151. löggjafarþing — 67. fundur
 16. mars 2021.
bólusetningarvottorð á landamærum.

[13:26]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Nýlega var upplýst að stjórnvöld hefðu óskað álits ráðherraráðs Evrópusambandsins um að við opnuðum ytri landamæri Íslands og færðum þau þá í raun héðan og til meginlands Evrópu. Samkvæmt fréttum tók ráðherraráðið neikvætt í þá málaleitan íslenskra stjórnvalda. Í hádeginu í dag bárust fréttir um að stjórnvöld hér ætli að ganga frá reglugerðum í þessari viku sem leyfa Bandaríkjamönnum og Bretum sem hafa verið bólusettir að koma til landsins, hafi þeir framvísað vottorði frá heimalandinu um bólusetningu. Af þessu tilefni, þessum nýju fréttum, óska ég eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra skýri þetta örlítið út fyrir okkur, svona í samhengi við fyrri fréttir um afstöðu ráðherraráðs Evrópusambandsins, hvort þarna sé raunverulega verið að færa ytri landamæri Schengen út fyrir Ísland og hvort þeir ferðamenn sem hingað koma og er leyft að stíga hér á land þurfi þá að gangast undir sérstakt landamæraeftirlit ef þeir hyggjast halda áfram ferð sinni til Evrópu, sem ég held að hljóti að vera.

Einnig vil ég spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort þetta hafi verið gert í samráði og með samþykki ráðherraráðsins. Fréttir bera með sér að ráðið hafi verið andsnúið þessu í upphafi, mér leikur forvitni á að vita þetta.

Ég vil einnig spyrja hvort komi til greina í þessu sambandi, fyrst verið er að veita heimild fyrir ferðamenn frá Bretlandi og Bandaríkjunum, að víkka það út og taka einnig við ferðamönnum sem framvísa sambærilegum vottorðum frá öðrum löndum eins og Kanada eða Kína. Mér leikur forvitni á að vita það.



[13:28]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Fyrst til að skýra það betur þá var ákvörðunin sem var tekin í ríkisstjórn í dag sú að samþykkja bóluefnavottorð eða mótefnamælingar sem eru samþykktar af Evrópsku lyfjastofnuninni og það á þá við um öll lönd utan Schengen. Við tókum sérstaklega dæmi um þau lönd sem eiga flestu ferðamennina sem koma hingað til lands, þ.e. Bretland og Bandaríkin. Þessar breytingar hafa kannski mestu áhrifin gagnvart þeim. En það er alveg ljóst að Kanada og öll önnur lönd munu falla þarna undir. Þetta eru þau bóluefni sem samþykkt hafa verið af Lyfjastofnun Evrópu og þeir ferðamenn munu þá verða undanskildir öllum sóttvarnaráðstöfunum á landamærunum eins og þeir eru sem koma hingað frá löndum innan Evrópu með sams konar vottorð.

Hv. þingmaður spyr um muninn á þessu og fyrri beiðni. Munurinn er auðvitað gríðarlega mikill af því að þá voru ekki komin bóluefni og þessar ráðstafanir Schengen voru settar á til þess að vernda Schengen-svæðið gegn smitum utan svæðisins. Hversu vel sem fólki kann að hafa fundist það virka þá voru þessar ráðstafanir settar sérstaklega á vegna þess. Ég tel það því ekki málefnaleg rök fyrir því að ganga það langt að fólk sem er með bóluefni við þeim sjúkdómi sem verið er að verja ytri landamæri Schengen gegn hafi ekki kost á að koma hingað til lands.

Með því að heilbrigðisráðherra breyti reglugerð hjá sér og viðurkenni þessi vottorð, sem eru sams konar og um sömu bóluefni að ræða og eru notuð í Evrópu, sem og með því að breyta því að bann við tilefnislausum ferðum frá löndum utan Schengen muni ekki gilda um þá sem eru með mótefni eða sams konar bólusetningarvottorð utan Schengen, erum við að stíga mjög mikilvægt skref og stjórnvöld að hvetja fólk til að þiggja bóluefni með því að segja að við tökum mark á þeim og þeim vottorðum.



[13:30]
Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar svar. Ég ætla einnig að ítreka þetta varðandi Evrópu: Eru þessir ferðamenn frjálsir för sinni til Evrópu þrátt fyrir afstöðu ráðherraráðs Evrópuráðsins? Er það rétt skilið hjá mér að þeir komist inn á Schengen um leið og þeir koma hingað eða er það í andstöðu við álit ráðherraráðsins? Hefur eitthvað breyst í því sambandi? Einnig vil ég spyrja um bóluefnin. Verður það þannig, hæstv. ráðherra, að þeim sem koma hugsanlega frá Kanada eða Kína með vottorð um að þeir hafi þegið annað bóluefni sem ekki er samþykkt í Evrópu, eins og t.d. Sputnik V sem enn hefur ekki fengið samþykkt Lyfjastofnunar Evrópu, verði meinað að koma hér inn? Er það rétt skilið? Verður ferðamönnum sem hafa fengið bóluefni sem ekki hafa fengist samþykkt snúið við á landamærunum?



[13:31]
dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Önnur lönd hafa gert sérstakar undanþágur, eins og Kýpur gagnvart Ísraelum og fleiri. Flest lönd, þar á meðal öll Norðurlöndin, eru núna með landamæraeftirlit á innri landamærum sínum. Það er auðvitað þeirra að ákveða hvað þau gera við þá ferðamenn sem til þeirra leita frá löndum utan Schengen og eru bólusettir. Við erum sem þjóð að taka þá ákvörðun að hingað séu velkomnir aðilar með bólusetningarvottorð alls staðar að, með þeim bóluefnum sem viðurkennd eru af Lyfjastofnun Evrópu. Enn sem komið er munum við ekki samþykkja bólusetningarvottorð með öðrum bóluefnum. En maður býst við og bindur vonir við að fleiri bóluefni verði fljótlega samþykkt af Lyfjastofnun Evrópu. Ráðherraráðið var ekki sérstaklega upplýst um þessa ákvörðun enda tel ég hana ívilnandi fyrir þá aðila sem eru nú þegar bólusettir eða með mótefni og það stangist því ekki á við markmiðið með reglugerðinni sem snýst um bann við tilhæfulausum ferðum utan Schengen. Og ég tel þetta mikilvægt fyrir íslenskt samfélag, efnahagslíf og atvinnulíf.