151. löggjafarþing — 65. fundur
 11. mars 2021.
mótun klasastefnu.
skýrsla ferðam.- og iðnrh., 522. mál. — Þskj. 880.

[15:49]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Nú er liðið rétt ár síðan Alþingi samþykkti þingsályktun um mótun klasastefnu. Að baki þingsályktuninni stóðu þingmenn úr öllum flokkum en ég held að það sé á engan hallað þegar ég nafngreini sérstaklega hv. þm. Willum Þór Þórsson sem helsta hvatamann ályktunarinnar. Ég vil því í upphafi hrósa og þakka flutningsmönnum þeirrar tillögu fyrir að beina kastljósinu að hugmyndafræði klasa og hvernig klasar geti eflt og styrkt umhverfi nýsköpunar og framfara. Í greinargerð með þingsályktuninni segir að klasastefnu sé ætlað að móta farveg vinnu við eflingu nýsköpunar og atvinnulífsins vítt og breitt um Ísland. Með opinberri klasastefnu sé hægt að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs í þágu verðmætasköpunar sem leiðir af sér aukna framleiðni og hagsæld.

Ég segi oft að nýsköpun sé ekki lúxus heldur nauðsyn og trú þeirri sannfæringu höfum við unnið markvisst að því að gera vistkerfi nýsköpunar á Íslandi sjálfbært og öflugt. Þetta höfum við gert, m.a. með nýsköpunarstefnu fyrir Ísland, með Kríu, nýsköpunarsjóði, til þess að stuðla að uppbyggingu vísisjóða, með Lóu, nýsköpunarstyrkjum fyrir landsbyggðina, með því að búa til svigrúm fyrir erlenda sérfræðinga til að starfa á Íslandi og styrkja þannig tengslanetið, með frekari heimildum fyrir lífeyrissjóði til að fjárfesta í vísisjóðum og með því að vera alltaf með hugarfar nýsköpunar í farteskinu.

Klasastefna fyrir Ísland styður við þetta allt. Með klasastefnu erum við komin með verkfæri til að takast á við meginþætti nýsköpunar á forsendum þeirra sem vinna að verkefnum hvar sem er á landinu. Hún er þáttur í þeirri heildarendurskoðun og samþættingu á umhverfi nýsköpunar sem nú stendur yfir. Hún er líka mikilvæg stoð fyrir samkeppnishæfni, verðmætasköpun og áframhaldandi sókn íslensks atvinnulífs. Klasastefnan rammar inn hlutverk hins opinbera og samspil og samstarf atvinnulífs, stofnana, fjárfesta og háskóla. Klasarnir tengja saman með öflugum hætti alla þessa aðila og gera þannig jarðveginn fyrir nýsköpun og framfarir bæði frjóan og öflugan.

Klasastefna fyrir Ísland er afrakstur vinnu sem leidd hefur verið af Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans. Stefnan var jafnframt unnin í víðtæku samstarfi og samráði við grasrót atvinnulífsins og fjölda aðila innan stjórnkerfisins og vil ég að sjálfsögðu nýta tækifærið hér og þakka kærlega fyrir þeirra framlag. Klasastefnan hefur beina skírskotun til nýsköpunarstefnu stjórnvalda til ársins 2030 og vísinda- og tæknistefnu 2020–2022. Hún hefur sömuleiðis margvíslegar tengingar við skýrslu forsætisráðuneytisins, Ísland og fjórða iðnbyltingin, stefnumótandi áherslur Íslandsstofu frá árinu 2019 og fleiri stefnur og áherslumál sem komið hafa fram á vegum stjórnvalda á síðustu árum.

Í verkfærakistu framfara og sóknar eru auðvitað til ótal verkfæri og aðferðir til þess að ná árangri, en samstarf innan klasa er eitt af þeim mikilvægari. Klasasamstarf gengur einfaldlega út á að skapa tengslanet og samstarf fyrirtækja í viðskiptalífinu sem byggir á mannauði, tækni, fjármagni og þekkingu. Klasi er hreyfiafl nýsköpunar í þeim geira sem hann myndast um. Klasar hraða þróun, vinna þvert á ólíka hagsmuni og brjóta niður hefðbundin norm eða ferli. Þeir krefjast samvinnu en þrífast best þar sem samkeppni milli aðila er rík og hagur eins er sjálfkrafa hagur annars.

Í klasastefnu er sett fram sú framtíðarsýn að árið 2030 verði Ísland á meðal fremstu þjóða heims hvað varðar sjálfbæra atvinnuuppbyggingu, samkeppnishæfni og almenna hagsæld samkvæmt öllum helstu mælikvörðum. Til þess að ná að uppfylla þessa sýn þarf markvissar áætlanir og samhæfðar aðgerðir allra aðila í atvinnulífinu með þátttöku stjórnvalda, vísinda og háskóla og rannsóknasamfélags auk nýfjárfestinga og öflugra frumkvöðla. Til að halda kúrsinum er mikilvægt að efla allsherjarkortlagningu á íslensku atvinnulífi og þeim lykilmælikvörðum sem segja til um umfang, árangur og samkeppnishæfni og þróun innan hverrar atvinnugreinar, svo við vitum einfaldlega betur punktastöðu hverju sinni.

Aðferðafræði klasasamstarfs er notuð í öllum helstu löndum sem Ísland ber sig saman við, í því skyni að vinna markvisst að endurnýjun í atvinnulífi og samstarfi um nýsköpun og tækniþróun. Í Noregi hafa stjórnvöld beitt sér fyrir klasasamstarfi undir merkjum Innovation Norway. Í Danmörku hafa klasar sömuleiðis verið öflugt verkfæri. Það er áhugavert að sjá að nýjustu klasarnir eru m.a. á sviði umhverfis- og orkutækni, líftækni, velferðartækni, stafrænnar tækni, fjártækni, róbóta- og drónatækni, leikjatækni og skapandi greina eins og kvikmyndagerðar og tónlistar. Allt eru þetta greinar þar sem nýsköpun er á heimsmælikvarða og þar sem tekist er á við samfélagslegar áskoranir með beinum hætti.

Covid-19 faraldurinn hefur breytt heimsmyndinni og efnahagsleg umskipti blasa við öllum þjóðum. Við þurfum að takast á við gjörbreyttar forsendur og innleiða nýja og betri starfshætti til að vinna einfaldlega hraðar og betur. Það er mikilvægt að halda því til haga að klasastefna snýst ekki um að hið opinbera ætli að leiða eða ákveða hvað er klasi eða að standa að stofnun þeirra allra. Hlutverk stjórnvalda er að móta framtíðarsýn og stefnu um hvernig best verði að því staðið að efla vistkerfi nýsköpunar og skapa umgjörð sem auðveldar nýsköpun og vöxt í fyrirtækjum og atvinnulífi. Til þess að geta gert það þarf að vera til staðar þekking hjá stjórnvöldum á nýsköpun og innleiðingu nýsköpunar, bæði í opinberum rekstri og einkarekstri. Stjórnvöld eiga alls ekki að skekkja markaðsaðstæður í þágu ákveðinna fyrirtækja, atvinnugreina eða tæknilausna, en þau hafa hlutverk við að hnika markaðnum í ákveðna átt í samræmi við stefnu sína, markmið og þær áskoranir sem brýnastar eru.

Verkfæri stjórnvalda til að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki í þessu skyni eru m.a. styrkir til nýsköpunar og tækniþróunar, opinbert fé sem veitt er í gegnum fjárfestingarsjóði og opinber útboðsstefna. Forsenda árangurs stjórnvalda er að stofnanir þeirra tileinki sér framsækna starfshætti, sveigjanleika og samvinnu þvert á stjórnsýslu og valdsvið með sama hætti og gert er í klasasamstarfi. Stjórnvöld geta sjálf mikið lært af klasasamstarfi heilt yfir. Stuðningur við klasasamstarf sem tæki í byggðaþróun byggist á því að þar hafi hið opinbera hlutverki að gegna við að brúa markaðsbrest og styrkja innviði og vistkerfi nýsköpunar um allt land. Svæðisbundið klasasamstarf geti reynst brú yfir í sterkara nýsköpunarumhverfi, aðgengi að þekkingu og reynslu af alþjóðlegu rannsókna- og nýsköpunarsamstarfi og sókn í alþjóðlega styrki og samstarfsaðila. Ég verð að segja það hér undir þessum lið að það er ótrúlega mikil gerjun og mikið að gerast úti um allt land í þessa veru. Lóa, hvatastyrkir, er í raun bara konkretaðgerð til þess að flýta og styðja við þessa góðu þróun. Í klasastefnu felst yfirlýsing um afstöðu stjórnvalda til klasasamstarfs sem verkfæris í þágu nýsköpunar.

Virðulegi forseti. Hér er fyrsta útgáfa klasastefnu fyrir Ísland og það er von mín og vissa að hún verði aðilum í breiðri virðiskeðju atvinnulífs og stjórnvalda innblástur og stuðningur til góðra verka.



[15:56]
Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýrsluna og eins þakka ég þessa umræðu. Miðflokkurinn leggur áherslu á vöxt og viðgang atvinnulífsins og vill beita sér fyrir aðgerðum sem stuðla að framþróun og nýsköpun. Miðflokkurinn sýndi í verki stuðning við málefnið sem hér er rætt með því að gervallur þingflokkurinn stóð að þingsályktun um gerð skýrslunnar. Eins leggjum við sérstaka áherslu á að iðn- og tæknimenntun verði efld. Því miður hafa loforð um þessi atriði ekki verið efnd á nýliðnum árum og fá merki á lofti um að vænta megi nauðsynlegra umbóta í þeim efnum.

Fram kemur í skýrslunni að klasastefnan hefur beina skírskotun til nýsköpunarstefnu stjórnvalda til 2030 undir kjörorðinu Nýsköpunarlandið Ísland, Vísinda- og tæknistefnu 2020–2022 og margvíslegar tengingar við skýrslu forsætisráðuneytisins Ísland og fjórða iðnbyltingin, auk fleiri áherslumála sem fram hafa komið á undanförnum árum á vegum stjórnvalda.

Höfum í huga að samkeppnisskilyrði ráða úrslitum um verðmætasköpun og hagsæld. Lykilþættirnir eru aðstæður fyrirtækja til að keppa á markaði, hvort sem er við innlenda eða erlenda keppinauta, framleiðni og nýsköpun. Nýsköpunin leggur grunn að aukinni framleiðni og aukin framleiðni styrkir samkeppnisstöðuna. Stjórnvöld hafa svo aftur mikilvægu hlutverki að gegna við að móta starfsumhverfi atvinnufyrirtækja þannig að þeim séu búin sem best skilyrði í samkeppni að utan.

Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Klasasamstarfi má lýsa sem stefnumiðaðri aðferðafræði til að byggja brýr og styrkja tengingar og samvirkni innan vistkerfa nýsköpunar og atvinnulífs og til að vinna með stefnumiðuðum hætti að ákveðnum markmiðum um nýsköpun og vöxt í því skyni að hraða árangri.“

— Já, herra forseti, svo mörg voru þau orð. Ég ætla að leyfa mér að segja að kannski hefði mátt nálgast skilgreiningu á viðfangsefninu með eilítið einfaldari og síður hátimbruðum hætti.

Samkeppnishæfni endurspeglar getu þjóðar til verðmætasköpunar og leikur framleiðni þar lykilhlutverk. Þetta sést t.d. vel í sjávarútvegi þar sem færri hendur skila meiri verðmætum en áður í þeim mæli að vakið hefur alþjóðlega athygli. Aukin framleiðni eflir langtímahagsæld þjóða. Mikilvægt er að skoða hvort fyrirtæki innan hlutaðeigandi atvinnugreina hafi stuðning af virkum klösum.

Samstarf fyrirtækja er lykilþáttur í árangri þeirra og sýnt hefur verið fram á mikilvægi klasa í efnahagslegu tilliti. Klasar gefa færi á að auka framleiðni og nýsköpun sem leiðir til aukinnar samkeppnishæfni og meiri hagsældar. Hagsældin er svo aftur forsenda þess að halda uppi lykilþáttum í samfélaginu á borð við heilbrigðis- og skólakerfi, menningarstarfsemi og velferðarkerfi.

Málið snýst ekki um að ríkið fari af stað og búi eitthvað til heldur verði farsæll farþegi í aftursæti sem styðji við ökumann og lesi kortið rétt svo að menn rati ekki í villur.

Við sjáum að í íslensku atvinnulífi hafa myndast klasar í sjávarútvegi, jarðhita, lækningatengdri þjónustu og ferðaþjónustu svo að dæmi séu nefnd. Þetta eru allt dæmi um klasasamstarf sem virðist sjálfsprottið. Stjórnvöld þurfa helst að gæta sín að vinna ekki gegn atvinnulífinu með óskynsamlegri reglusetningu og ofsköttun.

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að draga fram helstu áherslur Miðflokksins í þessum mikilvæga málaflokki:

1. Að regluverkið verði gert einfaldara og skilvirkara til hagsbóta fyrir atvinnulífið.

2. Að hugað sé sérstaklega að því að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki og gera þeim auðveldara að keppa á öllum sviðum, minna regluverk er þar mikilvægt.

3. Við viljum ekki ríkisstyrkt atvinnulíf heldur regluverk sem gerir atvinnulífinu sem auðveldast að þroskast af sjálfu sér.



[16:00]
Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við fjöllum hér um mikilvægt málefni, fyrir samtímann og fyrir framtíðina. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þá skýrslu sem um ræðir og öllum þeim sem sátu í starfshópnum. Það er ánægjulegt að þessi stefna liggi nú fyrir enda hefur líklega sjaldan verið jafn mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að vel sé haldið utan um málefni nýsköpunar. Þetta er einnig mál sem þingið hafði frumkvæði að og er ástæða til að fagna að því hafi verið fylgt eftir. Nýsköpun er þeim kröftum og töfrum gædd að hún getur skapað nýjar aðferðir, nýjar afurðir og aukið samkeppnishæfni. Eins og fram kemur í skýrslunni er það hlutverk klasastefnu að benda á aðferðir og leggja til aðgerðir til að hraða vexti efnahags sem við hljótum einmitt að þurfa að stefna að nú um stundir. Til þess þurfum við að nýta okkur það sem klasasamstarf gerir svo vel — að efla samstarf og skapa hvata til að skapa ný tækifæri í samtali.

Herra forseti. Klasasamstarf má nýta sem drifkraft fyrir atvinnugreinar framtíðarinnar en einnig til að hraða breytingum. Þannig getum við nýtt klasa til að leiða þróun þvert á atvinnugreinar sem er algert lykilatriði. Þannig getum við dregið saman þekkingu úr ólíkum greinum, úr bæði atvinnulífi og fræðastarfi, til að skapa eitthvað alveg nýtt. Heimurinn er að breytast hratt og við þurfum á slíkum klösum að halda til að geta stuðla að heilbrigðu vistkerfi nýsköpunar sem er alþjóðlega samkeppnishæft þar sem allir þurfa að taka þátt; stjórnvöld, háskólaumhverfi, fyrirtæki, frumkvöðlar og fjárfestar.

Eitt sem bent er á í skýrslunni er að hefja þurfi allsherjarkortlagningu á íslensku atvinnulífi og lykilmælikvörðum. Mælikvörðum sem segja til um umfang, árangur, verðmætasköpun, samkeppnishæfni og þróun innan hverrar atvinnugreinar á tilteknum tíma. Þannig væru mælikvarðar eins og fjöldi starfa, fjöldi fyrirtækja, útflutningsverðmæti og heildarvelta mæld reglulega. Í skýrslunni er lagt til að sett verði upp sameiginlegt mælaborð leiðandi atvinnugreina sem ég held að sé mjög knýjandi að verði gert strax enda mikilvægt að við höfum skýra mynd af vistkerfi atvinnulífsins í heild til að geta tekið upplýstar ákvarðanir, ekki síst þegar vandi steðjar að. Ég vona að ráðherra sé tilbúinn til að setja slíka vinnu af stað nú þegar enda er þetta eitthvað sem ítrekað hefur verið rætt hér í þingsal að vanti tilfinnanlega.

Herra forseti. Hlutverk ríkisins þegar kemur að nýsköpun er gríðarlega mikilvægt og það er ekki síður mikilvægt að ríkisstofnanir tileinki sér framsækna starfshætti, sveigjanleika og samvinnu þvert á stjórnsýslu- og valdsvið með sama hætti og gert er í klasasamstarfi. Við þurfum að gefa stofnunum okkar slíkt svigrúm til að geta starfað meira saman og stutt betur við nýsköpun innan ríkisrekstrarins en við höfum verið að gera.

Herra forseti. Það er fjölmargt fleira sem ég hefði viljað koma inn á í þessari umræðu en langar þó að ljúka máli mínu á því að nefna mikilvægi þess að stefna sú sem hér er til umræðu verði innleidd og hún komi til framkvæmdar almennilega en verði ekki bara sett ofan í skúffu og geymd þar eins og allt of oft vill gerast. Til þess þurfum við að fá fram aðgerðaáætlun og fjármagna hana.

Ég spyr því hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að lokum: Hvað er ráðherra að gera til að tryggja það? Og lykilspurningin er auðvitað: Hvernig á að innleiða þessa stefnu?



[16:05]
Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu og þeim sem komið hafa að þessari vinnu. Ég held að hún sé gríðarlega mikilvæg, enda var ég ein af flutningsmönnum þess að óska eftir þessari vinnu. Ég ætla líka að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir það frumkvæði sem hann hefur átt í þeim efnum en við þingmenn höfum líka átt fundi með sérfræðingum á sviði klasamálefna.

Sumir hafa velt fyrir sér: Hvað er klasi og skiptir þetta einhverju máli? Er bara verið að setja ný og falleg orð utan um eitthvað sem við þekkjum nú þegar? Það kann að vera að það sé svo að einhverju leyti en klasi snýst í raun um samstarf fyrirtækja á ákveðnum sviðum. Þá ætla ég að taka það fram, því að það hefur líka stundum komið til tals þegar þessi mál eru rædd, að við erum samt sem áður að tala um löglega samkeppni, þ.e. samkeppni fyrirtækja sem gagnast öllum en vinnur auðvitað ekki gegn samkeppnislögum.

Mér fannst líka gott að heyra það hér hjá hæstv. ráðherra að við erum ekki að tala um að hið opinbera ætli með einhverjum hætti að ákveða hvað atvinnulífið eigi að gera, hvar nýsköpunin eigi að spretta fram og setja það í ákveðinn farveg heldur erum við að tala um umhverfið. Við erum að tala um að umhverfið sé með þeim hætti að það hvetji til nýsköpunar og klasaaðferðafræðin er bara gagnrýnd aðferð sem leiðir til nýsköpunarverkefna og nýtist í þróun slíkra verkefna.

Mér sýnist þessi skýrsla býsna góð og þar er farið yfir reynslu að utan en líka þá mikilvægu reynslu sem við höfum hér heima. Sjávarklasinn okkar er líklega hvað þekktastur í þeim efnum og gaman að sjá að komnir séu systurklasar, eins og það er kallað, víða erlendis. Það er verið að nota þá aðferðafræði sem sjávarklasinn hefur verið að nota víða annars staðar.

Mig langar að nefna tvö verkefni sérstaklega. Hér er talað um kortlagningu á íslensku atvinnulífi. Einn af þeim punktum sem hér er minnst á er endurvinnsla og hringrásarhagkerfið. Ég hef alloft talað úr þessum stól um mikilvægi þess að við byggjum kerfið okkar þannig upp að það sé raunverulegur hvati til nýsköpunar, íslenskrar nýsköpunar, í hringrásarhagkerfinu og endurvinnslunni. Þá er ég að vísa í það mikilvæga sem við getum gert hér, sem er regluverkið. Regluverkið okkar þarf að vera þannig fram sett að þar séu hvatar til þess að vinna á þessum málum hér á landi. Ég nefni sérstaklega endurvinnsluna vegna þess að þar held ég að séu gríðarleg tækifæri fyrir okkur. Það er algerlega ólíðandi að við séum að flytja út sorp í mjög miklum mæli til einhvers konar endurvinnslu erlendis sem við jafnvel vitum ekki nákvæmlega hver er. Ég hvet til þess að enn frekar verði hugað að samstarfi þeirra aðila sem koma að þessum málum. Það gæti orðið klasi sem gæti svo hjálpað okkur í því hvernig best er að aðlaga regluverkið.

Ég ætla líka að nefna norðurslóðamál í þessu samhengi vegna þess að þau eru mér sérstaklega hugleikin. Það er ofboðslega mikið af bæði fyrirtækjum og rannsóknaraðilum hér á landi sem vinna að norðurslóðamálum með einum eða öðrum hætti. Á Akureyri er skýrt dæmi um það þar sem fjöldi fyrirtækja kemur að þjónustu sem hægt er að flokka með einum eða öðrum hætti undir norðurslóðamál. Þarna held ég líka að tækifærin séu gríðarleg. En nú er ég kannski farin að gera það sem ég var að tala um í upphafi, þ.e. að við stjórnmálamenn eigum svo sem ekki að ákveða hvað eigi að horfa á heldur eigum við að búa til umhverfið, tryggja að grasrótin geti komið fram með hugmyndir og þróað nýjar leiðir. Það er það sem skiptir öllu máli varðandi verðmætasköpun okkar til framtíðar.

Ég tek undir orð hæstv. ráðherra hér áðan. Nýsköpun er ekki lúxus, hún er nauðsynleg. Við eigum alltaf að huga að því. Atvinnulífið þarf að huga að því. Við þurfum líka að gera það í opinbera geiranum. Klasastefna er mikilvæg til að bæta enn frekar þann jarðveg sem nýsköpun getur byggt á. Við þurfum að hafa í huga að stjórnvöld séu ekki að skekkja markaðsaðstæður í þágu ákveðinna fyrirtækja, atvinnugreina eða tæknilausna, en við höfum þó hlutverki að gegna við að hnika markaðinum í ákveðnar áttir í samræmi við stefnu, markmið og þær áskoranir sem brýnastar eru.

Ég fagna þessari stefnu og segi eins og hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér: Það er mikilvægt að við notum hana líka. Þetta má ekki bara vera fallegt plagg uppi í hillu heldur þarf þetta að nýtast í áframhaldandi vinnu okkar. Þá er líka gott að sjá að við þessa vinnu hefur verið horft á aðrar stefnur sem litið hafa dagsins ljós eins og nýsköpunarstefnuna og stefnu okkar Ísland og fjórða iðnbyltingin. Það er mikilvægt að þessar stefnur okkar tali allar saman svo að við séum að róa í sömu átt.



[16:10]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ágætisskýrsla, stuttorð og fer beint í aðalefnið. Mig langar að fjalla um nokkur atriði sem hafa þarf í huga þegar stefnan er innleidd. Til að byrja með er hlutverk stjórnvalda, eins og hér hefur verið nefnt, að búa til aðstæður úti um allt land fyrir nýsköpun í stað þess að velja hvað eigi að skapa og hvað ekki eða hvernig opinberu fjármagni skuli beint inn í nýsköpun á ákveðnum sviðum en ekki öðrum. Það verður að byggja á ákveðnu jafnræði eða almennri stefnu stjórnvalda, t.d. stefnu í loftslagsmálum. Þegar stjórnvöld setja sér almenna stefnu um ákveðna framþróun er ekkert óeðlilegt að hún smitist yfir í t.d. nýsköpunaraðstæður. Það væri t.d. eðlilegt að fara út í græna atvinnunýsköpun samhliða innleiðingu klasastefnunnar.

Þar þarf einmitt að spyrja um samspil við heildarstefnumótunarferli stjórnvalda. Þá á ég við fjármálaáætlunina sem þingið fjallar um á hverju ári. Undanfarin ár hefur samgönguáætlun t.d. verið dálítið sér á báti, byggðaáætlun hefur verið dálítið sér á báti og varla hefur verið hægt að tengja þær áætlanir við fjármálaáætlun á augljósan hátt. Það hefur batnað að undanförnu þar sem fólk hefur verið að vakna aðeins til lífsins varðandi lög um opinber fjármál og um það hvernig framkvæma eigi stefnu stjórnvalda í fjármálaáætlun. Þar verður að leggja til kostnaðarábatagreiningar og forgangsröðun sem hver stefna býr til á sínu sviði. Og þegar við tökum ákvarðanir um fjárheimildir, t.d. í klasastefnu, „summist“ þær þannig upp í fjármálaáætlun að þær séu gagnsæjar og aðgengilegar, bæði fyrir okkur þingmenn sem og borgarana hérna úti.

Á bls. 11 í skýrslunni er minnst á það örfáum orðum að dæmi um svæðisbundið klasasamstarf séu stafrænar smiðjur víðs vegar um land sem séu staðsettar innan þjónustukjarna og veiti þekkingu og þjónustu til breiðs hóps. Alþingi hefur samþykkt stefnu um stafrænar smiðjur, uppbyggingu þeirra og aðgengi allra að þeim. Stafrænar smiðjur eru starfræktar á átta stöðum á landinu. Ekki hefur beinlínis mikið verið gert, að því er ég hef séð, til að uppfylla stefnu þingsins um uppbyggingu á stafrænum smiðjum fyrir alla. Þrátt fyrir að stefnan sé æðisleg hefur framfylgdin á henni ekki verið svo góð. En mjög mikil samlegðaráhrif eru af stefnu um stafrænar smiðjur og klasastefnu. Þær búa til aðstæður og aðgang að ákveðinni tækni og þekkingu fyrir alla, ekki bara suma heldur alla.

Að lokum er talað um hraðar breytingar og þessa kortlagningu. Undanfarið hafa átt sér stað hraðar breytingar og er ekkert farið að hægja á þeim. Að mínu mati hafa þingið og stjórnvöld brugðist allt of hægt við þeim breytingum. Við erum enn þá dálítið í fornöld þegar kemur að því að ná í okkar vinnu þeim tækniframförum sem hafa orðið úti í atvinnulífinu.



[16:14]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og þessa skýrslu, sem ég held að sé mjög mikilvæg og mikilvægt að við ræðum hana hér og förum svolítið yfir sýn okkar á þetta verkefni. Ég ætla ekki að fara í skýrsluna lið fyrir lið heldur tæpa á nokkrum atriðum sem mér finnst skipta máli. Ein leiðin til að mynda til þess að nota klasastefnu er einmitt að búa til klasa í greinum þar sem gera má ráð fyrir að Íslendingar geti verið sterkir og haft eitthvað fram að færa, eða við sem samfélag. Það hefur einmitt verið gert, eins og kemur fram í listanum framarlega í skýrslunni yfir þá klasa sem þegar eru starfandi. Ég saknaði þess hins vegar í þeirri upptalningu að sjá sérstakan heilbrigðisklasa sem við myndum setja svolítinn þunga í. Þó að það sé kannski ekki mikið og flókið þróunarstarf á bak við margar af þeim lausnum sem við höfum notað í tengslum við Covid-faraldurinn og það sem við höfum þróað hefur það samt sýnt sig að íslenskt hugvitsfólk og íslenskir heilbrigðisstarfsmenn hafa verið býsna duglegir að finna leiðir. Sumar af þeim lausnum sem menn hafa notað eru jafnvel að ná fótfestu erlendis. Það getur skipt alveg gríðarlega miklu máli og það er eitt atriði.

Annar klasi sem ég myndi gjarnan vilja sjá væri það sem mætti kannski kalla sérstakan matvælaklasa, svipað og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hefur bent á. Það væri þá svolítið annað en klasinn um landbúnað og klasinn um sjávarútveg og þar væri fókusinn á matvælaþáttinn. Það er eitthvað sem við Íslendingar getum svo vel gert og getur til að mynda átt mjög sterkar tengingar inn í þær atvinnugreinar sem við höfum verið að byggja upp undanfarin misseri, eins og ferðaþjónustuna. Ég hef bent á að í því sambandi gætum við tengt yfir í til að mynda orkugeirann og þá nýsköpunarvinnu sem þar hefur verið og ég hef m.a. bent á að sú græna innlenda orka sem við höfum hér á landi gæti verið niðurgreidd til að efla íslenskan matvælaiðnað í gegnum slíka þróun og þá í gegnum svoleiðis klasa. Á þessu sviði eru mikil tækifæri og við heyrum í umræðunni nánast á hverjum einasta degi af einhverjum bráðsnjöllum hugvitsmönnum sem eru búnir að finna leiðir til að efla matvælaframleiðslu en það gætu orðið hrein undur ef þeir væru allir að tala saman á hverjum degi og vinna saman og komast að betri niðurstöðu. Ég tel nefnilega að við ættum að geta komist miklu lengra en við höfum gert í því að vera okkur sjálfum næg um matvæli. Ég held að það geti verið eitt af okkar söluatriðum í ferðaþjónustunni.

Að lokum langar mig aðeins að nefna klasa í byggðaþróun, að horfa í meira mæli til þeirra á svæðum þar sem byggðaþróun hefur gengið í öfuga átt, þ.e. byggð hefur hnignað og menn vilja reyna að ná fótfestu eins og með verkefninu Brothættar byggðir. Þar gætu líka verið tækifæri til þess að halda utan um byggðina og hjálpa mönnum að ná aftur viðspyrnu á brothættum svæðum og mjög skemmtileg verkefni gætu komið út úr slíku.



[16:20]
Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil, líkt og aðrir ræðumenn, byrja á að þakka fyrir þessa skýrslu. Hún fjallar um mikilvægt málefni. Hún er einn angi þeirrar umræðu sem er okkur öllum svo mikilvæg og varðar það hvernig við getum innleitt framfarir á Íslandi, hvernig við getum gert atvinnulíf okkar fjölbreyttara, hvernig við getum aukið útflutningstekjur, hvernig við getum aukið það virði sem verður til í íslensku atvinnulífi og hvernig við getum skapað sameiginlegan auð fyrir samfélagið, góð störf, vel launuð störf o.s.frv. Þetta þekkjum við og við erum að reyna að ná þeim árangri.

Við höfum gert margt vel og við höfum náð býsna góðum árangri á köflum. Það sem hefur helst verið akkillesarhæll okkar að mínu mati í öllum málum af þessu tagi er að okkur skortir svolítið úthald og við gleymum okkur þegar vel gengur í undirstöðuatvinnugreinum okkar eða þeim atvinnugreinum sem eru fyrirferðarmestar í samfélaginu. Það er mikilvægt að við hverfum frá þeim hugsunarhætti og klasastefna getur að sjálfsögðu verið þáttur í því.

Þessi skýrsla byggist á þingsályktunartillögu sem flutt var hér í hittiðfyrra. Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir örlitlum vonbrigðum með skýrsluna. Í henni eru vissulega talin upp ýmiss konar atriði. Fjallað er um ýmislegt sem vel hefur tekist og skilgreiningar á ýmsum hlutum, eins og hvað sé vistkerfi og hvað klasi o.s.frv. Taldir eru upp klasar og talin upp dæmi um hvað væri gott að menn væru að sýsla við. En það sem mér finnst satt að segja skorta talsvert á í þessari stefnu, sem þetta er — klasastefna þessi er unnin á grundvelli þingsályktunar o.s.frv., eins og segir í upphafi skýrslunnar, og reyndar lét hæstv. ráðherra þess getið að þetta væri 1. útgáfa. Mér finnst þetta satt að segja vera drög að stefnu. Verið er að tína til ýmislegt skynsamlegt sem gaman væri að gera. En mér finnst fara allt of lítið fyrir því hvað felist nákvæmlega í þessari stefnu. Hvernig ætla stjórnvöld að styðja við framgang klasa? Ætla þau að gera það með fjármagni? Ætla þau að gera það með miklu fjármagni? Ætla þau að mennta fólk á þessu sviði? Hvað er það nákvæmlega sem stefnan felur í sér?

Ég næ ekki alveg utan um það satt að segja. Það eru mér svolítil vonbrigði vegna þess að ég held að þarna séu tækifæri og mér finnst þetta vera fullmikil endurtekning á sjálfri skýrslubeiðninni, vissulega miklu ítarlegri og vissulega búið að taka hlutina saman, en mér finnst skorta svolítið á að þarna sé markvisst talað um hluti. Ef maður t.d. lítur á hlutverk stjórnvalda þá segir, með leyfi forseta, á bls. 16 í skýrslunni:

„Verkfæri hins opinbera við að efla vistkerfi nýsköpunar geta falist í því að leggja fjármagn …“

„Framlag opinberra sjóða getur aukið tiltrú á verkefnum …“

„Opinberir aðilar geta líka hvatt til …“

Síðan segir áfram í sama kafla, með leyfi forseta:

„Við mótun og framkvæmd klasastefnu er mikilvægt að hafa skýra sýn á hlutverk einkaaðila og hlutverk stjórnvalda og opinberra aðila í samstarfi sem drifið er áfram af þörfum atvinnulífsins. Mikilvægt er að markmið með opinberum stuðningi séu skýr.“

Það er ekkert útskýrt hvernig þau eru skýr. Tilgangurinn með þessu er góður, klasar hafa reynst vel víða, en ég verð að segja að þetta veldur mér nokkrum vonbrigðum. En ég vil líka vera jákvæður og ég ætla að ljúka þessu á jákvæðum nótum og segja: Þetta er gott skref. Þetta er góð byrjun, skulum við segja, en þetta er svo langt frá því að vera eitthvað sem a.m.k. í mínum huga gæti flokkast undir það að vera fullbúin stefna í þessu máli. Ég held að þeir sem lesa þetta og vinna í klösum, eða hafa hug á að setja upp klasa, (Forseti hringir.) fái voðalega lítið út úr því að lesa þetta plagg. En batnandi mönnum er best að lifa og ég er sannfærður um að hæstv. ráðherra mun taka þetta til skoðunar og vinda bráðan bug að því að gera þessa stefnu skýrari.



[16:27]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna og þakka skýrslu hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um mótun klasastefnu, klasastefnu sem unnin er í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögu sem flutt var af hv. þm. Willum Þór Þórssyni ásamt fleirum.

Klasasamstarf er víða liður í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu og eflir samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina, landsvæða og þjóða. Klasar geta verið drifkraftur nýsköpunar. Þar tengjast ólíkir aðilar og til verða nýjar hugmyndir. Opinber klasastefna getur því verið liður í að uppfylla framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda um sjálfbæra atvinnuuppbyggingu, samkeppnishæfni og almenna hagsæld. Í skýrslunni er farið yfir hverju klasasamstarf geti náð fram. Í framhaldinu vænti ég þess að fá skýra sýn eða aðgerðaáætlun um hvernig stjórnvöld geti hvatt til klasasamstarfs eða stutt við það. Bent er á að stuðningur við klasasamstarf geti verið tæki í eflingu byggðaþróunar og að þar hafi hið opinbera hlutverki að gegna við að brúa markaðsbrest og styrkja innviði og vistkerfi nýsköpunar um allt land. Það er einmitt það sem fulltrúar landshluta hafa kallað eftir síðustu mánuði samhliða allsherjarendurskoðun opinbers stuðnings við nýsköpun.

Hæstv. ráðherra. Innleiðing klasastefnu getur styrkt innviði og vistkerfi nýsköpunar um land allt.

Virðulegi forseti. Nú þegar eru stafrænar smiðjur, ýmiss konar samvinnuhúsnæði og tengslanet starfrækt um land allt. Oft þarf lítinn viðbótarkvóta til að virkja drifkraftinn þar. Dæmi um það er að forsenda notkunar á stafrænum smiðju er að til staðar séu starfsmenn með góða þekkingu á búnaðinum sem hafi tíma til að fylgjast með og þróa vinnuaðferðir í samstarfi við aðrar smiðjur og atvinnulífið. Því er fagnaðarefni að nú hafi opinberir aðilar tryggt verkefnastjórn sem leiðir tæknilega þróun smiðjanna og samstarf næstu árin. Það verður spennandi að sjá fleira úr stefnunni skila sér.



[16:29]
Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um mótun klasastefnu. Ég vil þakka ráðherranum fyrir skýrsluna og umræðuna sem hér er um klasastefnu. Hún er byggð er á þingsályktun sem hv. þm. Willum Þór Þórsson er fyrsti flutningsmaður að. Við í Miðflokknum erum öll á þessu máli þannig að við fögnum því. Ég verð að segja eins og er að ég fylgjandi öllu sem eflir atvinnu og uppbyggingu, ég tala nú ekki um ef það eflir byggðaþróun. Við landsbyggðarþingmennirnir tölum oft um eflingu byggðaþróunar á landsbyggðinni. Allt sem lýtur að lífi okkar mannanna byggist á atvinnu. Það er nú bara þannig.

Ég er nú svolítið forn í hugsun og hef verið að reyna að átta mig á hvað klasi er og var að gúgla það hér áðan mér til frekari glöggvunar. Það hefur líka komið fram í ræðum og þessi skýrsla segir manni að svona starfsemi getur stuðlað að uppbyggingu í atvinnumálum og nýsköpun. Það er mjög mikið fagnaðarefni.

Hér hefur komið fram að okkur hefur ekki gengið sem skyldi, eins og mikið hefur verið rætt, með uppbyggingu iðn- og tæknináms nema að takmörkuðu leyti. Þar þurfum við að taka okkur hressilega á. Mikið vantar í þau störf vegna þess að þróun í tækniheiminum er það hröð.

Af því að ég minnist á landsbyggðina þá er eitthvað sem heitir efling, uppbygging og stuðningur við brothættar byggðir. Mér hefur alltaf fundist orðalagið brothættar byggðir svolítið niðrandi, ekki uppbyggilegt. Ég hefði frekar viljað kalla það byggðir í sókn. Það er meiri hvati í því en að tala um brothættar byggðir. Líka að einskorða skilgreininguna við byggðarlög sem eru með 500 manns eða færri, það eru fleiri byggðir en fámennar sem eru í vandræðum. Ég vildi bara að það kæmi hér fram.

Eins og ég segi þá fagna ég þessari skýrslu. Ég vona að við festum okkur ekki of mikið í einhverjum hugtökum sem líta vel út á prenti en framkvæmum heldur hlutina hratt svo uppbygging atvinnuvega og nýsköpunar megi ganga sem hraðast.



[16:33]
Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari skýrslu og vil sérstaklega hrósa hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir frumkvæði í þessu máli. Ég er ósammála því að hið opinbera eigi ekki og hafi ekki hlutverki að gegna varðandi klasa og mér finnst ekki að við eigum að vera eitthvað feimin við það. Ég tel að nú standi svolítið upp á ríkið að móta stefnu sína dálítið skýrt, svo að ég noti það orð, og vera með raunhæfar og raunverulegar tillögur. Annars er háleitum markmiðum lýst í þessari skýrslu og hún vitnar um nútímalega og að mér finnst sterka sýn á atvinnulífið og mannlífið raunar eins og það getur þróast. Ég, rétt eins og hv. þm. Ólafur Ísleifsson, klóraði mér aðeins í hausnum yfir einni klausu þarna og velti henni svolítið fyrir mér. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Klasasamstarfi má lýsa sem stefnumiðaðri aðferðafræði til að byggja brýr og styrkja tengingar og samvirkni innan vistkerfa nýsköpunar og atvinnulífs og til að vinna með stefnumiðuðum hætti að ákveðnum markmiðum um nýsköpun og vöxt í því skyni að hraða árangri.“

Þarna eru nokkuð mörg nafnorð en það er vit í þessu engu að síður og í þessari stuttu klausu eru þrjú lykilorð sem mig langar að draga aðeins fram í mínu stutta máli, þ.e. „aðferðafræði“, „brýr“ og „vistkerfi“.

Fyrsta orðið, „aðferðafræði“, lýsir vel nálgun klasastefnunnar og vísar til þess að hending ræður ekki för við þróun mála eins og stundum hefur verið heldur býr markviss sýn að baki því sem gera skal. Þetta er kannski einn meginvandinn í íslensku atvinnulífi, þ.e. skortur á skýrri sýn og markvissri stefnumótun við uppbyggingu á atvinnugreinum og að við lítum svolítið á tækifæri sem gefast eins og síldarhrotur eða lottóvinning. Sá nýjasti er blessuð loðnan sem nýlega fannst og alltaf talað um hana eins og lottóvinning í fjölmiðlum en síður um hitt að við fundum hana vegna þess að hennar var leitað á markvissan og þrotlausan hátt með vísindalegum og háþróuðum aðferðum.

Annað orðið er „brýr“. Þetta lykilorð lýsir aðferðafræði klasastefnunnar. Þegar vel tekst til er hún stefnumót margra greina og fyrirtækja og þar blandast saman ólíkur hugsunarháttur og aðferðir við að leysa mál. Ekki er litið á atvinnulífið sem samsafn af ólíkum og aðskildum greinum sem takist jafnvel á heldur er reynt að stuðla að því að þær blandist og móti hver aðra. Það ýtir undir skapandi hugsun.

Loks er það orðið „vistkerfi“. Það lýsir hugmyndafræði klasastefnunnar þar sem horft er á náttúruna og það hvernig vistkerfi hennar starfar þegar allt er með felldu og ólíkar tegundir geta búið saman í frjóu samlífi.

Framtíð okkar ræðst af því hvort okkur auðnast að skapa atvinnulíf og mannlíf sem byggist á grænum áherslum og skapandi hugsun þar sem fjölbreytni er höfð að leiðarljósi, vitandi að smátt er fagurt, og að atvinnulífið geti þá litið út eins og íslensk ilmandi lyngbrekka, þar sem dafna hlið við hlið tegundir eins og fjalldrapi, blóðberg, bláklukka, holtasóley, músareyra og lambagras.



[16:38]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Klasastefna er í sjálfu sér góðra gjalda verð en hún leysir ekki stærra vandamálið, þ.e. að stuðningskerfi ríkisins við hina ýmsu geira hagkerfisins er nokkurs konar haglabyssunálgun. Það er ekki miðað nægilega vel á ákveðin markmið. Það er engin handleiðsla, engir árangursbundnir hvatar, ekki einu sinni iðnaðarstefna sem leggur línurnar um hvert gert er ráð fyrir að atvinnuvegirnir séu að stefna. Ég er svo sem ekki að bera nýja gagnrýni á borð, ég er að endurtaka mig. Ég hef sagt það nokkrum sinnum áður að atvinnuþróun á ekki vera máttlítil og handahófskennd heldur þyrfti frekar einhvers konar riffilsnálgun þar sem samtal stjórnvalda og atvinnulífsins ákveður stefnumörkunina og skotmörkin sem slík og ákveður hver markmiðin eru og klasastefna komi síðan inn sem liður í því að tryggja að hagkerfið hitti í mark. Það eru svo sem margar leiðir til að ná þessu fram og þessi skýrsla fer aðeins í rétta átt með það og það er jákvætt. En mér finnst bara mikilvægt að við hugsum ekki of mikið í ákveðnum lausnum þegar heildarmyndina vantar. Heildarmyndin er enn of veik. Það er hægt að tala um jákvæða þróun, t.d. stafrænar smiðjur sem samþykkt hefur verið stefna um hér á Alþingi og það er ágætt. Ég hef svo sem ákveðna sögu í því. En nú erum við hér nokkrum árum eftir að þessar stafrænu smiðjur voru samþykktar og ekki er einu sinni enn komin heildstæð stefnumótun hvað þær varðar. Þó er mikið verið að bíða eftir því.

Í öllum tilfellum, hvort sem við erum að tala um stafrænar smiðjur eða annars konar mekanisma í hagkerfinu okkar, er svo rosalega mikið af tækifærum til staðar sem við erum alveg á mörkunum með að geta farið að nýta okkur, en síðan er einhver tregða sem hindrar að við náum mun betri árangri en við höfum verið að ná. Ég ætla ekki að fara mjög ítarlega ofan í tiltekin atriði skýrslunnar. Þetta er góðra gjalda vert. Þetta er á réttri leið, þetta er innlegg inn í stærri umræðu. En mig langar bara til að leggja áherslu á það núna að stærri umræðan er ókláruð. Það vantar stóra þætti inn í þetta. Það vantar iðnaðarstefnu, það vantar heildræna markmiðssetningu og það vantar einhvers konar sterkari endurgjafarlykkju. Við verðum alltaf að endurskoða hlutina, hvar hiti og þungi ríkisvaldsins á að liggja gagnvart atvinnuþróun, hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur hverju sinni og hvernig við ætlum að tryggja að framlagið skili sér í auknum útflutningstekjum, í verðmætari störfum og í verðmætari framleiðslu o.s.frv.

Ég segi bara: Við verðum að hætta haglabyssunálguninni, taka upp riffilsnálgunina og fara að hitta í mark.



[16:42]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér klasastefnu. Það er ekki nýyrði en aðalatriðið er að innihald sé á bak við klasastefnuna. Það er mjög mikilvægt að opinberir aðilar móti stefnu til langrar framtíðar um hvernig þeir vilja sjá nýsköpun þróast í landinu. Við vitum að hagnýt staðbundin þekking auðgar atvinnulífið. Við þekkjum það. Í gegnum tíðina hefur aukin áhersla verið lögð á nýtingu í sjávarútvegi og ýmsum öðrum greinum með sjálfbærum hætti. Það hafa orðið til klasar á þeim grundvelli í samvinnu við rannsóknaraðila, háskóla, einstaklinga og stjórnvöld. Það er því mikilvægt að brúa bil á milli ólíkra aðila í atvinnulífinu sem eykur þekkingarsköpun innan mismunandi atvinnugreina og á milli þeirra. Ætlunin með slíku samstarfi er m.a. að byggja upp atvinnulíf og auka verðmætasköpun á hverju svæði með sérstakri áherslu á sjálfbærni og grænar lausnir og nýsköpun og hátækni. Þetta er allt í gerjun hér á Íslandi en opinberir aðilar þurfa líka að vera leiðandi í þessari vinnu.

Nú hefur í fyrsta sinn verið lögð fram klasastefna eins og lagt var upp með í stjórnarsáttmálanum. Þessi klasastefna hefur verið unnin í samstarfi við fjölda aðila og tengir vel nýsköpunarstefnu og stefnu Vísinda- og tækniráðs. Þetta klasasamstarf fellur vel að markmiðum um byggðaþróun og nýtingu staðbundinnar þekkingar. Klasar hafa verið að myndast víða um land og það má aðlaga þá að aðstæðum á hverju svæði.

Ég held að þeir klasar sem hafa verið að fara af stað, bæði varðandi sjávarklasa, ferðaþjónustu og jarðvarma, séu dæmi um gott gengi í þeim efnum. Orkídea á Suðurlandi, sem er samstarf Landsvirkjunar, Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, er gott dæmi um gott nýsköpunarverkefni í orkutengdum geirum og í hátæknimatvælaframleiðslu.

Svo er það Eimur sem er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélaga á Norðurlandi eystra. Það samstarf er til að bæta nýtingu á orkuauðlindum á því landsvæði. Bæði þessi verkefni falla vel að hugmyndinni um hringrásarhagkerfið, um minni sóun og sjálfbæra nýtingu auðlinda, og kröfum samtímans um vistvænni og sjálfbærari framtíð.

Klasasamstarf er vel til þess fallið að auka aðgengi að þekkingu, hvort sem er með sterku neti klasa innan lands eða í tengslum við alþjóðlega klasa sem opna dyr að alþjóðlegu rannsóknarstarfi og samstarfi á því sviði. Þau verkefni sem ég nefndi eiga það sameiginlegt að að þeim standa opinberir aðilar sem treystir einmitt það hlutverk sem þeim er ætlað í stefnunni, að verja gegn markaðsbrestum og styrkja innviði og vistkerfi nýsköpunar í landinu. Það á við um heim allan að framfarir séu fjármagnaðar af opinberu fé. Opinberir aðilar verða að hafa þolgæði og festu til að standa með grænni framtíð og nýjum lausnum til framtíðar. Ég held að ekki megi vanmeta mikilvægi þess að ríkið og opinberir aðilar séu mótandi í þeirri stefnu sem við ætlum að byggja upp á sjálfbæran hátt til framtíðar í nýsköpun í landinu, þjóðinni til heilla.



[16:46]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Sá er hér stendur er með mikið þakklæti í huga. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og hrósa fyrir að hún skili sér innan gefins tímaramma. Það hefur oft gleymst, það er ekki alltaf sem það gerist. Mér finnst þessi umræða merkilega góð. Það er tvennt sem er áberandi í henni, annars vegar hlutverk ríkisins og hins vegar útfærslan. Þar eru einmitt gæðin við þessa skýrslu að hún geymir nákvæmlega það sem þingsályktunartillagan mælir fyrir um, sýn og stefnu, ekki er verið að þvæla inn framkvæmdaþættinum.

Mér fannst hæstv. ráðherra í inngangi að skýrslunni sýna því skilning og það finnst mér mikilvægast. Þetta er áfangi á vegferð. Það þarf þrautseigju og þolinmæði til að koma þessari vinnu áfram. Mikil kortlagning og greiningarvinna þarf að fara fram. Ég kannast við það. Það þarf þrautseigju og þolinmæði. Ég lagði þingsályktunartillöguna fram fimm sinnum hér frá 144. löggjafarþingi, í fyrsta sinn árið 2014, en síðan eru sjö ár. Það var svo loks fyrir sléttu ári, korteri fyrir Covid, getum við sagt, að tillagan var samþykkt á Alþingi þann 12. mars, með fulltingi flutningsmanna úr öllum þingflokkum sem sæti eiga á Alþingi. Það má kannski segja „ekki seinna vænna“ þar sem heimurinn er vonandi á hraðri leið út úr Covid og inn í nýtt, grænna, stafrænna, skapandi hagkerfi þar sem nýsköpun og klasasamvinna getur skipt sköpum og opinber klasastefna getur orðið lykilstoð í allri nýsköpun. Þeim áfanga sem við ræðum í þessari skýrslu þarf að fylgja vel eftir og eins og í allri stefnumótun er það stefna, sýn, markmið og svo framkvæmdaáætlun sem þarf að fylgja og eftirfylgni við það. Það er stöðugt verk.

Ég ætla að koma hér að hlutverki hins opinbera og stjórnvalda, vegna þess að við erum hér með klasana, sem komið er inn á í skýrslunni, í ákveðnu þroskaferli og við erum eftir á í því þroskaferli ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir. Það er það sem ég þarf að koma á framfæri og hefur komið fram í umræðunni hér: Hvernig eigum við að nýta þær stoðir sem þó er búið að byggja upp til að styðja við klasa sem eru sjálfsprottnir? Þá sögu þekkjum við frá Evrópu og þeim þjóðum sem eru komnar lengra. Það er kannski mikilvægast þegar við horfum til þróunar klasa í heiminum að við þurfum að horfast í augu við og viðurkenna að á sviði nýsköpunar þarf að formgera samvinnu hins opinbera og atvinnulífsins og byggja þannig upp tækifærin. Klasar hafa löngu sannað gildi sitt sem öflugasta tækið til að auka samkeppnishæfni og atvinnuuppbyggingu millistórra og smærri fyrirtækja og það er einmitt lykilstoðin og markmiðin í Evrópusambandsríkjunum; framleiðni, hagvöxtur og klasar. Klasar virka sem drif og hraðall á alla nýsköpun.

Atvinnulífið hefur auðvitað fyrir löngu komið auga á það tækifæri sem klasar gefa og eru. Það hefur verið að flækjast fyrir okkur, hinu opinbera og stjórnvöldum, hversu nauðsynlegt og mikilvægt er að hið opinbera og atvinnulífið vinni saman með það tæki sem klasi er og sæki margfeldisáhrifin sem af þeirri samvinnu geta orðið. Þetta er þekkt tregða á mörgum sviðum og í báðar áttir. Tregða sem var víða í árdaga formlegra klasa hjá þjóðum sem hafa áttað sig á þessu, hafa þegar stigið skrefið, hafa þegar mótað opinbera klasastefnu. Þetta er allt tekið ágætlega saman í skýrslunni, það er vel, án þess að gera það í löngu máli. Það er mikilvægt. Við höfum ekki endilega alltaf athygli. Athygli okkar helst ekki yfir langar, moðkenndar skýrslur sem geyma fjölmörg hugtök, og mörg hugtakanna hér eru vissulega framandi.

Nú þarf að fara í þá vinnu að ramma inn þær hugmyndir sem settar eru fram í skýrslunni og kortleggja betur og útfæra sýnina og kortleggja betur klasaumhverfið og möguleikana. Þá þarf að skipuleggja og formgera aðkomu og aðgengi stuðningsumhverfisins, hvaða aðilar og fyrirliggjandi sjóðakerfi myndi það umhverfi og með hvaða hætti. Við slíka kortlagningu myndi ég leggja áherslu á að tvinna byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta og þverfaglega nálgun með öðrum ráðuneytum, eins og þekkist annars staðar.

Hér má líka draga fram að hæstv. ráðherra hefur staðið fyrir fjölmörgum góðum verkefnum. Ég get nefnt hér nýleg verkefni eins og Kríu og Stuðnings-Kríu, Græna dregilinn og Græna iðngarða, allt fellur það mjög vel að þessu umhverfi og ber að hrósa fyrir það.

Nú er tíminn búinn. Ég gæti staðið hér miklu lengur, en ég tel að vinnan á bak við skýrsluna sé líka góð, hvernig var farið í þá vinnu. (Forseti hringir.) Ég vil þakka starfshópnum sem vann fyrir hæstv. ráðherra að skýrslunni fyrir þessar vinnustofur, samráð og starfshópa og hvetja hæstv. ráðherra til að halda áfram að taka nýsköpunina föstum tökum eins og hún hefur gert hingað til.



[16:53]
ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir mjög góðar umræður um þessa stefnu og ramma aðeins inn það sem er í mínum huga kjarni máls, sem er að klasasamstarf gengur út á að skapa tengslanet og samstarf fyrirtækja í viðskiptalífinu sem byggist á mannauði, tækni, fjármagni og þekkingu. Það er einfaldlega verkfæri. Við erum ekki með einhverja nýja uppfinningu. Við erum ekki að taka afstöðu til einhvers ákveðins geira. Þetta er verkfæri til að sækja fram. Þetta er viðurkennt verkfæri sem liggur fyrir að virkar mjög vel og þetta snýst í grunninn um samstarf. Auðvitað eru til margar útgáfur af því. Svokallaður ofurklasi inniheldur í raun allt í senn; einkageirann, háskólasamfélagið, stjórnvöld, frumkvöðla og fjármagnið eða fjárfesta. Svoleiðis blanda er ofboðslega sterk til að sækja fram.

Við erum í samtali við Samtök verslunar og þjónustu og VR sem hafa unnið saman að möguleika á klasa til að taka á þeim breytingum sem eru fram undan þegar kemur að stafrænni umbreytingu sem mun hafa mikil áhrif á marga hópa. Þar er spurning hvernig stjórnvöld geta stutt við það. Við erum með fjöldann allan af aðgerðum sem við höfum farið í, eru í vinnslu og eru á dagskrá, sem hanga saman við það sem fram kemur í þessari klasastefnu. Það kom fram áðan að við værum lítið að gera í uppbyggingu stafrænna smiðja. Það er svo sannarlega ekki rétt af því að við erum að gera samninga mjög víða og það tengist einmitt mikið svæðisbundnu klasasamstarfi sem er að spretta upp úti um allt land. Farið er yfir þessi dæmi um klasasamstarf svæðisbundið og einmitt líka taldir upp klasar sem eru nú þegar til.

Það þurfti að sannfæra mig aðeins um að ríkið hefði svona miklu hlutverki að gegna í að móta klasastefnu og við hv. þm. Willum Þór Þórsson áttum samtal um það. En það er kannski líka vegna þess að maður finnur hve margir stjórnmálamenn fara langt í því að þetta standi og falli með ríkinu, af því að það er ekki heldur rétt. Klasasamstarf og uppbygging á því stendur ekki og fellur með því hvað ríkið tekur mikinn þátt en ríkið hefur vissulega hlutverki að gegna. (Forseti hringir.) En það gengur ekki að þetta verði allt saman ríkisrekið heldur hefur reynslan sýnt að forsendur árangurs í klasasamstarfi eru drifkraftur og skuldbinding einkageirans. (Forseti hringir.) Í grunninn snýst þetta um samstarf. Þessi stefna er að mínu mati alveg skýr en það er svo sannarlega verk að vinna eins og kemur fram í stefnunni.