einstaklingurinn er frelsissviptur. Hann er inni á lokaðri deild þannig að hótunum um nauðung er ekki hægt að bregðast við nema þá með því að samþykkja. Það er ekki eins og viðkomandi hafi val þannig að það er í raun nauðung í sjálfu sér.

Ég verð að segja að ég hlakka til að vinna þetta frumvarp. Ég hlakka til að kalla eftir umsögnum. Ég hlakka til að fá til okkar fulltrúa notenda þjónustunnar af því að ég held að sú vinna kunni líka að gagnast okkur varðandi það verkefni sem nefndin er með á borðinu hjá sér núna, sem er að taka ákvörðun um hvernig á að framkvæma rannsókn á aðbúnaði og aðstæðum fullorðinna einstaklinga sem hafa verið að glíma við fötlun eða geðrænar áskoranir á undanförnum árum á Íslandi. Að því leyti er mjög gott að fá þetta frumvarp inn núna. Það er mikilvægt að skjóta skýrri lagastoð undir þær aðgerðir sem er beitt í dag og ég held að það færi vel á því á Íslandi árið 2021 að fara í markvissa heildræna stefnumótunarvinnu um það og vinnu varðandi hugmyndafræði um þjónustu við þá sem glíma við geðrænar áskoranir.



[16:23]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framsöguna og ekki síst fyrir að flytja þetta mál. Þetta er viðkvæmt mál en engu að síður afar mikilvægt og mikilsvert að við séum að stíga það skref að reyna að forma löggjöf í kringum þennan erfiða og eiginlega alltaf mjög þunga þátt í heilbrigðisþjónustu. Ég tala af töluverðri reynslu hvað þetta varðar og þekki þess vegna kannski betur en ella hvernig þessi mál virka á vettvangi, þegar heilbrigðisstarfsmenn taka ákvarðanir af þessu tagi. Það er yfirleitt ekki einfalt eða gert af neinni léttúð. Það er alla vega ekki mín reynsla.

Ég vil nefna sérstaklega nokkur atriði án þess að fara út í langt mál. Í fyrsta lagi er það fjarvöktun. Fjarvöktun er úrræði sem er ekki eingöngu notað í nauðungarskyni en ef reynt er að rýna í textann er einhvern veginn gengið út frá því í frumvarpinu að það sé þannig. Ég tel að það verði þá eitt af verkefnum nefndarinnar að skýra hugtakið betur, koma jafnvel með sérstaka orðskýringu þar að lútandi og þá ekki hvað síst til að skilja fjarvöktun sem er ekki í nauðungarskyni frá fjarvöktun sem er fyrst og fremst til þess fallin að fylgjast með hegðun einstaklings eða gerðum eða einhverju þess háttar. Það er svo sannarlega annað en t.d. fjarvöktun þar sem er fylgst með lífsmörkum eða einhverju slíku, sem er náttúrlega gert á hverjum degi og ég efast um að nokkur geri miklar athugasemdir við. Þegar fjarvöktun er beitt, til að mynda í eftirlitsskyni, er hins vegar gríðarlega mikilvægt að skrá það, eins og kemur fram í frumvarpinu, og að það sé þá byggt á einhverju öðru en tilfinningum eða einhverju slíku, og það skráð greinilega að henni sé beitt á ákveðnum forsendum, í ákveðinn tíma og málið verði endurskoðað innan ákveðins tímaramma. Öll þessi atriði hafa alla vega sums staðar í nágrannalöndum okkar fengið stöðu í löggjöf og sums staðar er reyndar gengið svo langt að nánast er skrifað niður á hversu margra klukkutíma fresti eigi að skrá, skrásetja og endurskoða. Það er eitthvað sem nefndin þarf að horfa til og fara yfir.

Annað atriði sem ég tel mjög mikilvægt er að vísu aðeins komið inn á í frumvarpinu. Það er í 1. gr. frumvarpsins þar sem nauðung er skilgreind, þ.e. þar sem sjúklingi er haldið föstum og gefið lyf í þeim tilgangi að draga úr ofbeldisfullri hegðun. Sem betur fer er það langoftast tilfellið að þegar sjúklingum eru gefin lyf til að hafa áhrif á hegðun eða þess háttar er það ekki endilega gert í einhverri þvingun. Það er sjaldnast sem fólki er haldið. En ég þori að fullyrða að ekki er alltaf skráð að raunverulega ástæðan fyrir því að eitthvert tiltekið lyf er valið umfram annað sé að reyna að hafa meiri áhrif á hegðun en aðra þætti sem snúa að dvöl einstaklingsins á sjúkradeild. Það verður eitt af því sem við munum vafalítið horfa til.

Mér finnst að rýna þurfi dálítið d-lið 3. gr. þar sem er ákvörðun um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar. Þar er áskilnaður um að tilkynna skuli nánasta aðstandanda um ákvörðun og, ef við á, lögráðamanni sjálfræðissvipts manns o.s.frv. Það er ekki alveg gefið að það séu hagsmunir sjúklings, sem liggur inni á einhverri deild í tilteknu ástandi, að farið sé til aðstandenda með hverja einustu meðferðarákvörðun sem viðkomandi sætir. Það kann alveg að vera að sambandið við aðstandanda sé flóknara en svo að það þjóni hagsmunum sjúklingsins að það sé alltaf gert. Að mínu mati þarf að hafa a.m.k. pínulitla rifu á það að með samkomulagi við sjúkling megi víkja frá þessu eða eitthvað þess háttar. Stundum er það sannarlega þannig og persónulega hef ég oft lent í slíkum aðstæðum.

Það er gríðarlega mikilvægt að allar svona ákvarðanir séu tímabundnar eins og kemur fram í d-lið 3. gr. Síðan er útskýrt að það megi aldrei vera lengur en til sex mánaða í senn. Mér þykir það rúmt. Ef við ætlum að hafa heimild sem getur varað í allt að sex mánuði í senn þá þurfa að vera skilmerki á því hversu oft á því tímabili þurfi að endurskoða ákvörðunina eða með hvaða millibili. Mér finnst að alla vega þurfi að vera einhvers konar rammi utan um það. Að vísu eru á einhverjum stöðum í frumvarpinu reglugerðarheimildir og vel má vera að þær nái ágætlega utan um þessi atriði eða að hægt sé að ná utan um þau með reglugerðarheimildum. En vegna þess hvað þetta er viðkvæmt held ég að best sé, ef nokkur tök eru á því, að skrifa svona atriði inn í lagatextann. Ég held að það geti verið alla vega einnar messu virði að freista þess þar sem það er hægt.

En ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Þetta er afar mikilvægt frumvarp og ég ætla ekki að segja að það verði skemmtilegt að vinna það en það er áskorun að taka þátt í svona krefjandi verkefni.



[16:31]
Kristján Þór Júlíusson (S):

[16:31]
heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja nokkur orð í lok þessarar stuttu en mikilvægu umræðu um þetta mál sem ég hugsa þá kannski sem nesti að hafa með inn í nefndina því að ég held að þær ábendingar sem hafa komið hér fram séu allar mikilvægar. Það eru sambærileg ákvæði um beitingu nauðungar og þvingunar í lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011. Ég held að mikilvægt sé að skoða þau ákvæði, a.m.k. að kanna hversu vel þær heimildir hafa nýst og hversu skýrar þær hafa verið vegna þess að sannarlega mun þetta alltaf verða háð einhverju mati. Ég held að við getum aldrei haft það þannig að heimildir af þessu tagi séu með einhverjum hætti vélrænar eða fyrirsjáanlegar á allan hátt. En það sem er ákveðinn og mikilvægur öryggisventill er þessi fortakslausa skráning. Það kom aðeins fram í umræðunni áðan að mikilvægt væri að hnykkja á því en það er svo í frumvarpinu að skyldan um að skrá tilvik, og hvert einasta tilvik, er fortakslaus.

Hér hafa aðeins verið nefnd sjónarmið sem lúta að endurskoðun lögræðislaga. Það er auðvitað stórt mál og ég held að við vildum öll að sú vinna væri komin lengra, einmitt í ljósi þess að hún varðar svo stór og mikilvæg svið í mannréttindum. Þetta varðar grundvallarmannréttindi. Það eru mál sem þarf virkilega að taka til umfjöllunar og þingið hefur tekið ákvörðun um að gera það. Það sem hér er lagt fram er einn angi af því í raun og veru en kemur til af því að þessi endurskoðun er brýn. Það verður ekki við svo búið lengur að við séum ekki a.m.k. með viðleitni til þess að hafa skýran lagagrunn þarna.

Vegna þess að hér var kallað eftir stefnumótun og stefnumörkun í geðheilbrigðismálum vil ég nefna að ég naut þess þegar ég tók sæti sem heilbrigðisráðherra að þingið hafði samþykkt þingsályktun um áætlun um geðheilbrigðismál og uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu. Sú samþykkt Alþingis, sem ég held að hafi verið einróma og allir þingmenn hafi greitt atkvæði með, er frá árinu 2016. Það sem er gert í mínum tíma er að fullfjármagna þá áætlun og tryggja m.a. annars stigs þjónustu í formi geðheilsuteyma um allt land. Það er nýtt, þessi annars stigs þjónusta var ekki áður. Á árinu 2020 erum við að þjónusta 2.600 manns með þessu úrræði, 2.600 manns sem þurftu að leita úrræða annars staðar áður. Með þessum aðferðum erum við vonandi að sinna þeim sem búa við geðheilsuvanda fyrr í heilbrigðisþjónustunni, með fleiri sálfræðingum á fyrsta stiginu en líka með geðheilsuteymum á öðru stiginu til að draga úr álagi á þriðja stigi. Ég held að þetta sé afar mikilvægt út frá meginreglunni um að við viljum að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað, að fólk búi ekki við að fá ekki þjónustu fyrr en það er komið í djúpan og flókinn vanda.

Eftir að hafa verið í embætti í nálægt fjögur ár tel ég að við þurfum að halda áfram að sækja fram í geðheilbrigðismálum. Við höfum tekið mjög mörg stór skref á þessu kjörtímabili. Eitt af því er þarfagreining að því er varðar húsnæði, mönnun og annan umbúnað þjónustunnar. Ég tel að við leysum ekki mál með því að taka ákvörðun um eina tiltekna byggingu. Við þurfum að taka ákvörðun um næstu skref í uppbyggingu Landspítala við Hringbraut á Landspítalalóð og þar með talið öfluga göngudeildarþjónustu sem er samþætt göngudeildarþjónusta, bæði fyrir geðheilbrigðisþjónustu og aðra heilbrigðisþjónustu. Þetta verður að haldast í hendur við aðra stefnumótun.

Virðulegi forseti. Af því að í andsvari áðan var vikið að þeim möguleika að þetta mál gæti á einhvern hátt verið partur af flokkspólitískum línum þá held ég að mikilvægt sé að því sé algjörlega til haga haldið að þegar ég legg málið fram til meðferðar í hv. velferðarnefnd vænti ég þess að öll velferðarnefnd og allt þingið sé þannig innstillt gagnvart málinu að við séum fyrst og fremst að reyna að ná vel utan um það vegna þess hversu viðkvæmt það er og að við viljum vanda til verka. Hér er um að ræða viðfangsefni sem ætti að vera hafið yfir pólitískar skotgrafir, virðulegi forseti.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.