151. löggjafarþing — 65. fundur
 11. mars 2021.
jafnréttismál.

[14:14]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra sem er ekki bara forsætisráðherra heldur líka jafnréttisráðherra. Það vakti töluverða athygli bæði mína og annarra að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra skyldi halda upp á alþjóðlegan baráttudag kvenna með því að vísa máli, sem hafði verið henni tvisvar mótdrægt, bæði í úrskurðarnefnd um jafnréttismál og í héraðsdómi, til Landsréttar. Mig langar að spyrja nokkurra spurninga út af þessu. Nú er það náttúrlega trauðla að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sé eini ráðherrann á Íslandi sem hefur brotið jafnréttislög, þ.e. ef úrskurðir héraðsdóms og úrskurðarnefndar standa í þessu máli. Ég minnist þess að tveir innanríkisráðherrar hafi gert það líka, einn forsætisráðherra og einn fjármálaráðherra. Öll voru þau jafn hissa á úrskurðinum sem þau fengu.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra og jafnréttisráðherra: Telur hún að þessi málarekstur, sem er fordæmalaus eftir því sem ég best veit, verði til þess að hvetja þá sem órétti eru beittir til þess að leita réttar síns gagnvart ríkinu?

Mig langar líka til að spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi skoðun á þessum málarekstri sem beinist gegn konu sem hefur ekkert til saka unnið annað en að sækja um starf og vera metin hæf til að gegna því. En í stað þess að henni séu boðnar bætur, eins og oft hefur verið gert í svona málum, er hún hundelt fyrir dómstólum og verður væntanlega nú um nokkurt skeið.

Hæstv. ráðherra minntist áðan á ábyrgð ráðherra í þessum málum og nú er það næsta víst að Landsréttur mun ekki kveða upp úrskurð sinn í þessu máli fyrr en núverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur lokið störfum, að sinni alla vega. Því verð ég að spyrja hæstv. ráðherra: Mun hún beita sér fyrir því með einhverjum hætti að Landsréttur setji þetta mál í flýtimeðferð (Forseti hringir.) þannig að niðurstaða liggi fyrir fyrir kosningar í haust og téður ráðherra geti þá borið ábyrgð á þessum gjörðum sínum?



[14:16]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Eins og ég fór yfir áðan er kerfið okkar þannig að hægt er að skjóta úrskurði kærunefndar jafnréttismála til dómstóla til þess að fá úr því skorið hvort dómstólar staðfesti þann úrskurð. Gert er ráð fyrir því í lögunum, bæði eins og þau voru og eins og þau eru núna eftir að Alþingi lauk við endurskoðun þeirra, og sömuleiðis er gert ráð fyrir því að áfram sé hægt að leita til æðra dómstigs ef ágreiningur er um þann dóm sem fellur í héraði. Það er sá réttur sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur kosið að nýta í þessu tilfelli.

Hv. þingmaður spyr mig: Hef ég áhyggjur af þessu, að þetta fæli fólk frá því að leita réttar síns? Ja, mér finnst að við þurfum að rýna þetta kerfi og það gerði ég þegar ég lagði það til við þingið í haust að málsmeðferð þessara mála, stjórnsýslu jafnréttismála, yrði breytt þannig að ef höfðað væri ógildingarmál væri það ekki eingöngu gagnvart einstaklingnum heldur gagnvart kærunefndinni sjálfri, að kærunefndin yrði aðili máls. Af hverju er sú breyting mikilvæg? Þá er það kærunefndin sem stendur fyrir máli sínu gagnvart dómstólum. Það tel ég tryggja að einstaklingar skirrist ekki við að leita réttar síns því það má ekki vera svo. Einstaklingar verða að geta leitað réttar síns. Til þess erum við með þetta kerfi.

Hv. þingmaður spyr: Mun ég beita mér fyrir því að þessu máli verði flýtt af hálfu Landsréttar? Ég hafði ekki séð það fyrir mér, ég hafði ekki velt því fyrir mér fyrr en hv. þingmaður nefndi það í fyrirspurn sinni. Ég hef satt að segja aldrei beitt mér fyrir flýtingu mála. Ég tel það vera dómstóla að meta það hverju sinni. Ég hafði satt að segja ekki velt því fyrir mér fyrir þennan fyrirspurnatíma og sé það ekki endilega fyrir mér eftir fyrirspurn hv. þingmanns.



[14:19]
Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi svör sem eru ekki alveg uppörvandi. En mig langar auk þess að spyrja: Var þetta mál kannski tilefni þess að lögunum var breytt, eins og hæstv. ráðherra minntist á, og með þessum hætti af hendi og fyrir atbeina hæstv. forsætisráðherra? Ég fæ ekki séð, hæstv. ráðherra, að við séum stödd neins staðar annars staðar en á sama stað og árið 2004 þegar þáverandi ráðherra sagði að jafnréttislög væru barn síns tíma. Er það virkilega svo að eftir 17 ár séum við ekkert komin áfram í þessum málum? Nú verð ég að spyrja um metnað hæstv. ráðherra sem jafnréttisráðherra. Hefur hún metnað til að breyta þessu viðhorfi sem ríkið hefur? (Forseti hringir.) Og ég verð að fá að spyrja einnar spurningar líka, fyrirgefðu, herra forseti: (Forseti hringir.) Var ákvörðunin um að fara með málið í þessa fordæmalausu vegferð samþykkt, t.d. á ríkisstjórnarfundi?



[14:20]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þarf að árétta það hér sem áður kom fram að þetta mál er á forræði hæstv. mennta og menningarmála. Það er ekki ríkisstjórn sem samþykkir eitt né neitt frá ráðherrum í svona málum. Þannig er stjórnskipanin ekki. Málið er á forræði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og persónulega tel ég það ekki við hæfi að ráðherrar, sérstaklega ekki þegar málin heyra ekki undir þá, beiti sér við dómstóla, eins og hv. þingmaður orðaði það í fyrirspurn sinni sem ég hef aðeins melt. Ég myndi ekki telja það við hæfi að forsætisráðherra færi að beita sér í því hvernig dómstólar haga málum sínum, að óska eftir flýtingu einstakra mála sem varða ráðherra í ríkisstjórn forsætisráðherra.

Hv. þingmaður spyr: Var þetta mál borið undir ríkisstjórn? Það var ekki borið undir ríkisstjórn enda á forræði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Ráðherra gerði ríkisstjórn munnlega grein fyrir þessu máli eftir að (Forseti hringir.) úrskurður kærunefndar féll í maí sl. Þá gerði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra ríkisstjórn (Forseti hringir.) munnlega grein fyrir þessu máli en það er ekki ríkisstjórnar að samþykkja það.