151. löggjafarþing — 65. fundur
 11. mars 2021.
sóttvarnir.

[14:28]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Í upphafi þessarar viku nefndi hæstv. forsætisráðherra að 1. maí yrði í raun lítil breyting á þeirri sóttkví sem landið er í raun allt saman í þessa dagana. Það kom mér á óvart. Hæstv. ráðherra nefndi að vísu að það yrði tekinn upp litakóði, eins og rætt hefur verið um hérna í þinginu, en áfram yrðu hins vegar hin íslenska útfærsla sem er þrjár skimanir á landamærum. Þetta kemur mér á óvart, sérstaklega í ljósi þess að að mati stjórnvalda þá ganga bólusetningar afskaplega vel. Í því sambandi langar mig að nefna það að þegar 70 ára og eldri verða bólusettir er hættan á dauðsföllum af völdum þessa heimsfaraldurs orðin hverfandi.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvenær má búast við því að þetta markmið náist? Við stöndum frammi fyrir því að hættan á dauðsföllum verði hverfandi þegar 70 ára og eldri hafa verið bólusettir. Er það ekki alveg örugglega takmark sem við getum verið sammála um að menn verði að fara að miða við í öllum sóttvarnaaðgerðum og umræðu í þessum efnum?



[14:30]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því í hvað hv. þingmaður er að vísa. Eins og hv. þingmaður veit er stefnt að því 1. maí að taka upp litakóðunarkerfi á landamærum. Það þýðir að það verður óbreytt fyrirkomulag, tvöföld skimun og sóttkví fyrir þá sem eru að koma frá svokölluðum rauðum löndum, en það verður breytt fyrirkomulag fyrir þá sem eru frá grænum og gulum löndum, þ.e. þeim ber að skila neikvæðu PCR-prófi, ekki meira en 72 tíma gömlu, og síðan fara í skimun á landamærum. Þetta fyrirkomulag, eins og hv. þingmaður taldi mig hafa sagt, byggir vissulega á okkar íslensku leið sem hefur gefist gríðarlega vel á landamærum. Hún hefur gefist gríðarlega vel og vakið athygli víða nákvæmlega fyrir hve vel hún hefur tekist. Hafi ég sagt að lítil breyting yrði á þá var ég að vitna til þess, ef hv. þingmaður er að vitna til viðtals við mig, að eina landið núna í Evrópu sem myndi teljast grænt eða gult er Noregur, öll önnur lönd er á appelsínugulu eða rauðu. Ímyndum okkur að við værum komin á þann stað að við værum að fara að taka þetta kerfi upp, þá væri breytingin auðvitað ekki gríðarlega mikil ef örfá lönd eru á grænu eða gulu.

Ég treysti því að hv. þingmaður skilji þetta því að þó að kerfið byggi á litakóðunarkerfinu þá hangir auðvitað það sem gerist á landamærum á því hvernig faraldurinn þróast í öðrum löndum. Um það snýst þetta kerfi sem mér finnst einmitt byggja annars vegar á því alþjóðlega samstarfi sem við erum í og hins vegar á því að við erum að nýta þá góðu reynslu sem við höfum haft af þessu fyrirkomulagi á landamærum, sem er ótrúlega öruggt og hefur skilað miklum árangri og verið töluvert góð samfella í ólíkt mjög mörgum öðrum löndum í Evrópu sem hafa verið að taka ákvarðanir viku fram í tímann jafnvel um landamæraaðgerðir.

Hvað varðar bólusetningar ætla ég að koma að því í seinna svari því að tíminn hleypur frá mér. En eins og hv. þingmaður þekkir líklega þá höfum við birt líkan um það hvernig dregur (Forseti hringir.) úr áhættu við bólusetningu eldri hópa. Ég kem að því á eftir.



[14:32]
Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Fyrirspurn mín laut einmitt að því hvað við ætlum að miða aðgerðir okkar við. Hæstv. forsætisráðherra segir að aðgerðir hér muni miðast við árangur í öðrum löndum. En er það ekki svo að sóttvarnaaðgerðir og annað, það að halda landinu í sóttkví, hlýtur að miðast við hvernig gengur hér innan lands? Ég nefni það þess vegna að þegar búið er að bólusetja 70 ára og eldri er hætta á dauðsföllum og alvarlegum veikindum af völdum þessarar veiru orðin hverfandi, ég tala nú ekki um ef menn ná að fara niður í 60 ára. Hún er orðin hverfandi. Þess vegna er spurning mín þessi: Hvað eru menn að gera og hvernig sjá menn fyrir sér að þeim áfanga verði náð? Og hvað eru menn að gera til að hraða þeim áfanga, m.a. með því að útvega meira bóluefni? Það berast reyndar gleðilegar fréttir af Johnson & Johnson-bóluefninu í dag en það liggur fyrir að AstraZeneca-bóluefnið virðist liggja á lausu víðast hvar í Evrópu.



[14:33]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður byrjaði á því að ræða um litakóðunarkerfið og ég var bara að fara yfir hvað það þýðir og hverju það myndi t.d. breyta ef það væri í gildi núna. Það myndi varða eitt land. Verðum við ekki að miða að einhverju leyti við stöðuna í öðrum löndum þegar við ákveðum aðgerðir okkar? Að sjálfsögðu verðum við að gera það. Og við sjáum hversu mikil áhrif eitt smit getur haft. Við hv. þingmaður getum verið ósammála um það en það breytir því ekki að við lærum af þeirri reynslu sem við höfum þegar öðlast í gegnum þennan faraldur og það getur haft alveg ótrúleg áhrif í raun og veru, eitt smit, einn smitaður einstaklingur, þegar um er að ræða jafn bráðsmitandi veiru og hér um ræðir.

Ég vil síðan segja varðandi bólusetningar að það komu jákvæðar fréttir af Janssen J&J í dag og þar hefur Ísland tryggt sér marga skammta. Við eigum von á því að afhending þess hefjist á öðrum ársfjórðungi og þau voru að fá markaðsleyfi núna, sem eru mjög góð tíðindi. Á sama tíma berast ekki eins góð tíðindi af AstraZeneca þar sem er verið að boða ákveðið hlé í notkun þess vegna aukaverkana sem eru til rannsóknar.

Að sjálfsögðu er það rétt hjá hv. þingmanni — ég veit nú ekki með þessa klukku hérna, herra forseti, en ég get staðið hér og talað í allan dag ef þú vilt, mér finnst það bara gaman — en við höfum birt líkan yfir það hvað gerist … (Gripið fram í.) Hvað, finnst ykkur ekki gaman að hafa mig hérna? Þegar bólusetningu 70 ára og eldri er lokið og það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að þar verða ákveðin kaflaskil, þá dregur mjög úr líkum á dauðsföllum og alvarlegum innlögnum og að sjálfsögðu munu stjórnvöld taka mið af því við áætlanir sínar og ákvarðanir um sóttvarnir. — Ég er núna búin að tala í þrjár mínútur og þakka kærlega fyrir það, herra forseti. Á þetta ekki bara alltaf að vera svona?