151. löggjafarþing — 65. fundur
 11. mars 2021.
um fundarstjórn.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[14:36]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í fundarstjórninni áðan kom formaður þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hingað upp og sagði m.a. að það væru næg tilefni til að spyrja ráðherra og fá svör, fá upplýsingar. Það er nefnilega þannig. Hér voru lagðar fram spurningar til hæstv. forsætisráðherra, m.a. af hálfu hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson, sem snerta jafnréttismál, málaferli hæstv. menntamálaráðherra gagnvart einstaklingi sem vann mál gegn henni í héraðsdómi. Við fengum engin svör. Spurningarnar voru mjög einfaldar, ég held að það hafi verið fjögur orð í spurningu hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson. En við fengum engin svör, enga afstöðu ráðherra. Það er náttúrlega umhugsunarefni að við fengum enga afstöðu hæstv. ráðherra jafnréttismála til þessa máls heldur var farið undan í flæmingi. Ég vil bara benda á að við erum að sinna aðhaldshlutverki þingsins, reyna að fá svör, reyna að fá skýringar í mikilvægum málum sem snerta jafnréttismál, í máli sem við ætlumst til að ráðherra jafnréttismála hafi skoðun á, í þágu jafnréttis, en það eru engin svör. (Forseti hringir.) Það er bara farið með himinskautum og með einhverja þvælu, (Forseti hringir.) m.a. um stefnu stjórnarinnar, sem stenst ekki skoðun þegar verið er að spyrja (Forseti hringir.) um tiltekin mál.



[14:37]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir þetta. Það er eiginlega orðin regla frekar en undantekning að við í stjórnarandstöðunni undirbúum mjög skýrar og afmarkaðar spurningar til ráðherra sem koma hingað upp og segja áhugaverða hluti — ekki vantar það og fara gjarnan í að telja upp fyrri afrek sín — en svara ekki spurningum sem að þeim er beint. Oftar en ekki byrjar seinni ræða okkar á því að biðja nú ráðherra að svara spurningunni en allt kemur fyrir ekki. Ég hlýt þess vegna að hvetja hæstv. forseta og aðra að setjast niður og ræða þetta, stöðva ráðherrana þegar þeir eru komnir langt út fyrir efnið og biðja þá að halda sig við spurningarnar. (Forseti hringir.) Það er hlutverk hæstv. forseta að standa vörð um rétt okkar þingmanna gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það finnst mér þeir ekki gera með því að (Forseti hringir.) leyfa ráðherrunum að malbika út og suður án þess að nálgast einu sinni viðfangsefnin.



[14:39]
Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Ég vil taka undir það sem aðrir hv. þingmenn hafa sagt um þetta mál. Þetta er vandamál. Óundirbúinn fyrirspurnatími er mjög mikilvægur vettvangur fyrir okkur til þess að geta kallað eftir upplýsingum og skýrum svörum frá ráðherranum og ég er farin að sjá rauðan þráð í gegnum umræðuna. Þetta er eins og með þá umræðu sem átti sér stað undir fundarstjórn hérna áðan, að það er alltaf reynt að færa athyglina frá því sem er mál málanna, sem þarf að ræða, sem þarf að svara og horfast í augu við, yfir á eitthvað annað, yfir á: Við höfum gert þetta, í staðinn fyrir að svara eiginlegri, málefnalegri spurningu sem fyrir ráðherra er lögð. Ég vil líka lýsa yfir vonbrigðum mínum gagnvart því að forseti alls þingsins skuli ekki setja sig upp á móti þeim þöggunartilburðum sem við ræddum áðan í fyrri fundarstjórn.



[14:40]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég verð að fá að taka undir þessar athugasemdir sem komið hafa fram, vegna þess að það er mjög merkilegt að sjá hvernig allar tilraunir þingsins til aðhalds gagnvart framkvæmdarvaldinu eru kerfisbundið gerðar tortryggilegar. Maður veltir fyrir sér hvort það sé ekki hættulegt ef umræður um verkefni framkvæmdarvaldsins geta ekki farið fram án þess að tortryggnistimpill komi fram, hvort það sé ekki eitthvað sem valdi þinginu skaða bæði út á við og inn á við.

Það er líka merkilegt, verð ég að segja, þegar spurningar til ráðherra um þeirra störf breytast hratt í einhvern leik þar sem ráðherrar reyna að forðast alla ábyrgð og mála bara í staðinn upp einhverja glæsta mynd af sigrum sínum, (Forseti hringir.) hvort það sé ekki til marks um að ákveðinn valdhroki sé í gangi í samfélagi okkar og kannski ekki síst hjá ríkisstjórninni, og hvort það (Forseti hringir.) sé ekki gert til að veikja allar þær stofnanir sem byggja tilveru sína á því að fylgja (Forseti hringir.) eftir ákvörðunum sínum gagnvart valdinu.



[14:41]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir gagnrýni hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Ef við fáum einmitt svoleiðis svör eða engin svör þá fáum við oft söguskýringar, eins og kom fram í fyrirspurn minni til hæstv. fjármálaráðherra, söguskýringar um að afsagnarkrafa fjármálaráðherra hafi verið vegna þess að löglegar leiðir voru ekki notaðar. Ég held að það sé frekar augljóst að sjá það í öllum umræðum um það mál að það var bara einfaldlega ekki þannig. Við búum einmitt við þetta vandamál að við erum að reyna að sinna eftirlitshlutverki okkar en þá er gargað: Trúnaðarbrestur. Við erum að sinna eftirlitshlutverki okkar en spurningum er ekki svarað. Við erum að sinna eftirlitshlutverki okkar en fáum söguskýringar um eitthvað allt annað. Þetta er vandamálið sem við glímum við í hnotskurn. Við spyrjum og spyrjum um atriði sem varða pólitísk afskipti. Hér er mennta- og menningarmálaráðherra að ráða flokksbróður sinn. Og dómsmálaráðherra hringir í lögreglustjóra (Forseti hringir.) út af samráðherra. Þetta er vandinn.



[14:43]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar til að koma upp í beinu framhaldi af óundirbúnum fyrirspurnum þar sem hæstv. forsætisráðherra fékk þá spurningu, ekki í tvígang heldur ítrekað, hver hennar afstaða væri til tiltekins dómsmáls sem er höfðað af hálfu íslenska ríkisins gegn konu, þ.e. af hálfu menntamálaráðherra, ráðherra í hennar eigin ríkisstjórn. Og þrátt fyrir að vera þráspurð um efnið þá tekst ekki að fá fram svör hennar við því hvernig henni hugnast það. Í sjálfu sér felst auðvitað í því ákveðið svar að hún skuli aftur og aftur fá tækifæri til að lýsa því yfir að þetta samræmist ekki hennar eigin jafnréttispólitík í áherslum en hún velji að gera það ekki. Auðvitað er það ákveðin afstaða. Síðan er það kannski, í framhaldi af því sem við vorum að ræða hér fyrr í dag um fundarstjórn, varðandi aðgengi okkar að upplýsingum, þannig að þeir ráðherrar sem minni hlutinn á erindi við hér í dag eru ekki mættir. Það er ekki hægt að eiga samtal við þá ráðherra tvo.



[14:44]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika að þeim einföldu spurningum sem var beint til hæstv. forsætisráðherra og jafnréttisráðherra var ekki svarað í dag. Og hvernig er þá með aðhaldshlutverk þingsins þegar settar eru fram mjög skýrar spurningar en þeim er síðan ekki svarað af því að þær eru pólitískt óþægilegar?

Ég tek undir það sem hér var sagt rétt áðan að í því felst auðvitað ákveðin yfirlýsing af hálfu jafnréttisráðherra, sem er forsætisráðherra, að vilja ekki taka afstöðu til máls, vilja ekki hafa skoðun á málinu þar sem öllum málsástæðum menntamálaráðherra hefur, bæði af kærunefnd jafnréttismála en ekki síður af héraðsdómi, í raun verið hafnað, algjörlega. En jafnréttisráðherra vill ekki tjá sig um málið og mér finnst það miður. Ég lít ekki öðruvísi á það en þannig að forsætisráðherra sé einfaldlega að blessa þessa málafylgju alla hjá menntamálaráðherra. Hitt er síðan umhugsunarefni hvernig ráðherrar í ríkisstjórn beita sér bæði hér innan þings sem utan. (Forseti hringir.) Ef aðhaldið er of mikið héðan er okkur ekki svarað og þegar þeir fulltrúar sem við erum m.a. að skipa í stjórnir spyrja óþægilegra spurninga, hvað gera ráðherrar í ríkisstjórn þá? Þeir losa sig við óþægilega fulltrúa minni hlutans.



[14:46]
Katla Hólm Þórhildardóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég borðaði hádegismat með systur minni í dag og hún spurði: Hvað er að frétta úr þessari vinnu sem þú ert í? Ég sagði: Heyrðu, það er bara ótrúlega gaman, nefndarfundir og mikið af upplýsingum, en ég má ekki segja frá þeim því að allt er trúnaður. En ég get snakkað um ekki neitt við þig og þannig. Og svo höldum við áfram að tala um hvernig þingið starfar og hvernig það virkar. Og hún kvartar við mig svona rétt eins og öll mín fjölskylda kvartar við mig mjög reglulega um að ekkert gerist hér á þessu þingi og ég segi: Ja, ég ber ekki ábyrgð á því, ég er sko í stjórnarandstöðu, þannig að þeir sem bera ábyrgð á því er fólkið sem getur látið hlutina gerast, þú þarft eiginlega að tala við það fólk. En ég skal reyna að gera það fyrir þig. En þau eru ekki hérna, aldrei. Og síðan, ef þau eru hérna og við spyrjum spurninga þá fáum við ekki svör við þeim spurningum. Ég reyndi að útskýra þetta fyrir systur minni í hádegismat. En henni er eiginlega alveg sama af því að henni líður eins og þingið sé ekki að gera neitt fyrir hana, með réttu.