151. löggjafarþing — 65. fundur
 11. mars 2021.
þróun verðbólgu.

[14:07]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Tvo mánuði í röð hefur ársbreyting vísitölu neysluverðs mælst yfir 4%. Slíkt hefur ekki gerst síðan á vormánuðum 2013. Ég viðraði ítrekað áhyggjur mínar af verðbólguþróun og vaxandi verðbólgu í óundirbúnum fyrirspurnum til hæstv. fjármálaráðherra síðasta vor. Hæstv. fjármálaráðherra virtist þá ekki að deila áhyggjum mínum, eins og svör hans gáfu til kynna orðrétt, með leyfi forseta.

20. mars: „Ég hef bara þau svör núna að við sjáum ekki fram á það á þessari stundu að okkur standi mikil ógn af verðbólgunni.“

23. mars: „Enn sem komið er er ekki hægt að lesa út úr viðbrögðum markaðsaðila annað en að markaðurinn geri ekki ráð fyrir miklu verðbólguskoti.“

20. apríl: „Enn sem komið er gerir enginn ráð fyrir miklu verðbólguskoti. Það er bara staðreynd.“

30. apríl: „En ég ítreka það sem ég hef sagt áður að við fylgjumst mjög vel með verðbólguþróun. Enn sem komið er hefur markaðurinn ekki sýnt merki þess að hafa trú á verðbólguskoti á næstunni.“

Verðbólga á ársgrundvelli hefur mælst 2,5% yfir markmiði Seðlabankans síðustu tíu mánuði, eða allt frá maí 2020. Verðbólga hefur aukist statt og stöðugt á þessum tíma. Hún var 4,1% í febrúar samkvæmt mati Landsbankans og hann spáir 4,3% verðbólgu í mars. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi áhyggjur af þróun verðlags undanfarið og hvort hann telji nú loksins tilefni til að grípa til aðgerða til að vernda heimilin fyrir neikvæðum áhrifum verðbólgu. Veit hæstv. fjármálaráðherra hvað verðtryggð lán heimila hafa hækkað mikið vegna 90% hærri verðbólgu en spáð var?



[14:09]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er ánægður með að hv. þingmaður haldi uppi umræðu hér á þinginu um verðbólguna og ég get bara staðið við það sem ég hef áður sagt að það hefur ekki raungerst mikil verðbólga á Íslandi yfir þennan tíma sem hann vísar til. Mín svör hafa m.a. byggst á spám opinberra aðila, Seðlabankans, Hagstofunnar, markaðsaðila, á viðskiptum á markaði þar sem lesa má út verðbólguvæntingar markaðarins. Við höfum ekki séð almennt áhyggjur af verulegu verðbólguskoti. Það er hins vegar hárrétt hjá hv. þingmanni að við erum núna nokkuð yfir viðmiðunarverðbólgu fyrir Seðlabankann og 4% verðbólga er hærri verðbólga en við viljum sjá. Við viljum sjá verðbólguna nær 2,5%. Ég hef ekki yfirlit yfir þær hækkanir á verðtryggðum húsnæðislánum sem hv. þingmaður kallar eftir. En ég vek athygli á því að verulega stór hluti nýrra lána undanfarin ár hefur einmitt verið í óverðtryggðu formi.

Ég hlýt að beina sjónum að því sem mér finnst öllu skipta að spyrja um: Hvað veldur þeirri verðbólgu sem mælist? Hvað er það sem veldur þeirri verðbólgu? Má ég í því sambandi benda á hinar miklu launahækkanir sem orðið hafa að undanförnu og við hljótum að þurfa að spyrja okkur að hvaða marki þær knýja fram hækkanir á verðlagi að einhverju marki. Það er ekki merki um heilbrigða umræðu um þessi mál ef menn ætla að skjóta sér undan því að taka grundvallarumræðu um hvað það er sem leiðir til verðhækkana. (Forseti hringir.) Og það eru þá þessir liðir, sérstaklega húsnæðisverðið og launaþróun í landinu, sem við hljótum að staldra við.



[14:11]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svörin og ég er alveg sammála honum. Þeir sem fá 2,5 milljónir í mánaðarlaun fá 370.000 kr. hækkun og 3 milljónir í eingreiðslu. Ég er alveg sammála, það hlýtur að hafa gífurleg áhrif á verðbólgu og er eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af. En myndi ráðherra greiða atkvæði gegn frumvarpi Flokks fólksins um afnám verðtryggðra húsnæðislána í eitt skipti fyrir öll? Þeir sem eru með verðtryggðu húsnæðislánin eru þeir sem hafa það verst í okkar samfélagi. Þeir eru með þessi lán til að vera með hagstæðari greiðslubyrði. Það er fólkið sem tekur þessi lán og þarf að taka þau.

Síðan er það hin spurningin: Finnst hæstv. ráðherra 3,6% hækkun almannatrygginga eðlileg? Er ekki kominn tími til að spýta í og setja fé í almannatryggingar strax þannig að fólk þurfi ekki að herða sultarólina? Nú er 4,3% verðbólga fram undan, og 3,6% hækkunin var fyrir síðasta ár. (Forseti hringir.) Nú hlýtur að þurfa að gera eitthvað fyrir þessi breiðu bök sem fengu ekki krónu út úr Covid.



[14:12]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvað hv. þingmaður á við þegar hann segir að einhver hafi ekki fengið krónu út úr Covid. Við höfum verið með sérstakar uppbætur á réttindum í almannatryggingakerfinu á undanförnu ári. Umræðan um það hvort við eigum að banna verðtrygginguna er önnur umræða. Ég reyndar er hér með fyrir þinginu frumvarp um að þrengja að notkun verðtryggingar á 40 ára jafngreiðslulánum og ég ætla bara að leyfa mér að vísa í framsögu mína um þessi efni til að svara þeirri vangaveltu hv. þingmanns. Varðandi launin á Íslandi, sem hljóta að hafa einhver tengsl við þróun verðlags í landinu, þá er það þannig að á Íslandi hefur launavísitalan á síðustu 12 mánuðum hækkað um 10,4% — um 10,4%.