151. löggjafarþing — 65. fundur
 11. mars 2021.
Neytendastofa o.fl., 2. umræða.
stjfrv., 344. mál (stjórnsýsla neytendamála). — Þskj. 418, nál. m. brtt. 999, nál. 1006.

[17:44]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum. Eins og fram kemur í nefndarálitinu fékk nefndin bæði gesti og umsagnir frá ýmsum aðilum. Með frumvarpinu er lagt til að stjórnsýsluverkefni á sviði vöruöryggismála, opinberrar markaðsgæslu og mælifræði verði færð frá Neytendastofu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og verkefni á sviði rafrænnar auðkenningar og traustþjónustu verði færð til Póst- og fjarskiptastofnunar.

Meiri hlutinn bendir hins vegar á að aukin verkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar gefi a.m.k. tilefni til þess að endurskoða nafn hennar.

Í umfjöllun nefndarinnar kemur fram að stefnt sé að því að stjórnarmálefnið rafræn auðkenning og traustþjónusta fyrir rafræn viðskipti verði fært til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins samhliða færslu verkefnanna. Þá kemur fram í minnisblaði frá ráðuneytinu að umhverfis- og samgöngunefnd hefur til umfjöllunar frumvarp til laga um Fjarskiptastofu, 506. mál, sem ætlað er að leysa af hólmi lög um Póst- og fjarskiptastofnun. Meiri hlutinn vekur athygli umhverfis- og samgöngunefndar á breyttu verksviði stofnunarinnar og telur æskilegt að umfjöllun um hvernig verkefnasvið hennar er tilgreint í lögunum fari fram innan þeirrar nefndar.

Við tilfærslu verkefna á Neytendastofa samkvæmt frumvarpinu nær eingöngu að sinna eftirlitsverkefnum á sviði neytendaréttar. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að fenginn hafi verið utanaðkomandi ráðgjafi til þess að annast sviðsmyndagreiningu fyrir verkefni á neytendaréttarsviði stofnunarinnar. Stefnt sé að heildstæðri endurskipulagningu á verkefnum þegar greiningin liggur fyrir. Framtíðarsýn fyrir skipulag stofnana og verkefna á sviði neytendaréttar er enn óljós. Brýnt er að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið nýti þann tíma sem gefst fram að gildistöku laganna til að setja fram skýrari línur í þessum efnum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við mótun stofnanaumgjarðar mála á sviði neytendaréttar sé lögð áhersla á hagkvæmni, aukin gæði og skilvirkni í þágu atvinnulífsins og neytenda.

Herra forseti. Í frumvarpinu er lagt til að lögin öðlist gildi 1. apríl næstkomandi. Ljóst er að undirbúningur að tilfærslu verkefna milli stofnana mun hins vegar taka lengri tíma. Meiri hlutinn leggur því til að gildistöku verði frestað til 1. október 2021. Aðrar breytingartillögur sem lagðar eru til eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögum sem fylgja nefndarálitinu. Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn, sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Jón Steindór Valdimarsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Þórarinn Ingi Pétursson.



[17:48]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Með þessu frumvarpi er verið að færa verkefni frá Neytendastofu yfir á aðrar stofnanir. Í greinargerð með frumvarpinu er ýjað að því að síðan eigi að leggja Neytendastofu niður, enda verður Neytendastofa ansi lítil stofnun eftir þessar breytingar. Með leyfi forseta stendur í greinargerðinni með frumvarpinu:

„Ekki er gert ráð fyrir að Neytendastofa verði lögð niður heldur að Neytendastofa sinni enn um sinn verkefnum á sviði neytendaréttar.“

Síðan er talað um að endurskoða eigi á þessu ári ýmis verkefni þessu tengd.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki tekið undir það með mér að það sé ekki mikil tillitssemi gagnvart starfsfólki Neytendastofu að boða í greinargerð með frumvarpi að leggja eigi störfin þeirra niður. Er hv. þingmaður ekki sammála því að þegar færa á stór verkefni á milli stofnana eða sameina stofnanir þá skipti mjög miklu máli þessi mannlegi þáttur og hvernig unnið er með starfsmönnunum að breytingunum? Hvað vill hv. þingmaður segja um það að hæstv. ráðherra neytendamála sendi starfsmönnum Neytendastofu slík skilaboð um störf þeirra og framtíð í gegnum greinargerð með frumvarpinu?



[17:50]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að almennt talað, og það snýr ekki að Neytendastofu sérstaklega, þegar verið er að endurskipuleggja stofnanir ríkisins með það að markmiði að ná fram aukinni hagræðingu og efla þær, ekki síst til að veita annars vegar neytendum eða einstaklingum og hins vegar fyrirtækjum betri og skilvirkari þjónustu, eigi auðvitað að gæta að því að ekki sé gengið þannig fram að það valdi óþarfa óvissu hjá starfsmönnum. Hins vegar liggur það fyrir og er alveg skýrt að unnið er að endurskipulagningu þeirra mála á sviði neytendaréttar sem eftir eru hjá Neytendastofu. Meiri hluti nefndarinnar hvetur til þess að unnið sé hratt og vel að þeirri endurskipulagningu. Nú vitum við ekki hver niðurstaðan verður í þeim efnum. Það getur verið að skynsamlegast og best sé að neytendaréttur sameinist undir t.d. Samkeppniseftirlitið, án þess að ég sé að boða það með neinum hætti, eða að Neytendastofa haldi áfram. En það hlýtur að vera skynsamlegt að menn skoði rekstur stofnana ríkisins með það í huga að ná fram aukinni hagræðingu. Það er auðvitað bara hluti af eilífðarverkefninu. Ég bendi líka á að Neytendastofa sjálf segir í umsögn til nefndarinnar (Forseti hringir.) að stofnunin mótmæli því ekki að gott sé að endurskoða með reglubundnum hætti stjórnsýslu stofnana (Forseti hringir.) sem fara með framfylgd laga og eftirlit hér á landi.



[17:53]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held ekki að nokkur einasti maður mótmæli því að sjálfsagt sé að fara yfir fjársýslu stofnana. Hins vegar finnst mér niðurstaðan og undirbúningur þessa frumvarps algerlega óásættanlegur, satt að segja. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að áður en farið sé út í svona breytingar hefði verið skynsamlegra að setja niður stefnumörkun fyrir málefni neytenda sem kallað hefur verið eftir mjög lengi. Hér er m.a. þingmál sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er fyrsti flutningsmaður að, og meðflutningsmenn með henni eru úr öllum flokkum, þar sem einmitt er rætt um slíkt. Neytendasamtökin hafa áhyggjur af því að áherslur stofnunar með eins stór og ólík verkefni og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun hafa eftir þessa breytingu verði ómarkvissar og lítil samlegðaráhrif af þeim, þ.e. þessum ólíku verkefnum. Ekkert bendi til þess að sérþekking á öryggi neytendavara og þjónustu eflist og verkefnamiðaðri samlegð náist með því að færa t.d. öryggi leikfanga, reiðhjóla og snuða frá Neytendastofu, eða þá rafretta eins og lagt er til.

Getur hv. þingmaður tekið undir með mér og Neytendasamtökunum um að frekar erfitt sé að sjá samlegðaráhrifin sem þarna eiga að nást? Þau eru a.m.k. ekki augljós. Og hvað vill hv. þingmaður segja um skort á stefnumörkun sem undirbyggir þessar breytingar?



[17:55]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er endalaust hægt að deila um hvernig hlutum sé best fyrir komið. Ég er algerlega sannfærður um að þær breytingar sem verið er að gera hér séu til hins betra og t.d. sé skynsamlegt að færa stjórnsýsluverkefni á sviði mælifræði vöruöryggismála og opinberrar markaðsgæslu til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, það falli mjög vel að starfsemi þeirrar stofnunar og verði til þess að efla hana. Það sama á við um traustþjónustu og rafræna auðkenningu. Auðvitað er eðlilegra að það sé hjá Póst- og fjarskiptastofnun. Þar er verið að fara í gegnum lagaleg atriði hjá umhverfis- og samgöngunefnd eins og ég nefndi áðan. Það er alveg ljóst að þegar unnið er að því að endurskipuleggja stofnanir koma ýmis ólík sjónarmið upp. Hlutverk okkar hér er að taka síðan ákvörðun á grundvelli þeirra sjónarmiða. Ég segi: Ég er sannfærður um að við séum að gera rétt. Ég hefði kannski viljað sjá að sú vinna sem er í gangi væri komin lengra en ég held samt sem áður að þetta séu skynsamleg skref. Hér er verið að taka skref eitt sem er að færa ákveðin verkefni sem augljóslega eiga fremur heima hjá tveimur öðrum stofnunum (Forseti hringir.) og þau munu styrkjast. Síðan móta menn stefnuna út frá því og þar með (Forseti hringir.) framtíð Neytendastofu.



[17:57]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum, frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, en 1. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar er sú sem hér stendur og er fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni.

Fyrsti minni hluti furðar sig á því að ráðherra neytendamála leggi fram þær breytingar sem frumvarpið kveður á um án þess að farið hafi verið í heildarstefnumótun fyrir málefni neytenda. Málefni neytenda hér á landi hafa liðið fyrir hringlandahátt og skort á framtíðarsýn líkt og Neytendasamtökin benda á í umsögn sinni um frumvarpið.

Frumvarpið ber þess merki að vera ekki vel undirbúið. Engin vönduð rannsókn eða greining hefur farið fram á tilhögun neytendamála hér á landi og ekki liggur fyrir hvaða fyrirkomulag sé best til framtíðar. Engin óháð úttekt hefur farið fram á starfsemi Neytendastofu eða flutningi verkefna frá stofnuninni.

Önnur norræn ríki hafa öfluga neytendavernd og mættu stjórnvöld líta til reynslu þeirra og skoða vel kosti og galla þess að setja á fót embætti umboðsmanns neytenda sem hefði ríkar valdheimildir. Neytendaréttarsvið gæti heyrt undir slíkt embætti svo dæmi sé tekið. Neytendamál eru mjög mikilvæg og brýnt að þeim sé búinn skýr rammi til framtíðar. Órökstuddar breytingar eru málaflokknum síst til framdráttar.

Leiðbeiningar fjármála- og efnahagsráðuneytisins um sameiningu ríkisstofnana sem einnig eiga við um flutning verkefna á milli stofnana hafa verið hunsaðar við samningu frumvarpsins. Í leiðbeiningunum kemur meðal annars fram að hlutaðeigandi ráðuneyti þurfi að gæta þess að breytingin sé vel undirbúin. Fyrsta skrefið sé að fela hópi manna að gera frumathugun áður en ákvörðun sé tekin. Vinnan felist einkum í því að fjalla um stöðuna, móta framtíðarsýn, setja skýr markmið með breytingunni, velja viðmiðanir, skoða valkosti, greina hindranir og fjalla um álitamál. Tilfærslu á verkefnum á milli stofnana fylgi yfirleitt bæði kostir og gallar sem ætti að vega og meta með tilliti til annarra valkosta. Ekki eigi að breyta breytinganna vegna heldur sem leið til að ná öðrum markmiðum.

Höfuðmarkmið frumvarpsins virðist vera að fækka ríkisstofnunum. Það getur verið ágætt markmið í sjálfu sér ef með tilfærslu verkefna fengist faglegur ávinningur og betri þjónusta eða fjárhagslegur ávinningur án þess að fagleg sjónarmið og hagur almennings sé fyrir borð borinn.

Í leiðbeiningum fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur einnig fram að mikilvægt sé að ráðuneyti hrindi ákvörðun um breytingar strax í framkvæmd til að eyða óvissu og gæta þurfi sérstaklega að mannlega þættinum. Alltaf megi búast við að skoðanir verði skiptar um breytingarnar og fólk sjái bæði ógnir og tækifæri í þeim. Til þess að auka samstöðu starfsfólks er því afar mikilvægt að vekja sem mestan áhuga á framtíðarsýninni og markmiðunum sem stefnt er að.

Fyrsti minni hluti telur ljóst að ráðherra neytendamála hafi ekki kynnt sér leiðbeiningar fjármála- og efnahagsráðuneytisins áður en mælt var fyrir frumvarpinu, því alls ekki er gætt að starfsmönnum Neytendastofu og með greinargerð frumvarpsins er ýtt undir óvissu um framtíð stofnunarinnar.

Í greinargerð frumvarpsins stendur á bls. 8: „Í stað einnar miðlægrar ríkisstofnunar sem fari með verkefni er varði hagsmuni neytenda með einum eða öðrum hætti er stefnt að því að færa verkefnin til annarra viðeigandi stofnana. Markmið endurskoðunarinnar er að fækka ríkisstofnunum og auka skilvirkni og hagkvæmni eftirlits í þágu atvinnulífs og neytenda.“ Á bls. 10 í greinargerðinni segir: „Ekki er gert ráð fyrir að Neytendastofa verði lögð niður heldur að Neytendastofa sinni enn um sinn verkefnum á sviði neytendaréttar. Neytendastofa getur þannig óskipt sinnt eftirliti með hinni eiginlegu neytendaréttarlöggjöf í samræmi við nýlegar breytingar á eftirliti stofnunarinnar með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, nr. 21/2020. Unnið er að endurskipulagningu þeirra verkefna með hugsanlegri tilfærslu þeirra til annarrar stofnunar árið 2021.“ Þetta þýðir að Neytendastofa verður afar lítil stofnun. — Auk þess hafa starfsmenn sem eftir verða fengið þau skilaboð að þeir muni ekki halda vinnunni sinni því að endurskoða á þetta allt saman. Það er mjög ámælisvert, herra forseti, af hæstv. ráðherra að senda starfsmönnum þennan tón og þessi skilaboð í gegnum greinargerð með frumvarpi.

Verði frumvarpið samþykkt munu öll verkefni Neytendastofu sem ekki heyra beint undir neytendaréttarsvið verða flutt annað. Verkefnum er skipað undir stofnanir sem sinna ólíkum verkefnum. 1. minni hluti tekur undir áhyggjur Neytendasamtakanna sem snúa að því að áherslur til að mynda Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði ómarkvissar, verkefnin stór og ólík og lítil samlegð með þeim. Í umsögn Neytendasamtakanna segir um þetta: „Þannig þekkja Neytendasamtökin ekki til stofnana í öðrum löndum sem bæði veita húsnæðislán og hafa umsjón með framkvæmd löggildingareftirlits með mælitækjum fyrirtækja. Þá er ákveðin hætta á að neytendamálin tvístrist um kerfið með þeim breytingum sem hér er verið að leggja til.“

Fyrsti minni hluti gagnrýnir harðlega að heildarstefnumörkun með skýrri framtíðarsýn hafi ekki farið fram áður en þau skref eru tekin sem frumvarpið boðar. Það er ekkert annað en slæm framkoma við starfsfólk Neytendastofu að ýta undir óvissu um starfsumhverfi og starfsöryggi starfsfólksins með skilaboðum sem ráðherra málaflokksins sendir þeim í gegnum greinargerð með frumvarpi.

Fyrsti minni hluti leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar sem setji strax í gang vinnu við vandaða stefnumótun í málefnum neytenda.

Herra forseti. Málefni neytenda hafa ævinlega verið framarlega á forgangslista jafnaðarmanna og við getum illa sætt okkur við þau forkastanlegu vinnubrögð sem sýnd eru með þessum breytingum og flutningum á verkefnum frá Neytendastofu sem eru sannarlega illa ígrunduð. Við erum ekki á móti því að stjórnsýsla sé skoðuð og að ríkisstofnunum sé fækkað ef ávinningur er augljós, bæði faglegur og fyrir hag almennings, fjárhagslegur mætti fylgja líka. En við vitum ekki til hvers þessar breytingar munu leiða. Það er hringlandaháttur í gangi í málefnum neytenda. Setja þarf skýra stefnu í þessum málaflokki og fyrr en það hefur verið gert skulum við ekki fara að krukka með ómarkvissum hætti og henda verkefnum fram og til baka inn í stofnanir þar sem verkefni eru afar ólík og samlegðaráhrif nánast engin í sumum tilfellum.

Hæstv. forseti. Best er að vísa málinu frá og þess vegna leggjum við í Samfylkingunni það til.